Er vafi um ábyrgð ríkisins á innlánstryggingum?

Nafntogaðir íslenskir lögmenn, og leikmenn, hafa haldið því fram að vafi leiki á því að ríkið beri ábyrgð á Tryggingasjóði innstæðueigenda, ef á hann fellur skuldbinding umfram þá fjárhæð sem í honum er.

Lögin um Tryggingasjóðinn byggja á tilskipun Evrópusambandsins nr. 94/19/EC.  Þar er lagt fyrir aðildarríki að leiða í lög, eða tryggja með öðrum fullnægjandi hætti, að fyrir hendi sé samræmd lágmarks-trygging innistæðna í bönkum og fjármálafyrirtækjum.

Í tilskipuninni eru tilteknar ýmsar forsendur, m.a. að aðildarríki beri ábyrgð á að fylgjast með eiginfjárstöðu (solvency) fjármálastofnana sinna.  Þessar stofnanir megi reka útibú í öðrum aðildarlöndum, og slík útibú þurfi ekki sérstakt leyfi í gistilandinu, heldur sé starfsleyfi og eftirliti heimalandsins treyst.

Á fjölmörgum stöðum er svo gengið út frá því sem gefnu að tryggingakerfið greiði út trygginguna fljótt og vel og engar refjar.  Kjötið þar er m.a. í eftirfarandi greinum:

  • Grein 7.1. Deposit-guarantee schemes shall stipulate that the aggregate deposits of each depositor must be covered up to ECU 20 000 in the event of deposits' being unavailable.
  • Grein 10.1. Deposit-guarantee schemes shall be in a position to pay duly verified claims by depositors in respect of unavailable deposits within three months of the date on which the competent authorities make the determination described in Article 1 (3) (i) or the judicial authority makes the ruling described in Article 1 (3) (ii).

Almennt er í forsendum tilskipunarinnar áréttað að samræmingin nái (innan skamms tíma frá innleiðingu tilskipunarinnar) til þess að tryggja greiðslur úr tryggingakerfum miðað við samræmda lágmarksupphæð:

  • Whereas harmonization must be confined to the main elements of deposit-guarantee schemes and, within a very short period, ensure payments under a guarantee calculated on the basis of a harmonized minimum level;

Þá er einnig sagt að tilskipunin þurfi ekki að leiða til þess að ríki séu skuldbundin gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að tryggingakerfi sem tryggi bætur eða vernd innstæðueigenda samkvæmt skilmálum tilskipunarinnar hafi verið sett á fót og opinberlega viðurkennd (hér er einkum átt við ríki sem voru þegar með tryggingakerfi uppsett áður en tilskipunin tók gildi):

  • Whereas this Directive may not result in the Member States' or their competent authorities' being made liable in respect of depositors if they have ensured that one or more schemes guaranteeing deposits or credit institutions themselves and ensuring the compensation or protection of depositors under the conditions prescribed in this Directive have been introduced and officially recognized; 

Styrrinn hefur ekki síst staðið um fjármögnun Tryggingasjóðsins, komist hann í þrot.  Um þetta segir m.a. í tilskipuninni að fjármögnunarmöguleikar tryggingakerfis aðildarlands verði að vera í hlutfalli við skuldbindingar þess (þ.e. kerfisins).  Þá er sagt að fjármögnunarfyrirkomulagið megi þó ekki verða til þess að setja stöðugleika bankakerfis ríkisins í hættu.

  • Whereas it is not indispensable, in this Directive, to harmonize the methods of financing schemes guaranteeing deposits or credit institutions themselves, given, on the one hand, that the cost of financing such schemes must be borne, in principle, by credit institutions themselves and, on the other hand, that the financing capacity of such schemes must be in proportion to their liabilities; whereas this must not, however, jeopardize the stability of the banking system of the Member State concerned;

Nú er ég vissulega bara amatör-lögfræðingur, en ég fæ ekki séð, af þessu, hvaðan menn sækja þá skoðun að markverður vafi leiki á skyldu ríkisins til að tryggja útgreiðslu lágmarks-innlánstryggingarinnar.  Ég myndi a.m.k. ekki þora að bíða í von og óvon í mörg ár með allt á hælunum og laskað lánstraust eftir því að gerðardómur - tala nú ekki um Evrópudómstólinn - kæmist að þeirri langsóttu niðurstöðu að Íslendingar hefðu uppfyllt þessa tilskipun með sjóði sem innihélt 1% af innistæðum banka, og basta.

Ferlegt, en mér sýnist að við verðum að bíta í það súra epli.  Sem ég skrifa á reikning Landsbankans, stjórnar Tryggingasjóðs, FME og Seðlabankans.


Ráð í ríkisfjármálum

Verkefnið framundan í ríkisfjármálum er risavaxið: að ná niður - á þremur árum - halla sem stefnir í 170 milljarða króna í ár.

Í dag voru kynntar ráðstafanir og áætlanir varðandi þetta ár og næsta.  Á næsta ári þarf að laga afkomu ríkissjóðs um a.m.k. 56 milljarða, með skattahækkunum og niðurskurði.

Þetta sést vel á eftirfarandi línuriti, sem sýnir tekjur og gjöld ríkissjóðs undanfarin ár, á föstu verðlagi (eins og það var í ársbyrjun 2009). Til frekari glöggvunar hafa vaxtagjöld verið tekin "út fyrir sviga", þ.e. bæði út úr tekjum og gjöldum.  Þau er hvort sem er ekki hægt að skera niður og skýrara að horfa á myndina án þeirra.

Tekjur og gjöld ríkissjóðs (án vaxta)

Eins og sjá má á grafinu má orða verkefnið þannig að samneysluna (gjöldin) þurfi að færa niður í það sem þau voru sirka á árabilinu 1998-2001, að því gefnu að einhverjar skattahækkanir komi á móti.

Í þessu sambandi hefur mjög athyglisverð hugmynd verið nefnd í umræðunni, m.a. í efnahagstillögum þingflokks Sjálfstæðisflokksins.  Hún er sú að skattleggja iðgjöld lífeyrissjóða, en gera útgreiddan lífeyri skattfrjálsan.  Inngreiðslur í lífeyrissjóði á þessu ári verða nálægt 150 milljörðum, en útgreiddur lífeyrir um 50 milljarðar.  Ef stofnuð er ný deild með skattlögðum iðgjöldum, en skattfrjálsum útgreiðslum, myndar sú deild skattstofn upp á 150 milljarða króna á ári og má áætla að tekjuskattur af þeim peningum gæti numið 35-50 milljörðum eftir því hvernig persónuafsláttur kemur á móti.

Það kemur í sama stað niður fyrir lífeyrisþega hvort skattarnir eru teknir af inngreiðslum í sjóðinn eða af útgreiðslum.  Hins vegar er þetta fyrirkomulag aðeins hagstæðara fyrir ríkissjóð meðan inngreiðslur eru meiri en útgreiðslur, þ.e. meðan aldurspýramídinn er "réttur".  Þegar þjóðin eldist verður fyrirkomulagið smám saman óhagstæðara.

En í ljósi efnahagsástandsins í dag, og þess að það er öllum í hag að lágmarka skuldir ríkisins, styðja lánshæfismat ríkissjóðs og verja hag heimilanna um þessar mundir, þá er þetta ráðstöfun sem ég tel borðleggjandi að grípa til í stöðunni.


Allt sem þú hefur viljað vita um gagnaver...

... en ekki þorað að spyrja um?  Hér er ný grein úr New York Times Magazine sem fjallar ítarlega um gagnaverin sem hýsa Google, Facebook, Hotmail, Flickr, kauphallir, veðurlíkön, olíuleitarútreikninga, krítarkortafærslur, erfðamengi mannsins, og tölvurnar sem teiknuðu Wall*E.

Í greininni er minnst á marga þá þætti sem gera Ísland að frábærum stað fyrir gagnaver: gnótt af grænni orku, ódýr náttúruleg kæling, og staðsetning mitt á milli lykilmarkaða N-Ameríku og Evrópu.

Talið er að nálægt 2% af allri raforku sem notuð er í Bandaríkjunum fari til gagnavera, og hlutfallið fer hækkandi.  Í dæmigerðu gagnaveri í hlýju loftslagi þarf 80 W af raforku til að kæla niður hver 100 W sem notuð eru í tölvunum sjálfum.  Á Íslandi mun þurfa innan við 20 W í sama skyni, enda aðeins örfáa daga á ári sem nota þarf orku til að breyta hitastigi lofts úr umhverfinu.


Sjálfstæður eða fjölþjóðlegur gjaldmiðill: hvað hentar Íslendingum best?

Því er gjarnan haldið fram að gott sé fyrir hagkerfi að hafa sinn eigin gjaldmiðil.  Ýmis rök og sjónarmið eru nefnd því til stuðnings, en álitamálin eru mörg.

Til að varpa frekara ljósi á þetta mál þarf lengri texta en rúmast í bloggfærslu eins og þessari.  Ég tók mig því til og skrifaði grein sem nálgast má hér fyrir neðan á PDF formi, þar sem ég lýsi stöðunni eins og hún kemur mér fyrir sjónir.

Í henni er fjallað um sjálfvirka sveiflujöfnun utanríkisviðskipta, temprun verðlags með hjálp stýrivaxta, vaxtastig almennt, kosti og ókosti peningaprentunar, og ýmis önnur atriði sem umfjöllunarefninu tengjast. Færð eru rök fyrir því að eigin gjaldmiðill sé vandmeðfarið verkfæri, og að gallar þess vegi þyngra en kostirnir í þeirri stöðu sem Íslendingar eru þessa dagana.

Greinin er hugsuð sem framlag til rökræðunnar, og gagnrýni og athugasemdir eru vel þegnar.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nýtt portrett

Hér er portrettið sem ég hef verið að vinna í undanfarið.  Ný mynd af Kötlu (sem ég hef áður málað), í þetta sinn stærri.  Reyndar stærsta portrett sem ég hef gert til þessa, olía á striga, 60x70 cm.

Katla - nýtt portrett

Ég er að spá í að halda áfram með jakkann o.fl. smáatriði.  Set væntanlega endanlega útgáfu á bloggið!  (Athugið að litir verða því miður ekki endilega réttir á öllum skjám og vefrápurum.)


Hver á húsnæðislán landsmanna?

Húsnæðisskuldir landsmanna hafa verið mjög til umræðu undanfarna mánuði, enda mikill þrýstingur á einhvers konar niðurfærslu höfuðstóls og/eða bakfærslu verðbóta.  Framsóknarflokkurinn hefur haldið fram 20% "leiðréttingu" sem yrði, að sögn, að mestu á kostnað kröfuhafa bankanna, og Hagsmunasamtök heimilanna og jafnvel umboðsmaður neytenda hafa lýst svipuðum hugmyndum.

En á hvers kostnað yrði slík "leiðrétting"?  Hver á eiginlega verðtryggðar húsnæðisskuldir landsmanna?

Smellið til að sjá stærri útgáfu

Á myndinni eru milliliðir með sægrænum lit en endanlegir eigendur með bláum lit.

  • Í nýlegri skýrslu starfshóps Seðlabankans um skuldir heimilanna, sem er athyglisverð lesning, kemur fram að heildarupphæð skulda með veði í húsnæði sé 1.430 milljarðar.  Það er ekki skýrt af textanum hvort þar sé atvinnuhúsnæði meðtalið.  En í öllu falli fæst með frádrætti að húsnæðisskuldir heimilanna í gömlu bönkunum voru ekki meiri en 443 milljarðar, og sennilega voru þær minni.
  • Kaupþing og Glitnir höfðu nefnilega pakkað inn stórum hluta húsnæðisveðlána sinna í svokölluð sértryggð skuldabréf (covered bonds).  Þessi skuldabréf voru svo seld áfram eða veðsett í Seðlabankanum í endurhverfum viðskiptum (REPO).  Seðlabankinn eða ríkissjóður er væntanlega eigandi stórs hluta þessa safns í dag.  Um er að ræða 84 milljarða frá Kaupþingi og 65 milljarða frá Glitni.
  • Lífeyrissjóðir eiga meira en helming allra útistandandi lána Íbúðalánasjóðs, eða 339 milljarða (HFF, IBN og IBH bréf).  Að auki hafa þeir lánað sjóðfélögum sínum 169 milljarða fyrir húsnæði.  Samtals eiga því lífeyrissjóðir beint og óbeint verðtryggðar húsnæðisskuldir upp á 508 milljarða.
  • Aðrir fjárfestar eru m.a. peningamarkaðssjóðir og skuldabréfasjóðir, sem lífeyrissjóðir eiga einnig bréf í til viðbótar fyrri tölu.

Þá liggur beint við að spyrja: 20% niðurfelling skulda, eða samsvarandi bakreikningur vísitölu, myndi kosta lífeyrissjóðina, þ.e. lífeyrisþega nútíðar og framtíðar, yfir 100 milljarða, og Seðlabankann/ríkið verulegar fjárhæðir til viðbótar.  Er það skynsamlegasta ráðstöfun þessa fjár í stöðunni? Eða er betra að beita takmörkuðu fjármagni til hagsbóta þeim skuldurum sem eru verst settir?

Fyrirvari: Upplýsingar voru unnar upp úr Markaðsvakt Teris, vef Seðlabankans, og fréttakerfi OMX Nasdaq á Íslandi, og miðast við nýjustu fáanlegar tölur.  Nokkur óvissa getur verið í tölum, en stærðargráður og vísbendingar eiga að vera réttar. Athugasemdir og leiðréttingar velkomnar.


Vil halda því til haga...

... af því að tímarnir hafa verið sérstakir á Íslandi undanfarið, og ekki alltaf ráðrúm til að melta erlendar fréttir, að 2. apríl síðastliðinn var í Bandaríkjum Norður-Ameríku birt plagg nokkurt sem verðskuldar athygli.

Þar er um að ræða skýrslu sem dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna tók saman um yfirheyrsluaðferðir C.I.A.  Skýrslan var gerð opinber að skipun Obama forseta.

Þar kemur m.a. fram að leyniþjónustan notaði aðferð sem kölluð er "waterboarding".  Þá eru vatn og blaut handklæði notuð á liggjandi og bundinn fanga, þannig að framkölluð er drukknunar- og köfnunartilfinning uns ósjálfráð viðbrögð líkamans hefjast.  Myndband af þessu athæfi má sjá hér.

Í ágúst 2002, sem sagt á einum mánuði, notuðu starfsmenn leyniþjónustunnar þessa pyntingaraðferð á einn af samstarfsmönnum Osama bin Laden, Abu Zubaydah, a.m.k. 83 sinnum.  Það er næstum því þrisvar á sólarhring að meðaltali allan mánuðinn.  Þá var Zubaydah geymdur í klefa með skordýrum, en hann mun vera haldinn skordýrafælni.

Í mars 2003 notuðu starfsmenn CIA pyntingaraðferðina 183 sinnum á Khalid Shaikh Mohammed, sem er talinn vera einn aðalskipuleggjandi hryðjuverkaárásanna 11. september.  Það eru sem sagt 6 skipti á sólarhring allan mánuðinn.

Ég held ég sleppi því að segja nokkuð frekar um þetta, en skil það eftir sem æfingu fyrir lesendur að velta fyrir sér mannlegu siðferði.


Nokkrar athugasemdir við grein Michael Hudson

Íslandsvinurinn og hagfræðingurinn Michael Hudson var að birta grein um stöðu mála á Íslandi, "Will Iceland be Handed over to a New Gang of Kleptocrats?", eða "Mun Ísland verða fært nýjum þjófahópi á silfurfati?".  Þetta er snöfurlega skrifuð grein og margt gott í henni, en hún væri samt betri ef allar lykilstaðreyndir væru réttar.  Það sem ég hnaut um var eftirfarandi:

  1. Skattborgarar eru ekki að greiða skuldir bankanna, það er einmitt íslenska trixið.
  2. Það á eftir að koma í ljóst hvernig Icesave verður leyst, þ.e. hversu mikið lendir á Íslendingum og þá á hvaða vaxtakjörum.
  3. Stærstu eigendur verðtryggingar eru lífeyrissjóðir, þ.e. eftirlaunasjóðir fólksins í landinu, sem eru fyrir vikið mjög öflugir.
  4. Það er vitað hvað bankarnir skulduðu, þær upphæðir liggja fyrir.
  5. Bretar heimta ekki "no capital loss at all", heldur "aðeins" 20.887 EUR innistæðutryggingu á hvern innlánsreikning.  Breska ríkið bætti tap upp í 50.000 GBP og innistæðueigendur töpuðu innistæðum umfram þá upphæð.
  6. Það hefur aldrei staðið til að nota AGS lán til að greiða útlendingum.
  7. Upptaka evru mun augljóslega gefa verðstöðugleika og færi á afnámi verðtryggingar, það eru engin rök í greininni fyrir fullyrðingu um hið gagnstæða.
  8. ESB ásælist enga kvóta úr íslenskum fiskistofnum, þeim verður úthlutað á grunni veiðireynslu og fara áfram til Íslands.
  9. Það er enginn að tala um að fara fram hjá Alþingi við ákvörðun um að ganga í ESB, og að líkja ferlinu við Íraksmálið er fjarstæða.

En greining Hudsons á kvótakerfinu er snilld.


ESB og evra: það er engin Áætlun B

Gjarnan hefði ég viljað að fyrri ríkisstjórnir þekktu sinn vitjunartíma og sæktu um aðild að ESB, helst við hlið Svía og Finna á sínum tíma.  En af séríslenskri sveitamennsku og sérvisku var það ekki gert.

Nú sitjum við í djúpri gjaldmiðilskreppu til viðbótar við bankakreppu.  Og enn eru menn að berja hausnum við steininn í afneitun þegar kemur að grundvelli efnahagsstefnunnar, peningamálastefnunni.   Það gleymdist meira að segja að fjalla um þetta stórmál í formannaþætti RÚV á föstudagskvöld.

Þetta er langmikilvægasta viðfangsefni íslenskra stjórnmála um þessar mundir.  Með réttri stefnu eigum við varðaða leið út úr kreppunni.  Með rangri stefnu völdum við stórskaða á íslensku efnahagslífi og lífskjörum, og þar með velferðarkerfinu, til langrar frambúðar.

Það er stærðfræðilega ómögulegt að halda í krónuna, lækka vexti og aflétta gjaldeyrishöftum.  Innistæður í íslenskum bönkum nema 1.200 milljörðum króna.  Útistandandi ríkis- og íbúðabréf eru álíka upphæð.  Ef vextir eru lækkaðir og höftunum aflétt, leitar meirihluti þessa fjár til útlanda, eins hratt og auðið er. (Brennt barn forðast eldinn.)  Krónan veikist verulega og varanlega, með tilheyrandi verðbólgu.  Þetta myndi rústa því sem eftir er af atvinnulífinu.  Við missum vel menntað fólk, forystu-fyrirtæki og sprota úr landi.  Hjá stórum alþjóðlegum banka sem ég þekki er krónan meðhöndluð eins og eiturefnaúrgangur og lögfræðideildin bannar að tekin sé gagnaðilaáhætta á íslenska banka.  Halda menn að það sé hægt að reka hagkerfi til langframa í svona gjaldmiðli?

Það er ekki hægt að taka upp annan gjaldmiðil einhliða.  Við eigum ekki gjaldeyrisforða til að geta skipt þessum áðurnefndu milljörðum, og engum erlendum seðlabanka dettur í hug að gefa okkur 20-30 milljarða dollara "af því bara".  Þeir sem halda þessu fram sem valkosti eru annað hvort að blekkja eða bulla.

Eini kosturinn í stöðunni er að stefna á evru með aðild að ESB.  Þá yrði krónum skipt út fyrir evrur í boði evrópska seðlabankans. Við fengjum lága vexti, lága verðbólgu, og gætum lagt af verðtryggingu.  Rekstrarumhverfi fyrirtækja yrði það sama og annars staðar í Evrópu, og við gætum hætt að hugsa um gjaldeyrisbrask og notið okkar kosta sem ung, vel menntuð og vinnusöm þjóð, með nægt landrými, græna orku og gjöfula náttúru.

Það er engin áætlun B.  Nema stórefling íslensks heimilisiðnaðar og útvíkkun Árbæjarsafns að strandlengjunni.   Margir í VG væru sáttir við þá framtíðarsýn, en ekki ég.


Framsóknarleiðin er torfær - en það getur verið bjart framundan

Ég kom eflaust ýmsum á óvart með því að taka tiltölulega jákvætt í hugmyndir Framsóknar um niðurskrift skulda.  Í pistli um það mál sagði ég þó að bíða þyrfti niðurstöðu úr mati endurskoðenda á afskriftum lánasafna bankanna, áður en hægt væri að leggja endanlegt mat á raunhæfnina.

Síðan hefur ýmislegt skýrst, þótt mat endurskoðenda liggi ekki enn fyrir.  Og staðreyndir málsins virðast því miður ekki jákvæðar fyrir hugmyndir Framsóknar (og landsmenn).

Framsóknarhugmyndirnar byggja að verulegu leyti á því að lánasöfn séu afskrifuð hvort sem er, fyrirfram, á kostnað lánardrottna gömlu bankanna, áður en þau eru færð til nýju bankanna.  Nýju bankarnir geti því innheimt t.d. 80 kr af hverjum 100 kr höfuðstóls, án þess að tap þeirra verði endilega í sama hlutfalli, og jafnvel verði það ekkert ef hagkerfið tekur við sér af þessum völdum.

En vandinn er sá, að stór hluti íbúðalána er beint frá Íbúðalánasjóði og þar eru engir erlendir kröfuhafar sem taka tap af afskriftum, heldur skattborgarar.  Annar hluti er frá lífeyrissjóðum, þar sem svipað gildir: þeir sem tækju tapið væru lífeyrisþegar.  Og loks hef ég heimildir fyrir því úr fleiri en einni átt í bankageiranum, frá fólki sem þekkir vel til, að Seðlabanki Íslands á íbúðalánasafn Kaupþings - ekki gamli Kaupþing banki.  Afskrift þar lendir því einnig, óbeint, á skattborgurum.  Það eru þá aðeins íbúðalán Glitnis og Landsbanka sem eru í eigu kröfuhafa og afskrifast með þeim hætti sem Framsókn hefur talað um.  Þá er nú lítið eftir af fiffinu.

Nokkur umræða hefur orðið vegna "dómsdagsspár" Sigmundar Davíðs um miklar afskriftir lánasafna sem standi til.  Hann hefur nefnt að af 14.400 milljarða útlánum sé allt afskrifað nema 2.000 milljarðar sem standi eftir í nýju bönkunum.  Þetta sé til marks um að atvinnulíf á Íslandi sé gjörónýtt.

Ég horfi öfugt á þetta miðað við Sigmund.  Það er gott fyrir íslenskt efnahagslíf, og nýju bankana, að lánasöfnin séu afskrifuð hressilega í millifærslunni og komi þannig inn í reikninga nýju bankanna.  Aðeins þá eiga bankarnir góða möguleika á að vinna úr þessum eignum með lágmarks áhættu á tapi, og hámarks svigrúmi til að semja um skuldir við fyrirtæki og heimili.  Miklar afskriftir eru því góðar, ekki vondar.  En vandinn verður að sannfæra kröfuhafa gömlu bankanna um að taka þær á sig.

Svo bendi ég á mjög góða grein Gylfa Magnússonar viðskiptaráðherra í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins (ég styð Gylfa áfram í embætti!).  Þar er farið skýrt og skilmerkilega yfir stöðu mála og talinn kjarkur í landsmenn.  Ekki veitir af.  En ef við höldum rétt á málum, tökum upp aðildarviðræður við ESB og stefnum á evruna, þá eigum við alla möguleika á að koma vel undan kreppunni og reyndar betur en margar aðrar þjóðir.  Ég geri lokaorð Gylfa að mínum:

Það er hins vegar engin ástæða til svartsýni þegar til lengri tíma er litið. Lífskjör á Íslandi ættu eftir sem áður að verða með þeim allra bestu í heimi. Vel menntuð og ung þjóð, með sterka menningu, trausta lýðræðishefð, góða innviði og ríkulegar náttúruauðlindir. Ekkert af þessu hefur farið forgörðum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband