Sjónvarpsviðtal um Evrópusambandið

Um daginn fór ég í viðtal í þættinum "Undir feldi" á sjónvarpsstöðinni ÍNN, um Evrópusambandið.  Viðtalið, sem er tæpur hálftími, má sjá með því að smella hér.

Í viðtalinu koma m.a. fram eftirfarandi punktar:

  • Ég byggi afstöðu mína til ESB einkum á því að sambandið sé lýðræðislegur vettvangur 27 þjóða til að taka á sameiginlegum viðfangsefnum.  Þessi viðfangsefni eru þess eðlis að þau ná þvert yfir landamæri.  Dæmi um þetta eru vinnumarkaður og vinnuvernd, fjármálamarkaðir, umhverfismál, loftslagsmál, löggæslumál og svo mætti áfram telja.
  • Í dag er aðkoma Íslands að sameiginlegum ákvörðunum Evrópuþjóða nánast engin.  Með aðild hefðum við hins vegar sæti við borðið þar sem reglugerðir og tilskipanir eru samdar og þeim breytt.  Ísland hefði áhrif langt umfram fólksfjölda, m.a. einn fulltrúa af 28 í ráðherraráði ESB og neitunarvald gagnvart breytingum á stofnsáttmálum sambandsins.
  • Samstarf þjóðanna gengur ekki út á það að taka auðlindir af einni og færa þær annarri. Um slíkt eru engin dæmi og það mun aldrei gerast.  Fiskistofnar hafa þá sérstöðu að vera "færanleg auðlind" sem flakkar milli efnahagslögsaga.  Þess vegna er rekin sameiginleg sjávarútvegsstefna í ESB með sjálfbæra stjórnun fiskveiða að markmiði. Ég tel enga ástæðu til annars en að unnt verði að semja um að Íslendingar fari áfram með sjálfbæra stjórnun og nýtingu eigin fiskistofna.
  • Stærsta breytingin fyrir okkur við inngöngu í ESB verður á sviði landbúnaðar.  Þá verður í grundvallaratriðum að hverfa frá því að styrkja framleiðslu landbúnaðarafurða með magntengdum styrkjum eða niðurgreiðslum.  (Undanþága er þó gerð fyrir svokallaðan heimskautalandbúnað sem ríkinu verður áfram heimilt að styrkja innan tiltekins ramma.)  Breytingar í þessa átt mun þó þurfa að gera óháð ESB vegna nýrra alþjóðlegra samninga á vegum Alþjóða viðskiptastofnunarinnar (WTO). En í staðinn kemur öflugt stuðnings- og styrkjakerfi dreifðra byggða og sveita, sem hægt verður að sækja í til að styðja uppbyggingu og nýsköpun, t.d. á sviði ferðamennsku, samgöngubóta, umhverfismála, landbóta, varðveislu minja o.s.frv.  Þar eru ýmis tækifæri sem landbúnaðarkerfið og dreifbýlisfólk ætti að skoða með jákvæðum hætti.
  • Með aðild að ESB gengju Íslendingar til samstarfs við þær þjóðir sem standa okkur næst menningarlega og pólitískt.  Fullveldi okkar styrktist með aðkomu að mörgum þeim ákvörðunum sem stýra umhverfi okkar.  Mikilvægir praktískir kostir felast síðan í því að losna við krónuna, fá efnahagslegan stöðugleika, lægri vexti og afnám verðtryggingar.

Ég held að komandi kynslóðum sé gerður greiði með því að samþykkja aðild að Evrópusambandinu, og þótt fyrr hefði verið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þú ert fyndin fýri Vilhjálmur.Trúir þú þessu sjálfur sem þú ert að skrifa.?

Samfylkingin,Björgólfarnir,Baugsgengið og 365 companíið elska þig.

Númi (IP-tala skráð) 22.2.2011 kl. 10:31

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Vilhjálmur. Það sem ég skil ekki. Hvað er að því að vera ekki Í ESB. Það eru hundruðin þjóða sem við getum frjálslega verið í sambandi við. Með inngöngu í ESB sem mig hryllir getum við aðeins verið í sambandi við þessar 27 þjóðir. Hver byrjaði þá þessari vitleysu. ??? Af hverju þarf frjálst fólk a verja sig gagnvart ESB. 

Valdimar Samúelsson, 22.2.2011 kl. 10:47

3 identicon

Sæll Vilhjálmur

Fínt viðtal við þig, hnaut samt aðeins um þá fullyrðingu að það kostaði mörg hundruð milljarða að taka upp aðra mynt einhliða.  það þarf bara að skipta seðlum og mynt í umferð út, sem eru bara nokkrir tugir milljarða.  það tæki líka mun skemmri tíma en myntbreyting með inngöngu í ESB

Hinsvegar tel ég að slík skipti njóti aldrei stuðnings almennings né stjórnvalda (þó svo hún sé skynsamleg) og því ættum við að einbeita okkur að samningaviðræðum við ESB. 

Björn (IP-tala skráð) 22.2.2011 kl. 13:04

4 identicon

Sæll Vilhjálmur.

 

Ég sá viðtalið við þig á Ínn. Hef þó ekki enn séð nokkur þau rök fyrir inngöngu í ESB, sem sannfæra mig um kosti þess að við breytum þannig stöðu okkar. Tek undir með Valdimar: Hvað er að því að vera ekki í ESB? Bendi mönnum á að horfa á hnattlíkan og spyrja sig hvers vegna við ættum að þrá það heitast að koma okkur endanlega innfyrir tollmúrana á meginlandi Evrópu. Fæ ekki séð það ,,ljós”. Fram hefur komið að hægt er að skipta um gjaldmiðil – sé það málið - án inngöngu. Horfum á heiminn. Vöruflæði um jarðarkúluna kann að breytast  mjög vegna mögulegrar hnattrænnan hlýnunar. Ný viðskiptatækifæri. Við erum vel staðsett hér, á milli Ameríku og Evrópu. Af hverju að gefa gömlu nýlenduveldunum þá stöðu með því að færa landamæri þeirra hingað upp?     ( Sem e.t.v. má segja að hafi verið gert með Sengen, en þvi er hægt að breyta) Hversvegna er aldrei rætt um NAFTA ? Af hverju fara stjórnvöld með fríverslunarsamning okkar og Kanada eins og leyndarmál?  Og því ræða áhugamenn um  inngöngu í ESB,  stjórnmálamenn og aðrir, um málefni Evrópu þ.m.t. Evrunnar eins og stöðugleikann sjálfan. Rammskakkur málfluttningur, framtíð Evrunnar er mjög óviss og verður svo næstu árin eða áratugina. Sumir snillingarnir ætla meira að segja að minnka hér atvinnuleysi með inngöngu í ESB. Hvert er meðaltalsatvinnuleysi í löndum ESB?

 

Haukur Brynjólfsson, flokksbundinn í Samfylkingunni.

Haukur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 22.2.2011 kl. 13:59

5 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Númi: Er Björgólfur vinur þinn hlynntur inngöngu Íslands í ESB?  Það væru fréttir fyrir mig ef svo væri.

Valdimar: Við erum Evrópuþjóð og þegar innan EES. 70% utanríkisverslunar okkar er við ESB og EES. Danmörk, Svíþjóð og Finnland eru þegar aðilar að ESB og Noregur í EES.  Menningarlega og pólitískt eigum við samleið með þessum 27 aðildarríkjum, í því að taka á sameiginlegum áskorunum og verkefnum.

Björn: Nei, þetta er ekki spurning um aðeins seðla og mynt.  Við einhliða upptöku myndi strax myndast verulegur þrýstingur á að fara úr "íslenskum evrum" í alvöru evrur, þ.e. færa fé út af íslenskum reikningum og út úr íslenskum skuldabréfum yfir til alvöru myntsvæðis evrunnar.  Ástæðan er svokölluð "fangaþversögn" (Prisoner's Dilemma, sjá t.d. Wikipediu) þar sem allir vita að gjaldeyrisforðinn er takmarkaður og vilja því verða fyrstir út - þótt það sé jafnframt ljóst að öllum væri fyrir bestu að sitja á strák sínum, ef hægt væri að treysta því að engin skoraðist úr leik.  Útflæði yrði í hundruðum milljarða, t.d. úr ríkisskuldabréfaflokkum, innistæðum og eignum lífeyrissjóða.  Á móti þessu væri ekki til varasjóður svo það yrði að hætta tilrauninni innan fárra klukkustunda - nema búið væri að kaupa alvöru evrur til að mæta öllu útflæðinu.

Haukur: Atvinnuleysi hefur sáralítið með aðild að ESB að gera, eins og sjá má á mjög ólíkum atvinnuleysistölum innan sambandsins.  Mun stærri áhrifaþáttur þar er almennur sveigjanleiki vinnumarkaðar og reglur um uppsagnir o.fl. sem eru mjög mismunandi milli landa.  Að öðru leyti vísa ég til svars við spurningu Valdimars og rakanna sem er að finna í pistlinum.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 22.2.2011 kl. 16:50

6 identicon

Ekki er Björgólfur vinur minn frekar en 99,prósentar þjóðarinnar.Segðu mér Villi eigið þið Björgólfur fyrirtæki saman,og hafið mikilla hagsmuna að gæta.?Svo er sagt.

Númi (IP-tala skráð) 22.2.2011 kl. 17:05

7 identicon

99 prósentin áttu við Björgólf hin vinalausa.

Númi (IP-tala skráð) 22.2.2011 kl. 17:27

8 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Númi: Ég hef áður svarað álíka spurningu ítarlega í athugasemd á blogginu mínu og sé ekki ástæðu til að endurtaka svarið hér.  Þú finnur það auðveldlega með hjálp Google.

En hefurðu annars eitthvað málefnalegt fram að færa varðandi hugsanlega aðild Íslands að ESB?  Ertu með henni eða á móti, og þá af hverju?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 22.2.2011 kl. 21:32

9 identicon

Ég er alfarið á móti inngöngu okkar í þetta sem ég kalla Hryðjuverkabandalag sem Evrópusambandið er. Að færa landamæri austur Evrópuríkja hér að 200 mílum okkar og innfyrir þær  hugnast mér ekki,og ekki er nú svo mikill friður innan margra þeirra ríkja sem í ESB eru. Tökum sem dæmi Bulgaríu-Rúmeníu-Italiu-Grikkland-Ungverjaland,þvílík spilling sem þarna ræður og sérstaklega í tveim fyrrnefndu löndunum,þar sem gífurlega öflug glæpasamtök hafa hreiðrað um sig. Hér búum við afar vel eigum gnægt af auðlindum hin albestu fiskimið veraldar heitt vatn og besta kalda vatn í heimi að mínu mati.Ekki má gleyma landbúnaðinum sem er í toppklassa.Nei Vilhjálmur hér á Íslandi hefur verið vitlaust gefið,ef má orða svo. Ofurspilltir embættismenn og klíkubandalög þeirra hafa komið þjóðinni fyrir svo sem komið er. Vilhjálmur fræddu okkur fávísa hvernig og hvenær upphafleg hugmynd kom upp hjá ákveðnum Evrópuþjóðum það kom til að Evrópusamband var stofnað,þér til léttis við gagnaleit að þá vil ég benda þér á að það var í stríðinu,ákveðnar þjóðir lofuðu hver annari að ráðast ekki á hvor aðra,og mynda bandalag. Öxulveldið Þýskaland,er að efna loforð við Hitlerískuna,að ná ægivaldi yfir Evrópu.   Ekki eru ýkja mörg ár frá því að blóðug styrjöld endaði í Evrópu.(Balkanlöndin-splittun Jugóslavíu.) Öflugustu Evrópuþjóðirnar sátu til hliðar og horfðu á.  það þurfti Bandaríkjamenn með sín háþróuðu drápsvopn til að binda enda á þetta blóðuga stríð. Stríð þetta endaði um 1995,og enn er verið að elta uppi stríðsglæpamenn frá þessum hroðaverkum.  NEI TAKK E S B .

Númi (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 13:52

10 identicon

Viðbót : Því fyrr sem við komumst útúr Shengen samstarfinu því betra.

Númi (IP-tala skráð) 24.2.2011 kl. 13:58

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þessi rökstuðningur er fullur af innbyrðis mótsögnum og afar þokukenndur, en góður sem dæmi um það hvernig of margir móta afstöðu sína til ESB.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 27.2.2011 kl. 16:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband