Þorgerður Katrín afkóðuð

Líkt og til var heil fræðigrein, Kremlólógía, sem gekk út á að ráða í blæbrigði í orðalagi sovéska kommúnistaflokksins, þarf að beita greiningu á texta frá forystumönnum Sjálfstæðisflokksins.

Hér á eftir fara orð Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur varaformanns flokksins, eftir að tilkynnt var um nýja Evrópunefnd og flýtingu landsfundar:

„Við erum í breyttum heimi og við höfum ávallt talað um það að við þurfum að fara þá í kalt hagsmunamat."

Sem sagt, það hefur ekki verið hagsmunamat sem hefur ráðið ESB afstöðunni hingað til, heldur þjónkun við kenjarnar í Davíð, sem sagan segir að hafi tekið upp andstöðu við Evrópuþróunina eftir að hafa hitt Margréti Thatcher.

"Við þurfum alltaf að hugsa fyrst og fremst um hag þjóðarinnar og það erum við að gera.“

Af hverju þarf að taka það sérstaklega fram?  Vegna þess að hingað til hefur einmitt ekki verið hugsað um hag þjóðarinnar heldur meintan hag þröngra hagsmunahópa?

Hún segir að það sem bíði Sjálfstæðismanna nú sé að virkja allan flokkinn.

Með öðrum orðum, aðeins hluti hans hefur verið virkur hingað til, sá hluti sem er andvígur ESB aðild.

„Við erum að virkja okkar grasrót. Við viljum fá alla með okkur í lið í flokknum sem hafa verið að tjá sig."

Eða, við höfum hingað til ekki hlustað á grasrótina og þá sem hafa tjáð sig, en við ætlum að hysja upp um okkur og gera það núna.

"Við erum ekkert að leyna því að það hafa verið skiptar skoðanir innan flokksins og við vilum fá alla með okkur í þá vinnu sem framundan er. Við viljum gera þetta gegnsætt og fá til liðs við okkur bestu menn á viðkomandi sviði til þess að niðurstaðan geti orðið þannig að fólk geti orðið ásátt um þær tillögur sem að verða lagðar fram,“ sagði Þorgerður Katrín.

Þýðing: Hingað til hefur stefnumótunin verið ógegnsæ og ekki hefur verið tekið mark á okkar bestu mönnum á viðkomandi sviði, heldur hefur kenjunum í Davíð verið fylgt í blindni.  Þetta hefur valdið ósætti í flokknum.

En batnandi mönnum er best að lifa, og vonandi kemst Sjálfstæðisflokkurinn að skynsamlegri niðurstöðu í Evrópumálum, þó verulega miklu fyrr hefði verið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hermann Bjarnason

Frábær færsla, haltu þessu áfram. Ekki það að við þurfum endilega að skilja ÞKG frekar en KGB, hvort tveggja búið að vera, vonandi.

Hermann Bjarnason, 15.11.2008 kl. 18:47

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Helvíti góður. Þegar menn tíunda breytingar eru þeir um leið að skrifta um það sem þeir hafa ekki verið að gera. Legg til að kremlólógían verð heimfærð á allt það sem kemur fram í aðgerðapökkum og úrræðatali framvegis. Þá getum við máske fyrr skilið hvað það var sem olli. Kannski fjölmiðlar ættu að láta það eiga sig að lepja upp yfirlýsingarnar en slá upp kremlólógískum greiningum.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.11.2008 kl. 03:59

3 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Það er skondið að Sjálfstæðisflokkurinn skuli nú hafa ákveðið að skipa nefnd til að fjalla um ESB. Davíð (ég veit að ég má ekki persónugera vandamálin - en svon er það bara) og hans kónar hafa geta komið í veg fyrir umræðu í áraraðir. En þegar allt hrynur undan þeim þá er ákveðið að skipa nefnd til að undirbúa umræðu. Þetta eru ekki stór skref - og varla skref. Frekar eins og það sé skriðið á maganum í áttina að umræðu. Svo getur niðurstaða nefndarinnar og landsfundarins verið sú að „ekki sé tímabært að....“.

Hve lengi á Samfylkingin að umbera svona vitleysu? Auðvitað eru ekki margir kostir í stöðunni. Guðni er þó að koma auga á ljósið og það eru hræringar í VG. Þjóðin er kominn langt framúr stjórnmálavöfstrurunum.

Hjálmtýr V Heiðdal, 16.11.2008 kl. 11:36

4 Smámynd: Guðbjörn Guðbjörnsson

Hjálmtýr:

Mikið til í þessu hjá þér!

Guðbjörn Guðbjörnsson, 16.11.2008 kl. 12:08

5 Smámynd: Kolbrún Baldursdóttir

Ég ætla nú að vona að ESB málið verði rætt ofan í kjölinn á Landsfundi Sjálfstæðismanna en lokist ekki af inn í einni nefnd.
Hætta er á að of mikil áhersla verði á þessa nefnd og hennar niðurstöðum.
  Formaður og varaformaður Nefndarinnar hallast svona frekar í ESB átt að ég held.

Kolbrún Baldursdóttir, 16.11.2008 kl. 12:53

6 identicon

Þú átt skilið að fá listamannaverðlaun þýðenda fyrir þetta, en allt er þetta satt og rétt hjá þér. Margir hafa líkt Sjálfstæðisflokknum við ástandið í Sovéska Kommúnistaflokknum á sínum spilltasta tíma, orðalagið sama, ein klíka og allt það. Þeir einu sem komust áfram í embættisgeira Sovétsins, urðu að vera flokksdindlar, nákvæmlega eins og hér á Íslandi,  Það hefur reynst okkur afar dýrt! Takk fyrir þýðinguna.

Friðjón Steinarsson (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 13:06

7 identicon

Vilhjálmur Þórarinsson.

Það þarf einbeittan vilja til að afbaka orða Þorgerðar Katrínar, eins og þú gerir í þessari grein.

Aldrei hefði mér dottið í hug að skilja þessi orð hennar svona. En sennilegar er þar um að kenna, snauðu ímyndunarafli.

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 17:01

8 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Sigrún Jóna: Ég er Þorsteinsson, ekki Þórarinsson.  Því er ekki að neita, að Evrópuafstaða, eða afstöðuleysi, Sjálfstæðisflokksins hefur lengi farið í taugarnar á mér, og svo er einnig um marga Sjálfstæðismenn sem ég þekki.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 16.11.2008 kl. 17:58

9 identicon

Vilhjálmur. Það var ekki ásetningur minn að rangfeðra þig.

Ég biðst innilegrar afsökunar.

Ég er staðfastur og flokksbundinn sjálfstæðismaður, og hef alltaf verið á móti Evrópska efnahagssvæðinu.(þetta var takmark Hitlers að sameina Evrópu undir sína stjórn) En það er allt önnur saga.

Við erum búin að tapa nú þegar einhverju af okkar sjálfstæði og vil halda í það litla sem eftir er. Íslenska krónan er mér ekki heilög, en vil frekar fara í myntbandalag með Noregi Sviss , eða með þeim ríkjum sem eru með okkur í viðskiptasambandi saman og saman gerum við samninga við EES

Sigrún Jóna (IP-tala skráð) 16.11.2008 kl. 18:36

10 Smámynd: Ágúst Hjörtur

Þetta er prýðileg orðræðugreining hjá þér Vilhjálmur - verst að blaðamenn virðast oft ekki kunna til þessara verka. Vonandi finna þau grasrótina sem forysta Sjálfstæðisflokksins hefur troðið á svo lengi. En það er auðvitað svolítið dapurt að það er ennþá satt og við förum ekki inn í ESB fyrr en Sjálfstæðisflokkurinn leyfir það. Og því á Ingibjörg Sólrún kannski ekki annan kost en að gefa þeim þennan tíma til að skipta um skoðun - málið er bara að þetta verða dýrir mánuðir fyrir okkur öll á meðan þeir vinna í sínum innanmeinum.

Ágúst Hjörtur , 17.11.2008 kl. 23:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband