Hver tapaði á bixi Ólafs Ólafssonar og annarra slíkra?

Ég sé að margir misskilja eðli og afleiðingar hinna ýmsu ógegnsæju fjármálagjörninga sem leka út úr FME, skilanefndum og endurskoðunarstofum þessa dagana.

Það er greinilegt að alls kyns "krókódílar" voru í gangi sem gengu m.a. út á að kaupa hlutabréf og meira að segja skuldabréf gegn lánum og veðum í bréfunum sjálfum.  Bankarnir voru þarna í raun að fjármagna sjálfa sig, og halda uppi hlutabréfaverði og jafnvel eiginfjárhlutfalli.  Allt frekar sóðalegt, og augljós einkenni sjúkdómsins í hagkerfinu og viðskiptalífinu (en hvar var FME? á golfvellinum?)

Misskilningur númer 1 er að þetta bix bitni beinlínis á ríkissjóði eða öllum almenningi.  Bixið bitnar á (almennum) hluthöfum og kröfuhöfum gömlu bankanna, og þeir gætu hugsanlega átt gildar skaðabótakröfur á þrotabúin, fyrrverandi lykilstjórnendur og jafnvel stærstu eigendur ef þeim var hyglað á kostnað minni hluthafa.  Það er hins vegar óþarfi að óttast að ríkissjóður eða almenningur sitji uppi með reikninginn, hann er í þrotabúum bankanna og ríkið ber ekki ábyrgð á þeim. (Icesave Landsbankans er undantekningin, þar skiptir máli fyrir almenning að þrotabúið eigi sem mest upp í innlánin.  En Kaupþing og Glitnir er sem betur fer önnur saga.)

Misskilningur númer 2 er að bankarnir hafi hrunið út af svona krókódílum og svindliprettum.  Svoleiðis lagað er vitaskuld síst til bóta, en hagfræðingar (m.a. Willem Buiter, Annie Sibert, og Robert Wade) eru sammála um að íslenska bankakerfið hefði hrunið hvort sem er - jafnvel þótt ekkert svindl eða svínarí væri, og jafnvel þótt engin erlend krísa hefði komið til.  Bankarnir voru of stórir, peningamálastjórnin of slök, gjaldmiðillinn of lítill, og Seðlabankinn of óburðugur - hrunið var óumflýjanlegt þegar af þessum sökum.

Sem sagt: fókusinn á viðskiptalegu ábyrgðina má ekki valda því að pólitíska og embættislega ábyrgðin falli í skuggann; þar liggur ekki síst rót vandans.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Flosi Kristjánsson

Var rétt í þessu að ljúka fyrstu yfirferð á grein eftir Niall Ferguson:

 http://www.niallferguson.com/site/FERG/Templates/ArticleItem.aspx?pageid=202

Þar koma fram sjónarmið álík þeim sem þú setur fram í pistli þínum. Það er náttúrlega freistandi að skella sér niður á einföld, borðleggjandi svör við þeim mörgu spurningum sem upp koma í kjölfar bankahrunsins.

Það hjálpar ekki, að þeir aðilar sem einkum erum bendlaðir við óhreint mjöl, hafa verið úr hófi stórkarlalegir og borist á. Ergo: þeir hljóta að hafa stolið peningunum fyrir þotunni, þyrlunni, Eltoni og svo framvegis.

Það má ekki gleyma því að við gengumst inn á það með samningnum um EES, að leyfa hér aukið frjálsræði, þar með talið í flæði fjármagns. Það var ýmislegt hægt að gera í framhaldi af þeim nýju reglum, sem ekki var hægt áður. Kannski hafa menn ekki einu sinni áttað sig á því öllu. Regluverkið og eftirlitskerfið sem sett var upp hér heima held ég að hafi alls ekki haft burði til að takast á við hinar nýju kringumstæður. Þar er stór hluti vandans.

Flosi Kristjánsson, 19.1.2009 kl. 23:47

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég hjó nefnilega eftir því að nafni minn Bjarnason sagði í Kastljósi í kvöld eitthvað á þá leið að allt bankakerfi lýðveldisins hryndi ekki án þess að eitthvað misjafnt lægi þar að baki.  Ég er að velta því fyrir mér hvort nafni telji þá að kerfið hafi beinlínis hrunið vegna svindls.  Það held ég að standist engan veginn og væri röng greining á ástandinu, sem aftur gæti leitt til rangra ákvarðana í uppbyggingu nýs fjármálakerfis.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.1.2009 kl. 00:16

3 Smámynd: Einar Karl

Sæll Vilhjálmur.

Mér finnst þú strjúka krókódílunum full mjúkum höndum. Bixið í "misskilningi nr 1" var jú til þess að gert að auka sýndarverðmæti bankanna, til að halda uppi veðhæfni og þannig var hægt að fá meira og meira lánað, sem gerði hrunið svo mikið sem raun bar vitni. Nú þarf að endurfjármagna bankanna til að veita okkur þegnunum eðlilega viðskiptabankaþjónustu og endurfjármagna Seðlabankann, sem búið í raun og veru að ryksuga alla peninga úr. Þetta bitnar beinlínis á ríkinu og skattgreiðendum.

Einar Karl, 20.1.2009 kl. 00:20

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Nja, ekki rugla saman hlutabréfaverði bankanna og getu þeirra til útlána, sem ræðst fyrst og fremst af vigtuðu eigin fé (CAD).  Þetta bix hefur sáralítil áhrif á CADið.  Ég er nóta bene ennþá að hugsa mig í gegn um það hvað það þýðir að kúnnar bankans fái lánað til að kaupa skuldabréf bankans af markaði á hálfvirði, eins og Mogginn var að slá upp í morgun.  Eigin skuldabréf eru alltaf dregin frá í CAD, líka þótt kúnnar eigi þau ef þau eru veð fyrir láni.

Endurfjármögnun nýju bankanna er í formi eigin fjár sem lagt er inn í þá og gufar ekki upp (vonandi!), þ.e. er áfram eign ríkisins þótt óbein sé.

En vissulega tapaði Seðlabankinn, og aðrir sem lánuðu bönkunum eða áttu hlutafé í þeim, eins og ég minnist á í færslunni.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.1.2009 kl. 00:39

5 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Flosi, var að klára grein Niall Fergusons.  Hún er gefur góða yfirsýn um bakgrunn og orsakir fjármálakreppunnar, og óhætt að mæla með henni.

Hugsanlega er þægilegra að lesa hana á vef Vanity Fair:

http://www.vanityfair.com/politics/features/2008/12/banks200812?currentPage=1

Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.1.2009 kl. 01:20

6 Smámynd: Hólmfríður Bjarnadóttir

Þakka þér Vilhjálmur fyrir að útskýra þetta á svona einfaldan hátt. Það er eins með þetta og margt annað.

Það þarf ákveðið æðruleysi (rólega og yfirvegaða skoðun) til að greina orsakir vandans. 

Hólmfríður Bjarnadóttir, 20.1.2009 kl. 07:01

7 Smámynd: Þórhallur Kristjánsson

Í sambandi við misskilning númer 1 þá lánaði Seðlabanki Íslands Kaupþing 75 milljarða rétt fyrir fall með veði í dönskum banka. Nú hefur verðið á danska bankanum fallið það mikið að tugir milljarðar eru glataðir.

Mér sýnist þetta 75 milljarða lán hafa farið í einhverskonar bix stjórnenda.

Lánið frá Seðlabankanum lendir á skattgreiðendum þannig að þetta er ekki alveg rétt hjá þér.

http://www.vb.is/frett/1/48120/

Þórhallur Kristjánsson, 20.1.2009 kl. 08:31

8 Smámynd: Offari

Ég er á því að svindlið eigi stóran þátt í því hvernig hægt var að veðsetja eigur annara langt umfram greiðslugetu.

Offari, 20.1.2009 kl. 10:49

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Seðlabankalánin hefðu tapast hvort sem er, af því að bankinn hefði fallið hvort sem er.  Kannski hefði lausaféð dugað þeim eitthvað lengur, en útlánagæðin hefðu fellt þá ekki seinna en núna, um og eftir áramót.

Með því að rýna í Moggafréttirnar sýnist mér að Kaupþing hafi verið komið í þann gír að lána viðskiptavinum til að kaupa eigin skuldabréf og skuldatryggingar á markaði.  Það er hægt að sjá hvað stjórnendurnir voru að spá: þeir voru að reyna að skapa eftirspurn og hækka verð á skuldabréfum bankans og skuldatryggingum, en verð hvors tveggja benti til yfirvofandi gjaldþrots.  Þetta var eins og fjárhættuspilari að taka síðustu peningana og leggja á rautt í rúllettu.  Veðmálið veikti bankann og hraðaði hruni, en ef þróunin hefði fyrir kraftaverk snúist við hefði orðið góður ávinningur (a.m.k. fyrir viðskiptavinina)!

Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.1.2009 kl. 11:35

10 Smámynd: corvus corax

Það er ljóst að stórþjófnaður var framinn í bönkunum til að borga hégómalegan flottræfilsháttinn, einkaþotur, snekkjur, sumarhallir, bílaflota, fáránlega óhóflegar veislur og síðast en ekki síst sveitajarðir þar sem hægt væri að hrekja ábúendur burtu til að flottræfilshyskið hefði nógu rúmt um sig. Þjófar, stórglæpamenn og skítapakk!

corvus corax, 20.1.2009 kl. 12:25

11 identicon

Án þess að vilja flækja þetta um of, en ef komið er með hlutafé svo dæmi sé tekið og það fært til bókar sem eign, en skilar sér síðan ekki í kassann og fyrirtækið fer síðan á hausinn, hver er staða kröfuhafa við þær aðstæður?

Og hver er staða markaðarins þegar fyrirtæki "bætir" við hlutafé sitt með því að lána kaupanda hlutabréfana nánast að fullu?

Þetta er kannski "off topic" en flaug þetta í hug svona á meðan ég hleyp út til að taka þátt í friðsömum mótmælum dagsins. Góðar stundir.

Toni (IP-tala skráð) 20.1.2009 kl. 13:44

12 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Toni, hlutaféð sem hans hátign Al Thani "keypti" var ekki nýtt hlutafé í bankanum heldur var það "keypt" af hluthöfum sem fyrir voru.  Nafni minn Bjarnason ruglaði þessu líka saman í Kastljósi í gær.  En ég er ekki að verja þessa viðskiptahætti, auðvitað var gengið allt of langt í því í bönkunum að fjármagna eigin hlutabréf.  Ekki af því að það væri beinlínis ólöglegt heldur af því að það jók áhættuna í rekstrinum og gerði bankana of næma fyrir eigin hlutabréfaverði.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.1.2009 kl. 15:47

13 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

"Tilraunir forhertra manna til að koma eign sinni yfir sem mest fé" er ágætis skilgreining á kapítalisma (frjálsu markaðshagkerfi), gæti jafnvel átt heima í orðabók.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.1.2009 kl. 15:49

14 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Gott innlegg í þessa umræðu, Vilhjálmur.  Stærsti vandinn við umræðuna um þetta mál og önnur tengd Kaupþingi, að það vantar allt gegnsæi.  ESB gaf út tilskipun um gegnsæi í fjármálaviðskiptum, s.k. MiFID tilskipun.  Ég veit um meðalstóran breskan banka sem setti 4-5 mannára vinnu í að innleiða þessa tilskipun.  Ég efast um að íslenskir bankar hafi sett meira en nokkra mannmánuði í sína innleiðingu.  Hvort það sé ástæðan eða ekki, þá vantar gegnsæi í allt of marga fjármálagjörninga, sem tengjast Kaupþingi.  Mál eftir mál koma upp þar sem erfitt er að átta sig á því hvað gerðist.  Aftur og aftur tengjast aflandsreikningar og aflandseignarhaldsfélög inn í slík mál.  Mér finnst það gott að Ólafur hafi viðurkennt að hann á peninga í aflandsfélagi í skattaparadís.  Nú þarf hann bara að gera grein fyrir því hvort þessi félög hafi verið gefin upp til skatts hér á landi.

Ég er ekki í afstöðu, frekar en flestir aðrir landsmenn, að taka afstöðu til þess hvort eitthvað ólöglegt hafi átt sér stað í viðskiptum tengdum Kaupþingi.  Ég held raunar að flest hafi verið löglegt.  Hugsanlega er eitthvað á mörkum þess að vera siðlegt.  Notaðar voru alls konar flækjur og það er það sem veldur tortryggni.  Hvers vegna allar þessar flækjur?  Af hverju þurftu peningarnir til prinsins að fara í gegnum tvö eða þrjú önnur félög áður en þeir komust í hendur prinsinum svo hann gæti keypt bréfin?  Það er þetta sem veldur tortryggni og reiði.

Marinó G. Njálsson, 20.1.2009 kl. 17:09

15 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Marinó, sumir þessara gjörninga eru flóknar afleiður sem eru að koma blaðamönnum og almenningi fyrir sjónir í fyrsta sinn og þær eru ekki alltaf útskýrðar með skiljanlegum hætti.  Ég hef reyndar líka velt því fyrir mér hvort það sé öruggt að skilanefndir og FME skilji þessa samninga; miðað við orðalag lekanna þá mætti halda að menn væru á köflum nett ringlaðir.  Það er t.d. eitthvað bogið við fréttaflutning Morgunblaðsins í morgun af 50 milljónum dollara sem Al-Thani átti að hafa fengið sem "fyrirframgreiddan hagnað" af einhverjum samningi sem átti ekki að geta skilað tapi.  Svoleiðis samningar eru bara til í einhyrningalandi, þannig að annað hvort var klár fjárdráttur á ferðinni - og þá ætti að hafa verið brugðist við því prontó - eða það sem mér finnst líklegra, einhver að misskilja eitthvað.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.1.2009 kl. 20:48

16 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Takk Vilhjálmur aftur!...og aftur!

Er ekki ljóst að nafni Vilmundur Gylfason mælti lög er hann sagði "löglegt, en siðlaust"?

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 20.1.2009 kl. 22:19

17 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Anna, það er nú munur á Vilhjálmi og Vilmundi.  En fyrir utan það, að ég held að barátta Vilmundar fyrir  þrískiptingu valdsins verði að lokum arfleifð hans.  Þingræða hans frá 1982 sem spiluð var í útvarpinu í gær, var náttúrulega tær snilld.  Ég á hana til í bókinni hans Jóns Orms Halldórssonar um Vilmund "Löglegt, en siðlaust" og þarf endilega að lesa hana betur.

Marinó G. Njálsson, 20.1.2009 kl. 22:38

18 Smámynd: Kristján Þór Gunnarsson

Hefði Seðlabankinn lánað Kaupþing 75 miljarða rétt fyrir fall bankans ef hann hefði vitað af öllum " ástarbréfunum " ? Veðin þóttu trygg þegar lánið var veitt en hefði það ekki breytt töluverðu í ákvarðanatöku Seðlabankans ef allar staðreyndir hefðu legið á borðinu ? Útgáfa " ástarbréfa " bankanna minna á peninga-keðjubréfin sem gengu um með reglulegu millibili á árum áður. Þeir einir gátu hagnast sem voru fyrstir í keðjunni.

Kristján Þór Gunnarsson, 20.1.2009 kl. 23:24

19 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Kristján, það vissu allir af "ástarbréfunum" í skuldabréfabransanum, þar á meðal Seðlabankinn.  Sagan segir meira að segja að þetta hnyttna nafn sé frá Davíð komið, frá því löngu fyrir hrun.  Það var umræða í gangi á sínum tíma um að herða reglur til að draga úr þessum veðlánum (gera þau eilítið erfiðari/kostnaðarsamari fyrir bankana) og mig minnir að það hafi verið gert.  En prinsippið var látið standa óhreyft.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 20.1.2009 kl. 23:34

20 Smámynd: Kristján Þór Gunnarsson

Þetta nafn held ég að hafi fyrst komið fram hjá Davíð í Kastljós þættinum fræga eftir að ríkið tók yfir 75% af Glitni. Það er eflaust rétt að allir í " bransanum " hafi vitað af " ástarbréfum " í skuldabréfabransanum. Hitt er annað; var nokkur með heildaryfirsýn yfir umfangið og tengslin við hluthafa/starfsmenn ?

Kristján Þór Gunnarsson, 20.1.2009 kl. 23:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband