Hvað ber að gera?

Á árum áður sótti ég flokksþing Alþýðuflokksins, blessuð sé minning hans, og einu sinni var ég nokkurs konar ritstjóri draga að ályktunum sem lagðar voru fyrir þingið.  Þá fékk ég texta frá undirbúningsnefndum og samræmdi umbrot, stafsetningu og málfar.  Oft var þessi texti voðalega þunnur þrettándi eins og gjarnan vill verða hjá stjórnmálamönnum.  Þar var "stefnt að" og "lagt áherslu á" margt og einkum að vera góðir við börn og gamalmenni, að því ólöstuðu vitaskuld.  Mig grunar að sáttmáli nýrrar stjórnar sé skrifaður á svona pólitísku loðmullumáli og eflaust vill nó-nonsens náungi eins og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sjá meira kjöt á beinunum.  Lái ég honum það ekki.

En hvað þarf að vera í sáttmálanum?

  • Í efnahagsmálum þarf að sjálfsögðu að fá faglega stjórn í Seðlabankann og maður á borð við Má Guðmundsson myndi gefa okkur nauðsynlegan trúverðugleika.
  • Forgangsmál er að kortleggja erlenda fjárfesta sem fastir eru í krónunni og semja við þá um útgönguleiðir, annað hvort með kaldri sturtu (rífa plásturinn af) eða hægari aðferðum.  Ef nota þarf AGS lán til að greiða þeim gjaldeyri, þá verður svo að vera. Gjaldeyrishöftum verði strax aflétt í kjölfarið.
  • Ganga þarf með hraði frá skiptingu milli gömlu og nýju bankanna og láta nýju bankana taka erlendar skuldir heimila og fyrirtækja yfir í krónu.  Síðan er gefið út skuldabréf frá nýju bönkunum yfir í þá gömlu fyrir mismun yfirtekinna eigna og skulda, þannig að gjaldeyrisjöfnuður nýju bankanna sé á sléttu.
  • Þá þarf að leggja nýju bönkunum til vænan skammt af eigin fé með því að prenta krónur.  Rætt hefur verið um 10% en ég held að skynsamlegt sé að það sé meira, jafnvel 15-20%.  Eins og kunnugt er gera bankar sirka 10 krónur í lánsfé úr hverri 1 krónu í eigin fé, og ekki veitir af.
  • Svo þarf að lækka vexti niður í nánast ekkert, sbr. Bandaríkin.
  • Bankarnir þurfa að fá umboð skv. skýrri aðferðafræði til að endursemja um og/eða afskrifa hluta skulda (eða setja inn í "afskriftasjóð"), án þess að hlustað sé á væl um að "afskrifa skuldir auðmanna".  Atvinnulífið verður að komast í gang, fyrirtækin verða að starfa, einhver verður að stjórna þeim og hafa hvata af góðum rekstri, og fólk verður að hafa vinnu.
  • Skorin verði niður fita í ríkisrekstri en nauðsynlegar almannatryggingar, heilbrigðisþjónusta og skólakerfi látið að mestu í friði.
  • Krónur verði prentaðar ef þarf til að standa undir óskertum atvinnuleysisbótum, vaxtabótum og öðrum lykil-jöfnunarfærslum í samfélaginu.
  • Stjórnlagaþing endurskoði stjórnarskrá, aðskilji betur valdþætti og leyfi persónukjör til þings þvert á flokkslista. Stjórnarskrá verði breytt í næstu kosningum til undirbúnings ESB aðildar í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu þar um.

Markmið þessara aðgerða er (a) að lágmarka skaðann á raunhagkerfinu, þ.e. hagkerfi vöru og þjónustu í íslenskri krónu, sem þrátt fyrir allt er lítið og yfirsjáanlegt og því hægt að handstýra nánast frá mánuði til mánaðar; og (b) að bæta lýðræðið og stjórnkerfið í ljósi reynslunnar.

Og svo verði að sjálfsögðu tryggð festa og sýn til framtíðar með því að sækja um aðild að ESB og stefna inn í evruna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haraldur Hansson

Prýðilega færsla sem byrjar vel, verður enn betri, en endar illa. Þá á ég við þá einangrunarstefnu að vilja fara með Ísland inn í ESB. Ástæðurnar eru fimm:

  1. Ekkert er verra en ESB
  2. Ekkert er verra en ESB
  3. Ekkert er verra en ESB
  4. Ekkert er verra en ESB
  5. Ekkert er verra en ESB

Frekar en að skrifa langloku til rökstuðnings vísa ég á þessa bók. Hún er á pdf formi og ókeypis. Þetta er Reader-Friendly Edition þar sem dregið er fram hvernig Evrópusambandið mun breytast með Lissabon samningnum. Skrifað af Jens-Peter Bonde. Mjög skýr framsetning.

Það þarf bara að lesa þetta yfir vopnaður óskertri dómgreind og heilbrigðri skynsemi, þá verður lesandanum ljóst að það Evrópusamband sem er í burðarliðnum er síður en svo góður kostur fyrir Ísland.

Haraldur Hansson, 30.1.2009 kl. 20:51

2 identicon

Ég held að það mikilvægasta sem þurfi að gera er að koma ró á mannskapinn.

Það væri t.d. hægt að gera með því að lýsa því yfir að menn viti ekki almennilega skalann á vandamálinu sem glíma þurfi við, hvað skuldastöðu einstaklingana varðar, og að því hafi verið ákveðið að bíða og sjá til hvernig aðrar aðgerðir virki.

EF verðbólgan fer niður og gengið kemst í eitthvað sem nálgast eðlilegt ástand, þá er hægt að horfa um öxl á kúfinn og finna út úr því hvernig skynsamlegast sé að dreifa úr skítnum.

Því væri skynsamlegt að segja sem svo; það fer enginn einstaklingur í gjaldþrot á þessu ári. Liðið sem afgreiðir slíkt er bara upptekið við annað. Á næsta ári vitum við hver kúfurinn er og þá getum við fundið út úr því hvort hægt sé að semja um skuldir, fella eitthvað niður, breyta um mynt á lánunum eða eitthvað.

Auðvitað á eftir að koma í ljós að einhverjir hafi ekki efni á því að búa í því húsnæði sem þeir búa nú í, en á næsta ári verður væntanlega orðinn til fasteignamarkaður aftur, þannig að hægt sé að selja eignir, minnka við sig osfrv.

Ef ró næst á mannskapinn, þá er hægt að einhenda sér í að skapa þau störf sem upp á vantar.

Tóti (IP-tala skráð) 30.1.2009 kl. 21:01

3 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

heimskt er heimaalið barn Haraldur!

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 31.1.2009 kl. 00:01

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Merkilegt nokk af Evrópusinna að vera, þá vil ég kappkosta að koma hagkerfinu yfir í krónu að því marki sem mögulegt er, sem fyrst, til undirbúnings skammtímaaðgerða í hagstjórn.  Þess vegna vil ég færa erlend lán yfir í íslensk við flutninginn úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju.  Þegar íslenska raunhagkerfið er að mestu komið yfir krónu er hægt að vinna með það og stilla af peningamagn í umferð, vexti og afskriftir lána þannig að skaðinn í okkar daglegu vöru- og þjónustuviðskiptum verði sem minnstur.  Talsverður skaði er óhjákvæmilegur vegna erlendrar skuldastöðu þjóðarbúsins, en innlenda partinn er hægt að ráða við með réttri hagstjórn.

Það hjálpar okkur svo að komast inn í ERM II og loks í evruna, þar sem líkur á kollsteypu minnka um allan helming.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 31.1.2009 kl. 00:37

5 identicon

Flott ef hægt er að leysa hluta vandans með því að prenta peninga. En ef við lítum á peninga sem vöru sem um þessar mundir er talsver offramboð af allavega gagnvart erlendum glandmiðlum og lýsir sér í mjög lágu gngi ISK. Mundum við ekki vera að viðhalda lágu gengi eða jafnvel sökkva því enn neðar með að prenta krónur og þá með tilheirandi verðbólgu og veseni? Hvað heldur þú?

Eirikur (IP-tala skráð) 31.1.2009 kl. 00:38

6 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Lágt gengi krónunnar núna stafar ekki af miklu peningamagni í umferð, og það myndi ekki endilega lækka það að auka peningamagnið, sérstaklega ef jöklabréfaeigendur hefðu verið leystir út fyrst.  Til lengdar versnar samkeppnisstaða okkar ef við leyfum verðhjöðnun og skaða á raunhagkerfinu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 31.1.2009 kl. 12:20

7 identicon

Takk fyrir fjölda góðra færslna í vetur.

Svona fyrir forvitnis sakir: Hvað er þér efst í huga þegar þú talar um fitu í ríkisrekstri?

Andri Ólafsson (IP-tala skráð) 31.1.2009 kl. 18:56

8 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Andri, nú verð ég að svara þér eins og stjórnmálamaður... en ríkisútgjöld hafa vaxið verulega á síðustu árum, og sumt af því er talsvert góðæriskennt, þ.e. útgjöld sem menn myndu ekki leyfa sér í erfiðara árferði.  Ein einföld aðferð væri að bera saman útgjöld ríkisins nú miðað við eitthvað fyrra ár, segjum 2003, líta fyrst á þá liði sem mest hafa aukist, og velta fyrir sér hvort þar hafi örugglega verið brýn nauðsyn.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 31.1.2009 kl. 19:29

9 Smámynd: Baldvin Jónsson

Ágætar vangaveltur hérna Vilhjálmur.

Þó að ég reyndar skuldi ekki persónulega mikið í erlendri mynt, er ég þó engu að síður ósammála hugmyndinni þinni með að flytja öll erlend lán yfir í íslenska mynt, að því undanskildu að við slíkan flutning taki lánastofnunin á sig a.m.k. helming skaðans sem gengishrunið á árinu 2008 hefur valdið lántakendum. Almennir neytendur eru mjög líklega með vinnanlegt dómsmál í höndunum þar, þar sem að kynntar forsendur fyrir lánveitingu eru gjörsamlega brostnar og líklega tóku lánveitendurnir sjálfir þátt í því að fella krónuna. Að færa lánin í íslenskar krónur ætti því ekki að samþykkja nema á þeim forsendum að lánastofnunin beri einnig hluta ábyrgðar.

Og smá athugasemd varðandi útlán bankanna. Þú nefnir að 1 króna í innlán verði u.þ.b. 10 krónur í útlán. Það er ekki alveg sannleikanum samkvæmt nema að bindisskylda bankanna sé 10%, og reyndar í afar einfaldri mynd - talið er að raunin í hagkerfinu í heild sé að við 10% bindisskyldu sé hver króna í innláni u.þ.b. 99 krónur í útláni á endanum. Bindiskyldan hér heima var hins vegar aðeins 2% síðast þegar ég vissi og útlána möguleikinn því fimm sinnum meiri. Hvort sem að það er síðan gott eður ei.

Algerlega sammála þér með fituna á ríkisrekstrinum. Hef því miður ekki tölurnar hjá mér lengur, en það lá fyrir vorið 2007 að þá hafði ríkið AUKIÐ útgjöld sín upp í um 50% af tekjum sínum og það í miðjum góðæris tíma. Báknið var í raun að vaxa á sama tíma og flest okkar töldu að það væri verið að draga úr ríkisrekstri.

Baldvin Jónsson, 3.2.2009 kl. 22:46

10 identicon

Þetta hljómar allt skynsamlega, vitaskuld að því frátöldu að það er hvorki trúverðugt né farsælt að lauma inn skrefum til að færa Ísland nær innlimun í Stórríki gömlu nýlenduveldanna.  Við gerð stjórnlaga þarf sem mesta samstöðu og hún fæst aldrei ef þar er hópur manna sem hefur helst að markmiði að grafa undan sjálfstæði Íslands, lýðræði og koma á hervæðingu.

Haraldur Ólafsson (IP-tala skráð) 5.2.2009 kl. 16:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband