Auðlindir, eignarhald og afnotaréttur

Undanfarið hefur á ný færst líf í umræðu um eignarhald og afnotagjöld af auðlindum í almannaeigu.  Einkum á það við um virkjanlegt vatnsafl og jarðhita, en einnig um fiskinn í sjónum, fjarskiptatíðnir og önnur takmörkuð gæði.

Varðandi jarðhita og grunnvatn er skýrt í lögum að eignarhald á slíkum auðlindum er óframseljanlegt úr höndum ríkis og sveitarfélaga, sbr. lög nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu:

3. gr. a. Ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum, sem alfarið eru í eigu þeirra, er óheimilt að framselja beint eða óbeint og með varanlegum hætti eignarrétt að jarðhita og grunnvatni umfram heimilis- og búsþarfir, sbr. 1. mgr. 10. gr. og 14. gr.

  Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að framselja réttindi til ríkis, sveitarfélags eða félags sem alfarið er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga og sérstaklega er stofnað til að fara með eignarhald þessara réttinda.

  Ríki, sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu, sbr. 2. mgr., er heimilt að veita tímabundið afnotarétt að réttindum skv. 1. mgr. til allt að 65 ára í senn. Handhafi tímabundins afnotaréttar skal eiga rétt á viðræðum um framlengingu réttarins þegar helmingur umsamins afnotatíma er liðinn.

  Við ákvörðun um það hverjum skuli veittur afnotaréttur skal gæta jafnræðis. Þá skal gæta þess að ákvörðunin stuðli að hagkvæmri nýtingu auðlinda og fjárfestinga í mannvirkjum.

  Forsætisráðherra skal semja um endurgjald (leigu) fyrir afnotarétt réttinda undir yfirráðum ríkisins skv. 3. mgr. Um ráðstöfun og endurgjald fyrir nýtingu réttinda í þjóðlendum fer samkvæmt ákvæðum laga þar að lútandi.

Eins og sjá má hér að ofan er heimilt að leigja afnotarétt af auðlindum til 65 ára í senn, með möguleika á framlengingu til annarra 65 ára.  Slíkan samning gerði HS Orka við Reykjanesbæ, eins og frægt er orðið.

Í apríl sl. skilaði nefnd á vegum forsætisráðuneytis um fyrirkomulag leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins, undir forystu Karls Axelssonar, af sér skýrslu og niðurstöðum.  Þar er ítarlega farið yfir kosti og galla ýmis konar fyrirkomulags og tekin saman reynsla annarra þjóða, m.a. Norðmanna, bæði af leigu vatnsréttinda og annarra auðlinda á borð við olíu.

Í stuttu máli leggur nefndin til að réttindum (t.d. virkjanakostum), sem til úthlutunar eru, verði úthlutað með tveggja þrepa útboði, þar sem hæstbjóðandi sem uppfyllir almenn skilyrði fær réttindin til afnota (leigu) í 40-50 ár í senn.  Gjaldtaka ríkisins yrði þá þríþætt.  Í fyrsta lagi fast grunngjald til að mæta kostnaði ríkisins við umsýslu auðlindarinnar, rannsóknir o.þ.h.  Í öðru lagi viðbótarendurgjald í upphafi sem ræðst í samkeppni í útboðinu, ef bjóðendur eru fleiri en einn.  Og í þriðja lagi hlutur af auðlindarentunni sem myndast við nýtingu auðlindarinnar; sá hlutur er greiddur eftir því sem rentan fellur til, yfir allan leigutímann.

Að mínu mati mætti leigutíminn gjarnan vera styttri en nefndin leggur til, eða t.d. 20-25 ár í senn, að því gefnu að leigutakar ættu rétt á framlengingu ef þeir umgangast auðlindina með ábyrgum hætti, standa í skilum með greiðslur og uppfylla önnur skilyrði á leigutímanum.  Slíkur framlengingarmöguleiki er jákvæður vegna þess að hann kemur í veg fyrir að leigjandinn umgangist auðlindina illa síðustu ár leigutímans, en það hefur verið vandamál annars staðar, og gefur kost á hærra upphafsgjaldi en ella.

Ofangreint fyrirkomulag tryggir almenningi sanngjarna hlutdeild í arði af sameiginlegum auðlindum okkar, án þess að draga um of úr hvata til fjárfestingar og framkvæmda.

Ef líkan svipað þessu verður ofan á, sé ég ekki að þjóðerni þeirra sem byggja sjálfar virkjanirnar eða reka þær skipti máli; rentan af auðlindinni rennur alltaf til eiganda hennar - þjóðarinnar - eins og vera ber. 

(Og hliðstætt líkan á að sjálfsögðu við í sjávarútvegi einnig.)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Því má bæta við að aðild að ESB breytir engu í þessu efni, frá því sem nú er; hvorki eignarhaldi á auðlindum né möguleikum okkar til leigu og gjaldtöku með þeim hætti sem lýst er í færslunni.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.7.2010 kl. 18:31

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

... og líka að Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn kemur þessu máli ekkert við; ákvörðun um skynsamlegt fyrirkomulag í þessum efnum er alfarið okkar eigin.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.7.2010 kl. 18:35

3 identicon

Þú ert sem sagt að segja að það skipti miklu máli, hvernig samninga maður gerir. Samningurinn við Magma hefur í sér fólgin öll röngu elementin: Of langur samningstími, gölluð fjármögnun (seljendalán og fáránlegt vaxtastig), engin ný þekking bætist við, skattastrúktúrar óklárir, ábyrgðir óklárar.

Skýr merki um desperate seljanda.

marat (IP-tala skráð) 19.7.2010 kl. 19:02

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

E.t.v. þarf líka að velta fyrir sér markalínum milli ríkis og sveitarfélaga í þessu efni. Eins og staðan er núna hafa sveitarfélögin afar mikið sjálfræði um meðferð og úthlutun auðlindaréttinda á eigin landi. Og eins og þú bendir á er samningsstaða þeirra ekki alltaf sterk.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.7.2010 kl. 19:47

6 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

P.P.S. Hér er árétting frá Reykjanesbæ frá 18. maí sl. þar sem bærinn segist ekki koma að viðskiptum GGE og Magma Energy með hlutabréf í HS Orku hf., að öðru leyti en því að taka til umfjöllunar hugsanlega skuldarabreytingu á skuldabréfi GGE til bæjarins þannig að skuldarinn verði Magma en ekki GGE.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.7.2010 kl. 20:02

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

P.P.P.S. Hér kemur fram að HS Orka greiðir 2,1-2,5% af heildarsölutekjum raforku í auðlindagjald til Reykjanesbæjar skv. núverandi samningi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.7.2010 kl. 20:09

8 Smámynd: Einar Guðjónsson

Lög nr.57 frá 1998 eru nefnilega galopin og dæmið um HS ORKU sýnir það. Ákvæðið í ( almennum lögum ) um að Forsætisráðherrann ráði leigunni sýnir auðvitað að lögunum er ætlað hlutverk í upplýstu einveldi.

Einar Guðjónsson, 19.7.2010 kl. 20:37

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Orkulindirnar sem HS Orka nýtir teljast ekki í eigu ríkisins heldur sveitarfélaga, þannig að forsætisráðherra kemur ekki nálægt ákvörðun leigugjalds í því tilviki skv. lögunum.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.7.2010 kl. 21:12

10 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Þetta á alfarið að vera í opinberri eigu eins og hingað til.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 19.7.2010 kl. 22:53

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Tja, mér finnst ekki endilega sjálfsagt að hið opinbera (skattgreiðendur) sé að taka áhættu við byggingu og rekstur virkjana vegna stórnotenda raforku.  Ef almenningur fær sanngjarna og eðlilega auðlindarentu, er þá ekki allt í lagi að slík verkefni séu rekin af einkaaðilum og á þeirra áhættu og ábyrgð?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.7.2010 kl. 23:13

12 Smámynd: Einar Guðjónsson

HS Orkudæmið sýnir að ekkert bannar sveitarfélögunum að selja það sem Magma vill kaupa. Fáránlegt í þessum lögum að eftirláta einum Ráðherra að ákveða endurgjaldið ( í tilviki ríkisins ) og ekki nefnt hvað á að liggja til grundvallar. Eiginlega dugir að hann sé upplýstur einvaldur og í ljósi sögunnar er ákvæðið galopið.

Einar Guðjónsson, 19.7.2010 kl. 23:20

13 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Allstaðar á byggðu bóli er orkuöflun á vegum hins opinbera, hví ekki á Íslandi héreftir sem hingað til.

Áhættan af rekstri og byggingu orkuvers er 0 og verður 0 um fyrirsjáanlega framtíð.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 19.7.2010 kl. 23:21

14 Smámynd: Kristján Sigurður Kristjánsson

Ef orkukerfið á Íslandi hefði ekki verið rekið af glæpamönnum sl. 40 ár væri Landsvirkjun skuldlaus en ætti ekki nema 50 miljarða í ríkisskuldabréfum vegna Kárahnjúka. Orkuveita Reykjavíkur skuldlaus með 200 miljarða í ríkisskuldabréfum. Orkuveita Suðurnesja skuldlaus með 60 miljarða í ríkisskuldabréfum.

Orkugeirinn væri skuldlaus og ætti 400 miljarða í tryggum sjóðum.

Kristján Sigurður Kristjánsson, 19.7.2010 kl. 23:31

15 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Jú, eg held nefnilega að áhættan geti alveg verið einhver - og kostnaðurinn við framkvæmdina og viðhald framkvæmdarinnar o.s.frv.  Þ.e. það er ekkert endilega sjálfgefið að gróðinn spretti uppúr jörðinni sisona eða að hægt sé að lesa hann eins og ber af lyngi á sólríkum haustdegi.  Eg er ekkert enilega viss um það.

Eða afhverju eru mörg orkufyrirtæki stórskuldug? 

Held að fólk sé að mála þetta of mikið í svart hvítum litum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 19.7.2010 kl. 23:31

16 identicon

Komandi úr allt annari átt þá er varla til þess ætlast að maður sé alltaf sammála, eða að fullu sannfærður, en ég hef alltaf gaman af að lesa vel skrifað og rökstutt blogg Vilhjálms.

 Þetta stingur mig aðeins með "áhættuna".  EF þetta væri eitthvað Software, eða gagnagrunnur, eða einhverskonar tilrauna project sem augljóslega er áhættusamt fyrir ríkið að vasat í, þá skil ég þig - en hvernig er þróað og concret  náttúrulegt orkuver áhættusamt fyrir ríkið, í heimi þar sem orkunotkun eykst veldisvaxandi?

Sigurður Atli (IP-tala skráð) 19.7.2010 kl. 23:48

17 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Einhvern veginn hefur nú orkufyrirtækjunum sumum hverjum tekist að tapa talsverðu fé inn á milli, meðal annars á erlendum skuldum sínum og á afleiðusamningum til mótvægis vegna tengingar orkusölusamninga við álverð.  (Sú tenging er vonandi og blessunarlega á útleið hjá Landsvirkjun skv. nýrri stefnumótun Harðar Arnarsonar forstjóra og félaga hans þar.)  Það að virkja og reka virkjanir er vissulega áhættusamur bísness eins og annar bísness, annars væri arðsemin engin; hagnaður án áhættu á ekki að vera mögulegur skv. teóríunni.  Áhættuþættir liggja m.a. í náttúrunni (sérstaklega í jarðvarmanum), í fjármögnun, í gagnaðilanum, í alþjóðlegu efnahagsástandi, í heimsmarkaðsverði á orku o.s.frv.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.7.2010 kl. 00:11

18 identicon

Skynsamlega skrifað og kemur að kjarnanum í þessu máli.

Það er samt sérstakt að land sem byggir svo mikið á rentu af auðlindum hefur mjög vanþróaðar hugmyndir um hvernig eigi að framkvæma þennan mikilvæga þátt.

Á Íslandi eru amk. þessar auðlindir sem eru í eign einkaaðila eða ríkis/sveitarfélaga:

Fiskimið

Fallvötn

Jarðvarmi

Náttúruperlur

Jarðnæði

Hreint vatn

Stangveiði á landi

Dýraveiðar (aðallega fuglar á sjó og landi)

Tíðnisvið innan lögsögu landsins

Lega landsins í miðju N-Atlantshafi

Skógar og málmar geta ekki talist til meiriháttar auðlinda, þó að kísilgúr sé að finna og svo væntanlega einhvern brennistein. Ekki er vitað um olíu enn á útsjávarsvæðum. Eins þá eru tíðnisvið

Ef litið er til hvernig farið hefur verið með þessar auðlindir síðan lýðveldið var stofnað má fullyrða að nýtingin hefur að mestu verið illa skipulögð, ómarkviss, og ekki sjálfbær.

Þannig varð land örfoka fyrir ofbeit, sjávarbotninn hefur verið stórskemmdur ef ekki ónýttur með veiðarfærum sem plægja hann. Virkjanir hafa verið byggðar til að selja orku á hlutfallslega lágu verði. Ofveiði og endalok geirfuglsins er eldri, en af svipuðum toga. Hvalir í sjónum eru nýttir, en engin sérstök ástæða virðist þar til, enda ólíklegt að kíló af hval sé verðmætara en kíló af ferðamanni.

Náttúruperlur um land allt eru án gjaldtöku, og sér hver sem vill að landið í kringum þær er farið að láta á sjá. Sígarettustubbar eru ekki fallegir, síst á fallegum stöðum. Vatn hefur verið illa nýtt og oftar en ekki selt mönnum sem vatnsgreiða hárið, en gleyma að greiða lánin sín.

Sjávarútvegurinn hefur verið upphaf og miðja spillingar, offjárfestingar, ofveiða og ójafnvægis í þjóðarbúinu.

Það er helst að nýting jarðvarðma hafi tekist vel. En þó virðist landlæg spilling geta snúið þeim hag að dæla orku uppúr jörðinni í þörf fyrir að dæla fé í vitlaust fólk og ofurskrifstofubyggingar.

Þá er mest upp talið. Það sem eftir er er minniháttar, en þó má minna á að lax og silungsveiði er ekki vel stýrt og lítil renta af því í sjálfu sér.

Það væri sennilega betra fyrir Ísland að gleyma því að laga stjórnarskrána og bara ráða einhvern til að sjá um auðlindirnar. Betri bústjórn þar gæti sennilega stoppað margt fjárlagagatið.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 20.7.2010 kl. 00:28

19 Smámynd: Jón Ingi Þorvaldsson

Þeir sem taka "áhættu" í stórum fjárfestingum eru sjaldnast að taka áhættu með eigið fé.  Þeir sem "fá" að taka áhættu með fé annarra njóta jafnan ágóðans af því en tapið lendir að sama skapi á almenningi eftir hinum ýmsu krókaleiðum fjármálakerfisins.  Ég held að sú tilfærsla á fjármunum sem yfirstandandi "efnahagslægð" hefur haft í för með sér tali sínu máli um það, rétt eins og allar aðrar kreppur, en fyrrnefndar krókaleiðir eru hins vegar ekki alltaf jafn augljósar þegar allt leikur í lyndi á fjármálamörkuðum.  Það er í sjálfu sér gott og blessað að menn fái að gambla með sitt eigið fé í fjárfestingum í infrastrúktúr í orkugeiranum svo framarlega sem auðlindirnar sjálfar séu í opinberri eigu og af þeim sé greitt "sanngjarnt" gjald... og í því samhengi er 2,5% gjald náttúrulega brandari.

Jón Ingi Þorvaldsson, 20.7.2010 kl. 00:45

20 identicon

Orku tap: Já með því að byggja Star Wars hallir með instant möttum fundargluggum, eldhúsi sem ætti heima í Perlunni og bunch af bústöðum  :)

Það er alveg örugglega einhver stigsmunur samt á áhættuni á að eiga aðgengi að beinni orkulind byggða á  allt að 100 ára gamalli sannreyndri tækni, miðað við ef til sölu væri húsdýragarðurinn, eða þjóðleikhúsið.

Mér fynnst eðlilegara að peningum einstaklinga sé eytt í sértækar áhættur á jaðrinum á meðan við  ábyrgjumst sameignlega miðlægar áhættur. Þ.e.a.s þann infrastrúktúr sem sannreyndur hefur verið (proof of product) og á sér farsæla sögu (orkuverð hefur verið lágt á íslandi, ekki satt?)

Ég skil frjálst fjármagn frelsis pælinguna varðandi  sprotabransan (þar sem fáir fjárfestar láta sjá sig) en þegar kemur að vel establiseraðum infra-strúktúr, allavega ef ég mætti kjósa þá myndi ég hallast á nei.

Sigurður Atli (IP-tala skráð) 20.7.2010 kl. 01:13

21 identicon

Ég sé ekki alveg af hverju það er betra að leigja afnotaréttinn og láta aðila sem hefur að markmiði að hámarka arð hluthafa sjá um að stýra orkuverðinu, heldur en að láta opinbera aðila sjá um að skaffa hagkvæma og ódýra orku fyrir íbúa og fyrirtæki landsins, þannig að virðisaukinn lendi beint í vasa almennings með lægra orkuverði. Það gefur nokkuð auga leið að rentan af auðlindinni verður á endanum innheimt af viðskiptavinunm, þ.e.a.s. mér og þér.

Einar Þór (IP-tala skráð) 20.7.2010 kl. 11:06

22 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

En tilfellið er að almenn notkun utan stóriðju/stórnotenda er aðeins lítið brot af heildinni; Búrfellsvirkjun ein fer langt með að anna allri almennri raforkunotkun. Spurningin er hvernig fara eigi með rest, sem gengur út á að skila arði til þjóðarbúsins af því að selja stórnotendum orku. Sá arður myndast með ýmsum hætti, en í dag aðallega óbeint. Að mínu viti væri mun betra að gera skýr skil milli auðlindarentu almennings og svo samkeppnisrekstrar á sjálfum virkjununum, sem þjóna stórnotendum fyrst og fremst.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.7.2010 kl. 11:16

23 identicon

Afhverju ætli Norðmenn  fari ekki að þessum ráðum og leyfi einkaaðilum að dæla upp olíunni og fá í staðin 2,5 % af heildarsölutekjunum í þóknun fyrir ?

Það þarf að umgangast háhitasvæði með varúð og ekki má dæla upp meiru heldur en endurnýjast í katlinum undir. Því er auðveldlega hægt að gera háhitasvæðin ósjálfbær ef of mikið er tekið út.  Spurning hvort einkafyrirtæki fókusi ekki meira á skjótfengin gróða heldur en að ganga skynsamlega um auðlindina. 

Þórhallur Kristjánsson (IP-tala skráð) 20.7.2010 kl. 14:34

24 identicon

Þórhallur, ólíkt með olíu þá dælir maður ekki upp heitu vatni hérlendis við raforkugerð (það er þó tæknilega séð hægt, en dýrt). Í staðinn borar maður niður á niður á t.d. 300C heitt vatn, sem þrýstir sér upp sem gufa. Það er vel vitað að slíkar holur kólna með tímanum, og gefa minna afl af sér. Það er ekki mikil reynsla á langtíma endurnýjunarmöguleika háhitasvæða, en það er ljóst að þau eru sífellt að breytast. Almennt séð þarf alltaf að bora meira eða dýpra ef maður vill halda sömu afköstum.

Bjarni (IP-tala skráð) 20.7.2010 kl. 15:14

25 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Nojarar leyfa einkaaðilum eignarhald upp að ákveðnu marki er það ekki?  Með allskonar skilyrðum og gjaldtöku   Held það.  En meirihluti samt  í ríkiseigu.

Veit ekki alveg hvort olían í Noregi sé nákvæmlega sambærileg.  Nojarar flytja auðvitað svo mikið út af olíu.

Sambærilegt væri kannski að ísl. ríkið ætti álverin.  Mér finnst alveg merkilegt að ísl. finnist það bara í lagi að einhver erlend stórfyrirtæki eigi álverin.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 20.7.2010 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband