Sjónvarpsviðtal um Evrópusambandið

Um daginn fór ég í viðtal í þættinum "Undir feldi" á sjónvarpsstöðinni ÍNN, um Evrópusambandið.  Viðtalið, sem er tæpur hálftími, má sjá með því að smella hér.

Í viðtalinu koma m.a. fram eftirfarandi punktar:

  • Ég byggi afstöðu mína til ESB einkum á því að sambandið sé lýðræðislegur vettvangur 27 þjóða til að taka á sameiginlegum viðfangsefnum.  Þessi viðfangsefni eru þess eðlis að þau ná þvert yfir landamæri.  Dæmi um þetta eru vinnumarkaður og vinnuvernd, fjármálamarkaðir, umhverfismál, loftslagsmál, löggæslumál og svo mætti áfram telja.
  • Í dag er aðkoma Íslands að sameiginlegum ákvörðunum Evrópuþjóða nánast engin.  Með aðild hefðum við hins vegar sæti við borðið þar sem reglugerðir og tilskipanir eru samdar og þeim breytt.  Ísland hefði áhrif langt umfram fólksfjölda, m.a. einn fulltrúa af 28 í ráðherraráði ESB og neitunarvald gagnvart breytingum á stofnsáttmálum sambandsins.
  • Samstarf þjóðanna gengur ekki út á það að taka auðlindir af einni og færa þær annarri. Um slíkt eru engin dæmi og það mun aldrei gerast.  Fiskistofnar hafa þá sérstöðu að vera "færanleg auðlind" sem flakkar milli efnahagslögsaga.  Þess vegna er rekin sameiginleg sjávarútvegsstefna í ESB með sjálfbæra stjórnun fiskveiða að markmiði. Ég tel enga ástæðu til annars en að unnt verði að semja um að Íslendingar fari áfram með sjálfbæra stjórnun og nýtingu eigin fiskistofna.
  • Stærsta breytingin fyrir okkur við inngöngu í ESB verður á sviði landbúnaðar.  Þá verður í grundvallaratriðum að hverfa frá því að styrkja framleiðslu landbúnaðarafurða með magntengdum styrkjum eða niðurgreiðslum.  (Undanþága er þó gerð fyrir svokallaðan heimskautalandbúnað sem ríkinu verður áfram heimilt að styrkja innan tiltekins ramma.)  Breytingar í þessa átt mun þó þurfa að gera óháð ESB vegna nýrra alþjóðlegra samninga á vegum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO). En í staðinn kemur öflugt stuðnings- og styrkjakerfi dreifðra byggða og sveita, sem hægt verður að sækja í til að styðja uppbyggingu og nýsköpun, t.d. á sviði ferðamennsku, samgöngubóta, umhverfismála, landbóta, varðveislu minja o.s.frv.  Þar eru ýmis tækifæri sem landbúnaðarkerfið og dreifbýlisfólk ætti að skoða með jákvæðum hætti.
  • Með aðild að ESB gengju Íslendingar til samstarfs við þær þjóðir sem standa okkur næst menningarlega og pólitískt.  Fullveldi okkar styrktist með aðkomu að mörgum þeim ákvörðunum sem stýra umhverfi okkar.  Mikilvægir praktískir kostir felast síðan í því að losna við krónuna, fá efnahagslegan stöðugleika, lægri vexti og afnám verðtryggingar.

Ég held að komandi kynslóðum sé gerður greiði með því að samþykkja aðild að Evrópusambandinu, og þótt fyrr hefði verið.


Samneyslan og hringekja hagkerfisins

Stundum er talað í umræðu eins og peningar sem eytt er í tiltekna vöru eða þjónustu hverfi þar með út úr hagkerfinu; eða í öðru formi, að peningar sem einhver fær í sinn hlut hljóti nettó að vera teknir af einhverjum öðrum.

Þetta er vitaskuld ekki rétt forsenda, eins og ljóst má vera af smá umhugsun. Skoðum sýnidæmi.

Um daginn fór að leka í kring um svalaglugga í húsinu mínu.  Ég hringdi í smið sem lagaði lekann snöfurmannlega og fékk borgað fyrir.  Daginn eftir fór smiðurinn til rakara og borgaði honum fyrir klippingu með peningunum sem hann fékk frá mér.  Rakarinn er áskrifandi að sýndarheimum EVE-Online og borgaði áskriftina sína með peningum smiðsins.  CCP, framleiðandi EVE-Online, greiddi mér svo þessa "sömu" peninga í stjórnarlaun um síðustu mánaðamót.  Þá eru peningarnir komnir í hring, en allir höfum við þrír - ég, smiðurinn og rakarinn - mætt eftirspurn og þörf hvers annars í hagkerfinu með framboði á vinnu okkar og þekkingu í hringekjunni.

Svona virkar raunhagkerfið allt.  Það hvort peningarnir eru fýsískt þeir sömu í gegn um ferlið skiptir ekki máli, og auðvitað eru hringekjurnar mjög margbrotnar og flóknar í nútíma þjóðfélagi.  En á endanum streyma peningarnir eins og blóð í æðum hagkerfisins - fara hring eftir hring, miðlandi vöru, þjónustu og vinnu frá þeim sem vilja selja til þeirra sem vilja kaupa.

Með sömu röksemdafærslu er ljóst að peningar sem beint er í samneyslu í gegn um skatta eru ekki þar með "tapaðir" úr hagkerfinu.   Kennarar, læknar og lögreglukonur fá sín laun en verja þeim aftur til að kaupa vöru og þjónustu annars staðar frá.  Áhrif skattakerfisins og samneyslunnar eru þau að þörf og eftirspurn á sviði menntunar, heilsugæslu og löggæslu er mætt fremur en annarri þörf og eftirspurn sem þetta sama fólk hefði unnið við að mæta að öðrum kosti. Með öðrum orðum er um að ræða (þvingaða) forgangsröðun veittrar þjónustu í samfélaginu.  Nettó "kostnaður" af þeirri forgangsröðun er aðeins nytsemismunurinn á samneysluþjónustunni annars vegar og þeirri þjónustu sem sama fólk hefði veitt hagkerfinu að öðrum kosti - í frjálsri einkaneyslu - hins vegar.  Og mat margra er að sá nytsemismunur sé heilt yfir jákvæður samneysluþjónustunni í hag, ekki neikvæður eins og ætla mætti.

Að nota kosti markaðshagkerfisins, en forgangsraða nauðsynlegri samfélagsþjónustu innan þess, er kjarni hugmyndafræði sósíaldemókrata.  Skynsamlegt?  Það finnst mér.


Stjórnarskrá fólksins

Eftir því sem atburðum vindur fram, og því meir sem ég hugsa málið, geri ég mér æ betur grein fyrir því hvað stjórnlagaþingið er göfug og stór hugmynd.

Nú er ég vitaskuld hlutdrægur og vanhæfur og allt það sem einn þeirra sem fékk kjörbréf upp á vasann sem fulltrúi á stjórnlagaþingi, nú ógiltur.  En álit mitt á hugmyndinni er óháð þeirri staðreynd.

Það er eitthvað gott og fagurt - og hugrakkt - við það að þora að kjósa fulltrúa í almennu persónukjöri, fjölbreyttan hóp víðsvegar að úr samfélaginu, til að gera tillögu að nýrri stjórnarskrá.  Það rímar við skilgreiningu á lýðræði, að valdið komi frá fólkinu og sé fyrir fólkið.  Að fólk setji sér sjálft leikreglur samfélagsins sem það vill búa í.

Í kosningunni 27. nóvember sl. tókst að mörgu leyti vel til. Margir vildu bjóða sig fram og úrval frambjóðenda var mikið. Kosningabaráttan var hófstillt, kurteisleg og laus við árásir og meiðingar.  Hópurinn sem kjörinn var kom því ósár til leiks og með góðan hug til uppbyggilegs samstarfs.

Þar völdust saman: nákvæmi og skipulagði embættismaðurinn, ungi óþekkti stjórnmálafræðingurinn sem eyddi ævisparnaðinum í það brennheita áhugamál að taka þátt í stjórnlagaþingi, rótttæki geðlæknirinn, sóknarpresturinn, þjóðfélagsrýnirinn og blaðamaðurinn, skeptíski stærðfræðingurinn, fjölmiðlakonan og listfræðineminn, guðfræðingurinn, stjórnmálafræðidósentinn, hjúkrunarfræðingurinn, bændafrömuðurinn, baráttukonan fyrir mannréttindum fatlaðra, íslenskumaðurinn, neytendafrömuðurinn, verkalýðsforkólfurinn, heimilislæknirinn, ungi hugsjónalögfræðingurinn, kvikmyndagerðarmaðurinn, útvarpsmaðurinn, siðfræðingurinn, lífsreyndi femínistinn og leikstjórinn, hagfræðiprófessorinn, tæknikratinn (ég) og svo auðvitað þjóðargersemin Ómar sem er með öllu óflokkanlegur.

Þó ég segi sjálfur frá, þá finnst mér þetta flottur hópur til að semja stjórnarskrá einnar þjóðar.  Og sú hugmynd að svona hópur taki að sér verkefnið í umboði þjóðarinnar finnst mér sem sagt bæði góð og falleg.

Nú veit ég að ýmsum þykir þetta aftur á móti alveg snargalið dæmi frá A-Ö.  Eftir því sem ég hef skynjað virðist andstaðan mikil í hópi lögfræðinga, meiri í hópi hægrisinnaðra lögfræðinga og allra mest í hópi hægrisinnaðra lögfræðinga sem hafa einhvern tíma starfað á lögfræðistofu með Jóni Steinari Gunnlaugssyni.

En, náðarsamlegast: það er bara ekki þannig að lögfræðingar séu best til þess fallnir að semja stjórnarskrá.  Sú ágæta stétt á vissulega að koma að verkefninu með sérfræðiráðgjöf og vera stjórnlagaþingi innan handar í starfi.  En stjórnarskráin er fólksins.  Hana á að vinna í umboði þjóðarinnar og endurspegla þverskurð hennar, skoðanir, óskir, vonir og þrár um betra samfélag. Það er ekki galin hugmynd, heldur þvert á móti birting lýðræðisins í sinni tæru og réttu mynd.


Hæstiréttur og stjórnlagaþing

Úrskurður Hæstaréttar um að ógilda kosningu til stjórnlagaþings kom mér verulega á óvart.  Ég reiknaði með að rétturinn gerði athugasemdir við einstök framkvæmdaatriði en kom ekki til hugar að "fræðilegir" ágallar á kosningunni gætu orðið til þess að ógilda hana með öllu.  Ég hefði haldið að til svo róttæks meðals yrði ekki gripið nema að einhver þau atvik hefðu raunverulega orðið sem vörpuðu vafa á niðurstöðuna.  Skoðum þau atriði sem Hæstiréttur telur hafa verið annmörkum háð.

Kjörseðlar voru númeraðir í hlaupandi röð. Sá sem hefði aðgang að gögnum úr kjördeildum og að seðlunum sjálfum gæti fræðilega tengt saman kjósanda og atkvæðaseðil hans.  Engin vísbending er hins vegar um að slíkt hafi verið gert og að sjálfsögðu hefur þetta atriði engin hugsanleg áhrif á niðurstöðu kosninganna.

Kjörklefar ófullnægjandi.  Pappaskilrúm eins og notuð voru hér eru víða í notkun erlendis.  Enginn kvartaði á kjörfundi yfir því að sér væri ómögulegt að gæta leyndar vegna þessa.

Ekki mátti brjóta saman kjörseðil. Í lögum um Alþingiskosningar segir að kjósandi skuli skila kjörseðli í sama broti og hann tók við honum.  Enginn kvartaði á kjörfundi yfir því að hafa verið beðinn að skila óbrotnum kjörseðli í kassa.

Kjörkassar ekki læstir. Kassarnir voru hins vegar innsiglaðir með þeim hætti að það hefði sést ef þeir hefðu verið opnaðir áður en þeir komu á talningarstað.  Engin tilkynning hefur borist um slíkt atvik.

Fulltrúar frambjóðenda ekki viðstaddir talningu. Ég veit um a.m.k. tvo frambjóðendur sem heimsóttu Laugardalshöll meðan á talningu stóð til að fylgjast með.  Þeir leituðu ekki eftir því að vera inni í sjálfum talningarsalnum og það reyndi aldrei á hvort slíkri beiðni hefði verið neitað ef hún hefði komið fram.  Erlendur sérfræðingur og ráðgjafi, dr. James Gilmour, fylgdist hins vegar með framkvæmd kosningarinnar og talningu og skilaði skýrslu þar sem hann lauk sérstöku lofsorði á framkvæmdina.

Að virtu öllu ofangreindu finnst mér að það hefði verið í anda meðalhófsreglunnar að Hæstiréttur hefði fundið að framkvæmd kosningarinnar, en ekki gengið svo langt að ógilda hana.  Enda eru engin áþreifanleg tilvik fram komin sem hægt er að segja að varpi vafa á niðurstöðuna, þ.e. birtingu lýðræðislegs vilja almennings.

Stjórnlagaþing fékk verkefni sitt í hendur frá Alþingi og átti að skila niðurstöðu sinni til Alþingis.  Ég tel það því vera færa leið í stöðunni að Alþingi tilnefni þá 25 einstaklinga, sem fengu kjörbréf sem stjórnlagaþingfulltrúar, til þess að taka að sér það verkefni óbreytt að semja nýja stjórnarskrá fyrir lýðveldið Ísland.  Að öðrum kosti þarf að kjósa aftur, og ég er reiðubúinn í það ef þarf.  En stjórnlagaþing verður að halda, svo mikið er víst.


Orkustefna fyrir Ísland

Í gær voru gefin út drög að nýrri heildstæðri Orkustefnu fyrir Ísland, sem sækja má á vefinn orkustefna.is.  Almenningi gefst kostur á að senda inn umsagnir og gagnrýni til 9. febrúar, en þá verður stefnan formlega afhent iðnaðarráðherra.

Það var stýrihópur um heildstæða orkustefnu sem mótaði stefnuna, en í honum eru Bergur Sigurðsson, Brynhildur Davíðsdóttir, Guðrún Jóna Jónsdóttir, Guðni A. Jóhannesson, Gunnar Tryggvason, Salvör Jónsdóttir og blogghöfundur, sem er formaður.  Með hópnum starfar Helga Barðadóttir sérfræðingur í iðnaðarráðuneyti.

Í dag hefur meðal annars verið fjallað um stefnuna í Speglinum á Rás 1 og í kvöldfréttum RÚV.

Hér er ein mynd úr stefnuskjalinu sem segir meira en mörg orð.  Þarna eru teknar saman tölur um núverandi vinnslu raforku (í gígawattstundum á ári, GWh/a), hugsanlega raforkuvinnslu í framtíðinni miðað við mögulega virkjanakosti í fallvatni og jarðvarma, og hvert raforkan fer í dag.

Vinnanleg raforka (GWh/a)

Eins og sjá má er þegar búið að virkja þriðjung til helming vinnanlegrar raforku úr fallvatni og jarðvarma.  Af 17 TWh sem unnar eru á ári, fara sirka 3 til almenna markaðarins og 14 til stórnotenda (stóriðju).  Svo er það spurningin hvað við viljum gera við þá virkjanakosti sem eftir eru: meira af því sama, eða reyna að fá sem best verð þótt það kosti meiri þolinmæði?

Ég hvet alla sem áhuga hafa á orkumálum og á ráðstöfun orkuauðlindanna til að kynna sér stefnuna og senda inn umsögn.


Bloggannáll 2010

Lesendum þessa bloggs óska ég gleðilegs nýs árs og þakka góð skoðanaskipti á liðnum árum.  Flettingar á blogginu frá upphafi eru nú 324.034 og fjölgaði talsvert á nýliðnu ári.

Hér er annáll markverðra bloggfærslna ársins 2010:

5. janúar:  "Mér finnst ákvörðun forsetans [um Icesave] forkastanleg, óskiljanleg og illa ígrunduð."

10. janúar: "En það er of langt gengið að segja að það sé 'enginn lagagrundvöllur' fyrir útgreiðslu innistæðutryggingar til allra innistæðueigenda Landsbankans, innlendra sem erlendra."

19. janúar:  "Skuldastaðan hefur verið á svipuðu róli og jafnvel meiri allt frá árinu 2000 og var orðin mun neikvæðari fyrir hrun (yfir 120% árin 2006-7); hún hefur sem sagt batnað talsvert við hrunið - sem kemur sennilega mörgum á óvart."

20. janúar:  "Mikilvægast er að tryggja gott samstarf við og fá hjálp frá AGS og nágrannalöndum til að komast í gegn um skaflana sem framundan eru."

25. janúar: Stöð 2 gerði sjónvarpsfrétt úr bloggfærslu minni um erlendar skuldir og greiðslubyrði næstu ára.

21. febrúar:  "Framtíðin tilheyrir fyrirtækjum sem vinna sér inn og verðskulda traust viðskiptavina, starfsfólks, hluthafa og samfélags.  Það gera þau með því að vera siðleg, ábyrg, gegnsæ, og tileinka sér hugsunarhátt sjálfbærni; lifa í sátt við umhverfi sitt; skila ekki minna til baka en þau taka til sín."

21. mars: "Útkoman úr [AGS-áætluninni] er full fjármögnun gjaldeyrisstreymis 2009-2014, en eftir það verður ekki frekar gjaldeyrisvöntun samkvæmt líkaninu sem undir liggur."

24. mars: "Meðan það er ekki klárt að við ætlum að standa við skuldbindingar vegna innistæðutrygginga, þá fáum við engin lán frá Norðurlöndum og AGS-áætlunin bíður.  Og hagkerfið frýs á meðan.  Svo einfalt er það."

1. apríl: (Takið eftir dagsetningunni ;-) "Veik króna hjálpar okkur mikið þessa dagana.  Hún minnkar innflutning og eykur útflutning, t.d. lækna og hámenntaðs fólks sem við getum vel komist af án enda liggur framtíðin í frumframleiðslugreinum."

19. apríl: "[Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis] kemur að mörgu leyti á óvart.  Hún er efnismeiri, þéttari og afdráttarlausari en ég bjóst við fyrirfram, og subbuskapurinn í bönkunum jafnvel meiri en ég óttaðist. "

19. maí: "Það er nánast kraftaverk að hafa náð fram [annarri endurskoðun AGS-áætlunarinnar] án þess að gengið hafi verið frá samningum um Icesave, en reyndar eru gefin fyrirheit um fullan vilja til slíkra samninga í minnisblaði stjórnvalda til sjóðsins."

2. júní: "Leiðin fram á við hlýtur fremur að vera sú að fara í róttækar stjórnkerfisumbætur, þannig að kerfið sé betur í stakk búið til að eiga við flókið nútímaþjóðfélag, og því sé treystandi fyrir öryggi og velferð almennings."

8. júní: "[Ívilnanir vegna erlendra fjárfestinga] má aðeins veita á sérstökum atvinnuþróunarsvæðum, ívilinun má aðeins nema tilteknu hlutfalli af upphæð fjárfestingar og eftirlitsstofnanir ESB/EES, í okkar tilviki Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), fylgist með ferlinu og verður að staðfesta endanlegan samning."

19. júlí: "Varðandi jarðhita og grunnvatn er skýrt í lögum að eignarhald á slíkum auðlindum er óframseljanlegt úr höndum ríkis og sveitarfélaga."

9. ágúst: "Fiskur í sjónum hefur hins vegar þá sérstöðu að hann getur synt milli lögsaga [aðildarríkja ESB], og því er óhjákvæmilegt að stjórna nýtingu hans með sjálfbærum hætti í samkomulagi milli þjóða.  Sá er tilgangur sjávarútvegsstefnu ESB, ekki sá að ræna þjóðir auðlindum sínum."

12. ágúst: "Lissabon-sáttmálinn kveður ekki á um stofnun Evrópuhers eða um neins konar herskyldu [e: conscription to any military formation]."

29. ágúst: Skýringarmynd um eignarhald gömlu og nýju bankanna ásamt útskýringum á hlutverki skilanefnda og slitastjórna.

12. september: "Ein mikilvægasta endurbót á íslensku stjórnkerfi sem gera þarf er sú að velja ráðherra ríkisstjórnarinnar á grundvelli þekkingar, reynslu og hæfileika á hverju stjórnsýslusviði fyrir sig."

17. september: "Dómur Hæstaréttar frá í gær er að mínu mati Salomónsdómur.  Höfðustóll flestra myntkörfulána lækkar talsvert, skuldurum til hagsbóta, en þó ekki svo mikið að bankakerfið - og hagkerfið almennt - bíði verulegan skaða af."

29. september: "[Skýrt er] skv. ákvæðum stjórnarskrár að meirihluti Alþingis tekur ákvörðun um kæru til Landsdóms.  Slíkt gerist aldrei öðru vísi en með atkvæðagreiðslu þingmanna, sem kalla má pólitísk réttarhöld o.s.frv. ef menn vilja, en bókstafur stjórnarskrárinnar er eins og hann er. "

3. október: "Munurinn á þessu og skuldum einstaklinga, t.d. vegna húsnæðis, er sá að hluthafar bera ekki ábyrgð á skuldum félaga sem þeir eiga hluti í [...].  Húsnæðislán eru hins vegar, auk veðs í húsnæðinu sjálfu, einnig með fullnustuheimild í öðrum eignum skuldarans."

5. október: "Það er firra og bábilja að AGS sé mótfallinn úrræðum og aðgerðum fyrir skuldug heimili og fyrirtæki."

8. október (sem ég tel vera bestu bloggfærsluna mína á árinu 2010): "Rauðu kúlurnar standa fyrir alls kyns ákvarðanir og ráðstafanir sem mönnum gætu dottið í hug, og eru vissulega oft freistandi - sérstaklega á álagstímum.  En bitur reynsla og lærdómar aldanna og árþúsundanna hafa sýnt að slíkar 'rauðar' ákvarðanir eru ekki góðar; þær á ekki að taka og þær má ekki taka."

19. október: Nýjasta portrettmálverkið.

21. október: "Með því að greina betur milli ríkisstjórnar og þings verður þingið sjálfstæðara.  Það á að taka í auknum mæli að sér stefnumótun og aðhald."

31. október: "Eins og lesendur þessa bloggs hafa eflaust áttað sig á, þá er ég í framboði til stjórnlagaþings í kosningunum 27. nóvember nk."

8. nóvember: Úr sænsku stjórnarskránni: "Persónuleg, hagræn og menningarleg velferð einstaklingsins skal vera grunnmarkmið opinberrar starfsemi.  Sérstaklega skal það vera skylda hins opinbera að tryggja rétt til heilsu, atvinnu, húsnæðis og menntunar, og að vinna að félagslegri velferð og öryggi."

9. nóvember: "Gangi þér vel að kjósa í þessum sögulegu kosningum, og vonandi uppskerum við öflugt stjórnlagaþing og glæsilega nýja stjórnarskrá lýðveldisins Íslands."

15. nóvember: "Íslenskur stjórnarmeirihluti telur gjarnan 33-35 þingmenn eða svo.  Það er allt of lítill hópur til að velja úr 8-10 nægilega hæfa ráðherra í krefjandi verkefni; sérstaklega ef dreifa þarf ráðherratitlum á kjördæmi og jafnvel eftir öðrum ómálefnalegum sjónarmiðum."

21. nóvember: "En helsti lærdómurinn af starfi stjórnarskrárnefndarinnar er sá, að það þýðir ekki að fela stjórnmálaflokkunum að endurskoða stjórnarskrána."

23. nóvember: Tengill á frambjóðandakynningu mína á RÚV vegna stjórnlagaþings, 5 mínútna hljóðskrá.

24. nóvember: "Þó tel ég að til greina komi að sérstakur Auðlindasjóður fari með forsjá auðlindanna f.h. þjóðarinnar og stjórnvalda og innheimti afnotagjöld og hlutdeild í auðlindarentu skv. sérstökum lögum þar um."

Ég hlakka til lýðræðislegrar og gagnrýninnar rökræðu á nýju ári, 2011.

 


Auðlindir, náttúran og stjórnarskráin

Meðal stefnumála minna fyrir stjórnlagaþing er að eignarréttur þjóðarinnar á auðlindum lands og sjávar - sem ekki eru þegar í einkaeigu - verði staðfestur í stjórnarskrá, og að ég sé fylgjandi hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.  Hvað á ég við með þessu?

Umræða um eignarrétt á auðlindum og umgengni um náttúruna er ekki ný af nálinni í tengslum við stjórnarskrána.  Auðlindanefnd sem starfaði 1998-2000 undir forystu Jóhannesar Nordal lagði til að tekið yrði upp nýtt ákvæði í VII. kafla stjórnarskrárinnar, svohljóðandi:

Náttúruauðlindir og landsréttindi sem ekki eru háð einkaeignarrétti eru þjóðareign1) eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Handhafar löggjafar- og framkvæmdarvalds fara með forsjá, vörslu og ráðstöfunarrétt þessara auðlinda og réttinda í umboði þjóðarinnar.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi til einstaklinga eða lögaðila. Þó má veita þeim heimild til afnota eða hagnýtingar á þessum auðlindum og réttindum gegn gjaldi, að því tilskildu að hún sé tímabundin eða henni megi breyta með hæfilegum fyrirvara eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Slík heimild nýtur verndar sem óbein eignarréttindi.

Náttúruauðlindir og landsréttindi í þjóðareign ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt og á grundvelli sjálfbærrar þróunar og skal arði af þeim varið til þess að vernda auðlindirnar, rannsaka þær og viðhalda þeim, svo og til hagsældar fyrir þjóðina að öðru leyti.

Auðlindanefndin heldur svo áfram:

Lagt er til að um meðferð þessara náttúruauðlinda gildi eftirfarandi meginreglur:

  • Stjórnvöld fari með forsjá auðlindanna sem ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar.
  • Veita megi einstaklingum og lögaðilum heimild til að nýta þessar auðlindir, enda sé afnotaréttur ætíð tímabundinn eða uppsegjanlegur.
  • Lagt sé á afnotagjald til að standa undir kostnaði ríkisins af rannsóknum og eftirliti með nýtingu auðlindanna.
  • Þjóðin fái sýnilega hlutdeild í þeim umframarði (auðlindarentu) sem nýting auðlindanna skapar.

Fyrir kosningarnar í apríl 2009 var lagt fram á Alþingi frumvarp að breytingum á stjórnarskrá, sem kafnaði því miður í málþófi.  (Þar var m.a. kveðið á um að tillaga stjórnlagaþings að breyttri stjórnarskrá gæti farið beint í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu, án afskipta Alþingis.) Í frumvarpinu var eftirfarandi tillaga að orðalagi stjórnarskrárgreinar um náttúruauðlindir, sem byggð er á nálgun auðlindanefndar:

Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.

Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.

Allir eiga rétt til umhverfis sem stuðlar að heilbrigði og þar sem líffræðilegri fjölbreytni er viðhaldið eftir því sem nánar er ákveðið í lögum. Réttur almennings til upplýsinga um ástand umhverfis og áhrif framkvæmda á það, svo og kostur á þátttöku í undirbúningi ákvarðana sem áhrif hafa á umhverfið, skal tryggður með lögum.

Undir flest ofangreint get ég tekið, sérstaklega síðari tillöguna, sem mér finnst skýrari og skarpari en hin fyrri.  Þó tel ég að til greina komi að sérstakur Auðlindasjóður fari með forsjá auðlindanna f.h. þjóðarinnar og stjórnvalda og innheimti afnotagjöld og hlutdeild í auðlindarentu skv. sérstökum lögum þar um.

Varðandi náttúruvernd og umhverfismál má einnig líta til fyrirmynda í stjórnarskrám annarra landa. 20. gr. finnsku stjórnarskrárinnar segir til dæmis: "Náttúran og líffræðilegur fjölbreytileiki, umhverfið og þjóðararfurinn eru á allra ábyrgð.  Stjórnvöld skulu leitast við að tryggja öllum rétt til heilbrigðs umhverfis og að allir eigi möguleika á að hafa áhrif á ákvarðanir sem snerta lífsskilyrði þeirra."

Í svissnesku stjórnarskránni er ítarlegur kafli (nr. 4) um umhverfi og skipulagsmál, þar sem er m.a. fjallað um sjálfbæra þróun, verndun umhverfis, skipulagsvald, vatn, skóga, verndun náttúruminja og menningararfs, veiði og dýravernd.  Margt af því gæti verið til eftirbreytni.

Þessi málaflokkur er með þeim mikilvægari sem stjórnlagaþing mun ræða.  Ég hlakka til að takast á við verkefnið og vona að ég fái stuðning þinn til þess.

-----

1) Auðlindanefndin skilgreinir hugtakið "þjóðareignarréttur" í kafla 2.5.2 í skýrslu sinni.


Framboðsbæklingur, RÚV-kynning og fleira

Vegna framboðsins til stjórnlagaþings hef ég útbúið bækling með helstu stefnumálum mínum.  Hann má sækja á PDF-formi með því að smella hér.  Dreifing er öllum heimil og frjáls.

Eins og aðrir frambjóðendur heimsótti ég Ríkisútvarpið þar sem tekið var upp 5 mínútna viðtal um það hverju þarf að breyta í stjórnarskránni og af hverju ég gef kost á mér til verkefnisins.  Hlusta má á viðtalið með því að smella hér.

Loks er hér afar huggulegt póstkort með mynd af mér sem senda má til vina og kunningja til að minna á framboðið.

Þá sakar ekki að minna á framboðsvefinn www.vthorsteinsson.is og fésbókarsíðuna!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Úr fundargerðum stjórnarskrárnefndar

Á árunum 2005-2007 starfaði níu manna nefnd um endurskoðun stjórnarskrárinnar undir forystu Jóns Kristjánssonar.  Sú nefnd skilaði ágætri áfangaskýrslu í febrúar 2007, en málið sofnaði þar með.  Það er athyglisvert að nefndarmenn, sem voru flestir forystumenn stjórnmálaflokka, voru á einu máli um þörfina á endurskoðun stjórnarskrár - sem ætti að vera umhugsunarefni þeim sem tala nú um að engin þörf sé á slíku.

Í fundargerðum nefndarinnar kemur m.a. eftirfarandi fram:

Rætt var um uppbyggingu endurskoðaðrar stjórnarskrár. Voru ýmsir nefndarmenn því fylgjandi að ef uppröðun kafla yrði breytt þá yrði hún eitthvað á þann veg að í fyrsta kafla yrðu ákvæði um höfuðeinkenni þjóðskipulagsins, í öðrum kafla um grundvallarréttindi, í þriðja kafla um Alþingi, þá um forseta, framkvæmdarvald, dómstóla og loks um ýmis önnur atriði eins og stjórnarskrárbreytingar.

Varðandi upphafskafla um höfuðeinkenni þjóðskipulagsins kom fram það sjónarmið að þar þyrfti að vera ákvæði um að allt vald væri upprunnið hjá þjóðinni. Einnig að borgararnir ættu allan þann rétt sem ekki væri sérstaklega af þeim tekinn. Mikilvægt væri að stjórnarskráin geymdi skýr ákvæði sem takmörkuðu vald. Forðast ætti almennar stefnuyfirlýsingar með óljósa lagalega merkingu jafnvel þótt menn gætu verið þeim sammála. Ákvæði stjórnarskrár þyrftu að vera skýr þannig að vald til túlkunar væri ekki í of miklum mæli framselt dómstólum. Slíkt gæti raskað jafnvægi milli hinna þriggja þátta ríkisvaldsins. Loks þyrfti að taka á þeim vanda að orðalag stjórnarskrárinnar væri oft fjarri veruleikanum. Úrelt ákvæði mætti fella burt.

Fram kom það sjónarmið að styrkja þyrfti aðhaldshlutverk Alþingis með stjórnsýslunni.

Eins var þess getið að ástæða væri til að hafa ákvæði um umboðsmann Alþingis í stjórnarskránni.

Þá var einnig nefnt að æskilegt gæti verið að hægt væri að afla fyrirframúrskurðar Hæstaréttar um stjórnskipulegt gildi laga. Um þetta væri oft deilt en engin greið leið að fá úr því skorið.

Þessa punkta (úr stóru safni fundargerða) get ég alla tekið undir.  En helsti lærdómurinn af starfi stjórnarskrárnefndarinnar er sá, að það þýðir ekki að fela stjórnmálaflokkunum að endurskoða stjórnarskrána.  Þeim er málið of skylt, og starfið koðnar niður þegar farið er að ræða áþreifanlegar breytingar.  Þess vegna er stjórnlagaþingið einstakt tækifæri - sem okkur ber að nýta vel.


Veljum ráðherra á grundvelli hæfni og reynslu

Eitt helsta stefnumál mitt í kjöri til stjórnlagaþings er að breyta stjórnskipaninni þannig að ráðherrar verði valdir á grundvelli hæfni og reynslu.  Með því á ég við að ráðherrar verði ekki valdir úr hópi þingmanna stjórnarflokka heldur úr víðari hópi hæfs og reynds fólks á viðkomandi fagsviðum.

Þessi áhersla þarfnast nánast ekki skýringar.  Nútíma þjóðfélag er flókið fyrirbæri.  Til þess að geta stjórnað hverju fagsviði fyrir sig í ríkisstjórn þarf töluverða þekkingu og yfirsýn um viðkomandi málaflokk.  Ekki sakar ef sá ráðherra sem málaflokki stýrir hefur reynslu og nýtur virðingar innan hans.  Íslenskur stjórnarmeirihluti telur gjarnan 33-35 þingmenn eða svo.  Það er allt of lítill hópur til að velja úr 8-10 nægilega hæfa ráðherra í krefjandi verkefni; sérstaklega ef dreifa þarf ráðherratitlum á kjördæmi og jafnvel eftir öðrum ómálefnalegum sjónarmiðum.

En hvað þá um pólitíska stefnumótun í málaflokknum?  Ef ráðherrann er ekki innsti koppur í búri í stjórnmálaflokki, hvernig á pólitísk stefna að komast í framkvæmd samkvæmt vilja kjósenda?

Svarið er að pólitísk stefnumótun á í auknum mæli að fara fram á vegum löggjafarþingsins og nefnda þess.  Þingið og nefndirnar á að efla með starfsfólki og sérfræðiaðstoð, sem að hluta má flytja þangað frá ráðuneytum.   Þingið á að sjá um að móta stefnu í lykilmálaflokkum, til dæmis menntastefnu, heilbrigðis- og lýðheilsustefnu, orkustefnu, stefnu um erlendar fjárfestingar, öryggisstefnu og svo framvegis.  Þessi stefnuplögg eru samþykkt sem þingsályktanir, og verða grundvöllur lagasetningar og síðan reglugerða og stjórnvaldsathafna, sem þingið felur ríkisstjórninni að sjá um.  Stefna er endurskoðuð reglulega, t.d. einu sinni á kjörtímabili.

Svona höfum við ekki unnið á Íslandi, því miður.  En því má breyta, og því þarf að breyta.

Það sem ég hef lýst hér, um faglega ráðherra og stefnumótandi þing, er markmið.  Að þessu markmiði eru ýmsar leiðir.  Ein er sú að kjósa framkvæmdavaldið (forsætisráðherra) sérstaklega, í beinni kosningu. Önnur er sú að þingið kjósi forsætisráðherrann en að hann/hún og ráðherrarnir séu ekki þingmenn.  Fleiri blandaðar leiðir eru til að þessu sama markmiði.  Ég hallast að þeirri leið að skilja algjörlega á milli framkvæmda- og löggjafarvalds með því að kjósa forsætisráðherrann beint, en er tilbúinn að skoða aðrar leiðir sem ná markmiðinu.

Ef það næst í kjölfar stjórnlagaþings 2011 þá er mikill sigur unninn fyrir framtíðina á Íslandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband