Skuldir ríkissjóðs

Eitt af því sem fyrri ríkisstjórn tókst ekki að gera var að útskýra stöðu mála fyrir almenningi.  Þess vegna hafa komist á flot alls kyns tölur um skuldir og skuldbindingar, byggðar á alls kyns forsendum og getgátum.  Hæsta talan sem ég hef heyrt var hjá Einari Má Guðmundssyni sem hélt því fram í ræðu á Austurvelli að þjóðin skuldaði 20 milljónir króna á mann, eða 6.000 milljarða samtals.  Morgunblaðið setti fram tölu sem var í kring um 2.225 milljarða og lagði þar saman tölur úr ýmsum áttum.

Nú gerðist það í síðustu viku að fjármálaráðuneytið gaf út fréttatilkynningu um áætlaða skuldastöðu ríkisins í lok þessa árs.  Sú tilkynning hefur litla athygli vakið, þótt maður skyldi ætla að þarna væri algjört grundvallaratriði á ferðinni.

Samkvæmt mati ráðuneytisins verður nettó skuldastaða ríkissjóðs 563 milljarðar í lok þessa árs.  Þá er innifalinn fjárlagahalli ársins 2009 að upphæð 150 milljarðar.

Í tölunni er gert ráð fyrir að nettóskuldbinding vegna Icesave verði 150 milljarðar sem er áætlun skilanefndar Landsbankans.  Brúttóskuldbindingin er í kring um 600 milljarða þannig að ef ekkert fæst fyrir eignir bankans og allt tapið lendir á Íslendingum þá myndi ríkið skulda rétt rúma 1000 milljarða.  Hins vegar eru eignir gamla bankans klárlega ekki núll, hann mun t.d. eiga skuldabréf sem verður gefið út af nýja bankanum vegna þess að sá nýi yfirtekur meiri eignir en skuldir frá þeim gamla.

Skuldir ríkisins í lok 2009 verða samkvæmt þessu á bilinu sirka 50-90% af landsframleiðslu.  Vissulega háar tölur en samt ekki alveg út úr korti innan OECD, sbr. t.d. Greiningar Glitnis.

Annars legg ég til varðandi Icesave, að samið verði við Breta og Hollendinga um að 20.887 evra innistæðutryggingin verði greidd út og að þeir láni tryggingasjóði innstæðueigenda fyrir því (sem hefur eftir því mér skilst þegar verið gert og samþykkt).  Reikna má einhverja vexti á það lán, sem endurgreitt verður þegar þrotabú Landsbankans verður gert upp.  Hins vegar er eðlileg krafa af hálfu Íslands að við berum aðeins hluta af því tapi sem standa kann eftir við uppgjör.  Rök okkar eru fyrst og fremst að ábyrgð ríkisins á tryggingasjóði sé ekki ótvíræð skv. EES samningnum og að Bretar hafi skaðað hagsmuni Landsbankans með beitingu frystingarlaganna. En stærstu mistökin í Icesave málinu kunna að hafa verið þau að hafa ekki fært ábyrgðina til Breta gegn 40 milljarða eiginfjárframlagi til Landsbankans í Bretlandi, en það tilboð virðist hafa lent milli stafs og hurðar.  Vonandi skoðar nýskipuð rannsóknanefnd þennan vinkil málsins gaumgæfilega.

P.S. Fréttablaðið var með fyrirmyndar umfjöllun um þetta málefni nú um helgina.  Blaðið þjónar lesendum sínum með því að kanna og setja fram staðreyndir á auðskiljanlegan máta.  Kærkomin tilbreyting við þann hálfsannleik, getgátur og upphrópanir sem tröllriðið hafa sumum fjölmiðlum undanfarið.  Koma svo, Moggi!


Gedankenexperiment

Hér er smá þankatilraun.

Ímyndum okkur að á Mars sitji forvitnir Marsbúar með mjög öfluga sjónauka.  Þeir fylgjast grannt með mannfólkinu á Íslandi, á bláu plánetunni Jörð.  Þeir sjá að undanfarin ár hefur fólkið lifað lífinu eftir vel skipulögðu mynstri: bændur ala rollur til slátrunar og mjólka kýr, sjómenn sigla á bátum og veiða, skip sigla í ýmsar áttir með ál og fisk og koma til baka með bíla, bensín og búsáhöld.  Fólk heldur til vinnu á morgnana, fær sér skyndibita í hádeginu, lætur klippa sig í lok dags, sækir matvörur í verslanir og heldur heim til sín til kvöldmáltíðar.  Plastkort eru stundum á lofti og jafnvel pappírsseðlar, en tilgangur þeirra er ráðgáta fyrir Marsbúana.  En þeir taka reyndar eftir því að sumir búa í stærri húsum og borða oftar gæsalifrarkæfu en aðrir.

Í október 2008 verður snögglega, og eins og hendi væri veifað, breyting á mynstrinu.  Færri skip sigla á milli, færri fara í vinnuna á hverjum degi, og gæsalifrarkæfa sést sjaldnar.  Það er eins og hægi á öllu.

Nú spyr ég: hvernig myndi maður útskýra þessa breytingu fyrir Marsbúunum?  Þeir sjá ekki neitt í sínum sjónaukum sem skýrt gæti þessa uppákomu.  Öll áþreifanleg gæði sem voru til áður, eru ennþá til.  Fólkið er jafn margt og hefur sömu þekkingu og hæfileika og fyrr.  Allar forsendur virðast til staðar til að halda áfram eins og fyrr, en samt gerist það ekki.

Kannski ættum við að horfa á hagkerfið okkar utan frá - með augum Marsbúanna - og velta því fyrir okkur af hvort öll þau ósýnilegu mynstur sem undir liggja séu skynsamleg, nauðsynleg eða gagnleg; eða bara til trafala.


Hvað ber að gera?

Á árum áður sótti ég flokksþing Alþýðuflokksins, blessuð sé minning hans, og einu sinni var ég nokkurs konar ritstjóri draga að ályktunum sem lagðar voru fyrir þingið.  Þá fékk ég texta frá undirbúningsnefndum og samræmdi umbrot, stafsetningu og málfar.  Oft var þessi texti voðalega þunnur þrettándi eins og gjarnan vill verða hjá stjórnmálamönnum.  Þar var "stefnt að" og "lagt áherslu á" margt og einkum að vera góðir við börn og gamalmenni, að því ólöstuðu vitaskuld.  Mig grunar að sáttmáli nýrrar stjórnar sé skrifaður á svona pólitísku loðmullumáli og eflaust vill nó-nonsens náungi eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sjá meira kjöt á beinunum.  Lái ég honum það ekki.

En hvað þarf að vera í sáttmálanum?

  • Í efnahagsmálum þarf að sjálfsögðu að fá faglega stjórn í Seðlabankann og maður á borð við Má Guðmundsson myndi gefa okkur nauðsynlegan trúverðugleika.
  • Forgangsmál er að kortleggja erlenda fjárfesta sem fastir eru í krónunni og semja við þá um útgönguleiðir, annað hvort með kaldri sturtu (rífa plásturinn af) eða hægari aðferðum.  Ef nota þarf AGS lán til að greiða þeim gjaldeyri, þá verður svo að vera. Gjaldeyrishöftum verði strax aflétt í kjölfarið.
  • Ganga þarf með hraði frá skiptingu milli gömlu og nýju bankanna og láta nýju bankana taka erlendar skuldir heimila og fyrirtækja yfir í krónu.  Síðan er gefið út skuldabréf frá nýju bönkunum yfir í þá gömlu fyrir mismun yfirtekinna eigna og skulda, þannig að gjaldeyrisjöfnuður nýju bankanna sé á sléttu.
  • Þá þarf að leggja nýju bönkunum til vænan skammt af eigin fé með því að prenta krónur.  Rætt hefur verið um 10% en ég held að skynsamlegt sé að það sé meira, jafnvel 15-20%.  Eins og kunnugt er gera bankar sirka 10 krónur í lánsfé úr hverri 1 krónu í eigin fé, og ekki veitir af.
  • Svo þarf að lækka vexti niður í nánast ekkert, sbr. Bandaríkin.
  • Bankarnir þurfa að fá umboð skv. skýrri aðferðafræði til að endursemja um og/eða afskrifa hluta skulda (eða setja inn í "afskriftasjóð"), án þess að hlustað sé á væl um að "afskrifa skuldir auðmanna".  Atvinnulífið verður að komast í gang, fyrirtækin verða að starfa, einhver verður að stjórna þeim og hafa hvata af góðum rekstri, og fólk verður að hafa vinnu.
  • Skorin verði niður fita í ríkisrekstri en nauðsynlegar almannatryggingar, heilbrigðisþjónusta og skólakerfi látið að mestu í friði.
  • Krónur verði prentaðar ef þarf til að standa undir óskertum atvinnuleysisbótum, vaxtabótum og öðrum lykil-jöfnunarfærslum í samfélaginu.
  • Stjórnlagaþing endurskoði stjórnarskrá, aðskilji betur valdþætti og leyfi persónukjör til þings þvert á flokkslista. Stjórnarskrá verði breytt í næstu kosningum til undirbúnings ESB aðildar í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu þar um.

Markmið þessara aðgerða er (a) að lágmarka skaðann á raunhagkerfinu, þ.e. hagkerfi vöru og þjónustu í íslenskri krónu, sem þrátt fyrir allt er lítið og yfirsjáanlegt og því hægt að handstýra nánast frá mánuði til mánaðar; og (b) að bæta lýðræðið og stjórnkerfið í ljósi reynslunnar.

Og svo verði að sjálfsögðu tryggð festa og sýn til framtíðar með því að sækja um aðild að ESB og stefna inn í evruna.


Eignafrysting og lögfræði

Var að lesa grein Álfheiðar Ingadóttur þingkonu VG í Mogganum í morgun og fannst lögfræðin dálítið vefjast fyrir henni eins og fleirum í umræðunni um eignafrystingu "auðmanna" og ábyrgð.

  • Það þarf að gera greinarmun á einkaréttarlegri ábyrgð og refsiréttarlegri ábyrgð.  Álfheiður vitnar í málaferli nafna míns Bjarnasonar gegn stjórn Glitnis vegna mismununar hluthafa, þegar bankinn keypti bréf af Bjarna Ármannssyni á hærra verði en gerðist á markaði, og hneykslast á FME og efnahagsbrotadeild og fleirum fyrir að hafa ekki gripið inn í það mál.  Þar var um að ræða brot (skv. héraðsdómi) á ákvæðum hlutafélagalaga um bann við mismunun hluthafa (76. gr. laga nr. 2/1995).  Það er ekki refsiréttarbrot.  Sama gildir um alls kyns gjörninga sem bankarnir lögðust í á síðustu vikum sínum: ef ekki er um að ræða fjárdrátt eða stuld, heldur einfaldlega vondar viðskiptaákvarðanir, þá heyra þær ekki undir refsirétt - hvort sem mönnum líkar betur eða verr.  Hluthafar og lánardrottnar gætu á hinn bóginn átt einkaréttarlegar skaðabótakröfur á bankann, stjórn hans og/eða stjórnendur, ef þeir hygluðu stórum hluthöfum á kostnað annarra eða brugðust í því að gæta hagsmuna félagsins með tilhlýðilegum hætti. (En reyndar er bannað að fara í mál við gömlu bankana skv. neyðarlögunum!)
  • Eðli hlutafélags er að eigendur þess, hluthafarnir, bera aðeins ábyrgð á félaginu með hlutum sínum í því.  Þetta er lánardrottnum og öðrum fullkunnugt um þegar þeir ákveða að lána félaginu eða eiga við það viðskipti, og er ástæða þess að hlutafélögum er gert að einkenna sig með skammstöfuninni hf.  Það er því ekki unnt að sækja meintar skaðabætur vegna reksturs bankanna til hluthafa þeirra.  Það er hægt að draga stjórnarmenn persónulega til ábyrgðar en ekki hluthafana sem slíka.  Það er því afar hæpinn lagafótur fyrir því að kyrrsetja eigur hluthafa vegna þess sem kann að hafa gerst innan hlutafélags - hvort sem mönnum líkar betur eða verr.
  • Og svo er lífseigur misskilningurinn sem ég hef áður fjallað um í bloggi, að ríkið eða almenningur beri beina ábyrgð á skuldum eða skuldbindingum gömlu bankanna.  Svo er ekki, fyrir utan Icesave sem gerði út á Tryggingasjóð innstæðueigenda eins og kunnugt er.  Tap af kjánalegum ákvörðunum í Kaupþingi og Glitni bitnar harðast á hluthöfum bankans (sem tapa öllu sínu), og næstharðast á lánardrottnum (sem tapa næstum því öllu sínu).  Vissulega eru Seðlabanki og lífeyrissjóðir í þessum hópi og óbeint tap almennings er gríðarlegt.  En því miður hefðu bankarnir hrunið hvort sem er, þeir voru dauðadæmdir í þessari stærð með engan lánveitanda til þrautavara í erlendum gjaldeyri.  Og, sannast sagna, telja jafnvel milljarðatugir aðeins í brotum úr prósenti í skilum þrotabúanna til lánardrottna.  Skaðinn var skeður - hvort sem mönnum líkar betur eða verr.

Þrátt fyrir reiðina, sem er skiljanleg, verður að leyfa réttarríkinu að hafa sinn gang.  Rannsóknir á refsiréttarbrotum verða að fara fram með öruggum hætti þannig að þær spillist ekki af óvönduðum vinnubrögðum eins og dæmi eru um.  Rannsóknanefndin nýstofnaða, sem ætlað er að gera upp við hrunið að öðru leyti en því sem heyrir undir refsirétt, verður vonandi eins og sannleiksnefndin sem reyndist vel í Suður-Afríku.  Aðalatriðið er að fá fram rétta heildarmynd af því sem gerðist og siðferðilegt uppgjör í kjölfarið.  En tilraunir til afturvirkra lagabreytinga, eða eignafrysting án þess að rökstuddur grunur um brot á gildandi lögum liggi fyrir, enda bara með skömm fyrir Hæstarétti eða Mannréttindadómstóli Evrópu, og það ætti þingmaðurinn Álfheiður Ingadóttir að vita.


Getum við prentað peninga?

Ég hét sjálfum mér því fyrir skemmstu að koma mér upp meiri þekkingu á peningahagfræði en formaður bankaráðs Seðlabanka Íslands.  Nú hef ég lesið og meðtekið nokkrar síður um málefnið á Wikipediu og tel markmiðinu hafa verið nokkuð örugglega náð.

Ein af grundvallarsetningum peningahagfræðinnar (Quantity Theory of Money) lítur svona út:

M * V = P * Q

Eða, á "mannamáli": peningamagn í umferð (M) margfaldað með veltuhraða peninganna (V), er jafnt verðlagi (P) margfölduðu með magni undirliggjandi gæða (vöru og þjónustu) sem skipta um hendur í hagkerfinu (Q).

Þetta á ekki að vera nákvæm stærðfræði, frekar en flest annað í hagfræði.  Kenningin segir þó t.d. að ef peningamagn í umferð tvöfaldast, ætti verðlag einnig að tvöfaldast, að öðru óbreyttu.  Þetta er fræg ályktun Miltons Friedmans og fleiri um að verðbólga sé fyrst og fremst peningalegt fyrirbæri.

Ef setningunni er beitt á íslenska hagkerfið fyrir hrun kemur í ljós að peningamagn í umferð (M) var mjög mikið, verðlag (P) var fremur lágt vegna sterkrar krónu, raunverðmæti í hagkerfinu (Q) voru lítil miðað við peningamagnið, og þá fæst sú niðurstaða að veltuhraði peninga (V) hljóti að hafa verið mjög lágur (V=P*Q/M).  Það getur reyndar staðist ef maður gefur sér að mikill hluti peninga hafi verið bundinn utan við raunverðmæti í hagkerfinu, þ.e. í eignarhaldspýramídum, jöklabréfum og öðrum skuldabréfum.

Núna eftir hrun viljum við væntanlega halda Q (magni vöru og þjónustu) eins ósköðuðu og hægt er. Við viljum líka halda P stöðugu, því við viljum ekki verðhjöðnun, þ.e. lækkandi P, þar sem hún hefur mjög óæskileg áhrif á fjárfestingu og áhættusækni - þá geyma allir peninga undir koddanum.  V er óljósara og þarf örugglega að hækka frá því fyrir hrun til móts við minnkun M, en það hljóta að vera til "eðlileg" gildi á V úr öðrum hagkerfum sem hægt er að nota til viðmiðunar.  M (skilgreint vítt) hefur væntanlega minnkað talsvert við hrun bankanna, við brotthvarf veðlána Seðlabanka ("ástarbréfa") og töp í sjóðum og fyrirtækjum.

Þá er það stóra spurningin:  Hvað má og á peningamagnið (M) að vera mikið?  Með öðrum orðum: getum við, og ættum við að, hreinlega prenta peninga á réttum tímapunkti og dreifa þeim um hagkerfið með sem skilvirkustum hætti (framlag til eiginfjár nýrra banka, auknar vaxtabætur, hærri atvinnuleysisbætur, o.s.frv.)?  Ef séð væri fyrir endann á verðbólgu (þ.e. ef krónan helst stöðug) og jafnvel talin hætta á verðhjöðnun (að M*V færi lækkandi), væri þá rétt að auka peningamagnið fyrirfram, halda uppi Q og milda þar með áhrif kreppunnar?

Þessu verða alvöruhagfræðingar að svara; ég er kannski á villigötum, enda bara amatör og beturvitrungur sem er búinn að lesa nokkrar síður á Wikipediu.  En þó skárri en Halldór Blöndal.


Setjum rétt fólk á rétta staði

Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt að vanda til stjórnar landsins eins og núna, næstu vikur og mánuði.  Að mínu mati þarf að líta á verkefnið með ferskum hætti, án kredda og fordóma.

Ég tel að fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra eigi að þessu sinni ekki að velja úr röðum þingmanna, heldur verði fengið fagfólk í þessi störf.  Þá á ég við fólk með þekkingu á og reynslu af fjármálum, flóknum rekstri og verkstjórn, og sem nýtur trausts innan lands sem utan.  Með allri virðingu fyrir stjórnmálamönnum, þá eru það ekki endilega sömu hæfileikar sem þarf til framgangs í stjórnmálum og þeir sem lykilráðherrar þurfa að hafa núna á ögurstundu.  Einnig er líklegra til árangurs, og vænlegra til samstöðu, að framkvæmdavaldið sé að nokkru aftengt flokkapólitík meðan brotsjóirnir ríða yfir. 

Að sjálfsögðu á að velja nýja Seðlabankastjórn og jafnvel fækka bankastjórum niður í einn. Bankaráð Seðlabankans þarf að skipa að nýju, og að þessu sinni faglega færum ráðgjöfum, innlendum og erlendum, með bakgrunn í hagfræði, lögfræði og alþjóðaviðskiptum.  Bankaráðið yrði ríkisstjórn og Seðlabankastjóra til aðstoðar við hagstjórn, mótun peningamálastefnu, í gjaldeyrismálum, samskiptum við AGS, samningum við önnur ríki, og endurskipulagningu bankakerfisins.

Forsætisráðherra þarf að hafa tvo öfluga ráðgjafa: efnahagsráðgjafa (sem gæti jafnframt verið formaður bankaráðs Seðlabanka) og samskiptaráðgjafa.  Hinn síðarnefndi sjái til þess að þjóðin sé upplýst jafnóðum um áætlun stjórnvalda, verkefnin framundan, þær fórnir sem færa þarf, og framgang mála.  Aðeins með upplýstri þátttöku þjóðarinnar verður unnt að sigrast á vandanum.

Of lengi hefur íslensk pólitík og stjórnsýsla komist upp með viðvaningshátt, ófaglegheit, hroka, klíkuskap, smákóngaveldi og skjallbandalög.  Nú hefur þetta allt komið í bakið á þjóðinni með afdrifaríkum hætti.  Nýtt Ísland verður ekki byggt með sömu vinnubrögðum.


Katla - endanlegt portrett

Fyrir tæpu ári síðan bloggaði ég um tilurð portrettmálverks af Kötlu fyrrum bekkjarsystur minni í Myndlistaskólanum í Reykjavík.

Ég átti alltaf eftir að klára myndina endanlega, en hafði m.a. kreppuna sem (lélega) afsökun.

Um daginn dreif ég mig í að ljúka henni enda ekki seinna vænna, viðfangsefnið átti afmæli 20. janúar sl. og það voru síðustu forvöð.  Það átti eftir að vinna í ýmsum smáatriðum, m.a. munni, augum og kjálka.

Hér er svo myndin:

Endanleg endanleg mynd

(Olía á striga, 55 x 50 cm.  Sumir vefráparar sýna litina of sterka, þeir eru tiltölulega dempaðir.)

Fleiri portrett má sjá hér.


Hver tapaði á bixi Ólafs Ólafssonar og annarra slíkra?

Ég sé að margir misskilja eðli og afleiðingar hinna ýmsu ógegnsæju fjármálagjörninga sem leka út úr FME, skilanefndum og endurskoðunarstofum þessa dagana.

Það er greinilegt að alls kyns "krókódílar" voru í gangi sem gengu m.a. út á að kaupa hlutabréf og meira að segja skuldabréf gegn lánum og veðum í bréfunum sjálfum.  Bankarnir voru þarna í raun að fjármagna sjálfa sig, og halda uppi hlutabréfaverði og jafnvel eiginfjárhlutfalli.  Allt frekar sóðalegt, og augljós einkenni sjúkdómsins í hagkerfinu og viðskiptalífinu (en hvar var FME? á golfvellinum?)

Misskilningur númer 1 er að þetta bix bitni beinlínis á ríkissjóði eða öllum almenningi.  Bixið bitnar á (almennum) hluthöfum og kröfuhöfum gömlu bankanna, og þeir gætu hugsanlega átt gildar skaðabótakröfur á þrotabúin, fyrrverandi lykilstjórnendur og jafnvel stærstu eigendur ef þeim var hyglað á kostnað minni hluthafa.  Það er hins vegar óþarfi að óttast að ríkissjóður eða almenningur sitji uppi með reikninginn, hann er í þrotabúum bankanna og ríkið ber ekki ábyrgð á þeim. (Icesave Landsbankans er undantekningin, þar skiptir máli fyrir almenning að þrotabúið eigi sem mest upp í innlánin.  En Kaupþing og Glitnir er sem betur fer önnur saga.)

Misskilningur númer 2 er að bankarnir hafi hrunið út af svona krókódílum og svindliprettum.  Svoleiðis lagað er vitaskuld síst til bóta, en hagfræðingar (m.a. Willem Buiter, Annie Sibert, og Robert Wade) eru sammála um að íslenska bankakerfið hefði hrunið hvort sem er - jafnvel þótt ekkert svindl eða svínarí væri, og jafnvel þótt engin erlend krísa hefði komið til.  Bankarnir voru of stórir, peningamálastjórnin of slök, gjaldmiðillinn of lítill, og Seðlabankinn of óburðugur - hrunið var óumflýjanlegt þegar af þessum sökum.

Sem sagt: fókusinn á viðskiptalegu ábyrgðina má ekki valda því að pólitíska og embættislega ábyrgðin falli í skuggann; þar liggur ekki síst rót vandans.


Nýtt lýðveldi og hugmyndir Vilmundar

Um daginn skrifaði ég um 25 ára gamlar hugmyndir Vilmundar Gylfasonar um róttækar breytingar á stjórnkerfinu, sem eiga ekki síður við í dag en þá.  Svo virðist sem margt af þessu sé að festa rætur í umræðu dagsins og það er vel.

Í þessu sambandi langar mig að benda á góðan og tímabæran Krossgötuþátt á Rás 1 þar sem Hjálmar Sveinsson fjallar m.a. um Vilmund og hugmyndir Bandalags jafnaðarmanna, og fræg 17 mínútna þingræða Vilmundar er endurflutt - alveg mögnuð.

Jafnframt bendi ég á sérlega fína grein Jóns Kalmans Stefánssonar úr Fréttablaðinu 15. janúar sl., "Nýtt Ísland; nýtt lýðveldi".  Jón rekur orsakir vanda okkar réttilega til bresta í stjórnkerfinu og gallaðs lýðræðis.

Nýtt lýðveldi hlýtur að læra af mistökunum og verða reist á traustari stoðum en hið fyrra.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Tíðindalaust í Seðlabankanum

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins á fimmtudaginn var rætt við Eirík Guðnason seðlabankastjóra.  Þar viðhafði hann eftirfarandi ummæli, sem vöktu athygli mína:

"Það er sannarlega kominn tími til að skynja betur þörfina fyrir útlendinga að komast með peningana frá landinu," segir Eiríkur [...] um stöðu erlendra fjárfesta sem eru fastir með fjárfestingar sínar á Íslandi því þeir geta ekki skipt krónum yfir í erlenda mynt sökum gjaldeyrishafta.  Aðspurður segir hann ekki verið að ræða við þessa fjárfesta um hugsanlega útgöngu.  "Það er ekki verið að semja um það, nei." [leturbr. mínar]

Bíddu nú aðeins við.  Það eru 100 dagar frá hruninu, og Íslendingar búa við gjaldeyrishöft og manndrápsvexti, vegna einmitt þessara útlendinga sem sitja fastir með krónurnar.  Og Seðlabankinn "er ekki að ræða við þessa fjárfesta"(!) en - Guð láti gott á vita - það er að hans mati "sannarlega kominn tími til að skynja betur (!!) þörfina"!

Þessum mönnum er ekki viðbjargandi.

Kæri forsætisráðherra.  Það verður að skipta um þessa Seðlabankastjórn ekki seinna en strax.  Hún er svo gjörsamlega vanhæf, rúin trausti innanlands sem utan, og úti að aka, að það hálfa væri nóg fyrir tvo.

Svo legg ég til að sett verði saman aðgerðateymi 3-5 skuldabréfasérfræðinga úr bankakerfinu (já, úr gömlu bönkunum þess vegna) sem gangi í það mál að ræða við útgefendur og eigendur helstu krónustaða, kortleggi vandann, og leggi til lausnir á honum.  Til þessa hefði teymið 2-3 vikur.  Það mætti hugsa sér röð uppboða eða útboða á gjaldeyriskvótum, útboð á löngum kúlubréfum ríkissjóðs í evrum, prógramm um sérstök ríkisbréf í krónum með breytanleika í evrur við ákveðin skilyrði o.s.frv.  Í kjölfarið væri svo krónunni fleytt á ný, enda eru höftin byrjuð að leka eins og við mátti búast.

En, eins og innheimtufyrirtækið segir: ekki gera ekki neitt - í 100 daga í viðbót.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband