Hvernig þarf að svara úrslitum sveitarstjórnarkosninganna?

Undanfarin ár og áratugi hefur þjóðfélagið flækst verulega. Hagstjórn, stjórnkerfi og stjórnsýsla, fjármálakerfið, framboð vöru og þjónustu, samskipti - á öllum þessum sviðum, og fleirum, hefur flækjustigið verið í veldisvexti. Meiri kröfur eru gerðar til sérfræðiþekkingar, sem aftur leiðir til aðgreiningar milli þekkingarsviða.

Almenningur hefur í auknum mæli þurft að treysta því, án þess að vita fyrir víst, að öryggi hans og velferð væru í góðum höndum sérfræðinga - "elítu" á hverju sviði fyrir sig.  Meðan allt gekk vel var traustið fyrir hendi.  En eftir hrunið hvarf það eins og dögg fyrir sólu.  Elíturnar brugðust, flestar hverjar, og hinir meintu sérfræðingar voru ekki allir þar sem þeir eru séðir.

Í því andrúmslofti kemur ekki á óvart að framboð á borð við Besta flokkinn í Reykjavík hitti í mark.  Ímynd Besta flokksins er sú að þar fari "venjulegt" fólk; fólk sem er ekki sérfræðingar, og stendur utan stjórnmálaelítunnar.  (Reyndar er margt Bestaflokksfólk innan annarrar elítu, þ.e. menningarelítunnar, en það er önnur saga.)  Skilaboðin eru þau að sérfræðingum og gömlu elítunni sé ekki treystandi.  Þeir og hún tali ekki tungumál venjulegs fólks, hlusti ekki á það og nái ekki til þess.

Nú kann að vera úr vöndu að ráða, því þjóðfélagið verður áfram flókið.  Ég held að það sé ekki raunhæfur kostur að snúa til baka, t.d. í flækjustig 8. áratugar síðustu aldar.  Þá gat gengið upp að setja velþokkaða bændur í ráðherra- og bankastjóraembætti, enda var þá e.t.v. gerlegt fyrir sæmilega greinda þúsundþjalasmiði að setja sig inn í slík störf án viðeigandi menntunar eða reynslu sem heitið gat.  En sá tími er liðinn og kemur ekki aftur.

Leiðin fram á við hlýtur fremur að vera sú að fara í róttækar stjórnkerfisumbætur, þannig að kerfið sé betur í stakk búið til að eiga við flókið nútímaþjóðfélag, og því sé treystandi fyrir öryggi og velferð almennings.  Það gæti til dæmis verið samkvæmt eftirfarandi prógrammi:

  • Kosið verði til stjórnlagaþings í haust í almennum kosningum.  Þar verði um persónukjör að ræða án formlegra afskipta flokka, sbr. stjórnarfrumvarp sem liggur fyrir Alþingi.
  • Stjórnlagaþing starfi með opnum hætti.  Lykilatriði sem ná þarf fram í nýrri stjórnarskrá eru m.a. aðskilnaður löggjafar- og framkvæmdavalds, þar sem forsætisráðherra er kosinn beinni kosningu og tilnefnir ráðuneyti sitt á faglegum grundvelli; auknir möguleikar til persónuvals í þingkosningum; og að landið verði eitt kjördæmi.  (Minni í þessu sambandi enn á hugmyndir Vilmundar Gylfasonar.)
  • Að loknu stjórnlagaþingi kemur uppkast að nýrri stjórnarskrá til Alþingis, sem vonandi samþykkir hana, en við það verður þingrof og nýjar kosningar (skv. gamla kerfinu).  Hið nýja þing staðfestir síðan (vonandi) aftur hina nýju stjórnarskrá, sem verður þá grunnur enn nýrra kosninga samkvæmt nýju fyrirkomulagi - bæði til þings (í einu kjördæmi, með persónukjöri) og til að kjósa forsætisráðherra.

Þá er loks komið á framtíðar stjórnkerfi sem að mínu mati mætir kröfum nútímans, dregur úr óæskilegum eiginleikum núverandi flokkakerfis, og getur endurheimt traust almennings.

Þessa leið þarf að ákveða og varða sem fyrst þannig að fólk geti haldið í trúna á samfélagssáttmálann og lýðræðisskipulagið í landinu.  Að öðrum kosti myndast tómarúm sem eitthvað mun verra en Besti flokkurinn gæti orðið til að fylla í.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sammála Vilhjálmur. Mikið hefur verið talað um endurreisn. Þetta er grunnurinn að henni.

Það er mjög mikilvægt að stjórnlagaþingið taka á þeim vanda sem felst í því að almenningur afhendir "vald" sitt á ákveðnum ára fresti en hefur lítil sem engin áhrif þar á milli. Þessi vandi er ekki séríslenskur heldur viðloðandi í vestrænu lýðræðiskerfi. Þannig geta stjórnmálamenn tekið ákvarðanir sem almenningur væri að megninu til ekki sáttur við. Rökin að þá verði viðkomandi refsað í næstu kosningum duga skammt þegar horft er til þess að nánast alls staðar eru til staðar stórar valdablokkir í stjórnmálakerfinu og því erfitt fyrir lýðræðis að birtast annars sem val um fyrirliggjandi blokkir.

Þjóðaratkvæðagreiðslur ráða aðeins að hluta til við þennan vanda eins og þær eru "praktiseraðar" í dag.

Aðeins ýktar aðstæður eins og hér á landi gera það mögulegt að nýtt framboð eigi möguleika.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 2.6.2010 kl. 17:40

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Einmitt. Og svo er einnig borðleggjandi að nota möguleika Internetsins til betri upplýsingagjafar og til beinnar samræðu og skoðanaskipta milli almennings, þings og ríkisstjórnar, sem verða að vera mun öflugri milli kosninga.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 3.6.2010 kl. 17:50

3 Smámynd: Björn Leví Gunnarsson

- Ekki kjósa flokka, kjósa EINN frambjóðanda innan flokksins (raðar á lista og gefur flokknum atkvæði á sama tíma).

- Stofna almenningsdeild alþingis (persónukjör, takmarkaður fjöldi kjörtímabila) sem starfar á breiðari grundvelli en alþingi og er til að byrja með prófsteinn fyrir beint lýðræði. Það má líta svo á að almenningsdeild alþingis sé ráðgefandi fyrir alþingi ... allavega til að byrja með.

Björn Leví Gunnarsson, 3.6.2010 kl. 18:07

4 identicon

Gott innlegg. Mér finnst vanta að auðir seðlar og þeir sem heima sitja skili auðu þingsæti. Nefni enn að fækka þingmönnum niður í 41

Einar Þorbergsson (IP-tala skráð) 3.6.2010 kl. 19:20

5 Smámynd: Brjánn Guðjónsson

vorið 2005 hækkaði OR gjaldskrá sína vegna þess hve heit sumur hafi verið. semsagt hækkaði verðið vegna minnkandi eftirspurnar.

ekki alveg þetta svokallaða lögmál framboðs og eftirspurnar. hefðu samkvæmt því átt að lækka verðið. meira svona eins og gamla pólitík Verðlagsráðs.

nú á að hækka á einhverjum allt öðrum forsendum.

hljómar eins og olíufélögin sem hækka verða samkvæmt forsendum A, en lækka ekki samkvæmt forsendum B.

Brjánn Guðjónsson, 3.6.2010 kl. 19:49

6 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Góð færsla.  Gallar íslenska fulltrúalýðveldisins ættu að vera öllu ljósir eftir hrunið og 2 kosningar.  Spurningin er hvort við stígum ekki skrefið til fulls og styðjumst við 21. aldar tækni og innleiðum beint internet lýðræði eins og þú stingur upp á.

Fulltrúarlýðveldið er barn síns tíma og aðeins einn kostur, en framtíðarkostir eru margir.   T.d. mætti fara eins konar Júróvison leið og láta þingið hafa 50% vægi og almenning 50% í mikilvægum málum.

Andri Geir Arinbjarnarson, 3.6.2010 kl. 19:51

7 identicon

Sæll Vilhjálmur.  Þegar hrunið varð á Íslandi þá voru mér tvö mál hugleikin.  Annað var að tryggja eðlileg viðskipti við útlönd (enn ekki komið í gegn), og hitt var að skrifa nýja stjórnarskrá fyrir landið -- það sem mætti kalla Ísland 2.0. Raunar hefur mér stjórnarskráin verið mjög hugleikin síðan ég fluttist til BNA fyrir næstum 20 árum.

Þó að innlegg þitt sé gott, þá vantar mikið upp á að á Íslandi hafi verið nægjanleg umræða um hvernig þjóðin eigi að skipuleggja sig.  Þannig virðast mér hugmyndir stjórnlagaþing séu kaldur og óætur hrærigrautur.  

Það er fátt erfiðara en að breyta grunnskipun lands.  Fyrir utan það að ræða þarf markmið, og meta hversu mismunandi leiðir geta náð þeim markmiðum, þá erumörg tæknileg atriði þarf að skoða.  T.d., þá þufa öll lög landsins þurfa að vera í samræmi við stjórnarskrá.  Ef stjórnarskránni er breytt þá myndast óvissa um gildi núverandi laga.  Slík óvíssa er mjög hættuleg.

En ef við snúum okkur að markmiðum og leiðum, þá er alltof mikil áhætta að bíða þangað til að eitthvað þing er samsett sem síðan samþykkir til þings og/eða þjóðaratkvæðagreiðslu einhvern stjórnarskrárbreytingarpakka.  Svona mál geta og eiga að taka langan tíma og skynsamlegt er að tryggja að valmöguleikarnir séu skýrir.  Nefni hérna nokkur dæmi:

  • Hvert á að vera valdsvið ráðherra og annarra pólitískra yfirmanna ríkisstofnanna og hvernig samrýmist það valdi langtíma embættismanna?
  • Hvernig á að velja dómara og skipuleggja  dómskerfið?
  • Hver fer með utanríkismál?  Þing, stjórn, forseti, þjóð?  Hvernig?  Hver getur lýst á hendur öðrum þjóðum stríði?  Hver og hvernig getur þjóðin bundist öðrum þjóðum eða fyrirtækjum?
  • Hvert er hlutverk forsetans?  Lagaformlega--ekki í hjörtum fólksins?
  • Hvaða hlutverki eiga beinar kosningar landsmanna að gegna?  Hvernig á að framkvæma þær?  Hvenær eru þær bindandi?  Um hvað geta þær verið?  Hvenær geta þær verið haldnar?  Þetta er ekkert smámál, og menn geta bara litið til Kaliforníu til að sjá hversu víðtæk áhrif slíkar kosningar geta haft á starfhæfi ríkisins.
  • Hvernig á að kjósa fulltrúa?  Beinni heildar hlutfallskosningu, kjördæmi, flokkar, einstaklingar?  Hversu lengi á þing að sitja, eiga að vera takmörk á lengd þingsetu (e. term limits)?
  • Eiga að vera reglur um vanhæfi sem eru ríkari en í öðrum löndum, vegna smæðar þjóðarinnar?
  • Hverjar eru megin reglur réttarins?  Er allt leyft sem ekki er bannað, er allt bannað sem ekki er leyft?

Ég gæti haldið áfram svona í allan dag.  Sumar af þessum spurningum eru ekki stjórnarskrárspurningar, heldur lagalegar, en þær þarf að skoða í þessu samhengi því að stjórnarskráin ein sér er svona eins og yfirlitsskrá.  Til að leysa vandamálin þarf að fara miklu dýpra í málin en nokkurn tíma virðist hafa verið áhugi (og etv. meiri en getan einnig) hefur verið á.

Að lokum þá vil ég benda á að það tók 12 ár frá því að BNA lýsti sig sjálfráða, þangað til að stjórnarskráin var samþykkt.   Á þeim tíma öllum var endalaust þrefað og skrifað um hvernig hún ætti að líta út.  Það tók ekki svo langan tíma að skrifa hana og þegar hún var loks skrifuð, þá var hún að talsverðu leyti byggð á efni úr stjórnarskrám hinna ýmsu fylkja sem höfðu prófað sig áfram með þessi mál. 

Í nútíma þjóðfélagi er Þetta mjög flókið vegna þess að plaggið sem þú endar með þarf að vera einfalt.  Og sennilega ekkert erfiðara en að skrifa einfalt plagg sem næginlegur meirihluti sættir sig við.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 3.6.2010 kl. 20:47

8 Smámynd: Björn Leví Gunnarsson

"Mér finnst vanta að auðir seðlar og þeir sem heima sitja skili auðu þingsæti"

Nei nei, það er nóg að þingmenn/flokkar fari inn á alþingi með sitt prósentuhlutfall af atkvæðum. Ef mikið er um auð atkvæði þá þýðir það að það eru ekki 100% atkvæða inn á alþingi ... gerir áhugaverða hluti þegar það þarf "meirihluta atkvæða" sem samkvæmt skilgreiningu er hærra hlutfall en 50%, ekki meirihluti þingmanna.

Björn Leví Gunnarsson, 4.6.2010 kl. 03:10

9 identicon

Andri hefur rétt fyrir sér, þetta er mjög flókið og erfitt mál.  Það sem VÞ segir er í sjálfu sér rétt.  En. Það mun aldrei verða neitt stjórnlagaþing án afskipta (formlegra eða ekki) flokkanna.  Björn Bjarna mun bjóða sig fram og sá armur Sjálfstæðisflokksins MUN skipuleggja framboð á sínum vegum.  Þetta MUN Samfylkingin sjá og svara, sem og VG og hver veit nema Framsóknarflokkurinn geti haft eitthvað að segja?  Þetta er bara svona.  Hvers vegna?  Vegna þess að stjórnlagaþingið snýst um völd.  Auðvitað vildi maður að hægt væri að kjósa 30 manna hóp ,,að bestu manna og kvenna yfirsýn".  En þarna munu menn skipa sér í fylkingar.  Þetta gerist meðal annars vegna þess að nú sjáum við brýna þörf á því að setja valdhöfum SKORÐUR.  Stía sundur framkvæmda- og löggjafavaldi og auka sjálfstæði dómstóla.  Þetta felur í sér skorður við valdi þeirra sem nú hafa það.  Valdi ráðherra, valdi þingmanna.  Til að mynda er alveg nauðsynlegt að auka rétt almennings til að stöðva Alþingi á villigötum; við hefðum getað kolfellt eftirlaunalögin ef við hefðum haft leyfi til að taka málið til þjóðaratkvæðagreiðslu, svo dæmi sé tekið.

Í þessari umræðu þarf líka að fara yfir þá vinnu sem þegar hefur verið unnin í hinum ýmsu stjórnarskrárnefndum.  Mér skilst að síðast hafi verið komist ansi langt en þá strandað á ágreiningi um forsetavald til málskots.

Umfram allt tel ég ekki hægt að kjósa til stjórnlagaþings upp ,,úr þurru".  Hvernig á maður að velja úr 150-300 manna hópi?  Hvernig á maður að  gera upp hug sinnn um stærstu álitamálin?  Hver eru þau annars?  Formið á Þinginu sjálfu er sérstakt mál, en hvað með lýðræðislega upplýsingu og umræðu ÁÐUR en kosið er?

Tökum dæmi: Nú er aukið vægi persónukjörs komið í gíslinu kynjakvóta.  Kynjakvótar - samkvæmt skilgreiningu - ganga gegn hugmyndinni um persónukjör og aukið vald kjósenda á röðun á lista.  Þessi tvö mál verða ekki leyst samtímis með viðunandi niðurstöðu fyrir þá sem halda ólíkum sjónarmiðum fram.  Hvernig  haldið þið að verði að ná niðurstöðum um ,,eitt land eitt kjördæmi sama vægi atkvæða"?   Skagfirðingarnir hans Jóns Bjarna og ,,ungu" Framsóknarmennirnir verða örugglega skemmtilegir þar.

Ég er algjörlega sammála því að hraða sem mest stjórnlagaþingi en undirbúningur og aðdragandi verða að taka mið af því að lýðræði er ekki tæknilausn á kosningu heldur langt og stundum flókið ferli, tala nú ekki um þegar svona mikið er í húfi.

Stefán Jón Hafstein (IP-tala skráð) 4.6.2010 kl. 08:29

10 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þakka góðar athugasemdir. Ég hefði vonast til þess að fólk kysi fulltrúa á stjórnlagaþing sem það treystir á grundvelli almennra verðleika, þ.e. grandvart, velþenkjandi fólk sem það treystir til að komast að skynsamlegri niðurstöðu. Það væri mun verra ef af stað færi "kosningabarátta" sem snerist um að kjósa fulltrúa með fyrirfram mótað mengi af skoðunum um hvað má og hvað má ekki, óháð umræðu og gögnum sem fram koma í meðferð þingsins.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 4.6.2010 kl. 11:30

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

... en óneitanlega vekur nafn Björns Bjarnasonar manni hroll í þessu samhengi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 4.6.2010 kl. 11:30

12 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þetta mál er ekki svo flókið að ekki sé hægt að finna ásættanlega niðurstöðu. Í tillögum Njarar P Njarðvík sem komu fram í jan 2009 er gert ráð fyrir því að  alþingismenn hafi ekki kjörgengi til Stjórnlagaþings, þar er Björn Bjarnason út leik sem betur fer. Hvað varðar umfjöllun Alþingis þarf að koma því svo fyrir að það geti ekki fellt nýja Stjórnarskrá, án aðkomu kjósenda á einhvern hátt.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 5.6.2010 kl. 22:56

13 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Las yfir greinina um kjörgengi og sá þar mér til leiðinda að ekki er talað um fyrrverandi Þingmenn. BB er ekki lengur á þingi

Hólmfríður Bjarnadóttir, 5.6.2010 kl. 23:02

14 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

...fæ líka hroll þegar BB er nefndur í þessu sambandi...

Hólmfríður Bjarnadóttir, 5.6.2010 kl. 23:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband