Samneyslan og hringekja hagkerfisins

Stundum er talað í umræðu eins og peningar sem eytt er í tiltekna vöru eða þjónustu hverfi þar með út úr hagkerfinu; eða í öðru formi, að peningar sem einhver fær í sinn hlut hljóti nettó að vera teknir af einhverjum öðrum.

Þetta er vitaskuld ekki rétt forsenda, eins og ljóst má vera af smá umhugsun. Skoðum sýnidæmi.

Um daginn fór að leka í kring um svalaglugga í húsinu mínu.  Ég hringdi í smið sem lagaði lekann snöfurmannlega og fékk borgað fyrir.  Daginn eftir fór smiðurinn til rakara og borgaði honum fyrir klippingu með peningunum sem hann fékk frá mér.  Rakarinn er áskrifandi að sýndarheimum EVE-Online og borgaði áskriftina sína með peningum smiðsins.  CCP, framleiðandi EVE-Online, greiddi mér svo þessa "sömu" peninga í stjórnarlaun um síðustu mánaðamót.  Þá eru peningarnir komnir í hring, en allir höfum við þrír - ég, smiðurinn og rakarinn - mætt eftirspurn og þörf hvers annars í hagkerfinu með framboði á vinnu okkar og þekkingu í hringekjunni.

Svona virkar raunhagkerfið allt.  Það hvort peningarnir eru fýsískt þeir sömu í gegn um ferlið skiptir ekki máli, og auðvitað eru hringekjurnar mjög margbrotnar og flóknar í nútíma þjóðfélagi.  En á endanum streyma peningarnir eins og blóð í æðum hagkerfisins - fara hring eftir hring, miðlandi vöru, þjónustu og vinnu frá þeim sem vilja selja til þeirra sem vilja kaupa.

Með sömu röksemdafærslu er ljóst að peningar sem beint er í samneyslu í gegn um skatta eru ekki þar með "tapaðir" úr hagkerfinu.   Kennarar, læknar og lögreglukonur fá sín laun en verja þeim aftur til að kaupa vöru og þjónustu annars staðar frá.  Áhrif skattakerfisins og samneyslunnar eru þau að þörf og eftirspurn á sviði menntunar, heilsugæslu og löggæslu er mætt fremur en annarri þörf og eftirspurn sem þetta sama fólk hefði unnið við að mæta að öðrum kosti. Með öðrum orðum er um að ræða (þvingaða) forgangsröðun veittrar þjónustu í samfélaginu.  Nettó "kostnaður" af þeirri forgangsröðun er aðeins nytsemismunurinn á samneysluþjónustunni annars vegar og þeirri þjónustu sem sama fólk hefði veitt hagkerfinu að öðrum kosti - í frjálsri einkaneyslu - hins vegar.  Og mat margra er að sá nytsemismunur sé heilt yfir jákvæður samneysluþjónustunni í hag, ekki neikvæður eins og ætla mætti.

Að nota kosti markaðshagkerfisins, en forgangsraða nauðsynlegri samfélagsþjónustu innan þess, er kjarni hugmyndafræði sósíaldemókrata.  Skynsamlegt?  Það finnst mér.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ekki eitt vandamálið að fáir eru svo samfélagslega meðvitaðir að þeir leggi harðar að sér til að geta borgað meira í skatta, m.ö.o að peningarnir sem fara í skattgreiðslur eru ekki gulrót fyrir verðmætasköpun?

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 15.2.2011 kl. 23:10

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

"Verðmætasköpun" er erfitt orð.  Frægur er leigubílstjórinn úr Draumalandi Andra Snæs Magnasonar, sem taldi fátt til "verðmætasköpunar" nema út úr því kæmi eitthvað áþreifanlegt og helst ætt.  Hjúkrunarfræðingur skapar verðmæti af því að hann mætir þörf fyrir og spurn eftir aðhlynningu.  Það sama gerir leikari í Þjóðleikhúsinu, eða áðurnefndur Andri Snær sem rithöfundur.  Því þróaðra sem hagkerfið er, því fjölbreyttari þörfum og eftirspurn getur það sinnt - umfram frumþarfirnar (grunn Maslow-pýramídans).  Allra þróuðustu hagkerfin ná því líka að sinna alls kyns andans hugðarefnum á borð við menningu, listir og ástundun heimspeki og vísinda.  Það er til marks um þroska og árangur, ekki úrkynjun eins og sumir virðast halda.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 16.2.2011 kl. 00:07

3 identicon

Verðmætasköpun í merkingunni öll vara og þjónusta.

Síðast þegar ég vissi vann fólk fyrir tekjum í öllum þremur geirunum og tekjurnar voru mikilvægur hluti hvatans sem fólk hefur til að vinna eða auka verðmæti vinnu sinnar.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 16.2.2011 kl. 04:08

4 identicon

Takk fyrir áhugaverðan póst Vilhjálmur.

Kalli (IP-tala skráð) 16.2.2011 kl. 10:13

5 Smámynd: Arnar Sigurðsson

Það skiptir semsagt engu máli hverju hrært er út í pottinn, grautur er bara grautur.

Það er í raun erfitt að ákveða hvar maður á að byrja og hvar enda í athugasemdum við þennan undarlegasta pistil. Þú veist að arðsemissjónarmið skipta máli og þú veist að þau eru ekki höfð að leiðarljósi í ríkisrekstri eða í fjárfestingum hins opinbera. Þannig veistu fullvel að mikið tapast af glötuðum tækifærum þar sem fé sem eytt er í þvælu nýtist ekk til annars.

Nú hefur þú nokkuð haldgóða samantekt sem sýnir þér að varlega áætlað eru um 30-40% af ríkisútgjöldum í raun sóun, þ.e. fjármunum er eytt án þess að eiginleg þjónusta sé veitt. Þú segir að þetta sé bara allt í lagi af því að peningarnir séu hvort eð er á hringferð í grautarpottinum.

Þú hinsvegar veist að um helmingur af neyslu fólks er innfluttur og mælt á mælikvarða útflæðis má segja að helmingur af þessum útgjöldum tapist þannig út úr landinu í formi gjaldeyris.

Niðurstaða þín að við skulum bara moka skurði og ofan í þá aftur þannig að skurðgrafarinn geti keypt sér áskrift að EVE og farið í klippingu og þannig "eyðist" ekki fé fær augljóslega ekki staðist skoðun.

Arnar Sigurðsson, 16.2.2011 kl. 10:34

6 identicon

Notarðu þetta sem afsökun fyrir að vera krati. 

Ég trúi ekki að þú sjáir ekki mun á að setja 25 milljarða í tónlistarhús eða 25 milljarða í gagnaver.

þessu má jafnvel svara með "það er mat margra að sá nysemismunur sé heilt yfir neikvæður samneysluþjónustunni í óhag"

Björn (IP-tala skráð) 16.2.2011 kl. 12:51

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Arnar: Ef einhvers staðar er gagnslítill ríkisstarfsmaður, þá er tjónið sem í því felst fyrir samfélagið ekki fólgið í launum viðkomandi, heldur því að hann hefði getað veitt gagnlegri þjónustu, þ.e. mætt meira krefjandi þörf eða eftirspurn en hann gerir.  Markmið hagkerfisins er að mæta sem flestum þörfum og í þeirri forgangsröð sem fólk hefur almennt.  Ef forgangsröðun í þvingaðri samneyslu er orðin verulega frábrugðin þeirri forgangsröðun sem fólk hefði sjálft kosið þá er það sóun; samfélagið hefði þá getað nýtt krafta sína til að mæta þörfum betur en það gerir.

Viðskiptajöfnuður við önnur gjaldmiðlasvæði er svo athyglisverður vinkill í dæminu.  Gjaldmiðill okkar veikist eða styrkist uns jafnvægi kemst á milli þeirrar eftirspurnar sem við svörum frá öðrum gjaldmiðlasvæðum, og þeirrar þarfar sem við höfum gagnvart þessum sömu svæðum.  Við Íslendingar búum síðan við það að stór hluti skulda í hagkerfinu er annað hvort verð- eða gengistryggður.  Þetta veldur því að yfirvöld efnahagsmála þurfa að fara mjög varlega hverju sinni gagnvart viðskiptajöfnuði þjóðarbúsins.  Það mistókst gjörsamlega 2005-2007 þegar neikvæður viðskiptajöfnuður nam 50% af VLF á þessum þremur árum.  Er skemmst frá því að segja að þeir sem áttu að stjórna efnahagsmálum voru steinsofandi við stýrið.

Ef Ísland væri aðili að evrusvæðinu hyrfi þessi viðkvæmi þáttur algerlega út úr myndinni.  Viðskiptajöfnuður þjóðarbúsins hætti að skipta máli sem slíkur, og verðtrygging myndi væntanlega hverfa einnig. Það yrði alveg nýr og miklu stöðugri efnahagslegur raunveruleiki; og nýtt upphaf í íslenskri hagsögu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 16.2.2011 kl. 12:55

8 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Björn: Ég skil ekki alveg spurninguna, enda stilli ég ekki upp tónlistarhúsum og gagnaverum sem andstæðum, eiginlega þvert á móti.  Það getur vitaskuld verið fullkomlega réttlætanlegt að leggja peninga í tónlistarhús til að mæta þörfum og eftirspurn eftir tónlist og annarri skemmtun.  Sú þörf er ekki í eðli sínu ómerkilegri en þörf fyrir glassúrhúðaða kleinuhringi eða upphækkaða jeppa á 38" dekkjum eða hvaða aðrar þarfir sem til eru í samfélaginu.  Svo geta menn deilt um upphæðir; ekki er ég sérstaklega fylgjandi 25 milljarða tónlistarhúsi kostuðu af almannafé en minni á að stofnað var til Hörpu af einkaframtaki, ekki hinu opinbera.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 16.2.2011 kl. 13:02

9 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Mér er brugðið.

Já, það eykur svo velmegun í hagkerfinu að fara út í búð, kaupa súra mjólk og hella henni niður þegar heim er komið. Peningarnir eru ekki horfnir, þeir eru hjá kaupmanninum, en það sem þú keyptir fyrir þá er ónýtt. Það var nákvæmlega þetta sem gerðist í fjármálabólunni. Of margt af því sem keypt var fyrir peningana var súr mjólk. En peningarnir eru samt ekki horfnir, þeir eru hjá kaupmanninum. Hann hlær alla leiðina í bankann. 

Ég vona að þú hafir heyrt um Frédéric Bastiat og brotna gluggann Vilhjálmur. Om um Mogens Lykketoft feljtagelsen sem kostaði danska hagkerfið næstum lífið. 

Rúðubrot skila aldrei ávinningi fyrir neitt þjóðfélag. Þegar of margir vinna við að laga rúður eftir til dæmis rúðubrjóta ríkisins, þá endar það alltaf í fátækt handa öllum.

Versta tegund efnahaglegra skemmdarverka er þó til dæmis Icesave; þar er peningunum bara sturtað niður í klósettið. Betra væri að kveikja í þeim, því þá fengi maður að minnsta kosti hitann frá brunanum.

Gunnar Rögnvaldsson, 16.2.2011 kl. 15:59

10 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Gunnar: Ef ég kaupi súra mjólk og helli henni niður þá hef ég ekki svarað þörf minni fyrir mjólk.  (Ég hef kannski svarað þörf minni fyrir skrýtna skemmtun.)  Í fjármálabólunni var í fæstum tilvikum verið að þjóna neinum vel skilgreindum þörfum, öðrum en aðallega testósteron-drifnum og bjánalegum þörfum fyrir að eiga fleiri pappírspeninga en hinir víkingarnir.

Rúðubrotssagan sýnir einmitt það sem ég er að tala um, þ.e. að þar fer dýrmætur tími og efni í ferli sem á endanum mætir engri þörf (við byrjum og endum með eitt stykki óbrotna rúðu).  Slíkt þarf auðvitað að lágmarka.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 16.2.2011 kl. 16:51

11 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þú helltir mjólkinni ekki niður þér til skemmtunar Vilhjálmur. Þú helltir henni niður vegna þess að hún var ónýt. Eins og svalagluggi. Þetta þvaður um að við getum lifað á því að klippa hvert annað er ótrúlegt að heyra anno 2011. 

Það er alls ekki sama hvað menn vinna við. Ef of stór hluti vinnur við að brjóta rúður og síðan bæta þær eða klippa menn of oft, þá endum við eins og Sovétríkin enduðu.

Dæmi um einskis nýt störf eru: Skattaráðgjafar; þar vinna hámenntaðir menn við að ráðgefa öðrum mönnum í gegnum frumskóga rúðubrota ríkisins.

Ríkið þ.e.a.s löggjafarvaldið sprautar út skattalögum á færibandi, flækir skattakerfið og býr til ófyrirsjáanlegt interactivity sem krefst ráðgjafar sérfróðra manna. Þetta eru rúðubrot ríkisins. Hámenntaðir skattaráðgjafar vinna við að laga gluggana. En þeir búa ekki til nein verðmæti fyrir þjóðfélagið. Akkúrat engin.

Í flestum löndum ESB vinnur heill her af mönnum við skattaráðgjöf. Enginn einn maður skilur þar skattakerfið. Ríkið er búið að eyðileggja það. En þá fá líka fleiri vinnu hjá hinu opinbera við að skattakerfið, sem er ónýtt. Svona rústar maður velmegun. En velmegun er alls ekki það sama og velferð. Það verða menn alltaf að muna.

Gunnar Rögnvaldsson, 16.2.2011 kl. 17:21

12 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Gunnar: Það er enginn ágreiningur okkar á milli um að lágmarka þarf þá orku sem fer í hreinan óþarfa, rúðubrot, skattaráðgjöf eða hvað það kann að vera.

Því færri sem sinna grunnþörfum á borð við matvælaframleiðslu og húsaskjól, því betra, því þá er fleiri kraftar á lausu til að sinna annars kyns þörfum.  Tal stjórnmálamanna um að "búa til sem flest störf" er yfirleitt á misskilningi byggt.  Því fleiri þörfum sem unnt er að sinna með sem fæstu fólki, því betra, því þá er meiri slagkraftur laus í önnur verkefni.

(Annars er gaman að velta fyrir sér flækjum í skattareglum.  Flóknasta skattumhverfi sem ég þekki er í Bandaríkjunum.)

Vilhjálmur Þorsteinsson, 16.2.2011 kl. 17:33

13 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þarfir? 

Upplognar þarfir? Eða raunverulegar þarfir Vilhjálmur?

Þú talar um "þvingaða samneyslu" (þ.e. kommúnisma, sósíalisma).

Taktu kaupmann sem býður allrar vörur ókeypis í sinni verslun. Allt hans framboð er gratís. Þessi kaupmaður mun aldrei getað vitað hvaða vörur hann á að bjóða eða ekki bjóða fram. Því allt sem er á hillum hans mun verða rifið út úr verslun hans vegna þess að það er gratís. Þetta er fullkomin sóun á verðmætum. Svona virkar "þvinguð samneyslu". Hún eyðileggur þjóðarhag. Hún hvetur til framboðs sem eyðileggur þjóðarhag.  

Gunnar Rögnvaldsson, 16.2.2011 kl. 17:47

14 identicon

Þú getur varla verið að halda því fram að það skipti ekki máli hvort maður heldur eftir 90% eða 10% af ávexti vinnu sinnar eða fjárfestingar ef peningarnir fara í að greiða fyrir opinbera þjónustu?

Opinber þjónusta er (og þannig á það að vera) skömmtuð eftir þörfum en ekki eftir því hvað menn borga mikið í skatta. Peningar sem þú borgar í skatta hafa engin bein og sýnileg áhrif í þá átt að bæta þinn prívat og persónulega hag. Þjónustuna sem þú færð fyrir þá hefðir þú líka fengið ef þú hefðir ekki borgað skatta.

Alveg burtséð frá því hvort að hið opinbera notar peninga vel eða illa þá fæ ég ekki séð hvernig hægt er að komast að þeirri niðurstöðu að skattfé hverfi ekki úr hagkerfinu sem hvati til verðmætasköpunar.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 16.2.2011 kl. 18:30

15 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hans: Ég átta mig á því að það hefur talsvert að segja fyrir forgangsröðun einstaklingsins sjálfs á eigin þörfum, hversu mikið tekið er af honum í skatt til samneyslu.  En það tjón er ekki eins mikið og menn gætu haldið, af þremur ástæðum: (1) peningarnir eru ekki horfnir úr hagkerfinu, heldur velta þar áfram og koma líka til baka til þeirra sem greiddu skattana; (2) það er þörf fyrir menntun og heilbrigðisþjónustu o.s.frv. sem einhverjir hefðu alltaf þurft að sinna hvort eð er; (3) það er öllum í hag að búa í samfélagi þar sem er almennt þokkalegt menntunarstig, heilbrigðisþjónusta, löggæsla o.s.frv.; slíkt samfélag er betur í stakk búið til að mæta fjölbreyttum þörfum en samfélag sem er gallað að þessu leyti.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 16.2.2011 kl. 22:16

16 identicon

Auk þess má nefna, að heilbrigðiskerfið íslenska er talið um tvöfalt hagkvæmara en það bandaríska. Þúsundkall greiddur í skatt kemur því til baka sem tvöþúsundkall í gegn um heilbrigðiskerfið.

Doddi (IP-tala skráð) 16.2.2011 kl. 22:24

17 identicon

Gunnar spyr um "upplognar" þarfir, hvað sem það kann að vera.

Því til staðfestingar hellir hann niður súru mjólkinni sinni sem hann keypti. Og kvartar undan sóun á "verðmætum"?

Má ég spurja þig Gunnar Röngvaldsson, spádómsmann um hnignun Evrópusambandsins til margra ára, af hverju skilaðir þú ekki súru mjólkinni?

Ertu með einhverjar upplognar þarfir?

Jóhann (IP-tala skráð) 17.2.2011 kl. 00:07

18 identicon

Ég er algjörlega þeirrar skoðunar að skattar séu gjaldið sem við borgum fyrir siðmenntað samfélag og að hagkerfið á að þjóna þörfum mannanna en ekki öfugt.

Ég geri mér líka grein fyrir því að einkageirinn svarar ekki nálægt því öllum þörfum samfélagsins og þá er, að mínu mati, ekkert eðlilegra en að ríkið taki til sín hluta framleiðslunnar og noti hana til að uppfylla þær þarfir.

Mér þykir það bara full mikill pollýönuþankagangur að láta sem að alls engin skaði verði við það að ríki taki til sín gæði sem menn hefðu getað fengið í sinn hlut fyrir að vinna, læra til sérhæfðs starfs, stofna fyrirtæki o.s.frv. og útdeili þeim ókeypis.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 17.2.2011 kl. 01:05

19 identicon

Í stuttu máli: Skattlagning felur í sér ákveðinn efnahagslegan fórnarkostnað. Hann er oft á tíðum réttlætanlegur en ekkert vinnst við það að láta eins og hann sé ekki til.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 17.2.2011 kl. 01:07

20 identicon

Sæll Vilhjálmur,

Í grunninn eru til tvær stefnu í stjórnmálum, stjórnlyndi og frjálslyndi. Þeir sem vilja hafa vit fyrir fólki, velja fyrir það og telja sig vita, betur en það sjálft, hvað því er fyrir bestu er stjórnlynt fólk.

Frjálslyndir trúa því að einstaklingurinn hafi eigin þarfir og hugmyndir og viti því betur hvað honum sé fyrir bestu.

Börn eru ekki sjálfráða, því fullorðnir telja að þeir þurfi að hafa fyrir þeim vit. Svo eru til fólk sem telur sig svo gáfað að það eigi að hafa vit líka fyrir fullorðnum!

Það er sorglegt að heyra, eftir skipbrot stjórnlyndis í Þýskalandi, Kína og Svíþjóð, að enn sé til fólk sem aðhyllist svona ranghugmyndir. Þau lönd sem vaxa hraðast í dag eru lönd sem öll eru að auka frjálslyndi hjá sér. Og síðan öfugt.

Þú ferð kannski að hrósa frönsku stjórnsýslunni næst? Þar eru til tvær þjóðir, þeir sem stjórna og þeim sem er stjórnað. Enda dregur æ meira og meir saman með lífskjörum Afríku og Frakklands.

Þessi pistill hjá þér er sönnun þess að þú eigir ekki að hafa vit fyrir fólki í fjármálum eða hagfræði.

heidar (IP-tala skráð) 17.2.2011 kl. 05:27

21 identicon

Ég sé að þessi færsla hefur vakið upp heitar umræður.

Mitt comment hér á undan var ekki spurning, ég var bara að benda á að þvinguð forgangsröðun forræðishyggju ráðamanna hefur ákveðið að setja tugi miljarða af skattfé í tónlistarhús.   Ef þú telur að það sé réttlætanlegt til að sinna þörfum einhverra, þá ertu væntanlega ekki heldur mótfallinn niðurgreiðslu frá hinu opinbera á jeppabreitingum.  

Vandinn við að veita stjórnmálamönnum vald til forgangsröðunar er sá að þeir kunna sér ekki hóf, því lægri skattar því minni sóun.

Björn (IP-tala skráð) 17.2.2011 kl. 09:44

22 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Mér finnst vera tilhneiging í viðbrögðunum hér að ofan til að reyna að smætta eða endurtúlka megininntakið í pistlinum mínum, niður í "hefðbundnar" skotgrafir milli stjórnlyndis og frjálslyndis, mikilla skatta vs. lítilla og svo framvegis.  Það er þessi hefðbundni vígvöllur sem allir þekkja og krefst ekki mikillar umhugsunar.

En ég hefði ekki nennt að skrifa pistilinn ef hann gengi út á þetta margbarða stagl.  Inntak hans er annað, þ.e. að skoða hagkerfið sem verkfæri til að mæta eftirspurn, og að við eigum að meta verkfærið eftir því hversu vel því gengur að mæta sem fjölbreytilegustum þörfum og í sem mestu samræmi við forgangsröðun flestra.

Meðal annars er ég að velta fyrir mér þeirri rökvillu að ákveðinn hluti hagkerfisins "skapi verðmæti" sem annar hluti þess eyði svo aftur.  Það má ímynda sér mjög þróað hagkerfi þar sem aðeins lítill hluti fólks vinnur við einhvers konar frumframleiðslu (ef t.d. vélmenni ynnu flest mekanísk störf) en stærsti hlutinn ynni við alls kyns menningartengda starfsemi, fræðaiðkun, skemmtun og þjónustu.  Slíkt hagkerfi væri hið besta mál, og beinlínis eftirsóknarvert, ef það mætir fjölbreyttum þörfum flestra þátttakenda, og þá umfram grunnþarfir.

Til frekari umhugsunar má t.d. benda á kenningar Chile-búans Manfred Max Neef um flokkun mannlegra þarfa og uppfyllingu þeirra.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 17.2.2011 kl. 15:33

23 identicon

Sæll Vilhjálmur,

Þessi hugmyndafræði sem þú vitnar í hefur verið reynd. Nærtækasta dæmið er Svíþjóð á árunum 1970 til 1990. Þá var þessari stefnu hrint í framkvæmd.

Hún misheppnaðist gjörsamlega. Ráðstöfunartekjur Svía jukust um 1% á öllu því 20 ára tímabili. 1 af hverjum 5 Svíum á vinnumarkaði varð öryrki, útaf t.d. ofnæmi fyrir ljósaperum, hræðslu við rauðhærða eða vegna þess að þeir voru háðir rokktónlist. Þetta kerfi var mannskemmandi. Skattpíning náði hámarki og Astrid Lindgren greiddi meira en 100% skatt eitt árið. Sænskt atvinnulíf fór úr því að vera í fremstu röð í algera stöðnun. Sænsk velferð minnkaði gríðarlega, í samanburði við aðrar þjóðir, og ánægja þjóðarinnar samhliða því. Bankakerfið fór svo á hliðina við lok tímabilsins.

Svíarnir sáu þó að sér og byrjuðu að vinda ofan af þessu kerfi. Það hefur leitt af sér gríðarlega aukningu í ráðstöfunartekjum heimila, og á síðasta ári sýndu þeir mesta hagvöxt innan OECD.

Ég þekki Svíþjóð af eigin raun. Þetta eru staðreyndir en ekki rómantískir draumórar. Hinn hyggni lærir af mistökum annarra en hinn heimski af eigin mistökum.

heidar (IP-tala skráð) 18.2.2011 kl. 05:07

24 Smámynd: Guðmundur Jónsson

""Meðal annars er ég að velta fyrir mér þeirri rökvillu að ákveðinn hluti hagkerfisins "skapi verðmæti" sem annar hluti þess eyði svo aftur. ""

Þú snýrð þessu öllu á haus Vilhjálmur, vinna er ekki penigurinn sem þú færð fyrir hana heldur það sem verður til við vinnuna. dæmi:

Vinna við kennslu í barnaskóla eða vinna við fíkniefnasölu á lóð skólans.

kennarinn og fíkniefnasalin geta haft svipuð laun en það er ekki það sem skiptir máli þegar lagt er mat á virði starafnna.

Guðmundur Jónsson, 18.2.2011 kl. 10:38

25 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Guðmundur: Það er einmitt það sem ég er að segja: "vinna er ekki peningurinn sem þú færð fyrir hana heldur það sem verður til við vinnuna".  Sem sagt, það sem máli skiptir eru þarfirnar, eftirspurnin, sem hagkerfið mætir.  Að (a) sem fjölbreyttustum þörfum sé mætt, umfram grunnþarfir sem að sjálfsögðu verður að sjá um; og (b) í sem mestu samræmi við forgangsröðun flestra.

Heiðar: Þú ert að svara einhverju sem ég er ekki að segja.  Ég er ekki að halda fram ofurskattlagningu, bara að benda á aðferð til að hugsa um hagkerfið; aðferð sem er réttari en sú að halda að peningar til samneyslu hverfi þar með.  Þú getur alveg eins fullyrt að ég sé að réttlæta auðsöfnun einstaklinga, því það leiðir líka af þessari hugsun að það sem einstaklingur fær í sinn hlut er ekki nettó tekið frá öðrum.  Ef ég eignast milljón og eyði henni aftur, þá endar hún í eigu annarra og aðrir njóta góðs af henni ásamt mér.  En það var mín forgangsröðun sem fékk að ráða því hvaða þarfir voru uppfylltar fyrir þessa milljón, í því liggur ávinningurinn fyrir mig.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.2.2011 kl. 12:26

26 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Er þá jafn farsælt fyrir samfélagið  að sinna eftirspurn eftir fíkniefnum á skólalóðinni og eftirspurn eftir kennslu í skólanum ? 

Og er þá sá hluti hagkerfisins sem er í fíkniefnasölu að búa til jafn mikil raunverðmæti og sá hluti sem er í kennslu.

Það er bara þannig að það skiptir máli hvað maður gerir í vinnunni sinni og það skiptir líka máli í hvað maður eyðir laununum sínum.

Guðmundur Jónsson, 18.2.2011 kl. 14:20

27 identicon

Sæll Vilhjálmur,

Ég er ekki að misskilja "hugmyndafræði sósialdemókrata".

heidar (IP-tala skráð) 18.2.2011 kl. 18:21

28 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég mæli eindregið með því að menn lesi fyrsta kaflann í bók Andra Snæs Magnasonar, Draumalandinu, um leigubílstjórann og "raunveruleikann" (les "verðmætasköpunina"). Það er eiginlega forsenda þess að eiga upplýsta rökræðu um það sem hér er til umfjöllunar.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 19.2.2011 kl. 11:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband