Bloggannáll 2010

Lesendum þessa bloggs óska ég gleðilegs nýs árs og þakka góð skoðanaskipti á liðnum árum.  Flettingar á blogginu frá upphafi eru nú 324.034 og fjölgaði talsvert á nýliðnu ári.

Hér er annáll markverðra bloggfærslna ársins 2010:

5. janúar:  "Mér finnst ákvörðun forsetans [um Icesave] forkastanleg, óskiljanleg og illa ígrunduð."

10. janúar: "En það er of langt gengið að segja að það sé 'enginn lagagrundvöllur' fyrir útgreiðslu innistæðutryggingar til allra innistæðueigenda Landsbankans, innlendra sem erlendra."

19. janúar:  "Skuldastaðan hefur verið á svipuðu róli og jafnvel meiri allt frá árinu 2000 og var orðin mun neikvæðari fyrir hrun (yfir 120% árin 2006-7); hún hefur sem sagt batnað talsvert við hrunið - sem kemur sennilega mörgum á óvart."

20. janúar:  "Mikilvægast er að tryggja gott samstarf við og fá hjálp frá AGS og nágrannalöndum til að komast í gegn um skaflana sem framundan eru."

25. janúar: Stöð 2 gerði sjónvarpsfrétt úr bloggfærslu minni um erlendar skuldir og greiðslubyrði næstu ára.

21. febrúar:  "Framtíðin tilheyrir fyrirtækjum sem vinna sér inn og verðskulda traust viðskiptavina, starfsfólks, hluthafa og samfélags.  Það gera þau með því að vera siðleg, ábyrg, gegnsæ, og tileinka sér hugsunarhátt sjálfbærni; lifa í sátt við umhverfi sitt; skila ekki minna til baka en þau taka til sín."

21. mars: "Útkoman úr [AGS-áætluninni] er full fjármögnun gjaldeyrisstreymis 2009-2014, en eftir það verður ekki frekar gjaldeyrisvöntun samkvæmt líkaninu sem undir liggur."

24. mars: "Meðan það er ekki klárt að við ætlum að standa við skuldbindingar vegna innistæðutrygginga, þá fáum við engin lán frá Norðurlöndum og AGS-áætlunin bíður.  Og hagkerfið frýs á meðan.  Svo einfalt er það."

1. apríl: (Takið eftir dagsetningunni ;-) "Veik króna hjálpar okkur mikið þessa dagana.  Hún minnkar innflutning og eykur útflutning, t.d. lækna og hámenntaðs fólks sem við getum vel komist af án enda liggur framtíðin í frumframleiðslugreinum."

19. apríl: "[Skýrsla Rannsóknarnefndar Alþingis] kemur að mörgu leyti á óvart.  Hún er efnismeiri, þéttari og afdráttarlausari en ég bjóst við fyrirfram, og subbuskapurinn í bönkunum jafnvel meiri en ég óttaðist. "

19. maí: "Það er nánast kraftaverk að hafa náð fram [annarri endurskoðun AGS-áætlunarinnar] án þess að gengið hafi verið frá samningum um Icesave, en reyndar eru gefin fyrirheit um fullan vilja til slíkra samninga í minnisblaði stjórnvalda til sjóðsins."

2. júní: "Leiðin fram á við hlýtur fremur að vera sú að fara í róttækar stjórnkerfisumbætur, þannig að kerfið sé betur í stakk búið til að eiga við flókið nútímaþjóðfélag, og því sé treystandi fyrir öryggi og velferð almennings."

8. júní: "[Ívilnanir vegna erlendra fjárfestinga] má aðeins veita á sérstökum atvinnuþróunarsvæðum, ívilinun má aðeins nema tilteknu hlutfalli af upphæð fjárfestingar og eftirlitsstofnanir ESB/EES, í okkar tilviki Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), fylgist með ferlinu og verður að staðfesta endanlegan samning."

19. júlí: "Varðandi jarðhita og grunnvatn er skýrt í lögum að eignarhald á slíkum auðlindum er óframseljanlegt úr höndum ríkis og sveitarfélaga."

9. ágúst: "Fiskur í sjónum hefur hins vegar þá sérstöðu að hann getur synt milli lögsaga [aðildarríkja ESB], og því er óhjákvæmilegt að stjórna nýtingu hans með sjálfbærum hætti í samkomulagi milli þjóða.  Sá er tilgangur sjávarútvegsstefnu ESB, ekki sá að ræna þjóðir auðlindum sínum."

12. ágúst: "Lissabon-sáttmálinn kveður ekki á um stofnun Evrópuhers eða um neins konar herskyldu [e: conscription to any military formation]."

29. ágúst: Skýringarmynd um eignarhald gömlu og nýju bankanna ásamt útskýringum á hlutverki skilanefnda og slitastjórna.

12. september: "Ein mikilvægasta endurbót á íslensku stjórnkerfi sem gera þarf er sú að velja ráðherra ríkisstjórnarinnar á grundvelli þekkingar, reynslu og hæfileika á hverju stjórnsýslusviði fyrir sig."

17. september: "Dómur Hæstaréttar frá í gær er að mínu mati Salomónsdómur.  Höfðustóll flestra myntkörfulána lækkar talsvert, skuldurum til hagsbóta, en þó ekki svo mikið að bankakerfið - og hagkerfið almennt - bíði verulegan skaða af."

29. september: "[Skýrt er] skv. ákvæðum stjórnarskrár að meirihluti Alþingis tekur ákvörðun um kæru til Landsdóms.  Slíkt gerist aldrei öðru vísi en með atkvæðagreiðslu þingmanna, sem kalla má pólitísk réttarhöld o.s.frv. ef menn vilja, en bókstafur stjórnarskrárinnar er eins og hann er. "

3. október: "Munurinn á þessu og skuldum einstaklinga, t.d. vegna húsnæðis, er sá að hluthafar bera ekki ábyrgð á skuldum félaga sem þeir eiga hluti í [...].  Húsnæðislán eru hins vegar, auk veðs í húsnæðinu sjálfu, einnig með fullnustuheimild í öðrum eignum skuldarans."

5. október: "Það er firra og bábilja að AGS sé mótfallinn úrræðum og aðgerðum fyrir skuldug heimili og fyrirtæki."

8. október (sem ég tel vera bestu bloggfærsluna mína á árinu 2010): "Rauðu kúlurnar standa fyrir alls kyns ákvarðanir og ráðstafanir sem mönnum gætu dottið í hug, og eru vissulega oft freistandi - sérstaklega á álagstímum.  En bitur reynsla og lærdómar aldanna og árþúsundanna hafa sýnt að slíkar 'rauðar' ákvarðanir eru ekki góðar; þær á ekki að taka og þær má ekki taka."

19. október: Nýjasta portrettmálverkið.

21. október: "Með því að greina betur milli ríkisstjórnar og þings verður þingið sjálfstæðara.  Það á að taka í auknum mæli að sér stefnumótun og aðhald."

31. október: "Eins og lesendur þessa bloggs hafa eflaust áttað sig á, þá er ég í framboði til stjórnlagaþings í kosningunum 27. nóvember nk."

8. nóvember: Úr sænsku stjórnarskránni: "Persónuleg, hagræn og menningarleg velferð einstaklingsins skal vera grunnmarkmið opinberrar starfsemi.  Sérstaklega skal það vera skylda hins opinbera að tryggja rétt til heilsu, atvinnu, húsnæðis og menntunar, og að vinna að félagslegri velferð og öryggi."

9. nóvember: "Gangi þér vel að kjósa í þessum sögulegu kosningum, og vonandi uppskerum við öflugt stjórnlagaþing og glæsilega nýja stjórnarskrá lýðveldisins Íslands."

15. nóvember: "Íslenskur stjórnarmeirihluti telur gjarnan 33-35 þingmenn eða svo.  Það er allt of lítill hópur til að velja úr 8-10 nægilega hæfa ráðherra í krefjandi verkefni; sérstaklega ef dreifa þarf ráðherratitlum á kjördæmi og jafnvel eftir öðrum ómálefnalegum sjónarmiðum."

21. nóvember: "En helsti lærdómurinn af starfi stjórnarskrárnefndarinnar er sá, að það þýðir ekki að fela stjórnmálaflokkunum að endurskoða stjórnarskrána."

23. nóvember: Tengill á frambjóðandakynningu mína á RÚV vegna stjórnlagaþings, 5 mínútna hljóðskrá.

24. nóvember: "Þó tel ég að til greina komi að sérstakur Auðlindasjóður fari með forsjá auðlindanna f.h. þjóðarinnar og stjórnvalda og innheimti afnotagjöld og hlutdeild í auðlindarentu skv. sérstökum lögum þar um."

Ég hlakka til lýðræðislegrar og gagnrýninnar rökræðu á nýju ári, 2011.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhannes Birgir Jensson

Bíð spenntur eftir nýju 5. janúar bloggi sem tekst á við afleiðingar tilefnis 5. janúar 2010 bloggsins.

Jóhannes Birgir Jensson, 2.1.2011 kl. 03:17

2 Smámynd: Guðmundur Jónsson

 Gleðilegt ár Vilhjálmur og til hamingju með kosninguna á SLÞ.

Nú hrundi evran í sumar eins margir höfðu gert ráð fyrir og ljóst að framleiðslulönd evrunnar, Þýskaland holland og fl. halda henni á floti með eftirgjöf á kröfum til hinna skuldsettari landa sunnar í álfunni auk þess er ECB er farið að kaupa ástarbréf  samkvæmt pólitískum  fyrirskipunum.  

Í ljósi þessa, ert þú enn þeirrar skoðunar að evran sé fýsilegur kostur meðfram aðild að ESB, og ef svo er hvað rök standa enn eftir, því í fljótu bragði virðast mér flest eða öll rök sem þú hafðir áður vera fokin út um gluggann.

Guðmundur Jónsson, 2.1.2011 kl. 12:24

3 identicon

Gleðilegt nýtt ár og gangi þér vel á því nýja!!

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 2.1.2011 kl. 17:57

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jóhannes Birgir: Sem betur fer tókst að spila úr stöðunni sem skapaðist í janúar með tiltölulega farsælum hætti.  Þar skipti mestu að unnt reyndist á endanum að sannfæra AGS og nágrannaþjóðir um að halda áfram áætluninni og lánveitingum þrátt fyrir að Icesave væri ófrágengið.  Lykilatriði hefur sjálfsagt verið að ítreka að Tryggingarsjóður innstæðueigenda ætlaði að standa við að greiða lágmarkstrygginguna, þótt deilt væri um vexti og kjör að öðru leyti.  Nú er bara að vona að málið klárist endanlega í kjölfar nýs og betri samnings.

Guðmundur:  EUR/USD í byrjun árs 2010 var ca 1,44 (sem er innan við 10% frá hæsta gildi EUR/USD frá upphafi) en er núna 1,34.  Það er ekki mikil breyting.  En vandi evru er mjög svipaður og vandi dollars, punds og jens: það eru gríðarleg skuldafjöll í öllum þessum myntum, og seðlabankar prenta peninga um þessar mundir með því að kaupa ríkisskuldabréf fyrir nýtt reiðufé.  Erfitt er að sjá hvert þetta leiðir en vandinn er ekki vandi evrunnar sem slíkrar heldur skuldavandi allra helstu hagkerfa, í stóru samhengi.  Mig grunar að ef verulegir skellir verða vegna þessa í heiminum þá sé ekkert sérstakt skjól í krónunni hvort eð er, og jafnvel þvert á móti.  En staða heimsgjaldmiðlanna er vissulega álitaefni sem nauðsynlegt er að fylgjast vel með á nýju ári.

Stefán: Þakka kveðjuna!

Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.1.2011 kl. 18:30

5 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Þegar þú skrifaðir skjalið Sjálfstæður eða fjölþjóðlegur gjaldmiðill sem ég vísaði í var EUR öðruvísi gjaldmiðill en USD. EUR var til dæmis með 3% hámarks afskriftum og þær þjóðir sem tekið hafa upp EUR hingað til (utan Eistland) hafa gert það í trausti þess.  Við vitum báðir að virði EUR í viðskiptum með USD skiptir litlu máli í þessu samhengi. En sú staðreynd að evran er núna prentuð eftir einhverjum óskrifuðum reglum sem Evrópuþingið sjálft hefur aldrei komið að hlýtur að vera áhyggjuefni fyrir þær þjóðir sem hafa í hyggju að taka hana upp sem lögeyri, eða hvað ?

Guðmundur Jónsson, 2.1.2011 kl. 19:03

6 identicon

Guðmundur:  Það er verslað með evruna á frjálsum markaði.  Hvaða áhyggjur eigum við þá að hafa?

Evran er traustasti gjaldmiðillinn sem ég hef lifað við.  Ég hef lifað við hann frá því að evran var tekin upp!

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 2.1.2011 kl. 19:36

7 Smámynd: Guðmundur Jónsson

"Traustan" gjaldmiðil er gott að eiga en vont að skulda Stefán. þegar of mikið er af skuldum eins og nú er í EU er traustur gjaldmiðill þá ekki ókostur eða hvað ? 

Guðmundur Jónsson, 2.1.2011 kl. 21:10

8 identicon

Nú skil ég þig ekki?  Ég borga minar skuldir en óska þess ekki að þær hverfi.  Traustur gjaldmiðill er því góður fyrir mig.

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 3.1.2011 kl. 05:32

9 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Nei Stefán, ég átti eiginlega ekki von á því að þú skildir mig,  þér finnst líklega líka að metrar séu traustari en tommur er það ekki ?

Guðmundur Jónsson, 3.1.2011 kl. 11:03

10 identicon

Já, ég skil ekki af hverju menn sem skuldaí metrum vilja frekar borga í tommum:)

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 3.1.2011 kl. 20:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband