Ný lög um gjaldeyrisviðskipti vekja spurningar

Nýtt frumvarp til breytinga á lögum um gjaldeyrismál vekur ýmsar spurningar.  Greinilega er verið að koma í framkvæmd stefnu sem mótuð var í samvinnu við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn, og er ætlað að koma í veg fyrir hraða veikingu krónu sem yrði þegar "hræddu peningarnir" hyrfu úr landi.  Reynt er að "opna" fyrir gjaldeyrisviðskipti vegna inn- og útflutnings vöru og þjónustu (sem AG kallar current account), en "loka" fyrir flæði vegna fjármagnsflutninga (sem AG kallar capital account). Tilgangurinn sem helgar meðalið er að krónan styrkist fremur en veikist og að viss stöðugleiki náist áður en opnað er fyrir fjármagnsflutninga.

Þetta kallar á ýmsar spurningar.  Sú fyrsta og augljósa er sú, hvort ekki sé með þessu aðeins verið að fresta vanda, en ekki leysa hann.  Hræddu peningarnir þurfa að komast út þótt síðar verði, og munu ávallt hafa áhrif til veikingar krónu.  En það má vera að frestur sé á illu bestur.

Í öðru lagi má spyrja hvort þessi aðgreining í opnun og lokun sé í reynd framkvæmanleg.  Það hlýtur að vera mjög sterk tilhneiging fyrir hræddu krónurnar að slæðast með í gjaldeyriskaupum innflytjenda, og til að draga úr gjaldeyrisskilum útflytjenda.  Viðkomandi hafa gagnkvæman hag af slíku og reynslan sýnir að erfitt er að eiga við slíka stöðu með sovésku eftirliti og refsingum eins og til virðist standa.

Í þriðja lagi er óljóst hversu víðtæk höftin eiga að vera, og eins og alltaf með höft, eru jaðrarnir erfiðir viðureignar.  Munu fyrirtæki geta greitt af og/eða tekið ný erlend lán? Munu erlendir starfsmenn sem starfa á Íslandi geta greitt af erlendum húsnæðislánum sínum og sent peninga heim til sín?  Munu erlendir fjárfestar sem setja peninga í innlend verkefni geta tekið arð og söluhagnað til baka?  Mun nokkur erlendur aðili þora að kaupa íslensk skuldabréf eða aðra fjármálagerninga næstu áratugina?

Loks verður athyglisvert að sjá hvort stjórnvöld komast yfirleitt upp með þessa lagasetningu þegar á reynir fyrir dómstólum, innlendum og erlendum.  Gjaldeyrishöft eru andstæð EES-samningnum, grunnreglum OECD og reyndar einnig stofnsáttmála Alþjóða gjaldeyrissjóðsins.  Vissulega er gert ráð fyrir neyðarrétti en það er engan veginn augljóst að slíkt eigi við um Ísland, hér er ekki stríðsástand eða náttúruhamfarir heldur er einfaldlega verið að velja eina pólitíska leið fremur en aðra út úr stöðu sem við komum okkur sjálf í.  Aðrar leiðir hefðu til dæmis getað verið upptaka annarrar myntar og/eða hraðinnganga í ESB.

Svo ég endurtaki eins og Kató gamli: við hefðum átt að vera komin inn í ESB fyrir löngu, t.d. með Svíum og Finnum.  Að þverskallast í því máli, sem einkum er á ábyrgð Sjálfstæðisflokksins, er meðal stærstu mistaka lýðveldissögunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"heldur er einfaldlega verið að velja eina pólitíska leið fremur en aðra út úr stöðu sem við komum okkur sjálf í"

Eigum við öll að taka á okkur sökina, er ekki nóg að þurfa að axla byrðarnar?

Gunnar Þorsteinsson (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 01:20

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

"Við sjálf" = stjórnvöld, viðskiptalíf, etc.  Sem sagt Íslendingar í skilningi alþjóðastofnana á borð við EES, AG og OECD.

Ég tel reyndar frumorsök vandans (smitið, vírusinn) liggja hjá krónunni og Seðlabankanum, sjúkdóminn hjá bankastjórnendum og áhættufíklum í viðskiptalífi, og einkennin brjótast svo út í hruninu og verðbólgunni.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.11.2008 kl. 01:30

3 identicon

Höft væntanlega vegna "jöklabréfanna".  Mér finnst augljóst að hagkvæmari leið er að taka allan skellinn í upphafi - án allra hafta - ódýrari leið og leiðir til styrkingar fyrr. 

Ég spyr mig hins vegar hvernig allur þorri almennings hefði túlkað það að sjá enn meira gengishrun og verðbólgukúf þó skammvinnt væri - hefði þjóðin þolað það í þeirri taugaveiklun og æsingi sem nú er?  Þetta er í mínum huga fyrst og fremst pólitísk spurning í ljosi ástandsins og stöðu skuldara landsins.  Leið án hafta er hagkvæmari að mínu mati - en meiri sveifla í upphafi.

Jón Helgi Egilsson (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 09:15

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Tek undir með þér Jón Helgi - snöggveikingarleiðin með styrkingu í kjölfarið en án hafta, hefði sennilega verið betri kostur til lengri tíma litið, en mjög erfið pólitískt.  Allra best hefði þó verið að gefa út hver stefna stjórnvalda er varðandi krónuna til lengri tíma, því það hefði minnkað óvissu og myndað grunn undir verðlagningu hennar - sérstaklega ef stefnan væri klárlega á annan gjaldmiðil (evru).

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.11.2008 kl. 09:41

5 identicon

Það eru væntanlega allir sammála um að við þurfum stöðugan gjaldmiðil.  Krónan hefur ekki reynst stöðug.  Evru fylgir ESB aðild.  Ég veit ekki hvort okkar hag er best borgið í ESB  - má vera en ESB hefur líka galla.  Aðalatriðið hlýtur að vera að tryggja stöðugan gjaldmiðlil hvort það er evra eða eitthvað annað fyrirkomulag. Ég hef ekki trú á öðru en að stutt sé lausn í því máli.  Við lærum - mest af eigin mistökum. 

Jón Helgi Egilsson (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 10:33

6 identicon

Tja .. á mig auman.  Þetta er held ég lagleysa sem var verið að láta ágætt fólk við Austurvöll vaka yfir í alla nótt.  Í raun held ég að þetta sé óframkvæmanlegt og í mikilli mótsögn við það fjórfrelsi sem við höfum skrifað undir.

Hagfræðingurinn í mér segir að þetta sé líka álíka gáfulegt og Gosplan, en í Rússlandi til forna framleiddu menn traktora eftir kílóafjölda, en ekki eftir magni.   Diddi bóndi sem ég var oft í sveit hjá, fann ýmsar þyngingar í Úrsusnum og Zedordnum til að gera þá þyngri, ekki tel að gera þá betri.   Þetta frumvarp er álíka gáfulegt og dæmir sig sjálft.  

Verð að vera sammála um að betur hefði verið farið í þá aðgerð að gefa allt frjálst, taka djúpt andann og láta allt fara út sem hægt er.  Skógurinn er ekki fallegur hálf brunninn og það verður erfitt að gera við hálfbrunninn skóg.

Árni (IP-tala skráð) 28.11.2008 kl. 10:51

7 Smámynd: Theódór Norðkvist

Í fyrsta skipti í langan tíma er ég ánægður með ríkisstjórnina. Það varð að gera þetta.

Hvað krónubréfin áhrærir á Seðlabankinn eða ríkið að reyna að semja við eigendur þeirra, hvern fyrir sig, um að kaupa þau á niðursettu verði.

Var þetta hvort eð er ekki áhættufjárfesting? Þessir gráðugu braskarar, sem ætluðu að hagnast á blóðmjólkun almennings hér á landi og vaxtaokri, mega mín vegna fara á hausinn. Ég vorkenni þeim ekki neitt.

Theódór Norðkvist, 28.11.2008 kl. 13:49

8 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jæja Theódór, þú ætlar sem sagt ekkert að sækja erlend lán til landsins á næstunni, til að byggja virkjanir, verksmiðjur, hús, standa undir hallarekstri ríkissjóðs, fjárfesta í nýsköpun o.s.frv.?  Það hefur sínar afleiðingar að steikja erlenda fjárfesta, því miður.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.11.2008 kl. 15:28

9 Smámynd: Theódór Norðkvist

Nei, ég ætla ekki að taka erlend lán sjálfur á næstunni. Ríkið ætlar kannski að gera það.

Það sem ég á við, er það að þeir sem fjárfestu í skuldabréfum í krónum, voru þeir ekki áhættufjárfestar og verða þeir ekki að sætta sig við það, ef þeir tapa eða græða ekki eins mikið og þeir vildu?

Af hverju á ég sem skattgreiðandi að niðurgreiða, eða baktryggja skuldabréfabrask? Og það viðskipti sem geta gert húsið mitt verðlaust og drekkt mér í skuldasúpu á einni mínútu!

Theódór Norðkvist, 28.11.2008 kl. 15:48

10 Smámynd: Theódór Norðkvist

Og það hefur líka sínar afleiðingar að steikja íslenska fasteignaeigendur, allavega mig.

Theódór Norðkvist, 28.11.2008 kl. 15:49

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Við erum öll steikt   ... hefðum betur verið með alvöru gjaldmiðil.  Þá væri eflaust samt bankakreppa, en ekki gjaldeyriskreppa, sem bitnar mjög harkalega á almenningi.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.11.2008 kl. 16:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband