6.9.2009 | 23:07
Vakning gegn nautheimska nafnleysingjahernum
Síðustu daga hefur orðið tímabær vakning gegn nafnlausum ritsóðum í bloggheimum. Fréttablaðið leggur opnu undir málið um helgina og segir að sjálfur Egill Helgason, yfirpáfi helsta nafnleysingjahersisns, hugleiði að loka fyrir ónafngreinanlegar athugasemdir á bloggi Silfurs Egils. Guðmundur Magnússon ritstjóri Eyjunnar er greinilega líka kominn með kalda fætur, enda aðeins tímaspursmál hvenær hann mun sæta ritstjórnarlegri ábyrgð fyrir dómi að óbreyttu, og Björgvin G. Sigurðsson fær samúð eftir ómaklega en dæmigerða árás á mannorð sitt.
Ég er þeirrar skoðunar að framlag hinna nautheimsku nafnleysingja geri lýðræðislegri umræðu mun meiri skaða en gagn. Það kann vissulega að vera að í undantekningartilvikum geri nafnleysið mönnum kleift að setja fram sjónarmið í umræðu sem þeir myndu ekki geta gert undir nafni af einhvers konar hagsmunaástæðum, t.d. vegna vinnu sinnar (þó má deila um gildi slíkra raka). En á móti þessu kemur - og vegur mun þyngra - að flestir nafnleysingjanna nota tækifærið til að geipa um menn og málefni af fullkomnu ábyrgðarleysi, eins og nafnleysið beinlínis gefur umboð til. Það sem sagt er í skjóli nafnleysis er eðli máls samkvæmt aðallega það sem fólk myndi ekki leyfa sér að segja undir nafni.
Afleiðingin er hundleiðinleg og endurtekningarsöm þrætubók eins og sjá má á bloggi Egils, þar sem sömu nafnleysingjarnir fara sama hringinn æ ofan í æ. Hin svokallaða umræða er þar með föst í keldu; staðreyndavillur étur hver upp eftir öðrum; hugarburður, slúðursögur og rógur eru tekin sem sannleikur; og keppt er í samansúrruðum aðdróttunum um glæpi og landráð og notkun upphrópunarmerkja. Allt er þetta beinlínis niðurdrepandi og eykur fólki bölmóð og svartsýni, þegar síst þarf á slíku að halda.
Skoða má reynslu þeirra sem halda úti stórum spjallvefjum fyrir viðskiptavini, t.d. CCP sem rekur netleikinn EVE-Online með 300.000 áskrifendum. Aðeins örfá prósent viðskiptavina einoka gjarnan umræðu á slíkum spjallvefjum með öfgakenndum sjónarmiðum, sem reynslan sýnir að meginþorri viðskiptavinanna er ósammála. Spjallið gefur því ranga mynd af skoðunum heildarinnar og varasamt er að draga ályktanir af framlagi þeirra sem eru afdráttarlausastir í nöldrinu.
Bloggið er afar gott verkfæri fyrir lýðræðislega umræðu og hefur sannað gildi sitt í hruninu. Aukið gagnsæi, jafnvel það sem kalla má vægðarlaust gagnsæi, er það sem koma skal í netvæddu, opnu lýðræði. Bloggið verður eitt af mikilvægustu aðhaldstækjum almennings í framtíðinni. En það þarf að þróast í rétta átt, og stórt skref er að leggja af nafnleysið, sem var og verður vond hugmynd.
22.8.2009 | 15:52
Röng nálgun Icesave kostar 91 milljarð
Í tveimur síðustu bloggfærslum hef ég rætt um þá hugsanavillu sem er í Icesave samningnum varðandi það hvernig eignir Landsbankans muni ganga upp í kröfur íslenska, breska og hollenska innistæðutryggingasjóðsins. Í stað þess að gert sé (réttilega) ráð fyrir að tryggingasjóðirnir gangi inn í kröfu hvers innistæðueiganda, er miðað við að þeir geri (ranglega) nýja og sjálfstæða kröfu fyrir sína hönd í þrotabú bankans. Fyrir þessu er engin lagastoð, heldur gerir Evróputilskipunin beinlínis ráð fyrir að tryggingasjóður gangi inn í upphaflega kröfu (notað er lögfræðihugtakið subrogation), í stað þess að búa til nýja kröfu í búið.
Menn kunna að halda að þarna sé bara orðhengilsháttur á ferð sem engu skiptir. En það er öðru nær.
Ef sú nálgun sem ég tel rétta er notuð, fær Tryggingarsjóður innstæðueigenda 91 milljarði króna meira í sinn hlut úr þrotabúi Landsbankans en nú stendur til, miðað við 75% endurheimtuhlutfall. Munurinn verður enn meiri ef endurheimtur versna.
Það helgast af því að 71.300 breskir Icesave-viðskiptavinir áttu meira en 22.000 pund inni á reikningum sínum, og munu þar af leiðandi fá meira en 16.500 pund í sinn hlut úr búi Landsbankans (75%), sem aftur þýðir að Tryggingasjóðurinn á að fá sína tryggingu óskerta til baka (20.887 EUR er um það bil 16.500 pund). Það gerist hins vegar ekki með aðferðafræði Indriða H. Þorlákssonar og samninganefndar Icesave - þar fær sjóðurinn aldrei nema hámark 12.375 pund í sinn hlut pr. reikning (75% af 16.500), sama hver innistæðan er. Og: ef sjóðurinn fær þrátt fyrir allt meira, af einhverjum ástæðum, er ákvæði í Icesave samningnum um að hann endurgreiði Bretum og Hollendingum mismuninn!
Um Hollendinga gildir að þar áttu 19.200 Icesave-viðskiptavinir meira en 27.849 EUR hver og munu þar af leiðandi fá meira en 20.887 EUR úr búi Landsbankans, sem gerir Tryggingarsjóð skaðlausan, gangi hann inn í kröfu þeirra.
Rétt skal vera rétt. Sú nálgun sem ég lýsi uppfyllir fullkomlega skuldbindingar Íslands skv. Evróputilskipunum og íslenskum lögum. Við semjum ekki af okkur 91 milljarð, bara si-svona.
21.8.2009 | 16:47
Icesave er rangt reiknað
Upplegg Icesave-samningsins, Indriða H. Þorlákssonar og nokkurra lögfræðinga sem skiluðu áliti til fjárlaganefndar, um meðhöndlun forgangskrafna í bú Landsbankans, er rangt - eins og ég fjallaði um í síðustu bloggfærslu.
Til að skýra þetta betur, skulum við taka mjög einfalt dæmi um virknina skv. þessu ranga uppleggi.
Banki fer á hausinn. John English var sá eini sem átti innistæðu í bankanum, að upphæð 10.000.000. Bankinn var illa rekinn, eins og Landsbankinn, og á aðeins 7.500.000 kr. í þrotabúinu upp í innistæðuna.
John fer til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fær þar 2.000.000 kr (rúnnað til einföldunar, í raun er upphæðin um 1,7 milljónir) í innistæðutryggingu.
Síðan gerir John kröfu í búið upp á 8.000.000 (10 mínus 2), en Tryggingasjóðurinn gerir kröfu upp á 2.000.000 sem hann lagði út til hr. English.
Við úthlutun úr búinu teljast allir kröfuhafar jafnstæðir og fá sama endurheimtuhlutfall upp í kröfur sínar, þ.e. 75%.
John fær því 6.000.000 út úr búinu (75% af 8.000.000) og Tryggingasjóðurinn fær 1.500.000 (75% af 2.000.000).
John hefur þá samtals fengið 8.000.000,- til baka (2 í tryggingu og 6 úr búinu). Með öðrum orðum: Tryggingasjóðurinn tryggði John ekki bara fyrstu 2.000.000 af innistæðunni, heldur borgaði honum að auki 500.000 krónur úr vasa skattgreiðenda. Sem John átti engan rétt á, því innistæða hans var umfram tryggingaupphæðina og engin skylda hvílir á sjóðnum eða ríkinu að færa honum fé í þessu tilviki.
Þessi ranga niðurstaða er afleiðing af því að kröfu John er skv. uppleggi Icesave-samningsins skipt í tvennt og gerð að tveimur kröfum, sem á sér enga lagastoð né réttlætingu, hvorki í Evrópureglunum né í íslenskum lögum. Samkvæmt fyrirmælum laga á Tryggingasjóðurinn að ganga inn í kröfu John (subrogation), en hún er eftir sem áður ein krafa. Í því tilviki fær sjóðurinn sínar tvær milljónir til baka og stendur á sléttu, og John fær samtals 7.500.000 út úr búinu eins og vera ber.
Þetta verður að laga, það hafa einhvers staðar orðið afar vond mistök á leiðinni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
20.8.2009 | 11:46
Enn um forgang Icesave-krafna
Eitt af því sem hvað mest hefur verið rætt í Icesave-málinu er hvernig Tryggingarsjóður innstæðueigenda, breski og hollenski innistæðutryggingasjóðirnir, og innlánseigendur sjálfir skipta með sér því sem fæst úr þrotabúi Landsbankans.
Í Icesave samningunum er gert ráð fyrir því að allir ofangreindir aðilar eigi jafnstæðar kröfur í búið og að til þeirra verði úthlutað að jafnri tiltölu eftir kröfufjárhæð þeirra. Það er meira að segja tekið fram að ef úthlutun verður af einhverjum ástæðum ójöfn, þá séu tryggingasjóðirnir sammála um að jafna það út eftir á, sín á milli.
Ragnar H. Hall hrl. og fleiri lögmenn hafa bent á að það sé ekki augljóst að úthlutun úr búinu eigi að vera með þessum hætti. Þeir telja að Tryggingarsjóður eigi alltaf kröfu á fyrstu 20.887 evrur sem hver innistæðueigandi fær í sinn hlut. Sú túlkun leiðir til þess að sjóðurinn fær mun meira úr þrotabúi Landsbankans en ella og tjón skattborgara verður þá minna sem því nemur.
Indriði H. Þorláksson og fleiri hafa túlkað afstöðu Ragnars þannig að verið sé að fara fram á að Tryggingarsjóðurinn hafi aukinn forgang ("super-priority") í þrotabúið. Fjárlaganefnd voru m.a. afhent álit evrópskra og íslenskra lögfræðinga um að slíkur aukinn forgangur væri í andstöðu við jafnræðisreglur og skuldbindingar um sanngjarna meðferð kröfuhafa, og jafnvel bann EES við mismunun eftir þjóðerni (sem eru reyndar rök sem ég skil ekki hvernig eiga við í þessu máli).
Ég tel hins vegar að þetta sé rangur skilningur á ábendingum Ragnars. Það er ekki verið að fara fram á aukinn forgang og það þarf enga lagabreytingu til að ná því fram sem hann bendir á. Það sem þarf er aðeins samningur milli innistæðueiganda og Tryggingarsjóðs um að gegn greiðslu tryggingarinnar framselji innistæðueigandinn fyrstu 20.887 evrur af endurheimt innistæðunnar úr búinu til sjóðsins. Slíkur samningur ætti að vera staðaltexti á eyðublaðinu sem notað er til að fara fram á endurgreiðslu úr Tryggingarsjóðnum.
Svona framsal uppfyllir öll skilyrði EES-reglugerðar um innistæðutryggingar og einnig ákvæði íslensku laganna, en þar stendur einfaldlega: Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi (3. mgr. 10. gr). Með öðrum orðum, sjóðurinn yfirtekur heildarkröfu innistæðueigandans, fær greitt að réttri tiltölu úr búinu, tekur fyrstu 20.887 evrurnar í sinn hlut (sem hann hafði áður greitt út) og skilar rest til innistæðueigandans. Það er engin lagastoð né nauðsyn til þess að skipta kröfunni í tvennt, kröfu innistæðueiganda og kröfu Tryggingarsjóðs. Hér er um að ræða einfaldan samning milli þessara tveggja aðila um skiptingu endurheimtunnar sín á milli.
Þessi aðferð gefur Tryggingarsjóðnum 20.887 evrur upp í allar innistæður sem skila þeirri endurheimt eða hærri, óháð því hvort breski og hollenski sjóðurinn hafi tekið upp á sitt einsdæmi að tryggja hærri upphæðir. Ég sé ekki annað en að hún standist fullkomlega að gildandi lögum og reglum. Engan ofurforgang þarf til.
Ég vona að það sé ekki of seint að koma þessum sjónarmiðum að í umræðuna; hér munar milljarðatugum fyrir skattgreiðendur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (16)
1.8.2009 | 23:21
Umfjöllun þarf ekki að brjóta bankaleynd
Lögbann sem Nýja og gamla Kaupþing hefur fengið fram gagnvart RÚV vegna birtingar lánayfirlits frá 25. september 2008 hefur kallað fram sterk viðbrögð, m.a. frá formanni Blaðamannafélags Íslands, Birni Bjarnasyni og ýmsum bloggurum. Talað er um ritskoðun, almannahagsmuni, "allt upp á borðið" o.s.frv.
Þetta mál er eðlislíkt því þegar Agnes Bragadóttir skrifaði greinar í Mogga í vor og vitnaði í lánabækur Glitnis, en Agnes lenti af því tilefni í útistöðum við Fjármálaeftirlitið.
Ég held að það sé millivegur í þessum málum báðum. Hlutverk rannsóknarblaðamanna er að afla sér víðtækra og haldgóðra grunnupplýsinga um mikilvæg mál, skilja kjarnann frá hisminu og miðla honum með skýrum og skiljanlegum hætti til almennings. Slík miðlun þarf ekki nauðsynlega að innifela smáatriði um fjárhag einstaklinga eða lögaðila, sem vernduð eru af bankaleynd.
Það er til dæmis alveg fullnægjandi blaðamennska að segja að í gögnum sem RÚV hafi undir höndum komi fram að helstu eigendur Kaupþings hafi fengið lán frá bankanum upp á tilteknar upphæðir samtals; eða að tiltekið hlutfall lána bankans hafi verið vegna hlutabréfa í honum sjálfum. Með öðrum orðum, hinar fréttnæmu staðreyndir má eima upp úr frumgögnunum án þess að birta þau öll í smáatriðum. Þar er nefnilega að finna fjárhagsupplýsingar óviðkomandi fólks, til dæmis útlendinga sem hvergi komu nálægt hinu íslenska hruni en voru svo óheppnir að eiga viðskipti við íslenskan banka. Er ekki einmitt hlutverk blaðamanna að vinna fréttir og upplýsingar upp úr gögnum? Er birting frumgagnanna endilega prinsippmál fyrir blaðamenn, ef hún skaðar hagsmuni saklausra?
Hvort sem mönnum líkar betur eða verr, þá er bankaleynd í lögum á Íslandi (58. gr. laga um fjármálafyrirtæki) og brot á henni varða sektum eða fangelsi (112. gr. (b) sömu laga). Enda þarf að hugsa þá hugsun til enda hvað verið væri að bjóða upp á ef henni væri aflétt; þá gætu bankastarfsmenn dreift upplýsingum um þá sem þeim væri í nöp við og reikningsyfirlit frægs fólks yrðu vinsælt lesefni á bloggum. Hins vegar var það tiltekið í lögum um sérstakan saksóknara og rannsóknarnefnd Alþingis að þessar stofnanir hafa aðgang að gögnum óháð bankaleynd, eins og vera ber, og það sama gildir að sjálfsögðu um FME.
Sem sagt: eins í mörgu öðru, er millivegurinn bestur í þessu máli.
Kaupþing fékk lögbann á RÚV | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
23.7.2009 | 18:41
Sjávarútvegsstefna ESB í hnotskurn
Af hverju er ESB yfirleitt með sérstaka sjávarútvegsstefnu? Það er vegna þess að fiskistofnar fara á milli lögsaga aðildarríkjanna, og því er þörf á sameiginlegri stjórn fiskveiða. Ekkert sambærilegt gildir t.d. um fallvötn, jarðhita, olíulindir, skógarnytjar, námur eða vatnsforða, og því fyrirfinnst engin sameiginleg fallvatna-, jarðhita-, olíulinda-, skógarhöggs-, námu- eða vatnsforðastefna ESB.
Mikilvægustu fiskistofnar við Ísland (t.d. þorskur) eru staðbundnir og ESB-lönd hafa enga veiðireynslu úr þeim. Þeim verður því áfram úthlutað til Íslands. Hins vegar verður að semja um deilistofna (þ.e. fisk sem syndir milli lögsaga) og það er gert á vettvangi ESB. Við munum ekki geta veitt t.d. makríl án þess að semja fyrst um hlutdeild í þeim stofni. En það þurfum við hvort eð er að gera fyrr eða síðar.
Ákvarðanir um veiðikvóta úr hverjum stofni verða teknar á miðlægum vettvangi sjávarútvegsmála hjá ESB. Þar kemur íslenski sjávarútvegsráðherrann að málum ásamt starfsbræðrum og systrum, að fenginni vísindalegri ráðgjöf sem verður frá Hafró í tilviki íslenskra stofna. Grundvöllur ákvarðana er fyrst og fremst sjálfbær nýting fiskistofna á vísindalegum grunni.
Þeim kvótum sem Ísland fær í sinn hlut megum við úthluta á útgerðir, byggðir o.s.frv. eins og okkur sýnist. Við getum haldið áfram með framseljanlega aflahlutdeild eins og verið hefur, eða úthlutað með uppboði eins og ég myndi gjarnan vilja sjá. Okkur er frjálst að setja skilyrði um löndun afla innanlands.
Við munum ekki til lengdar geta bannað evrópskum lögaðilum að kaupa hlutabréf í íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum. Að sama skapi geta íslenskir lögaðilar vitaskuld keypt hlutabréf í evrópskum sjávarútvegsfyrirtækjum, eins og t.d. Samherji hefur gert í Þýskalandi.
Við inngöngu í ESB falla brott tollar inn á þann markað á ferskum fiski (oft 5-10%) og á unnum sjávarafurðum (25%). Það ættu því að skapast betri skilyrði til fullvinnslu afurða hér á landi.
Að öllu athuguðu er það mín skoðun að hér séu engin þau stórvægilegu vandamál á ferð sem þurfi að hræðast eða fá varanlega undanþágu frá.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (24)
23.7.2009 | 00:00
Icesave samninginn þarf að endurskoða
Ég er eindregið þeirrar skoðunar, eftir að hafa skoðað tiltæk gögn og metið afleiðingar mismunandi valkosta, að íslenska ríkinu beri að standa við skuldbindingar skv. Evróputilskipunum og lögum, vegna innistæðutrygginga á Icesave-reikningum. Lagarök, siðferðisrök, pólitísk rök og hrein nytjarök standa til þess.
En eftir að hafa kynnt mér lánasamningana við Breta og Hollendinga, og málflutning lögmannanna Ragnars H. Hall, Harðar Felix Harðarsonar og Eiríks Tómassonar, er ég orðinn þeirrar skoðunar að samningana verði, því miður, að endurskoða.
Grein 3.1.2.(b) í hollenska samningnum, sem væntanlega á sér samsvörun í þeim hluta breska samningsins sem ekki hefur verið birtur, þýðir að Ísland tekur á sig skuldbindingu umfram það sem okkur ber skv. Evróputilskipuninni um innistæðutryggingar. Standi hún óbreytt tökum við á okkur hluta af viðbótartryggingu bresku og hollensku tryggingasjóðanna, og meira að segja í einhverjum tilvikum hluta af innlánskröfum umfram tryggingar. Ragnar og Hörður Felix gera góða grein fyrir þessu í Morgunblaðsgrein í morgun, og ég tek undir rökstuðning þeirra, sem ekki verður betur séð en að leiði af orðanna hljóðan.
Fyrir þessari umframskuldbindingu Íslands eru hvorki lagalegar né siðferðilegar forsendur. Samninganefndin íslenska virðist, því miður, hafa hlaupið á sig. Auðvitað er meiriháttar klúður hér á ferð, ef rétt reynist, en það verður einfaldlega að greiða úr því. Ég trúi því heldur ekki að gagnaðilarnir haldi því til streitu að Íslandi beri að greiða umfram okkar viðurkenndu skuldbindingu.
Góðu fréttirnar eru þær að ef þessu verður kippt í liðinn er Icesave-skuldin mun viðráðanlegri, því þá er á hreinu að allar eignir Landsbankans ganga fyrst til íslenska tryggingasjóðsins, en það getur minnkað skaðann verulega.
16.7.2009 | 14:03
Til hamingju Ísland!
Í dag var stigið stórt skref í rétta átt út úr kreppunni, þegar Alþingi Íslendinga samþykkti ályktun um að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið.
Nú er hafin vegferð sem getur leitt okkur til betri framtíðar. Til hamingju, Íslendingar.
13.7.2009 | 01:04
Davíð Oddsson undirritaði Icesave skuldbindingu
Í viðtali við Davíð Oddsson sem birtist í Morgunblaðinu 5. júlí sl. er því haldið fram að Davíð hafi verið mjög mótfallinn því að ríkið tæki á sig skuldbindingar vegna Icesave-innistæðutrygginga. Í samantekt er haft eftir Davíð að til séu margvísleg gögn sem "styðji mjög málstað Íslendinga, í þá veru, að þeim beri engin lagaleg skylda til þess að borga skuldir Landsbankans [svo, á að vera Tryggingasjóðs] vegna Icesave". Þá skammar hann Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon fyrir að "stórskaða" málstað Íslendinga með yfirlýsingum um að við séum skuldbundnir gagnvart Bretum og Hollendingum:
Ef eitthvað er til í því að við séum skuldbundin, þá er bara ein ástæða fyrir því, en það eru yfirlýsingar ráðherra eins og þeirra Jóhönnu og Steingríms í þá veru að við séum skuldbundin til að borga og þau eru búin að samþykkja að við leitum ekki með ágreiningsefnið til dómstóla.
Skoðum nú úrklippur úr viljayfirlýsingu (Letter of Intent) sem íslensk stjórnvöld sendu Alþjóða gjaldeyrissjóðnum þann 15. nóvember sl.
Hér er sem sagt fullyrt að Ísland ætli sér að viðurkenna skuldbindingar (committed to recognize the obligations) gagnvart öllum tryggðum innistæðueigendum. Þá sé ætlunin að vinna með öðrum alþjóðlegum mótaðilum tryggingasjóðsins, þ.e. bresku og hollensku tryggingasjóðunum, eins og gert sé ráð fyrir í EES-lagarammanum. Þetta er gert með því fororði að lánsfjármögnun skuldbindinganna fáist hjá hinum erlendu ríkisstjórnum (þ.e. Bretum og Hollendingum). Samningaviðræður um nákvæm kjör muni eiga sér stað næstu daga.
Í þessari grein yfirlýsingarinnar er staðfest að bankahrunið muni valda miklum búsifjum í ríkisrekstrinum íslenska, og að heildarkostnaður (brúttó) af því að standa við innistæðutryggingar og endurfjármagna bankana muni að líkindum nema sirka 1.100 milljörðum (80% af VLF). Á móti þessu koma svo eignir bankanna (í þessu tilviki Landsbankans).
Gæti ekki verið skýrara, menn gerðu sér fullkomna grein fyrir stöðunni og skjalfestu hana gagnvart AGS þegar 15. nóvember síðastliðinn, þegar ríkisstjórn sat undir forsæti Geirs H. Haarde.
En hverjir skrifuðu undir þetta afdráttarlausa plagg fyrir hönd Íslands?
Sæll! Þarf eitthvað að ræða þetta?
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (34)
27.6.2009 | 23:14
Icesave hefði getað bjargast fyrir horn ef...
Smá pæling um uppáhaldsumræðuefni allra um þessar mundir.
Icesave hefði hugsanlega getað bjargast fyrir horn ef Neyðarlögin hefðu verið örlítið öðruvísi. Ef krafa Tryggingasjóðs innstæðueigenda í þrotabú fjármálafyrirtækis hefði fengið forgang umfram "venjulegar" innistæðukröfur, en ekki hliðstæðan þeim eins og gert var, þá hefðu 20.887 evrur pr. reikning verið greiddar fyrst úr búi Landsbankans (á eftir skiptakostnaði og veðkröfum) og fyrir því eru til peningar. Þá hefði ekkert lent á ríkinu vegna trygginganna, en reyndar hefði þurft að leggja til meiri peninga til að tryggja allar innistæður í útibúum bankans hérlendis. Og innistæðueigendur erlendis hefðu verið steiktari með það sem þeir áttu umfram 20.887 evrur, en það er verið að steikja flesta kröfuhafa, meira og minna, hvort eð er.
Svona breytingu er væntanlega ekki hægt að gera afturvirka (eða hvað, lögfræðingar?), en ef svo væri, þá liti hún til dæmis svona út (breytingin feitletruð):
nr. 98/1999, með síðari breytingum.
3. mgr. 10. gr. laganna orðist svo: Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi. Krafa sjóðsins gengur að rétti framar kröfum skv 1. mgr. 112. gr. en á eftir kröfum skv. 111. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti, en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.
Og punkturinn er: orð eru dýr! Í þessu tilviki er hvert orð upp á milljarðatugi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)