Sænska stjórnarskráin

Í aðdraganda stjórnlagaþings er gagnlegt að kynna sér stjórnarskrár annarra landa.  Sumar þeirra eru  nýjar eða nýlegar - eins og stjórnarskrá Finnlands og Sviss - en aðrar eldri, eins og gengur.  Íslenska stjórnarskráin er í hópi þeirra eldri, enda að uppistöðu frá 1874, og ber aldurinn ekki að öllu leyti vel.

Hér lít ég stuttlega á sænsku stjórnarskrána en mun kíkja á aðrar athyglisverðar stjórnarskrár í síðari bloggfærslum.

Svíar eru reyndar ekki með eina stjórnarskrá heldur fern grunnlög.  Fyrstu grunnlögin eru hin hefðbundnu stjórnskipunarlög.  Önnur grunnlögin fjalla um ríkiserfðir.  Þau þriðju fjalla um prentfrelsi og þau fjórðu um tjáningarfrelsi.  Já, þú last rétt: Svíar tryggja prentfrelsi og tjáningarfrelsi í ítarlegum bálkum í stjórnarskránni sjálfri.

En fyrstu tvær greinar stjórnskipunarlaganna (Regeringsformen) eru nokkurs konar inngangur sænsku stjórnarskrárinnar og gefa tóninn fyrir það sem á eftir kemur.  Hér eru þær í lauslegri þýðingu minni:

1. Allt opinbert vald í Svíþjóð kemur frá þjóðinni.

Sænskt lýðræði byggir á frjálsri skoðanamyndun og á almennum og jöfnum kosningarétti.  Það er raungert með fulltrúalýðræði og þingræðisfyrirkomulagi, og með sjálfræði sveitarstjórna.

Opinberu valdi er beitt með lögum.

2. Opinberu valdi skal beita af virðingu fyrir jöfnu manngildi allra og frelsi og sjálfsvirðingu einstaklingsins.

Persónuleg, hagræn og menningarleg velferð einstaklingsins skal vera grunnmarkmið opinberrar starfsemi.  Sérstaklega skal það vera skylda hins opinbera að tryggja rétt til heilsu, atvinnu, húsnæðis og menntunar, og að vinna að félagslegri velferð og öryggi.

Hið opinbera skal efla sjálfbæra þróun sem leiðir til góðs umhverfis fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

Hið opinbera skal halda fram hugsjónum lýðræðis sem leiðarljósi í öllum geirum samfélagsins og vernda einka- og fjölskyldulíf einstaklinga.

Hið opinbera skal vinna að því að allir geti tekið þátt og notið jafnréttis í samfélaginu.  Hið opinbera skal vinna gegn mismunun fólks á grundvelli kyns, litarháttar, þjóðernisuppruna, kynþáttar, tungumáls, trúarafstöðu, fötlunar, kynhneigðar, aldurs eða annarra kringumstæðna einstaklingsins.

Minnihlutahópum á grundvelli kynþáttar, tungumáls eða trúarafstöðu skulu tryggð tækifæri til að varðveita og þróa eigið menningar- og félagslíf.

Eitthvað af þessu gæti nýst í inngang nýrrar stjórnarskrár Íslendinga. Hvað finnst þér?  Athugasemdir og umræða velkomin.

Ég er frambjóðandi 2325 til stjórnlagaþings.  Framboðsvefurinn er www.vthorsteinsson.is og svo er framboðið líka með fésbókarsíðu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Mjög almennt orðuð ákvæði hafa tilhneigingu til að skipta litlu máli. Ég aðhyllist að ákvæði stjórnarskrárinnar séu temmilega nákvæm til að löggjafinn geti ekki bara gert nánast eins og honum sýnist við lagasetningu. En millivegurinn milli þess að stjórnarskráin sé almenn stefnuyfirlýsing og þess að hún leggi skýran grunn að stjórnarfyrirkomulaginu er vandfundinn.

Ketill Sigurjónsson, 9.11.2010 kl. 17:11

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Yfirleitt eru nýjar stjórnarskrár byggðar upp þannig að byrjað er á formála eða aðfararorðum, svo taka við ýmis grunngildi og almennir útgangspunktar, síðan er farið yfir í mannréttindi og loks konkret í stjórnskipan og aðra praktíska þætti.  Þannig að almennu viðmiðin eru fyrst en eftir því sem aftar dregur verður orðalagið skýrara og nákvæmara.  Ég vil gjarnan sjá þetta svona í nýju íslensku skránni.  Reyndar vil ég gjarnan að stjórnlagaþingið fái atbeina skálda og rithöfunda við að orða fyrstu kaflana.  Mér finnst að þeir eigi að vera fallegir og nánast ljóðrænir, tefla íslenskunni fram.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 9.11.2010 kl. 22:55

3 Smámynd: Ketill Sigurjónsson

Jamm. Ég er reyndar það sem kalla má minimalista og er afar illa við orðskrúð og óþarfa í lögfræðilegum textum. En þetta með aðkomu orðnæmra er kannski alls ekki galin hugmynd.

Ketill Sigurjónsson, 9.11.2010 kl. 23:38

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband