Á hvaða lögum byggja innistæðutryggingar og Icesave-samningurinn?

Fyrir umræðuna er gott að halda því til haga á hvaða keðju réttarheimilda skuldbindingar Íslands gagnvart innistæðueigendum í útibúum íslenskra banka byggja.  Borið hefur á misskilningi varðandi þetta, ekki síst frá erlendum álitsgjöfum, meira að segja greinahöfundum hjá Financial Times.

Alþingi samþykkti í janúar 1993 samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (lög nr. 2/1993).  Í þeim lögum segir m.a.:

2. gr. Meginmál EES-samningsins skal hafa lagagildi hér á landi. [...]

3. gr. Skýra skal lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja.

Í EES-samningnum er m.a. að finna eftirfarandi greinar (leturbr. mínar):

3. gr. Samningsaðilar skulu gera allar viðeigandi almennar eða sérstakar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningi þessum leiðir. Þeir skulu varast ráðstafanir sem teflt geta því í tvísýnu að markmiðum samnings þessa verði náð.[...]

4. gr. Hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð á gildissviði samnings þessa nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans.

6. gr. Með fyrirvara um þróun dómsúrlausna í framtíðinni ber við framkvæmd og beitingu ákvæða samnings þessa að túlka þau í samræmi við úrskurði dómstóls Evrópubandalaganna sem máli skipta og kveðnir hafa verið upp fyrir undirritunardag samnings þessa, þó að því tilskildu að þau séu efnislega samhljóða samsvarandi reglum stofnsáttmála Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmála Kola- og stálbandalagsins og gerðum sem samþykktar hafa verið vegna beitingar þessara tveggja sáttmála.

7. gr. Gerðir sem vísað er til eða er að finna í viðaukum við samning þennan, eða ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar, binda samningsaðila og eru þær eða verða teknar upp í landsrétt sem hér segir:
   a. gerð sem samsvarar reglugerð EBE skal sem slík tekin upp í landsrétt samningsaðila;
   b. gerð sem samsvarar tilskipun EBE skal veita yfirvöldum samningsaðila val um form og aðferð við framkvæmdina.

(Athyglisvert er að benda á að í 111. gr. EES-samningsins eru ákvæði um úrlausn deilumála, sem leggja skal fyrir sameiginlegu EES-nefndina, en samþykki beggja deiluaðila þarf til að fara fram á það við dómstól Evrópubandalaganna að hann kveði upp úrskurð.)

Á grundvelli ofangreindra laga og EES-samningsins hefur tilskipun Evrópusambandsins um innlánatryggingakerfi (94/19/EB) frá 30. maí 1994 lagagildi hér á landi.  Í henni segir m.a. í inngangi (leturbr. mínar):

Þegar gjaldþrota lánastofnun er lokað verða innstæðueigendur í útibúum í öðrum aðildarríkjum en þar sem lánastofnunin efur höfuðstöðvar að njóta verndar sama tryggingakerfis og aðrir innstæðueigendur í stofnuninni.

Kostnaður lánastofnana við þátttöku í tryggingakerfi er í engu hlutfalli við kostnaðinn sem hlytist af stórúttektum bankainnstæðna, ekki aðeins frá lánastofnun sem á í erfiðleikum heldur einnig frá velstæðum stofnunum, vegna þess að innstæðueigendur myndu missa trúna á stöðugleika bankakerfisins.

Útibú þarf ekki lengur að fá leyfi í gistiríki, því allsherjarleyfið gildir alls staðar í bandalaginu, og lögbær yfirvöld í heimaríkinu [Íslandi] fylgjast með gjaldhæfi þess. Þetta skipulag leyfir að eitt tryggingakerfi nái yfir öll útibú lánastofnunar innan bandalagsins. Þetta kerfi verður að vera það kerfi sem gildir fyrir hlutaðeigandi flokk lánastofnana í heimaríki viðkomandi lánastofnunar, ekki síst vegna þeirra tengsla sem eru á milli eftirlits með gjaldhæfi útibús og aðildar þess að innlánatryggingakerfi.

Samræmingin ætti að einskorðast við höfuðatriði innlánatryggingakerfanna og í henni þarf að felast að unnt verði að inna tryggingagreiðslu af hendi með örskömmum fyrirvara, útreiknaða eftir samræmdri lágmarksviðmiðun. Innlánatryggingakerfin verða að koma til skjalanna um leið og innlán verða ótiltæk.

Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.

Í grein 7.1. segir:

Innlánatryggingakerfin tryggja að samanlögð innlán hvers innstæðueiganda séu tryggð upp að 20 000 ECU ef innlánin verða ótiltæk.

Í grein 10.1. segir:

Tryggingakerfin þurfa að geta fullnægt réttmætum kröfum innstæðueigenda varðandi ótiltæk innlán eigi síðar en þremur mánuðum frá þeim degi sem lögbær yfirvöld láta fara fram mat samkvæmt i-lið 3. mgr. 1. gr. eða dómstóll fellir úrskurð samkvæmt ii-lið 3. mgr. 1. gr.

Á grundvelli  tilskipunarinnar og með vísan til hennar voru sett á Íslandi lög 98/1999 um Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta. Þar er m.a. þessi grein:

10. gr. Fjárhæð til greiðslu.
Nú hrökkva eignir viðkomandi deildar sjóðsins ekki til þess að greiða heildarfjárhæð tryggðra innstæðna, verðbréfa og reiðufjár í hlutaðeigandi aðildarfyrirtækjum og skal þá greiðslu úr hvorri deild skipt þannig milli kröfuhafa að krafa hvers þeirra allt að 1,7 millj. kr. er bætt að fullu en allt sem umfram er þessa fjárhæð skal bætt hlutfallslega jafnt eftir því sem eignir hvorrar deildar hrökkva til. Fjárhæð þessi er bundin við gengi evru (EUR) miðað við kaupgengi hennar 5. janúar 1999. Sjóðurinn verður ekki síðar krafinn um frekari greiðslu þótt tjón kröfuhafa hafi ekki verið bætt að fullu.
Hrökkvi eignir sjóðsins ekki til og stjórn hans telur til þess brýna ástæðu er henni heimilt að taka lán til að greiða kröfuhöfum.

Um þessa 2. mgr. 10. gr. laga 98/1999 stendur Icesave málið í reynd; þ.e. TIF hefur samið um lántöku til að greiða kröfuhöfum sjóðsins en þarf ríkisábyrgð til að lánið verði veitt - og það er sú ábyrgð sem Alþingi hefur samþykkt að veita, með fyrirvörum.

Þá er loks rétt að geta þess að Evrópudómstóllinn hefur aðeins einu sinni dæmt í máli á grundvelli tryggingatilskipunarinnar, þ.e. í hinu svokallaða "Peter Paul" máli sem átti uppruna sinn í Þýskalandi (C-222/02). Það sem máli skiptir í samhengi Icesave umræðunnar er að þýska ríkið var á fyrra dómstigi dæmt til að greiða innistæðueigendunum 20.000 EUR á grundvelli tilskipunarinnar, þrátt fyrir að Þýskaland hefði látið undir höfuð leggjast að lögleiða tilskipunina tímanlega og með réttum hætti (sjá 16. gr. dómsins).  Það reyndi sem sagt á það prinsipp að tilskipunin ein og sér myndar rétt hjá innistæðueiganda, þótt landslög hafi ekki fylgt á eftir.

Af ofangreindu má vera ljóst að keðja réttarheimilda er fyrir hendi.  Svo geta menn vitaskuld deilt um einstaka hlekki og hvort þeir eigi við eður ei í tilviki Icesave.  Og lög og pólitík eru ekki alltaf eitt og hið sama.  En það er of langt gengið að segja að það sé "enginn lagagrundvöllur" fyrir útgreiðslu innistæðutryggingar til allra innistæðueigenda Landsbankans, innlendra sem erlendra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Menn hafa sagt að það ríki ágreiningur um lagalega stöðu málsins og menn hafa sagt að samþykkt málsins geti sett sjálfstæði Íslands í hættu (Þorvaldur Gylfason, mbl. 1/1/2010.

Doddi D (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 16:57

2 identicon

Grein 7.1 í tilskipun 94/19/EC hljómar svona á ensku:

Article 7

1. Deposit-guarantee schemes shall stipulate that the aggregate deposits of each depositor must be covered up to ECU 20 000 in the event of deposits' being unavailable.

Hvaða orð myndir þú feitletra hér?

--------------------------

Annars hefur engum verið mismunað á grundvelli ríkisfangs. Bretar og Hollendingar sem áttu innistæður í útibúi Landsbankans við Austurstræti fá allt sitt tryggt í krónum en það er löng umræða og snertir ekki beinlínis það mál hvort ríkið eigi að ganga í ábyrgð fyrir lágmarkstryggingum.

Við margt fleira í þessari færslu mætti gera athugasemdir en ég læt þetta duga - a.m.k í bili.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 16:57

3 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Sæll Vilhjálmur. Ég sé ekkert um að ríkisábyrgð þurfi á fjármögnun Tryggingarsjóðsins. Það er einfaldlega krafa lánveitanda.

Eyþór Laxdal Arnalds, 10.1.2010 kl. 17:36

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég er ekki að reyna að efna til enn einnar rökræðunnar um túlkun laganna og reglnanna; það er búið að fara margoft yfir það og engin ástæða til að gera það einu sinni enn.  Tilgangur þessarar færslu er einfaldlega að halda til haga á einum stað þessari keðju réttarheimilda, að gefnu tilefni.

Hans, til að svara spurningunni: ég myndi feitlegra "shall" og "must be covered".

Eyþór, ríkinu ber að sjá til þess að fyrir hendi sé tryggingakerfi sem greiðir út trygginguna fljótt og vel (og því treysta innistæðueigendur), en því er í sjálfsvald sett hvernig útfærslan er, enda eru þær mismunandi milli landa.  Mér finnst það langsótt túlkun að þessari skyldu sé fullnægt með því að setja upp sjóð sem innihélt 1% innistæðna og að þar með sé tryggingarverndin upp talin.  En ég veit að þið félagar eruð á öðru máli; eigum við ekki bara að vera sammála um að vera ósammála.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.1.2010 kl. 18:02

5 identicon

Það er sérstaklega tekið fram að það sé ekki ríkisábyrgð á TIF. Það er líka fjallað um það að ef sjóðurinn getur ekki dekkað tjónið beri ríkinu að aðstoða hann með ráðum og dáð, en það er heldur ekki útfært nánar. Í Peter Paul gegn Þýska ríkinu er fjallað um hugsanlega skaðabótaskyldu yfirvalda og niðurstaða dómsins er sú að sé Innstæðutryggingasjóður fyrir hendi, myndist ekki skaðabótaskylda. Þetta er óljóst orðar, þannig að hægt er draga þá ályktun að þetta gildi aðeins ef lágmarksupphæð er dekkuð. En jafnvel það er ójóst.

Eftir stendur að málið er óljóst vegna margra samverkandi þátta. Svo sem að íslenska ríkið hefur orðið fyrir mörgum áföllum í einu, sem gera það að verkum að hægt er að vísa í neyðarrétt. Dírektívin eru afar óljóst orðuð. Enn fremur hafa aðilar málsins allir orðið berir að því að brjóta loforð, mismuna, beita hótunum og ofbeldi (sem áreiðanlega er ekki löglegt heldur). Þannig að málið er orðið sérstakt og þess vegna ber málsaðilum og draga andann djúpt, hætta hótunum og heitingum, verða ásáttir um að semja undir eftirliti alþjóðasamfélagsins og ná sanngjarnri og viðunandi niðurstöðu fyrir báða aðila. 

Doddi D (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 18:20

6 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Doddi, Peter Paul dómurinn fjallaði um hvort tilskipunin gæti orðið grunnur að frekari skaðabótaskyldu þýska ríkisins vegna vanrækslu, umfram 20.000 EUR lágmarkstrygginguna, og niðurstaðan var sú að það væri ekki.  En sá partur dómsins skiptir út af fyrir sig ekki máli í Icesave deilunni, sem snýst eingöngu um lágmarkstrygginguna (a.m.k. meðan menn eru að tala um samninginn sem nú er á borðinu; það er aldrei að vita hvert málið fer ef hann hverfur úr sögunni).

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.1.2010 kl. 18:33

7 Smámynd: Sveinn Tryggvason

Þrátt fyrir einbeittan vilja tel ég enganveginn að þér takist með útlistun á "keðju lagaheimilda" að rökstyðja það grundvallaratriði að ríkinu beri skylda til að ábyrgjast lán Tryggingasjóðs innstæðueigenda hér. Reyndar talar þú í niðurlagi um lagagrundvöll "fyrir útgreiðslu innistæðutryggingar". Það kann að vera rétt að innistæðueigendur eigi kröfu um útgreiðslu á sjóðinn en þá kröfu er ekki hægt að herma upp á ríkið og ég tel ekki þú hafir innistæðu fyrir þeirri fullyrðingu þinni í svari til Eyþórs Arnalds að ríkið beri ábygð á getu Tryggingarsjóðs til að greiða fljótt og vel. Sjóður með ca. 1% innistæðna er alveg sama fyrirkomulag og tíðkast víðast hvar annars staðar en slíkt fyrirkomulag er allstaðar jafn óöruggt. Neytendum/almenningi er alveg örugglega ekki gerður neinn greiði með því að óverðskulduðu trausti á bakakerfum heimsins sé viðhaldið með þessum hætti.

Sveinn Tryggvason, 10.1.2010 kl. 18:40

8 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Geir H. Haarde og Árni Mathiesen hafa þá verið illa úti að aka í desember 2008 þegar Alþingi samþykkti þingsályktun sem hefur verið grundvöllur samningaferilsins allar götur síðan, og innihélt m.a. eftirfarandi:

...er það mat ríkisstjórnarinnar að hagsmunum Íslands til lengri tíma litið sé best borgið með því að stjórnvöld styðji við Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta þannig að hann geti staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst af því að ábyrgjast lágmarkstryggingu þá sem EES-reglur mæla fyrir um að því marki sem eignir viðkomandi banka standa ekki undir henni.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.1.2010 kl. 18:48

9 identicon

Þakka afar góða grein.

Ég er ekki löglærður en eftirfarandi hef ég um málið að segja:

Þessi "keðja réttarheimilda" er afar umdeilanleg, og þar eigum við Íslendingar okkur margvíslegar málsbætur, eins og t.d. þær að dírektívið gildir einungis um fall einstakra banka en ekki þegar um kerfishrun er að ræða eins og sannarlega varð hér á landi.

Þá verður heldur ekki betur séð en að allir innistæðueigendur njóti "verndar sama tryggingarkerfis" þó íslenska ríkið hafi tekið það upp hjá sjálfu sér að vernda til viðbótar allar innistæður í bönkum á Íslandi til að halda efnahag landsins gangandi.

Í þessu sambandi er svo mikilvægt að átta sig á því, að ríkið á enga aðild að innistæðutryggingasjóðnum og er því í rauninni ekki að mismuna nokkrum manni á grundvelli dírektívsins þó það lýsi yfir að allar innistæður á Íslandi séu tryggðar.

Þú segir að Icesave málið snúist í rauninni um 2. mgr. 10. gr. laga nr. 98/1998 þar sem fjallað er um HEIMILD innistæðutryggingasjóðsins til að taka lán. Í þessu ákvæði kemur að mínum dómi einna best fram hversu skammt dírektívið nær og verður fyrir vikið að telja að hér beri ESB sjálft nokkra ábyrgð.

Varðandi dómsmálið sem þú nefnir til sögunnar læt ég nægja að vísa til athugasemda Dodda hér að ofan, en hann segir að ekki myndist skaðabótaskylda af hálfu ríkisins sé innistæðutryggingasjóður fyrir hendi eins og var hér á landi.

Að öllu samanlögðu sýnist mér sem íslenska ríkinu beri ekki á nokkurn hátt að gangast í ábyrgðir fyrir innistæðutryggingasjóðinn nema það auðvitað kjósi það sjálft.

Hrímfaxi (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 19:01

10 identicon

Það er rétt að þeir Geir Haarde og Árni Matt voru alvarlega úti að aka í des. 2008 og ekki bara í þeim mánuði. Ríkisstjórnin sem nú situr hefur hins vegar að sama skapi verið alveg úti í móa og fyrri afglöp, þegar menn voru satt að segja ekki í standi til að taka nokkrar ákvarðanir og hefðu átt að vera farnir frá völdum fyrir löngu, réttlæta ekki afglöp þessarar ríkisstjórnar.

Hrímfaxi (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 19:10

11 identicon

Vilhjalmur, "you are running around blind and naked without a cane Pal"....Eftir á að hyggja þá hafði Herra Ólafur Ragnar rétt fyrir sér og í raun lagði allt undir sem margir hefðu aldrei þorað að gera, en hann hefur greinilega verið búinn að ráðfæra sig við þá alþjóðlegu fjármálamenn og hagfræðinga sem hann þekkir eins og td Jeffrey Sachs og Steve Schwartsman áður en hann tók þessa dramtísku ákvörðun sem sendi okkur til helvítis í 6klukkutíma en svo var okkur kastað þaðan beint til himnaríkis. Nú þarf nýtt samningateymi og byrja á "square one". Tímapuntkurinn hefur ekki verið betri en núna til að semja, alþjóðapressan virðist styðja okkar málstað og meira að segja er tryggingarinnistæðukerfið í evropu farið að hökkta útaf þessu máli. Það kemur mér ekki á óvart að ESB löndin séu núna að setja mikla pressu á Holland og Bretland um að semja við okkur asap til að forðast skaðann sem gæti orðið á Evropska tryggingarinnistæðukerfinu á næstu dögum/vikum. Gott dæmi um það sem er að gerast í þessu máli okkar er hér að neðan í grein  írska independant. Ákvörðunin hefur verið tekin, tækifærið til nýrra saminga er hér en stóra spurningin er hvort Samfylkingin ætli að halda áfram að styðja íslensku samninganefndina sem allir hafa misst trúnna á?

http://www.independent.ie/opinion/columnists/david-mcwilliams/david-mcwilliams-iceland-shows-importance-of-putting-people-before-banks-2000578.html

ragnar (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 19:31

12 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Það kemur reyndar ekki fram í 2. mgr. 10. gr. laga 98/1999 að slíkt lán hafi ríkisábyrgð - eða, ríkinu beri að láta það hafa ríkisábyrgð.

Á hinn bóginn, ber ríkinu þó sennilega að leita allra sanngjarnra leiða, til að tryggja TIF fjármagn.

Þá, er það spurningin, hvað telst innan þess sanngjarna ramma.

-------------------------------------------

Varðandi dóm Evrópudómstólsins, þá má færa rök fyrir því, að Ísland sé í neyðarástandi - þá vitna ég til neyðarréttar ríkja skv. grunnlögum ESB. Taka verði því mið af því neyðarástandi, þ.s. neyðarástand getur talist skv. lögum/reglum ESB til að víkja til hliðar hlutum af regluverki ESB, ef sú aðgerð þjónar þeim tilgangi, að verja grundvallar hagsmuni viðkomandi ríkis.

Þetta neyðarástand skapaðist við hrun bankakerfisins, og síðan að auki er byrtingarmynd þess mjög erfið skuldastaða landsins; sem verður að skoðast á allra tæpasta vaði.

Þ.s. ég er að gefa í skyn, að málið verði að meta útfrá forsendum neyðarréttar, sem sagt því, hvort einfaldlega gerlegt er að standa undir slíkum skuldbindingum, án þess að grunhagsmunum sé ógnað.

Ég get einnig bent þér á Mischon De Reya - sem fjalla um Directive 94/19 - og þeirra svar um þetta case/dómsmál er á bls. 57 - 58 - 59.

http://www.althingi.is/pdf/umsogn.php4?lthing=138&malnr=76&dbnr=835&nefnd=fl

Samkvæmt þeirra túlkun, er hægt að túlka dómsorðið á 2 vegu, sem séu algerlega "consistent" við orðalagið.

Önnur túlkunin er sú, að ríki beri ábyrgð á sjóðunum.

Hin túlkunin, er sú að einungis beri að stofna slíka sjóði.

Kv.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 10.1.2010 kl. 19:44

13 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Geir og Árni (og Ingibjörg Sólrún) voru ekki út á þekju þegar þau samþykktu þessa Þingsályktun í Desamber 2008, í niðurlagi hennar er efifarandi:

"""

UMSAMIN VIÐMIÐ

1. Ríkisstjórn Íslands hefur átt viðræðufundi með stofnunum Evrópusambandsins og hlutaðeigandi aðildarríkjum þess um skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið að því er tekur til tilskipunar um innstæðutryggingar 94/19/ EBE. Aðilar komu sér saman um að tilskipunin um innstæðutryggingar hafi verið felld inn í löggjöfina um Evrópska efnahagssvæðið í samræmi við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og gildi því á Íslandi með sama hætti og hún gildir í aðildarríkjum Evrópusambandsins.

2. Viðurkenning allra aðila á þessari lagalegu stöðu greiðir fyrir skjótri niðurstöðu samningaviðræðna þeirra sem nú standa yfir um fjárhagsaðstoð við Ísland, þ.m.t. við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þessar samningaviðræður skulu fara fram með samhæfðum og samræmdum hætti og skal þar tekið tillit til hinna erfiðu og fordæmislausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt.

3. Stofnanir Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins munu taka áframhaldandi þátt í þessu ferli sem fer fram í samráði við þær.

"""

Þetta er það sem skiptir máli í þessara ályktun og gerir lagalega stöðu okkar samkvæmt tilskipun 94/19/EC að lykilbreytu í öllu öðru í textanum.

Þetta hef ég bent á áður og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur haldi þessu stíft fram að undanförnu.

Guðmundur Jónsson, 10.1.2010 kl. 20:02

14 Smámynd: Sigurbjörn Sveinsson

"4. gr. Hvers konar mismunun á grundvelli ríkisfangs er bönnuð á gildissviði samnings þessa nema annað leiði af einstökum ákvæðum hans."

Hverjum var mismunað með neyðarlögunum? Viljum við láta prófa neyðarlögin lagalega að þessu leyti?

Sigurbjörn Sveinsson, 10.1.2010 kl. 20:55

15 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Góð samantekt.

Þess má geta að, í mjög stuttu máli, þá má segja að skaðabótaskylda Ríkja sé bara sjálfvirk samkv. lögum er ísland hefur undirgengist.

Búið er að veita einstaklingum, þ.e. innstæðueigendu ákv. rétt.  Það feilar að þeir fái umræddan rétt.  Og þetta er bara nóg !  Þýðir = Ríkið skaðabótaábyrgt.

Menn eru að vanmeta svo EES samninginn almennt í þessu.  Td. má sjá að Hjörleifur Guttormsson fv. Alþingismaður og Ráðherra veit þetta alveg.

Það eru nú fáir íslendingar sem þekkja eins vel EES samninginn og hann Hjörleifur. Frægt varð að endemum er EES samningurinn var samþykktur að – þá las Hjörleifur allan samninginn og öll fylgigögn þeim samningi viðkomandi ! Það komst nú í annála á sínum tíma. Hjörleifur mælir á bloggi sínu svo:

“Sú ótrúlega staða að einkabankar geti stofnað til skuldbindinga í útlöndum sem leiði til endurkröfu á íslenska ríkið á rætur í EES-samningnum…”
http://hjorleifurg.blog.is/blog/hjorleifurg/

Taktu eftir þessu: “stofnað til skuldbindinga í útlöndum” og “sem leiði til endurkröfu á íslenska ríkið”

Ómar Bjarki Kristjánsson, 10.1.2010 kl. 21:55

16 identicon

Ætli Alain Lipietz viti ekki betur um framangreindar reglur um innistæðutryggingar en við allir. Eru allir erlendu leiðararnir og talsmenn sem hafa verið að taka stöðu með Íslandi vita heimskir og kvartvitar þegar kemur að þessari evrópulöggjöf !?

Er ekki hægt að fara að ræða málin óháð pólitískum línum. Held að það sé forsenda þess að hlutirnir fara að "rúlla" af stað hér á Íslandi. Eilífur pólitískur skotgrafahernaður skilar engu.

Sannleikurinn í þessu Icesave máli hlýtur að liggja einhvers staðar á milli þessara tveggja póla sem er augljóst að menn eru búnir að steita atgeir sínum í. Eitthvað þarf efaust að borga.

Höfum við gert okkar allra besta við að ná samningum í þessu Icesave máli ? Dæmi hver fyrir sig.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 22:28

17 identicon

Björn. Spurðu þennan:



Uppreisn, verði kröfur samþykktar

Uppreisn, verði kröfur samþykktar
Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna

Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri grænna, segir að það verði gerð uppreisn hér á landi verði gengið að kröfum Breta og Hollendinga um að Íslendingar greiði 600 milljarða króna vegna Icesave-reikninganna.

Pétur Blöndal sagði í hádeginu í dag að einungs fjárkröfur Breta og Hollendinga væru margfalt hærri en þær stríðsskaðabætur sem Þjóðverjar voru neyddir til að greiða í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Grófir útreikningar bendi til þess að þær hafi numið um einni milljón króna á hvern Þjóðverja. Þær lögðust þungt á þýskt efnahagslíf, verðbólgan magnaðist og atvinnuleysir jókst gríðarlega.

Steingrímur segir, eins og Pétur, að Íslendingar eigi að spyrna gegn kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem gera ráð fyrir að gjaldeyrislán sé háð því að samið verði við Breta. Íslendingar hafi uppfyllt allar lagalegar skyldur og tilskipanir Evrópusambandsins um innlánstryggingarkerfi. Íslendingar eigi ekki að láta undan kröfum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins því þeim beri ekki skylda að greiða tapið vegna Icesave-reikninganna.

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item233100/

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 22:42

18 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

"Ætli Alain Lipietz viti ekki betur um framangreindar reglur um innistæðutryggingar en við allir"

Greinilega ekki betur en ég, því eg veit það ósköp vel að með innleiðingu Rammalaganna um innstæðutryggingar á EES svæðinu - er Ísland aðili að nákvæmlega sömu skilyrðum þar að lútandi og önnur ESB-Ríki !

Þar inní fléttast svo ábyrgð og afleiðingar saman við EES samninginn eftir atvikum.

Það heitir EES svæði.   Halló !  Vakna !  EES svæði er ESB + EFTA ríki.

Hinnsvegar talaði frakkinn eins og hann hefði aldrei heyrt minnst á EFTA/EES.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 10.1.2010 kl. 22:48

19 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Bendi þér á Björn að Lipietz sagðist ekki ef ég tók rétt eftir hafa komið að tilskipun um innistæðutrygginar frá 1994 heldur einhverri annari tilskipun um ábyrgð heimaríkis banka og svo aftur útibúa hans ef að það væru bankar utan EES.  En ef þú kynnir þér þennan mann þá er hann þingmaður á Evrópuþinginu fyrir græningja og er hagfræðingur sýnist mér. Held að þó vitnað væri í hann þá mundi það gagnast okkur lítið sem rök í dómsmáli.

En ég tek undir spurningu þína

Höfum við gert okkar allra besta við að ná samningum í þessu Icesave máli ? Dæmi hver fyrir sig.
Þess vegna undrast ég að Sigumundur Davíð sagði í kvöld að hann vildi ekki gefa upp í fjölmiðlum hvað ásættanleg niðurstaða væri. Hvernig ætlast menn til að menn fari að spila eins konar áhættu spil með hagsmuni þjóðrainnnar án þess að geta sagt okkur markmiðið með því. VIð vitum nokkuð vel hvernig staðan verður ef við göngum að þessum samningi en ekkert um hvað skeður ef við fellum hann og förum í hart.

Magnús Helgi Björgvinsson, 10.1.2010 kl. 22:52

20 identicon

Tel að það sé sanngjarnast fyrir okkur og Breta og Hollendinga að við semjum um ákveðna skilgreinda upphæð sem greidd verður til baka með ákveðnum vöxtum.

Tel vafasamt að láta óvissu um árangur úr sölu á eignum LÍ lenda algjörlega okkar meginn.

Nokkuð viss um að Bretar og Hollendingar væru vel til umræða um þessa nálgun. Takist þetta og upphæðin yrði í samræmi við efnahagsáætlunina þá er stór óvissa fallin úr gildi. Í annan stað höldum við andlitinu.

Hvað verður þá um eignir LÍ ? Augljóst. Þessi nálgun gefur Íslendingum hins vegar færi á að létta á þeirri þvingum sem er augljóslega á sölu á eignum LÍ í náinni og fjarlægri framtíð. Það á ekki að tengja sölu eigna LÍ við heimtur úr Icesave.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 23:16

21 identicon

Tek eftir að sumir eru tíunda það enn og einu sinni að innistæðutilskipunin eigi ekki við um Icesave vegna þess að hún tryggi bara hrun einstakra banka en ekki hrun kerfisins alls. Nú vill bara svo til að einmitt það er málið hér, Tryggingasjóður innistæðueiganda þarf bara að greiða innistæður eins banka, Landsbankans, - hinir hrunbankarnir borga sjálfir úr eignasafninu og meira að segja búnir að gera upp erlendis. Svo þau rök halda nú ekki einu sinni þó séu tekin gild.

Kjartan Rolf Árnason (IP-tala skráð) 10.1.2010 kl. 23:22

22 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Varðandi Alain Lipietz þá er það misskilningur að hann hafi eitthvað komið nálægt samningu tilskipunar 94/19/EC.  Enda er það kýrskýrt í þeirri tilskipun að það sé heimalandsins (Íslands) að fylgjast með gjaldhæfi banka og útibúa þeirra jafnt innan sem utan heimalandsins.  Lipietz var hins vegar "shadow rapporteur" við gerð annarrar tilskipunar um fjármálaeftirlit (financial supervision) gagnvart bankaútibúum innan og utan heimalands, sem mér sýnist helst að kunni að hafa verið tilskipun 2002/87/EC, án þess að vera viss.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.1.2010 kl. 23:26

23 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Björn Kristinsson: Tel að það sé sanngjarnast fyrir okkur og Breta og Hollendinga að við semjum um ákveðna skilgreinda upphæð sem greidd verður til baka með ákveðnum vöxtum.

Afskaplega var þetta nú spakt innslag. Ég segi nú ekki annað.

Jón Steinar Ragnarsson, 10.1.2010 kl. 23:32

24 Smámynd: Einar Guðjónsson

Þetta er allt rétt sem fram kemur hjá þér Vilhjálmur. Á Eskifirði hefur öllum verið greitt

út, allt sem þeir áttu og sennilega velflestum í Lundúnaútibúinu. Greiðslur til innistæðueigenda í Lúndúnaútibúinu komu úr Breska fjármálaráðuneytinu enda töldu þeir sig geta treyst  Neyðarlögunum. Á grundvelli þeirra og til að koma í veg fyrir algjört vantraust á bankakerfið í landinu. 

Einar Guðjónsson, 10.1.2010 kl. 23:47

25 identicon

Takk fyrir Vilhjálmur að halda þessu til haga. Menn fara nú á súðum eftir Silfur Egils og þykjast hafa fengið staðfestu fyrir því að íslenska ríkinu beri alls ekki að skuldbinda sig eitt eða neitt.

Vandinn er hins vegar sá að íslenska ríkið hefur þegar skuldbundið sig. Alþingi hefur gert það með þingsályktun 5. desember 2008, alþingi hefur sömuleiðis gert það tvívegis með því að veita ráðherra heimild með lögum til að skrifa upp á ríkisábyrgð. Síðari lögin eru enn í gildi. Ráðherra og þáverandi seðlabankastjóri (DO) skrifuðu líka upp á þetta í yfirlýsingu gagnvart AGS 2008.

Hvað sem úrslitum þjóðaratkvæðagreiðslu líður, þá verður eftir sem áður að semja um skuldina. Um það eru þrír stærstu stjórnmálaflokkarnir sammála.

Fyrir dómstólum jafngildir þetta játningu og lagaúrræðin því engin hvað sem þusa um annað. Þessi umræða er því úti á víðavangi. Það er gaman að láta sig dreyma, en alvara lífsins og þjóðarhagsmunir liggja við að lýðskrumarar taki hér ekki ráðin.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 00:06

26 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Dírektív 19/94/EC segir eftirfarandi..

Article 6

1. Member States shall check that branches established by a credit institution which has its head office outwith the Community have cover equivalent to that prescribed in this Directive.

Failing that, Member States may, subject to Article 9 (1) of Directive 77/780/EEC, stipulate that branches established by a credit institution which has its head office outwith the Community must join deposit-guarantee schemes in operation within their territories.

--------------------------------------

Það má velta fyrir sér þíðingu þessa ákvæðis.

En Alain virðist telja að þetta eigi við Ísland.

Á þessari stundu, tek ég ekki afstöðu til þess atriðis, einfaldlega sendi þetta inn til að fá viðbrögð.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 11.1.2010 kl. 00:10

27 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ómar: Hvaða skuldbindingu var skrifað undir hjá AGS?  Því var lofað að leiða málið til lykta, svo hægt væri að gera raunhæfa áætlun fyrir landið. Ekki andað einu orði um það hvernig, enda er það ekki hlutverk AGS að segja mönnum til um það, þótt þeir beit allskyns lymskubrögðum til að vinna Bretum, hollendingum og banksterunum gagn.  T.d. með að stökkva á milli lánavilyrða og sameina þau sínum "lánapakka", svo þeir haldi nú kverkatakinu einir.

Auðvitað þarf að semja um skuldina. Það er hinsvegar alls óljóst hverjar forsendurnar verða enn. Ekkert, allt eða eitthvað.  Bretar lögðu út fé til að verja banka sína áhlaupi og ákváðu svo einhliða að það héti lán til tryggingasjóðs í eigu bankanna.  Vitandi að enginn tryggingasjóður stendur undir svona skelli, þá heimta þeir að ríkið ábyrgist lánið.  Til þess hafa þeir engan lagalegan rétt að séð verður og því hafa menn talað um dómstólaleiðina til að skera úr um það.  

Af hverju heldur þú að þeim liggi þessi ósköp á? Heldurðu að það sé vegna þess að þeim vanti þessa peninga?

Jón Steinar Ragnarsson, 11.1.2010 kl. 00:21

28 identicon

Hvaða heimildir hefurðu fyrir þessari fullyrðingu þinni "Varðandi Alain Lipietz þá er það misskilningur að hann hafi eitthvað komið nálægt samningu tilskipunar 94/19/EC." ?  Og ef rétt reynist er hann þá ekki fær um að skilja lögin, eins og td. þú, -  sem hlýtur þá að hafa unnið við lagasmíðarnar miðað við hrokann sem skín í gegn í þessum varnaraskrifum þínum fyrir Samfylkinguna? 

http://altice.blog.is/blog/altice/entry/1003596/

Legg til ef þú ert maður nógur að bregða þér út úr bloggvirkinu og rökræðir við þann sem hefur skrifað í fjölmiðla ýmislegt um tilskipan 94/19/EC, og fjallað nákvæmlega um þá niðurstöðu sem meintur höfundurinn setti fram í Silfri Egils, hver væri raunveruleg meining reglugerðarinnar.  En vissulega veit Samfylkingin mikið betur.  Gömul saga og ný.  Þar eru alfræðingar á öllum stöðvum og eru sendir á loft með fagnaðarboðskapinn.

Samfylkingin ku ekki hafa komið nærri reglugerðasmíðunum og enginn Vilhjálmur frá Íslandi finnst á kreditlistanum heldur.  Hlakka til þegar þú lætur skærrautt samfylkingarljósið skína hjá hinum heiðbláa Lofti, sem vissuleg er ekki alfræðingur og ætti þess vegna að vera auðveld bráð þegar að þessum málum kemur.  Hlakka til að sjá þig leiðbeina og leiðrétta gamla drekann. (O:

Vandamál Íslendinga er ekki óbilgirni Bretar og Hollendinga.  Vandamál Íslendinga er óbilgirni og forheimska forystumanna Samfylkingarinnar.

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 00:33

29 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Takk fyrir góða færslu eins og vanalega

Hólmfríður Bjarnadóttir, 11.1.2010 kl. 00:41

30 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Það er undarleg árátta hér á blogginu að kalla þá heimska sem ekki eru sammála. Slíkt orðbragð kalla ég hreinann dónaskap og tel það fólk alvarlega rökþrota sem þannig skrifar. Lokaði minni síðu fyrir einum bloggar vegna þannig orða sem sá hinn sami var ekki tilbúinn að biðjast afsökunar á.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 11.1.2010 kl. 00:45

31 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Hérna geta menn td. byrjað á að kynna sér EES samninginn og unnið sig útfrá því.

Svona skilgreinir Utanríkisráðuneytir td. tilskipun eða rammalög (directives)

"Tilskipanir beinast eingöngu að ríkjum. Þær eru hugsaðar þannig að eingöngu markmið þeirra er bindandi. Að þessu leyti svipar tilskipunum til hefðbundinna milliríkjasamninga.

Aðildarríkjum er frjálst að velja hvernig því markmiði er náð. Þetta er gert með því að hrinda tilskipuninni í framkvæmd með innlendum lögum eða stjórnvaldsreglum.

Þær kveða oftast á um ákveðinn ramma eða lágmarkskröfur sem verður að uppfylla. Stundum er þó tilskipun svo nákvæmlega orðuð að gefið er lítið eða ekkert rúm til ákvörðunar. Verður þá að lögtaka hana óbreytta að mestu.

http://www.utanrikisraduneyti.is/samningar/ees/EESUndir/nr/607

Sjáiði til, "markmið tilskipanna"

Hvert er markmið directives 94/19.   Koma upp tómum sjóði  ?  Nei.  Langt frá því.

Markmið direktífs 94/19 er að veita innstæðueigendum rétt til lágmarksbóta ef á reynir.  Þetta er lagalegur réttur !  Þetta er bara eins og milliríkjasamningur !

Alþjóðlegar skuldbindingar etc.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.1.2010 kl. 00:51

32 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Guðmundur, ég hef manninn bara sjálfan fyrir því, hann sagði þetta sjálfur í Silfri Egils og svo kemur í ljós ef maður skoðar bloggið hans að hann var ekki kosinn á Evrópuþingið (sem þingmaður Græningja) fyrr en löngu eftir 1994.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.1.2010 kl. 01:07

33 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Annars þurfa menn ekki að æsa sig svona, þessi bloggfærsla er ósköp einföld samantekt á þeim laga- og reglutextum sem um málið gilda, það er bara óumdeilanleg staðreynd.  Svo geta menn haft mismunandi skoðanir á túlkuninni, það er mér að meinalausu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.1.2010 kl. 01:08

34 identicon

Ómar Harðarson. 

Mikið óskaplega hlakka ég til þess dags þegar almenningur opnar augun fyrir hversu stjórnmálaflokkarnir leika sér að ljúga að þeim og koma fram við eins og um hálfvita væri að ræða.

Sigurður Líndal lagaprófessor skýrir ma. málið sem þú hefur fengið ósanna kynningu á, fyrir gamalli spunakerlingu samfylkingarinnar í upplýsandi grein þegar hann var búinn að fá nóg af lygunum sem höfðu frá honum komið varðandi Icesave málið:

1)  "Ef Ísland hefði tekið á sig ábyrgð með hinum umsömdu viðmiðum hefði þá þurft að gera sérstakan samning um  ríkisábyrgð 5. júní 2009 sem undanfarið hefur legið fyrir Alþingi?"

2) "Nú liggja fyrir fjölmargar yfirlýsingar forvígismanna Íslendinga um stuðning við tryggingarsjóð, nánar tiltekið að aðstoða sjóðinn við að afla nauðsynlegs fjár – meðal annars með lántökum – svo að hann geti staðið við skuldbindingar um lágmarkstryggingu innistæðna. Ef orð kynnu að hafa fallið á annan veg, geta þau ekki fellt ábyrgð á ríkissjóð, þar sem slík ábyrgð verður að hljóta samþykki Alþingis. Í mikilvægum milliríkjaviðskiptum er gengið úr skugga um umboð og réttarstöðu viðsemjenda, þannig að þetta hefur bæði Hollendingum og Bretum verið ljóst. Reyndar skiptir grandleysi ekki máli – slíkt loforð er ekki bindandi."

3) "En ef Jóni Baldvini er annt um sjálfsvirðingu sína, ætti hann að gefa orðum sínum gaum. Með ummælum um bindandi yfirlýsingar íslenzkra ráðamanna um ríkisábyrgð – þótt hann hafi ekki fundið þeim stað – er hann að saka þá um að virða ekki stjórnarskrána. Ríkisábyrgð hlýtur að fylgja lántaka og fyrir henni verður væntanlega setja tryggingu og til þess þarf samþykki Alþingis, sbr. 40.-41. gr. stjórnarskrárinnar, sbr einnig 21. gr. Ráðherra sem hefði gefið yfirlýsingu um stórfelldar fjárhagsskuldbindingar með ábyrgð íslenzka ríkisins án fyrirvara um samþykki þingsins kynni að baka sér ábyrgð samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð og verða stefnt fyrir Landsdóm. Jón Baldvin er með orðum sínum að saka forystumenn Íslendinga, þar á meðal ráðherra um stórfelld lögbrot. Þrátt fyrir það að vera ekki bindandi er augljóst að slíkar yfirlýsingar hefðu skaðað íslenzka ríkið."


http://www.pressan.is/pressupennar/lesa_Sigurd_Lindal/ur-thrasheimi-stjornmalamanns 

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 01:10

35 identicon

Stundum finnst manni að lestrarkunnáttu sé verulega ábótavant eða þá að menn lesa ekki tekstann heldur bara nafn höfundar og telja sig vita hvað hann er að segja. Vilhjálmur segir hvergi að directívið kalli á ríkisábyrgð. Hann segir að það sé "of langt gengið að segja að það sé "enginn lagagrundvöllur" fyrir útgreiðslu innistæðutryggingar til allra innistæðueigenda Landsbankans, innlendra sem erlendra." og hann segir ennfremur "TIF hefur samið um lántöku til að greiða kröfuhöfum sjóðsins en þarf ríkisábyrgð til að lánið verði veitt - og það er sú ábyrgð sem Alþingi hefur samþykkt að veita, með fyrirvörum."

Nú hafa allir flokkar á þingi sagt að TIF eigi að borga. Til þess þarf TIF lán og það lánar þeim enginn án ríkisábyrgðar = engin ríkisábyrgð=ekkert lán= engin borgun= hvað þá? Engar lausnir duga aðrar en þær sem Bretar og Hollendingar samþykkja.

stefan benediktsson (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 02:12

36 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta er mjög góð og þörf samantekt.

Það er hinsvegar áveðið og meðvitað raðsvindl í gangi hjá Sjálfstæðismönnum og fv. foringja þeirra. Hér voru alla tíð starfandi 3 stórir bankar og nokkrir miklu minni sparisjóðir sem samanlagt náðu ekki einum hinna þriggja, þannig að einn banki gat verið með frá 20-40% af innlánum. Nú eftir hrun þarf sjóðurinn svo samt aðeins bæta hluta innistæða í einum einast banka þ.e. Icesave-innistæður Landsbankans þar sem með neyðarlögunum allar aðrar innistæður voru gerðar að forgangskröfum og fluttar beint í nýju bankana. - Sjóðurinn er því ekkert að glíma viðkerfishrun heldur aðeins vanda eins einasta banka. - Samt átti hann ekki baun í bala uppí tjónið.

Með leiðbeiningu/tilskipun ESB nr 19 1994 var okkur gert að setja upp tryggingakerfi en eins og gildir með leiðbeiningar/tilskipanir ESB er aðildarríkinu frjálst að úfæra sína útgáfu af þeim í þeim tilgangi að uppfylla markmið leiðbeiningarinnar/tilskipunarinar. - Það gerði Davíð og co með kerfi sem aðeins þurfti að greiða í ef kerfið átti ekki 1% af innlánum og þá aðeins svo ölítð brot af innlánum að vart gat nokkru sinni fyllt 1% af öllum innlánum. - Þetta var svo augljóst að útilokað er að menn hafi ekki gert sér grein fyrir þessu við lagasetninguna (það er ekki ESB sem bjó til 1% viðmiðið heldur Davíð) - Svo skyldi bara sagt ef eitthvað gerðist „Sorrrrrý! - við uppfylltum leiðbeiningu/tilskipun ESB eins og krafist var en eigum bara ekki meira í sjóðnum.“

Með sama hætti er leikur Sjálfstæðismanna nú eftir að Davíð tók að skipta sér af aftur:

„Að sjálfsögðu viljum við að Ísland uppfylli allar ICESAVE-skuldbindingar sínar - Ha borga? - nei okkur ber ekki að borga neitt og ekki meira en til var í sjóðnum - Sorrrrrý!“

- Þar sem menn áttu augljóslega að geta séð að 1% sjóður gat aldrei tryggt innstæður á neinum Íslenskum banka vegna smæðar okkar og hlutfallslegrar stærðar bankanna hefði átt að semja um heildar aðild að tryggingakerfi og eftirlit annars lands, t.d. Bretlands, eins og íslensk tryggingfélög kaupa endurtryggingu hjá miklu stærri tryggingafélögum sem starfa á heimsmarkaði.

Helgi Jóhann Hauksson, 11.1.2010 kl. 02:46

37 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hér er mikil umræða, sem ég er rétt rúmlega hálfnaður að þæfa í gegnum, – var að uppgötva þennan þráð núna eftir fjarveru í dag. Sjálfur hygg ég Alain Lipietz, Evu Joly og m.a.s. Michael Hudson hafa verið afar sannfærandi í Silfri Egils í dag, en mig langar að auki að benda á þrennt, sem á að vera alger frágangssök fyrir Icesave2-lögin í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem við vonandi fáum:

1. Vextirnir virðast beinínis glæpsamlegir, þ.e.a.s. mjög alvarlegt lögbrot. Nú hafa Icesave-sinnar hér á síðunni ákallað jafnræðisreglur EES til að reyna að rökstyðja það, að við verðum að borga Icesave-reikningana vegna þess að tekin var ákvörðun um það með neyðarlögunum að borga út allar almennar innistæður hér á landi (og nefndir Icesavelaga-verjendur taka ekki mark á mótrökum eins og þessum frá Hans Haraldssyni, 10.1. kl. 16:57). En sömu aðilar – og þó umfram allt fulltrúar Breta og Hollendinga í samninganefndunum – mættu þá líka taka mark á þeirri ábendingu dr. Daniels Gros hagfræðings, að jafnræðislög Evrópubandalagsins og EES voru brotin með 5,55% vöxtunum, því að Bretar höfðu þegar veitt sínum eigin innistæðu-tryggingasjóði lán með 1,5% vöxtum! (sjá hér: Enn um Icesave-vexti: Í yfirgangi sínum brjóta Bretar lög um jafnræði í EES: snuða okkur um (185 til) 270 milljarða fyrstu sjö árin! og þessa grein á sama vefsetri Kristinna stjórnmálasamtaka: Það skeikar hundruðum milljarða í Icesave-vaxtaútreikningum fjármálaráðherrans!).

2. Þar að auki voru efnahagslegu fyrirvararnir í fyrri Icesave-lögunum teknir úr sambandi í þeim síðari hvað vextina varðar: ekkert þak verður á vaxtaupphæðunum, þannig að þær geta vel orðið 40 milljarðar á ári hverju (meira þó, ef gengið fellur), en hefðu skv. lögunum frá 28. ágúst (sem forsetinn staðfesti 2. sept.) getað orðið þrefalt til fjórfalt minni á ári. Já, þetta er sannarlega frágangssök fyrir þessi ólög!

3. Svo ganga Bretarnir í eignasafn Landsbankans með þeim hætti, að forgangskröfurnar (vegna innistæðna upp að 20.887€) fá ekki að njóta síns eðlilega forgangs, heldur slengja Bretarnir sinni dólgslegu kröfu (til innistæðna umfram þá upphæð) inn á borðið, til jafns við forgangskröfurnar! Þetta veldur því, að eignasafnið nýtist ekki nema að rúmum helmingi til að ganga upp í forgangskröfurnar – það sem eftir er hirðir brezka ríkið til að fá fyrir þeim hærri fjárhæðum, sem þeir greiddu ríkustu Icesave-innistæðueigendum (og gerðu það upp í topp).

Ein aths. hér að auki:

Ómar Harðarson (kl. 0:06) segir: "Vandinn er hins vegar sá að íslenska ríkið hefur þegar skuldbundið sig. Alþingi hefur gert það með þingsályktun 5. desember 2008, alþingi hefur sömuleiðis gert það tvívegis með því að veita ráðherra heimild með lögum til að skrifa upp á ríkisábyrgð. Síðari lögin eru enn í gildi. Ráðherra og þáverandi seðlabankastjóri (DO) skrifuðu líka upp á þetta í yfirlýsingu gagnvart AGS 2008."

Klárum þetta síðasta fyrst: Seðlabankastjóri hefur ekkert vald yfir fjárlögum okkar né skattheimtu á borgarana – stjórnarskráin tryggir, að það vald er allt í höndum Alþingis. Ráðherra hefur heldur ekki slíkt vald.

Íslenzka ríkið skuldbatt sig ekki til neinna GREIÐSLNA með þingsályktun Alþingis 5. desember 2008, heldur að vinna að lausn málsins og þá í samræmi við Brussel-viðmiðin, sem greinilega var ekkert farið eftir 30. des. 2009 (í Icesave2-lögunum), m.a. af því að skuldastaða ríkisins hafði stórum versnað í millitíðinni frá Icesave1-lögunum, án þess að þess sjái nokkurn stað í þeim síðari – heldur þvert á móti!

Bæði fyrri og síðar lögin eru pólitískar "lausnir", ekki byggðar á lagaskyldu né jafnvel á lagaheimild (sbr. HÉR), heldur á hótunum og ógnunum viðsemjendanna, eins og mörg vitni eru um, og slíkir nauðungarsamningar eru ekki bindandi.

Svo eru fyrri Icesave-lögin óvirk, af því að Bretar og Hollendingar hafa ekki tekið tilboðinu með því að uppfylla stranga skilmála þeirra: að samþykkja alla fyrirvarana. Raunar eru einnig þessi lög að engu hafandi, af því að þau brjóta stjórnarskrána (sbr. m.a. HÉR) og af fleiri ástæðum.

Síðari lögin eru EKKI í gildi hvað varðar ríkisábyrgðina, sbr. HÉR!

Lifið heil, og þjónið landinu! Verum sammála um þetta markmið: að krefjast ýtrasta réttar fyrir þjóðina og börn okkar.

Jón Valur Jensson, 11.1.2010 kl. 03:28

38 identicon

Í framhaldi af athugasemd Kjartans Rolfs @23.22 vil ég nefna, að þó Tryggingasjóðurinn þurfi einungis að koma að gjaldþroti eins banka þá þarf það ekki að merkja að ekki hafi orðið kerfishrun. Gleymum ekki HEIMILD sjóðsins til að taka lán. Hver á t.d. að bakka upp þá lánveitingu ef enginn er aflögufær vegna þess að allir sem að sjóðnum standa með einhverjum hætti eru ekki færir um það. Er það ekki til marks um að heilt kerfi hafi gengið úr skorðum og hrunið? Mér sýnist skilgreining fjármálaráðherra á kerfishruni, sem Kjartan augljóslega hefur í huga, einfaldlega vera enn ein tilraunin til að réttlæta landráðasamninginn.

Hrímfaxi (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 07:45

39 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Sæll Vilhjálmur.

Við erum alls ekki sammála, en eitt verð ég þó að segja þér til hróss.

Flestir sem segja okkur þurfa að borga Ice save, koma ekki með nein rök, en þú leitast við að nota rök máli þínu til stuðnings, án gífuryrða.

Þetta er ágæt samantekt hjá þér og réttmæt, ein einu gleymir þú, atriði sem styður málstað þjóðarinnar og það er tekið úr þessari margendurteknu tilskipun 94/19 Eb um innistæðutryggingakerfi; "Tilskipun þessi"GETUR EKKI" geti aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innistæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanir sjálfar og tryggja að innistæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við þessa tilskipun".

Það er yfirleitt þannig í lagadeilum, að allir málsaðilar hafa sér eitthvað til málsbóta. Þess vegna skiptir máli að halda uppi góðri málsvörn fyrir sínum málstað. Það er ekki eins og íslenska þjóðin hafi farið illa með Breta og hollendinga, heldur örfáir einstaklingar. Auk þess höfum við varla efni á þessum skuldbindingum ofan á allt annað.

Þess vegna finnst mér fáránlegt að Íslendingar skuli tína til málsvörn Bretum og hollendingum til handa, ég bara skil það alls ekki. Á tímum sem þessum eigum við að standa saman og hugsa um okkar eigin hag, að sjálfsögðu að virða lög. 

Við erum í sama liði. Hvað myndu menn segja, um liðsmann í fótboltaliði sem tæki sig til og færi að skora sjálfsmörk í gríð og erg, vegna þess að liðið hans hefur farið illa með andstæðinganna,brotið oft á þeim eða eitthvað í þá áttina.

Ég held að boltamaðurinn yrði látinn fjúka og myndi varla uppskera góðan orðstír.

Jón Ríkharðsson, 11.1.2010 kl. 09:51

40 Smámynd: Jón Ríkharðsson

Sæll aftur og fyrirgefðu klaufaskapinn, ég gleymdi nokkrum atriðum í röksemdarfærslu minni, ég ætla að fá að koma með það sem vantaði; Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innistæðueigendum", þetta vantaði inn í hjá mér.

Jón Ríkharðsson, 11.1.2010 kl. 09:55

41 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Got fólk, ég held að við ættum að hafa samband við fleiri af þeim er hafa tengst ritun reglugerðs ESB, þó einkum þá sem raunverulega tengdust ritun 94/19.

Framkvæma einhvers konar skoðanakönnun á meðal þeirra.

Það gæti verið mikil hjálp í slíku við það að taka ábyrga upplýsta ákvöðrun, að aflokinni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég ætla ekki að útiloka fyrirfram, að Alain hafi rétt fyrir sér, þó mig gruni að svo sé ekki, að einhvers misskilnings gæti. Í þessu, er varfærni lykilorðið.

Síðan held ég, að umræðan myndi græða á því, að umræðan færi úr því fari sem hún hefur verið í. Við lifum hér öll, eftir allt saman. Engin græðir á því, að allt fari í háa loft á ný. Slíkt er raunveruleg hætta.

Ég hugsa að talsmaður Fitch Rating hafi rétt fyrir sér með, að við höfun a.m.k. þangað til, til næstu áramóta. En, "deadline" sé þegar kemur að greiðslu af mjög stóru láni í erlendum gjaldeyri árið 2011. Fram að þeim, séu ekki til staðar neinar stórar erlendar skuldbindingar, er greiða þarf stórar upphæðir í erlendri mynnt af.

Það á því alveg vera hægt, að endursemja síðla næsta sumar og næsta haust.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 11.1.2010 kl. 11:14

42 identicon

"Eva Joly segist hafa fengið það staðfest hjá höfundum Evrópureglugerðarinnar um innstæðutryggingar, sem liggur til grundvallar Icesave-deilunni, að reglugerðinni hafi aldrei verið ætlað að takast á við hrun bankakerfis heillar þjóðar."
http://ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item319895/

Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 12:38

43 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Directive 91/19 : Article 6

1. Member States shall check that branches established by a credit institution which has its head office outwith the Community have cover equivalent to that prescribed in this Directive.

Failing that, Member States may, subject to Article 9 (1) of Directive 77/780/EEC, stipulate that branches established by a credit institution which has its head office outwith the Community must join deposit-guarantee schemes in operation within their territories.

2. Actual and intending depositors at branches established by a credit institution which has its head office outwith the Community shall be provided by the credit institution with all relevant information concerning the guarantee arrangements which cover their deposits.

3. The information referred to in paragraph 2 shall be made available in the official language or languages of the Member State in which a branch is established in the manner prescribed by national law and shall be drafted in a clear and comprehensible form.

PS:

Eftir ábendingu set ég einnig inn tilvísanir fyrir:

Directive 12/2000

Directive 47/2002

Alain vann að 12/2000

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 11.1.2010 kl. 12:42

44 Smámynd:

Takk fyrir góða grein og þarfa.

, 11.1.2010 kl. 12:55

45 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Öðru vísi mér áður brá, en ég verð að hrósa Jóni Val fyrir athugasemdina sem er í grunninn málefnaleg.

Svo það sé skýrt af minni hálfu, þá vil ég auðvitað það sama og allir hér, þ.e. hagstæðustu niðurstöðu þessa máls fyrir land okkar og þjóð.  Þegar forsetinn vísaði málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu þá tókum við út hluta af þeim áföllum sem yfir okkur munu að mínu mati dynja ef við höfnum greiðslum alfarið.  Lánshæfismat lækkaði, skuldatryggingarálag hækkaði, nágrannaþjóðir settu fyrirvara við gjaldeyrislán, og krónan hefði fallið ef engin væru höftin.

En úr því við höfum tekið á okkur hluta áfallsins (þótt lítill sé ennþá) þá væri vissulega mjög æskilegt að ná einhverju jákvæðu út úr stöðunni.  Þar bæri tvennt hæst: annars vegar að betra tillit væri tekið til "Ragnars Hall" kringumstæðnanna, þar sem TIF á rétt á fyrstu 20.887 evrum sem endurheimtast fyrir hvern innistæðueiganda úr þrotabúi Landsbankans; og hins vegar lægri vöxtum.  Um það fyrra hef ég skrifað fjórar ítarlegar bloggfærslur. Varðandi vextina er ég fylgjandi því að samningurinn sé með föstum vöxtum, enda tel ég verulega verðbólgu í pípunum yfir líftíma samningsins, en það myndi muna miklu ef vaxtaálag á lántökukostnað Breta og Hollendinga yrði lægra.

En hvernig hægt væri að ná þessu fram pólitískt er önnur saga, og staðan er frekar einkennileg meðan beðið er eftir þjóðaratkvæðagreiðslunni.   Þá auðveldar það ekki leikinn að stjórnarandstaðan virðist alveg eins vera á því að við eigum ekkert að borga, "fara dómstólaleiðina" (sem enginn getur útskýrt hvernig ætti að virka) o.s.frv. þannig að samstaðan er vandfundin.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.1.2010 kl. 13:38

46 identicon

Takk kærlega fyrir þessa samantekt.

Það virðist sem nokkurs skilningsleysis gæti á því hvernig ríki sem taka þátt í alþjóðlegum samningum geti innt af hendi skyldur sínar. TIF og sambærilegir tryggingasjóðir eru ekki settir á fót sem einhverjir leppar svo að stjórnvöld geti sloppið við ábyrgð. Þeir eru settir á stofn til að takmarka skyldu stjórnvalda, og færa hana út fyrir almennt pólitískt hark. Þannig er tryggingasjóði gert bæði að skapa vernd og að takmarka vernd sparifjáreigenda.

Ef á Íslandi, eins og í flestum öðrum löndum, hefði verið innlánsstarfsemi sem væri nokkurn veginn í jafnvægi við fjölda fólks í landinu, og bankastofnanir sem væru nokkurn veginn í jafnvægi við stærð hagkerfisins, þá hefði TIF verið mátulega stór stofnun og sjóðirnir staðið undir hruni eins banka. Svona var þetta auðvitað ekki.

En varla dettur nokkrum í hug að hugmyndin á bak við tryggingakerfið hafi verið sú að búa til smugu sem óprúttnir bankaræningjar gætu komist í gegnum? Að lítið land með slakt eftirlit og stutta bankahefð, gæti leyft stofnun mörg hundruð þúsund innistæðutryggða bankareikninga án þess að axla þar nokkra ábyrgð, eða gera ráðstafanir til að sinna skyldum sínum? Þetta eru í raun rök þeirra sem segja að með því að stofna TIF þá hafi íslenska ríkið afgreitt ábyrgð sína. En er líklegt að nokkur sem skoðar málið varlega trúi því að ábyrgð ríkisins takmarkist við það að búa til stofnun sem veldur ekki starfi sínu? Er í raun hægt að halda því fram að íslenska ríkið hafi sinnt Evrópureglugerðinni nema til málamynda? Varla voru menn að eyða tíma í að skrifa reglugerð til þess eins að hvert land gæti bara stofnað (svotil) tóman bankareikning til að tryggja hag innistæðueigenda?

Svo þetta með að margir séu „að snúast á sveif með Íslandi.“ Þetta er því miður, af því að best fæst sést, misskilningur. Margir þessara erlendu álitsaðila virðast halda að allur höfuðstóllinn sé að falla á Íslendinga, svo er ekki. Margir virðast halda að verið sé að borga tap einkabanka, svo er ekki. Þvert á móti er einungis verið að borga takmarkaðar innistæður einkaaðila. Sumir vilja meina að það sé rangt að láta „skattgreiðendur borga fyrir mistök bankamanna,“ en þetta er auðvitað bull. Úr því að peningarnir í Landsbankanum eru tapaðir, þá verða það alltaf skattgreiðendur einhvers staðar sem borga innistæðutryggingarnar. Sumir segja að B/H séu að neita aflsmunar. Enn er þetta rangt. Íslenska ríkið fór inní ferli með ESB til að tryggja að innistæðurnar væru greiddar. Það má lengi deila um skilmálana á endurgreiðslu þessarar „forfjármögnunar“ (eins og það var orðað af íslenska ríkinu), en um það verður ekki deilt að fjármögnunin sem slík til handa TIF og sem greidd var út af B/H innistæðusjóðunum var fyrir tilstuðlan íslenskra stjórnvalda. Svo væri skynsamlegt að muna að ekki eru allir „viðhlæjendur vinir.“ Það er pólitík víðar en á Íslandi. Sumir þeir sem hafa verið að skrifa gegn ákvörðunum breska ríkisins virðast fyrst og fremst vera að reyna að koma höggi á stjórnina þar í landi. Við ættum ekki að treysta því að slíkt fólk standi með okkur þegar á hólminn er komið.

Að lokum eitt. Íslenska ríkið gerði ráðstafanir með eignir Landsbankans. Þær ráðstafanir (að greiða ákveðnum reikningshöfum innistæður) hafa áhrif á getu TIF til að sinna skyldu sinni. Burtséð frá öllu öðru, þá liggur fyrir að ef íslenska ríkið hefur með háttsemi sinni skaðað eignir Landsbankans (með eignaupptöku t.d.,) og þar með getu TIF til að geiða sparifjáreigendum, þá má ætla að ríkið sé skaðabótaskylt til þeirra kröfuhafa sem eiga kröfu á TIF.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 15:35

47 identicon

Ég get ekki betur séð en að Vilhjálmur færi flott rök fyrir því að Ragnars H Hall ákvæðið varðandi 20 þús evrunar eigi að gilda....að því gefnu að um greiðsluskyldu sé að ræða ! Annars segir directivið ennfremur að ekki sé hægt að gera "ríki" ábyrg fyrir innistæðum...eðlilega..... vegna samkeppnissjónamiða.....og ekki er gert ráð fyrir kerfishruni í directivinu.....því almennt er verið að greiða rétt í kringum 1% í þessa tryggingasjóði....fyrir utan UK sem eru að gera þetta allt eftirá.  EU setti að "sjálfsögðu" inn nýja directiv á síðasta ári sem getur hugsanlega gert "ríki" ábyrg !   ...........bls 35 - 37 eru athyglisverðar.

http://books.google.is/books?id=XO065UCuCy0C&pg=PT72&lpg=PT72&dq=Peter+Paul+and+Others+v+Bundesrepublik+Deutschland&source=bl&ots=P4lqhgHNU6&sig=NTVoj57sDwzfvYgruAlnNMyT3QE&hl=is&ei=hhVLS9KwA9Wx4QbPmYT-Ag&sa=X&oi=book_result&ct=result&resnum=5&ved=0CB8Q6AEwBA#v=onepage&q=Peter%20Paul%20and%20Others%20v%20Bundesrepublik%20Deutschland&f=true

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 15:45

48 identicon

Mjög athyglisverð færsla og skemmtilegar og málefnalegar umræður.   Lög og tilskipanir eru ekki skýrar og stærsti vandinn er einmitt hvaða orð beri að feitletra og hvaða orð ekki.   Villi velur hér tiltekin orð, en aðrir myndu velja önnur.

Geri ráð fyrir því að fáir hér inni séu sérfræðingar í evrópurétti og þannig beri umræður (og blogfærslan sjálf) þess merki að málsaðilar séu áhugasamir leikmenn sem draga fram sitt hvora niðurstöðuna í sama málinu, án kannski að hafa sértæka lagalega þekkingu á viðfangsefninu.  Er sjálfur í þeim slíkum hópi.  Ennfremur þýðir óvissa um túlkun að hægt sé að komast að sitt hvorri niðurstöðunni í sama málinu með mismunandi (og kannski misgildum) rökum.

En það er einmitt þessi óvissa um túlkun sem er þjóðinni í hag (positive gamma fyrir afleiðuhobbyista) og því verðum við að gæta þess að hún verði ekki gefin frá okkur.    Rétturinn okkar til að láta dómstóla úrskurða um málið í framtíðinni er mikilvægur fyrirvari í þeim lögum sem sett voru á Alþingi í haust (og var hafnað af af viðsemjendum í fyrstu umræðu).   Í þeim lögum sem nú á að greiða atkvæði um, er hins vegar búið að útiloka dómstólaleiðina með óafturkræfum hætti (sjá ensk lög).   Sem betur fer hefur sá samningur þó ekki verið endanlega samþykktur.

Fyrir mér er að "fara dómstólaleiðina" fyrst og fremst sú afstaða okkar að í endanlegri ríkisábyrgð endanlegs samnings höldum við þeim rétti að láta dómstóla skera úr um raunverulega skyldu okkar í framtíðinni, ef svo ber undir.  Þessi réttur yrði t.a.m. gríðarlega mikilvægur ef sambærileg  (og mögulega stærri) mál kæmu upp í framtíðinni þar sem lagaleg skylda á ríkisábyrgð væri ekki staðfest, enda myndi slík niðurstaða líklegast hafa fordæmisgildi svo lengi sem fyrirvarinn um dómsmeðferð er til staðar.

Það þarf ekki svo mikið upp á til að leysa hnútinn.  En þó eru ákveðin grunnatriði sem við þurfum að standa fast við með ófrávíkjanlegum hætti. 

(Ég vona að ég heyri ekki meira af vonleysi um að enginn vilji semja.  Menn vilja alltaf semja, kannski þarf bara að sýna meiri áræðni og samningstækni)

Sigurgeir Jónsson (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 18:55

49 identicon

Hans hittir naglann á höfuðið. íslenska ríkið mismunaði EKKI á grundvelli ríkisfangs, heldur einungis á grundvelli búsetu! Og það má mismuna á grundvelli búsetu.

Ég þekki þess engin dæmi að ríki styrki fólk sem býr og greiðir skatta í öðru landi. Það væri því í hæsta máta óeðlilegt að íslenska ríkið styrki Hollendinga og Englendinga að upphæð sem nemur 21 þ evrum ef þeir búa ekki á Íslandi eða borga ekki skatta á Íslandi OG voru með fé sitt í bankareikning á Íslandi.

björn (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 20:41

50 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

björn, onei.  Það gerir hans nú eigi.  Hann lemur beint á þumalputtann !

Sjáðu til, slíkur orðhengilsháttur skilar engu og reyndar nær jafnræðisákvæðið bæði til banns við mismununar gagnvart þjóðerni og/eða Landsvæðis.   Að mismuna á þennan hátt eins og raunin var í umræddu máli - Það er BIG NO ! 

Innstæðueigendur í útibúi í London eiga lagalega kröfu á nákvæmlega sömu meðhöndlun og innstæðueigendur í útibúum á Íslandi.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 11.1.2010 kl. 22:22

51 identicon

Er ekki einhver misskilningur á ferðinni hér? Ísland er ekki í ESB heldur EES. Það hefur stöðu "þriðja lands", það eru þau lönd nefnd sem hafa gert samninga við ESB. (Sjá http://ec.europa.eu/justice_home/glossary/glossary_t_en.htm). Það verður því að gera skýran greinarmun á aðildarríki (þeas. aðildarríki að EES samningnum) og bandalagsríki (þeas. ESB ríki). Landsbanki var með höfuðstöðvar utan bandalagsins. Það gilda því aðrar reglur um útibú hans heldur en útibú Danske Bank. 

Ennfremur bendir ýmislegt til að útibú Landsbanka hafi haft heimild eða jafnvel verið skylt að gerast aðili að innistæðutryggingakerfi á rekstrarsvæði sínu (þeas UK). Meira um það síðar. 

Doddi D (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 01:17

52 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 15:35 : En varla dettur nokkrum í hug að hugmyndin á bak við tryggingakerfið hafi verið sú að búa til smugu sem óprúttnir bankaræningjar gætu komist í gegnum? Að lítið land með slakt eftirlit og stutta bankahefð, gæti leyft stofnun mörg hundruð þúsund innistæðutryggða bankareikninga án þess að axla þar nokkra ábyrgð, eða gera ráðstafanir til að sinna skyldum sínum? Þetta eru í raun rök þeirra sem segja að með því að stofna TIF þá hafi íslenska ríkið afgreitt ábyrgð sína. En er líklegt að nokkur sem skoðar málið varlega trúi því að ábyrgð ríkisins takmarkist við það að búa til stofnun sem veldur ekki starfi sínu? Er í raun hægt að halda því fram að íslenska ríkið hafi sinnt Evrópureglugerðinni nema til málamynda? Varla voru menn að eyða tíma í að skrifa reglugerð til þess eins að hvert land gæti bara stofnað (svotil) tóman bankareikning til að tryggja hag innistæðueigenda?

-----------------------------------------------

Directive 91/19 : Article 6

1. Member States shall check that branches established by a credit institution which has its head office outwith the Community have cover equivalent to that prescribed in this Directive.

Failing that, Member States may, subject to Article 9 (1) of Directive 77/780/EEC, stipulate that branches established by a credit institution which has its head office outwith the Community must join deposit-guarantee schemes in operation within their territories.

------------------------------------------

Andri - ábending.

Directive 19/94 - 6. gr: kveður á um þá skildu til "host country" að yfirvöld þess, meti með sjálfstæðum hætti, getu trygginga fyrirkomulags heimaríkis þess banka, er hefur bankaútibú starfandi hjá sér.

Ég geri ráð fyrir að Bretar hafi framkvæmt slíkt mat, og því talið ísl. tryggingasjóð, uppfylla reglur ESB - Sammála/Ósammála?

Og, ef þau komast að þeirri niðurstöðu, að viðkomandi sjóður sé ekki fullnægjandi, þá hafa þau val um að þvinga viðkomandi banka, til að flytja sín útibú yfir til eigin tryggingasjóðs.

-----------------------------

Ég held að þetta séu áhugaverð atriði.

Síðan legg ég til, að þú standir með hagsmunum eigin þjóðar.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 12.1.2010 kl. 02:07

53 identicon

Einar Björn-

Þakka þér kærlega fyrir ábendinguna. Sem þjóð í EES þá störfuðu íslenskir bankar að fullu undir formerkjum sameiginlegs evrópsks fjármagnsmarkaðar. Það er ekki munur á EES/ESB að þessu leyti. Reglur sem voru settar áður en EES varð til vísa því etv. í orðanna hljóðan einungis til ESB. Það breytir því ekki að þegar EES samningurinn verður til og er tvívirkur og bindur því bæði breta og íslendinga.

Ég gæti farið að rífast við þig um tillögu þína um að "þú standir með hagsmunum eigin þjóðar." Þess í stað óska ég þess að þú finnir þessa draumaþjóð þína, þar sem einungis þínar skoðanir eru leyfðar.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 02:23

54 Smámynd: Jón Valur Jensson

Þakka þér vinsamlegt svar, Vilhjálmur. Það er ánægjulegt, að þú ert ekki "vinstri"-harðlínumaður í málinu.

Ómar Bjarki (kl. 22:22), það er rétt hjá Birni, að íslenzka ríkið "mismunaði EKKI á grundvelli ríkisfangs," heldur var það á grundvelli starfssvæðis útibúanna, og þetta er leyfilegt, m.a. vegna neyðarástands á svæðinu, en Stefán Már Stefánsson og Lárus Blöndal (sem stóð sig frábærlega vel í Kastljósi í kvöld) hafa tekið þetta mál sérstaklega fyrir í einni af fyrstu greinum sínum um Icesave-málið og sýnt fram á þetta nógsamlega. Þú skákar ekki prófessor Stefáni í Evrópubandalags-lögum!

Jón Valur Jensson, 12.1.2010 kl. 02:33

55 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Andri - ekki einungis ísl. yfirvöld voru vöruð við - ítrekað, af óháðum aðilum.

Heimild hollenskra yfirvalda, til handa Landsb. að hefja starfsemi á Icesave reikningum í Hollandi, sumarið 2008 - verður að teljast mjög áhugaverð, í ljósi allra blikkandi aðvörunarljósanna - ekki satt?

Þ.s. ég á við, er að þó sannarlega sé mistaka saga ísl. stj.v. mjög sérstök að mörgu leiti, þá voru þau ekki ein, um mjög sérstök mistök - ekki satt?

Að auki, þarf að taka tillit til þess, að EFTA hefur viðurkennt, að grunnhagsmunir ísl. séu í húfi.

Það þarf að hafa í huga, að grunnhagsmunir okkar eru í húfi. - Þetta er regla út af fyrir sig, þ.e. um grunnhagsmuni.

Þetta er að auki, yfirregla. Þ.e. getur í tilvikum, vikið öðrum reglum til hliðar.

Röksemdafærsla þarf þó að vera skotheld, þ.e. standast fyrir dómi.

------------------------

Þ.e. mitt svar gagnvart þeim, er benda á misræmi, gagnvart lögum og reglum EES/ESB, að reglan varðandi neyðarrétt, gefur aukið svigrúm sem vanalega er ekki til staðar.

Þ.e. því hægt að réttlæta margt á altari neyðarréttar, í teoríunni. Þ.s. honum hefur verið beitt, alveg sárasjaldan, er skortur á dómafordæmum, til að kveða upp úr, að vissu.

Samt sem áður, má álykta að þ.s. EFTA hefur staðfest beitingu neyðarréttar, þá styrki það málsstað okkar, gagnvart öðrum hugsanlegum málshöfðunum.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 12.1.2010 kl. 02:39

56 identicon

Hollendingar og bretar veittu engin leyfi til að Icesave útibúin væru stofnuð.  Það er einmitt málið.  Þvert á móti reyndu stjörnvöld þarlendis að ýta á íslensk stjórnvöld um að draga úr vexti reikninganna.  En því var neitað.  Hollendingar gátu ekkert gert af því að gera slíkt opinberlega hefði verið ólöglegt, enda hefðu reikningshafar um leið gert áhlaup á bankann.  En í guðs bænum ekki trúa mér um þetta.  Lestu þetta hér: http://mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2009/06/17/gatu_ekki_stodvad_icesave/  Ekki lýgur  mogginn...

Það eru einnig til einhvers staðar á netinu fundargerðir þessara funda. 

Ef allir þeir sem eru að rífast um Icesave á Íslandi eru svona vel inní þessu eins og þú virðist af lestri á netinu, þá er ég farinn að skilja harmkvein Geirs Haarde um að guð hjálpi okkur. 

Og þetta tal um neyðarrétt.  Það efast enginn um neyðarréttinn þegar kemur að því að ríkið tók yfir bankakerfið til að tryggja að almenn bankastarfsemi héldi áfram í landinu.  En það hefur enginn sagt að íslenska ríkið hafi öðlast altækan rétt til að ráðskast með rétt kröfuhafa eins og ríkinu sýndist.  Hvað þá að neyðarrétturinn haldi áfram endalaust og undanvíki íslenska ríkið frá alþjóðlegum skuldbindingum. 

Það er þetta bull sem kemur í veg fyrir að hægt sé að komast áfram með þetta mál og ástæðan fyrir því að það var ekki hægt að ná þverpólitískum hópi saman eftir hrunið til að semja fyrir hönd ríkisins.  Það er fullt af fólki sem er í einhverjum draumaheimi og heldur að reglur og lög hafi bara gufað upp af því að það er svo óþægilegt fyrir Ísland að hafa leyft óprúttnum bankamönnum að stela milljörðum evra í skjóli íslenskra yfirvalda. 

Það hafa engir á Íslandi eytt meiri tíma í þetta mál en starfsmenn ríkisins og lögfræðingar þess.  Þrjár ríkisstjórnir hafa komist að sömu niðurstöðu, og þar með allir flokkar nema Hreyfingin og Framsóknarflokkurinn.  Öll norðulöndin hafa komist að sömu niðurstöðu.  Og sumir íslendingar halda að af því að einhverjir illa upplýstir útlendingar sem virðast ekki þekkja nema brot af málavöxtum og hafa kannski eytt helginni í að skoða málið séu með þetta allt á hreinu.  Þetta er svo klassískt nákvæmlega það sem olli hruninu.  Gegn allri skynsemi, gegn fólki sem hefur reynslu, þekkingu, tíma, og ráðgjöf, þá standa íslendingar amatörar sem alltaf halda að þeir viti best upp og segja.  "Við teljum að þetta sér rangt." 

Það er sennilega best að Ísland missi ökuleyfið.  Það er ekki hægt að leyfa þessu landi að keyra fullu lengur.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 03:14

57 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þetta er þvættingur, eins og ég sýndi þér fram á, þá ber stjórnvöldum "host country" að leggja eigið mat, á getu bakhjarls. Slík starfsemi er alltaf tilkynningaskyld, með fyrirvara.

Þá ber þeim að fara í saumarnar á því, og þá hafa þeir alveg sömu leið B, að þvinga viðkomandi "branch" inn í eigið kerfi.

Þetta er augljós hvítþvottur.

------------------------

Ef þín eigin orð, eru þ.s. fólk hugsar almennt innan Samfó, þá verður bara stríð hér á Íslandi.

Samingurinn, er ónýtur. Allur útgangspunktur samninga, frá upphafi, hefur verið kolrangur.

Hann er ekki á vetur setjandi, og réttast að henda honum á ruslahauga sögunnar.

Nýtt upphaf, skv. prinsippinu sameiginleg ábyrgð.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 12.1.2010 kl. 04:17

58 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Einar, tilskipunin sem þú vísar til á ekki við í þessu tilviki.  Ísland er ekki "outwith the Community" í þessu samhengi, heldur innan þess, vegna EES samningsins.

Og þetta "standir með hagsmunum eigin þjóðar" sendir hroll niður eftir bakinu á mér, slík röksemdafærsla á ekki heima í opnu lýðræðisríki.  Skynsamt fólk sér hvert sú hála braut leiðir.  Hreinskilin skoðanaskipti og rökræður eru styrkur, ekki veikleiki. Málstaður sem ekki þolir slíkt er hvorki góður né sterkur.

Andri, það eru mörg sannleikskornin í þessu hjá þér - því miður ;-)

Vilhjálmur Þorsteinsson, 12.1.2010 kl. 08:27

59 Smámynd: Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir

Sæll Vilhjálmur, og takk fyrir upplýsandi færslu.

Ég tók mér það bessaleyfi í gær að setja tengil á þig af minni síðu. Var sjálf byrjuð að tína til lagagreinar þegar ég sá að þú hafði tekið af mér ómakið, svo ég "linkaði".

Bestu kveðjur.

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, 12.1.2010 kl. 09:30

60 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ólína: Minnsta málið.  Öllum er frjálst að vísa í þetta blogg með tengli.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 12.1.2010 kl. 09:57

61 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

"Ísland er ekki "outwith the Community" í þessu samhengi, heldur innan þess, vegna EES samningsins."

Þ.e. nefnilega mjög stór spurning, það sé ekki einfaldlega rangt. Þó, við séum meðlimir innra markaðarins, og höfum gildistekið viðkomandi lög ESB, þá skv. ábendingu tiltekins einstaklings, þá getur þessi hin viðtekna skoðun í gegnum árin hérlendis verið á misskilningi byggð - en, það væri ekki fyrsta sinn í heimssögunni, að viðtekin skoðun hafi reynst röng.

"'outwith community" - gæti einmitt verið bókstaflega rétt, einmitt vegna þess, að við séum ekki meðlimir ESB, þó við séum meðlimir EES. Sem dæmi, höfum við ekki aðgang að Evrópudómstólnum, þó innan ESB dæmi hann um ölll mál, m.a. tengd fjórfrelsinu. Um þetta er munur á aðgöngu réttarfarslegu öryggi okkar, eins og sést núna, þegar deila hefst við aðildarríki.

Það má einmitt vera, að það atriði, sé ekki eini réttarfarslegi munurinn, og það að í gegnum árin, höfum við farið aðeins offari, í trú okkar, á nákvæmlega sama status og þjóðir ESB, innan innra markaðarins.

Mér sýnist ríkisstjórnin, vera of fljót að slá þessar hugmyndir niður, nánast eins og einhver "reflex".

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 12.1.2010 kl. 11:27

62 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

"Þ.e. nefnilega mjög stór spurning, það sé ekki einfaldlega rangt"

Já, það er bara mjög stór spurning og 60-70% líkur á að við séum ekkert í EES í raun og veru !  Það hafi bara verið misskilningur.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 12.1.2010 kl. 11:51

63 identicon

Deposit scheme

robustness Indicator =  Number of members whose deposits lie under the value of maximum amount of resourcesNumber of members in the DGS Article 12 of Directive 94/19/EC, as amended by Directive 2009/14/EC, identified the followingissues on which the Commission is to report to the European Parliament to the Council by 31December 2009: www.efdi.net/scarica.aspx?id=133&Types=DOCUMENTS

 

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 12:01

64 identicon

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 12:09

65 identicon

Ísland er ekki "outwith the Community" í þessu samhengi, heldur innan þess, vegna EES samningsins. (Vilhjálmur)

Geturðu vísað í einhver lög þessu til rökstuðnings?

Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 12:15

66 Smámynd: Jón Valur Jensson

Andri gætir ekki að því, að Frakkar voru miklu varkárari varðandi eftirlit með bönkunum heldur en Bretar og Hollendingar – og að það skilaði sér í því, að bankakreppan hafði langtum minni áhrif í Frakklandi en hjá nefndum þjóðum.

Að hér á Íslandi skuli endalaust rísa upp fáeinir einstaklingar – menn eins og Ómar Bjarki Kristjánsson, Steingrímur J. Sigfússon, Björn Valur Gíslason, Ólína Þorvarðardóttir o.fl. þingmenn – sem sjá alla meinbugi á því að verja okkar réttindi og hagsmuni í þessu máli og reyna á nánast örvæntingarfullan hátt að finna sér áróðursvopn fyrir uppgjafarstefnu sína og viljann til að láta valta yfir okkur, það er hreint og beint blöskranlegt og verður viðkomandi fólki til langvarandi hneisu í augum þjóðarinnar. Þeim mun meira sem upplýsist um málið, þeim mun ónýtari er málstaður þessa vesalings fólks.

Jón Valur Jensson, 12.1.2010 kl. 15:24

67 identicon

Jón Valur-

Er ekki alveg að skilja hvað athugasemdin þín um Frakkland hefur með nokkurn hlut að gera. Líklegasta ástæðan fyrir því að það voru hvorki Icesave né Kaupthing Edge reikningar í stórum stíl í Frakklandi hefur ekkert með bankaeftirlit þar að gera, heldur það að frakkar voru ekki eins líklegir til að nota vefbanka. Báðir íslensku bankarnir fóru inná þá markaði þar sem þegar voru sparifjáreigendur á netinu, og auðvelt var fyrir þá að færa féið í íslensku bankana.

Og þessar ásakanir þínar á fólkið sem þú nefnir. Af hverju talarðu svona? Heldurðu virkilega að þetta fólk vinni ekki af heilindum og að það sé að reyna að koma þjóðinni á vonarvöl? Svona gagnrýni hljómar eins og trúabragðaofstæki og er ekki gáfulegri fyrir það.

Og svona til að árétta frekar málin. Getur einhver á Íslandi bent á einhverja raunverulega breytingu sem orðið hefur á samningstöðu Íslands gagnvart þeim sem verið er að semja við? Hafa hollensk eða bresk stjórnvöld komið með einhverjar yfirlýsingar sem breyta afstöðu þeirra? Hafa fulltrúar ESB eða EES lýst yfir að Ísland sé undanskilið ábyrgð? Hafa norðurlöndin sagt að samningarnir eða skilmálar þeirra séu ósanngjarnir? Eru einhvers staðar til einhverjar opinberar upplýsingar MÁLSAÐILA sem með einhverjum hætti breytir þeirri stöðu sem landið hefur verið í frá því að samkomlag náðist síðast liðið sumar? Er til einhver ríkisstjórn einhvers staðar á jarðkúlunni sem hefur sagt að Ísland þurfi ekki að endurgreiða hollendingum og bretum? Ég er ekki að tala um skoðanir utanaðkomandi álitsaðila. Ég er að tala um staðreyndir samningsstöðunnar.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 12.1.2010 kl. 15:55

68 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Theódór: Tjah, það eru til dæmis fjölmörg lögfræðiálit á island.is og vef fjárlaganefndar, innlend og erlend, þar sem gengið er út frá því að innistæðutilskipunin gildi á Íslandi sem aðildarlandi EES alveg eins og í ESB löndum.  Enginn lögfræðingur sem þar hefur komið að málum hefur bent á þá nýstárlegu túlkun að Ísland teljist standa utan sameiginlega fjármagnsmarkaðarins.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 12.1.2010 kl. 17:31

69 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

... og þá var Alþingi aldeilis á villigötum þegar það setti lögin um TIF þar sem beinlínis er vísað til tilskipunar 94/19/EB.  Eins og Georg Bjarnfreðarson hefði sagt í sömu sporum, þá var þetta bara allt einn stór misskilningur?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 12.1.2010 kl. 17:40

70 Smámynd: Gísli Ingvarsson

"Og svona til að árétta frekar málin. Getur einhver á Íslandi bent á einhverja raunverulega breytingu sem orðið hefur á samningstöðu Íslands gagnvart þeim sem verið er að semja við?"

Nei það getur enginn. Þetta er allt saman óskhyggja. Eva Joly á nokkra sök og Silfur Egils hefur verið duglegt við að fylgja eftir.

Ísland er innan EES sem er ástæðan fyrir því að Landsbankinn gat opnað þetta netútbú sitt....

þetta er ekkert flókið en ef maður vill fara í þykjustuleik þá er moggabloggið aðalvettvangurinn fyrir svoleiðis.... í þykjustuleiknum eru Óli Ragnar og Davíð O og Indefence góðu gæjarnir en Jóhanna og Steingrímur vondu gæjarnir....

Gísli Ingvarsson, 12.1.2010 kl. 17:49

71 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Directive 19/1994

...whereas the Directives governing the admission of any credit institution which has its head office in a non-member country, and in particular the First Council Directive (77/780/EEC) of 12 December 1977 on the coordination of the laws, regulations and administrative provisions relating to the taking up and pursuit of the business of credit institutions (1) allow Member States to decide whether and subject to what conditions to permit the branches of such credit institutions to operate within their territories; whereas such branches will not enjoy the freedom to provide services under the second paragraph of Article 59 of the Treaty, nor the right of establishment in Member States other than those in which they are established; whereas, accordingly, a Member State admitting such branches should decide how to apply the principles of this Directive to such branches in accordance with Article 9 (1) of Directive 77/780/EEC and with the need to protect depositors and maintain the integrity of the financial system; whereas it is essential that depositors at such branches should be fully aware of the guarantee arrangements which affect them;

------------------------------------------

Mér sýnist þetta gefa til kynna, að meðlimaríki hafi heilmikið vald yfir starfsemi svokallaðra "Brances" frá ríkjum utan Evrópusambandsins.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 12.1.2010 kl. 22:35

72 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Gísli - þessi samningur, hefur verið ónýtt plagg frá upphafi.

Reynt var að bjarga honum í sumar.

En, best væri að gleyma honum, og byrja alveg á "0" og þá, skv. alveg nýjum forsendum.

Vandinn við að reyna að lagfæra frekar núverandi saming, er að þá ertu bundinn upphaflegum forsendum, en þar liggur vandinn, því þær voru rangar.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 12.1.2010 kl. 22:38

73 identicon

Ég gef frat í pöntuð lögfræðiálit á vegum ríkisstjórnarinnar eða meirihluta fjárlaganefndar.

Fólkinu sem fannst sjálfsagt að samþykkja mesta nauðungarsamning Íslandssögunnar án þess að lesa hann myndi ég ekki einu sinni treysta til að fara út í búð fyrir mig og kaupa mjólk. Hvað þá til að fá lögfræðiálit í flóknum málum.

Textinn sem Einar Björn vitnar til er skýr.

...whereas the Directives governing the admission of any credit institution which has its head office in a non-member country,...

Þarna er látið að því liggja að aðrar tilskipanir (directives) en nr. 19/1994 gilda um útibú í öðrum ríkjum en ESB-ríkjum.

Almenna reglan í lögfræði er að túlka lagatexta þröngt og ekki víðtækar en textinn segir til um.

Mér er alveg sama hvað lögfræðingar á launaskrá hjá  Samfylkingunni sem vildi selja næstu kynslóðir í þrældóm eða taglhnýtingar hennar segja.

Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 03:37

74 Smámynd: Jón Valur Jensson

Ég var fyrst núna að líta á þessa síðu aftur og svara Andra á morgun, hef gert ærið nóg á nýliðnum degi og í nótt á öðrum vefsíðum, og fjarri fer því, að Andri fari hér með neinn sigur af hólmi.

Jón Valur Jensson, 13.1.2010 kl. 04:22

75 identicon

Þetta eru sorglegir dagar. Fólkið sem á að taka ákvörðun um framtíð landsins efast um allt nema þyngdarlögmálið. Og hver veit, svo heitt er gasið í sumum að kannski þeir takist á loft og efist jafnvel um aðdráttarafl jarðar.

Hér er stutt skýring fyrir þá sem ekki vilja treysta íslenskum upplýsingum um hvað EES (á ensku EEA) er:

http://en.wikipedia.org/wiki/European_Economic_Area#Legislation

Svo er hér hægt að lesa stuta lýsingu frá ESB:

http://ec.europa.eu/external_relations/eea/

Og hér eru lagatextar um samþykktina.

http://www.efta.int/content/legal-texts/eea/

Halda kannski einhverjir að 15 ára þátttaka Íslands í sameiginlegum evrópskum markaði sé bara misskilningur?

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 04:39

76 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Það kann vel að vera að þarna sé einhver misskilningur á ferðinni Andri. Gefur það samt ekki auga leið að þar sem stendur Member state er bara átt við Membrer state en ekki member state og ísland.

En það eru gild rök fyrir að hafa þetta svona. Venjulega er eftirlitið alltaf hjá stjórnvöldum og Seðlabönkum á viðkomandi markaðssvæði, en stjórnvöld ásamt seðlabanka geta þá hvenæer sem er gripið inn í rekstur banka á svæðinu ( lokað þeim eða varið ). þegar ríki utan EU stofnar banka innan EU samkvæemt EEA kemur upp sú staða að seðlabankinn er ekki hjá móðurhagkerfinu og sem hefur það í för með sér að móðurhagkerfið hefur ekki þau tæki sam þarf til að verja bankann og því ekki rökrétt að það fari með eftirlitið. Þess vegna er eftirlið vits vitandi haft hjá gistiríkinu ef móðurhagkerfið er utan EU.

Alain Lipietz skilur þetta því örugglega rétt og þetta samrýmist tilgangi laganna að þessu leiti. Eins mál líka benda á að Bretar sendu Landsbankanum fyrstu eftirlitstilkynninguna í október 2008 en þeir virðast bara ekki hafa fattað það fyrr að bankinn var alfarið á þeirra ábyrgð.

Fyrsta eftirlittilkynningin

Guðmundur Jónsson, 13.1.2010 kl. 09:23

77 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Tengillin virkaði ekki en hér er beil slóð á mbl frétt af fyrstu eftirlitstilkynningunni

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/12/16/kyrrsettar_fyrir_hrydjuverkalog/

Guðmundur Jónsson, 13.1.2010 kl. 09:29

78 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég trúi því varla að við séum að eyða rafeindum í þessa umræðu, hún er sannast sagna alveg út í hött.  Eigum við ekki frekar að ræða staðreyndir og stöðu málsins?

Því miður var starfsemi útibús Landsbankans í Bretlandi á ábyrgð hins íslenska FME og að hluta Seðlabankans, sem bar ábyrgð á fjármálastöðugleika.  Gleymum því ekki að Seðlabankinn beinlínis stuðlaði að þessari erlendu útþenslustefnu í innlánasókn útibúa, með því að afnema bindiskyldu af erlendum innlánum íslensku bankanna á árinu 2008.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 13.1.2010 kl. 11:25

79 identicon

Athyglisverð samnatekt hjá Konrad Szeląg hjá National bank of Pollandhttp://www.nbp.pl/publikacje/materialy_i_studia/59_en.pdf.  Þar kemur m.a. fram: In the EU, the return to € 20,000 is no longer an option and the new minimumcoverage limit must be set at the level of at least € 50,000. On the one hand, this levelwould be enough (or even too high) for countries that had relatively low coverage beforethe crisis (like Estonia, Latvia or Lithuania – with the coverage levels lower than € 20,000as of end-200738). On the other hand, however, this level would be too low for countrieswith much higher pre-crisis coverage (like the UK, France or Italy – with the coverage levelsfrom about € 50,000 to more than € 100,000 as of end-2007). At the same time, it seems it wouldnot be recommendable for the EU to continue maintaining different levels of depositinsurance in various member states, e.g. € 50,000 in less developed countries and€ 100,000 in richer ones. Such an approach would be in contradiction with the idea of theSingle Market and level playing field (as this is the case today).............. significant weaknesses remained in theEU deposit insurance framework (including, for example, unsustainable funding, limiteduse in crisis management, negative effects on financial stability, obstacle to efficient crisismanagement, etc. – see: Annex 10) [de Larosière et al. 2009............. For that reason, in October 2008,the European Commission committed itself to prepare a report on the harmonization ofthe funding mechanisms of the EU deposit guarantee schemes and submit it to the EUCouncil and the European Parliament by the end of December 2009 [Commission 2008c].The Council and the Parliament welcomed this commitment and stated that the Commission’sreport should address, in particular, the effects of the lack of such harmonization incase of a cross-border financial crisis (with regard to the availability of the compensationpayouts of deposits, and with regard to fair competition) as well as the benefits and costsof harmonizing the funding mechanisms [EU 2009a].

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 12:05

80 identicon

Staðreynd #1 Það kemur hvergi fram í tilskipun 94/1994 að ríkissjóður hvers lands sé hinn raunverulegi tryggingarsjóður ef bankar hrynja. Frekar að tilskipunin girði fyrir það með orðalaginu "Tilskipun þessi getur ekki gert ríkisjóði landanna ábyrga...."

Staðreynd #2 Tilskipunin frá 2002 setur þær skyldur á herðar gistiríkis að sjá til að tryggingar lánastofnana frá löndum utan ESB séu í lagi.

Staðreynd #3 Tilskipun 94/1994 segir í raun það sama. Í 6. gr. kemur fram að

Aðildarríkin skulu sjá til þess að útibú, sem eru stofnuð af lánastofnunum með höfuðstöðvar utan bandalagsins, séu tryggð á þann hátt sem segir í þessari tilskipun.

Ályktun 1 Það væri ekki þörf á því að taka fram að aðildarríkin skuli sjá til að allt sé í lagi ef gistiríkið væri ótvírætt eitt og sér ábyrgt fyrir öllu klúðri.

Staðreynd #4 Báðum tilskipunum er beint sérstaklega til aðildarríkja ESB. Það kemur fram í lokagrein hvorrar þeirra.

Þeim er ekki beint til EES ríkja, þrátt fyrir að ESB ríkin (heimaríki) skuli sjá til að bankaútibú frá ríkjum utan ESB er starfa á ESB svæðinu skuli bjóða upp á sambærilegar tryggingar og lánastofnanir í heimaríkjunum (sjá 6. gr. hér fyrr.)

Ályktun 2 Sama og 1. Staðreynd 4 hlýtur að leiða af sér að ábyrgðin er ríkari hjá ESB-ríkjunum (gistiríkjunum.) Allavega klárt mál að þau geti ekki hvítþvegið sig og selt smáþjóðir í skuldafangelsi. Ekki einu sinni þó þau hafi aðstoð innlendra skósveina.

Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 12:37

81 Smámynd: Egill M. Friðriksson

Ég er orðinn frekar ringlaður á þessu öllu saman. Núna - meira en ári síðar hrunið var - fer af stað umræða um hvort ábyrgðin hafi legið hjá Bretum og Hollendingum eða Íslendingum varðandi stofnun Icesave útibúanna. Síðasta útspil er frá hinum franska Alain Lipietz og svo í dag les ég frétt á visir.is þar sem Robert Wade fullyrðir að í febrúar 2008 hafi verið settar nýjar reglur um ábyrgð á rekstri útibúa. Vill hann meina að ábyrgðin hafi færst yfir á gistiland útibúsins (http://visir.is/article/20100113/VIDSKIPTI06/136808185).

Af því sem ég hef lesið um hef ég ávallt talið ábyrgðina ligga hjá Íslendingum og hefði haldið þessi ábyrgð ætti ekki að vera eitthvert lagalegt túlkunaratriði. Annað hvort er hún hjá okkur eða ekki. En hvað segiði Andri og Vilhjálmur um þessa nýjustu fullyrðingu Wade's? Er eitthvað vit í henni? Og ef svo er - af hverju ætli hún komi þá svona seint fram?

Egill M. Friðriksson, 13.1.2010 kl. 12:44

82 identicon

Af hálfu Samfylkingarinnar snýst þetta mál allt um inngöngu í ESB og að hylma yfir yfirlýsingagleði og getuleysi Björgvins G. Sigurðssonar, viðskiptaráðherra, í samskiptum hans við Breta.

Ekki er samt gott að átta sig á í hverju hagsmundir VG liggja. Kannski því að halda saman fyrstu vinstri stjórninni?

VG gerðu samt þá reginskyssu að halda að minnisblað fyrri ríkisstjórnar, með Sjálfstæðisflokkinn í borddi fylkingar, væri einhverskonar endanlegur samningur af hennar hálfu og setti sér það eina markmið að gera betri samning en minnisblaðið kvað á um.

Á þessum einföldu atriðum er öll vitleysan byggð.

Hrímfaxi (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 13:03

83 identicon

Egill-

Það virðist að Robert Wade sé að segja að vegna þess að Basil Committee kom út með leiðbeiningar (ekki lög) í febrúar að lönd ættu að gæta að greiðsluþoli banka sem starfa á markaðssvæði þess, þá beri bretar og hollendingar ábyrgð. Þessi skoðun stenst ekki nánari skoðun (enda heldur hann þessu ekki fram sem fullnægjandi ástæðu fyrir að Ísland sé undanskilið allri ábyrgð). Samkvæmt EEA hafa íslensk yfirvöld eftirlit með útibúum íslenskra banka. Hollendingar og bretar gátu því ekki gert neitt nema kvarta við íslensk stjórnvöld og bankana sjálfa. Sem og þau gerðu. Leiðbeiningar samstarfsstofnana á bankasviði fella ekki úr gildi grundvallar lög og reglugerðir EEA.

Guðmundur-

Það er enginn misskilningur um gildi og valdsvið EEA. Það vita allir sem hafa einhvern tíma opnað lagasafn að eldri lög sem hafa annað orðalag geta breyst við setningu nýrra laga. Þannig verða tilskipanir sem varða sameiginlegan ESB markaðinn að tilskipunum fyrir sameiginlega EEA markaðinn, enda enginn munur þar á.

Varðandi röksemdina um seðlabanka. T.d., er Bretland utan EMU en innan ESB. Seðlabankinn þar er því ekki hluti af ECB. Svo hvað þá? Er Bretland líka utan ESB í skilngi innlánstrygginga? Nei, þetta er bara orðagjálfur allt saman.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 13:28

84 identicon

Þetta er stórt vandamál sem pöpullinn er að kveikja á ....sjá Telegraph í dag !        

http://www.telegraph.co.uk/finance/newsbysector/banksandfinance/6947698/Our-problems-with-Icelandic-banks-may-be-the-tip-of-the-iceberg.html

There is a fix on the way: the new system of pan-European supervisors will regulate the national regulators and provide an arbitrator in case of disagreements. It is too early to know how well it will work – the legislation is expected to go through the European parliament in the first half of this year – but it is hard to feel confident that another layer of bureaucracy will solve the problem.

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 14:08

85 identicon

Andri ef allar tilskipanir ESB um fjórfrelsið gilda sjálfkrafa um EES löndin hvers vegna er þá sérstakt ákvæði í báðum þessum umræddu tilskipunum um að þeim sé beint til ESB landanna.

Ekki er samt gott að átta sig á í hverju hagsmundir VG liggja. Kannski því að halda saman fyrstu vinstri stjórninni? (Hrímfaxi)

Hvaða vinstri stjórn?

Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 14:23

86 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Eins og eg hef áður sagt, þá er þetta það langsterkasta sem hefur komið fram viðvíkjandi lagalegu hlið málsins.   Við erum bara með unnið mál.

EES samningurinn existar ekki.

Hann er bara feik.

Líklega er hann svona 3D fake, eins og sumir segja að flugeldasýning Kína á Ólympuleikunum hafi verið.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.1.2010 kl. 15:13

87 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

PS.  Nei í alvöru sko: 

"8. Tilvísanir til yfirráðasvæða
Þegar gerðirnar sem vísað er til hafa að geyma tilvísanir til yfirráðasvæðis „bandalagsins“ eða „sameiginlega markaðarins“ ber að líta svo á, að því er samninginn varðar, að þær séu tilvísanir til yfirráðasvæða samningsaðila samkvæmt skilgreiningu í 126. gr. samningsins."
http://www.utanrikisraduneyti.is/samningar/ees/Bokanir//nr/2068

"1. Samningurinn gildir á þeim svæðum sem stofnsáttmáli Efnahagsbandalags Evrópu og stofnsáttmáli Kola- og stálbandalags Evrópu taka til, með þeim skilmálum sem þar eru settir, og á yfirráðasvæðum Lýðveldisins Austurríkis, Lýðveldisins Finnlands, Lýðveldisins Íslands, Furstadæmisins Liechtensteins, Konungsríkisins Noregs, Konungsríkisins Svíþjóðar og Ríkjasambandsins Sviss"

http://www.utanrikisraduneyti.is/samningar/ees/EESSamningur//nr/1737

Gerðir (þ.á.m. tilskipanir)  eru beisiklí hluti af EES samningnum eða viðbætur.

Hope it helps.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.1.2010 kl. 15:50

88 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

PS.PS.

Að neðri klausan að ofan er auðvitað grein 126 EES samnings.

En varðandi það að gerðir séu hluti eða viðbætur EES samningsins, þá geta menn bara flett uppí EES á vef Utanríkisr. um EES samninginn.

Rammalög 94/19 er td. að finna í IX. viðauka - FJÁRMÁLAÞJONUSTA og þar undir í lið 19.a. 

En heilt yfir og almennt um málið, þá finnst mér nú að Ríkisfjölmiðill eigi að vita þetta og ekki þurfa að láta mig, almúgamanninn,  upplýsa um slíkar grunnstaðreyndir - sem tók að vísu ekki langan tíma um 10 mín.  Verð að segja það.

Góðar stundir.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 13.1.2010 kl. 17:02

89 identicon

Theódór-

Þegar ferlið sem leiddi til directive 19/94 fór af stað var EEA ekki til, svo það eitt sér myndi skýra af hverju orðalagið er eins og það er. En því til viðbótar þá semur ESB reglur fyrir ESB. Samkomulagið milli ESB og EFTA um EEA gerir svo það að EFTA þjóðirnar verða hluti af þeim þætti ESB sem víkur að markaðnum (fjórfrelsinu). Þetta er bara eins eðlilegt og eðlilegt getur talist í milliríkjasamningum. Þð er engin ástæða til að breyta reglugerðum ESB, því að EEA samningurinn vísar í hvaða reglugerðir ESB ná yfir EEA og skapa því bæði ESB og EFTA löndum réttindi og skyldur.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 17:03

90 identicon

Gott og vel þá er það nokkuð ljóst að umræddar tilskipanir gilda hér á landi sem hluti af EES-samningnum. Það breytir ekki því sem ég sagði hér fyrr í dag:

Staðreynd #1 Það kemur hvergi fram í tilskipun 94/1994 að ríkissjóður hvers lands sé hinn raunverulegi tryggingarsjóður ef bankar hrynja. Frekar að tilskipunin girði fyrir það með orðalaginu "Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg..."

Staðreynd #2 Tilskipunin frá 2002 setur þær skyldur á herðar gistiríkis að sjá til að tryggingar lánastofnana frá löndum utan ESB séu í lagi.

Staðreynd #3 Tilskipun 94/1994 segir í raun það sama. Í 6. gr. kemur fram að

Aðildarríkin skulu sjá til þess að útibú, sem eru stofnuð af lánastofnunum með höfuðstöðvar utan bandalagsins, séu tryggð á þann hátt sem segir í þessari tilskipun.

Ályktun 1 Það væri ekki þörf á því að taka fram að aðildarríkin (gistiríkin) skuli sjá til að allt sé í lagi ef heimaríkið (1) væri ótvírætt eitt og sér ábyrgt fyrir öllu klúðri.

(1) Sagði óvart gistiríki fyrst, en átti við heimaríki.

Ég hvet fólk hér til að standa með sinni eigin þjóð, en ekki þeim sem vilja hneppa okkur í þrældóm.

Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 20:37

91 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Andri 

Bretar sitja í stjórnum ECB og eru því tæknilega með tvo seðlabanka ein fyrir pund og annan fyrir evruna. Annars hefðu þeir líklega ekki getað skammtað sjálfum sér Evrur til að bjarga öllum bönkunum sínum eins þeir gerðu 2008 þegar þeir fengu stærsta björgunarpakka allra aðildarríkjanna. Íslendingar eru hinsvegar ekki í EU og hafa því eingin tök á ECB þrát fyrir að vera í EEA.
 

Hún Elvira Mendelz  er með góðar greiningar tengdar þessu á blogginu sínu, eins er nafni minn  Ásgeirsson með greiningu á viðtalinu við hann Lipietz hjá sér sem mér skýrir nokkuð þann rugling sam þar varð.

Guðmundur Jónsson, 13.1.2010 kl. 21:34

92 identicon

Theódór-

"Staðreyndir" 2 og 3 falla vegna þess að Ísland er hluti af EEA. "Staðreynd" 1 hefur margoft verið skýrt út að fellur vegna þess að íslensk stjórnvöld lýstu yfir að innistæður íslenskra banka á Íslandi væru tryggðar í topp. Þar fyrir utan lýsti ég fyrir ofan að reglugerðin væri sett til að setja lágmarks og hámarksreglur um tryggingar, ekki til að gefa aðildarríkum tækifæri á að styðja bankaræningja. Þar bætist við að íslenska ríkið lýsti yfir í viðræðum við hollendinga og breta að Ísland stæði að fullu á bak við þessa reikninga talsvert fyrir hrun. Ályktanir þínar falla þar með.

Guðmundur-

Las grein Jóns Ásgeirssonar. Directive 2002/87 fjallar þröngt um fjármálastofnanir sem teljast vera "conglomorates" sbr. skilgreiningu reglugerðarinnar hér:

DIRECTIVE 2002/87/EC OF THE EUROPEAN PARLIAMENT AND OF THE COUNCIL

of 16 December 2002

CHAPTER I

OBJECTIVE AND DEFINITIONS

Article 1

Objective

This Directive lays down rules for supplementary supervision

of regulated entities which have obtained an authorisation

pursuant to Article 6 of Directive 73/239/EEC, Article 6 of

Directive 79/267/EEC, Article 3(1) of Directive 93/22/EEC or

Article 4 of Directive 2000/12/EC, and which are part of a

financial conglomerate. It also amends the relevant sectoral

rules which apply to entities regulated by the Directives

referred to above.

Það hefur hvergi komið fram að Landsbankinn eða Icesave hafi aflað sér starfsleyfis í UK, "pursuant to Article 6 of Directive 73/239/EEC, Article 6 of Directive 79/267/EEC, Article 3(1) of Directive 93/22/EEC or Article 4 of Directive 2000/12/EC." Þvert á móti var Landsbankinn venjulegur banki með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú á nokkrum stöðum í heiminum.

Ef Landsbankinn var starfræktur undir þeim formerkjum, þá eru það gild rök fyrir ákveðinni eftirlitsskyldu með bankanum sem heild, sbr þetta directive. Að öðrum kosti er þetta bara ótengt með öllu. Til viðbótar, þá er hvergi minnst á að fella úr gildi directive 19/94 þar sem innistæðuábyrgðin er skilgreind.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 22:15

93 identicon

Stutt athugasemd:

Ég hef verið spurður af því af hverju ég haldi ekki með Íslandi. Svarið er einfalt: ég væri ekki að eyða miklu af mínum persónulega tíma í þetta tafs nema vegna þess að ég held að núverandi samningur með öllum sínum vörtum sé eins góður og vænta má úr þessu. Ég vona enn, hversu ólíklegt sem það má vera, að þjóðin samþykki Icesave samninginn.

Ástæðan fyrir því að ég tel að íslendingar eigi að samþykkja hann er ekki af því að ég vilji leggja byrðar á fólkið í landinu, eða vegna þess að ég haldi að venjulegir skattborgarar beri ábyrgð á einkabönkum. Þvert á móti þá skil ég ekki af hverju er ekki búið að handtaka fleiri, kyrrsetja eigur, taka vegabréf af öðrum. Ekki síst skil ég ekki af hverju íslendingar hafa ekki þekkst boð norðurlandanna um sérfæðiaðstoð við rannsóknir og saksókn á fjármálaglæpum.

Mér finnst hræðilegt að sjá hvernig fólk, sumt sem ég þekki persónulega frá námsárum mínum, brást gjörsamlega skyldum sínum og gekk af göflunum í græðgi og hroka. Það er hins vegar ekki bætt eitt böl með því að stefna í annað verra. Skaðinn af Icesave er löngu skeður. Í maí og júní 2008 átti ég mörg samtöl við fólk á Íslandi (ég er búsettur í BNA) þar sem ég var að reyna að skilja hvar ábyrgðin að baki Icesave og Kaupthing Edge innistæðutryggingunum lægi. Það varð fátt um svör, en þó fékk ég að vita að Kaupthing Edge væri breskt fyrirtæki. Létti mér við það. Þegar ég lagði fastar á um Icesave var mér sagt að íslenskur sjóður stæði þar að baki, en hann væri næstum tómur. Mig óraði ekki fyrir því þá að svo skjótt myndi skipast veður að bankarnir hryndu og með þeim féllu þessar byrðar á þjóðina.

En eftir stendur að það brást margt á Íslandi. Móralska ábyrgðin á greiðslum til handa þeim sem í trausti evrópskra reglugerða um innistæðutryggingar lánuðu Icesave hefur verið til frá því að útibúin voru stofnuð, þó að formleg ábyrgð ríkisins yrði ekki til fyrr en síðar. Það getur engin þjóð tekið þátt í alþjóðlegum samningum og svo gengið á svig við þá samninga og þannig skaðað venjulegt fólk í öðrum löndum. Það eru áhrifin sem Icesave hefði valdið ef ekki væri fyrir fjármögnun Hollendinga og Breta. Það fylgir því ábyrgð að vera þjóð og það fylgir því ábyrgð að taka þátt í samskiptum þjóða. Við munum ekki komast hjá þvi að axla ábyrgð.

En staðan sem málið er í nú er íslendingum ekki til góða. Íslenska ríkið tók ákvarðanir í eftirmálum hrunsins sem voru nauðsynlegar til að halda áfram bankastarfsemi og trausti á bankakerfið. Sumar þeirra hafa orðið til þess að fjármunir sem TIF hefði haft til að standa skil á sínum skyldum eru ekki þar lengur vegna eignaupptöku íslenska ríkisins. Slíkt geta erlendar þjóðir ekki unnt, og er því ótvírætt að Ísland þarf að standa á bak við TIF.

Ég skil vel vantraustið á íslenskum stjórnvöldum eftir allt sem á undan er gengið. Slíkt vantraust ríkir víðar í heiminum. En það þýðir ekki að betra sé að setja traust sitt á fólk sem hefur ekki gefið sér tíma til að kynna sér málin, eða sem er að spila stjórnmálaleiki í öðrum löndum. Tilhneiging okkar íslendinga til að hafa það sem betur hljómar er ekki okkar besti eiginleiki. Hann er vandfundinn heiðarleikinn í þessu máli. En þegar þær þjóðir sem standa okkur næst, Norðurlöndin, eru allar á einu máli um skyldur okkar, þá ættum við að hlusta lengi og tala stutt.

Samningurinn við Holland og Bretland er ekki allt sem íslendingar vilja. En hann er vafalaust heldur ekki allt sem Hollendingar og Bretar vilja. Á endanum er þetta ekki stærsta málið í tengslum við hrun bankanna, hvorki fjárhagslega né siðferðislega. Þjóðinni mun ekki endast þrek að þrátta með þessum hætti um hluti sem eru fyrir utan hennar áhrifasvið, en láta óáreitt það sem hún hefur fullt vald yfir: að sækja til saka þá sem hafa brotið lög. Að setja lög og reglur sem tryggja að svona gerist ekki aftur. Að setja landinu stjórnarskrá sem dregur úr vægi aldagamalla klíka sem draga mátt úr landinu til að næra sig og sína.

Ég vildi óska að Icesave væri ekki til. En það verður til þangað til að íslendingar gangast við því og gera það sem þarf að gera. Þetta vita flestir, enda held ég að það eina sem virkilega stendur í meirihluta þjóðarinnar sé að borga það sem sumum virðast of háir vextir af öllum höfuðstól Icesave lánsins. Ég skil það vel, þetta eru háar fjárhæðir. En lög eru þegar í gildi þar sem vextirnir eru samþykktir af þingi og forseta. Slíkt verður ekki aftur tekið í samningum. Það er ekki hægt að fara aftur á fyrsta reit. Málið er nú í pattstöðu, og einungis ein leið er út úr henni. Þjóðin þarf að taka erfiðustu ákvörðun sem má ímynda sér: að fórna minni hagsmunum fyrir meiri.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 13.1.2010 kl. 22:55

94 identicon

Þessi "stutta" athugasemd Andra (kl. 22:55) er með betri samantektum sem ég hef séð um Icesave-klúðrið og óhjákvæmilegar afleiðingar þess fyrir land og þjóð. Ég hvet þig til að birta þetta einhvers staðar þar sem eftir því yrði tekið.

Siggi (IP-tala skráð) 14.1.2010 kl. 01:59

95 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Directive 19/94 - Article 4

2. Where the level and/or scope, including the percentage, of cover offered by the host Member State guarantee scheme exceeds the level and/or scope of cover provided in the Member State in which a credit institution is authorized, the host Member State shall ensure that there is an officially recognized deposit-guarantee scheme within its territory which a branch may join voluntarily in order to supplement the guarantee which its depositors already enjoy by virtue of its membership of its home Member State scheme.

The scheme to be joined by the branch shall cover the category of institution to which it belongs or most closely corresponds in the host Member State.

Samkvæmt þessu, að ef svokallað gistiríki býður upp á betra eða áreyðanlegra innstæðu tryggingar kerfi, en heimaríki bankans, sem rekur útibú í gistiríkinu; þá ber gistiríkinu skilda til að bjóða upp á opinberlega viðurkennt tryggingakerfi sem viðkomandi útibú geti gerst aðili að skv. eigin vali í því skini að vera viðbót við þá innistæðy tryggingu sem það útibú þegar hefur aðgang að frá heimaríki.

Þetta eru mjög áhugaverð ákvæði, því þetta A) er skilda fyrir gistiríki, ef það telur innistæðu tryggingakerfi þess ríkis er banki er rekur útibú í því ríki sé ófullnægjandi eða þá, að þeirra eigin tryggingakerfi sé einfaldlega betra eða öruggara. B) Síðan virðist það einungis vera valkostur en ekki skilda, fyrir þann banka sem á í hlut - og því ísl. stjórnvöld augljóslega ekki að neinu leiti sek um brot á því ákvæði.

Þ.s. ég er að íja að, er að hollensk stjórnvöld og einnig bresk, hafi verið sofandi á verðinum, en þ.s. verra er, sjálf brotið þessi ákvæði, með því að bjóða ekki þegar í stað eða fljótlega, upp á þennan möguleika er Landsbanki hóf útibúa starfsemi í þeirra löndum.

Directive 19/94 - Annex II - Guiding principles

Where a branch applies to join a host Member State scheme for supplementary cover, the host Member State scheme will bilaterally establish with the home Member State scheme appropriate rules and procedures for paying compensation to depositors at that branch. The following principles shall apply both to the drawing up of those procedures and in the framing of the membership conditions applicable to such a branch (as referred to in Article 4 (2)):

(a) the host Member State scheme will retain full rights to impose its objective and generally applied rules on participating credit institutions; it will be able to require the provision of relevant information and have the right to verify such information with the home Member State's competent authorities;

(b) the host Member State scheme will meet claims for supplementary compensation upon a declaration from the home Member State's competent authorities that deposits are unavailable. The host Member State scheme will retain full rights to verify a depositor's entitlement according to its own standards and procedures before paying supplementary compensation;

(c) home Member State and host Member State schemes will cooperate fully with each other to ensure that depositors receive compensation promptly and in the correct amounts. In particular, they will agree on how the existence of a counterclaim which may give rise to set-off under either scheme will affect the compensation paid to the depositor by each scheme;

(d) host Member State schemes will be entitled to charge branches for supplementary cover on an appropriate basis which takes into account the guarantee funded by the home Member State scheme. To facilitate charging, the host Member State scheme will be entitled to assume that its liability will in all circumstances be limited to the excess of the guarantee it has offered over the guarantee offered by the home Member State regardless of whether the home Member State actually pays any compensation in respect of deposits held within the host Member State's territory.

Eins og þessi ákvæði eru orðuð, þá er um tvíhliða samstarfs samning milli viðkomandi innistæðu tryggingakerfa.

Eins og við vitum, var engin tilraun t.d. gerð af Bretum, til að hrinda þessum ávæðum í framkvæmd, fyrr en á lokamánuðunum fyrir hrun. Fyrir þann tíma, virðast bresk stjórnvöld a.m.k. hafa talið að ísl. innistæðu tryggingakerfið væri fullnægjandi.

Þetta skiptir máli, í tengslum við hugsanleg málaferli, þ.e. dregur úr líkum þess, að t.d. Bretar geti krafist einhvers fyrir dómi út frá þeirri forsendu, að ísl. innistæðu tryggingakerfið, hafi með einhverjum hætti, verið rangt upp sett eða þess fyirkomulag hafi ekki fullnægt ákvæðum Directive 19/94.

Allt sem veikir málstað Hollands og Bretlands, en styrkir okkar, skiptir að sjálfsögðu máli.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 14.1.2010 kl. 03:48

96 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Lesið frábæra grein, Prófessors Sweder van Wijnbergen, við háskólann við Amsterdam, í NRC Handelsblad. Sá maður er einmitt, sérfræðingur í skuldaskilum ríkja. "Sweder van Wijnbergen - worked for 13 years at the World Bank, and was lead economist for Mexico and Central America during the negotiations on Mexican debt."

Svo þessi maður, veit allt sem vita þarf, um afleiðingar skuldakreppu! Hann þekkir þessi mál út og inn, fyrst hann var starfandi hjá Heimsbankanum, einmitt á þeim árum, er mörg lönd í 3. heiminum, gengu í gegnum fræga skuldakreppu

Sjá greinIceland needs international debt management

Þetta er að mínum dómi, merkilegasti einstaklingurinn sem tjáð sig hefur opinberlega um málið, og fullyrðing hans "A debt of three or four times GDP cannot be repaid, and therefore will not be repaid" - skal skoðast sem hreinn sannleikur máls, fyrst það kemur frá honum.

Prófill Sweder van Wijnbergen

Þessi maður endanlega jarðar málstað ríkisstjórnarinnar.

Kv.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 14.1.2010 kl. 03:51

97 identicon

Nákvæmlega Einar, það er eins og Andri og fleiri átti sig ekki á því í ákafa sínum að refsa þjóðinni fyrir það sem fáeinir braskarar gerður að það er sama hvort Ísland virkar sem ESB eða utan ESB ríki hvað tilskipanir ESB varðar þá er gerður greinarmunur á gistiríki og heimaríki.

Gistiríkið er þar sem útibúið er og heimaríki heimaland bankastofnunarinnar. Skyldurnar virðast vera ríkari hjá gistiríkinu að sjá um að tryggingar séu í lagi.

Síðan finnst mér magnað að hér komi fram menn sem vita betur heldur en þingmenn sem komu að gerð umræddra tilskipana. Já, margan snillinginn hefur Ísland alið.

Bretar og Hollendingar ættu að bjóða okkur aðstoð við að klófesta þessa glæpamenn sem stálu hér öllu og stungu af. Þeir búa reyndar í London reyndar margir hverjir í ólifnaði, fyrir framan nefið á Gordon Brown.

Af hverju vilja þeir það ekki? Eru þeir kannski að vernda sína eigin drullusokka á sama hátt og íslensk stjórnvöld eru að vernda sína styrktaraðila? Það er auðveldara að ráðast á þá sem minna mega sín og hafa ekki efni á rándýrum lögfræðingum.

Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 14.1.2010 kl. 07:12

98 identicon

Eitt enn: Þrælasölusinnar bera mikið fyrir sig jafnræðisreglunni og því verði að bæta Bretum og Hollendingum upp innistæðutap á sama hátt og þeir sem búsettir voru á Íslandi fengu sitt á þurru.

En það er einmitt mesta brotið á jafnræðisreglunni að gera ríkissjóði heimalandanna ábyrga. Það myndi þýða að útibú Deutsche Bank yrðu 300 sinnum öruggari en útibú Landsbankans í samkeppninni um sparifjáreigendur á sameiginlega markaðssvæðinu.

Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 14.1.2010 kl. 07:18

99 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Maðurinn sem Ísland þarf á að halda - fundinn. Alþjóðlegur sérfræðingur í skuldaskilum ríkja, tjáir sig um vanda Íslands, og er harðorður!

Ég er að tala um frábæra grein, Prófessors Sweder van Wijnbergen, við háskólann við Amsterdam, í NRC Handelsblad. Sá maður er einmitt, sérfræðingur í skuldaskilum ríkja. "Sweder van Wijnbergen - worked for 13 years at the World Bank, and was lead economist for Mexico and Central America during the negotiations on Mexican debt."

Svo þessi maður, veit allt sem vita þarf, um afleiðingar skuldakreppu! Hann þekkir þessi mál út og inn, fyrst hann var starfandi hjá Heimsbankanum, einmitt á þeim árum, er mörg lönd í 3. heiminum, gengu í gegnum fræga skuldakreppu

Sjá greinIceland needs international debt management

Þetta er að mínum dómi, merkilegasti einstaklingurinn sem tjáð sig hefur opinberlega um málið, og fullyrðing hans "A debt of three or four times GDP cannot be repaid, and therefore will not be repaid" - skal skoðast sem hreinn sannleikur máls, fyrst það kemur frá honum.

Prófill Sweder van Wijnbergen

Fáum þennann mann til landsins!!!

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 14.1.2010 kl. 12:27

100 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég er búinn að lesa textann frá Lipietz í Silfri Egils á bloggi Guðmundar Ásgeirssonar.  Það er alveg kýrskýrt að Lipietz misskilur málið hrapallega, virðist álíta annað hvort að Ísland sé ekki í EES eða að EES-ríki falli ekki undir sömu ákvæði og fullgild ESB ríki hvað fjármálafyrirtæki og innlánstryggingar varðar.  En rétt er að hann fullyrðir aldrei sjálfur að hann sé einn af höfundum innistæðutryggingatilskipunarinnar; það er Eva Joly sem fullyrti það.

Einar, Article 4.2 í tilskipun 94/19/EB fjallar um að útibúum í gistiríki eigi að vera frjálst að sækja um og fá aðild að tryggingakerfi gistiríkisins til að fá viðbótarvernd ef kerfið þar veitir meiri vernd en kerfi heimaríkisins.  Þetta var gert í tilviki Icesave og því var breski FSCS ábyrgt fyrir 50.000 punda tryggingu pr. reikning að frádregnum 20.887 evrum sem TIF á Íslandi var ábyrgur fyrir.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 14.1.2010 kl. 12:45

101 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Jebb, það sem Lipietz var þá faktískt að segja var,   að Ísland ætti samkvæmt laga og reglugerðum að borga.

Jú jú,  hann fór dáldlar krókaleiðir í rökleiðslunni að þeirri niðurstöðu.  Gerði það vissulega.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 14.1.2010 kl. 15:07

102 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Er kallin þá að tala um einhverja banka sem eru með innistæðutryggingar samkvæmt 94/19/ en eru ekki í EEA og ekki í EU, eru þeir til Vilhjálmur ?

Eða er þetta kannski bara einhver rugludallur sem Joly hefur fundið á rönsku fávitahæli

Guðmundur Jónsson, 14.1.2010 kl. 16:16

103 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Já, Guðmundur, Lipietz var að vísa til þess hvernig meðhöndla eigi banka utan ESB & EES sem æskja þess að setja upp útibú innan ESB & EES.  En það tilfelli á ekki við um Icesave.  Rugludallur er þitt orð, en vissulega hefði verið betra að fá skýrara álit frá sérfræðingi sem hefði sett sig vel inn í kringumstæðurnar.  Mér finnst ekki til of mikils ætlast að erlendir álitsgjafar lesi t.d. lögfræðiálitin á island.is og vef fjárlaganefndar, frá Ashurst, Mishcon de Reya o.fl. - þau eru birt þar í upprunalegu formi á ensku og hver sá sem hefur lesið þau kemst hjá því að fara með fleipur í grundvallaratriðum.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 14.1.2010 kl. 16:38

104 identicon

Siggi-

Ef einhver hefur áhuga þá er þér eða öðrum frjálst að birta það sem ég hef skrifað. Ég hef engan aðgang að fréttaveitum Íslands annan en sem lesandi á netinu.

Hvernig stendur annars á því að ég sé ekki fréttir um að það séu stórir hópar að skipuleggja að hafa áhrif á Icesave þjóðaratkvæðagreiðsluna? Er það svo að það séu engir sem vilja reyna að koma upplýsingum á framfæri við almenning?

Mér þætti t.d., ekki óeðlilegt að ríkisstjórnin sem klárlega telur þetta mál gífurlega mikilvægt fyrir þjóðarhag taki sig til og skipuleggi upplýsingaherferð um málið. Burtséð frá skoðunum um sanngirni, réttmæti, og annað sem hver og einn verður að gera upp við sig, þá er ljóst að þjóðin þarf að hafa haldbærar upplýsingar á einföldu máli um hvað málið snýst. Það eru fjöldamargar staðreyndir í Icesave málunum öllum sem eru óhagganlegar, þrátt fyrir að keppst hafi verið við að þyrla upp ryki til að hylja þær. Sérstaklega þarf að gera fólki ljóst að Icesave málinu lýkur ekki með því að það falli í þjóðaratkvæðisgreiðslu.

Þvert á móti þá er málið þar með komið í slíka hönk að engin skýr leið er til lausnar. Eftir fréttamannafund Strauss-Kahn i dag ætti öllum að vera ljóst hversu alvarleg sú staða er þjóðinni.

Andri

...

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 14.1.2010 kl. 21:49

105 identicon

Hér er FME ábyrgara en FSA en samt kveða Basel viðmið á um samvinnu.

 

For example, Icesave’s home country was Iceland (which is not in the EU, but in the European Economic Area), where it was registered with the supervisory authority, while the UK was a host country to Icesave’s branches. Currently banks from the European Economic Area (which includes Iceland, Norway and Liechtenstein) can operate in the UK under license from their home supervisor. The branch remains under the supervision of the home country supervisor, rather than the FSA. Turner review: Landsbanki – "Icesave" – revealed that the present regulatory approach to the European single market in retail banking is unsafe and untenable. Landsbanki had passporting rights to operate as a branch in the UK, primarily supervised by the Icelandic supervisor. Depositor protection rested on the fiscal capacity of Iceland and the resources of its deposit insurance scheme: both were inadequate. Faced with that reality we either need more European coordination or more national powers – more Europe or less Europe – we can’t stay where we are.http://www.fsa.gov.uk/pubs/discussion/dp09_02.pdf   sjá bls 56 og 57

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 15.1.2010 kl. 00:24

106 Smámynd: Jón Valur Jensson

"... hver höndin er upp á móti annarri og þeir enir hræddustu ráða mestu, eins og jafnan er vant." – Jón Sigurðsson: Um Alþíng á Íslandi (1841), fjórða grein (s. 19 í útg. Sverris Kristjánssonar: Hugvekja til Íslendinga, Rv. 1951).

Svo virðist aftur komið nú. Voldug erlend ríki koma fram af "hroka" við okkur og beita okkur "kúgun" (orð Evu Joly). Stjórnvöld hér hræðast erlenda valdið og lúffa: gera sína Icesave-samninga. Það, sem hallast á þau gagnvart erlenda valdinu, þess hefna þau á Alþingi, bæta sér það upp með yfirgangi þar, jafnvel gegn eigin þingmönnum. Þeir hinir óhræddu eru í minnihluta á Alþingi, en í meirihluta meðal þjóðarinnar.

Andri Haraldsson er talsmaður óttans og uppgjafarhyggjunnar. Hann hefði dugað illa í þroskastríðunum.

Jón Valur Jensson, 15.1.2010 kl. 02:48

107 identicon

Jón Valur-

Ef marka má upplýsingar á skrafsíðum þínum hefur þú væntanlega gluggað í biblíuna. Næst þegar þú hefur næði mættirðu lesa Corinthians 1 vers 13:11.

"When I was a child, I spoke and thought and reasoned as a child. But when I grew up, I put away childish things.'

Annars óska ég þér hins besta í framtíð þinni og starfi. Hér eru orð Sr. Jóns Vídalíns sem okkur er öllum gott að muna, hvort sem við teljum okkur börn guðs eða leiksoppar mannanna.

"Heiftin er eitt andskotans reiðarslag. Hún afmyndar alla mannsins limi og liði, hún kveikir bál í augunum, hún hleypir blóði í nasirnar, bólgu í kinnarnar, æði og stjórnleysi í tunguna, deyfu fyrir eyrun. Hún lætur manninn gnísta með tönnunum, fljúga með höndunum, æða með fótunum. Hún skekur og hristir allan líkamann og aflagar, svo sem þegar hafið er upp blásið af stórviðri."

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 15.1.2010 kl. 03:30

108 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

"Einar, Article 4.2 í tilskipun 94/19/EB fjallar um að útibúum í gistiríki eigi að vera frjálst að sækja um og fá aðild að tryggingakerfi gistiríkisins til að fá viðbótarvernd ef kerfið þar veitir meiri vernd en kerfi heimaríkisins.  Þetta var gert í tilviki Icesave og því var breski FSCS ábyrgt fyrir 50.000 punda tryggingu pr. reikning að frádregnum 20.887 evrum sem TIF á Íslandi var ábyrgur fyrir.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 14.1.2010 kl. 12:45"

-------------------------------------------------------

Það fríar Breta ekki endilega alveg, þ.s. það má líta svo á, að samkomulagið hafi falið í sér vissa blessun þeirra, samt sem áður, á TIF - þ.e. þeir hafi talið hann fullnægjandi, þó svo þeirra trygging hafi verið betri eða meiri.

Þ.s. ég meina, að það grafi undan þeim möguleika, að í domsmáli sé reynt að sína fram á, að TIF hafi ekki uppfyllt 94/19.

-----------------------------------

Annars er grunn afstaða mín - að skuldastaða Íslands sé þegar með þeim hætti, að skuldir séu óviðráðanlegar, það hefur reyndar verið mín skoðun alla tíð síðan október '08.

Ég vil að Íslands stefni að, allsherjar endurskipulagningu skulda, með þeim hætti að á endanum greiði landið einungis hlutfall þeirra, sbr. hugsanlega hið svokallaða Brady Plan.

Ef til vill, er hægt að endurvekja "the Brady Bonds". 

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 15.1.2010 kl. 11:44

109 Smámynd: Jón Valur Jensson

Andri, reyn þú ekki að nota Guðs orð til að svara fyrir þig, þegar þig skortir rökin. Taktu frekar ábyrgð á orðum þínum að reyna að draga mátt úr þjóð þinni, á sama tíma og útlendingar hver eftir annan og það hæfustu menn eru að taka eftir því og hafa orð á því, jafnvel í leiðurum Wall Street Journal og Financial Times og víðar (sjá vef minn í dag, smellið á nafn mitt!), að Bretar eru að beita okkur ofríki og rangindum og ættu miklu fremur að hlífa okkur. En það er víst ekki þín ósk. Verði þér EKKI að ósk þinni!

Jón Valur Jensson, 15.1.2010 kl. 12:31

110 Smámynd: Egill M. Friðriksson

Jón Valur: Þvert á móti hefur ekki vantað rökin hjá honum Andra. Helsta vandamálið þegar einhver á rökræður við þig er að þú kýst mjög oft (hef reynslu af því persónulega) að hunsa rök þess sem þú rökræðir við og í leiðinni reynir að gera lítið úr manneskjunni eða gera henni upp einhverjar skoðanir (sbr. dæmi þitt að ofan þar sem þú lýsir Andra sem talsmanni óttans og telur að hann hefði ekki verið mikill bandamaður í þorskastríðinu). Það eitt að einhver sé ósammála gefur þér iðulega tilefni til að reyna sverta heilindi þess sem þú rökræðir við. 

Satt best að segja skil ég ekki hvernig Vilhjálmur og Andri hafa nennt að svara þér hingað til enda sýnist mér þeir hafa gefist upp á því. En ég ætla ekki að eyða meira púðri í þig. Vonandi pælirðu eitthvað í þessu.

Egill M. Friðriksson, 15.1.2010 kl. 13:46

111 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hvað er Andri annað en talsmaður óttans í innleggi sínu í gær kl. 21:49?

Ég er þó ekki að segja, að 'hræðslurök' séu hans eini málflutningur – alls ekki, hann hefur nefnilega mörg önnur falsrök í máli sínu, eins og ég mun sýna og sanna.

Þið verðið einfaldlega að afsaka, að margt hefur mætt á mér að undanförnu og ég hef ekki getað gefið mig að þessari rökræðu sem skyldi, ekki nærri því af hálfum krafti. Vonast til að bæta úr því bráðlega og skal þá ekki svíkja Andra um gagnrök! – jafvel ekki Vilhjálm!

Jón Valur Jensson, 15.1.2010 kl. 23:32

112 identicon

Sæll Vihjálmur.  

Er ekki kjarna málsins að finna hér – burtséð frá mörgum öðrum álitamálum ?

http://www.mbl.is/mm/vidskipti/frettir/2010/01/22/vidsemjendur_taki_throtabu_landsbankans/

Sjá einnig: Samantekt fyrir Englandsbanka ..frá bls 28 og áfram...

http://www.fmlc.org/papers/Issue133depprot.pdf

og

http://www.citysolicitors.org.uk/FileServer.aspx?oID=353&lID=0

Einnig er hér ítarleg umfjöllun um gjaldþrot og gjaldþrotalög cross-border-banka á EU svæðinu þar sem kemur nokkuð skýrt fram að Ragnars H Hall ákvæið ætti að gilda !!

http://fmg.lse.ac.uk/upload_file/1161_Nieto.pdf

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 23.1.2010 kl. 14:23

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband