Gæti 20% skuldaniðurfærsla gengið upp?

Í síðustu færslu fjallaði ég um tillögur Framsóknar í efnahagsmálum.  Ein af þeim er um 20% niðurskrift húsnæðisskulda almennings, og verðskuldar málefnalega umræðu.  Sú leið er engan veginn gallalaus, en það sama má sennilega segja um alla aðra mögulega leiki í stöðunni.

Til að skýra betur hvað Framsókn er að meina, eins og ég skil það, þá er dæmið einhvern veginn svona:

  1. Jón og Gunna skulduðu Gamlabanka 100 kr.
  2. Gamlibanki afskrifar allar húsnæðisskuldir um t.d. 40% (mat á lánasöfnum er í gangi þessa dagana á vegum skilanefnda og FME, og á að ljúka fyrir 15. apríl).  Skuld Jóns og Gunnu er því metin á 60 kr. og hún er færð yfir í Nýjabanka á því mati.  Athugið að það eru kröfuhafar bankanna sem tapa 40 kr. í þessu dæmi, en þeir hafa þegar afskrifað lungann af sínum kröfum.
  3. Nýibanki selur Íbúðalánasjóði (ÍLS) skuldina á 60 kr. og losnar við hana úr sínum bókum.
  4. Í stað þess að rukka Jón og Gunnu um 100 kr. - og hér kemur framsóknartrixið - færir ÍLS höfuðstólinn niður í 80 kr. og rukkar Jón og Gunnu um þá upphæð (og vexti af henni).  ÍLS tapar aðeins peningum á þessu ef, og að því marki sem, allir Jónar og Gunnur eru að meðaltali borgunarfólk fyrir minna en 60 kr. af þessum 80 krónum.

Framsóknartrixið veldur ÍLS (=skattborgurum) aðeins búsifjum ef meðaltalsinnheimtan verður innan við 60 kr. af þeirri ástæðu að Jón og Gunna eru rukkuð um 80 kr. en ekki 100 kr.  Þau tilvik sem skipta máli í því sambandi eru þau þar sem Jón og Gunna hefðu getað borgað 100 kall en sleppa við það af því þau eru aðeins rukkuð um 80 kall.  En á það ber að líta á móti að hagkerfið hressist við niðurskriftina og fleiri færast upp fyrir 60 krónu greiðslugetumarkið.

Ergó, nokkuð flókið líkan þarna á ferð, en ekki útilokað að það geti gengið upp. Stærsta spurningin er hvaða afskrift kröfuhafar gömlu bankanna sætta sig við.  Ein leið til að ákveða hana er einfaldlega að bjóða upp húsnæðislánasöfn gömlu bankanna og selja þau hæstbjóðanda.  Kröfuhafarnir gætu þá sjálfir boðið það sem þeir teldu lágmarksverð fyrir söfnin, en ÍLS væri falið að bjóða verð sem gæfi færi á raunhæfri afskrift eins og þeirri sem hér er lýst.

Óvenjuleg vandamál kalla á óvenjulegar lausnir.  Er þetta ein af þeim?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Forvitnilegt.

En hvað með lánin sem Íbúðarlánasjóður veitti, þau væri væntanlega niðurfærð líka. Væri það ekki ansi mikið beint tap fyrir Íbúðarlánasjóð eða er sú upphæð lítill hluti miðað við restina?

Sverrir Aðalsteinn (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 09:15

2 identicon

Skýrt dæmi. Viltu senda mér e-mail þitt vegna greinar sem ég er að skrifa um hátekjuskatt? Takk

Gísli Baldvinsson (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 09:55

3 Smámynd: Guðmundur Jónsson

þetta er ekki vitlausara en hvað annað hjá þeim. Þó vantar í þetta að þetta eru jú fasteignaveðlán hverra fasteignir hafa jú eitthvað virði sem fyrirsjáanlega getur breyst mjög mikið á næstu misserum. Vænlegri leið í þessu er held ég að skipta um vísitölu fyrir fasteignaveðlán, setja vísitölu fasteignaverðs í staðin fyrir lánskjaravísitölu í fyrirfram ákveðin tíma til dæmis afturvirkt frá júní 2008 til júní 2010. Og halda lánasöfnunum bara þar sem þau eru. þetta tryggir jafnræði milli allra skulda og kemur í veg fyrir að sértækra aðgerða verði aftur þörf eftir endurfjármögnun bankana, sem við vitum að getur haft mjög ófyrirsjáanlegar afleiðingar á markaðina næstu misseri.

Guðmundur Jónsson, 25.2.2009 kl. 10:29

4 identicon

Mjög góð útskýring, takk fyrir það.

Munurinn á milli 60kr og 80kr er sá mismunur sem myndi nýtast í það að afskrifa 20% á þeim lánum sem voru fyrir í ILS. Munum að bankarnir lánuðu mun hærri upphæðir til húsnæðiskaupa en ILS. 18 millj. þak en bankarnir jafnvel 100 milljóna 100% lán. Því eru mun hærri lánatölur sem leggja af stað úr gömlu bönkunum þó svo að ÍLS hafi fleiri lántakendur með þá lægri upphæðir.

Soffía (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 11:36

5 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Guðmundur, eins og ég hef áður fjallað ítarlega um í bloggfærslu (og athugasemdum) þá er ófært að krukka í vísitöluna nema innan mjög málefnalegs ramma, og hvað þá afturvirkt.

Eftir að hafa velt málinu betur fyrir mér sé ég tvö ljón í veginum.  Annars vegar er það rétt sem Sverrir bendir á, að lán ÍLS sjálfs eru ekki afskrifuð í gegn um þrotabú bankanna, og þar kæmi því tap á móti, sem rýra mögulega niðurskrift á bankastabbanum.  Hitt er síðan, að eftir því sem mér skilst, pakkaði Kaupþing mestöllum sínum íbúðalánum inn í sérvarin skuldabréf (covered bonds) sem það veðsetti að miklu leyti inni í Seðlabanka.  Eftir því sem ég kemst næst er Seðlabankinn nú eigandi íbúðalána Kaupþings, en ekki þrotabú gamla bankans.  Menn leiðrétti mig ef þeir vita betur.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 25.2.2009 kl. 12:47

6 identicon

Sorrý...en ég get ekki séð að þetta gangi upp eða sé skynsamlegt.

Í 1. lagi þá er í dæminu þínu aðeins gert ráð fyrir að ,,,húsnæðis"skuldir gömlu bankanna séu niðurfærðar. Þá gleymist að skuldir heimilanna eru miklu hærri og við fleiri aðila t.d. lífeyrissjóði, venjulegar skuldir við bankakerfið, bílalánafyrirtæki, Íbúðalánasjóð, kreditkortafyrirtæki osfrv. Að taka bara þennan hluta og niðurskrifa hjálpar fáum um lítið og veldur misskiptingu. Að taka allar skuldir heimilanna og niðurskrifa er einfaldlega of dýrt og myndi valda ,,ripple-effect" sem fer í gegnum allt fjármálakerfið.

Í 2. lagi þá er ,,afskriftin" sem á sér stað  við færslu frá gamla til nýja bankans bara bókhaldslegt atriði til þess gerð að mynda eitthvað verð á skuldabréfið sem ríkið gefur út og leggur inní nýja bankann sem eiginfjárframlag. Eftir sem áður eiga kröfuhafar gamla bankans þessar eignir og þeir hafa ekkert samþykkt það að afskrifa þær endanlega um þessa prósentu. Þvert á móti hugsa ég að þeir reyni að ná samningum þess efnis að ef meira fæst fyrir eignirnar en gert er ráð fyrir í matinu þá renni sú hækkun til raunverulegra eigenda, þ.e. kröfuhafana. Við skulum ekki gleyma að þeir kröfuhafar eru ekki bara erlendar lánastofnanir heldur einnig íslenskir lífeyrissjóðir og almenningur í gegnum skuldabréfasjóði sem enn hafa ekki verið gerðir upp með skítabralli einsog peningamarkaðssjóðirnir.

Ég held að eina raunhæfa aðgerðin væri einfaldlega frysting afborgana fyrir þá sem þurfa á að halda, t.d. vegna atvinnumissis, og lenging lánanna sem nemur frystingunni. Á meðan verðum við bara að krossleggja fingur og vona að gengið styrkist, hér verði hressileg verðhjöðnun í svona 6 mánuði sem endar með afnámi verðtryggingar og loks peningaprentun til að starta okkur aftur.

....eða eitthvað svoleið

kv. Magnús

Magnús Birgisson (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 12:58

7 identicon

Þegar ríkið setti aukið fjármagn inn í Seðlabankann, fékk þá ekki ríkið þessi skuldabréf frá Seðlabankanum? Þegar var verið að tala um að SÍ væri tæknilega gjaldþrota.

Soffía (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 13:01

8 identicon

Tillögur Framsóknar eru gott framtak og 20% flöt niðurfærsla er að mörgu leyti ágætis hugmynd en spurning hvort hún er raunhæf. Til viðbótar við gallana sem fram koma að ofan má bæta við að ekki er ljóst hversu mörgum þessi lausn bjargar, þe. eru á þeim mörkum með húsnæðislánin að öll fjármálin fari úr vanskilum í skil. Kostnaðurinn við að niðurgreiða lán sem verða hvort eð eru í skilum verður að lenda einhvers staðar og ef ÍLS á að taka það á sig þarf að fjármagna þann pakka. Ekki hefur komið fram hversu stórar "aukaafskriftir" væri um að ræða. Áfram þarf að taka sérstaklega á þeim málum þar sem lánin komast ekki í skil þrátt fyrir niðurfærsluna.

Mér skilst reyndar að búið sé að verðmeta íbúðalánin gömlu bankanna inn í nýju bankana (hef það þó ekki staðfest). Ef ekki, og ef taka á aukaafskrift inni í gömlu bönkunum til að mæta niðurskrift lána sem ekki lenda í vanskilum, hlýtur það að lyfta brúnum á kröfuhöfum gömlu bankanna.

Hinsvegar er það áhugaverð hugmynd að koma öllum íbúðalánum inn í ÍLS og reyna að finna samhæfðar lausnir á einum stað. Það myndi væntalega létta álagi af bönkunum og gera þeim kleift að einbeita sér að fyrirtækjunum.

Cicero (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 14:28

9 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Tilvitnun " eins og ég hef áður fjallað ítarlega um í bloggfærslu (og athugasemdum) þá er ófært að krukka í vísitöluna nema innan mjög málefnalegs ramma, og hvað þá afturvirkt."

Eignirnar sem voru á bak við veðlán á hlutabréfamarkaði voru hlutabréf sem voru einu sinni  mikils virði en eru það ekki lengur. Það eru þessi lán sem verið er að afskrifa í bönkunum núna, Þessar afskriftir eru að mestu í takt við fall vísitölu hlutabréfaverðs ef hún væri til.  Engin húsnæðislán hafa hinsvegar verið afskrifuð til þessa svo ég viti  hvorki innan gömlu eða nýju bankana og það mun ekki gerast að óbreyttu nema með gjaldþroti skuldaranna. Í tuttuguprósent tillögu Farmsóknar munu eignir í fasteignaveðlánum innan bankanna vera afskrifaðar stórlega umfarm eignir ÍLS.

Á sama hátt og hlutabréfaveðin voru einu sinni mikils virði þá voru fasteignaveði einu sinn líka mikils virði.  Til að komast hjá fjöldagjafþrotum fyrirtækja og einstaklinga vegna húsnæðiskaupa þá hlýtur það vera samgjart  og rökrétt að miða afskriftir á þessum lánum við afskriftir veðanna. eins og er í raun verið að gera í hlutbréfabólunni. Með því að nota vísitölu húsnæðisverðs, þá er líka ekki loku fyrir það skotið að veðin og lánin geti rétt úr kútnum ef allt fer á besta veg og lykilatriðið er að eigendum skuldanna er ekki mismunað sem geri þess leið að mínu viti betur færa en framsóknarleiðina.

Guðmundur Jónsson, 25.2.2009 kl. 14:59

10 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Sæll Vilhjálmur!

Mér sýnist þessi útskýring þín vera í takt við skilning minn á tillögunni en ég set þó nokkur spurningamerki við tillöguna:

1. Hvaða áhrif myndi niðurfærsla um 20% hafa á þær eignir Landsbanka sem setja a upp í Icesave-skuldina?

2. Hvað á að gera við íbúðalán sparisjóðanna?

3. Hvert fara 20 krónurnar sem ÍLS græðir af því að kaupa skuld á 60 kr. og innheimta 80 kr. auk verðbóta og vaxta á verðbætur? Er þetta aukin skattheimta og á þá að nota féð í eitthvað uppbyggilegt? 

Þessi tillaga verðskuldar vissulega að vera skoðuð rækilega eins og flestar tillögur og menn eiga að bera saman kostnað og áhrif. Munum að allar leiðir munu kosta mikið en það þarf að skoða í ljósi fórnarkostnaðarins.

Magnús Birgisson nefnir frystingu afborgana en eins og ég hef nefnt í færslu á minni bloggsíðu tel ég að ganga eigi enn lengra og frysta allt bankakerfið. Slóðin á mína færslu er: http://sverrirth.blog.is/blog/sverrirth/entry/808098/

Guðmundur Sverrir Þór, 25.2.2009 kl. 16:37

11 Smámynd: Héðinn Björnsson

EIn leið til að "krukka" í vísitölunni væri að uppfæra aðeins húsnæðisliðinn miðað við samninga sem ekki innihalda makaskiftasamninga og við að gera endurmat á neyslumynstrinu svo það séu þeir hlutir sem við erum að kaupa sem vigta hátt í vísitölunni en ekki þeir hlutir sem við keyftum meðan gengið var hagstætt en haf nú hækkað svo mikið að fáir kaupa. Þetta myndi líklega færa vísitöluna niður 5-10% og munar um minna :)

Héðinn Björnsson, 25.2.2009 kl. 16:50

12 identicon

Af hverju heldur forsætisráðherra því fram að þessar hugmyndir Framsóknar verði til þess að setja Íbúðalánasjóð á hausinn?

Beta (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 18:59

13 identicon

Sæll Viljálmur

Langar til að velta einu atriði upp í umræðunni.  Þannig er mál með vexti að í upphafi október sl þá voru sett á neyðarlög í landinu sem gerðu það að verkum að innlán voru allt í einu sett fremst í kröfuröðina við gjaldþrotauppgjör banka.  Þetta verður að teljast talsvert hæpin gjörningur (leikreglum breytt eftirá) og á alfarið eftir að koma í ljós hvort hann standist fyrir dómi.  Ef hann gerir það ekki þá verður íslenska ríkið væntanlega skaðabótaskylt svo nemur gríðarlegum fjárhæðum.   

Engu að síður þá var vel meint með þessum gjörning af hálfu yfirvalda, þe. þarna var verið að verjast því að innistæður eignafólks töpuðust.  Tek það fram að hér var verið að verja hagsmuni þeirra sem eiga verulegar fjárhæðir í bönkum því að innlánstryggingin nam um 3 m.kr. á hverja kennitölu í HVERJUM banka fyrir sig.  Þannig að fólk gat varið lausafé sitt tiltölulega auðveldlega með því að skipta því á milli nokkurra banka eða dreifa því á milli hjóna sem dæmi.  Því leyfi ég mér að segja að þetta hafi fyrst og fremst komið þeim til góða sem áttu MEIRA en svona 15 milljónir inná innlánsreikningum.  Hér gef ég mér það að menn hafi getað án mikillar fyrhafnar opnað reikning í allaveganna 3 bönkum og jafnvel smellt nokkrum milljónum inná makann.

Hér mætti einnig benda á uppgjörin á Peningamarkaðssjóðunum sem ríkið tók á sig með óbeinum hætti, en ég ætla ekki að lengja þennann texta með þeirri umræðu.

Jæja, svo ég komi mér að efninu.  Ef þessi neyðarlög standast nú ekki fyrir dómi, og á það verður örugglega látið reyna, þá hvað? 

Þá fá íslenskir skattgreiðendur væntanlega feitan reikning (og þá jafnt þeir sem ekkert áttu nema yfirdráttinn sinn og íbúðarskuldirnar og hinir sem áttu feitu innistæðurnar).

Fáir eru að velta þessu fyrir sér, það virðist ekki þykja neitt nema sjálfsagt að hafa komið þessum hópi íslendinga til aðstoðar og það með ríkisábyrgð. 

En þegar umræðan kemur að þeim hópi frónbúa sem skulda þá vandast málið allt í einu svo gríðarlega að enginn virðist geta fundið lausn. 

Enginn vill að ríkið taki neina áhættu þegar kemur að þessum hópi, enginn vill heldur að lífeyrissjóðirnir taki neina áhættu vegna þessa hóps (og hér er gott að hafa í huga að neyðarlögin komu lífeyrissjóðunum til góða þar sem þeir voru með háar stöður í innlánum) og nokkrir hafa séð ástæðu til þess að jagast yfir þessu sökum þess að næsti maður fengi þá hugsanlega meiri skuldir niðurfelldar en hann sjálfur fengi (en honum er sama þó ríkið hafi ábyrgst innlánin fyrir manninn í næsta húsi, ábyrgst eitthvað sem hæglega gæti lent á honum sjálfum að greiða)  

Þetta er einmitt það sem er aðeins að flækjast fyrir mér.  Er raunverulega svona flókið að koma þeim verst settu til hjálpar eða er kannski enginn gríðarlegur vilji til þess að leysa þeirra mál?   Það tók ekki langan tíma að koma þeim best settu til aðstoðar allaveganna.

Kolbeinn (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 19:55

14 identicon

Nú segir Jón Steinsson hagfræðingur hjá Columbia Uni að þetta muni liklega valda hærri sköttum í framtíðinni vegna taps hjá bönkunum eða ÍLS (man ekki hvort) út af þessu (skildi ekki af hverju þessar stofnanir ættu að tapa). Hann vildi frekar fara út í það að endurmeta hæfni hvers skuldara fyrir sig til að borga skuldir sína og endursemja lánaafborganir út frá þeim upplýsingum.

Ólafur Jens Sigurðsson (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 20:16

15 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Ég tel að nálgun Jóns hafi verið röng, það er ljóst að allar aðgerðir til bjargar heimilunum verða dýrar en menn eiga að spyrja hver fórnarkostnaðurinn sé. Þar hafa framsóknarmenn rétt fyrir sér (aldrei þessu vant). Það er allt of seinvirkt og kostnaðarsamt að meta hvern skuldara út af fyrir sig, auk þess sem það gæti leitt til mismununar.

Guðmundur Sverrir Þór, 25.2.2009 kl. 20:23

16 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Með kostnaðarsamt á ég við að þar er á ferðinni aukakostnaður sem kannski er hægt að komast hjá.

Guðmundur Sverrir Þór, 25.2.2009 kl. 20:23

17 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ég sé að menn eru ekki alveg að fylgja því hve miklar afskriftir eru í raun fólgnar í því að setja vísitölu húsnæðisverðs í staðin fyrir lánskjaravísitölu í eitt á aftur í tíman. En lausleg áætlað þá er það - 20% eða sama og framsókn er að tala um gera flatt á öll lán en með þeim mun aðvitað að hugsanlega mun vísutölutengingin koma til baka þegar ástandið batnar en framsóknarleiðin er hrein eignaupptaka.

Guðmundur Jónsson, 25.2.2009 kl. 20:54

18 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Magnús, það munar mest um húsnæðisskuldirnar og ég skil vel að Framsókn vilji ekki ganga svo langt að fara að taka neyslu- og bílalán inn í þetta, það væri fulllangt gengið í að taka af fólki ábyrgð á eigin gerðum.  Það er rétt hjá þér að kröfuhafar þurfa að vera sáttir við afskriftirnar, en þá langar heldur ekkert að fara í það sjálfir að innheimta íslenskar húsnæðisskuldir, og ef þeir fá í reynd reiðufé fyrir þær, gæti það verið ágætis díll fyrir þá.

Soffía, það má vera að ríkið hafi tekið Kaupþingsbréfin frá Seðlabankanum, en mig grunar að þau séu enn óafskrifuð, og þar er vandinn.

Cicero og Guðmundur Jónsson, í skýrslum skilanefnda gömlu bankanna er gert ráð fyrir ca 50% afskrift af almennum íbúðalánum, en þetta er bara áætlun, ekki endanleg niðurstaða.

Guðmundur Sverrir Þór:  Ég hef ekki séð skýrslu skilanefndar Landsbankans frekar en allur almenningur, en íbúðalán hljóta að vera hluti af hinu stóra lánatapi sem þar er ráð fyrir gert.  Það ætti því ekki að hafa áhrif á Icesave þótt lánin séu flutt afskrifuð yfir í nýja Landsbankann, enda er það planið nú þegar óháð Framsókn.  Mér skilst að Framsókn vilji kaupa lán sparisjóða af þeim inn í ÍLS einnig.  20 krónurnar hjá ÍLS fara til að mæta útlánatöpum, vegna þess að það munu ekki allir geta borgað 80 krónurnar.

Héðinn, neyslumynstrið að baki neysluverðsvísitölunni er endurskoðað árlega og mér skilst að næsta endurskoðun sé í mars, á grundvelli neyslukönnunar og gagnasöfnunar sem er þegar hafin.

Beta, það er hugsanlegt að forsætisráðherra og fleiri sem hafa tjáð sig um þessar tillögur átti sig ekki á afskriftatrixinu, en vissulega er hætta á að ÍLS fari á hausinn ef þetta er ekki stillt allt af með raunhæfum hætti.  Þá á ég við að afskrift frá gömlu bönkunum sé rífleg, að niðurskrift höfuðstóls sé hófleg, og að þessi ráðstöfun hafi talsverð hvetjandi áhrif á hagkerfið, sem er veikasta forsendan.

Kolbeinn, neyðarlagamálið er vissulega risastórt áhyggjuefni almennt og verðskuldar eiginlega heila bloggfærslu.  Skal hafa það bak við eyrað ;-)  En það er ljóst að ríkissjóður ætti mjög erfitt með að bakka upp innistæðutryggingu allra innlendra bankareikninga.

Ólafur Jens, Jón Steinsson hefur ýmislegt til síns máls varðandi niðurfærslumat lánasafna, sem hljóti að endurspegla allt það tap sem verði á þeim og því sé ekki hægt að "nota sömu krónuna tvisvar".  En á móti kemur að það er annarsveldisfaktor í jöfnunni sem veldur því að ef allt er innheimt með fullri hörku, kyrkir það efnahagslífið og skuldirnar verða enn verðlausari.  Ef slakað er á innheimtunni með mátulegum hætti, lagast staða hagkerfisins hugsanlega þannig að heildarheimturnar verði betri en ella.  Þarna gæti verið nokkurs konar Laffer-kúrva.  Guðmundur Sverrir Þór, við erum sammála um þennan punkt.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 25.2.2009 kl. 21:01

19 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vilhjálmur, ég er alveg sammála þér í því að þetta er ekki bara gerlegt, heldur auðveldlega gerlegt.  Ég hef skrifað margar færslur um þetta og á síðunni minni er meira að ein frá því í dag með skýringu (sjá Það er víst hægt að færa lánin niður).

Varðandi rök Jóns Steinssonar, þá virðist hann gleyma því að þó búið sé að færa lánasafn nýju bankanna niður, þá  er ekki búið að gera neitt gagnvart skuldaranum.  Lánin standa því hjá skuldaranum í sinni upprunalegu stöðu, þó svo að bankinn telji bara helminginn innheimtanlegan.  Innheimtist lánin á fullu, þá mun bankinn sýna mikinn hagnað af lánasöfnunum.  Innheimtist þau 80% mun bankinn áfram sýna mikinn hagnað af söfnunum.  Það er ekki fyrr en innheimtuhlutfallið fer niður fyrir niðurfærsluhlutfallið, sem tap myndast á lánasafninu.  Það er því mjög mikið svigrúm hjá bankanum að láta lánþegann njóta niðurfærslunnar eða var þetta bara leið til að styrkja eiginfjárstöðu bankans til langfram og láta hann sýna mikinn hagnað?

Ég eiginlega skil ekki að hagfræðingur geti haldið því fram, að ef afskrifaðir peningar eru veittir sem afsláttur, þá valdi það tapi.  Slík röksemdafærsla gengur ekki upp í mínum huga.  Kannski getur einhver skýrt það út fyrir mér?

Marinó G. Njálsson, 25.2.2009 kl. 21:22

20 identicon

Því meira sem ég hugsa þetta finnst mér hugmyndafræðin klók. Ég verð að viðurkenna að vera andsnúinn þessum hugmyndum í upphafi. Í raun væri það pólitísk ákvörðun að fara þessa leið en niðurfærsluprósentan er sá hluti í jöfnunni sem þyrfti að vera ákveðin afgangsstærð og meta í ljósi upphæða og því sem ÍLS getur staðið undir.

Það á heldur ekki að vanmeta eftirspurnaráhrifin sem þú minnist á, Vilhjálmur, að fram gætu komið hjá hinum skuldminni og gætu verið mikilvæg til að koma hjólum efnahagslífsins af stað (í stað t.d. skattaafsláttar).

Og það eru aðirir liðir í efnahagstillögum framsóknar sem full ástæða er fjalla sérstaklega um. Þeir komu vissulega á óvart!

Cicero (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 21:44

21 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Algerlega rétt Marínó.  Auk þess væri mögulegt að veita bönkunum og Íbúðalánasjóði heimildir til að gefa út skuldabréf út á hina afskrifuðu fjárhæð sem mætti leggja inn í Seðlabankann til að prenta peninga - og innleystust á allt að 25 árum að fullnægðum tilteknum skilyrðum um afföll á innheimtu sem kalla myndu á styrkingu eigin fjár hjá þessum aðilum. 

Ekki þyrfti að strika þessi 20% út úr efnahag nýju bankanna - - með einu pennastriki . . sem sagt.

Jón Steinsson var í "áróðri" gegn hugmyndinni - því eins og hér hefur verið rakið er þegar búið að afskrifa þessi lánasöfn um 50%

Benedikt Sigurðarson, 25.2.2009 kl. 21:46

22 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Þótt ég hafi greint einstaka uppgjör sem blaðamaður og lært grundvallaratriðin í bókfærslu í hagfræðinni þá ætla ég ekki að þykjast vera neinn sérfræðingur í bókhaldsbrellum og ég get ekki skýrt þessi orð Jóns Steinssonar. Ég minnist þess þó að hafa einhvern tímann heyrt að endanlega afskrifaðar kröfur megi ekki innheimta, eða selja, þar sé verið að tvíbóka sömu krónuna. Ég sel það ekki dýrara en ég keypti það en þetta er það sem vakti fyrir mér þegar ég tala um Icesave. Kannski hefur Jón Steinsson verið að tala um þetta en ég held að það væri ráð að fá einhvern endurskoðanda sem lítur hingað inn til þess að skýra málið.

Sé það svo að hægt sé að "selja" afskrifaðar kröfur í nýju bankana velti ég því fyrir mér hvort erlendir kröfuhafar muni þá ekki eiga kröfu á hendur nýju bönkunum, með svipuðum rökum og talað var um að ógilda "sölu" bankamanna á fasteignum til maka sinna. Er þessi aðgerð ekki háð samþykki erlendra kröfuhafa?

Annað sem ég velti fyrir mér; var hluti neyðarlaganna ekki að nýju bankarnir tækju yfir ALLAR innlendar eignir gömlu bankanna, þ.m.t. íbúðalán. Ég verð að viðurkenna að vegna anna í náminu náði ég ekki að fylgjast alveg nógu náið með í haust.

Varðandi sparisjóðina, er ætlast til þess að þeir selji sín íbúðalán á 40% afslætti?

Ég er ekki að ætlast til þess að þú svarir þessum spurningum Vilhjálmur, þetta eru bara vangaveltur.

Guðmundur Sverrir Þór, 25.2.2009 kl. 21:56

23 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Marinó, þetta er reyndar flóknara en þú lýsir því, vegna þess að lánasöfnin eiga að fara út úr gömlu bönkunum á "raunvirði", þ.e. núvirði allra greiðslna sem búast má við að þau skili af sér.

Málið er hins vegar að ávöxtunarkrafa á slíkt greiðsluflæði er há í dag vegna óvissu, bæði almennt í efnahagsmálum og sértækt vegna bágrar greiðslustöðu margra skuldara.  Það er því óvarlegt að taka sem gefnu að 50 eða 60 krónurnar séu "of lágt" verð, og að það myndi strax í sjálfu sér svigrúm, því ef svo væri, ættu kröfuhafarnir að fá meira.  En engu að síður gæti það verið klók strategía að innheimta skuldirnar miðað við 80 krónu höfuðstól fremur en 100.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 25.2.2009 kl. 23:31

24 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Vilhjálmur, Kaupþing tekur við lánasöfnum vegna lána til innlendra viðskiptavina upp á 1.410 milljarða.  Af þessari tölu eru 935 milljarðar færðir á afskriftareikning.  Þegar búið er að færa þessi lánasöfn niður standa um 174 milljarðar sem nýi bankinn greiðir þeim gamla með skuldabréfi.  Það er því búið að taka tillit til allra þátta í verðmæti lánasafnanna.  þar sem upplýsingar varðandi hina bankana liggja ekki fyrir á sama hátt, þá veit ég ekki hvernig þessu er háttað hjá þeim.

Auðvitað er þetta flóknara en hægt er að setja fram í umræðu á vefsíðu, en grundvallarspurningin sem þarf að svara er þessi: 

Er hægt að afskrifa hluta af skuldum einstaklinga og fyrirtækja án þess að það skaði stöðu fjármálafyrirtækja umfram það sem myndi verða, ef ekki yrði farið í slíkar afskriftir?

Ég er þeirrar skoðunar, eins og mér sýnist þú vera líka, að þetta sé ekki bara hægt, heldur að þetta sé betri kosturinn af tveimur snúnum.  Báðir lúta að miklum eignatilfærslum.  Annar mun kyrkja hagkerfið, en hinn opna leið til þess að hjól hagkerfisins fara að snúast aftur.

Marinó G. Njálsson, 26.2.2009 kl. 00:09

25 identicon

EF færustu sérfræðingar á sviði innheimtukrafna eru almennt sammála því að í besta falli innheimtist um 80% af ibúðalánunum, og það er almennt ekki vilji til þess að fara í harðar innheimtuaðgerðir (setja skuldara í þrot) þá getur ekki legið fyrir annað en að afskrifa þessi 20% af lánunum.... og því fyrr og því hreinlegra sem það er gert... því betra fyrir alla.  Það er klókt að innheimta 80 krónurnar líkt og þú orðar það Vilhjálmur sökum þess að það getur veitt þjóðinni þá andlegu innspýtingu sem hún svo sannarlega þarf núna.  Að halda stórum hluta þjóðarinnar milli vonar og ótta um hvort hún fari í þrot eða ekki getur ekki verið annað en stórskaðlegt.

Það borgar sig heldur ekki á nokkurn hátt að fara út í neinar bókhaldsbrellur hjá nýju bönkunum eða ILS með þetta.  Ekki fara að fela þetta með einhverjum tilfærslum eða útgáfum á skuldabréfum milli hægri vasa og vinstri vasa hjá ríkinu. 

Þar að auki væri hreinlegast að ná að gera þessar færslur allar á sama rekstarárinu, þ.e. kaupin á kröfunum og afskriftir vegna þeirra, og byrja nýtt ár (2010) með hreint borð hjá nýju bönkunum og ILS. 

ILS fer ekkert í þrot við þessa niðurfærslu á sínum lánum meira en svo að þetta er það raunverulega hlutfall sem mun innheimtast í besta falli hvort eð er og þeir þurfa að feisa það á sama hátt og aðrir íbúðarlánveitendur.  Ríkið réttir svo eiginfjárhlutfallið hjá ILS af á sama hátt og SÍ var réttur af núna fyrir nokkrum vikum.

Ef kröfuhafar gömlu bankanna selja sínar kröfur á þessu umrædda 60% hlutfalli eða einhverju álíka, þá er það endanleg niðurstaða fyrir þá.  Þar með hafa þeir afsalað kröfunni til kaupandans og kaupandi kröfunnar tekur þar með áhættuna sem henni fylgir og nýtur ávinnings af því sem innheimtist umfram 60% - en tekur líka tapinu ef það innheimtist lægra hlutfall.

Hvað snertir sparisjóðina þá standa þeir enn með íbúðarlánin í höndunum sem þeir eru með bókfærð hjá sér á 100% af kröfu, en þeirra bíður ekkert annað en að feisa amk 20% höggið af þessum lánum, því það verður væntanlega endurheimtuhlutfallið af lánunum hvort eð er (í besta lagi).  Þeir geta þá ráðið hvort þeir vilja losa um fé strax og selja íbúðarlánin sín með afföllum til ILS eða freista gæfunnar sjálfir og sjá hvað innheimtist.  En þeir verða þá væntanlega að selja þau á þessu 60% hlutfalli líkt og aðrir því eitthvað annað hlutfall til handa þeim kæmi ankannarlega út svo ekki sé meira sagt. 

Kolbeinn (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 00:47

26 Smámynd: Guðmundur Sverrir Þór

Ég sé að ég hef ekki fylgst nógu vel með hvað varðar flutning eigna yfir í nýju bankana og biðst velvirðingar á bullinu í mér hvað það varðar. Eftir að hafa lesið tillögur framsóknarmanna yfir aftur er ég enn þeirrar skoðunar að þær séu þess virði að skoða. Þær eru hins vegar flóknar, sem sést best á því hversu margar túlkanir virðast vera mögulegar.

Ljóst er að einhver flötur þarf að finnast á niðurfærslu skulda heimilanna, og að sama skapi er ljóst að finna verður leið til þess að auka innlenda fjárfestingu og efla eftirspurn í hagkerfinu. Þessi vandamál verður að leysa sem fyrst, hver dagur sem tapast og hvert starf sem tapast telja.

Guðmundur Sverrir Þór, 26.2.2009 kl. 00:49

27 identicon

Vísa í fyrri færslu, úr síðasta bloggi Vilhjálms.

Þessi patentlausn framsóknar er fullkomlega galin og alveg með ólíkindum að hún skuli vera tekin alvarlega. Hver hagfræðingurinn eftir annan kemur fram og segir að þetta muni kosta 300-500 milljarða og þá spyr maður auðvitað: höfum við ekki yfirdrifið nógar skuldir fyrir? Hver á að borga þennan kosningatékka framsóknarmanna??

Svo mikið er víst að þessar hugmyndir hefðu aldrei komið fram nema vegna þess að það eru kosningar í nánd og framsóknarmenn eru flinkastir allra í að búa til kosningaloforð. Nú á sem sagt að afvegaleiða heilbrigða umræðu með því að láta fólk halda að það sé bara sísona hægt að fella niður 20% allra skulda og allir verði ánægðir. Auðvitað eru allir til í að minnka skuldir sínar um 20% með einu pennastriki, en það er bara fullkomlega óraunhæf og óréttlát leið. Hvað um þá sem:

- skulda ekkert, fá þeir einhvern bónus?

- hafa samviskusamlega greitt niður skuldir sínar frá bankahruni, þá þeir þá endurgreitt 20%?

- hafa selt ofan af sér í kjölfar bankahruns, fá þeir 20% endurgreiðslu af þeim lánum sem þeir eru nýbúnir að greiða upp?

osfrv, osfrv...

Þetta myndi sem sagt enda í málaferlum, ofan á allt annað... Smart?

Evreka (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 01:22

28 identicon

Mig langar að koma með eina spurningu sem er sjálfsagt kjánaleg en ég finn samt sem áður ekki svar við sjálfur.

Hver er munurinn á því að fella niður þessi 20% af húsnæðislánum skuldara og því að senda hreinlega tékka á hvern og einn skuldara upp á sömu upphæð ? þ.e. ríkið er búið að afskrifa hvort eð er "gróðinn" af því er semsagt til hjá ríkinu.

fyrst þessi eina spurning er farin í loftið þá langar mig að flétta örlítið meiri vitleysu við hana, er ekki alveg eins hægt að taka "gróðann" og skipta honum jafnt á milli allra þjóðfélagsþegna (réttlátara í mínum huga), við það hresstist hagkerfið líka og jafnvel á jákvæðari hátt ef við reiknum með að skuldarinn noti tékkann í að borga skuldirnar en þeir sem lítið skulda í aukna neyslu.

Þið leiðréttið mig ef þetta er algert þvaður.

Atli (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 01:27

29 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Mér finnst þetta ekki vitlaus hugmynd eins og ég hef oft sagt er stóri gallinn sá að það er eignfaldlega ekki rétt að búið sé að afskrifa þessi lán inni í gömlu bönkunum, Það eru þessi lán sem halda uppi verði eignasafnana og ef þau verða allt í einu gerð 20% verðminni þá verður að færa niður verðmat eignasafnana sem því nemur til viðbótar því sem nú er.

Atli ! það er sá munur á að senda tékkann og afskrifa lánin að hið fyrrnefnda er verðbólgusprengja.  Í ljósi núverandi aðstæðna gæti verðbólgusprengja bara verðið kostur í stöðunni svo það er kannski ekki vitlausara en hvað annað.

Guðmundur Jónsson, 26.2.2009 kl. 09:08

30 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Evreka, Atli og Guðmundur Jónsson: ég verð hreinlega að skora á ykkur að lesa ykkur betur til í málinu, þetta er ekki eins og þið haldið.  Það er trix í þessu sem veldur því að ekki er um að ræða flata 20% afskrift sem einhver "tapar" með beinum hætti úr því sem komið er.  Það er búið að taka niðurskrift á þessum lánum nú þegar á kostnað lánardrottna gömlu bankanna.  Spurningin snýst svo um það hvort og hvernig best sé að nýta það svigrúm.  Til að geta komið með rök sem máli skipta í umræðunni þar sem hún er nú, þarf að setja sig inn í hana frá byrjun.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 26.2.2009 kl. 11:19

31 identicon

Ég tek þessari áskorun fagnandi enda sýnist mér að mér veiti ekkert af meiri lestri um þessi mál .

Mér sýnist Evreka vera að skrifa um sömu hluti og ég á sama tíma þannig að okkur vantar kannski bæði aðeins meiri bakgrunn, ég viðurkenni það alveg í mínu tilfelli og myndi fegin þiggja ábendingar um góðar og upplýsandi greinar sem snúa að þessu.

Annars voru mín skrif eingöngu hugleiðing (rakalaus) sem ég fékk ekki botn í sjálfur og þar sem þú, Vilhjálmur,  hefur verið lúsiðinn við að útskýra bix og trix í fjármálum fyrir okkur sem minna höfum hugsað um efnahagsmál og meira um annað með einfaldri uppsettningu bixa og trixa fjármálamarkaðsinns setti ég hana inn hér.

Takk annars fyrir fróðlega bloggsíðu, hér virðist alltaf vera málefnaleg umræða.

Atli (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 12:38

32 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Með lestri á ég við að byrja t.d. á skjali Framsóknar, lesa svo bloggfærsluna mína og síðan athugasemdirnar hér að ofan.  Þar er að finna svör við flestum þeim punktum sem spurt var um hérna í síðustu færslum.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 26.2.2009 kl. 12:51

33 identicon

Marinó. Spurningin sem þú setur fram , þ.e.

"Er hægt að afskrifa hluta af skuldum einstaklinga og fyrirtækja án þess að það skaði stöðu fjármálafyrirtækja umfram það sem myndi verða, ef ekki yrði farið í slíkar afskriftir? "

er að sjálfsögðu mjög mikilvæg og hefur áhrif á hversu viljugir hagsmunaaðilar eru til að fara þessa leið. Mér finnst einfalda svarið við spuringunni vera nei. Án þess að hafa gögn tel ég að með flatri niðurfærslu muni verulegar skuldir vera færðar niður sem myndu greiðast hvort eð er. Það mun að sjálfsögðu bitna á skuldareigendum þegar upp er staðið, t.d. nýju bönkunum. EInnig mun þessi leið ekki duga öllum og því þarg að taka á þeirra málum sérstaklega þrátt fyrir allt. Þetta var aðalröksemdir mín gegn tillögunni í fyrstu.

Það breytir ekki því að mér finnst þessi tillaga, sem varnaraðgerð í kreppu (og samhliða öðrum öðrum efnahagsaðgerðum), hefur marga kosti sem "óvenjuleg lausn við óvenjulegar aðstæður". Ef það er framkvæmanlegt að ÍLS kaupi öll (eða nánast öll) húsnæðislán á markaðinum með afföllum er hægt að fara í samræmdar aðgerðir við uppgjör þeirra lána, hvort sem niðurfellingin er 20% eða einhver önnur prósenta, frysting afborgana osfr. Líklega þarf að beita afli með lögum til að ná öllum lánunum inn í ÍLS (þe óvíst er að fjármálastofnanir vilji selja góð lán með afföllum). Þessi leið er amk verð alvarlegrar skoðunar hjá stjórnvöldum.

Hinsvegar verð ég að viðurkenna að ég sé ekki hvernig framkvæmdin á að vera varðandi fyrirtækjalánin. Sýnist það vera mun flóknara mál og það væri áhugavert að heyra hvaða hugmyndir menn hafa þar. 

Cicero (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 13:35

34 identicon

Ofangreint komment byggir að sjálfsögðu á því að viðkomandi fjármálastofnanir selji ekki eignasöfnin. Afskrift "góðra" lána þarf einhvers staðar að koma fram og ef ÍLS kemur t.d. á sléttu út með 20% flata niðurskrift má álykta sem svo að lánasafnið hafi fengist með umframafföllum, þ.e. seljandi hefði komið betur út með því að halda eignasasfninu til hefðbundinnar innheimtu.

Cicero (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 14:08

35 Smámynd: Ingibjörg Friðriksdóttir

Sæll,

Værir þú til í að senda mér tölvupóst á ifo@simnet.is  ég er að leita að netfanginu þínu.

bestu kveðjur,

Ingibjörg F. Ottesen

Ingibjörg Friðriksdóttir, 26.2.2009 kl. 18:45

36 identicon

Til að taka það fram þá er verið að tala um íbúðarlánin sem enn eru í eigu gömlu bankana.  Þau ykkar sem tókuð íbúðarlán hjá einhverjum af gömlu bönkunum þremur megið ekki láta það rugla ykkur þó svo núverandi gíróseðlar vegna þeirra komi frá nýju bönkunum.   Nýju bankarnir eru ekki enn búnir að greiða þeim gömlu neitt fyrir lánin.

Það er einmitt eitt af stóru málunum í þessu, á hvaða verði munu nýju bankarnir (ríkið) kaupa íbúðarláninu (menn hafa heyrst nefna hugmyndir um 50-60% af kröfu en það er algerlega óstaðfest). 

Hver sem prósentan verður er alveg ljóst að afföllinn verða umtalsverð, og það með réttu því þessi veðlán eru einfaldlega ekki meira virði.  Íbúðarlánveitendur allstaðar í heiminum standa frammi fyrir því að þurfa afskrifa talsverðan hluta íbúðarlána sinna af sömu ástæðu og herjar á okkur hér á fróni.

Þessar afskriftir íbúðarlána eru sem dæmi það sama og bandaríska ríkið er að gera með því að taka á sig "bad bank" hlutann af útlánum bandarískra banka......þar hafa bankar líkt og Washington Mutual og fleiri fengið að losa íbúðarlán sín yfir á ríkið (skattgreiðendur taka höggið) .... í stað þess að þeir hefðu verið látnir fara í þrot og skipuð hefði verið skilanefnd yfir bankana (lánveitendur þeirra taka höggið). 

Í þessu felst "trixið" sem Vilhjálmur kemur inná.  Stabbinn af þessum slæmu íbúðarlánum eru í raun enn í dag eign gömlu bankanna og þessar kröfur verða seldar út úr þeim með afföllum......það er alveg ljóst.  Bara spurning hversu há þessi afföll verða. (Nýju bankarnir munu ekki þurfa að taka afföllin á sig.)   Ef ekki er færi á að nýta sér þetta þjóðfélaginu til framdráttar þá veit ég ekki hvað. 

Íbúðarlánasjóður stendur frammi fyrir sömu vandamálum og restin af lánveitendum, þ.e. mun þurfa að grípa til afskrifta.  ÍLS myndi væntanlega fara í þrot að öllu óbreyttu (þeir eru með um 4% eiginfjárhlutfall ef ég man rétt).....og ríkið myndi standa frammi fyrir því að þurfa spíta pening inní ÍLS ef ekki kæmi til möguleikinn á því að rétta sjóðinn af með þessari tilfærslu á lánum til þeirra frá gömlu bönkunum með talsvert miklum afföllum.

Svo í lokin vil ég mótmæla röksemdafærslu Árna þingmanns Samfylkingarinnar sem kom fram í þættinum Markaðnum í kvöld um að niðurfelling hluta lána letji fólk til þess að standa í skilum.......þetta er akkurat öfugt farið.  Að sjá ekki framúr skuldum er mjög greiðsluletjandi.

Kolbeinn (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 21:02

37 identicon

Hugmyndafræðin er engu að síður góð. Í dag ganga sölur á lánum og lánasöfnum með gríðarlegum afslætti erlendis og þar liggur virðið í þessari hugmyndafræði, þ.e. að kaupa lánasöfnin með verulegum afslætti af erlendum kröfuhöfum og jafna síðan greiðslubyrðinni og innheimta yfir líftíma lánanna. Þannig skil ég virðisaukninguna, þ.e. að erlendir kröfuhafar hafi einfaldlega aðra sýn á núvirði krafnanna. Þannig verði samið um endanlega upphæð við skilanefndirnar/gömlu bankana og síðan unnið úr þeim kröfum sem nýju bankarnir, ÍLS og aðrir íbúalánveitendur hafa á sína kröfuhafa.

ÍLS sem kaupandi meirilhluta krafnanna gæti einfaldlega látið á þetta reyna. Ef það gengur ekki, bad luck, en að öðrum kosti er forsenda fyrir þessari leið. En ef ekki, þurfa gömlu bankarnir og eftir atvikum nýju bankarnir að standa í innheimtuaðgerðum gagnvart öllum þessum aðilum með viðeigandi fyrirhöfn og kostnaði, - og einstökum afskriftum.

Það má ekki gleyma að þessi leið, ef hæun gengur, gæti haft þensluhvetjandi áhrif á efnahagslífið, sem ekki veitir af.

Cicero (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 21:33

38 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Kolbeinn, ég tek undir þína athugasemd, nema kannski fyrsta liðinn, því FME hefur tekið stjórnvaldsákvarðanir um flutning íbúðalána yfir í nýju bankana og hefur til þess lagaheimildir.  En það er rétt að verðmatið hefur ekki farið fram og 50% tölurnar sem hafa verið nefndar eru ágiskanir sem miða við fyrstu upplýsingar sem komu frá skilanefndunum og FME, en þær geta hæglega breyst.  Þessi mynd verður ekki ljós fyrr en 15. apríl þegar mati á yfirfærðum eignum lýkur.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 26.2.2009 kl. 21:56

39 Smámynd: Dexter Morgan

Tapar einhver á þessu ? Ég meina, ef þú, Vilhjálmur lánar mér 10þús. kall og ég samþykki að borga þér 20þús. eftir mánuð OK. Svo þegar ég ætla að greiða þér 20þús. þá segir þú; nei ég hef ákveði á láta þig bara borga 15þús., ég slæ af 5þús kall. OK, hver tapar, enginn. Hver græðir á þessu, greiðandinn.

Erum við ekki að tala um þetta nokkurn veginn svona, á mannamáli. Þarna er bara verið að tala um pappírspeninga, sem aldrei hafa verið í umferð og bara til sem uppreiknaður höfuðstóll vegna vaxta og verðbóta. Ekki satt ?

Dexter Morgan, 26.2.2009 kl. 23:28

40 identicon

Dexter. Nema að þegar þú skrifar undir skuldina þína 10þús. kall, þá veistu að það eiga að verða ákveðnir vextir og verðbætur og þú samþykkir þess vegna 20þús.kall. Það sem gerðist að Vilhjálmur ætlar að rukka þig um 25.þús kall, vegna aðstæðna sem urðu í viðskiptaumhverfinu og í raun sök Vilhjálms sem lánveitanda. Því er þetta ósanngjarnt af Vilhjálmi, og það sem þú keyptir fyrir 10.þús kallinn þinn er einungis 7.þús kr. virði ef þú getur þá selt.

Því er verið að leiðrétta þetta þannig að skuldin þín fari í 20.þús kall eins og um var samið í upphafi, áður en Vilhjálmur fór að reyna að græða meira og svindla á lántakendum.

Soffía (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 10:11

41 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Ég er búin að læra heima

 Ég held að til að áta sig á því hvaða gallar og kostir fylgja þessari niðureflingarleið framsóknar verða menn fyrst að átta sig á að svartipétur er í spilunum og hann lendir einhverstaðar. Ef menn líta bar framhjá því og tal um brellur og trix er ekki hægt að ná utanum þetta.Tilraun # 5.

Góðu lánin í lánsöfnum gömlu bankana eru þekkt stærð, 100% innheimtanleg og þau eru þar núna. Í tilögum framsóknar er tekið á þessu þannig að gert er ráð fyrir að ríkið eigi að bæta eigendum þessara lána tjónið (vegna þess að þessi lán eru tekin út úr lánsöfnunum) með því að kaupa ónýtar skuldir af þeim á móti í formi ríkisstyrkja til illa stæðra fyrirtækja. Þetta er því ríkistyrkur þar sem bankarnir virðast eiga að velja fyrirtæki sem þeir vilja bjarga. Þarna hljót koma upp ýmis álitamál eins og aföll til bankans af þessu og hæfi bankastjóra til úthlutunnar á almannafé. Þetta mæti ef til vill gera öðru vísi til dæmis láta bankann bara haf  peningana og losna þannig við afskriftavandann, sem er í hnotskurn vandinn varðandi mismunun eiganda skuldanna. Í öllu falli er framsóknartrixið nýtt fé úr ríkisjóði og engin galdur þar á ferð.

En þetta er vel í átin að því sem þarf að gera. Setja nýtt fé út í hagkerfið án þess að skuldir heimilanna hækki = höggva á verðtryggingu.

Guðmundur Jónsson, 27.2.2009 kl. 10:30

42 identicon

 VILLAN hjá höfundi V.Þ. er að ALLS EKKI ALLIRT FÁ NEINA AFSKRIFT.

 Forsendan er því röng og þarf af leiðir útkoman. Dæmið er auðskilið

 en hefur ekki forsendu í raunveruleikanum. Niðurstaða = stórt N'ULL

 Bankarnir gerta EKKI það sem V.Þ segir. Það hefi ég staðfest-han- n+u.

J. Ármann (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 11:59

43 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég þakka góða umræðu og vel ígrunduð framlög hér.  Mín eigin niðurstaða, að svo komnu máli, er að það geti verið ýmislegt til í þessum hugmyndum, og að þeim eigi ekki að sópa fyrirfram út af borðinu.  En útfærslan er viðkvæm og erfið og háð ákveðnum forsendum sem vonandi verða fyrir hendi, en eru ekki vísar.

Við sjáum hvað setur, myndin skýrist verulega 15. apríl og þá verður hægt að tala um þetta af meiri vissu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 27.2.2009 kl. 12:59

44 identicon

Rétt er að skipta vandamálinu í tvo hluta, framtíðarvanda og fortíðarvanda. Fortíðarvandinn er sá að verið er að mismuna þeim sem eru nettó í plús annars vegar nettó í mínus hins vegar. Þeir sem eru nettó í plús eru tryggðir með ábyrgðum frá meðal annars þeim sem eru nettó í mínus. Þetta er gert með innistæðuábyrgðum, fjármögnun peningamarkaðssjóða, áframhaldandi verðtryggingu og háum vöxtum. Þeir sem eru nettó í plús hafa ekki orðið fyrir neinu tjóni og eru nú verndaðir að mestu fyrir verðbólgu og  slæmu efnahagsástandi. Þeir sem eru nettó í mínus deila tjóninu með plús fólkinu með þeim hætti að báðir hópar tapa á verðfalli fasteigna, tapi á hlutabréfum og tapi á peningamarkaðssjóðum. En nettó mínus fólkið þarf - umfram plúsfólkið - að takast á við háa vexti, háa verðbólgu ásamt því að tryggja innistæður plúsfólksins.

Þannig er mínusfólkið í mun verri stöðu. Þegar grannt er skoðað, liggur mismunurinn einkum í vöxtum og verðtryggingu. Þess vegna felst lausnin á því hvernig jafna megi átakinu niður í því að gera uppskurð á vaxtamálum, verðtryggingarmálum og gengismálum.

Í fyrsta lagi þarf að banna verðtryggingu frá og með 1. apríl næstkomandi. Í öðru lagi á að setja 2% þak á vexti húsnæðislána. 'i þriðja lagi þarf að lækka vexti niður í 2%.  Við þetta gerðist það að tjónið væri stöðvað til framtíðar.

Það gleymist að með vöxtum sem sleikja 20% og atvinnulíf sem skilar tapi, þá  eru skattgreiðendur að niðurgreiða vexti til innistæðueigenda. Það er ekki hægt að ávaxta peninga með 20% á Íslandi í dag, þannig að það hljóta að vera skattgreiðendur sem borga brúsann.

 Ef innistæðueigandi vill ekki una 2% vöxtum, þá er honum heimilt að leita annarra leiða til að ávaxta sitt pund, til dæmis með því að taka þátt í atvinnulífinu.

Það getur ekki verið "réttur" neins að  geta gengið inní ríkisbanka og fengið sjálfvirka háa ávöxtun, þegar atvinnulífið er ekki að skapa slík verðmæti.

Vextir horfa til framtíðar en verðbólga til fortíðar. Það er fráleitt að ákvarða vexti með hliðsjón af verðbólgu liðins tíma. Verðbólga á aldrei að ákvarða vexti heldur eiga aðrir þættir að ráða einsog raunhæf geta atvinnulífs til að greiða vexti eða framboð og eftirspurn á markaði.

Til er reiknanleg stærð sem nefnist raungengi. Gengi krónunnar á að miðast við þá stærð og vera handstýrt.

Björn Jónasson (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 13:05

45 identicon

Sæll, ágætis umræður hér og ég myndi vilja kommenta aðeins á það er margt inní þessu reikningsdæmi sem þarf að taka tililit til. Eins og hugmyndin er sett fram mun þetta ævinlega vera aukakostnaður á ríkið því það sem flestir eru að misskilja varðandi verðmatið á eignum bankanna er að það eru ráðgjafafyrirtæki gjörsamlega óháð bankanum sjálfum sem meta eignirnar og bankarnir kaupa þær ekki yfir á 60% ef þeir myndu telja að þeir fengju 80% fyrir þær. Þessi ráðgjafa/endurskoðendafyrirtæki myndu bara aldrei samþykkja slíkt

Það má eiginlega segja að endurskoðunarfyrirtæki sem starfa fyrir lánadrottna gömlu bankanna séu einskonar handrukkarar bankaheimsins og þeir munu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að fá sem mest upp í kröfurnar sínar. Þeir munu aldrei sætta sig við 20% niðurfellingu skulda áður en eiginlegt verðmat liggur fyrir.

 Tel að það sé mjög mikilvægur punktur að fólk horfi til heildarútgjalda ríkissjóðs þegar þeir vilja fella niður skuldir manna sem geta borgað þær.

Jóna (IP-tala skráð) 27.2.2009 kl. 13:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband