Íslandi allt

Þróunin í Grikklandi og á Írlandi síðustu vikur og daga hefur valdið heilabrotum.  Evran kom ekki í veg fyrir að ríkisstjórnir þessara landa gerðu alvarlegar bommertur.  Þetta eru mikil vonbrigði.  Þrátt fyrir evru eru Grikkir með mikinn fjárlagahalla, og það sem verra er, evran kom ekki í veg fyrir að fasteignabóla blési út á Írlandi.  Almenningur í þessum löndum hefur tapað stórfé vegna hárra vaxta, verðtryggingar og mikilla lána í öðrum gjaldmiðlum (held ég).  Ég er því kominn af þeirri skoðun að evran henti Íslandi vel.  Við ættum að halda okkur við okkar gömlu góðu krónu, sem hefur dugað okkur svo vel í gegn um áratugina, og jafnan reynst hinum almenna launamanni haukur í horni.

Veik króna hjálpar okkur mikið þessa dagana.  Hún minnkar innflutning og eykur útflutning, t.d. lækna og hámenntaðs fólks sem við getum vel komist af án enda liggur framtíðin í frumframleiðslugreinum.  Nú er rétti tíminn að tvíefla sjávarútveg og landbúnað, og framleiðslu áþreifanlegra iðnaðarvara, t.d. raftækja (sbr. Rafha) og smjörlíkis.  Per Olaf Lundteigen er fyrirmyndar stjórnmálamaður (þótt útlenskur sé) í Noregi sem hefur verið með athyglisverðar hugmyndir í átt til sjálfsþurftarbúskapar þar í landi.  Þetta er alveg málið fyrir unga fólkið í dag, "gegt kúl" eins og það sjálft myndi kannski orða það, í geðshræringu.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur ekkert hér að gera, enda báðum við ekki um hann.  Davíð Oddsson, sá mikli foringi (blessað sé nafn hans), og Árni Mathiesen voru fullkomlega umboðslausir þegar þeir undirrituðu minnisblaðið um samstarf við sjóðinn.  Við Íslendingar höfum alltaf getað bjargað okkur sjálfir og eigum ekki að reiða okkur á aðrar þjóðir.  Áður en við vitum af missum við fullveldi okkar og sjálfstæði í hendur nýlenduþjóðanna í kring um okkur, til dæmis Breta og Hollendinga og fylgifiska þeirra í fjötrum Evrópusambandsins.  Þeir eru að kúga okkur til að borga sér 700 milljarða króna (ef ekki miklu meira) fullkomlega að ástæðulausu, vegna skulda einkabanka sem Davíð bar enga ábyrgð á.  Og ætla að stórgræða á öllu saman.  Látum þá fara í mál fyrir Héraðsdómi!  Við borgum ekki krónu, sama hvað hver segir; það væri fullkomlega andstætt eðli okkar sem stoltra víkinga.  Enda eru traust, orðheldni og orðstír stórlega ofmetin og úrelt fyrirbæri í flóknum og hröðum heimi viðskiptalífsins í dag.  Þá lexíu höfum við lært á undanförnum árum.

Að leysa vanda Íslands er sáraeinfalt.  Það eina sem vantar er smá götugreind.  (Stjórnvöld eiga að hlusta miklu meira á fólkið, t.d. á þá sem setja inn athugasemdir á Eyjunni.is, þar er stórgott dæmi um svokallað wisdom of crowds sem er mjög heitt trend.)  Afnemum verðtryggingu (bótalaust, var ég búinn að nefna að stjórnarskráin er ofmetin og úrelt?), og eflum að sjálfsögðu lífeyrissjóði og Íbúðalánasjóð að sama skapi.  Borgum ekki krónu af Icesave. Hendum kapítalísku fasistunum og niðurskurðarböðlunum í AGS úr landi.  Hagfræðiteóríur gilda hvort sem er ekki hér, eins og góður fyrrum forsætisráðherra benti réttilega á.  Segjum ESB að éta það sem úti frýs og göngum úr EES, fjórfrelsið er hvort sem er ofmetið og lífið var fínt fyrir 1993.  Það var reyndar fínt fyrir 1883 ef út í það er farið.

Niðurskurður er óþarfur.  Við prentum bara peninga og skattleggjum tap, og það er heldur ekkert mál að ríkissjóður fari í greiðsluþrot. Það hefur gerst oft í Argentínu og þar eru menn bara í fínum málum (held ég).  Stærðfræði er stórlega ofmetin og úrelt fyrirbæri, og hver segir að náttúrulögmál séu einhver "lögmál"?  Ég hvet menn til að kynna sér málflutning Hreyfingarinnar.  Hún er með marga nýstárlega vinkla á aldagamlar stærðfræðikenningar, og ég tek undir með þeim að "tvöfalt bókhald" er eitthvað gruggugt; bara nafnið kveikir grunsemdir.  Svo má líka leita til erlendra sérfræðinga, t.d. í Vísindakirkjunni (er ekki löngu kominn tími til að Egill Helga tali við þá?).

Greiðum ekki krónu til erlendra blóðsugulánardrottna á gjalddögum 2011 og 2012.  Það tekur hvort sem er enginn mark á lánshæfismatsfyrirtækjum, þar eru tómir asnar eins og dæmin sanna.  Útlendingar eru vitaskuld upp til hópa asnar og þurfa endurmenntun eins og Þorgerður Katrín sagði.  Að þessu loknu verður auðvelt að aflétta gjaldeyrishöftum, krónan mun að bragði styrkjast, vextir lækka, verðbólgan hverfa (sérstaklega ef við berum gæfu til að fá aftur einhvern reyndan fyrrum Sjálfstæðisráðherra - eða borgarstjóra - í stól Seðlabankastjóra) og ný fjárfesting mun streyma inn í landið.  Bretar og Hollendingar munu liggja kylliflatir fyrir snilli Íslendinga (og forsetans okkar!) sem verður rómuð hvarvetna enda erum við mest og best í öllu.

Það er jafn örugglega satt eins og að það er 1. apríl í dag.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Ég las og las - undrun og skelfingin óx og óx - þar til ég sá dagsetninguna. Ég hljóp apríl um hánótt - ææ - og þó - ég bara hló og hló - það er svo holt

Hólmfríður Bjarnadóttir, 1.4.2010 kl. 05:16

2 identicon

Mér fannst þetta gott hjá þér.  Ég sá í gegnum þetta í annari setningu;)  En að þú skulir hafa safnað öllu þessu saman í eitt blogg er mjög gott.  Ég trúi því ekki að nokkur maður vilji þetta þegar hann er búinn að lesa þetta;)  En það fyndna við aprílgabbið hjá þér er að margir vilja þetta;)

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 1.4.2010 kl. 06:52

3 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Nei þetta var ekkert fyndið frú Hólmfríður,  þetta var "hárbeitt". 

Villi þú ert oftast beittur og þessi er beittasti hnífurinn í skúffunni, þó skurðurinn fari full nærri á stundum.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 1.4.2010 kl. 06:54

4 Smámynd: Ægir Óskar Hallgrímsson

Apríl gabb er þegar einhver hleypur hann..

Ægir Óskar Hallgrímsson, 1.4.2010 kl. 07:35

5 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Eitt augnablik hélt ég að ég hefði villst inn á blogg Davíðs. Svo fattaði ég djókið. Gott djók.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 1.4.2010 kl. 08:20

6 identicon

Greinin er fyrst og fremst hlægileg. Eftir að hafa lesið fyrstu setningarinnar og síðan um að þú hefðir skipt um skoðun og að evran hentaði okkur ekki.

Þá trúði ég og hugsaði ja batnandi mönnum er best að lifa, þeir geta þó tekið rökum og jú víst hefur okkur sem ekki viljum ganga ESB valdinu á hönd stórfjölgað. Því nú hafna 70% þjóðarinnar ESB aðild.

En þegar ég las svo áfram og sá að vitleysan sem uppúr þér valt átti að vera ádeila á okkur sem viljum ekki innlimast ESB, sem erum fullir tortryggni gagnvart AGS og okkur sem viljum miklu sanngjarnari ICESAVE samning.

Ruglið og bullið um að við viljum sjálfsþurftarbúskap og séum einangrunarsinnar og afturhald og haldnir fortíðarhyggju, blæs ég á sem þvætting og bull.

Gleðilega páska.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 1.4.2010 kl. 08:37

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Ég hef líka skipt um skoðun eftir lestur þessarar greinar.

Ég viðurkenni að auðvitað er það mér að kenna að hafa fæðst á Íslandi og að auðrónar sem eru samlandar mínir skyldu hafa farið ránshendi um fé græskulausra sparifjáreigenda í Bretlandi og Hollandi.

Ég viðurkenni að yfirlýsingar ráða- og embættismanna skrifaðar aftan á VISA-nótur í útlöndum undir hótunum um fjárkúgun hafa auðvitað lagagildi. Ég viðurkenni að stjórnarskráin, þjóðarréttur og dómskotsréttur sé eitthvað til að skeina sér á ef það gleymdist að kaupa klósettpappír.

Auðvitað á þingið ekki að kjósa eftir lögum og eigin samvisku heldur sitja og standa eins og okkar háæruverðugu ráðherrar vilja, sem strita við það nótt og dag að koma á okkur skuldum sem við höfum svo gott af því að taka á okkur.

Ég viðurkenni að besta leiðin til að komast út úr skuldum sé að taka á sig meiri skuldir.

Ég viðurkenni að AGS sé góðgerðarstofnun á vegum Rauða krossins og sé ekkert tengdur heimsauðvaldinu.

Ég viðurkenni að AGS og ESB séu ekki handrukkarar breskra og hollenskra fjárkúgara.

Jafnframt óska ég eftir hugmyndum að fleiri skuldum sem við Íslendingar getum tekið á okkur til að hér verði örugglega ekki lífskjör eins og almennt í Evrópu, því verðugt er að kyssa á hinn háæruverðuga vönd.

Ég viðurkenni að þeir sem voru svo miskunnsamir að kaupa hér af okkur krónur fyrir erlendan gjaldeyri, svo vér almenningur á Íslandi yrðum örugglega fjötraðir í okurvöxtum um alla ófyrirséða framtíð, eiga að fá alla mögulega fyrirgreiðslu.

Vissulega er verðugt og maklegt og mikill heiður að hinn íslenski almenningur geri sér að góðu að sitja uppi með 6-700 milljarða skuld við AGS og Norðurlöndin og verðlausar krónur þess í stað til að tap þessara göfugmenna verði bætt.

Ég viðurkenni að það er 1. apríl í dag.

Theódór Norðkvist, 1.4.2010 kl. 12:54

8 identicon

Vilhjálmur er að meina þetta,hann hefur litla trú á þjóð sinni,og er frekar að hæðast að henni en að grínast.

Númi (IP-tala skráð) 1.4.2010 kl. 13:11

9 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Jú jú, það eru öll aðalatriði tekin með í pistlinum sem mikilvæg eru.  Litlu við að bæta.

Að vísu hefu maður lesið fleiri hundruð rúmmetra af stórspeki vissra snillinga undanfarna mánuði - en það hefur sjaldan eða aldrei verið tekið saman og sett í einn pistil og löngu tímabært.  Gott að hafa aðgengilegt á einum og sama stað.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 1.4.2010 kl. 14:08

10 Smámynd: Einar Karl

Góður Villi!

Fyndið hvað sumir eru voða viðkvæmir fyrir gríni og háði. Ég var sjálfur útilokaður af síðu bloggpáfans sjálfs (JVJ) fyrir lauflétt háð...

Það skondna er að þótt þú reynir þó tekst þér ekki að toppa vitleysuna sem vellur úr mörgum moggabloggaranum, sem eru þó ekki að grínast!

Einar Karl, 1.4.2010 kl. 15:48

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Einar Karl: Já, mér er lífsins ómögulegt að toppa þá bestu í faginu, þótt ég reyni.  Ímyndunaraflið er bara of takmarkað ;-)

Vilhjálmur Þorsteinsson, 1.4.2010 kl. 16:15

12 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Sælt veri fólkið. Hvað er grín og hvað er ekki grín. Það finnst mér ekki skipta mestu máli varðandi þessa færslu Vilhjálms. Heldur hitt að það eru allt of margir hér á okkar landi, í okkar hrunda fjármálakerfi sem virkilega TRÚA ÞVÍ SEM VILHJÁLMUR TELUR HÉR UPP SEM ALGJÖRT APRÍLGABB.

Ég er hjartanlega sammála Einari Karli hér að framan að færslan hjá Vilhjálmi er hreinn barnaleikur miðað við sumt af ruglinu sem vellur um moggabloggið á hverjum einasta degi.

Gleðilega Páska öll sömul og gætið ykkar á eldgosum.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 1.4.2010 kl. 18:12

13 Smámynd: Hafsteinn Viðar Ásgeirsson

Ég þekki nú því miður, fullt af fólki sem ER þessara skoðana. Það talar svona í fúlustu alvöru.

Hafsteinn Viðar Ásgeirsson, 1.4.2010 kl. 19:20

14 Smámynd: Björn Heiðdal

Ert þú gaurinn sem heldur að ég geti staðið undir endalausum erlendum lánum með brauðbakstri og kennitöluflakki?

Björn Heiðdal, 1.4.2010 kl. 19:38

15 identicon

Gee Villi, for a moment there I thought u actually had balls!;-)

ragnar (IP-tala skráð) 1.4.2010 kl. 21:37

16 identicon

Gee Villi, for a moment there I thought u actually had balls!;-)

ragnar (IP-tala skráð) 1.4.2010 kl. 21:38

17 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég þekki líka fullt af fólki sem hefur þessar skoðanir.  Það eru engar "frumsamdar" tillögur þarna, allt hef ég séð eða heyrt sett fram af einhverjum í fúlustu alvöru.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 1.4.2010 kl. 22:34

18 Smámynd: Theódór Gunnarsson

Vá! Ég gleypti við þessu, rifnaði allur upp í þjóðarstolti og var orðinn sammála hverju orði.  Ég hljóp.

Theódór Gunnarsson, 1.4.2010 kl. 23:16

19 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Við verðum bara að vona að einhver Morfís-þjálfaður framagosi með yfirvaraskegg (enginn skortur á mottum um þessar mundir) geri ekki þennan málefnagrundvöll að sínum, hann myndi hugsanlega ná yfirburðakosningu...

Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.4.2010 kl. 00:11

20 identicon

Þetta er mjög heimsk greining...........fram að þessu hef ég verið ESB maður en er það alls ekki lengur.....sjáið t.d hvað Makríllinn er eð gera fyrir okkur svo ekki sé talað um að veiða aðeins meira sem er alveg óhætt............

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 2.4.2010 kl. 00:34

21 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Að öllu gamni slepptu, þá er þetta sú þróun er raunverulega hefur átt sér stað, innan Evrusamstarfsins, síðan það tók til starfa:

Sjá Skýringarmynd:

Samkeppnish?fni vinnuafls ? Evr?pu



























Klárlega, er upptaka Evru engin töfralausn.

Hægt er að klúðra hagstjórn, innan Evrusamstarfs.

Hægt er að klúðra hagstjórn, utan Evrusamstarfs.

Hægt er að klúðra hagstjórn, bæði utan og innan Evrópusambands.

----------------------------

Að vera eða vera ekki innan Evrópusambands eða Evrusamstarfs, er einfaldlega spurning um val á ytra umhverfi.

Hvað er valið, gefur vissa valmöguleika, sem hægt er að spila bæði vel og ílla úr.

Hver er sinnar gæfu smiður - er eiginlega niðurstaðan.

Innganga í ESB og/eða Evru, er engin trygging á velgengni, né er hún endilega hindrun.

Að standa utan við ESB + Evru, er ekki heldur emdilega hindrun eða trygging á velgengni.

-------------------------

Okkur getur vegnað vel - alveg burtséð frá því, hvort við veljum að vera hluti af samstarfi Evrópuríkja um Evrópusamband, jafnvel um Evru; eða veljum að standa fyrir utan hvort tvegga.

Stóra málið, sem skiptir máli, er gæði hagstjórnar.

Þ.e. þ.s. við þurfum að bæta, að laga.

Þannig séð, liggur ekkert á, að ákveða á um aðild, þ.s. sjálf aðildin er ekkert úrslita atriði um, hvort við þrífumst eður ei.

Við getum alveg því, slegið þeirri spurningu á frest, og fókusað eingöngu á þ.s. raunverulega skiptir máli, þ.e. að vinna okkur úr kreppunni, á að bæta okkar hagstjórn.

Síðan, þegar við höfum komuð okkur úr vandræðunum, getum við íhugað aftur spurninguna um aðild, þá einnig verður væntanlega óvissu eytt um hvort Evrusamstarfið lifði af, og að auki um, að hvaða marki reglum Evrópsambandsins og um Evrusamstarfið var breitt, sem hluti af þeim lærdómi sem var dreginn af kreppunni.

Þetta er þ.s. ég legg til, þ.e. að setja málið í salt.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 2.4.2010 kl. 00:44

22 identicon

Og by te way................lánshæfismatsfyrirtæki eru tómir asnar. Vissir þú það ekki ?

Hólmsteinn Jónasson (IP-tala skráð) 2.4.2010 kl. 00:51

23 identicon

Sat með fæturna í Clariol fótanuddtækinu, drekkandi Ríókaffi og skellihló. Ætla fylla tankinn aftur áður en gengið verður fellt.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 2.4.2010 kl. 03:16

24 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

    Tek heilshugar undir fyrirsögnina:  Íslandi allt.

Helga Kristjánsdóttir, 2.4.2010 kl. 03:17

25 identicon

Evropusinnum (eins og Villa) sárnar þegar að nýjar ESB skoðanakannanir leiða í ljós 70% andstöðu við ESB aðild á Íslandi og virðist bara vera að aukast. En "Orthodox" Evropusinnarnir í Samfylkingunni ákváðu að fara "þrengslin" í inngönguferlinu og svelta Þjóð sína inní ESB. Til þess þurftu þeir bara að fá með sér VG (vinstri geðveika) í Ríkisstjórn og þannig vissu þeir að það yrði engin endurreisn í þessu landi. Það þarf td enginn að segja mér að viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon sé svo viltaus að hann telji að endalausar skattahækkanir og háir vextir  (18mánuðum eftir hrun) sem byggjast á peningastefnu núverandi stjórnenda Seðlabankans frá 2001 sé leiðin útúr kreppu, maðurinn er Phd í hagfræði!. Samfylkingin hefði getað farið í stjórn með XD og XB og farið í alvöru endurreisn og komið þjóð sinni á tvær labbir og eftir það í lok árs 2010 kosið um ESB en þannig myndi allt ESB fylgi XD og XB nýtast í þeim kosningum. Núna aftur á móti er ESB fólk úr XD og XB orðið svo pirrað útí framgöngu Samfo í Ríkisstjórn að það mun segja Nei við ESB bara til að fella Samfylkinguna og Ríkisstjórn og þannig muna draumar hins margrómaða samfylkingar evropumanns enda.

ragnar (IP-tala skráð) 2.4.2010 kl. 11:20

26 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Andri: Hvar var SodaStream-ið?

Einar Björn: Það er einhver móða á gleraugunum mínum svo ég sé ekki grafið þitt almennilega, en mér sýnist það sýna verulega aukningu launatekna hjá almennum launamönnum í ESB.

Ragnar: Mér vitanlega hafa hvorki xB eða xD haft nokkurn áhuga á stjórnarsetu til þessa, og það er reyndar skynsamlegt hjá þeim.  Þú manst kannski eftir því að xB stuðlaði að því að fyrst væri mynduð minnihlutastjórn xS og xV sem síðan fékk meirihlutafylgi í kosningum.   En aðildarferlið er langt og við skulum spyrja að leikslokum, ég held að skynsamt fólk muni styðja þetta mál þvert á flokkslínur.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.4.2010 kl. 14:37

27 identicon

götugreind! gott orð

úlfar bragason (IP-tala skráð) 2.4.2010 kl. 18:47

28 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Neðsta línan er Þýskaland.

Næst neðsta er Austurríki. 

Græna heila línan - höfð til samanburðar við Evrópu - er Bandar.

Meðaltal Evrusvæðisins er svarta línan.

Síðan kemur Frakkland.

Belgía.

Holland

Írland

Finnland.

Ítalía.

Spánn.

Og, Grikkland er efst.

-----------------------------------

Já þetta er ákveðið yfirlit yfir launaþróun.

En, höfum í huga, að launaþróun skiptir máli, ef hún fer úr böndum, dregur það úr samkeppnishæfni atvinnuvega.

Þ.e. áhugavert, að allan tímann, hefur Þýskalandi tekist, að halda stöðu sinni sem ölfugt ríki í útflutningi, á meðan - eins og reyndar hérlendis - en ef gerð væri sambærileg könnun á útflutningi vs. innflutning, þá myndi sjást svipuð mynd, þ.e. Þýskaland heldur stöðugum og sterkum útflutningi á meðan í hinum löndunum eykst innflutningur á kostnað útflutnings.

Þ.s. þetta segir, er áhugaverð saga um þá hagkerfisþróun, er átt hefur sér stað.

Eins og þú veist, þá dregur óhagstæð launaþróun úr samkeppnishæfni atvinnuvega, þannig að Þjóðverjum og einnig Austurríkismönnum tekst að verja sinn útflutning með aðaldi þ.s. launahækkunum er haldið í skefjum, á meðan í öðrum löndum í samanburðinum, verða launahækkanir meiri, sem eins og hérlendis býr til það ástand hjá almenningi að fólki finnst það vera ríkt, neysla eykst - innflutningur eykst á kostnað útflutnings, o.s.frv.

Það virðist sem, að þ.s. við gengum í gegnum, hafi í reynd verið mjög svipuð þróun og víðast hvar í löndunum í kring, aðeins smávegis íktari. 

Í þeim löndum, þ.e. með Þýskaland og Austurríki sem undantekningu, verður einnig sú þróun, að neysluskuldir aukast, enda þarf einhvers staðar að borga fyrir innflutning ef hann er umfram grunnverðmætasköpun samfélagsins.

Þannig, það virðist sem flest löndin í kringum okkur, hafi eins og við, keypt sér lífskjör fyrir lánsfé. 

En, við erum ekki eina landið, þ.s. neysluskuldir sliga nú almenning.

Það virðist fara nokkuð vel saman, að löndin sem gengu lengst í þessari launaþróun, séu einnig löndin sem í dag, glíma við mestu eftirköstin í formi slíkra skulda.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 2.4.2010 kl. 18:51

29 identicon

Aðeins af Per Olaf Lundteigen sem samfylkingarmenn hafa viljað gera mikið grín af. Þessi bóndi og þingmaður er svona Guðni Ágústsson þeirra Norðmanna sem flestum likar vel við. Hann er með litríkar skoðanir og oft á tíðum gamaldags. En eitt er hann og það er að vera vinur Íslendinga og vill gera allt til þess að hjálpa okkur og losa okkur undan álögum AGS en hann barðist mikið fyrir Argentínumenn á sínum tíma og hélt IMF í Washington á tánum. Hér eru tveir linkar á hinn gamaldags norska þingmann og vin Íslands sem var þaggaður niður af Stoltenberg og hans Arbeitpartiet (norsku samfylkingunni og evropusinnum, sem vilja allt gera til þess að Ísland endi í ESB og vinna náið með Samfylkingunni í því)

http://nn-no.facebook.com/note.php?note_id=116834553826

http://arkiv.na24.no/Nyhet/375225/Norsk+strid+om+hjelp+til+Island.html

ragnar (IP-tala skráð) 4.4.2010 kl. 11:20

30 identicon

Starkaði verður hugsað til greinar í Jótlands póstinum danska, um mitt síðasta ár. Þar skrifaði Ralf Pittelkow einn gleggsti stjórnmálaskýrandi Danmerkur og fyrrverandi blaðafulltrúi Pauls Nyrups Rassmusens (Sósíaldemókratar báðir tveir) grein um menn eins og Vilhjálm Þorsteinsson. http://jp.dk/opinion/pittelkow/article1719662.ece 

Þar lýsir hann ágætlega stétt manna sem hann kallar, skoðanasmiði. Starkaður gefur Pittelkow orðið: Det er dem, der giver sig af med at fortælle resten af befolkningen, hvad der er væsentligt og uvæsentligt, rigtigt og forkert, passende og upassende.

Vilhjálmur skrifar, minntur á 70% sem eru á móti inngöngu; ... aðildarferlið er langt og við skulum spyrja að leikslokum, ég held að skynsamt fólk muni styðja þetta mál þvert á flokkslínur. Verði nú innganga felld, er það þá af því að óskynsama fólkið tók yfir. Starkaður spyr þá hvoru megin hryggjar skynsemin liggur; hjá almenningi eða Vilhjálmi og hans vinum?

Annað var það sem Pittelkow nefnir í grein sinni er að þessir evrópsku heimsborgarar líta á þjóðernisást sem skammaryrði. Engum má lengur láta sér annt um land sitt og þjóð, en það er flestu venjulegu fólki nauðsyn. En evrópuelítan lítur ekki þannig á málið.  Pittelkow: Elitens kamp mod nationalfølelsen var og er en kamp mod den brede befolkning, for hvem nationalfølelsen er vigtig og positiv. Det er en kamp for et mere elitestyret samfund på europæisk plan.

Starkaður hefur svo sem ekki miklu við þetta að bæta, en minnir sjálfumglaða húmorista á að dramb er falli næst.

Starkaður (IP-tala skráð) 6.4.2010 kl. 00:25

31 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Starkaður nafnlausi: Ert þú (og kr. Pittelkow) ekki bara að lýsa lýðræðislegri umræðu?  Ekki þykist ég vera neitt annað og merkilegra en bloggari úti í bæ, sem er áhugasamur um stjórnmál og vill leggja sínar skoðanir til umræðunnar.  Svo ræður hver og einn lesandi hvort hann tekur mark á mínum skrifum eða annarra, það fer eftir gæðum rakanna hverju sinni.

Ef aðild verður felld, þá er það vegna þess að meirihlutinn hefur ekki látið sannfærast af rökum þeirra sem vilja ganga til liðs við Evrópusambandið, svo einfalt er það.

En Pittelkow kallinn segir fleira en Starkaður vitnar til; hann segir líka: "Langt det meste af denne skepsis har en moderat karakter. Det gælder således i Danmark, hvor det store flertal er på det rene med, at EU giver mulighed for at løse meget vigtige fælles problemer. Selv Dansk Folkeparti, der er imod unionen, har lagt diskussionen om for eller imod EU på køl."

Auðvitað er áfram lýðræðisleg umræða í Evrópusambandinu um það hversu víðtæk samvinnan á að vera, og eins og dæmin sanna hafa skoðanir almennings í aðildarlöndunum haft mikil áhrif á grundvöll ESB, til dæmis Lissabon-sáttmálann sem tók talsverðum breytingum frá upphaflegum hugmyndum um evrópska stjórnarskrá.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 6.4.2010 kl. 12:05

32 identicon

Eitt af því sem ég hef lengi haft áhuga á er hvað er sérfræðiþekking og hvað er að vera sérfræðingur. Á sumum sviðum þá er það augljóst. Píanóleikari sem hefur eytt 2000 klst á ári í 10 ár að læra á píanó hljómar öðruvísi en sá sem ákvað að fara á youtube of horfa á "lærðu að spila á píanó" myndband og æfði sig svo eins og bilaður í eina viku.

En þetta er miklu erfiðara þegar kemur að flóknum þjóðfélagsmálum. Röksemdarfærslur, upplýst umræða, eða þekking, eru aðeins einn hluti þess sem skiptir máli og þar fyrir utan er oft mjög erfitt fyrir þá sem ekki hafa tíma, menntun, eða fyrri reynslu til að gera upp á milli niðurstöðu sem tveir álitsgjafar hafa um sama mál. En það mætti alveg margur horfa til þess að fólk sem hefur raunverulega sérfræðiþekkingu (áratugi á afmörkuðu sviði) og reyna að skilja hvað það fólk segir. Við erum ekki að tala um gasprarana, eða bankamann sem heldur að teinótt föt geri hann að sérfræðing. Raunverulegir sérfræðingar gera sér far um að skýra mál sitt og leyfa öðrum að sjá hvernig þeir hafa komist að niðurstöðu -- þeir koma ekki í sjónvarp og segjast hafa miklasannleik, því þeir vita að slíkt er ekki til.

Enn meira skiptir svo kannski að tilfinningar eru amk. jafnmikilvægar í ákvörðunartöku flests fólks. Þeas., það hefur meiri persónulega samsvörun að segja "ég er íslendingur" en að segja "ég er Evrópubúi." Þessi samsvörun er mikilvægari en nokkur efnahagsleg rök, eða langtíma hagfræðilíkön. Og þessi persónulega samsvörun verður því sterkari sem landið er minna.

Evrópusambandsumræðan er athyglisverð þar sem ekkert bendir til að auknar upplýsingar muni breyta niðurstöðu flestra íslendinga um málið. Um það er þetta líkt og Icesave málið. Það hefur verið fært úr heimi hlutlægs mats á kalda hagsmuni, yfir í heim huglægs mats á "hver er ég og hvað vil ég að fólkið í kringum mig sé."

Þegar fólk eins og Starkaður segir að Vilhjálmur, eða aðrir ESB stuðningsmenn, séu að "hafa vit fyrir fólki" þá eru þeir í raun að afneita þeirri hugmynd að þetta mál snúist um "vit" Þeas, þeir eru að neita því að meta eigi ESB aðild út frá mælanlegum hagsmunum, enda séu aðrir mikilvægari þættir sem nota eigi.

Það er til ágætis hugtak yfir þetta. Það er kallað trúarbrögð. Að baki öllum trúarbrögðum eru svokallaðar "foundational myths." sem þjappa hópnum í kringum ákveðin gildi og ákveðin huglæg viðmið. Þjóðernishyggjan, þau trúarbrögð sem liggja að baki hugmyndum Starkaðar, á sér bæði jákvæða og neikvæða birtingarmynd. Hið jákvæða er að hópurinn stendur saman og áorkar meiru en nokkur einstaklingur gæti gert og verst ígripum utan frá sem geta skaðað hópinn. Eins er haldið í gildi sem tryggja viðhald hópsins og velmegun. Neikvæðu birtingarmyndina þekkjum við svo vel frá fasismanum um miðja síðustu öld, og fyrir það í þeim styrjöldum sem geisuðu milli Evrópuþjóðanna í um 100 ár þar á undan.

Það er ekki skrítið að eftir að hafa hrasað illilega í samskiptum við útlönd þá horfi íslendingar til 'einfaldari' tíma þar sem þjóðin gat verið meira afskipt og ekki eins háð duttlungum erlendra þjóða, eða framselt hag sinn í hendur innlendra aðila sem fyrir asnaskap og aulaskap hafa veðsett heila kynslóð. En Ísland verður ekki aftur afskipt eyland utan almennra ferðaleiða. Burtséð frá því hvort ESB sé framtíðin, þá þarf að huga að framtíðinni -- og framtíð allra þjóða er tengd sterkari böndum við aðrar þjóðir, ekki veikari. Engin þjóð er lengur eyland.

En þó að etv. sé rómantísk þjóðernishyggja ekki alvond, þá er varla nóg að halla sér að gömlum hugmyndum sem hafa látið á sjá?Amk. get ég ekki séð að það fólk sem nú er börn á Íslandi hafi mikinn áhuga á því Íslandi sem ég ólst uppá fyrir um 40 árum. Það er hlutverk eldri kynslóða að tryggja hag þeirra sem á eftir koma. Það hlutverk er ekki endilega best innt af hendi með því að ríghalda í rómantískar hugmyndir sem hvorki eiga sér stoð í raunveruleikanum, né aðstoða framtíðarkynslóðir við að takast á við raunveruleikann.

Andri Haraldsson (IP-tala skráð) 6.4.2010 kl. 16:19

33 identicon

Já það er rétt hvílíkt rugla að halda úti smæstu mynt í heimi, þegar við getum verið með eina stærtu mynt heims.

Reyndar eru vitleysingar eins og Joseph Stiglitz á því að við eigum á halda í þessa örmynt.

Hann vill meina að sveiflur í atvinnu séu verri en sveiflur á verðalagi?

Það er náttúrlega fáranlegt það vita allir að verða atvinnulaus við og við er miklu þægilegra en að vita aldrei hvað eplin kosta þegar maður fer út í búð.

Hugsa sér síðan óheppnina að hafa fæðst á Íslandi, það væri æðislegt ef maður hefði frekar fæst í Hollandi þá væri maður í Evrópusambandinu nú þegar og væri líka með Evruna.

Síðan dregur það líka að sér ferðamenn að vera með Evru því þá þurfa þeir ekki að reikna út hvað hlutirnir kosta og eru því fljótari að kaupa.

Síðan er líka gott við Evruna að við getum ekki nýtt okkur það sem hagfræðingar tala um sem "beggar thy neighbor", enda færu þá bara nágrannaþjóðirnar í fýlu út í okkur, og það viljum við nú ekki.

Þannig að niðurstaðan er sú að þetta litla sveigjanlega samfélag með fáar grunnstoðir þarf eitthvað ósveigjanlegt til að halda í eitthvað sem aflabrestur truflar ekki.

Jú og auðvitað eigum við að borga Icesave upp í topp. Þótt að við þurfum að skera niður í heilbrigðis og menntakerfinu þá erum við prinsipp menn fyrst og fremst.

Þótt börnin okkar fái verri menntun og skuldabagga inn í framtíðina þá getað þau huggað sig við að foreldrarnir stóðu sko sína plikt. Við getum þá stolt borgað ásamt öðrum fjárkúguðum ríkjum undir vernarvæng Parísarklúbbsins. Við skulum sko sýna þessum vaxtakúgurum að við verðum ekki með neitt múður og erum tilbúin að borga refsivexti eftir hentugleik.

Hjalti Atlason (IP-tala skráð) 9.4.2010 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband