Myndband um ávinning af ESB og AGS

Hér er myndband úr panelumræðum á fundi Samfylkingarinnar um daginn um leiðir jafnaðarmanna í atvinnu- og velferðarmálum, þar sem fjallað var um ávinning af umsókn um aðild að ESB og fleira.  Þarna má m.a. sjá undirritaðan, Kristínu Pétursdóttur frá Auði Capital og Halldór Grönvold frá ASÍ:


Skal gert - Samantekt from samfylking xs on Vimeo.


3.600 manns eru sammála

Síðast þegar ég leit á www.sammala.is voru komin um 3.600 nöfn á listann.  Fólk úr öllum áttum: forystufólk úr athafnalífi, listum, akademíu, frumkvöðlar, verkfræðingar, kennarar...  Fólk sem telur skynsamlegt að við sækjum um aðild að Evrópusambandinu og kjósum svo um þann samning sem býðst.

En Sjálfstæðisflokknum finnst það vera della, og að þetta fólk sé á villigötum.

Flokkurinn ætti að velta fyrir sér hvort hann sé kannski sjálfur á villigötum.

(Sem hann er, og ekki bara í þessu máli.  Enda horfur á að hann verði þriðji stærsti flokkur landsins eftir þessar kosningar.)

(Uppfærsla kl. 18:00: Talan nálgast nú óðfluga 5.000 manns!)

(Uppfærsla á miðnætti aðfararnótt þriðjudags: Talan er núna 7.600!)


"Við borgum ekki!"

Fyrir páska kom í heimsókn til landsins Michael nokkur Hudson.  Hann mætti í Silfur Egils og á ýmsa fundi, með það erindi helst að segja Íslendingum að "neita að borga skuldir sínar", því það væri óvinnandi vegur.  Jafnframt lagði hann að okkur að skila láninu frá AGS.  Þennan sama málflutning enduróma svo ýmsir í umræðunni, bæði vinstrigrænir og Sjálfstæðismenn, merkilegt nokk.

Eins og áður með erlenda gesti sem mæta í Silfur Egils, þarf að spyrja hvernig heimsóknin kom til, hverjir áttu frumkvæði að henni og hvernig gestirnir voru upplýstir um stöðu mála á Íslandi.

Varðandi Hudson, þá þarf ekki að gúgla lengi til að sjá að tilteknir einstaklingar, m.a. bloggarar, stóðu í skeytaskiptum við hann áður en hann kom hingað.  Þessir bloggarar telja, ranglega, að til standi að skattborgarar greiði skuldir bankanna, og Hudson hefur greinilega trúað þeim.

Förum yfir þetta einu sinni enn.  Gömlu bankarnir eru hlutafélög úti í bæ.  Kröfuhafar í þá fá eignir bankanna upp í kröfurnar en ekki krónu umfram það.  Þannig virka einfaldlega hlutafélög, þetta er kröfuhöfum fullkunnugt og enginn ágreiningur um það.

Nýju bankarnir taka yfir innlend lánasöfn úr gömlu bönkunum, fyrirfram afskrifuð samkvæmt mati sem er að klárast þessa dagana.  Þeir taka einnig samsvarandi skuldbindingar á móti, þar á meðal innlán.  Ríkið leggur svo bönkunum til nýtt eigið fé.  Ef afskrift lánasafnanna er nokkurn veginn rétt, koma nýju bankarnir nokkuð sléttir út úr þessu (en reyndar þarf að fara varlega í þessu ferli til að klúðra því ekki).  Það er síðan valkostur í stöðunni að kröfuhafar eignist nýju bankana að hluta eða öllu leyti.

Lánið frá AGS er tekið til að styðja við krónuna.  Það er hluti af almennri efnahagsáætlun sem unnin var af ríkisstjórninni í samvinnu við AGS og er lífsnauðsynleg til að koma okkur aftur á réttan kjöl og byggja upp traust erlendis.  Ef við höldum rétt á gjaldmiðilsmálum, t.d. með því að stefna að evru, þá er ekki víst að nota þurfi nema lítinn hluta af peningunum, og þá aðeins tímabundið.

Það sem lendir á skattborgurum er innistæðutrygging á vegum Tryggingasjóðs innstæðueigenda.  Sá sjóður var sofandi á verðinum ásamt Seðlabankanum gagnvart gegndarlausri söfnun erlendra innlána á vegum útibúa Landsbankans og að hluta Kaupþings.  Brúttóskuldbinding þar er um 3 milljarðar punda en á móti munu koma eignir Landsbankans.  Skilanefnd telur að gatið sé um 75 milljarðar króna, sem lendir á Tryggingasjóði.  Það á þó eftir að koma í ljós hvernig gengur að semja við Breta og Hollendinga um fjármögnun sjóðsins, og þar eigum við að mínu mati verulegt kall til að þeir taki a.m.k. hluta tapsins á sig.

Mat viðskiptaráðherra er að vaxtaberandi skuldir ríkissjóðs verði um 700 milljarðar í lok þessa árs, eða um 50% af VLF.  Sú skuld kemur einkum til vegna fjárlagahalla, framlags til Seðlabanka og vegna Icesave (sjá nánar t.d. hér).  Vissulega háar tölur en ekki óviðráðanlegar eða fáheyrðar í alþjóðlegu samhengi.

Í ljósi ofangreinds þarf að útskýra mun betur fyrir mér hvað Michael Hudson og skoðanabræður hans og -systur eiga við með því að "við eigum ekki að borga". Hvað er það nákvæmlega af ofangreindu sem við eigum ekki að borga, og hver á ávinningurinn af því að vera?

Athugið að ég er ekki að bera í bætifláka fyrir hroðalega hagstjórn og peningamálastjórn undanfarinna ára, né að verja óábyrga viðskiptahætti og fífldirfsku bankastjórnenda.  En staðreyndin er sú að tapið af því síðarnefnda lendir aðeins með óbeinum hætti á skattborgurum - nóg er nú samt.


Vafasöm stjórnsýsla gæti dregið úr trúverðugleika Evu Joly

Ég fagnaði því þegar ákveðið var að Eva Joly myndi aðstoða sérstakan saksóknara í brotamálum tengdum bankahruni.  Það er gott prinsipp að fá hingað reyndan utanaðkomandi aðila sem á að geta verið hafinn yfir tortryggni varðandi forgangsröðun og áherslur í rannsókn mála, sem ella kemur óhjákvæmilega upp í kunningjaþjóðfélaginu Íslandi.

Ráðningu Joly bar að með dálítið sérkennilegum hætti.  Jón nokkur Þórisson arkitekt, sem hefur verið áberandi á bloggi Egils Helgasonar, hafði að eigin frumkvæði - en með hjálp Egils - samband við Joly og fékk hana til landsins til viðtals í Silfri Egils, en stjórnvöld tóku svo upp þráðinn og sömdu við hana um ráðgjöf.  Það er nettur séríslenskur bragur á þessari atburðarás, þ.e. að stjórnvöld skuli ekki hafa séð af sjálfsdáðum að gott væri að fá utanaðkomandi aðstoð á þessu sviði, en gert framtak manna út í bæ að sínu, í jafn mikilsverðu máli.

En nú kemur upp úr dúrnum að umræddur Jón Þórisson var ekki í þegnskyldu- og sjálfboðavinnu í þessu verkefni, heldur mun hann verða aðstoðarmaður Joly, koma upp fyrir hana skrifstofu og þiggja verktakagreiðslur fyrir úr ríkissjóði, alls 6,7 milljónir á næstu 12 mánuðum.

Ég vona að lesendur sjái með mér hætturnar sem hér gætu verið á ferðinni.  Nú er Jón þessi eflaust hinn ágætasti maður, en hann hefur ítrekað lýst mjög afdráttarlausum skoðunum á bloggi Egils um tilteknar persónur og málefni í tengslum við hrunið.  Sú hætta virðist fyrir hendi að í stað þess að Eva sé óháður rannsóknaraðili, sem kemur að málum hér með hreint borð, verði niðurstaðan þveröfug: að ákveðnir menn - án nokkurs undangengins hæfismats - hafi einstaka aðstöðu til að koma sínum eigin áherslum og forgangsröðun að í rannsókn mála, í krafti náins samstarfs síns við Joly og möguleika til að hafa áhrif á hennar nálgun, t.d. hvað varðar hvers kyns bakgrunnsupplýsingar.

Það dregur ekki úr ónotatilfinningunni að hér er um mjög mikið og afar vandmeðfarið vald að ræða, sem mun beinlínis geta ráðið örlögum fólks - og þá líka fólks sem verður rannsakað að ósekju.

Ég átta mig heldur ekki á þörfinni fyrir enn eina skrifstofuna í rannsóknarverkinu.  Eftir því sem ég best fæ séð munu þessi mál verða rannsökuð hjá rannsóknanefnd þingsins, sérstökum saksóknara, efnahagsbrotadeild, FME, ríkisskattstjóra, skattrannsóknastjóra og nú nýrri skrifstofu Evu Joly og Jóns Þórissonar.  Upphaflega var rætt um að Eva yrði sérstökum saksóknara til ráðgjafar, og er ekki happasælast að hún hafi aðstöðu þar?

Eitt af því sem gerði hrunið hér verra en annars staðar, var ófagleg og á köflum kjánaleg stjórnsýsla, m.a. hjá FME, Seðlabanka og fjármálaráðuneyti.  Missum nú ekki rannsóknavinnuna líka út í einhverja dellu, eða þaðan af verra.


mbl.is Tengiliður Evu Joly kostar 6,7 milljónir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Neyðarlögin í máli og myndum

Undanfarið hef ég orðið var við misskilning í umræðunni um virkni neyðarlaganna margfrægu.  Meðal annars heyrði ég ekki betur en að Lilja Mósesdóttir hagfræðingur og frambjóðandi VG segði í Kastljósi RÚV (frá ca. 5:20) að ríkissjóður hefði í reynd fært innlendum innstæðueigendum 600 milljarða með umræddum lögum.  Sannleikurinn er þveröfugur, þ.e. að ríkissjóður (eða Tryggingarsjóður innstæðueigenda) losaði sig undan verulegum skuldbindingum með setningu laganna.

Af því að það er erfitt að útskýra málið í texta einum saman, tók ég mig til og útbjó PowerPoint-glærur sem sýna áhrif laganna í máli og skýringamyndum.  Landsbankinn er tekinn sem dæmi, af því að hann er eini bankinn sem mun reyna á innstæðutrygginguna, og þá aðeins fyrir erlendar innstæður.

Þarna er fengist við athyglisverðar spurningar á borð við hvernig neyðarlögin virka, hverjir töpuðu á þeim og hverjir græddu, og hvað gerist ef þau verða dæmd ógild.

Glærunum er pakkað í PPS (PowerPoint Show) skrá, sem vonandi gengur á allar gerðir PowerPoint á PC og Makka.  Endilega gerið athugasemd ef eitthvað er ekki eins og það á að vera.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Við erum sammála

...um að sækja eigi um aðild að ESB

Við erum sammála um að hagsmunum íslensku þjóðarinnar verði best borgið innan ESB og með upptöku evru. Þess vegna viljum við að þegar verði sótt um aðild að ESB og gengið frá aðildarsamningi þar sem heildarhagsmunir þjóðarinnar eru hafðir að leiðarljósi.

Sjá www.sammala.is


Dauði af þúsund sárum

Umræðan er um þessar mundir í millibilsástandi.  Meðan beðið er eftir niðurstöðum rannsóknarnefndar, FME og sérstaks saksóknara, leka fréttir út í dropatali, og valda hneykslan og reiði, en viðföngin reyna að svara eftir föngum með yfirlýsingum. Andrúmsloftið einkennist af tortryggni og vantrausti, sem er lamandi fyrir uppbyggingu og nýsköpun.

Dropatalsfréttamennskan hefur marga óæskilega vinkla.  Hver velur dropana sem leka út?  Vald þess sem því stjórnar er mikið.  Og það er mjög erfitt að verjast slíkri taktík, að því marki sem málsvarnir eru til staðar.  Þá heldur hún við ástandi svartsýni og reiði svo mánuðum skiptir.  Blaðamenn þurfa ef til vill að spyrja sig, hvort verið sé að nota þá í eigingjörnum tilgangi, og hvort þeir séu að gegna þeirri skyldu að draga upp heildarmynd þar sem jafnvægis er gætt.

Það er klárlega öllum í hag að rannsóknir og upplýsing þess sem hér gerðist gangi hratt og vel, svo skapa megi traust á ný.  Þá er líka nauðsynlegt að rannsóknaraðilar upplýsi eftir föngum, með reglubundnum og hlutlægum hætti, hvernig rannsóknum miðar, svo fólk missi ekki þolinmæðina.

Ég hef áður stungið upp á því að settur verði upp nokkurs konar sannleiksvettvangur að suður-afrískri fyrirmynd, t.d. á vegum Alþingis og/eða rannsóknanefndar.  Þar verði kallaðir fyrir allir lykil-leikendur í atburðarásinni, úr viðskiptalífi, embættismenn og stjórnmálamenn, og spurðir út úr fyrir opnum tjöldum og í beinni útsendingu.  Markmiðið væri að leiða sannleikann í ljós og að bregða upp heildstæðri mynd af því sem gerðist, í formlegum farvegi, sem væri miklu betri en dropafréttamennskan.

Á meðan millibilsástandið varir, er hætta á að viðskiptalífið (og hagkerfið) deyi drottni sínum af þúsund sárum - það sem á ensku heitir death by a thousand cuts. Það væri sorglegt ef svo færi, því þá er skaðinn, fyrir allan almenning, meiri en hann þyrfti að vera.


Stýrðu bankarnir genginu fyrir ársfjórðungsuppgjör?

Í athugasemd við síðustu bloggfærslu mína kom fram staðhæfing sem ég hef séð áður, þ.e. að krónan hafi kerfisbundið veikst rétt fyrir uppgjör bankanna.  Þetta hafi verið vegna eigin viðskipta bankanna til að "falsa" gengið svo að afkoman liti betur út.

Skoðum þetta nánar.  Hér er graf yfir vísitölu krónunnar frá 1. apríl 2007 allt til hrunsins (gögn frá m5.is).  Lóðréttu línurnar eru við mót ársfjórðunga, þ.e. þegar bankarnir gefa út ársfjórðungsleg uppgjör.  Ef svona mynstur væri fyrir hendi, ættum við að sjá bláu línuna skjótast upp á við rétt fyrir og um mót ársfjórðunga.

Gengisvísitala krónunnar

Eins og sjá má á grafinu er ekkert slíkt mynstur fyrir hendi.  Krónan er reyndar ótrúlega stöðug fram að falli Bear Stearns þann 14. mars 2008, miðað við þær hræringar sem voru í alþjóðlegum fjármálaheimi allt frá haustinu 2007.  Í byrjun 3. arsfjórðungs 2008 er krónan í styrkingarfasa, sem er öfugt við kenninguna um að bankarnir hafi á þeim tíma ætlað að græða feitt á skiptasamningum móti krónunni.

Sem sagt, ég hef ekki enn séð neinar trúverðugar vísbendingar um óeðlilega þróun gengis krónunnar, sé hið mikla ójafnvægi í hagkerfinu og staða fjármálamarkaða höfð í huga.  En hvet lesendur sem luma á slíku til að rita athugasemd við þessa færslu.


Hverjir styrktu krónuna?

Egill Helgason og fleiri fjármálasérfræðingar telja sig vita að tilteknir aðilar, einkum í kring um Kaupþing, hafi "fellt krónuna" á síðasta ári.  Menn hafi tekið sig saman um að keyra niður gengið og grætt á því með risavöxnum gjaldmiðlaskiptasamningum.

Mér finnst þetta vera of grunn rýni, þótt vissulega sé hún dramatískari og persónubundnari en þurr hagfræðigreining, og því betri blaða- og bloggmatur.

Að mínu mati er rétta spurningin ekki "hver felldi krónuna" heldur "hverjir styrktu krónuna"?

Rót vandans hjá okkur liggur einmitt að miklu leyti í gjaldmiðlinum, ofrisi hans á árinum 2003-2007 og gjaldeyriskreppunni sem við erum nú lent í.  Bankakreppan hefði verið mun minna áfall fyrir almenning ef gjaldeyriskreppan hefði ekki komið í kjölfarið.

Gríðarlegur viðskiptahalli

Krónan varð allt of sterk frá og með upphafi stóriðjuframkvæmda 2003 og fram á árið 2007, með smá aðvörun í "litlu kreppunni" í febrúar 2006.

Of sterk króna, sem haldið var uppi með ofurvöxtum, ýkti kaupmátt landsmanna og fyrirtækja erlendis.  Innflutningur fór úr böndum, og erlend lán streymdu til fyrirtækja og heimila.  Viðskiptahallinn varð gríðarlegur, sbr. glæruna hér að ofan frá Fjármálaráðuneytinu.

Verðbólgu var á yfirborðinu haldið niðri með hágenginu, en undir niðri safnaðist hún upp, í takti við vaxandi erlendar skuldir.

Þetta ójafnvægi gat aldrei endað með öðru en snöggu og stóru falli krónunnar.  Það var aðeins tímaspursmál hvenær aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum breyttust og blaðran spryngi.  Jafnvel lúðar út í bæ eins og ég gátu spáð því í janúar 2008 að fall væri framundan og að Seðlabankinn og krónan væru í stórkostlegum vanda.

Þegar leitað er að sökudólgum, finnst mér að það eigi ekki síður að spyrja hverjir styrktu krónuna, heldur en hverjir "felldu" hana.  Kannski eru það, þegar öll kurl koma til grafar, sömu mennirnir: þeir sem báru ábyrgð á hagstjórn og peningamálum síðustu 5-6 árin.


Hlín

Hlín

Nýjasta portrettið, ekki endanlegt, smá snurfus eftir.  Olía á striga, 60 x 40 cm.

Getraun fyrir listhneigða lesendur: til hvaða fyrirmynda(r) er hér verið að vísa?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband