1.12.2008 | 23:19
Gjaldeyrisreglurnar: Lækningin verri en sjúkdómurinn?
Markmið nýrra gjaldeyrishafta er að halda uppi gengi krónunnar, og leiðin er sú að taka krónur erlendra fjárfesta í gíslingu. En eins og með flest höft, þá fylgja þeim verulegar ófyrirséðar afleiðingar, og það er engan veginn ljóst að lækningin sé skárri en sjúkdómurinn þegar upp er staðið.
Lítum á nokkur atriði.
- Reglur Seðlabankans banna erlenda fjárfestingu í hlutabréfum og öðrum verðbréfum hérlendis. Þetta kyrkir ýmis nýsköpunar- og uppbyggingarverkefni sem voru þó á dagskrá (t.d. Verne Holdings) og torveldar okkar alþjóðlegu fyrirtækjum (t.d. Marel, CCP, Actavis, Össuri) að sækja sér fé til nýrrar útflutningssóknar.
- Reglur Seðlabankans banna fyrirtækjum að taka lán erlendis umfram 10 m.kr., nema vegna beinna vöru- og þjónustukaupa. Þetta kemur í veg fyrir endurfjármögnun skulda og einnig að fyrirtæki geti sótt erlent lánsfé til að greiða upp innlendar skuldir, sem myndi styrkja gengi krónunnar. Ef erlendir lánardrottnar vilja þrátt fyrir allt ennþá lána íslenskum fyrirtækjum gjaldeyri, hví þá að banna slíkt?
- Forsætisráðherra og formaður bankastjórnar Seðlabankans lýstu því yfir í upphafi kreppunnar að bankarnir væru að fara í þrot en ekki ríkissjóður; ríkið myndi standa við sínar skuldbindingar. Nú er verið að ganga á bak þessara orða með því að erlendir fjárfestar í ríkisbréfum, innistæðubréfum og skuldabréfum Íbúðalánasjóðs eru festir inni og ná ekki peningum sínum út. Frá þeirra sjónarhóli er ríkið að bregðast sem skuldari. Það hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir lánstraust Íslands og lánshæfismat þess um langa framtíð.
- Loks hefur setning gjaldeyrislaganna og -reglnanna þau óhjákvæmilegu áhrif að hræða erlenda fjárfesta frá Íslandi til skamms og langs tíma. Landið getur ekki lengur gumað af stöðugu, opnu stjórnarfari og traustu fjármálaregluverki.
Í ljósi alls þessa sem hér er rakið, tel ég fulla ástæðu til að spyrja, hvort ekki hefði verið betra að (a) stefna strax inn í annan gjaldmiðil, og/eða (b) fleyta krónunni án hafta og láta markaðinn leysa vandann, en þó með hliðarráðstöfunum á borð við greiðsluaðlögunarvísitölu sem myndi jafna út verðbólgukúf á húsnæðislánum yfir 12-24 mánaða tímabil. Þrátt fyrir allt er ekki líklegt að evran haldist til lengdar í 250-300 krónum, því flæði vöruskipta og spákaupmennsku kæmu krónunni til hjálpar á slíkum slóðum.
Með þessu móti hefði orðið meiri skammtímasársauki, en til lengri tíma hefði orðspor okkar beðið minni hnekki, og möguleikar til nýrrar uppbyggingar orðið þeim mun meiri.
Það getur verið betra að rífa plásturinn af í einum rykk en að taka hann hægt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.11.2008 | 02:04
Svona á kjörseðillinn að vera
Vilmundur Gylfason lagði til á sínum tíma að kjósendur fengju að velja flokkalista og/eða einstaka frambjóðendur í alþingiskosningum. Slíkt kosningafyrirkomulag hefur m.a. verið notað í breska samveldinu allt frá lokum 19. aldar. Hér er dæmi um kjörseðil úr kosningum til öldungadeildar ástralska þingsins. Kjósa má annað hvort lista í heild sinni, eða einstaka frambjóðendur með því að númera þá í töluröð, eins marga og kjósandinn vill - og þvert á flokka ef óskað er.
Nánar má lesa um kosningakerfið, "færanleg atkvæði", á Wikipediu. Takið eftir dálkinum lengst til hægri, "Ungrouped" - óflokksbundnir frambjóðendur sem treysta á einstaklingsatkvæði en ekki flokka.
Er þetta ekki akkúrat það sem við þurfum núna á Íslandi? Flokkarnir hafa of mikil völd til að velja fólk inn á Alþingi, og margt af besta fólkinu nennir ekki að vinna sig í gegn um flokksapparötin.
Þetta er alveg málið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
28.11.2008 | 17:06
Bann á erlenda fjárfestingu?
Fyrsta grein nýrrar reglugerðar Seðlabankans um gjaldeyrisviðskipti hefst svona:
Fjárfesting í verðbréfum, hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, peninga-markaðsskjölum eða öðrum framseljanlegum fjármálagerningum með erlendum gjaldeyri er óheimil.
Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að erlend fjárfesting sé þar með bönnuð í landinu.
Nú vill svo til að ég er stjórnarformaður í félaginu Verne Holdings hf. sem hyggst reisa gagnaver í Keflavík og hefur keypt tvö stór vöruhús í þeim tilgangi af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, fyrir miklar fjárhæðir. Í félaginu eru erlendir fjárfestar sem ætluðu að koma með verulegt magn dollara inn í landið sem hlutafé í Verne Holdings. Ef Seðlabankanum er alvara sé ég ekki betur en að menn geti pakkað saman og gleymt því verkefni, og nýja sæstrengnum Danice í leiðinni.
Er þetta það sem íslenskt efnahagslíf þarf á að halda um þessar mundir? Eða er þetta enn eitt dæmið um mistök Seðlabanka? Hvernig útskýrir maður svona rugl fyrir útlendingum?
28.11.2008 | 00:31
Ný lög um gjaldeyrisviðskipti vekja spurningar
Nýtt frumvarp til breytinga á lögum um gjaldeyrismál vekur ýmsar spurningar. Greinilega er verið að koma í framkvæmd stefnu sem mótuð var í samvinnu við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, og er ætlað að koma í veg fyrir hraða veikingu krónu sem yrði þegar "hræddu peningarnir" hyrfu úr landi. Reynt er að "opna" fyrir gjaldeyrisviðskipti vegna inn- og útflutnings vöru og þjónustu (sem AG kallar current account), en "loka" fyrir flæði vegna fjármagnsflutninga (sem AG kallar capital account). Tilgangurinn sem helgar meðalið er að krónan styrkist fremur en veikist og að viss stöðugleiki náist áður en opnað er fyrir fjármagnsflutninga.
Þetta kallar á ýmsar spurningar. Sú fyrsta og augljósa er sú, hvort ekki sé með þessu aðeins verið að fresta vanda, en ekki leysa hann. Hræddu peningarnir þurfa að komast út þótt síðar verði, og munu ávallt hafa áhrif til veikingar krónu. En það má vera að frestur sé á illu bestur.
Í öðru lagi má spyrja hvort þessi aðgreining í opnun og lokun sé í reynd framkvæmanleg. Það hlýtur að vera mjög sterk tilhneiging fyrir hræddu krónurnar að slæðast með í gjaldeyriskaupum innflytjenda, og til að draga úr gjaldeyrisskilum útflytjenda. Viðkomandi hafa gagnkvæman hag af slíku og reynslan sýnir að erfitt er að eiga við slíka stöðu með sovésku eftirliti og refsingum eins og til virðist standa.
Í þriðja lagi er óljóst hversu víðtæk höftin eiga að vera, og eins og alltaf með höft, eru jaðrarnir erfiðir viðureignar. Munu fyrirtæki geta greitt af og/eða tekið ný erlend lán? Munu erlendir starfsmenn sem starfa á Íslandi geta greitt af erlendum húsnæðislánum sínum og sent peninga heim til sín? Munu erlendir fjárfestar sem setja peninga í innlend verkefni geta tekið arð og söluhagnað til baka? Mun nokkur erlendur aðili þora að kaupa íslensk skuldabréf eða aðra fjármálagerninga næstu áratugina?
Loks verður athyglisvert að sjá hvort stjórnvöld komast yfirleitt upp með þessa lagasetningu þegar á reynir fyrir dómstólum, innlendum og erlendum. Gjaldeyrishöft eru andstæð EES-samningnum, grunnreglum OECD og reyndar einnig stofnsáttmála Alþjóða gjaldeyrissjóðsins. Vissulega er gert ráð fyrir neyðarrétti en það er engan veginn augljóst að slíkt eigi við um Ísland, hér er ekki stríðsástand eða náttúruhamfarir heldur er einfaldlega verið að velja eina pólitíska leið fremur en aðra út úr stöðu sem við komum okkur sjálf í. Aðrar leiðir hefðu til dæmis getað verið upptaka annarrar myntar og/eða hraðinnganga í ESB.
Svo ég endurtaki eins og Kató gamli: við hefðum átt að vera komin inn í ESB fyrir löngu, t.d. með Svíum og Finnum. Að þverskallast í því máli, sem einkum er á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins, er meðal stærstu mistaka lýðveldissögunnar.
18.11.2008 | 00:43
Hugmyndir Vilmundar eru ennþá ferskar og róttækar
Laugardaginn 15. nóv. sl. hélt ég fyrirlestur á fundi í Iðnó, um það hvort hugmyndir Vilmundar Gylfasonar heitins ættu erindi í umræðuna í dag.
Vilmundur sá glögglega brestina í flokkakerfinu og í því hvernig fólk er valið til ábyrgðar. Hann setti fram róttækar tillögur til breytinga á grunni stjórnskipunarinnar.
Í fyrsta lagi vildi Vilmundur og flokkur hans, Bandalag jafnaðarmanna, boða til sérstaks stjórnlagaþings sem ætlað var að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins og færa hana til nútímahorfs. Til þessa þings yrði kosið í sérstökum kosningum, enda eru starfandi stjórnmálamenn ekki rétta fólkið til að ákveða sjálfu sér ramma.
Í öðru lagi lagði Vilmundur til að kjördæmaskipting yrði afnumin og að kosið yrði til Alþingis í einu kjördæmi. Með því væri dregið úr gæslu sérhagsmuna á kostnað heildarhagsmuna, og hugsunarhætti um hlutverk alþingismanna breytt, þannig að þeir væru til þess kosnir að setja landinu rammalöggjöf en ekki að ganga erinda sinna kjósenda sérstaklega.
Í þriðja lagi setti Vilmundur fram nýstárlegar hugmyndir um breyttan kjörseðil þar sem kjósendum væri heimilt að deila atkvæði sínu á einstaklinga óháð framboðslistum ef þeir óskuðu. Prófkjör og kosningar færu þá fram samtímis. Þessi hugmynd ein og sér myndi gerbreyta því á hvaða forsendum einstaklingar byðu sig fram til þings, og draga verulega úr valdi flokkanna.
Í fjórða lagi vildi Vilmundur kjósa forsætisráðherra beinni kosningu, samhliða en óháð kjöri til þings. Forsætisráðherra myndi svo velja með sér ráðuneyti, og yrði í því að hafa í huga að stjórn hans nyti nægjanlegs fylgis á Alþingi. Kjósendur væru þannig að velja þann framkvæmdastjóra og ráðuneyti sem þeir treystu best, en létu ekki flokkunum og Alþingi það eftir. Þetta er líkt því sem þekkist frá Bandaríkjunum.
Það er full ástæða til að rifja upp þessar aldarfjórðungs gömlu hugmyndir, því þær taka á ýmsum helstu og dýpstu rótum þess vanda sem við er að etja á Íslandi um þessar mundir.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.11.2010 kl. 11:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
15.11.2008 | 18:20
Þorgerður Katrín afkóðuð
Líkt og til var heil fræðigrein, Kremlólógía, sem gekk út á að ráða í blæbrigði í orðalagi sovéska kommúnistaflokksins, þarf að beita greiningu á texta frá forystumönnum Sjálfstæðisflokksins.
Hér á eftir fara orð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur varaformanns flokksins, eftir að tilkynnt var um nýja Evrópunefnd og flýtingu landsfundar:
Við erum í breyttum heimi og við höfum ávallt talað um það að við þurfum að fara þá í kalt hagsmunamat."
Sem sagt, það hefur ekki verið hagsmunamat sem hefur ráðið ESB afstöðunni hingað til, heldur þjónkun við kenjarnar í Davíð, sem sagan segir að hafi tekið upp andstöðu við Evrópuþróunina eftir að hafa hitt Margréti Thatcher.
"Við þurfum alltaf að hugsa fyrst og fremst um hag þjóðarinnar og það erum við að gera.
Af hverju þarf að taka það sérstaklega fram? Vegna þess að hingað til hefur einmitt ekki verið hugsað um hag þjóðarinnar heldur meintan hag þröngra hagsmunahópa?
Hún segir að það sem bíði Sjálfstæðismanna nú sé að virkja allan flokkinn.
Með öðrum orðum, aðeins hluti hans hefur verið virkur hingað til, sá hluti sem er andvígur ESB aðild.
Við erum að virkja okkar grasrót. Við viljum fá alla með okkur í lið í flokknum sem hafa verið að tjá sig."
Eða, við höfum hingað til ekki hlustað á grasrótina og þá sem hafa tjáð sig, en við ætlum að hysja upp um okkur og gera það núna.
"Við erum ekkert að leyna því að það hafa verið skiptar skoðanir innan flokksins og við vilum fá alla með okkur í þá vinnu sem framundan er. Við viljum gera þetta gegnsætt og fá til liðs við okkur bestu menn á viðkomandi sviði til þess að niðurstaðan geti orðið þannig að fólk geti orðið ásátt um þær tillögur sem að verða lagðar fram, sagði Þorgerður Katrín.
Þýðing: Hingað til hefur stefnumótunin verið ógegnsæ og ekki hefur verið tekið mark á okkar bestu mönnum á viðkomandi sviði, heldur hefur kenjunum í Davíð verið fylgt í blindni. Þetta hefur valdið ósætti í flokknum.
En batnandi mönnum er best að lifa, og vonandi kemst Sjálfstæðisflokkurinn að skynsamlegri niðurstöðu í Evrópumálum, þó verulega miklu fyrr hefði verið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
12.11.2008 | 17:30
Lykillinn að Icesave málinu
Lykillinn að Icesave umræðunni liggur í þessu stöplariti frá fyrrum stjórnendum Landsbankans:
Landsbankinn átti sem sagt 4.400 milljarða á móti innlánum (og veðtryggðri fjármögnun) sem voru 2.200 milljarðar - þar með talin innlend innlán og Icesave.
Með neyðarlögunum voru innlánin gerð að forgangskröfum í bú Landsbankans, þannig að ef eignirnar reynast vera a.m.k. 2.200 milljarða virði, fá innlánseigendur sitt fé fyrir rest.
Verkefnið er tvískipt. Í fyrsta lagi þarf að ná inn 2.200 milljörðum fyrir eignir sem um mitt ár voru bókfærðar á 4.400 milljarða. Vandinn þar er sá að lánasafn bankans er fremur ófagurt, og skuldarar "the usual suspects" á borð við Baug, Icelandic, Eimskip, Teymi og önnur skuldafjöll. En þótt mikið sé um arfa eru skárri grös inni á milli, og það hlýtur að vera hægt að ná saman talsverðum verðmætum úr eignasafninu ef vel er á haldið.
Í öðru lagi er ljóst að þetta ferli tekur tíma, meðan innistæðueigendur vilja fá sitt fé strax. Því þarf að brúa millibilið með lántöku milligönguaðila - þartilgerðs sjóðs - sem greiðir innistæðueigendum og yfirtekur jafnframt kröfu þeirra á þrotabúið.
Til að sættast við Breta og Hollendinga þarf að gera tvennt: 1) að ná samkomulagi um að þeir og/eða aðrir (IMF?) láni þartilgerða sjóðnum þá upphæð sem greiða þarf innistæðueigendum; 2) að ákveða hvernig með skuli fara ef eitthvað vantar á endanum upp á að sjóðurinn fái til baka úr þrotabúinu þá upphæð sem hann fékk að láni. Varðandi (2) þá kemur til greina að íslenska ríkið deili tapinu í einhverjum hlutföllum með öðrum ríkjum, og/eða endurgjaldi með hlutabréfum í nýju bönkunum. Slíkt tap lægi í fyrsta lagi fyrir eftir nokkur ár (við slit þrotabúsins) og mætti greiða niður á lengri tíma.
Þetta er lykillinn að Icesave málinu og ég trúi ekki öðru en að hægt sé að ná samkomulagi um lendingu sem teljist viðsættanleg fyrir alla aðila í stöðunni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 13.11.2008 kl. 00:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (37)
11.11.2008 | 16:46
Ofhitnunin var augljós
Hér er graf yfir peningamagn í umferð (M1, M2 og M3) sl. átta ár skv. gögnum frá Seðlabankanum:
Athyglisvert er hið gríðarlega stökk sem verður um og upp úr áramótum 2006-2007. Í febrúar 2007 verður "litla kreppan" þar sem krónan veikist og erlendar greiningardeildir lýsa ítrekuðum efasemdum um íslenska hagkerfið. Peningamagnið heldur samt áfram að vaxa hröðum skrefum, m.a. vegna jöklabréfa, og langtum hraðar en landsframleiðsla.
Hafa verður í huga að ávöxtunarkrafa til fjármuna í ISK var á þessum tíma a.m.k. 13-15%. Segja má að bankarnir hafi mátt hafa sig alla við að koma hinu sívaxandi peningamagni í vinnu, sem hefur beinlínis kallað á aukna áhættusækni (gírun). Öðruvísi var ekki unnt að skila 13-15% ávöxtun, jafnvel þótt nafnávöxtun væri. (Hinn möguleikinn var að stíga út úr dansinum, eins og ábyrgir bankamenn áttu að gera, en hlutabréfamarkaðurinn hefði refsað fyrir það!)
Jafnvel fyrir amatörhagfræðing eins og mig er kýrskýrt af þessu grafi að þenslan og veislan í krónunni gat ekki haldið áfram til lengdar. Það var stærðfræðilega ómögulegt, hvað þá hagfræðilega eða raunverulega.
Hvað voru þeir sem báru ábyrgð á efnahagsmálum og peningamálastefnu, og þáðu laun fyrir að reikna út, spekúlera í, og bregðast við þessum tölum, að hugsa?
Stjórnmál og samfélag | Breytt 12.11.2008 kl. 00:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
6.11.2008 | 18:56
Heykvíslar á lofti
Ég hef aðeins verið að læsa saman hornum við Egil Helgason undanfarið, í athugasemdum á bloggi hans Silfri Egils. Bloggið atarna hefur verið nokkurs konar þéttipunktur þeirra óánægjuafla sem vilja "réttlæti heykvíslanna". Heimssýnin þar er sú að íslenskt viðskiptalíf hafi verið rotið í gegn og glæpir og fjárdráttur grasserað hvarvetna, og að hrunið sé þessu að kenna. Réttast sé að frysta eða taka eignir "auðmanna" (utan dóms og laga), stinga þeim í fangelsi o.s.frv.
Dæmi um svipaðan hugsunarhátt hafa farið hátt í umræðu undanfarinna daga, þar sem fjölmiðlar og blogg hafa slegið upp fréttum á borð við:
- "Bankarnir felldu gengið", þar sem átt var við skiptasamninga viðskiptavina bankanna með og móti krónu, oftast í þeim tilgangi að verja erlendar skuldir gegn gengistapi;
- "Afskrifuðu 50 milljarða skuldir æðstu stjórnenda Kaupþings", þar sem átt var við áréttingu stjórnar Kaupþings um að stjórnendur og starfsfólk sem fengið hafði lán til kaupa á hlutafé í bankanum bæri ekki ábyrgð á skuldinni umfram verðmæti veðsins, þ.e. hlutafjárins;
- "Hundrað milljörðum skotið undan", þar sem átt var við leka út úr Kaupþingi um að fundist hefðu milljarða "dularfullar" millifærslur út úr bankanum, en skilanefnd áréttaði síðan að ekkert óeðlilegt hefði fundist í rannsókn sem stæði yfir.
Kannski er þessi æsingsumræða skiljanleg á þessu stigi máls. En mættu ekki fjölmiðlar og ofurbloggarar íhuga að í mörgum ef ekki flestum þessara tilvika eru ýmsar efnislegar skýringar, röksemdir og lagaheimildir að baki? Í andrúmslofti dagsins eru margir ráðvilltir, reiðir og sárir, og það gerir beinlínis skaða að vaða fram með ásakanir um stórkostlegt glæpsamlegt athæfi og fjárdrætti nema búið sé að kanna málið til nokkurrar hlítar.
Aðdraganda hrunsins þarf að rannsaka gaumgæfilega, refsa fyrir lögbrot og draga stjórnmála- og embættismenn til lýðræðislegrar ábyrgðar. En "réttlæti heykvíslanna" er ekki gott réttlæti, og gerir aðeins illt verra. Þessi tegund umræðu beinir einnig sjónum frá raunverulegum orsökum vandans, sem liggja í hagstjórn, fjármálaeftirliti og peningamálastefnu undanfarinna ára, sem kynti undir óhóflegri áhættusækni bankanna.
5.11.2008 | 05:32
Til hamingju...
... Bandaríkjamenn, og jarðarbúar allir, með glæsilega kosningu Baracks Obama sem 44. forseta Bandaríkjanna.
Breytingar liggja í loftinu. Sundrungar- og mannfyrirlitningarstefnu George W. Bush hefur verið kastað á öskuhauga sögunnar. Nú er nýtt upphaf; við lifum á sögulegum tímum.
YES WE CAN!