Gedankenexperiment

Hér er smá þankatilraun.

Ímyndum okkur að á Mars sitji forvitnir Marsbúar með mjög öfluga sjónauka.  Þeir fylgjast grannt með mannfólkinu á Íslandi, á bláu plánetunni Jörð.  Þeir sjá að undanfarin ár hefur fólkið lifað lífinu eftir vel skipulögðu mynstri: bændur ala rollur til slátrunar og mjólka kýr, sjómenn sigla á bátum og veiða, skip sigla í ýmsar áttir með ál og fisk og koma til baka með bíla, bensín og búsáhöld.  Fólk heldur til vinnu á morgnana, fær sér skyndibita í hádeginu, lætur klippa sig í lok dags, sækir matvörur í verslanir og heldur heim til sín til kvöldmáltíðar.  Plastkort eru stundum á lofti og jafnvel pappírsseðlar, en tilgangur þeirra er ráðgáta fyrir Marsbúana.  En þeir taka reyndar eftir því að sumir búa í stærri húsum og borða oftar gæsalifrarkæfu en aðrir.

Í október 2008 verður snögglega, og eins og hendi væri veifað, breyting á mynstrinu.  Færri skip sigla á milli, færri fara í vinnuna á hverjum degi, og gæsalifrarkæfa sést sjaldnar.  Það er eins og hægi á öllu.

Nú spyr ég: hvernig myndi maður útskýra þessa breytingu fyrir Marsbúunum?  Þeir sjá ekki neitt í sínum sjónaukum sem skýrt gæti þessa uppákomu.  Öll áþreifanleg gæði sem voru til áður, eru ennþá til.  Fólkið er jafn margt og hefur sömu þekkingu og hæfileika og fyrr.  Allar forsendur virðast til staðar til að halda áfram eins og fyrr, en samt gerist það ekki.

Kannski ættum við að horfa á hagkerfið okkar utan frá - með augum Marsbúanna - og velta því fyrir okkur af hvort öll þau ósýnilegu mynstur sem undir liggja séu skynsamleg, nauðsynleg eða gagnleg; eða bara til trafala.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hörður Þórðarson

Það sem Marsbúarnir sáu ekki er að skipin sem komu til landsins fluttu til sín meiri verðmæti en skipin sem fóru frá landinu og eyjarskeggar borguðu mismuninn með peningum sem þeir fengu að láni (og hafa núna enga hugmynd um hvernig þeir eiga að greiða til baka).

Eyjarskeggjar tóku meira en þeir gátu borgað og þess vegna sigla núna færri skip.

Margir virðast ekki hafa haft þessa einföldu speki að leiðarljósi: "Ef þú hefur ekki efni á því, þá skaltu sleppa því að kaupa það". Kannski ætti að kenna svona lagað í skóla....

Hörður Þórðarson, 31.1.2009 kl. 20:19

2 identicon

Hörður og Vilhjálmur, smurningurinn í vestræna efnahagskerfinu er "krít" þ.e.a.s. credit, eða lán. 

Tökum sem dæmi að ég vilji verða bóndi en eigi engar rollur. Burgeisinn á næsta bæ á slatta af rollum. Ég fer í mína minnst slitnu sauðskinnsskó og hristi lúsina úr ullarpeysunni minni og geng á hans fund hvar ég  bið hann selja mér nokkrar rollur og not af hrúti. Burgeisinn setur upp verð, en ég á engan pening. Hann spyr hvernig ég ætli þá að borga honum. Ég segist ætla að ala upp lömb úr kviði rolla þeirra sem hann selur mér og endurgreiða honum í framtíðinni með þeim. M.ö.o ég bið hann selja mér rollur upp á krít, eða greiðslufrest. Til að gera viðskiptin jafnvel betri býð ég honum "vexti" þ.e.a.s að gefa honum fleiri og vænni rollur en hann selur mér.

Ef burgeisinn treystir að ég standi mig í mínum fjárræktarbúskap þá selur hann mér rollurnar og not af hrúti upp á greiðslu í framtíðinni. Ef vel tekst gef ég honum væna dilka og meira virði en hann seldi mér í upphafi og höfum við þá báðir hagnast.

Ef burgeisinn skellir hurðinni og sigar hundum sína að mér þá húki ég í koti mínu. Burgeisinn uppsker eingöngu þau lömb sem hann sjálfir elur en nýtur ekki þeirra krafta sem grannar hans gætu í fjárbúskapinn lagt.

Marsbúarnir sjá ekki smurninginn á bláu plánetunni vegna þess að hann er í kollum bláplánetubúa. Marsbúarnir sjá ekki að bláplánetubúar treysta ekki lengur hverjir öðrum og alls ekki að þeir standi skil á þeim samningum sem liggja að baki skipasiglinga og vöruskipta. Það er Marsbúum óskiljanlegt hverning hjólin hættu að snúast á bláu plánetunni, þ.e.a.s. alveg jafn ósklijanlegt og það verður þeim þegar hjólin aftur fara að snúast að því mun virðast af engri ástæðu.

Efnahagskerfið okkar byggir á von um betri tíma og trausti á getu samborgara okkar. Það er í eðli sínu sálrænt kerfi en ekki efnislegt. Ef allir þyrftu að greiða sín hús kontakt, sem eflaust var í den tid, þá byggju flestir Íslendingar í, ja...., torfhúsum!

Kristján Gunnarsson (IP-tala skráð) 31.1.2009 kl. 22:17

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Marsbúarnir eru alveg eins og íslendingar...elska foringja XD...alveg sama hvort hann / hún segir esb eða ekki vatn erð hvað sem er ...allir fylgja xD!

Þetta finnst Marsbúum mjög marsbúalegt (mannlegt)?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 31.1.2009 kl. 23:38

4 Smámynd: María Kristjánsdóttir

Það er held ég meginmálið að spyrja um grunninn.

María Kristjánsdóttir, 1.2.2009 kl. 10:27

5 Smámynd: Ásgeir Kristinn Lárusson

Marsbúarnir hafa ekki komið auga á peningaprentvélar Federal Reserve...:)

Ásgeir Kristinn Lárusson, 1.2.2009 kl. 10:28

6 Smámynd: Sigurpáll Ingibergsson

Góð pæling Vilhjálmur!

Þetta kallar maður að hugsa út fyrir boxið.  

 Marsbúarnir hefðu einnig séð að fiskibátarnir fóru í færri veiðiferðir. Það væri merkilegt að útskýra fyrir þeim íslenska kvótakerfið. Þeir yrðu þrumu lostnir, er þeir myndu heyra ávinninginn. Úr 300 þúsund tonnum í 130 þúsund og skuldir upp á 500 til 700 milljarða.  Þetta væri kallað fullkomnasta kerfi í heimi.

Þegar greindir og vel menntaðir menn jafnvel prestlærðir geta varið svona gallað kerfi og kallað fullkomnasta kerfi í heimi þá skil ég loks af hverju breyskir menn voru tilbúnir til að láta líf og limi fyrir hugsjónir, kenndar við nasisma og kommúnisma. Rök eru ekki tæk, heldur tilfinningin ein.

Sigurpáll Ingibergsson, 1.2.2009 kl. 11:16

7 identicon

Ég hugsa að Marsbúarnir myndu alveg skilja bóndann sem tók lán fyrir bústofni og burgeisinn sem lánaði honum. Slík viðskipti byggjast á gagnkvæmum hagsmunum og trausti og geta skilað betri útkomu fyrir allt samfélagið. En hvernig ætli þeim gengi að skilja bankann sem lánaði breskum kráarkarli 280 milljarða, án þess að hafa von um að hann gæti endurgreitt þá? Eða kannski þetta sé geimveruhagfræði sem bjánar eins og ég ná ekki upp í en er æðri vitsmunaverum ljós? Hannes Hólmsteinn vill kannski taka að sér að skrifa hagfræði fyrir Marsbúa, svo við sem ekki skiljum áttum okkur á snilldinni.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 11:35

8 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Það er rétt, Hörður, að Marsbúarnir hefðu getað undrast hvað Íslendingar fengu mikið af vörum með skipum til landsins miðað við vörurnar sem þeir sendu út.  Ef þeir bæru það saman við önnur lönd sæju þeir að við vorum að bera hlutfallslega mikið úr býtum í þeim skiptum, og gætu dregið þá ályktun að við værum að safna upp einhvers konar halla eða skuld.

En þessi skýring - uppsafnaður vöruskiptahalli vegna ofneyslu almennings - er ekki nóg til að skýra kreppuna.  Fer eitthvað áleiðis, en ekki nærri því alla leið.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 1.2.2009 kl. 12:55

9 Smámynd: Jón Finnbogason

Ætli við þurfum ekki bara að útskýra fyrir Marsbúum hvernig við búum til peninga úr engu?

Jón Finnbogason, 1.2.2009 kl. 13:59

10 identicon

Snillingurinn útskýrir stórfengleik nýfrjálshyggjunnar hér, kannski þætti Marsbúum eitthvert vit í veruleikafirringunni.

Eva Hauksdóttir (IP-tala skráð) 1.2.2009 kl. 16:37

11 Smámynd: Jenný Stefanía Jensdóttir

Villi, nú fílar maður sig eins og einn af apprentice hjá Dr. House, þú ert House og við hin rembumst við að koma með líklegar skýringar.

Mér líkar hins vegar þessi pæling, því það hefur ekkert breyst í áþreifanlegum verðmætum, og við getum enn boðið marsbúunum að flytja í öll húsin sem við byggðum handa þeim.  Sé fyrir mér íslenska ríkisreikninginn eins og hvern annan efnahagsreikning, eða heimilisbókhald er því er að skipta, hvorki flóknara né auðveldara.  Þurfum að byrja upp á nýtt frá núlli,  það er lágmarkskrafa og þá mun okkur farnast vel.  Að byrja úpp á nýtt í ógurlegum mínus sem ekki sér fyrir endann á,  er bara ekki í kortunum fyrir komandi kynslóðir.

Jenný Stefanía Jensdóttir, 2.2.2009 kl. 04:12

12 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég held að við séum að fara inn í meiriháttar uppstokkun á fjármála- og gjaldmiðlakerfi heimsins.  Tilraunin sem staðið hefur yfir frá afnámi Bretton Woods kerfisins hefur gjörsamlega mistekist, og við þurfum að finna nýjar lausnir.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.2.2009 kl. 13:42

13 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ég er sammála því að það liggur fyrir augljós endurskoðun á fjármálakerfinu í heild sinni. Þessi útilokun þess að taka "Credit" með í reikninginn í núverandi kerfi hefur á endanum að virðist valdið okkur stór tjóni. Margar ágætar heimildarmyndir um það máleffni í netheimum, en mér fannst líka afar áhugavert viðtalið við Gunnar Tómasson hagfræðing um málið.

Stærsta sjokkið mitt var í því fólgið að átta mig á því að verðmæti markaðarins væri bara alls ekki metið út frá hæfi og framleiðni fyrirtækja heldur nánast alfarið út frá tiltrú markaðarins á eignir.  Það er ótrúlegt að sjá slík "verðmæti" verða að nákvæmlega engu á 2 vikum. Ætti í raun að hvetja okkur öll til þess að fara að horfa til framleiðni aftur, gömlu góðu gildin um að skapa meira en maður eyðir.

Bara það eitt að flestir forstjórar heimsins hafa undanfarin ár fengið mun stæri hlut launa sinna fyrir það að auka verðmæti hlutfjár fyrirtækja, en fyrir það að fyrirtækin raunverulega framleiddu eitthvað - það er afar merkileg vangavelta út af fyrir sig.

Baldvin Jónsson, 3.2.2009 kl. 23:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband