Hvað þarf í nýrri og betri stjórnarskrá?

Ég hef verið áhugamaður um stjórnskipanina og endurbætur á henni allt frá 1983 þegar ég gekk í Bandalag jafnaðarmanna og hreifst af hugmyndum Vilmundar Gylfasonar.  Þær hugmyndir eru í fullu gildi enn í dag, og rúmlega það, eins og ég rakti t.d. í bloggfærslu í nóvember 2008 og erindi sem ég hélt í Iðnó um svipað leyti.

Stjórnlagaþing er einmitt ein af þeim hugmyndum sem nefndar eru í bloggfærslunni, og það er nú loksins að verða að veruleika.  Þarna er á ferðinni stærsta umbótatækifæri í íslenskum stjórnmálum frá stofnun lýðveldisins, og um að gera að nýta það vel.

Þau markmið sem ég vil gjarnan ná með nýrri stjórnarskrá eru:

  • Ráðherrar valdir á grundvelli hæfni og reynslu.  Ráðherrar eru æðstu menn framkvæmdavaldsins og bera ábyrgð á stórum, flóknum og sérhæfðum málaflokkum.  Það gengur ekki lengur að þeir séu valdir úr þröngum hópi þingmanna eftir alls kyns ómálefnalegum sjónarmiðum innan stjórnarflokka.  Við höfum séð glögglega hvert það leiðir þegar fólk sem er ágætt út af fyrir sig er sett í þá stöðu að stjórna málaflokkum sem það hefur ekki staðgóða þekkingu á og reynslu af.  Leiðir að þessu markmiði eru nokkrar mögulegar.  Best hugnast mér sú leið að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu, en hann/hún tilnefni ráðuneyti sitt.  Vitaskuld þarf ríkisstjórnin ætíð að afla meirihlutastuðnings þingsins fyrir lagafrumvörpum sem hún vill fá í gegn.  Með þessu yrði framkvæmdavald og löggjafarvald nánast fullkomlega aðskilið, sem að mínu mati styrkir hvora tveggju valdþættina.
  • Öflugri stefnumótun og aðhald af hálfu þingsins.  Með því að greina betur milli ríkisstjórnar og þings verður þingið sjálfstæðara.  Það á að taka í auknum mæli að sér stefnumótun og aðhald.  Til dæmis er verið (loksins) að móta orkustefnu fyrir Ísland á vegum iðnaðarráðuneytis.  Af hverju ætti ekki iðnaðarnefnd þingsins að hafa frumkvæði að slíkri stefnumótun, sem yrði svo samþykkt sem þingsályktun (og lög eftir atvikum) og falin ríkisstjórninni til framkvæmdar?  Að sama skapi ætti þingið að taka að sér eftirlits- og aðhaldshlutverk gagnvart framkvæmdavaldinu, spyrja gagnrýninna spurninga og sjá til þess að almannahagsmuna sé gætt í bráð og lengd.  Stefnumótun og aðhald hafa lengi verið í miklu skötulíki í íslenska stjórnkerfinu; nú er mál að linni og við gerum þetta almennilega.
  • Faglegri, betri og opnari stjórnsýsla.  Stjórnsýslan hefur verið of veik og liðið fyrir pólitískar ráðningar og inngrip, og skort á aðhaldi og gagnsæi.  Stjórnsýslulög og lög um Umboðsmann Alþingis voru stór framfaraskref, en megindrættir þeirra þurfa að færast úr almennum lögum inn í stjórnarskrána til að tryggja réttindi og vernd borgaranna.  Sérstaklega þarf að styrkja stöðu Umboðsmanns og jafnvel að teygja embættið í áttina að stjórnsýsludómstól að franskri fyrirmynd.
  • Virkara lýðræði, veikara flokksræði.  Lýðræði á Íslandi hefur verið í of miklum mæli skammtað í gegn um stjórnmálaflokka.  Flokkarnir hafa verið of sterkir og orðið að sjálfmiðjuðum hagsmunaklíkum. Því er nauðsynlegt að veikja þá nokkuð, innan skynsamlegra marka (því flokkar eru líka gagnlegir).   Það má gera með ráðstöfunum á borð við aukna möguleika á persónukjöri til þings, jafnvel þvert á flokka; reglum um þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál (þó ekki öll, t.d. ekki fjárlög); og helst að gera landið að einu kjördæmi.
  • Skýrari, markvissari uppbygging og texti.  Stjórnarskráin frá 1944 er því miður töluvert vond.  Hún er ómarkvisst uppbyggð, óskýr í ýmsum meginatriðum og lýsir ekki raunveruleikanum eins og hann er.  Það er brýnt að ný stjórnarskrá sé skýrt og lifandi plagg sem fólk getur skilið, tengt sig við og byggt sinn rétt á.  Stjórnarskráin á að byrja á formála þar sem íslenska þjóðin sammælist um að setja sér eftirfarandi sáttmála um stjórn sinna sameiginlegu málefna; síðan eru tíunduð grunngildi sem hafa á í heiðri ætíð; af þeim leiða mannréttindi og svo kemur mekaníkin, stjórnkerfið sem á að tryggja að það verði sem við viljum (og ekki það sem við viljum ekki).  Að hafa svona grunnplagg, skýrt og fallega orðað, yrði þjóðinni mjög dýrmætt - miklu dýrmætara en núverandi líndalsvæna kraðak nokkru sinni.

Að öllu ofangreindu vil ég vinna og býð því fram krafta mína á Stjórnlagaþingi.  Ég vonast eftir að fá þinn stuðning í þessu stóra verkefni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðjón Sigurbjartsson

Ég er algerlega sammála þessarri greiningu hjá þér Vilhjálmur.  Ég hreifst líka með þegar Vilmundur kom fram með þessa stefnju og stofnaði Bandalag jafnaðarmanna.   Nú bregður svo við að annar hver maður og rúmlega það talar um aðskilnað löggjafarvalds og framkvæmdavalds.  Hvernig skyldi þessu máli reiða á Stjórnlagaþingi?  Það verður gaman að sjá.

Guðjón Sigurbjartsson, 21.10.2010 kl. 21:50

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Takk Guðjón. Mér sýnist eins og þér að flestir frambjóðendur tali um skýrari aðgreiningu valdþáttanna, og er þess vegna bjartsýnn á að það geti náðst samstaða um rétt skref í þá átt. Vonum það besta.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 21.10.2010 kl. 23:07

3 identicon

Sæll Vilhjálmur

 Getur þú útskýrt aðeins betur þegar þú segist vilja minnka vægi flokka en telur þá þó gagnlega.  

 Ég fyrir mitt leyti get skilið að hópamyndun sé óhjákvæmileg,  en flokkamyndun sé ég ekki sem óhjákvæmilega,  eða m.ö.o: Mér fynnst eðlilegast að fólk flokki sig bara eftir málefnum og hópar (með eða á móti frumvörpum)  séu í sífellu að myndast, með þingið eins síkvikt og mögulega hægt er.

Ég held að eitt af stærstu vandamálum þingsins eins og það er í dag sé að þingmenn þurfa stanslaust að vera í pólitík innan flokksins síns, sem enginn fær að fylgjast með og síðan fáum við (lýðurinn) bara að sjá strategíska leiki flokkanna eftir að öll raunveruleg valdatöfl og umræður hafa verið settluð innan þeirra,  og látið er eins og þessi yfirborðslega umræða á alþingi sé þar sem hlutirnir gerast (Ég fyrir einn hef allavega þá ónotatilfinningu að þar sem bara háð leikrit og kannski slatta af PR starfsemi líka - en lítið annað).   Við vitum öll að þingmenn gefa eftir í sumu við flokk sinn, án þess að segja það opinberlega, til þess að fá sínum örfáu aðalhugðarefnum framgengt. Þetta gerir opinberu umræðuna sundraða, ofur(heimsku)kappsama, einstreingislega og tortryggilega.

Með því að brjóta upp flokkana, ætlast ég ekki til að hópamyndun stoppi - ég ætlast bara til að umræða og valdabarátta færist á þingið í stað þess að vera á bakvið tjöld í flokkssamkunndunum

 En endilega ef þú gætir útskýrt fyrir mér eitthvað gott sem flokkastarf leiðir af sér gagnvart lýðnum,  það væri heldur betur fróðlegt :)

Arnar Þór Gunnarsson (IP-tala skráð) 22.10.2010 kl. 00:10

4 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þetta eru góðar áherslur og hafa verið baráttumál margra síðustu áratugi. Það er ein spurning sem ég vil varpa til þin Vilhjálmur og það er þetta svokallaða ráðherraræði. Að ráðherra málaflokks geti tekið einhliða ákvarðanir og komist upp með það. Er ríkisstjórn ekki fjölskipað stjórnvald og er ekki eðlilegt að Alþingi fjalli um stórar ákvarðanir eins og  úthlutun aflaheimilda í sjávarútvegi, en það sé ekki eins manns ákvörðun (að sögn í samræmi við ráðleggingar Hafrannsóknarstofnunar). Þetta kemur kannski fram í þinni færslu og ef svo er, þá biðst ég velvirðingar. 

Hólmfríður Bjarnadóttir, 22.10.2010 kl. 00:23

5 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Arnar Þór: Ég get tekið undir margt af því sem þú segir, enda finnst mér að flokkarnir séu of fyrirferðarmiklir í okkar stjórnkerfi og vil veikja þá. En ég held að það væri óraunsætt að ætla einstaklingum á þingi að setja sig inn í öll mál og málaflokka með nægilega djúpum hætti til að hafa ígrundaða afstöðu. Það sýnir sig líka að litlir þingflokkar eiga erfitt uppdráttar. Ákveðin sérhæfing er góð, og flokkarnir eru ekki heldur alvondir í því að standa fyrir eigin stefnumótun og lýðræðislegri umræðu innan sinna vébanda. Flokkar geta þannig verið ákveðin kjölfesta í stjórnkerfinu - en þeir mega ekki verða svo þungir í kjölinn að erfitt sé að breyta stefnu skipsins í rétta átt hverju sinni.

Hólmfríður: Þú ert með góðan punkt þarna sem er um ábyrgðarsvið einstakra ráðherra vs. ríkisstjórn sem fjölskipað stjórnvald. Ég held að með beinni kosningu forsætisráðherra og tilnefningu hans/hennar á ráðuneyti sínu þá sé ljóst að forsætisráðherra beri ábyrgð á stjórn sinni í heild, enda þarf hann að svara fyrir hana í kosningum með beinum hætti. Ég held líka að með skýrari aðskilnaði þings og ríkisstjórnar verði hvati og tilhneiging þingsins til aðhalds miklu sterkari. Ég teldi þá líklegt að þingið vildi hafa hönd í bagga til dæmis með úthlutun takmarkaðra gæða.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 22.10.2010 kl. 14:34

6 identicon

Takk fyrir svarið Vilhjálmur.

Ég kýs þig - en hvet þig líka til að gefa ekkert eftir varðandi að minnka vægi flokka eins mikið og mögulegt er - og draga stefnumótun þeirra eins mikið framm í dagsljósið og mögulegt er.

 :) 

 Kv. Arnar

Arnar Þór Gunnarsson (IP-tala skráð) 22.10.2010 kl. 14:47

7 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Takk fyrir svarið Villhjálmur og góðar undirtektir. Einhvers staðar sá ég það (hjá Andra Geir hér á Ejunni, ef ég man rétt) að hið svokallaða ráðherraræði hafi komist á um leið og við fengum fyrsta ráðherrann 1904.

Það hafi gerst með þeim hætti að viðfengum einn ráðherra, en ekki tvo. Þannig að þá strax hafi skapast hið svokallaða einræðisvald ráðherra. Það hafi síðan deilst út eftir því sem ráðherrum fjölgaði og þá hver haft völd í "sínum" málaflokkum.

Þessa söguskýringu get ég hvorki hrakið eða varið, en hún er ekki verri en hver önnur.

Hólmfríður Bjarnadóttir, 24.10.2010 kl. 13:14

8 identicon

Eiga þá ráðherrar ekki að hafa atkvæðiarétt á Alþingi?  Hvaða hlutverki viltu að forseti lÝðveldisins gegni?  Sérðu jafnvel fyrir þér að við förum nær bandaríska kerfinu og leggjum niður forsætisráðherra embættið en kjósum forseta sem velur sér ráðherra?

Björn (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 09:34

9 identicon

Sæll Villi,

Mér finnst þetta nú frekar yfirborðskennd stefnuskrá. Helstu komment:

1. Skipun ráðherra: Ekkert í stjórnarskránni kemur í veg fyrir að ráðherrar séu ráðnir byggt á reynslu og þekkingu. Reyndar er það svo að væntanlega telja þeir sem skipa ráðherra að þekking og reynsla komi þar við sögu. Hefur Samfylkingin kannski verið að skipa ráðherra sem eru vankunnandi og reynslulausir? Þar fyrir utan hefur lagatexti sem gerir þekkingu og reynslu að skilyrði tiltölulega takmarkaða þýðingu. Var Bjarni Harðarson hæfasti umsækjandinn? Það bætir því sáralitlu við, að gera einhverjar breytingar á stjórnarskránni sem lúta að þessu.

Þú vilt einnig aðskilja framkvæmdavald frá þingi með sérstakri kosningu sem myndi stökkbreyta stjórnskipun hérlendis. Nú vil ég benda á að þetta fyrirkomulag er ekki gallalaust, eins og má til dæmis sjá í Bandaríkjunum - þar sem engin mál klárast ef forseti og þing vinna ekki saman. Væri það eftirsóknarvert í því ástandi sem landið er í núna?

2. Öflugri stefnumótum og aðhald af hálfu þingsins: Í stjórnarskránni hefur þingið öll verkfæri til þessa. Allir sem fygjast með störfum þingsins sjá að þar er sí og æ verið að bera fram fyrirspurnir til framkvæmdavaldsins (margar hverjar gagnrýnar) og þingsályktunartillögur um stefnu í einstökum málum. Það er ekkert í stjórnarskránni sem stendur því í vegi að þingið geri meira af þessu - ef menn telja það nauðsynlegt. Þetta hefur ekkert með stjórnarskránna að gera.

3. Bættari stjórnsýsla: Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að skerpt verði á stjórnsýslulögum, upplýsingalögum, og lögum um Umboðsmann Alþingis. Til þess þarf ekki stjórnarskrárbreytingu. Til eru mikil skrif um rök með og á móti sérdómstólum á borð við þann stjórnsýsludómstól sem þú segist vilja skoða. Hingað til hefur verið sammæli um það meðal þeirra sem til þekkja hér á landi og hafa skoðað málið að kostir slíkra sérdómstóla séu minni en gallarnir. Hvað hefur þú fyrir þér hér?

4. Kosningareglur: Einhverjar þeirra breytinga sem þú nefnir þarna fela í sér breytingar á stjórnarskránni. Sumum er þó hægt að ná fram með einföldum lagabreytingum.

5. Texti stjórnarskrárinnar: Okkar stjórnarskrá er ekkert óskýrari eða óskiljanlegri en vestrænar stjórnarskrár almennt. Skoðaðu til dæmis Amerísku stjórnarskránna. Hversu skýr er hún fyrir nútímamanninn? Okkar stjórnarskrá er byggð á erlendum fyrirmyndum og þar hefur mönnum ekki þótt ástæða til breytinga bara vegna þess, að einhverjum tekst ekki að tileinka sér inntak textans. Yfirleitt er slíkum mönnum bara bent á að koma við á næsta bókasafni.

Mér sýnist á þessu að þú verðir að leggja betur niður fyrir þér hvaða breytingar á stjórnarskránni þú vilt ná fram. Ef eina raunverulega raunhæfa breytingin sem lagt er upp með er breyting á kosningakerfinu, þá sýnir það best þá víð og dreif sem umræða um stjórnlagaþing er komin út í. 

Bkv. Reimar

Reimar (IP-tala skráð) 25.10.2010 kl. 14:20

10 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Björn: Nei, ráðherrar eiga klárlega ekki að hafa atkvæðisrétt á þingi. Ég tel að reynslan sýni að það gangi ekki að velja ráðherra úr hópi þingmanna. Það er hægt að ganga mislangt í því að aðskilja löggjafarvald og framkvæmdavald, til dæmis má hugsa sér að þingið kjósi (eða a.m.k. verji vantrausti) forsætisráðherra og (utanþings-) ráðuneyti hans, en ég er fremur hlynntur því að ganga alla leið í bandaríska og franska kerfið og kjósa forsætisráðherra (=forseta) sérstaklega. Öll kerfi hafa kosti og galla en ég tel borðleggjandi að Ísland getur ekki valið nægilega góða ráðherra úr svo takmörkuðu þýði sem þingflokkar stjórnarflokka eru.

Reimar: Sjá svarið til Björns - ég er að tala um aðskilnað framkvæmda- og löggjafarvalds umfram það sem nú er.  Samkvæmt orðanna hljóðan getur forseti skipað ríkisstjórn utanþings en það hefur ekki verið framkvæmdin og túlkun orðanna "þingbundin stjórn" í 1. gr. er yfirleitt sú að átt sé við (hefðbundið) þingræði.  Þetta er reyndar einn af óskýru punktunum í stjórnarskránni, sem lýsir að hluta öðru stjórnarfari en er í praxís.

Af sjálfu leiðir að stefnumótun og aðhald löggjafarþingsins verður í skötulíki þegar helstu forkólfar þingflokkanna eru jafnframt ráðherrar.

Punkturinn um stjórnsýsluna er að borgararnir njóta ekki réttinda eða verndar gagnvart stjórnsýslunni í stjórnarskrá heldur aðeins í almennum lögum.  Það þýðir að Alþingi er í lófa lagið að undanþiggja ný lög ákvæðum stjórnsýslulaga að vild; þetta var t.d. gert í Neyðarlögunum frægu.  Þessi lapsus er einfaldlega tímaskekkja og á auðvitað að laga.

Texti stjórnarskrárinnar er víða óljós og ber þess merki að vera afar gamall að upplagi.  Það eru fjölmörg dæmi um miklu betur uppsettar og orðaðar stjórnarskrár, til dæmis sú finnska og sú þýska.  Enda hefur sú íslenska ekki náð sérstaklega að hjörtum þjóðarinnar, svo ég hafi tekið eftir - en það á að vera markmiðið.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 25.10.2010 kl. 20:16

11 identicon

Sæll Villi,

 Ég sakna þess að þú greinir kosti og galla þess að greina á milli framkvæmdavalds og löggjafarvalds með þeim hætti sem þú vilt gera. Þetta er fjarri því gallalaust fyrirkomulag. Síðan þarf líka að greina þann vanda sem felst í því að gera slíka grundvallarbreytingu á stjórnskipun á tímum eins og eru í dag þar sem mörg önnur viðfangsefni eru aðknýjandi önnur en að finna upp hjólið. Þetta þarf að greina.

Er stefnumótun og aðhald löggjafarþingsins í Danmörku í skötulíki? Eða Bretlandi? Það fyrirkomulag sem er notast við þar er ósköp svipað því sem hér tíðkast.

Ég myndi mæla með að þú kynntir þér betur samspil stjórnarskrár og stjórnsýslu, því stjórnarskráin takmarkar verulega svigrúm valdsmanna til beitingar valds síns. Í því samhengi má nefna ákvæði um endurskoðun dómstóla á embættismörkum yfirvalda og ákvæði um mannréttindi (sem eru reyndar mjög til fyrirmyndar eftir nýlega endurskoðun).

Neyðarlögin frægu eru sérstakur kapituli út af fyrir sig. Ber að skilja það svo að þú hefðir áhuga á því að setja ákvæði í stjórnarskrá sem kæmi í veg fyrir að Alþingi myndi geta sett lög á borð við þau? Ég vek athygli á því að það á eftir að dæma um samþýðanleika ýmissa atriða í neyðarlögum við stjórnarskrá, t.d. um heimildir stjórnvalda til að taka ákvarðanir samkvæmt þeim, heimildir til að bera mál undir dóm, og lágmarkskröfur um málsmeðferð, jafnræði og meðalhóf.

Texti stjórnarskrárinnar er víða óljós. Það er rétt. Hinu má hins vegar ekki gleyma að nú liggja fyrir áratuga fordæmi dómstóla og efnismikil umfjöllun helstu lögspekinga fyrr og síðar um hvernig beri að skilja þau. Allur texti er brenndur því marki að hann þarfnast túlkunar. Sú lögspeki að unnt sé með settum lagatexta að setja nákvæma reglu fyrir öll tilvik var vinsæl fyrir ca. 100 árum en hefur fyrir löngu verið afskrifuð.

Ef sett er ný stjórnarskrá nú um einhver atriði sem máli skipta munu líða áratugir þangað til efni hennar verður orðið jafnskýrt og núgildandi stjórnarskrá þegar kemur að smáatriðum. Ég átta mig ekki á hvað þú átt við um að ná "hjörtum þjóðarinnar". Er það hlutverk stjórnlagatexta? Er það ekki frekar hlutverk þjóðlagatexta? Það væri þá hugsanlega betra að skipta út þjóðsöngnum.

 Bkv. Reimar

Reimar (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 09:44

12 identicon

Ánægð með þig er algerlega 100% sammála þinni nálgun!  Færð minn stuðning og mun reyna að hafa áhrif á alla sem ég þekki.

 Baráttukveðjur

Rut

Rut (IP-tala skráð) 26.10.2010 kl. 15:56

13 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sæll aftur Reimar.

Kostirnir af aðgreiningu eru augljósir, þ.e. að við fáum ráðherra valda utanþings á grundvelli fagþekkingar, eða a.m.k. úr miklu víðari hópi en þingflokkum stjórnarflokka.  Sjálfstæði löggjafarþingsins getur verið bæði kostur og galli eftir því hvernig á það er litið; þá þarf að leita sáttar til að koma frumvörpum ríkisstjórnar í gegn, sem krefst meiri umræðu og samninga.  Það getur vissulega tafið mál og gefið færi á gæslu sérhagsmuna ("pork" heitir það í Bandaríkjunum) en á móti kemur ítarlegri málsmeðferð og lýðræðislegri.  Ég held að á Íslandi vegi kostirnir þyngra en í fjölmennari ríkjum þar sem meira mannval er á þingi og auðveldara að manna ráðherrastöður.  Þá held ég að það sé okkar litla samfélagi sérstaklega óhollt að flokkarnir séu jafn sterkir í bæði framkvæmda- og löggjafarvaldi eins og raunin hefur verið.

Grundvallarbreyting á stjórnskipun er einmitt það sem við þurfum, núna en ekki seinna.  Það eru liðin tvö ár frá hruninu, rannsóknarskýrslur RNA og þingmannanefndar komnar út og ekkert að vanbúnaði að vinda sér í verkið.  Sagan sýnir að "kerfið" hefur jafnan kæft viðleitni til að endurskoða stjórnarskrána - með rökum áþekkum þeim sem þú tínir til - þannig að ef við drífum okkur ekki í þetta er aldrei að vita hvenær, eða hvort, tækifæri gefst aftur.

Þú misskilur orð mín um lykilákvæði stjórnsýslulaga, sem ég tel eiga heima í stjórnarskrá en ekki almennum lögum.  Þar á ég við grundvallaratriði á borð við meðalhófsreglu, jafnræðisreglu, rannsóknarreglu og kæruheimild.  Allt eru þetta reglur sem Alþingi er heimilt að víkja til hliðar í einstökum málum miðað við núverandi stjórnarskrá.  Í "Neyðarlögunum" var 4.-7. kafla stjórnsýslulaga t.d. vikið til hliðar hvað varðaði ákvarðanir FME, þar á meðal andmælarétti þeirra sem ákvarðanir FME beindust að.  Nú kann að vera að nákvæmlega sú ráðstöfun hafi átt rétt á sér, en fordæmið er þarna og sýnir upp á hverju stjórnvöld gætu tekið í framtíðinni að óbreyttu.

Það sýnir sig að þegar á reynir, t.d. í fjölmiðlamálinu, Icesave-málinu og Landsdómsmálinu, þá er stjórnarskráin einmitt óljós og hver höndin uppi á móti annarri í lögskýringum.  Ég er forritari að upplagi og kann vel þá list að skilgreina nákvæmlega hvað eigi að gerast og hvað ekki.  Tölvur eru mjög bókstaflegar í skilningi sínum eins og þú veist.  Og þótt ég sé ekki lögfræðingur blasir við mér að stjórnarskráin lýsir afar illa hvað eigi að gerast í fjölmörgum mikilvægum tilvikum.  Enda er hún barn síns tíma.

Góð stjórnarskrá á að vera þjóðinni kær, og það á reyndar þjóðsöngur líka að vera.  Úr því þú minnist á það, mætti vel skipta um þjóðsöng í leiðinni...

Vilhjálmur Þorsteinsson, 29.10.2010 kl. 23:15

14 identicon

Sæll Villi.

Ég les yfirleitt ekki rausið hér í bloggheimum en hnaut um skrif þín um málefni sem þú leggur til grundvallar væntanlegu framboði þínu. Stjórnlagaþing er alvarlegt og mikilvægt mál. Afurðir þingsins geta mótað Ísland til langrar framtíðar. Því tel mjög mikilvægt að þeir sem bjóða sig fram skilji, viti og þekki vel til stjórnlaga en haldi ekki fram málefnum byggðum á þokukenndu rausi sem valdi frekari ruglingi og uppnámi.

Þú segir í síðasta svari þínu við glöggum athugasemdum Reimars að þú sért forritari en ekki lögfræðingur. Að upplagi kunnir þú þá list vel að skilgreina nákvæmlega hvað eigi að gerast og hvað ekki. Svo telur þú að, stjórnarskráin sé óljós um málsmeðferð þegar kemur að atriðum eins og Icesave málinu. Mér þætti vænt um að þú útskýrir þetta atriði nánar. Því mig minnir að í átökum þings, forseta og ráðherra um Icesave hafi stjórnarskráin seint verið talin til atriða sem steytti á.

Þetta er sérstaklega athyglisvert í því ljósi að þú hefur tekið að þér, hér á þessu bloggi, mjög nákvæmar útskýringar á því hversvegna íslenskum almenningi beri að borga kostnað vegna Icesave.

Í færslu þinni frá 10.1.2010 sem heitir "Á hvaða lögum byggja innistæðutryggingar og Icesave-samningurinn?" (http://vthorsteinsson.blog.is/blog/vthorsteinsson/entry/1003671/) leggur þú út í mjög svo athyglisverðar lagaskýringar sem hafa vakið hjá mér nokkra furðu.

Eftir að hafa þulið upp hin ýmsu lög og reglur í bloggfærslunni, vitnar þú til dóms Evrópudómstólsins C-222/02. Dómsorð Evrópudómstólsins er að hluta:

"If the compensation of depositors prescribed by Directive 94/19/EC of the European Parliament and of the Council of 30 May 1994 on deposit-guarantee schemes is ensured, Article 3(2) to (5) of that directive cannot be interpreted as precluding a national rule to the effect that the functions of the national authority responsible for supervising credit institutions are to be fulfilled only in the public interest, which under national law precludes individuals from claiming compensation for damage resulting from defective supervision on the part of that authority."

sem íslenskir og evrópskir lögfræðingar hafa einmitt talið fordæmi um að það sé ekkert sem banni ríkjum að hafna því að einstaklingar geti krafið ríki um skaðabætur vegna tapaðra innistæðna.

Niðurstaða þín um dóm Evrópudómstólsins er að hann: "reyndi sem sagt á það prinsipp að tilskipunin ein og sér myndar rétt hjá innistæðueiganda, þótt landslög hafi ekki fylgt á eftir." sem talið hefur verið einmitt til raka gegn því að Íslendingum beri að borga Icesave.

Að síðustu kemstu að eftirfarandi niðurstöðu í bloggfærslunni:

"Af ofangreindu má vera ljóst að keðja réttarheimilda er fyrir hendi. Svo geta menn vitaskuld deilt um einstaka hlekki og hvort þeir eigi við eður ei í tilviki Icesave. Og lög og pólitík eru ekki alltaf eitt og hið sama. En það er of langt gengið að segja að það sé "enginn lagagrundvöllur" fyrir útgreiðslu innistæðutryggingar til allra innistæðueigenda Landsbankans, innlendra sem erlendra."

Því vil ég að endingu spyrja þig:

1) Hvað er "keðja réttarheimilda"?

2) Hvernig skuldbatt hún íslendinga lagalega til að borga IceSave?

3) Hvað í stjórnarskránni er óljóst þegar kom að afgreiðslu Icesave málsins?

4) Hvert af atriðum þínum í málefnaupptalningu til stjórnlagaþings er til þess að gera hið óljósa atriði í stjórnarskránni varðandi Icesave skýrt?

Í vinsemd

Ársæll

Ársæll (IP-tala skráð) 30.10.2010 kl. 18:17

15 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sæll Ársæll!

Vísun mín í Icesave-málið í þessu samhengi tengist málskotsrétti forsetans, og er hliðstæð vísuninni í fjölmiðlafrumvarpið.  Eins og við munum báðir þá upphófst mikil umræða og deilur um það hvernig málskotsrétturinn ætti að virka í reynd og um það hvort forsetinn hefði yfirleitt þennan rétt, þegar fjölmiðlafrumvarpinu var synjað staðfestingar.  Þingmenn og þekktir lögfræðingar skrifuðu greinar í blöð með alls kyns meiningum um hvaða lágmarksþátttaka þyrfti að vera í þjóðaratkvæðagreiðslunni og sumir voru meira að segja þeirrar skoðunar að það þyrfti aukinn meirihluta til að hafna lögunum(!).  Af einhverjum ástæðum voru þessi sjónarmið ekki höfð uppi með sama hætti í Icesave-málinu, enda sneru hagsmunir stórra fylkinga í stjórnmálunum þá öfugt við það sem áður var.

En vissulega má segja að með Icesave málinu sé komið fordæmi sem hægt yrði að styðjast við í framtíðinni; þó finnst mér eðlilegra að þjóðin sjálf hafi beinan rétt til að kalla eftir þjóðaratkvæðagreiðslu og að öryggisventils-hlutverkinu sé komið fyrir með öðrum hætti, t.d. með stjórnlagadómstól, hugsanlega í samkrulli við Hæstarétt.  (Það er athyglisvert að í dag er aðeins hægt að fá úrskurð Hæstaréttar um hvort lög standist stjórnarskrá með því móti að eiga lögvarða hagsmuni og rétta aðild að málshöfðun.  En lögin geta hæglega verið þess eðlis að slíkir hagsmunir og aðild séu vandfundin.)

Bloggfærsla mín um keðju réttarheimilda í Icesave málinu var skrifuð sem viðbrögð við því sem sumir héldu fram, að "enginn lagagrundvöllur" væru fyrir því að TIF bæri að greiða út lágmarkstrygginguna.  Margir virtust ekki átta sig á skuldbindingum Íslands skv. EES samningnum og samkvæmt gildandi lögum og hvernig þetta héngi allt saman.  Í textanum leitast ég við að lýsa staðreyndum í þeirri viðleitni að halda umræðunni á málefnalegum grunni.  Ég fullyrði hins vegar hvergi hver endanlega niðurstaðan eigi að vera, heldur skýri hver staða málsins sé og um hvað ágreiningurinn raunverulega snúist.  Almennt er það vitaskuld svo að ef menn ætla að taka réttar ákvarðanir er nauðsynlegt að byggja á nákvæmri og hreinskilinni greiningu á stöðu máls eins og hún er, ekki óskhyggju, óraunsæi eða sjálfsblekkingu.

("Keðja réttarheimilda" er annars lögfræðilegt hugtak - orðið "réttarheimild" hefur hér tiltekna lögfræðilega merkingu.)

Varðandi Peter Paul málið, þá er gildi þess í þessu samhengi að þýska ríkið var dæmt (í undirrétti) til að greiða lágmarkstrygginguna, þótt engin landslög um slíkt hefðu verið komin í gildi á þeim tíma þegar þau atvik urðu sem deilt var um.  Það var sem sagt ekkert Evrópusamhæft tryggingarkerfi komið upp í Þýskalandi, og enginn tryggingasjóður fyrir hendi.  Ég óttast að þetta dómafordæmi sýni að Ísland sleppi ekki með neitt múður; innistæðueigendur hafi sinn rétt til refjalausrar lágmarkstryggingar þótt innleiðing Evróputilskipunarinnar í landslög hér hafi verið ófullkomin (þ.e. framlög í tryggingasjóðinn ónóg).  Mér sýnist ESA einmitt gefa þetta í skyn í foráliti sínu.  En björgin í því sambandi gæti þá verið að undirrétturinn í Þýskalandi hafi túlkað Evrópuréttinn of strangt; Evrópudómstóllinn sjálfur hefur ekki dæmt um þetta álitaefni.

Málsgreinin sem þú vísar til úr dómsorði Peter Paul á ekki við í þessu úrlausnarefni, hún fjallar um annað (þ.e. hvort innistæðueigandinn hafi átt rétt á bótum frá ríkinu vegna þess að fjármálaeftirlit hafi brugðist - en á það var fallist að svo lengi sem lágmarksbætur væru tryggðar mætti þýska ríkið firra sig bótaskyldu vegna þessa).

Í lokin: Almennt finnst mér gæta í athugasemd þinni pirrings yfir skrifum mínum í Icesave málinu, sem ég hef einnig orðið var annars staðar frá.   (Vill stundum gleymast að ég hef líka gagnrýnt samningsupplegg íslenskra stjórnvalda.)  Er eins og menn haldi annað hvort að ég sé einhver dómari eða áhrifamaður í ákvarðanatöku í þessu efni, eða að hreinskilnisleg umræða um stöðu mála sé til þess fallin að "hjálpa andstæðingnum".  Hvorugt er rétt, og sérstaklega er hlálegt að ætla að einn vesæll bloggari úti í bæ leggi nokkuð til mála sem allir samningsaðilar í málinu hafa ekki haft á hreinu frá fyrsta degi.  Allt það sem ég hef sagt og skrifað um þetta mál eru augljós sjónarmið, og staðreyndir, sem dyljast engum sem setur sig inn í það á annað borð.  Opinber umræða sem ekki hefur þessi sjónarmið og staðreyndir til hliðsjónar - ásamt öðrum - skilar hvorki árangri né raunverulegum skilningi.

En annars vona ég að við þurfum ekki að byrja nýja þrætubók um Icesave hér, það er búið að berja þann harðfisk vel og lengi og varla á bætandi.  Málið er í farvegi, og vonandi kemur góð málamiðlun út úr því þannig að menn geti snúið sér að öðrum og uppbyggilegri viðfangsefnum.

Með vinsemd.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 31.10.2010 kl. 01:37

16 identicon

Þú ert orðinn dálítið eins og stjórnmálamennirnir; svarar ekki þeim spurningum sem til þín er beint! Það er kannski ekki við öðru að búast þar sem þú ert í framboði.

Það sem vantar svar við er:

1. Hefur Samfylkingin verið að skipa vankunnandi og reynslulausa ráðherra?

2. Var Bjarni Harðarson hæfasti umsækjandinn?

3. Er eftirsóknarvert, við núverandi aðstæður, að taka áhættu af því að það myndist þrátefli milli þings og framkvæmdarvalds umfram það sem þegar er orðið?

4. Hvað telur þú mæla með stofnun stjórnsýsludómstóls?

5. Telur þú bandarísku stjórnarskránna skýra í augum nútímamannsins?

6. Er stefnumótun löggjafarþinganna í Danmörku og Bretlandi í skötulíki?

7. Hefur þú áhuga á að setja ákvæði í stjórnarskrá sem kæmi í veg fyrir að lög á borð við neyðarlögin geti staðist? Reyndar tel ég að stjórnarskráin feli í sér margvíslegar kröfur um málsmeðferð, sem á eftir að reyna á í dómsmálum og neyðarlögin megna ekki að upphefja.

Varðandi texta stjórnarskrárinnar, finnst mér ekki sýna honum sanngirni. Þessi stjórnarskrá er byggð á fullveldisstjórnarskránni frá 1918. Hún byggði svo á stjórnskipunarlögunum 1904 þegar Ísland fékk heimastjórn sem var afar merkur áfangi í sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar. Á undan þeim kom svo stjórnarskráin frá 1874 sem var afleiðing sjálfstæðisbaráttu Jóns Sigurðssonar og fleiri góðra manna. Þetta er síðan byggt á fyrirmynd dönsku stjórnarskrárinnar sem var gerð í kjölfar lýðræðisbylgjunnar um miðja 17. öld í Evrópu og hafði að sínu leiti Belgísku stjórnarskránna sem fyrirmynd. Hún kom frá Frakklandi en þar hafði verið leitað hófanna í Bandarísku stjórnarskránni, sem er væntanlega fyrsta númtímalega stjórnarskráin.

Mér finnst þeir sem afgreiða þetta skjal með þeim hætti sem þú gerir hafa lítinn skilning á þessari sögu. Satt best að segja finnst mér þessi breytingaviðleitni minna dálítið á viðhorf sem voru í fyrirrúmi í Rússlandi á árinu 1918 þegar öllu gömlu (bæði góðu og slæmu) var kastað á bálið í þágu nýrra tíma.

Ef það er vilji til að taka hér upp fyrirkomulag utanþingsstjórna, eins og þú mælir með, er nóg að slá út úr stjórnarskránni orðin "með þingbundinni stjórn" í 1. gr. hennar. Annað getur staðið óbreytt.

Núgildandi stjórnarskrá hefur orðið skýrari eftir því sem árin hafa liðið. Nú hefur orðið reynt á flest atriði hennar, þar með talið synjunarvald forsetans sem var talið liggja í ævarandi dvala.

Hvers vegna að eyðileggja stjórnarskránna akkúrat núna? Væri ekki nær að breyta námsskrá grunnskólanna, bjóða atvinnulausum upp á námskeið, og kenna fólki aðeins um sögu og efni þessa stórmerkilega lagatexta sem stjórnarskráin okkar er? Mér finnst það allavega markvissara en að búa núna til eitthvað flatt plagg í engum tengslum við lýðræðissögu lands og þjóðar.

Bkv. Reimar

Reimar (IP-tala skráð) 1.11.2010 kl. 10:22

17 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Reimar: Það eru örugglega ekki margir stjórnmálamenn sem skrifa jafn ítarleg svör við fyrirspurnum eins og hér!  En ég hef gaman að rökræðunni og þakka fyrir almennt málefnalega umræðu.

Hér eru svörin:

1. Já, eins og aðrir flokkar.  Til dæmis var að mínu mati stór áhrifaþáttur í aðdraganda hrunsins að við vorum ekki með fagmenn í störfum viðskiptaráðherra og fjármálaráðherra.

2. Nei, næstum örugglega ekki.

3. Ég held að það þurfi einmitt að fá faglegra framkvæmdavald og sjálfstæðara löggjafarvald, og veikara flokksræði, til að endurvekja traustið sem vantar og slá á tortryggnina sem stendur okkur fyrir þrifum um þessar mundir.  Ekki má heldur horfa bara á ástandið núna, heldur velta því fyrir sér hvernig það ástand gat skapast yfirleitt.

4. Stjórnsýslan þarf meira aðhald og gagnsæi til að þjóna hlutverki sínu betur. Hún hefur ekki verið nægilega innstillt á að vinna forvirkt (proactive), heildaryfirsýn skortir og stefnumótun hefur verið lítil.  Stjórnsýslulögin voru samt risaskref fram á víð, en það segir sína sögu að lýðveldið hafði verið til í hálfa öld áður en þau voru sett.  Umboðsmaður Alþingis er annað gott skref en stofnanir virðast komast upp með að hundsa hann enda staða hans fremur veik í kerfinu. Stjórnsýsludómstóll er farvegur fyrir stjórnsýslukærur, þ.e. mál sem borgararnir telja sig þurfa að reka gegn stofnunum ríkisins.  Ég held að það gæti verið til aðhalds og bóta að fá slíkan farveg, en það gæti verið millilending að koma honum fyrir hjá sterkari Umboðsmanni.

5. Bandaríska stjórnarskráin lýsir a.m.k. stjórnskipaninni eins og hún er, og er túlkuð mjög bókstaflega út frá orðanna hljóðan.  Það sama gildir alls ekki um þá íslensku.

6. Þjóðþing flestra annarra landa eru mun öflugri en Alþingi hvað varðar gagnaöflun og faglega vinnu til stuðnings þingmönnum.  Með auknu sjálfstæði þingsins myndi ég vilja sjá sérfræðinga í hinum ýmsu málaflokkum vinna fyrir nefndir þingsins, og þá jafnvel færast þangað úr ráðuneytum.

7. Þú misskilur mig enn varðandi Neyðarlögin.  Ég vil setja lykilákvæði stjórnsýslulaga inn í stjórnarskrá, tel það sjálfsagt mál og flestar nýjar stjórnarskrár hafa slík ákvæði.  Ef andmælaréttur yrði tekinn inn í stjórnarskrána þá hefðu Neyðarlögin ekki getað tekið hann af þeim sem ákvarðanir FME beindust að, það er klárt.  En hefði það endilega verið verra?  Aftur vísa ég líka til þess að ég vil fá stjórnarskrá sem hjálpar til við að hindra annað hrun.

Ég er ágætlega inni í sögu stjórnarskrárinnar, hef m.a. lesið fína greinargerð um sögu stjórnarskrárbreytinga sem fylgdi frumvarpi Jóhönnu Sigurðardóttur, Streingríms J. og fleiri í apríl 2009 um stjórnarskrárbreytingar.  Það mál stöðvuðu Sjálfstæðismenn með málþófi, en ef það hefði farið í gegn, gæti Stjórnlagaþingið afgreitt stjórnarskrárfrumvarp beint yfir í þjóðaratkvæðagreiðslu - þyrfti ekki að vera "ráðgefandi" og fara í gegn um Alþingi.

Ég er einnig búinn að kynna mér nýjar eða nýbreyttar stjórnarskrár, t.d. þá finnsku, sænsku og svissnesku.  Því meira sem ég grúska í þessu, því betur sé ég hversu gömul, lúin og götótt okkar stjórnarskrá er.  Að breyta henni er algjört grundvallaratriði og nauðsynlegt fyrsta skref í að byggja aftur upp traust og gott samfélag.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 1.11.2010 kl. 17:52

18 identicon

Jæja, áfram heldur það!

Varðandi 1: Telur þú þá að núverandi ráðherrar Samfylkingar séu vankunnandi og reynslulausir á þeim sviðum sem þeir starfa á? Eins má spyrja, ef svo er, hver er skýringin? Nú er ekkert í stjórnarskránni sem bannar Samfylkingunni og VG að velja það fólk sem þeir telja hæfasta til ráðherrastarfa. Slíkt væri líklega farsælast fyrir kjörfylgi flokkana. Af hverju skipa þeir ekki hæft og reynslumikið fólk til starfa?

Varðandi 2: Bjarni var samt ráðinn og skrifaður rökstuðningur sem passar við lagareglu um að ráða skuli hæfasta fólkið. Hvaða tryggingu höfum við fyrir því að texti um þetta í stjórnarskrá hafi meiri þýðingu en í tilviki Bjarna?

Varðandi 5: Texti Bandarísku stjórnarskrárinnar er orðinn ansi forn og erfitt að ráða af honum ýmsa veigamikla þætt í stjórnskipan þeirra. T.d. kemur þar ekkert fram um störf ráðherra, verksvið þeirra eða ábyrgð. Síðan mætti skilja texta hennar svo að þingið hefði einungis lagasetningarvald á afmörkuðum sviðum, sem hefur verið túlkað í framkvæmd með allt öðrum hætti. Hvar er síðan t.d. að finna ákvæði stjórnarskrárinnar sem lýtur að fóstureyðingum? Ég held að það væri erfitt að finna Bandaríska lögfræðinga sem taka undir það að stjórnarskrárin þeirra sé túlkuð "mjög bókstaflega". Til eru þeir lögfræðingar sem vilja gera það, en þeir hafa orðið undir í ansi mörgum málum.

Varðandi 6: Nú er það svo að Danmörk og Bretland búa við svipaða stjórnskipan og við. Það er þannig alveg ljóst að það er ekkert í stjórnarskránni sem bannar þinginu að taka sér þau völd sem það vill.

Varðandi 7: Auðvitað má skoða það að setja þarna inn skýrari ákvæði um málsmeðferð í stjórnsýslunni. Ég tel hins vegar að það megi gera með einfaldri breytingu sem getur verið fullkomin sátt um, það þarf ekki stjórnlagaþing til þess.

Ég skil ekki þessa tilhneigingu að vilja henda stjórnarskránni okkar fyrir nýja. Mér finnst það vera eins og að henda barninu út með baðvatninu. Það er margt gott í okkar stjórnarskrá en ýmislegt sem má breyta og bæta og hefur reyndar verið gert margoft frá lýðveldisstofnun án sérstakra þjóðþinga. Ef að menn vilja byrja að byggja upp traust og gott samfélag væri þá ekki fyrsta skrefið að byrja að fara eftir stjórnarskránni?

 Bkv. Reimar

Reimar (IP-tala skráð) 2.11.2010 kl. 11:48

19 identicon

Það vantar í þína áhersluliði að negla það fast í stjórnarskránna að auðlindir þjóðarinnar skulu vera í ríkiseign. Hver er annars afstaða þín til þess ?

Þórhallur Kristjánsson (IP-tala skráð) 3.11.2010 kl. 21:52

20 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sæll enn og aftur Reimar!

Núverandi stjórnarflokkar gengu á undan með góðu fordæmi í því að velja Gylfa Magnússon og Rögnu Árnadóttur í ráðherraembætti.  Það gafst afar vel að mínu mati og mér fannst sú ákvörðun að skipta þeim út fyrir þingmenn röng.  En svo er rétt að ítreka, úr því að þú ert að reyna að lauma Samfylkingunni inn í samhengið að ástæðulausu, að skoðun mín á stjórnskipan og stjórnarskrá er engan veginn flokkspólitísk.

Bretland býr reyndar við mjög ólíka stjórnskipan og allt aðrar lagahefðir en við.  En í Danmörku hefur mótast önnur stjórnmálahefð, þar sem þeir eru miklu vanari minnihlutastjórnum og því að þurfa að komast að samkomulagi milli stjórnar og stjórnarandstöðu um málamiðlanir, svipað og þyrfti hér milli sjálfstæðari ríkisstjórnar og þings.

Önnur atriði sem þú nefnir eru komin nokkuð langt frá kjarna máls og við skulum bara láta þau liggja milli hluta, lesendur geta sjálfir gert upp hug sinn á grundvelli þess sem hér hefur verið reifað.

Þórhallur: Ég styð það að eignarréttindi (nýtingarréttindi/ráðstöfunarréttindi) auðlinda (sem ekki eru fyrir í einkaeigu) verði með skýrum hætti í höndum þjóðarinnar skv. stjórnarskrá.  Textinn gæti verið eitthvað í áttina að 1. gr. tillögu Jóhönnu og Steingríms J. frá því í apríl 2009:

Náttúruauðlindir sem ekki eru háðar einkaeignarrétti eru þjóðareign. Ríkið fer með forsjá þeirra, vörslu og ráðstöfunarrétt og hefur eftirlit með nýtingu þeirra í umboði þjóðarinnar eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.
    Allar náttúruauðlindir ber að nýta á sem hagkvæmastan hátt á grundvelli sjálfbærrar þróunar til hagsældar fyrir þjóðina og komandi kynslóðir. Náttúruauðlindir í þjóðareign má ekki selja eða láta varanlega af hendi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 4.11.2010 kl. 00:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband