Af hverju er ákvörðun forsetans röng?

Ákvörðun forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, um að synja ríkisábyrgðarlögunum vegna Icesave staðfestingar er röng af mörgum ástæðum.  Lítum á þær helstu.

  • Lagafrumvarpið sem um ræðir fjallar um breytingar á fyrri lögum um ríkisábyrgðina, sem fyrir eru og í fullu gildi.  Það sem kosið yrði um er ekki hvort borga eigi Icesave eður ei, eins og margir þeir sem studdu yfirlýsingu InDefence virðast halda.  Kosningin snýst aðallega um hvort halda eigi í óbreytt orðalag tiltekinna efnahagslegra fyrirvara, sem viðsemjendurnir, Bretar og Hollendingar, hafa þegar hafnað.  Spurningin sem verið er að vísa til þjóðarinnar er því bæði óljós og í reynd marklaus.
  • Eðli þessa máls er að verið er að semja milli þjóða.  Það er einfaldlega ekki hægt að framkvæma samningaviðræður með þjóðaratkvæðagreiðslum.  Á þá að setja næsta útspil, ef eitthvað verður, í þjóðaratkvæðagreiðslu, og svo áfram?  Flókin mál af þessu tagi verður almennt að afgreiða innan fulltrúalýðræðisins; það er nógu erfitt að halda úti samningaviðræðum við þjóðþing, hvað þá heila þjóð.
  • Allan lagaramma um þjóðaratkvæðagreiðslur vantar og við erum að fara í mikla óvissu um ferlið sem framundan er.  Alls kyns tæknileg atriði eru óljós, bæði varðandi framkvæmd kosningarinnar sjálfrar og um hina lagalegu stöðu sem uppi er á meðan hún hefur ekki farið fram.  Þetta er sérstaklega bagalegt í Icesave-málinu, miklu bagalegra en í öðrum málum (t.d. fjölmiðlafrumvarpinu).  Málið er frámunalega illa til þess fallið að fara í þessa lagalegu og stjórnskipulegu tilraunastarfsemi.
  • Endurreisn Íslands bíður á meðan á ferlinu stendur.  Ljóst er að við fáum ekki lán frá Norðurlöndum meðan Icesave er óafgreitt.  Það tefur næstu áfanga AGS-áætlunarinnar og við fáum ekki ný gjaldeyrislán á meðan.  Lánshæfismat ríkisins og annarra íslenskra aðila (t.d. orkufyrirtækja) er í hættu og endurfjármögnun útilokuð.  Ný erlend fjárfesting bíður og engar líkur eru á styrkingu krónunnar.  Allt er þetta þjóðinni mjög dýrt og kemur á versta tíma, einmitt þegar skriðþungi var að byrja að myndast í rétta átt.
  • Forsetinn vitnaði til þess að þingmenn hefðu skorað á sig og hann teldi að meirihluti væri á þingi fyrir þjóðaratkvæði um málið.  Á þetta reyndi í atkvæðagreiðslu á Alþingi 30. desember og þá var breytingatillaga um þjóðaratkvæði felld.  Svo einfalt er það og stjórnskipulega stórhættulegt fyrir forsetann að gefa sér einhverja aðra afstöðu þingsins en þessa.
  • Forsetinn talar um að þjóðaratkvæðagreiðslan sé leið til að finna sátt.  Það tel ég vera alrangt mat.  Ég sé fram á áframhaldandi vikur og mánuði af harðvítugum deilum um Icesave-málið, ekki síst í ljósi þess hversu spurningin sem taka á afstöðu til er óljós.  Blandast mun saman umræða um hvort yfirleitt eigi að borga Icesave, við umræðu um einstaka fyrirvara - sem er ófrjó að því leyti að afstaða gagnaðila okkar liggur ekki fyrir.  Þetta verður því erfið og slítandi umræða um ekki neitt, einmitt þegar full þörf var á að byrja að ræða um aðra - og mikilvægari hluti.  Icesave er þrátt fyrir allt ekki mest aðkallandi vandi sem við stöndum frammi fyrir.

Ég reyni að vera orðvar maður almennt, en ég verð að segja það hreinskilnislega, að mér finnst ákvörðun forsetans forkastanleg, óskiljanleg og illa ígrunduð.


Bloggfærslur 5. janúar 2010

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband