Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvernig virkar kosningin til stjórnlagaþings?

Kosningaaðferðin sem notuð er í stjórnlagaþingkosningunum er nýlunda hér á landi, en hún hefur verið notuð í öðrum löndum, t.d. á Írlandi, Möltu, Bretlandi og Ástralíu.  Aðferðin nefnist Single Transferable Vote (STV) og er ætlað að tryggja að atkvæði nýtist sem best og falli helst ekki niður dauð að hluta eða öllu leyti.

Eins og kunnugt er verða 25 kosnir til þingsetu, og svo bætt við allt að 6 þingmönnum sem næstir eru kjöri til að jafna hlut kynja þannig að hlutföllin verði ekki ójafnari en 60/40.

Kosningakerfið virkar sem hér segir.

  • Gefum okkur að 130.000 manns greiði atkvæði í kosningunum til stjórnlagaþings 27. nóvember nk.  
  • Þá þarf frambjóðandi a.m.k. 5.000 atkvæði (1/26 af heildinni*) til að vera öruggur inn.
  • Segjum nú að ég hafi kosið Arnfríði í 1. sæti á mínum kjörseðli, Björn í 2. sæti og Charlottu í 3. sæti.
  • Ef Arnfríður fær nákvæmlega 5.000 atkvæði, þ.e. mitt og 4.999 annarra, þá nær hún akkúrat kjöri, og engin atkvæði greidd henni fóru til spillis.  Þá telst Arnfríður hafa fullnýtt mitt atkvæði og það er þar með úr sögunni.  Engu máli skiptir þá að ég setti Björn í 2. sæti og Charlottu í 3. sæti.
  • En ef Arnfríður fær hins vegar 10.000 atkvæði, þ.e. mitt og 9.999 annarra, þá hefur hún tvöfalt það fylgi sem þurfti til að ná kjöri.  Henni hefði því dugað hálft atkvæði frá hverjum stuðningsmanni sínum.  Kosningakerfið bregst við þessu með því að telja Arnfríði réttkjörna og hálfa atkvæðið mitt sem hún nýtti ekki færist yfir á Björn sem ég setti í annað sæti.
  • Loks er það tilfellið þar sem Arnfríður fær aðeins 4.000 atkvæði, sem er undir þröskuldinum, og nær ekki kjöri.  Þá nýttist atkvæði mitt ekki Arnfríði að neinu leyti heldur færist óskert niður til Björns í 2. sæti.
  • Svo lengi sem atkvæðið mitt hefur ekki verið fullnýtt, er haldið áfram niður listann, Björn tekinn fyrir með sama hætti, og svo Charlotta o.s.frv.
  • Eins og sjá má er nánast vonlaust að telja atkvæði í STV-kerfi nema með tölvum.

Af þessu öllu saman má draga nokkrar ályktanir:

Í fyrsta lagi þá hefur hver kjósandi eitt atkvæði - ekki 25 eða einhverja aðra tölu.  En þetta atkvæði getur eftir atvikum dreifst í misstórum pörtum á nokkra frambjóðendur, þ.e. akkúrat þeim pörtum sem þarf til að þeir nái kosningu.

Í öðru lagi þá skiptir röð frambjóðenda miklu máli.  Kjósendur eiga að raða frambjóðendum í forgangsröð og vanda sig við það, því vel getur komið til þess að atkvæðið klárist á nokkrum efstu mönnum og nýtist þá alls ekki þeim sem neðar standa.

Í þriðja lagi þá  má segja að langur kjörseðill (15-25 nöfn) sé fyrst og fremst gagnlegur ef þú kýst marga sem ekki eru líklegir til að ná kjöri.  Í því tilviki "rúllar" atkvæðið óskert niður listann uns fundnir eru frambjóðendur sem komast inn og nýta atkvæðið eða hluta þess.  Ef þú kýst frambjóðendur sem telja verður líklega til að komast að, þarf kjörseðillinn ekki að innihalda mörg nöfn til að tryggja að atkvæðið nýtist.  En vitaskuld er erfitt að vita fyrirfram hvernig landið liggur, þannig að allur er varinn góður.

Í fjórða lagi er engin ástæða til að reyna að kjósa "taktískt" í STV-kerfi.  Veldu einfaldlega þá frambjóðendur sem þú treystir best, og settu þá í forgangsröð á seðilinn.  Kerfið sér til þess að atkvæðið nýtist eins vel og kostur er.

Í fimmta lagi er snjallt að setja Vilhjálm Þorsteinsson (2325) í fyrsta sætið á kjörseðlinum ;-)

Gangi þér vel að kjósa í þessum sögulegu kosningum, og vonandi uppskerum við öflugt stjórnlagaþing og glæsilega nýja stjórnarskrá lýðveldisins Íslands.

------

*) Hlutfallið er 1/26 en ekki 1/25 af stærðfræðilegum ástæðum sem óþarfi er að fara út í; sömuleiðis getur talan 5.000 lækkað eftir því sem líður á talningarferlið en það er aukaatriði sem skiptir ekki máli hér.


Sænska stjórnarskráin

Í aðdraganda stjórnlagaþings er gagnlegt að kynna sér stjórnarskrár annarra landa.  Sumar þeirra eru  nýjar eða nýlegar - eins og stjórnarskrá Finnlands og Sviss - en aðrar eldri, eins og gengur.  Íslenska stjórnarskráin er í hópi þeirra eldri, enda að uppistöðu frá 1874, og ber aldurinn ekki að öllu leyti vel.

Hér lít ég stuttlega á sænsku stjórnarskrána en mun kíkja á aðrar athyglisverðar stjórnarskrár í síðari bloggfærslum.

Svíar eru reyndar ekki með eina stjórnarskrá heldur fern grunnlög.  Fyrstu grunnlögin eru hin hefðbundnu stjórnskipunarlög.  Önnur grunnlögin fjalla um ríkiserfðir.  Þau þriðju fjalla um prentfrelsi og þau fjórðu um tjáningarfrelsi.  Já, þú last rétt: Svíar tryggja prentfrelsi og tjáningarfrelsi í ítarlegum bálkum í stjórnarskránni sjálfri.

En fyrstu tvær greinar stjórnskipunarlaganna (Regeringsformen) eru nokkurs konar inngangur sænsku stjórnarskrárinnar og gefa tóninn fyrir það sem á eftir kemur.  Hér eru þær í lauslegri þýðingu minni:

1. Allt opinbert vald í Svíþjóð kemur frá þjóðinni.

Sænskt lýðræði byggir á frjálsri skoðanamyndun og á almennum og jöfnum kosningarétti.  Það er raungert með fulltrúalýðræði og þingræðisfyrirkomulagi, og með sjálfræði sveitarstjórna.

Opinberu valdi er beitt með lögum.

2. Opinberu valdi skal beita af virðingu fyrir jöfnu manngildi allra og frelsi og sjálfsvirðingu einstaklingsins.

Persónuleg, hagræn og menningarleg velferð einstaklingsins skal vera grunnmarkmið opinberrar starfsemi.  Sérstaklega skal það vera skylda hins opinbera að tryggja rétt til heilsu, atvinnu, húsnæðis og menntunar, og að vinna að félagslegri velferð og öryggi.

Hið opinbera skal efla sjálfbæra þróun sem leiðir til góðs umhverfis fyrir núverandi og komandi kynslóðir.

Hið opinbera skal halda fram hugsjónum lýðræðis sem leiðarljósi í öllum geirum samfélagsins og vernda einka- og fjölskyldulíf einstaklinga.

Hið opinbera skal vinna að því að allir geti tekið þátt og notið jafnréttis í samfélaginu.  Hið opinbera skal vinna gegn mismunun fólks á grundvelli kyns, litarháttar, þjóðernisuppruna, kynþáttar, tungumáls, trúarafstöðu, fötlunar, kynhneigðar, aldurs eða annarra kringumstæðna einstaklingsins.

Minnihlutahópum á grundvelli kynþáttar, tungumáls eða trúarafstöðu skulu tryggð tækifæri til að varðveita og þróa eigið menningar- og félagslíf.

Eitthvað af þessu gæti nýst í inngang nýrrar stjórnarskrár Íslendinga. Hvað finnst þér?  Athugasemdir og umræða velkomin.

Ég er frambjóðandi 2325 til stjórnlagaþings.  Framboðsvefurinn er www.vthorsteinsson.is og svo er framboðið líka með fésbókarsíðu.


Framboð til stjórnlagaþings

Eins og lesendur þessa bloggs hafa eflaust áttað sig á, þá er ég í framboði til stjórnlagaþings í kosningunum 27. nóvember nk.

Af því tilefni hef ég útbúið sérstakan vef framboðsins, þar sem nánar er fjallað um stefnumál mín, dregin saman helstu greinar og skrif sem málefninu tengjast, og gefnar almennar upplýsingar um aldur og fyrri störf.

Einnig er framboðið með opna síðu á Fésbók, sem ég hvet alla stuðningsmenn til að skoða og láta sér líka við.

Ég mun áfram skrifa færslur á þetta blogg um hvaðeina, en málefni stjórnskipunar og stjórnarskrár verða mér vitaskuld sérstaklega hugleikin til kosninga.

Frambjóðendatala mín er 2325 og ég bið um stuðning þinn.

 


Hvað þarf í nýrri og betri stjórnarskrá?

Ég hef verið áhugamaður um stjórnskipanina og endurbætur á henni allt frá 1983 þegar ég gekk í Bandalag jafnaðarmanna og hreifst af hugmyndum Vilmundar Gylfasonar.  Þær hugmyndir eru í fullu gildi enn í dag, og rúmlega það, eins og ég rakti t.d. í bloggfærslu í nóvember 2008 og erindi sem ég hélt í Iðnó um svipað leyti.

Stjórnlagaþing er einmitt ein af þeim hugmyndum sem nefndar eru í bloggfærslunni, og það er nú loksins að verða að veruleika.  Þarna er á ferðinni stærsta umbótatækifæri í íslenskum stjórnmálum frá stofnun lýðveldisins, og um að gera að nýta það vel.

Þau markmið sem ég vil gjarnan ná með nýrri stjórnarskrá eru:

  • Ráðherrar valdir á grundvelli hæfni og reynslu.  Ráðherrar eru æðstu menn framkvæmdavaldsins og bera ábyrgð á stórum, flóknum og sérhæfðum málaflokkum.  Það gengur ekki lengur að þeir séu valdir úr þröngum hópi þingmanna eftir alls kyns ómálefnalegum sjónarmiðum innan stjórnarflokka.  Við höfum séð glögglega hvert það leiðir þegar fólk sem er ágætt út af fyrir sig er sett í þá stöðu að stjórna málaflokkum sem það hefur ekki staðgóða þekkingu á og reynslu af.  Leiðir að þessu markmiði eru nokkrar mögulegar.  Best hugnast mér sú leið að kjósa forsætisráðherra beinni kosningu, en hann/hún tilnefni ráðuneyti sitt.  Vitaskuld þarf ríkisstjórnin ætíð að afla meirihlutastuðnings þingsins fyrir lagafrumvörpum sem hún vill fá í gegn.  Með þessu yrði framkvæmdavald og löggjafarvald nánast fullkomlega aðskilið, sem að mínu mati styrkir hvora tveggju valdþættina.
  • Öflugri stefnumótun og aðhald af hálfu þingsins.  Með því að greina betur milli ríkisstjórnar og þings verður þingið sjálfstæðara.  Það á að taka í auknum mæli að sér stefnumótun og aðhald.  Til dæmis er verið (loksins) að móta orkustefnu fyrir Ísland á vegum iðnaðarráðuneytis.  Af hverju ætti ekki iðnaðarnefnd þingsins að hafa frumkvæði að slíkri stefnumótun, sem yrði svo samþykkt sem þingsályktun (og lög eftir atvikum) og falin ríkisstjórninni til framkvæmdar?  Að sama skapi ætti þingið að taka að sér eftirlits- og aðhaldshlutverk gagnvart framkvæmdavaldinu, spyrja gagnrýninna spurninga og sjá til þess að almannahagsmuna sé gætt í bráð og lengd.  Stefnumótun og aðhald hafa lengi verið í miklu skötulíki í íslenska stjórnkerfinu; nú er mál að linni og við gerum þetta almennilega.
  • Faglegri, betri og opnari stjórnsýsla.  Stjórnsýslan hefur verið of veik og liðið fyrir pólitískar ráðningar og inngrip, og skort á aðhaldi og gagnsæi.  Stjórnsýslulög og lög um Umboðsmann Alþingis voru stór framfaraskref, en megindrættir þeirra þurfa að færast úr almennum lögum inn í stjórnarskrána til að tryggja réttindi og vernd borgaranna.  Sérstaklega þarf að styrkja stöðu Umboðsmanns og jafnvel að teygja embættið í áttina að stjórnsýsludómstól að franskri fyrirmynd.
  • Virkara lýðræði, veikara flokksræði.  Lýðræði á Íslandi hefur verið í of miklum mæli skammtað í gegn um stjórnmálaflokka.  Flokkarnir hafa verið of sterkir og orðið að sjálfmiðjuðum hagsmunaklíkum. Því er nauðsynlegt að veikja þá nokkuð, innan skynsamlegra marka (því flokkar eru líka gagnlegir).   Það má gera með ráðstöfunum á borð við aukna möguleika á persónukjöri til þings, jafnvel þvert á flokka; reglum um þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál (þó ekki öll, t.d. ekki fjárlög); og helst að gera landið að einu kjördæmi.
  • Skýrari, markvissari uppbygging og texti.  Stjórnarskráin frá 1944 er því miður töluvert vond.  Hún er ómarkvisst uppbyggð, óskýr í ýmsum meginatriðum og lýsir ekki raunveruleikanum eins og hann er.  Það er brýnt að ný stjórnarskrá sé skýrt og lifandi plagg sem fólk getur skilið, tengt sig við og byggt sinn rétt á.  Stjórnarskráin á að byrja á formála þar sem íslenska þjóðin sammælist um að setja sér eftirfarandi sáttmála um stjórn sinna sameiginlegu málefna; síðan eru tíunduð grunngildi sem hafa á í heiðri ætíð; af þeim leiða mannréttindi og svo kemur mekaníkin, stjórnkerfið sem á að tryggja að það verði sem við viljum (og ekki það sem við viljum ekki).  Að hafa svona grunnplagg, skýrt og fallega orðað, yrði þjóðinni mjög dýrmætt - miklu dýrmætara en núverandi líndalsvæna kraðak nokkru sinni.

Að öllu ofangreindu vil ég vinna og býð því fram krafta mína á Stjórnlagaþingi.  Ég vonast eftir að fá þinn stuðning í þessu stóra verkefni.


Hvað er hægt að gera og hvað ekki?

Eitt af því sem ég hef tekið eftir í umræðu um hin ýmsu málefni undanfarið er hversu óljósa mynd margir virðast hafa af valdheimildum stjórnvalda.  Eða með öðrum orðum, hvar mörkin liggja milli þess sem stjórnvöld mega og geta gert, og þess sem þau mega ekki og geta ekki gert.  Þessi mörk eru mjög, mjög mikilvæg.  Sú staðreynd að þau eru til, og að þau eru þar sem þau eru, er samandregin niðurstaða margra alda og jafnvel árþúsunda tilraunastarfsemi með stjórnskipulag, lýðræðisformið og vernd mannréttinda.

Um daginn fór fréttamaður Ríkissjónvarpsins í bæinn og spurði fólk hvort það hefði lesið stjórnarskrána og vissi hvað stæði í henni.  Fæstir viðmælendur svöruðu því játandi.  Ef sú óvísindalega könnun væri marktæk fyrir heildina, væri þar kannski komin skýringin á því að of margir virðast styðja alls kyns aðgerðir sem eru utan ramma eðlilegra valdheimilda stjórnvalda í þróuðu lýðræðisríki.

Skoðum aðeins betur það sem kalla má ramma stjórnarskrárinnar og lýðræðishefðarinnar:

Rammi stjórnarskrárinnar

Blái ramminn táknar hér stjórnarskrána og hornsteina lýðræðisins.  Ég merkti inn fjóra af þessum hornsteinum, en þeir eru fleiri.  Hér eru það réttarríkið (að stjórnvöld fari ætíð að lögum og reglum og megi ekkert gera nema það sem lög heimila); gildi samninga (að frjálsa, löglega samninga beri að efna); bann við afturvirkni (að ákvarðanir sem eru löglegar og teknar í góðri trú verði ekki síðar gerðar ólöglegar); og eignarréttur (að ekki sé heimilt að taka eign af manni með valdi, nema í almannaþágu og fullar bætur komi fyrir).

Grænu kúlurnar tákna ákvarðanir sem stjórnvöldum er heimilt að taka; þær eru innan ramma stjórnarskrár og hefða lýðræðis og mannréttinda.

Rauðu kúlurnar standa fyrir alls kyns ákvarðanir og ráðstafanir sem mönnum gætu dottið í hug, og eru vissulega oft freistandi - sérstaklega á álagstímum.  En bitur reynsla og lærdómar aldanna og árþúsundanna hafa sýnt að slíkar "rauðar" ákvarðanir eru ekki góðar; þær á ekki að taka og þær má ekki taka.  Hversu freistandi sem þær kunna að vera.  Og það er einmitt á álagstímum sem það kemur í ljós hvort menn meina eitthvað með stjórnarskrá, réttarríki og hornsteinum lýðræðis.  (Þegar allt leikur í lyndi er auðvelt að setja upp sparisvipinn, því þá kostar það ekki neitt.)

Afleiðingar þess að taka "rauðar" ákvarðanir eru ýmis konar, og bæði beinar og óbeinar.  Þær beinu blasa í flestum tilvikum við, en þær óbeinu leyna á sér.  Þar er sú afleiðing verst að þegar menn hafa einu sinni brotið rammann - sem er ætíð réttlætt með einhvers konar "neyðarrétti" eða "sérstökum kringumstæðum" - þá brestur traustið á að það verði ekki gert aftur og endurtekið.  Eitt horn molnar undan lýðræðisríkinu og undirstöður þess veikjast snögglega.  Það hefur svo nýjar afleiðingar, sem auka meinta "neyð" og kalla á ný viðbrögð - og áður en menn vita af er lýðræðið horfið og mannréttindin fyrir bí.  Þá sjá menn - of seint - að betur hefði verið heima setið en af stað farið.  Þetta hefur sagan ítrekað kennt okkur.

Höfum þetta í huga á komandi vetri.  Það þarf sterk bein til að standast freistingarnar, í þágu lýðræðisins.  En lýðræðið er hvorki sjálfgefið né ókeypis.  Að halda það er hættulegur misskilningur.


Hvað segir AGS um skuldir heimila?

Í dag gaf Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (AGS) út skýrslu um þriðju endurskoðun áætlunar sjóðsins og íslenskra stjórnvalda (IMF Staff Report - sjá PDF skjal).  Þessar skýrslur eru einhver skýrasta og vandaðasta mynd sem fáanleg er af stöðu og horfum í íslenska hagkerfinu, og fyrirætlunum stjórnvalda hverju sinni.  Í þessu ljósi hefur verið undarlegt hversu fjölmiðlar og álitsgjafar hafa sýnt skýrslunum lítinn áhuga til þessa.  En nú virðist ætla að verða breyting á, því nokkrar fréttir hafa verið unnar upp úr skýrslunni í dag.  Ekki eru þær þó allar vandaðar, til dæmis var frétt mbl.is með fyrirsögninni "Engin fleiri úrræði" mjög einkennileg.

AGS fjallar í skýrslunni vítt og breitt um efnahagsmálin, en sérstakur kafli er á síðum 12-13 um endurskipulagningu skulda heimila og fyrirtækja.  Það er málefni sem hefur verið í forgrunni í öllum skýrslum sjóðsins til þessa, og hann hefur ætíð hvatt til þess að rösklega og skipulega sé gengið til verks í því viðfangsefni.

Í þetta sinn segir sjóðurinn eftirfarandi um skuldir heimila (punktar 18-20 í skýrslunni) - þetta er lausleg þýðing og umorðun mín:

  • 18. Endurskipulagning skulda gæti tafist vegna gengisdóms Hæstaréttar.  [Skýrslan var skrifuð áður en vaxtadómurinn féll.]  Það getur tekið langan tíma fyrir  réttarkerfið að finna út úr því hvaða lán falla undir dóminn, og í millitíðinni frestar fólk því að nýta úrræði sem til boða standa.  Þessar tafir geta orðið mjög kostnaðarsamar fyrir hagkerfið, sé litið til þeirrar auknu ráðstöfunartekna sem ný og betri eignastaða (balance sheet repair) myndi skila heimilunum [í kjölfar jákvæðrar niðurstöðu um vextina, eins og síðar varð].
  • 19. Stjórnvöld leggja áherslu á aðgerðir og úrræði sem nýtast þeim sem óska og á þurfa að halda (targeted, voluntary approach)Þau viðurkenna að hraða þurfi ferlinu.  En þrátt fyrir pólitískan þrýsting ítreka þau að þau munu ekki ráðast í flata niðurfærslu skulda.  Slíkt myndi ekki leysa heildarskuldastöðu Íslendinga (overall debt overhang), heldur aðeins flytja vanda úr einkageiranum, þar á meðal frá þeim sem geta borgað, yfir til opinbera geirans.  Það myndi auka líkur á ríkisskuldakreppu (public debt crisis), sem myndi hækka vexti hjá öllum lántökum, og yrði fyrir rest að mæta með viðbótar niðurskurði og skattahækkunum sem hefðu áhrif á alla landsmenn. Á hinn bóginn er kostnaður af sjálfviljugum (voluntary) aðgerðum fyrir þá sem mest þurfa á þeim að halda að mestu borinn af bönkunum, sem eru með næga afskriftasjóði, og þær geta verið áhrifaríkara úrræði fyrir þá skuldara sem eiga sér yfirleitt viðreisnar von (viable debtors).
  • 20. Nýlegar breytingar á úrræðum fyrir skuldug heimili munu væntanlega hraða úrlausnum og hvetja til þátttöku (encourage participation).  Þessum breytingum er ætlað að leysa úr þeim markverðu hnökrum sem komið hafa í ljós.  Meðal annars hefur verið stofnað embætti umboðsmanns skuldara, sem mun hjálpa skuldurum að eiga við lánardrottna og velja úr hinum fjölmörgu úrræðum sem til boða standa.  Einnig verður fleiri einstaklingum hjálpað, þ.e. þeim sem einnig eru með skuldir vegna fyrirtækjarekstrar og þeim sem skulda vegna tveggja eigna.  Þá verður afnumið skattaóhagræði fyrir þá sem fá niðurfellingu.  Stjórnvöld og sjóðurinn eru sammála um að hvetja til beinnar sölu (short sale) fasteigna sem valkost við nauðungarsölu, sem getur verið mjög kostnaðarsöm og tímafrek.  Með ofangreindum ráðstöfunum verður frystingu nauðungaruppboða leyft að renna út eins og áður var áætlað, en það mun hjálpa til við að vinna á "bíða-og-sjá" vandanum (mitigate the hold-out problem).

Svo mörg voru þau orð.  Hvergi segir sjóðurinn að ekki komi til greina að bæta við fleiri úrræðum; þvert á móti er hann frekar að hvetja stjórnvöld til dáða.  Það eina sem ekki er talið koma til greina er flöt afskrift, með þeim rökum sem að ofan greinir.  En varðandi flötu afskriftina minni ég á bloggfærslu mína frá maí 2009 um það mál, þar sem m.a. kemur fram að slík afskrift yrði að verulegu leyti á kostnað lífeyrissjóða og almennra skattborgara.

Sem sagt: Það er firra og bábilja að AGS sé mótfallinn úrræðum og aðgerðum fyrir skuldug heimili og fyrirtæki.  Og ég hvet fólk - og þá líka stjórnmálamenn, fjölmiðlafólk og álitsgjafa - til að lesa sjálft textana frá AGS, en láta ekki til dæmis Morgunblaðið segja sér hvað þar stendur.  Það er því miður ekki lengur trúverðug heimild um þessi mál, frekar en ýmis önnur.


Hvernig virka afskriftir hjá fyrirtækjum?

Afskriftir skulda hjá fyrirtækjum hafa verið mikið í umræðunni undanfarin misseri og verða örugglega, og því miður, áfram.  Skoðum aðeins hvernig þær virka.

Bókhaldsjafnan

Í venjulegu fyrirtæki í eðlilegum rekstri gildir hin sígilda bókhaldsjafna, eignir = skuldir + eigið fé.  Eða, sem er jafngilt, eigið fé = eignir - skuldir.  Í hlutafélagi eiga hluthafarnir eigið féð, þannig að ef félaginu væri slitið, eignir þess seldar og skuldir gerðar upp, myndu hluthafarnir skipta með sér því sem eftir stæði.  Það er hins vegar mikilvægt að átta sig á að hluthafar í hlutafélagi eru ekki ábyrgir fyrir skuldum félagsins.  Þeir bera aðeins áhættu af hlutafénu sem þeir lögðu inn í félagið.  Þetta er lánardrottnum hlutafélaga fullkunnugt um þegar þeir taka áhættuna á því að lána félaginu peninga, og á að endurspeglast m.a. í vaxtakjörum.

Segjum nú að stjórnendur hafi farið ógætilega að ráði sínu, tapað peningum og rýrt eignir í svo miklum mæli að þær séu orðnar verulega minni en skuldir - félagið er bókhaldslega gjaldþrota.  Þá kemur upp eftirfarandi staða:

Bókhaldslegt gjaldþrot

Takið eftir að hluthafar tapa fyrst sinni eign í félaginu, þ.e. eigin fénu.  Hlutaféð verður einskis virði, enda minna en ekkert eftir til skiptanna af eignum félagsins.  Annað hvort er (a) félagið tekið til formlegra gjaldþrotaskipta, eignir seldar í hlutum úr búinu og andvirðinu úthlutað til lánardrottna (kröfuhafa); eða (b) að lánardrottnar taka félagið yfir, afskrifa hluta af skuldunum og annað hvort selja það (sbr. Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins) eða reyna að halda áfram rekstri í einhverri mynd í þeirri von að fá meira upp í kröfurnar seinna (sbr. eignarhaldsfélög bankanna).  Aðalatriðið er þarna að þegar skuldir verða umfram eignir, þá hafa lánardrottnar alla þræði í hendi sér - hluthafarnir missa völdin.

Munurinn á þessu og skuldum einstaklinga, t.d. vegna húsnæðis, er sá að hluthafar bera ekki ábyrgð á skuldum félaga sem þeir eiga hluti í (nema þeir hafi sérstaklega látið félaginu í té veð í eignum sínum).  Húsnæðislán eru hins vegar, auk veðs í húsnæðinu sjálfu, einnig með fullnustuheimild í öðrum eignum skuldarans.  Þannig er kerfið ekki allsstaðar, t.d. er víða í Bandaríkjunum aðeins veð í húsnæðinu sem lánað er til.  Slíkt fyrirkomulag hefur ýmsa kosti, en þann ókost helstan að lánshlutföll verða mun lægri en annars, þ.e. fólk verður þá að leggja fram meira eigið fé þegar það kaupir sér fasteign.

Um Landsdóm og margvíslegan misskilning

Fyrirmæli um Landsdóm er að finna í 14. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, en hún er svohljóðandi:

14. gr. Ráðherrar bera ábyrgð á stjórnarframkvæmdum öllum. Ráðherraábyrgð er ákveðin með lögum. Alþingi getur kært ráðherra fyrir embættisrekstur þeirra. Landsdómur dæmir þau mál.

Ákvörðun um að kæra ráðherra er sem sagt í höndum meirihluta Alþingis, samkvæmt skýrum fyrirmælum stjórnarskrár.  Síðasta markverða endurskoðun stjórnarskrárinnar fór fram 1995, samkvæmt tillögum nefndar undir forsæti Geirs H. Haarde.  Þá var ekki hróflað við þessari grein, en hún á sér hliðstæðu í dönsku stjórnarskránni (16. gr.) og var beitt þar í svokölluðu tamílamáli 1995.

Nánar er kveðið á um ráðherraábyrgð í lögum nr. 4/1963.  Þar eru tvær lykilgreinar eftirfarandi (leturbr. mínar):

2. gr. Ráðherra má krefja ábyrgðar samkvæmt því, sem nánar er fyrir mælt í lögum þessum, fyrir sérhver störf eða vanrækt starfa, er hann hefur orðið sekur um, ef málið er svo vaxið, að hann hefur annaðhvort af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi farið í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, önnur landslög eða að öðru leyti stofnað hagsmunum ríkisins í fyrirsjáanlega hættu.

3. gr. Sá ráðherra, sem ritar undir lög eða stjórnarerindi með forseta, ber ábyrgð á þeirri athöfn. Annar ráðherra verður því aðeins sóttur til ábyrgðar vegna þeirrar embættisathafnar forseta, að hann hafi ráðið til hennar, átt þátt í framkvæmd hennar eða látið framkvæmdir samkvæmt henni viðgangast, ef hún lýtur að málefnum, sem undir hann heyra.

Þarna er skýrt að ráðherrar bera ábyrgð á þeim málum sem undir þá heyra.  Ábyrgðin sem hér er fjallað um er alltaf ábyrgð einstakra ráðherra sem slíkra, sem sagt í sínu embætti sem handhafar framkvæmdavaldsins.  Þarna er ekki verið að fjalla um almenna pólitíska ábyrgð sem t.d. forystumenn stjórnmálaflokka eða oddvitar þeirra í ríkisstjórn bera í því hlutverki.

Þá er athyglisvert að lögin um ráðherraábyrgð kveða á um 3ja ára fyrningu sakar:

14. gr. Málshöfðun eftir lögum þessum getur eigi átt sér stað, ef 3 ár líða frá því, er brot var framið, án þess að Alþingi hafi samþykkt ályktun um málshöfðunina. Sök fyrnist þó aldrei fyrr en 6 mánuðir eru liðnir frá því, að næstu reglulegu alþingiskosningar, eftir að brot var framið, fóru fram.

Að öllu þessu virtu er ljóst að það er margur misskilningurinn í umræðunni þessa dagana.

Í fyrsta lagi er skýrt skv. ákvæðum stjórnarskrár að meirihluti Alþingis tekur ákvörðun um kæru til Landsdóms.  Slíkt gerist aldrei öðru vísi en með atkvæðagreiðslu þingmanna, sem kalla má pólitísk réttarhöld o.s.frv. ef menn vilja, en bókstafur stjórnarskrárinnar er eins og hann er.  Hann má eflaust endurskoða, en það var a.m.k. ekki gert 1995 og ekki heldur þegar Jóhanna Sigurðardóttir lagði til á þingi árið 2001lög og reglur um Landsdóm yrðu endurskoðuð.

Í öðru lagi kemur aldrei til álita að ákæra embættismenn, t.d. fyrrverandi Seðlabankastjóra, undir þessum lögum.  Ef ætti að kæra þá, yrði það samkvæmt almennum hegningarlögum eða öðrum refsiheimildum almennra laga, ekki samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð og Landsdóm.

Í þriðja lagi kemur heldur ekki til álita að ákæra fyrrum ráðherra á borð við Halldór Ásgrímsson eða áðurnefndan Davíð, þar sem fyrningarfrestur er liðinn hvað þá varðar.

Í fjórða lagi er vandséð hvernig kæra á hendur Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur fv. utanríkisráðherra hefði átt að standast skv. ákvæðum laga um ráðherraábyrgð.  Ekkert af þeim ákæruatriðum sem þingmannanefndin lagði til snúa að ábyrgðarsviði hennar sem utanríkisráðherra, heldur fyrst og fremst að stöðu hennar sem oddvita stjórnarflokks, en um slíka ábyrgð segja lögin ekkert, hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Í fimmta lagi er talað um pólitískar línur í atkvæðagreiðslum um ákærur og spjótum sérstaklega beint að Samfylkingunni í því efni.  Þó liggur fyrir að í engum þingflokki voru atkvæði greidd með jafn einstaklingsbundnum og fjölbreytilegum hætti og þar.  Öll atkvæði telja jafnt, og þá ekki síður já-atkvæði sex þingmanna Framsóknarflokksins en atkvæði þeirra níu þingmanna Samfylkingar sem vildu eftir atvikum kæra einn, þrjá eða fjóra ráðherra, nú eða atkvæði þeirra ellefu þingmanna Samfylkingar sem engan vildu ákæra.

Meirihluti Alþingis komst að sinni niðurstöðu, eins og stjórnarskrá lýðveldisins og lög mæla fyrir.  Ég sé því ekki annað í stöðunni en að una henni og snúa sér að næstu viðfangsefnum; af nógu er að taka.


Myndrænn samanburður lánategunda

Dómur Hæstaréttar frá í gær er að mínu mati Salomónsdómur.  Höfðustóll flestra myntkörfulána lækkar talsvert, skuldurum til hagsbóta, en þó ekki svo mikið að bankakerfið - og hagkerfið almennt - bíði verulegan skaða af.

Til að skilja um hvað málið snýst er best að setja það upp myndrænt.  Hér að neðan er graf sem vonandi skýrir myndina.  Það svarar þeirri spurningu, hvernig höfuðstóll 1,0 milljónar króna upphaflegs myntkörfuláns væri orðinn í dag, eftir því hvenær lánið var tekið - og samkvæmt þrenns konar forsendum.  Borin eru saman:

  • óverðtryggt krónulán með vöxtum Seðlabanka Íslands hverju sinni, skv. dómi Hæstaréttar frá í gær (bláu súlurnar);
  • myntkörfulán, 50% í japönsku jeni og 50% í svissneskum franka, með 1,2% vegnum LIBOR vöxtum og 300 punkta álagi, samtals 4,2% meðalvöxtum til einföldunar (rauðu súlurnar);
  • og krónulán í sömu myntkörfuvöxtum, þ.e. útkoman ef gengistryggingin hefði verið felld burt en samningsvextir látnir standa óbreyttir, þótt lánið væri komið yfir í krónu (grænu súlurnar).

Myndin sýnir stöðu óhreyfðs höfuðstóls, með áföllnum vöxtum og gengistryggingu í tilviki myntkörfulánsins.  Ekki er tekið tillit til afborgana enda eru forsendur þar mjög mismunandi og breyta ekki því aðalatriði sem myndinni er ætlað að sýna.

Höfuðstóll lána

Smella má á myndina eða hér til að fá stærri útgáfu.  Excel reiknivangur að baki tölunum er hér.

Eins og sjá má hefur höfuðstóll einnar milljónar myntkörfuláns sem tekið var til dæmis í júlí 2007 margfaldast og er nálægt 3 milljónum króna samkvæmt upphaflegum lánasamningi (rauð súla fyrir miðri mynd).  Með dómi Hæstaréttar í gær verður höfuðstóllinn rétt rúmar 1,5 milljónir (blá súla).  Ef upphaflegir myntkörfuvextir væru látnir gilda væri höfuðstóllinn hins vegar undir 1,2 milljónum (græn súla).

Salomónsdómurinn er hér myndrænn.  Upphaflegar og bókstaflegar forsendur hefðu gefið rauðu höfuðstólana; ítrustu kröfur lántakenda hefðu gefið grænu súlurnar; en dómur Hæstaréttar kemur þarna mitt á milli og gefur bláu niðurstöðuna. Lántakendur geta andað léttar - og bankarnir líka.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Framkvæmdavaldið verður að velja faglega

Ein mikilvægasta endurbót á íslensku stjórnkerfi sem gera þarf er sú að velja ráðherra ríkisstjórnarinnar á grundvelli þekkingar, reynslu og hæfileika á hverju stjórnsýslusviði fyrir sig.

Nútíma samfélag er flókið og sérhæft, og þekking skiptir miklu máli þegar stefna er mótuð og ákvarðanir teknar.  Þeir tímar eru liðnir, að þokkalega greindir þúsundþjalasmiðir geti á stuttum tíma sett sig inn í fagsvið með nógu djúpum hætti til að geta tekið góðar ákvarðanir, sérstaklega á álagstímum.  Þetta gildir hvort um er að ræða heilbrigðismál, menntamál, umhverfismál, efnahagsmál eða aðra málaflokka.

Við sáum forsmekkinn af því sem verið gæti, þegar Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir gegndu störfum ráðherra um hríð, með prýði.  Það voru mistök og afturhvarf til fyrri og verri tíma, að skipta þeim út - með allri virðingu fyrir eftirmönnum þeirra.

Í umræðu dagsins um Landsdóm rifjast upp hvað getur gerst, og gerist, þegar dýralæknar verða fjármálaráðherrar og sagnfræðingar viðskiptaráðherrar (aftur með fullri virðingu fyrir þeim ágætu mönnum sem þau embætti skipuðu).  Vandinn er ekki beinlínis þeirra heldur kerfisins sem ýtti þeim upp í stöður sem þeir réðu ekki við, sbr. Peters-lögmálið.

Sjáum til dæmis þennan útdrátt úr bréfi Björgvins G. Sigurðssonar til þingmannanefndar um ráðherraábyrgð:

Það er engum greiði gerður, hvorki tilvonandi ráðherrum né þjóðinni, með því fyrirkomulagi sem hér hefur viðgengist.  Á því verður að gera róttækar endurbætur og breytingar.

Forsætisráðherra á helst að kjósa beinni kosningu.  Hún eða hann velur ráðuneyti sitt, gjarnan fyrir kosningar.  Þingmenn geta ekki jafnframt verið ráðherrar.  Ráðuneyti eru þá skipuð fólki með fagþekkingu, gott orðspor og dómgreind; reynslumikið fólk af viðkomandi sviðum.  Þetta er svipað því sem tíðkast í Frakklandi og Bandaríkjunum.

Samhliða þarf að breyta störfum þingsins og gera það mun öflugra og sjálfstæðara sem stefnumótandi vettvang pólitískrar rökræðu.  Þingið á, með lagasetningu og ályktunum sínum, að setja ríkisstjórninni ramma og stefnu hverju sinni.  Jafnframt á það að hafa gott eftirlit með framkvæmdavaldinu og stjórnsýslunni.  Það má hugsa sér að til verði sérstakur stjórnsýsludómstóll að franskri fyrirmynd; embætti Umboðsmanns Alþingis er vísir að þessu en þyrfti að efla og gefa aukna vigt.

Í þessa átt eigum við að breyta stjórnarskránni í kjölfar stjórnlagaþingsins næsta vor.  Þessi kerfisbreyting ein og sér myndi gjörbreyta framtíðarhorfum á okkar ágæta landi til hins betra.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband