2.11.2008 | 21:00
Á að handvelja hverja eigi að skera úr snörunni?
Forsætisráðherra mun hafa sagt á aðalfundi LÍÚ að tap útgerða vegna framvirkra samninga um sölu á gjaldeyri standi nú í 25-30 milljörðum króna og að það sé "mál sem þurfi að leysa".
Þrennt er við þetta að athuga.
- Í fyrsta lagi er ekki um eiginlegt tap að ræða, heldur hafa útgerðirnar að eigin frumkvæði selt gjaldeyristekjur sínar fram í tímann á tilteknu (föstu) gengi krónu. Nú hefur krónan veikst en vegna samninganna fá útgerðirnar ekki þann ávinning í vasann. Ef krónan hefði styrkst hefðu útgerðirnar að sama skapi ekki tapað á styrkingunni. Svona framvirkir samningar eru dæmigerðir fyrir þær æfingar sem íslensk fyrirtæki þurfa að leggja á sig vegna krónunnar.
- Í öðru lagi sitja þessir framvirku samningar eftir í gömlu bönkunum samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, sem féll frá því að flytja afleiðusamninga yfir í nýju bankana. Það er ekki hægt að taka þessar eignir (kröfur) af þrotabúum gömlu bankanna án þess að ganga með því á rétt kröfuhafa, nema ríkið ætli sér að bæta þrotabúunum upp tapið.
- Í þriðja lagi er fullkomlega óeðlilegt að ríkisvaldið hugsi sér að handvelja tiltekna atvinnugrein og jafnvel tiltekin fyrirtæki, og bæta þeim upp tap sem önnur fyrirtæki og aðrir sem gert hafa afleiðusamninga þurfa að sitja uppi með. Það stenst ekki jafnræðisreglur og sendir mjög vond skilaboð um ábyrgð stjórnenda á gerðum sínum.
Það væri ekki verra ef fjölmiðlar og aðrir fylgdu því betur eftir hvað nákvæmlega liggur að baki þessum orðum forsætisráðherra. Að mínu mati væri 25-30 milljörðum mun betur og skynsamlegar varið til hjálpar skuldsettum heimilum og fyrirtækjum, en ekki til að færa útgerðarfyrirtækjum ábata af veikingu krónunnar, sem þau sömdu sjálf af sér.
Útgerðir töpuðu á gengisvörnum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
2.11.2008 | 16:12
Útvarpsviðtal um sprota, nýsköpun, ESB og fleira
Ég var í viðtali hjá Hjálmari Sveinssyni á Krossgötum á Rás 1 í gær, laugardag. Þar var spjallað um sprotafyrirtæki, umhverfi nýsköpunar, hlutverk ríkisins, evru, ESB og fleira.
Vefupptaka er hér og viðtalið við mig er síðast í þættinum, byrjar í kring um 70% markið.
30.10.2008 | 23:51
Fernar hugrenningar
Í fyrsta lagi: Mikil þökk sé Færeyingum fyrir þeirra óbilandi vinarhug og hjálpsemi.
Í öðru lagi: Stelpurnar okkar eru miklu betri en strákarnir okkar í fótbolta. Björk er með miklu betri hugmyndir og flottara frumkvæði í atvinnumálum en strákarnir, sem dettur ekkert annað í hug en fleiri álver. Og konurnar eru búnar að taka yfir bankana (ókei, tvo af þremur, en kona hafnaði þeim þriðja). Eigum við kallarnir ekki bara að taka okkur frí næstu árin?
Í þriðja lagi: Það verður að segjast, að íslensku bankastjórarnir og bankaeigendurnir voru rosalega vondir í að reka banka. Það er með ólíkindum að menn hafi lánað svona svaðalega mikla peninga í spilaborgirnar, í löngum runum: Fons, Stoðir, Eimskip, Atorka, 365, Baugur, Nýsir... Og ekki bara fyrirtækjunum, heldur eigendum þeirra líka, jafnvel heilu eignarhaldskeðjunum. Alvöru bankamenn sem kunna sitt fag taka bara ekki svona áhættur. Bankastarfsemi gengur út á að dreifa áhættu. Okkar bankamenn voru í því að þjappa saman áhættu uns úr varð krítískur massi og kjarnaklofnun hófst (sbr. kjarnorkusprengju). Þeir hljóta að hafa verið sofandi í Bankarekstri 101.
Í fjórða og síðasta lagi: Fyrirtækjarekstur er sviti og púl, það borgar sig ekki að stytta sér leið, og góðir hlutir gerast á löngum tíma. Við skulum hafa það í huga við uppbyggingu nýs, sjálfbærara og endingarbetra atvinnulífs.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.10.2008 | 21:51
Fleyting krónunnar
Svona held ég að fleyting krónunnar verði:
Fyrst eftir að krónunni er fleytt flýja dauðhræddu peningarnir út úr landinu (rauði ferningurinn). IMF og Seðlabankinn munu leyfa krónunni að veikjast á meðan á því stendur, en þó ekki úr hófi. Þeir munu koma á móti eftirspurninni með passlegu framboði gjaldeyris sem gefur hinum dauðhræddu (t.d. jöklabréfaeigendum) séns á að sleppa út hratt en með nokkrum skaða.
Þegar hinir hræddu eru farnir, taka hinir skynsömu við. Það eru þeir sem vilja út úr krónunni en eru tilbúnir að bíða meðan hinir dauðhræddu hlaupa út. Hinir skynsömu stjórnast að hluta af vöxtum Seðlabankans. Meðan vextir (og raunvextir) eru háir, geta hinir skynsömu hugsað sér að staldra við og bíða með krónurnar sínar á vöxtum innanlands. Á þessu stigi munu IMF og Seðlabankinn slaka út gjaldeyri þannig að krónan styrkist mjúklega. Vaxtahækkunin í dag er hugsuð til þess að hafa hemil á skynsömu peningunum og er góð til þess brúks.
Þegar þeir sem vilja flýja krónuna (þ.e. allir sem hyggja á langtíma geymslu verðmæta) eru einnig farnir, tekur við jafnvægisástand þar sem gengið stjórnast af "náttúrulegum" inn- og útflutningi og viðskiptajöfnuði almennt. Gera má því skóna að krónan endi veikari en hún var í "góðærinu" en sterkari en hún hefur verið undanfarnar vikur.
Þegar fjaðrafokinu slotar hefur talsvert gengið á gjaldeyrisforða og lánalínur. Áfram mun þurfa að viðhalda hærri vöxtum í krónu en í nágrannalöndum til að halda krónum í landinu, enda mun taka mjög langan tíma að byggja aftur upp trúverðugleika krónunnar, ef það er þá yfirleitt mögulegt (sem ég held ekki). Það má því enn og aftur árétta að skynsamlegt er að huga strax að umsókn um aðild að ESB og aðlögun að evru skv. ERM II sem gæti tekið 3-4 ár en að minnsta kosti myndi slíkt ferli róa krónumarkaðinn og auka vilja til að fjárfesta í krónu til lengri tíma.
Tími skoðana Björns Bjarnasonar á þessu máli er liðinn.
26.10.2008 | 22:15
Engin fyrirgreiðsla frá Seðló...
Björgólfur Thor segir í Kompási, sem sýndur verður á morgun á Stöð 2, að Landsbankinn hafi verið búinn að gera díl við breska fjármálaeftirlitið um að aflétta Icesave-ábyrgðum af íslenska innistæðutryggingasjóðnum og færa þær til Bretlands. Bankinn þurfti að leggja fram 200m pund til dótturfélags síns í Bretlandi og málið fengi flýtimeðferð í kjölfarið. Seðlabanki Íslands var beðinn um lán, gegn veðum, til að unnt væri að leggja fram féð, en hann neitaði um fyrirgreiðsluna.
Hér skýrist hvað átt var við í samtali Árna Mathiesen og Alistair Darling:
AD: Ég tek því þá sem svo að loforðið sem Landsbankinn gaf okkur um að hann fengi 200 milljónir punda í reiðufé sé einnig fyrir bí?
ÁMM: Já, þeir fengu ekki það fé.
AD: Veistu, ég skil svo sem afstöðu þína. Þú verður að gera þér ljóst að orðspor þjóðar þinnar bíður hræðilegan hnekki.
ÁMM: Já, við gerum okkur það ljóst. Við reynum allt í okkar valdi til að komast hjá því. Við þurfum að tryggja ástandið innanlands áður en ég get lofað þér einhverju öðru.
Þarna sýnist hafa verið tekin stórkostlega röng ákvörðun fyrir íslenska hagsmuni. Ef svo reynist, bætist hún við mjög langan klúðurlista Seðlabankans.
26.10.2008 | 11:35
Ábyrgð á innistæðum
Innistæðuábyrgð banka, tryggingasjóðs og ríkis virkar svona:
1. Þrotabú banka ber ábyrgð á innistæðum með eignum sínum. Fyrir neyðarlögin voru innistæður venjulegar kröfur í þrotabúið, en með neyðarlögunum var þeim breytt í forgangskröfur. Það þýðir að eignir bankans (þrotabúsins) fara fyrst til þess að greiða innistæðueigendum, en afgangur að því loknu fer til almennra kröfuhafa - þ.e. eigenda skuldabréfa og víxla bankans auk annarra (frægu fimm prósentin hans Davíðs).
2. Þetta ferli getur tekið langan tíma og óvíst er fyrirfram hversu mikið innistæðueigendur fá fyrir sinn snúð. Þess vegna er til Tryggingarsjóður innstæðueigenda, sem stofnaður var skv. ESB/EES tilskipun. Bankarnir leggja honum til 1% af innlánum sínum. Sjóðurinn greiðir hverjum reikningseiganda í gjaldþrota banka sem óskar eftir því allt að sirka 20.800 EUR, en eignast á móti kröfu í þrotabú bankans að sömu upphæð. Það flækir síðan málið að sjóðurinn er fjarri því að geta greitt þessa umræddu tryggingaupphæð, er reyndar nánast hlægilega lítill.
3. Til viðbótar (1) og (2) hér að ofan þá hefur ríkisstjórn Íslands lýst því yfir að hún ábyrgist innistæður í íslenskum útibúum banka og sparisjóða að fullu. Í samræmi við það hafa flestar eignir gömlu bankanna verið sjanghæjaðar yfir í nýju bankana sem taka að sér innlend innlán, en nýju bankarnir skulda þeim gömlu mun yfirtekinna eigna og skulda. Ef til þess kæmi að ríkisstjórnin þyrfti sérstaklega að standa við þessa innistæðuábyrgð (sem er ólíklegt en gæti gerst ef eignir banka hafa rýrnað mikið) þá eru vitaskuld engir peningar til í dag sem nota mætti í því skyni. En í stað þess að skerða innistæður, sem væri svo óvinsæl aðgerð að hún er í reynd ófær, myndi Seðlabankanum vera skipað að "prenta peninga" og leggja inn í bankana til að unnt sé að láta fólk eiga jafnmargar krónur og það lagði inn. Hugsanlegt er að af því hlytist verðbólga en það er þó engann veginn víst, því svo miklir peningar hafa horfið út úr hagkerfinu undanfarið að allnokkur viðbót þyrfti ekki að hafa veruleg áhrif.
Samtal Árna Mathiesen við Alistair Darling þurfti að mínu mati að gera það alveg skýrt að ferli skv. (1) og (2) hér að ofan væru hlutlaus gagnvart landamærum og þjóðerni í samræmi við EES, þannig að Bretar og Hollendingar sætu við sama borð og Íslendingar. Nr (3) er annars eðlis og þarf e.t.v. ekki að vera hlutlaust, enda hafa ríkisstjórnir einstakra aðildarríkja ESB verið að koma með eigin yfirlýsingar um ríkistryggingar innistæðna. Aðgerðin sem færir innlendar innistæður í nýju bankana er þó umdeilanleg gagnvart EES hlutleysi, en neyðarréttur kann einnig að vera fyrir hendi.
"Plottið" kann að vera hugsað alla leið eftir þessum nótum, en það þarf a.m.k. að útskýra það vel, bæði innanlands og erlendis.
23.10.2008 | 21:32
Símtal Árna Mathiesen og Alistair Darling
(Skrifað upp orðrétt úr þýðingu Kastljóss, vona að það fyrirgefist...)
ÁMM: Árni Mathiesen hér, fjármálaráðherra.
AD: Sæll, við hittumst fyrir fáeinum mánuðum, vikum víst.
ÁMM: Nei, reyndar höfum við aldrei hist; þú hittir viðskiptamálaráherra.
AD: Einmitt, afsakaðu.
ÁMM: Ekkert að afsaka.
AD: Þakka þér fyrir að taka símann. Eins og þú veist stöndum við frammi fyrir miklum vandræðum vegna Landsbankans. Hann er með útibú hér og á innlánsreikningum þess eru um fjórir milljarðar punda. Því hefur verið lokað og ég þarf að vita nákvæmlega hvað þið hyggist gera í því máli. Gætirðu útskýrt það fyrir mér?
ÁMM: Já, þetta var útskýrt í bréfi sem við sendum í fyrrakvöld frá viðskiptaráðuneytinu. Eftir það höfum við sett ný lög um forgang innistæðna og höfum veitt FME, íslenska fjármálaeftirlitinu, heimild til að fara í bankana; sambærileg löggjöf og þið hafið í Bretlandi og Landsbanki er nú undir stjórn Fjármálaeftirlitsins og þeir eru að vinna að því hvernig eigi að gera þessa hluti en ég held að þessi löggjöf hjálpi til við að greiða úr þessum vanda.
AD: Hvað með eigendur innistæðna hjá ykkur sem eiga innistæður í útibúunum í London?
ÁMM: Við höfum tryggingarsjóð innlána samkvæmt Directivinu og hvernig hann starfar er útskýrt í bréfinu og sömuleiðis loforð stjórnvalda um stuðning við sjóðinn.
AD: Svo réttindi almennings í þessu efni eru að ég tel sextán þúsund pund; og er það upphæðin sem fólk fær?
ÁMM: Tja, ég vona að það verði tilfellið. Ég get ekki kveðið skýrt úr um það eða tryggt það núna en vissulega vinnum við að því að leysa úr þessu máli. Við viljum sannarlega ekki hafa þetta hangandi yfir höfði okkar.
AD: Fólk spyr okkur nú þegar hvað sé um að vera þarna. Hvenær verðið þið búnir að greiða úr þessu?
ÁMM: Eiginlega get ég ekki sagt um það. En ég tel að best sé að Fjármálaeftirlitið hjá ykkur sé í sambandi við Fjármálaeftirlitið hér um hvernig tímasetningin á þessu verður.
AD: Skil ég það rétt að þið tryggið innistæður íslenskra sparifjáreigenda?
ÁMM: Já, við tryggjum innistæður í bönkum og útibúum banka hér á landi.
AD: En ekki í útibúum utan Íslands?
ÁMM: Nei, ekki utan við það sem nú þegar hefur verið tekið fram í bréfinu sem við sendum.
AD: En er það ekki í andstöðu við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið?
ÁMM: Nei, það teljum við ekki, og reyndar tel ég það vera í samræmi við það sem aðrar þjóðir hafa verið að gera undanfarna daga.
AD: Jæja, við lentum ekki í slíkum vanda með Northern Rock. Ekki skipti máli hvar maður hafði sparifé sitt. Við ábyrgðumst sparnað fólks.
ÁMM: Nú, það var allavega í byrjun deilt um það en ég þykist vita að þið hafið svo greitt úr því.
AD: Vandinn - og ég hef skilning á vanda ykkar - en vandinn er að hér hafið þið fólk sem lagði inn fé í bankann hér og það kemst svo að því nú að þið hafið ákveðið að gæta ekki hagsmuna þess. Það spillir ákaflega mikið fyrir Íslandi síðar meir.
ÁMM: Já, við gerum okkur það ljóst og við reynum eftir okkar fremsta megni að það verði ekki vandamál. Við erum í afar, afar erfiðri stöðu.
AD: Já, ég átta mig á því.
ÁMM: Og bara í þessari viku, þar sem við getum ekki leyst úr vandanum innanlands þá getum við lítið gert í því sem gerist utan landssteina. Við verðum því fyrst að leysa úr málum hér innanlands og þá reynum við allt í okkar valdi og ég persónulega er bjartsýnn á að lögin sem samþykkt voru í gærkvöldi styrki þann þátt í þessu. Og auðvitað gerum við okkur ljóst hvað gæti gerst og það viljum við ekki.
AD: Já?
ÁMM: En það er líka svo, ráðherra, að við höfum mánuðum saman reynt að ræða við alla nálægt okkur og reynt að segja þeim að við séum í vanda og beðið um stuðning og raunin hefur verið sú að stuðningurinn hefur verið mjög lítill.
AD: Ég veit það en ég verð að segja eins og er að þegar ég hitti kollega þína og þá hina, þá í raun kemur í ljós að það sem okkur var sagt reyndist ekki rétt. Ég hafði mjög miklar áhyggjur af stöðu bankans í London og þeir héldu áfram að segja að ekkert væri að óttast. Og þú veist, í þeirri stöðu sem við erum núna, þá er hér í þessu landi fjöldi fólks sem lagði inn fé og kemur til með að tapa ansi miklu af peningum og það fólk mun eiga erfitt með að skilja hvernig það gerðist.
ÁMM: Ég vona að það verði ekki raunin. Ég var ekki á fundinum svo að ég get ekki sagt neitt...
AD: Ég veit það reyndar. Geturðu sagt mér hvort tryggingasjóðurinn sem þú vísar til ráði yfir fé til útborgunar?
ÁMM: Eitthvað fé er í honum en eins og háttað er um flesta þessa sjóði er það takmarkað í samanburði við aðsteðjandi kröfur.
AD: Einmitt, svo þú veist það ekki. Ég skil. Ég þarf að vita þetta svo ég viti hvað ég get sagt fólki. Það er mögulegt að ekki sé nægilegt fé í sjóðnum; er það rétt?
ÁMM: Já, reyndar er það alveg mögulegt.
AD: Það er hræðileg staða.
ÁMM: Já, við erum í hræðilegri stöðu hér og lögin sem við stóðum að því að samþykkja síðastliðna nótt eru neyðarlög og eins og ég segi þá erum við að reyna að treysta ástandið hér innanlands svo við getum mætt aðstæðum annarsstaðar.
AD: Ég því þá sem svo að loforðið sem Landsbankinn gaf okkur um að hann fengi 200 milljónir punda í reiðufé sé einnig fyrir bí?
ÁMM: Já, þeir fengu ekki það fé.
AD: Veistu, ég skil svo sem afstöðu þína. Þú verður að gera þér ljóst að orðspor þjóðar þinnar bíður hræðilegan hnekki.
ÁMM: Já, við gerum okkur það ljóst. Við reynum allt í okkar valdi til að komast hjá því. Við þurfum að tryggja ástandið innanlands áður en ég get lofað þér einhverju öðru.
AD: Auðvitað væri ég þakklátur fyrir alla aðstoð sem þú getur veitt.
ÁMM: Sjálfsagt.
AD: Vissulega yrðum við að útskýra fyrir fólki hér það sem hefur gerst. Það mun auðvitað, án efa, hafa afleiðingar í för með sér fyrir aðra. Þetta er afar afar erfið staða þar sem fólk taldi sig tryggt og kemst svo að því að tryggingasjóðurinn er innistæðulaus.
ÁMM: Já, en eins og ég sagði í bréfinu...
AD: Gott og vel, ég þigg alla þá aðstoð sem þú getur veitt.
ÁMM: Já, við þurfum að koma á sambandi milli fjármálaeftirlits þjóðanna út af...
AD: Já, ég veit að þau verða í sambandi. Ég veit að þú varst ekki á fundinum og tókst ekki þátt í honum. Við efuðumst um það sem okkur var sagt og ég óttast að við höfum haft rétt fyrir okkur.
ÁMM: Já, það má vera.
AD: Hvað sem því líður vertu endilega í sambandi. Allt sem þið getið gert til hjálpar yrði að miklu gagni.
ÁMM: Já, ef það er eitthvað ykkar megin verið þá í sambandi.
AD: Gott og vel, ég geri það. Þakka þér kærlega fyrir.
ÁMM: Þakka þér, sömuleiðis.
23.10.2008 | 00:24
Plottið er flóknara en ég hélt
Ég hélt að ég skildi plottið með neyðarlögunum og skilanefndunum og gömlu/nýju bönkunum. Innlán væru forgangskröfur, þau væru flutt yfir í nýja banka ásamt tilsvarandi eignum, og rest skilin eftir. Engin mismunun eftir þjóðerni innlánseigenda, né innbyrðis milli kröfuhafa.
En nú er ég búinn að lesa ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins (t.d. um Kaupþing) og sé að þetta var rangur skilningur. Plottið er miklu flóknara en ég hélt.
Í grunninn eru allar eignir fluttar úr gömlu bönkunum yfir í nýja, en svo eru taldar upp undantekningar. Innlán í erlendum útibúum sitja eftir í gömlu bönkunum, en innlend innlán fara í þá nýju. Sérstakt utanaðkomandi mat á að fara fram á eignum og skuldum sem fluttar eru, og nýju bankarnir skulda þeim gömlu upphæð sem nemur eignum umfram skuldir.
Ég er bara plebbi og beturvitrungur úti í bæ (sem samt varaði við yfirvofandi hættum t.d. í upphafi þessa árs), en ég sé ekki betur en að þetta plott bjóði heim hættunni á lögsóknum þvers og kruss. Ef ekki verður samið sérstaklega við alla erlenda innistæðueigendur gætu þeir lögsótt íslenska ríkið vegna mismununar innistæðueigenda eftir þjóðerni, sem ekki er heimil samkvæmt EES. Og kröfuhafar geta einnig haldið því fram að þeim sé mismunað þegar eignir eru fluttar milli gamalla og nýrra banka umfram það sem þarf vegna forgangskrafna (innistæða).
Hvað segja mér lögfróðari menn um þetta?
En að minnsta kosti er ljóst miðað við þetta upplegg að ekki hefur verið einfalt að útskýra málið fyrir Bretum. Þó var engin ástæða til að missa þau samskipti út í beitingu hryðjuverkalaga.
P.S.: Ég er enn búinn að bæta við klúðurlista Seðlabankans.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 00:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
17.10.2008 | 15:44
Afdrifaríkur misskilningur
Var að lesa skýringar fjármálaráðuneytis Breta á The Landsbanki Freezing Order 2008 þar sem eignir Landsbanka voru frystar. Í skýringunum stendur m.a. orðrétt (feitletrun mín):
This action was deemed necessary because the emergency nationalisation law passed in Iceland on 7 October 20082 meant that UK creditors' rights could be prejudiced compared with other creditors. The Icelandic government had been unable to clarify the position of UK creditors in the administration process and there was therefore a threat to UK economic interests.
Þarna hefur íslenskum stjórnvöldum orðið hrapallega á í messunni, að útskýra innihald neyðarlaganna frá 7. október. Ekkert í þeim lögum mismunar kröfuhöfum eða innistæðueigendum bankanna eftir þjóðerni. Allir innistæðueigendur fá sömu vörn (forgangskröfu í þrotabú) og allir aðrir kröfuhafar tapa jafnmiklu (með því að færast aftur fyrir innistæðueigendur í kröfuröðinni).
Ef einhver (fjármálaráðherra?) hefði aulað þessu rétt út úr sér við Darling og/eða Brown hefði mátt komast hjá vægast sagt afdrifaríkum misskilningi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (18)
17.10.2008 | 00:21
Æ tóld jú só, part II
Úr færslu á þessu bloggi frá 15. apríl sl. - fyrir hálfu ári:
Peningamarkaðssjóðir sem eiga fyrirtækjapappíra eru að mínu mati, og því miður, varhugaverðir.
Sem betur fer eiga peningamarkaðssjóðirnir fleira en fyrirtækjapappíra, þannig að vonandi fær fólk 40-60% af peningunum sínum til baka, jafnvel meira í einhverjum tilvikum. Aðrir sjóðir, sem áttu hlutabréf og/eða fyrirtækjaskuldabréf, geta komið verr út, meðan þeir sem áttu fyrst og fremst ríkistryggð bréf og innistæður eru nánast óskaddaðir.
Þetta þarf að skýrast sem allra fyrst. Óvissan er mjög slæm.