Gjaldeyrisreglurnar: Lækningin verri en sjúkdómurinn?

Markmið nýrra gjaldeyrishafta er að halda uppi gengi krónunnar, og leiðin er sú að taka krónur erlendra fjárfesta í gíslingu.  En eins og með flest höft, þá fylgja þeim verulegar ófyrirséðar afleiðingar, og það er engan veginn ljóst að lækningin sé skárri en sjúkdómurinn þegar upp er staðið.

Lítum á nokkur atriði.

  • Reglur Seðlabankans banna erlenda fjárfestingu í hlutabréfum og öðrum verðbréfum hérlendis.  Þetta kyrkir ýmis nýsköpunar- og uppbyggingarverkefni sem voru þó á dagskrá (t.d. Verne Holdings) og torveldar okkar alþjóðlegu fyrirtækjum (t.d. Marel, CCP, Actavis, Össuri) að sækja sér fé til nýrrar útflutningssóknar.
  • Reglur Seðlabankans banna fyrirtækjum að taka lán erlendis umfram 10 m.kr., nema vegna beinna vöru- og þjónustukaupa.  Þetta kemur í veg fyrir endurfjármögnun skulda og einnig að fyrirtæki geti sótt erlent lánsfé til að greiða upp innlendar skuldir, sem myndi styrkja gengi krónunnar.  Ef erlendir lánardrottnar vilja þrátt fyrir allt ennþá lána íslenskum fyrirtækjum gjaldeyri, hví þá að banna slíkt?
  • Forsætisráðherra og formaður bankastjórnar Seðlabankans lýstu því yfir í upphafi kreppunnar að bankarnir væru að fara í þrot en ekki ríkissjóður; ríkið myndi standa við sínar skuldbindingar.  Nú er verið að ganga á bak þessara orða með því að erlendir fjárfestar í ríkisbréfum, innistæðubréfum og skuldabréfum Íbúðalánasjóðs eru festir inni og ná ekki peningum sínum út.  Frá þeirra sjónarhóli er ríkið að bregðast sem skuldari.  Það hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir lánstraust Íslands og lánshæfismat þess um langa framtíð.
  • Loks hefur setning gjaldeyrislaganna og -reglnanna þau óhjákvæmilegu áhrif að hræða erlenda fjárfesta frá Íslandi til skamms og langs tíma.  Landið getur ekki lengur gumað af stöðugu, opnu stjórnarfari og traustu fjármálaregluverki.

Í ljósi alls þessa sem hér er rakið, tel ég fulla ástæðu til að spyrja, hvort ekki hefði verið betra að (a) stefna strax inn í annan gjaldmiðil, og/eða (b) fleyta krónunni án hafta og láta markaðinn leysa vandann, en þó með hliðarráðstöfunum á borð við greiðsluaðlögunarvísitölu sem myndi jafna út verðbólgukúf á húsnæðislánum yfir 12-24 mánaða tímabil.  Þrátt fyrir allt er ekki líklegt að evran haldist til lengdar í 250-300 krónum, því flæði vöruskipta og spákaupmennsku kæmu krónunni til hjálpar á slíkum slóðum.

Með þessu móti hefði orðið meiri skammtímasársauki, en til lengri tíma hefði orðspor okkar beðið minni hnekki, og möguleikar til nýrrar uppbyggingar orðið þeim mun meiri.

Það getur verið betra að rífa plásturinn af í einum rykk en að taka hann hægt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Vilhjálmsson

Takk fyrir þetta. Heiti potturinn leysti þessi mál í kvöld. Jarðfræðin fær að ráða för. Jarðskorpan markar skil efnahagslegrar samvinnu og réttindi samtarfsaðila okkar. Bandaríkjanna annars vegar og Noregs hins vegar. Við tökum upp nýja mynt , norskan-dollar,  og verðgildi hans miðað við hlutfallslega venslun hagkerfanna og niðurstöðu samninga um efnahagslega samvinnu og tryggingu. Stofnaður verður einn sameiginlegur lífeyrissjóður allra landsmanna - allir jafnir þar. Eignir landsmanna í bönkunum, skuldir fyrirtækja, verða færðar niður í efnahagsreikningi, frá skuld í eigið fé og hluturinn sameign þjóðarinnar. Skuldir heimilanna verðar verða færðar niður sem nemur því hlutfalli sem hver og einn valdi að skuldsetja eign sína en verðið miðað við byggingakostnað í löndunum þremur. Bandarískur banki yfirtekur tvo íslensku bankanna en Íslendingar og Norðmenn sameinast um aðra bankastarfsemi í dreifðri eignaraðild. Íslenskir bankastarfsmenn fá ný og spennandi tækifæri hjá banka á við City Bank. Auðlindir og forgangssamstarf um þær mótast af jarðfræðilegri legu. Þannig ættu Norðmenn forgangsaðgang að samstarfi um Drekasvæðið en Bandaríkin allt svæðið vestan við sprungumótin frá Reykjaneshrygg að Kleifarvatni og svo norðaustur í gegnum landi. Allur lífmassi í hafi, ám og vötnum verður sameign þjóðarinnar þótt núverandi nýtingaréttur verði virtur, vatnsföll af öllum toga einnig sem og orkubúskapur  þjóðarinnar gjörvallur auk landsins alls að öðru leiti. Náttúra landsins mun í auknum mæli færast í þjóðlega umsýslan og lúta ströngustu skilyrðum um sjálfbærni og samfélagslega ábyrga ræktun. Margt fleira kom fram í heita pottinum enda var skipuritið og verklagsferlið allt klárað á 40 mínútum enda karlarnir sumir orðnir ansi estrogenískir hlutfallslega séð út af hitanum og gátu því gert eitthvað annað en tuða. Heiti potturinn er ekki sem verstur sjálfur

Einar Vilhjálmsson, 2.12.2008 kl. 04:01

2 identicon

Sammála, Vilhjálmur. Þetta eru hræðileg lög. Til framtíðar þýðir þetta, auk neyðarlaganna um daginn, stórkostlega pólitíska áhættu í því að fjárfesta á Íslandi. Hver vill koma í heimsókn, ef hann á það á hættu að verða læstur inni? Það er ekki heimboð, heldur fangelsi. Þetta er peningafangelsi.

Gott framtak að mótmæla þessu jafn kröftuglega og þú hefur gert.

Gunnlaugur Jónsson (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 13:42

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband