Enn um Icesave og forgangskröfur

Aðvörun: þessi færsla er einkum ætluð kreppunörðum og Icesave-djúpköfurum Cool

Ég hef áður skrifað þrjár bloggfærslur um meint rangt upplegg Icesave-samninganna varðandi það hvernig endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans ganga til innistæðutryggingasjóðanna, þ.e. þess íslenska annars vegar og þeirra bresku og hollensku hins vegar.  Því miður virðist nýjasta uppfærsla samningsins ekki taka með fullnægjandi hætti á þessu vandamáli.

Fyrst smá bakgrunnur: Ef Tryggingasjóður hefði ekki verið fyrir hendi, hefðu innistæðueigendur einfaldlega gert kröfur í þrotabú Landsbankans, hver fyrir sig, og fengið úthlutað að tiltölu upp í þær eftir því sem eignir hrykkju fyrir forgangskröfum.

En Tryggingasjóður á samkvæmt lögum að taka við umsóknum frá innistæðueigendum, greiða þeim út tryggingarfjárhæðina (20.887 EUR) og ganga inn í (yfirtaka) kröfu þeirra gagnvart þrotabúinu.  Þetta á hann að gera á grundvelli samnings (eyðublaðs) þar sem innistæðueigandinn framselur kröfu sína til sjóðsins, og fellst jafnframt á að fá greitt það sem innheimtist úr þrotabúinu upp í kröfuna, mínus 20.887 evrur sem hann hefur þegar fengið í sinn hlut úr sjóðnum.  En sjóðurinn heldur sem sagt kröfunni til streitu gagnvart þrotabúinu, tekur fyrstu 20.887 evrur af endurheimtum í sinn hlut og skilar innistæðueigandanum rest.

Takið eftir því að þarna er um að ræða einkaréttarlegan samning milli innistæðueigandans og Tryggingasjóðs.  Fyrirkomulagið hefur sem slíkt ekkert með gjaldþrotaskiptamekanisma bankans eða kröfuröð að gera, né sérstakan aukaforgang í þrotabúið; það fjallar eingöngu um skiptingu útgreiðslu - á grundvelli venjulegrar framkvæmdar gjaldþrotaskipta - milli sjóðsins og innistæðueigandans.

Nú virðist sem Tryggingasjóður innistæðueigenda og fjárfesta hafi ekki haldið rétt á sínum hagsmunum (og skattgreiðenda) í Icesave-ferlinu.  Þó að Bretar og Hollendingar hafi upp á sitt einsdæmi tryggt innistæður umfram 20.887 evru lágmarkið, þá átti það engu að breyta um hagsmuni og framgangsmáta íslenska sjóðsins, sem eru skilgreindir samkvæmt íslenskum lögum og í samræmi við Evróputilskipun um innistæðutryggingar.

Kjarni vandans liggur m.a. í upphaflegum greinum 4.2(a) og (b) í breska viðaukasamningnum (Settlement Agreement), þar sem gert er ráð fyrir að FSCS (breski sjóðurinn) haldi hluta af kröfuréttindum innistæðueigenda hjá sér, og að jafna eigi út hlutfallslegar heimtur milli íslenska og breska sjóðsins.  Þetta er rangt upplegg, þar sem TIF (íslenski sjóðurinn) hefði átt að halda öllum kröfuréttindum en greiða FSCS aðeins það sem umfram yrði eftir endurheimt 20.887 evra af hverri innistæðu.

Í nýjum viðauka við Settlement Agreement er bætt við nýrri grein 4.2(c) sem býður upp á að dómur íslensks dómstóls, og samhljóða ráðgefandi álit EFTA-dómstóls, geti gefið kröfum TIF aukinn forgang (preferential basis) í þrotabú Landsbankans gagnvart öðrum kröfum (þ.e. hinum sjóðunum) vegna sömu innistæðu (relative to other claims).  Þetta er því miður langsótt og er ekki kjarni málsins.  Það er misskilningur Indriða H. Þorlákssonar og fleiri, að málið fjalli um einhvers konar aukinn forgang krafna í þrotabúið.  Það snýst ekki um það, heldur um einkaréttarlegan samning milli innistæðueigandans og TIF sem skilgreinir skiptingu endurheimtar þeirra á milli.  Hefði sá samningur verið fyrir hendi (sem hann átti að vera skv. lögum, að mínu mati), þá þyrfti ekki neinn aukinn forgang.  Enda engin lagaheimild fyrir slíku.

Ég vona innilega að ég hafi rangt fyrir mér í því sem hér stendur að ofan, og þætti vænt um að fá athugasemdir frá þeim sem telja að svo sé.


Ástarbréf og Reykjavíkurbréf

Í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins í dag skrifar Davíð Oddsson um gjaldþrot Seðlabankans og umfjöllun meintra "spunameistara Samfylkingarinnar" um það.

Þessi skrif Davíðs krefjast þrenns konar andsvara.

Í fyrsta lagi efnislega: Endurhverf viðskipti Seðlabankans, þar sem hann tók við skuldabréfum bankanna sem veði gegn því að lána þeim lausafé, jukust hratt frá 2007 til 2008.  Í stað þess að vera eðlileg lausafjárfyrirgreiðsla, voru endurhverfu lánin orðin lykilstoð í fjármögnun bankanna; enda bauðst endurfjármögnun trauðla erlendis og lánalínur voru að lokast.  Seðlabankinn, sem bar ábyrgð á fjármálastöðugleika, hefði átt að leita leiða til að koma fjármögnun bankanna á fastari grundvöll, og draga úr eigin áhættu með því að krefjast traustari veða.  Þá var óráð að hefja samkeppni við bankana um lausafé með útgáfu innistæðubréfa, eins og Ármann Þorvaldsson hefur bent á.

Það hringdu allar viðvörunarbjöllur, en ekki verður séð að Seðlabankinn hafi brugðist við með neinum afgerandi hætti - hann lét einfaldlega skeika að sköpuðu.

Tap skattgreiðenda varð gífurlegt, og auðútreiknanlegt þrátt fyrir sjónhverfingar í Reykjavíkurbréfinu: 345 milljarðar króna (brúttóupphæð "ástarbréfanna") margfaldaðir með tapshlutfalli almennra kröfuhafa, sem verður varla mikið minna en 70-80% - eða 240-280 milljarða tap. (Hvernig tapið svo skiptist fyrir rest á milli ríkis og Seðlabanka er akademískt og skiptir ekki máli nettó fyrir skattgreiðendur.)

Í öðru lagi áferð og stíll í umræðu.  Það er fullkomlega eðlilegt og sjálfsagt að fjallað sé um þetta stórtap skattgreiðenda, það greint og yfir því velt vöngum í almennri umræðu.  Gauti B. Eggertsson og fleiri hafa velt þessu málefni fyrir sér á yfirvegaðan og málefnalegan hátt, og sett fram gagnrýni og andsvör, rök og mótrök eins og vera ber.  Davíð telur hins vegar að umræða af þessu tagi hljóti að vera "samhæfð og æfð" af "spunameisturum ríkisstjórnarinnar", hún sé "sett á svið í annarlegum tilgangi".  Kommon.  Er þetta ekki dálítið gamaldags afstaða til opinnar og lýðræðislegrar gagnrýni?  Árið 2009 þurfa menn einfaldlega að standa fyrir máli sínu og sæta því að þurfa að svara spurningum og færa rök fyrir afstöðu sinni.  Gamli tíminn, þar sem menn voru skjálfandi hræddir við að móðga foringjann, er sem betur fer liðinn.

Í þriðja lagi staða Morgunblaðsins með Davíð sem ritstjóra.  Nú er komið skýrt fram að Davíð leyfist að nota Reykjavíkurbréfið til að verja eigin fyrri störf, og blanda þannig beinlínis saman ritstjórnarstefnu blaðsins og vörn fyrir eigin feril og málstað. Eitthvað var verið að kvaka um að Davíð myndi ekki koma að umfjöllun blaðsins um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis.  Ég sé ekki betur en að þeir Kínamúrar séu þegar hrundir, áður en á þá reyndi. Hvað eiga nú blaðamenn Moggans að halda, sem "lenda í því" að skrifa um gagnrýni eða nýjar upplýsingar varðandi aðgerðir Seðlabankans og Davíðs í aðdraganda hrunsins?  Ritstjóri þeirra er lagstur í hörku vörn með flestum sínum frægu skítkastsmeðulum; á hverju eiga þá blaðamenn von sem villast yfir hina ósýnilegu línu þar sem velþóknun ritstjórans endar?

Þetta er nú meiri farsinn, og auðvitað áfall fyrir endurreisnarferlið, þegar einn helsti fjölmiðill landsins færist aftur í svona gamaldags skotgrafahernað.


Til hvers þarf gjaldeyrisforða?

Ýmsir virðast álíta að það sé úrelt bábilja að gjaldeyrisforði styrki gjaldmiðla og komi í veg fyrir sveiflur.  Þeir hinir sömu ættu að mínu mati endilega að skrifa um þetta greinar og birta í ritrýndum hagfræðitímaritum, því  þeir gætu átt möguleika á Nóbel fyrir stórmerkar nýjungar í peningahagfræði.

Eins og ég hef útskýrt í fyrri bloggfærslum, þá snýst tilvist gjaldeyrisforða ekki síst um sálfræði og leikjafræði.  Ef markaðurinn veit að forðinn er enginn, eða að það er prinsipp að beita honum ekki, þá hafa spákaupmenn frítt spil að veðja á móti gjaldmiðlinum og vita að það verður engin mótstaða í því veðmáli.  Það verður nánast áhættulaus högnun (arbitrage) að skortselja gjaldmiðilinn og því fleiri sem taka veðmálið, því "betra" verður það.

Ef forðinn er á hinn bóginn nógu stór og trúverðugur, og menn hafa talað nægilega digurbarkalega um að beita honum ef þurfa þykir, þá sjá spákaupmenn að þeir muni - jafnvel með hópefli - ekki ná að brjóta niður mótstöðuna, og reyna það því ekki.  Svo það sé sagt aftur og skýrt: Ef forðinn er nógu trúverðugur, þarf aldrei að beita honum.  Það er staðan sem menn vilja vera í, þegar krónunni er fleytt.

Ég er hálfgáttaður á því hvað fólk, sem jafnvel gefur sig út fyrir að hafa reynslu úr viðskiptalífi, á erfitt með að skilja þennan einfalda sannleik - sem er viðtekinn á mörkuðum hvarvetna.

Síðan er það þannig i framhaldinu, að það mun ávallt þurfa stóran og dýran forða til að verja krónuna.  Það er einn liður í margvíslegum kostnaði sem við berum af þessum örsmáa gjaldmiðli, en aðrir liðir eru hærri vextir (hærra áhættuálag), verðtrygging, og aukinn kostnaður við sveifluvarnir hjá fyrirtækjum.

Það er ein af fjölmörgum ástæðum þess að við eigum tvímælalaust að stefna á upptöku evru, eins fljótt og auðið er.


200 milljarðar tuggðir 200 sinnum

Loksins virðist vera búið að fá á hreint hvað gerðist varðandi peningamarkaðssjóði bankanna þriggja.

  • Stjórn (gamla) Glitnis keypti bréf Stoða (áður FL Group) út úr Sjóði 9 fyrir um 11,9 milljarða.  Sú ákvörðun var á ábyrgð og kostnað gamla bankans og kröfuhafa hans.  Peningarnir komu ekki úr ríkissjóði.
  • Nýju ríkisbankarnir keyptu hver um sig skuldabréf úr peningamarkaðssjóðum, fyrir 63 milljarða í tilviki Landsbankans, 12,6 milljarða hjá Íslandsbanka, og 7,8 milljarða hjá Kaupþingi.  Samtals eru þetta 83,4 milljarðar.  Skv. fréttum má reikna með að 50 milljarðar af þeim verði afskrifaðir, dragist þar með frá eigin fé bankanna og lendi á eigendum þeirra (þ.e. skattgreiðendum).

Þetta er vissulega ekki gott mál, en þó verður að hafa í huga að neyðarlögin breyttu forgangsröð krafna í þrotabú banka þannig að skuldabréf þeirra urðu verðlítil, en það bitnaði harkalega á peningamarkaðssjóðunum.  Má því segja að ákveðnar bætur hafi verið greiddar með þessum hætti.

Það er síðan sérstakt umhugsunarefni, að það hefur nú gengið ljósum logum í umræðunni í næstum ár, að ríkissjóður hafi lagt 200 milljarða í peningamarkaðssjóðina.  Með hjálp Google sýnist mér að aðeins á eyjunni.is hafi yfir 200 sinnum verið minnst á 200 milljarða og peningamarkaðssjóði í samhengi.  Margur skríbentinn hefur þar verið afar reiður og sár, yfir meintri staðreynd sem var röng og tilhæfulaus.  Þetta ætti að vera áminning um að fara varlega með ályktanir af ótraustu tilefni.


Samstarf við AGS er besti (og eini) kosturinn í stöðunni

Það er í tísku um þessar mundir að skamma Alþjóða gjaldeyrissjóðinn (AGS).  Þingmenn og jafnvel forystumenn stjórnmálaflokka tala um að AGS vilji Íslandi aðallega illt og að best sé að losna við sjóðinn sem fyrst.

Þetta er fjarri sanni.  Við getum þvert á móti prísað okkur sæl að hafa aðgang að sjóðnum og fyrirgreiðslu hans.

Samstarfið við AGS er að ósk íslensku ríkisstjórnarinnar og Alþingis, sem samþykkti þingsályktun um að óska eftir hjálp sjóðsins í nóvember 2008.  Þá hafði verið undirrituð viljayfirlýsing um efnahagsáætlun í 27 liðum.  Þessi viljayfirlýsing er enn þann dag í dag eina marktæka áætlunin sem fyrir liggur, um aðgerðir til að komast út úr kreppunni, vinda ofan af skuldum, rétta af fjárlagahalla og styðja við krónuna.  Það er lágmarkskrafa til þeirra sem vilja AGS burt, að gera þá jafnframt grein fyrir því hvaða áætlun þeir vilji fá í staðinn.

Vandi okkar hefur aðallega legið í því að það hefur gengið allt of hægt að framfylgja þessari ágætu áætlun.

AGS er legið á hálsi fyrir að standa á móti vaxtalækkunum.  Þar verður að hafa í huga (1) að verðbólga er enn töluverð og raunvextir því ekki háir; (2) fara verður með gát til sökkva ekki krónunni, þrátt fyrir gjaldeyrishöft og sérstaklega ef ætlunin er að aflétta þeim; (3) það er þrátt fyrir allt peningastefnunefnd Seðlabankans sem ber ábyrgð á vaxtastiginu, en það verður að ríma við markmið áætlunar stjórnvalda og AGS.  Ég hef engin sannfærandi rök séð fyrir því að vaxtastigið gæti verið annað þótt AGS kæmi hvergi að málum.  Raunar má telja víst að hvati erlendra krónueigenda væri enn meiri til að hlaupa út úr krónunni ef stuðnings AGS nyti ekki við, skuldatryggingarálag ríkisins væri hærra og lánshæfismat þess verra.

Þá telja sumir AGS eiga sök á niðurskurði í ríkisfjármálum.  Vegna hrunsins dragast tekjur ríkisins verulega saman, og vaxtagjöld aukast um allan helming.  Þessu þarf óhjákvæmilega að mæta með samdrætti, hvort sem AGS kemur að málum eða ekki.  Ríkissjóðshalla þarf að greiða fyrr eða síðar, og ef hann er greiddur síðar, bætast vextir við.  Áætlun stjórnvalda og AGS gerir ráð fyrir að ná hallanum niður á sirka þremur árum, 2010-2012, og árið 2009 var látið líða án nokkurs niðurskurðar sem heitið gat - en sá (gálga-)frestur jók nóta bene skuldir ríkisins um 150 milljarða.

Íslenska ríkið mun á næstu árum þurfa að endurfjármagna stór lán á erlendum lánsfjármörkuðum.  Það sama gildir um veitufyrirtæki og sveitarfélög.  Þá er væntanlega ætlunin að freista þess að fleyta okkar heittelskuðu krónu á ný.  Úr ótrúlegustu áttum heyrast óraunsæjar, og mér liggur við að segja barnalegar, raddir sem halda því fram að þetta muni einhvern veginn blessast án aðstoðar AGS, án efnahagsáætlunar sem umheimurinn treystir, og án lánafyrirgreiðslu og jafnvel í beinu stríði við helstu nágrannaþjóðir.  Þeir sem halda slíku fram geta ekki haft mikla reynslu af viðskiptum eða tilfinningu fyrir því hvernig heimurinn virkar í raun og veru.  Ég myndi a.m.k. ekki treysta viðkomandi fyrir stjórn efnahagsmála.

Ísland er rúið trausti, þar sem við klúðruðum peningamálastjórn, hagstjórn og bankaeftirliti, svo eitthvað sé nefnt.  Ríkissjóðir, bankar, fyrirtæki og einstaklingar víða um heim hafa tapað stórfé á viðskiptum við íslenska aðila.  Eina leið okkar til að endurreisa sæmilegt traust og þokkalegt mannorð er að standa við skuldbindingar okkar, vinna með AGS, og helst að stefna að aðild að ESB.  Núna á ekki að bæta gráu ofan á svart með heimasmíðaðri, fordæmalausri furðuhagstjórn.  Við komumst út úr þessu með skynsemi en ekki skrýtilegheitum.


AGS lán og Icesave hafa verið tengd frá fyrsta degi

Ég átta mig ekki á þeirri vandlætingu sem gengur aftur í umræðunni yfir því að AGS sé að tengja afgreiðslu Íslandsmála við lausn Icesave deilunnar.  Sú tenging hefur alltaf legið fyrir, allt frá viljayfirlýsingu AGS og ríkisstjórnar Íslands, sem Davíð Oddsson og Árni Mathiesen skrifuðu undir þann 15. nóvember 2008.  Hér er viðkomandi kafli úr henni:

Úr viljayfirlýsingu Íslands og AGS

Í gul-litaða kaflanum kemur fram að Ísland ætli að standa við skuldbindingar vegna innlánstrygginga og að við ætlum að ná samkomulagi við ríkisstjórnir sem um ræðir (Breta og Hollendinga).  Þetta er meðal þeirra skrefa og markmiða sem klára á skv. efnahagsáætluninni. Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að AGS tengi þetta saman, og allra síst formanni Sjálfstæðisflokksins.


Uppsögn áskriftar að Morgunblaðinu

Neðangreindan póst sendi ég áskriftardeild Morgunblaðsins í gær:

Tölvupóstur með uppsögn áskriftar

Ástæða þess að ég segi upp áskriftinni er ráðning Davíðs Oddssonar sem ritstjóra blaðsins, en sú niðurstaða byggir nánar til tekið á tvennu.

Í fyrsta lagi tel ég Davíð vera í hópi þeirra sem mesta ábyrgð bera á hruni gjaldmiðilsins og bankakerfisins.  Hann var forsætisráðherra þegar bankarnir voru einkavæddir og þegar ráðist var í stóriðjuframkvæmdir við Kárahnjúka.  Hann var Seðlabankastjóri 2005-2009 og bar sem slíkur ábyrgð á fjármálastöðugleika í landinu.  Engum blöðum er um það að fletta að margvíslegar ákvarðanir Davíðs, og aðgerðaleysi á öðrum sviðum, undirbjuggu bæði jarðveginn fyrir hrunið og gerðu það verra en annars hefði orðið.

Í öðru lagi álít ég stíl og aðferðir Davíðs engan veginn henta hjá ritstjóra nútíma fjölmiðils, hvað þá í andrúmslofti Íslands í dag.  Davíð sér heiminn í svart-hvítu, menn eru annað hvort vinir hans eða svarnir óvinir.  Þá er hann langrækinn og erfir sakir í stóru samhengi við meinta andstæðinga.  Og eins og kunnugt er skirrist hann ekki við að kalla fólk, sem honum mislíkar við, inn á teppið og lesa því pistilinn í löngum einræðum.  Ekkert af þessu eru eftirsóknarverðir eiginleikar hjá ritstjóra fjölmiðils sem vill vera í þokkalegu jafnvægi, og geta fjallað um menn og málefni af hlutlægni.  Jafnvel þótt Davíð tækist að hemja sig, gagnvart blaðamönnum og öðrum, þá væri grunurinn um hlutdrægni og eltingarleiki við óvini ætíð til staðar, og trúverðugleiki blaðsins eftir því laskaður.

Þessi ákvörðun eigenda og útgefanda Morgunblaðsins er bæði sérkennileg og vond, en eina leið viðskiptavina blaðsins til að bregðast við henni er að nota skilaboð markaðarins og segja upp áskriftinni að blaðinu.  Jafnvel þótt það sé óljúft, eins og eftir 23ja ára ágæt viðskipti í mínu tilviki.


Átta lífseigar flökkusögur um hrunið

Ýmislegt er á kreiki í umræðunni varðandi hrunið, sem margir taka sem gefnu, en þolir ekki gagnrýna skoðun.  Hér eru átta dæmi.

1. "Afskriftir skulda [útrásarvíkings X] lenda á almenningi."  Rangt, þær lenda á kröfuhöfum gömlu bankanna.  En í tilviki Landsbankans er Tryggingasjóður innstæðueigenda og síðan ríkissjóður meðal forgangskröfuhafa, þannig að þar má segja að tap gamla bankans sé tap almennings.  Svo er þó ekki í Glitni eða Kaupþingi  (nema óbeint í gegn um lífeyrissjóði og að einhverju leyti Seðlabanka).

2. "Krónan féll vegna þess að bankarnir og/eða eigendur þeirra tóku stöðu gegn henni."  Ekki rétt nema ef til vill að litlu leyti.  Krónan féll aðallega vegna þess að peningamálastefnan var vond, leyfði krónunni að styrkjast of mikið 2003-6 og síðan kom alþjóðlega fjármálakreppan sem olli flótta úr öllum áhættusömum fjárfestingum, þar á meðal vaxtamunarviðskiptum með krónu.  Sjá nánar í þessari bloggfærslu.

3. "Það er fullt af peningum í felum á Tortólu, það þarf bara að fara og sækja þá." Svo mikið er víst að það eru engir peningar á Tortólu, þar er varla banka að finna.  Hins vegar eiga fyrirtæki skráð á Bresku jómfrúreyjum (en stærsta eyjan heitir Tortóla) eflaust bankareikninga víða, bara ekki á eyjunum sjálfum.  En því miður var stærsti hluti efnahagsreikninga bankanna (og eignarhaldsfélaganna) bara loft, þ.e. skuldasúpur og ofurgíraðar spilaborgir.  Það loft hvarf jafnfljótt og það myndaðist.  Eitthvað smáræði er eflaust eftir, en ekki stóru fjárhæðirnar sem sumir virðast halda; þær töpuðust einfaldlega og urðu að engu.  Af lofti ertu kominn og að lofti skaltu aftur verða.

4. "Óverðtryggð lán eru betri en verðtryggð þegar áföll verða."  Óverðtryggð lán til langs tíma eru yfirleitt með breytilegum vöxtum til skamms tíma í senn.  Slíkir vextir urðu gríðarlega háir 2008-2009 og greiðslubyrði hefði orðið mun meiri en af verðtryggðum jafngreiðslulánum, þar sem verðbætur dreifast yfir allan líftíma lánsins.  Verðtryggðu jafngreiðslulánin voru að mörgu leyti lán í óláni og hafa veitt skjól frekar en hitt.

5. "[Útrásarvíkingur X] á að borga skuldir [hlutafélags Y þar sem X var hluthafi]."  Það kann að teljast siðferðislega æskilegt í ýmsum tilvikum að hluthafar borgi skuldir sem þeir hafa stofnað til í gegn um félög sín.  En, hvort sem mönnum líkar betur eða verr, þá eru hlutafélög þess eðlis skv. hlutafélagalögum að hluthafar bera ekki ábyrgð á skuldum félaganna, umfram hlutafjárframlög sín.  Þetta er lánveitendum fullkunnugt þegar þeir lána hlutafélögum, og á með réttu að endurspeglast í lánskjörum, tryggingakröfum o.s.frv.  Hitt er svo annað mál að stjórnir og stjórnendur hlutafélaga bera margháttaða ábyrgð skv. lögum og liggur refsing við ýmissi háttsemi sem lög tiltaka.

6. "Það á að setja afturvirk lög til að geta refsað [útrásarvíkingi X]". Slíkt er bannað skv. 69. gr. stjórnarskrár Lýðveldisins íslands: "Engum verður gert að sæta refsingu nema hann hafi gerst sekur um háttsemi sem var refsiverð samkvæmt lögum á þeim tíma þegar hún átti sér stað." Ákvæði sama eðlis eru í mannréttindasáttmálum, enda er hér um að ræða eina af meginstoðum lýðræðis og réttarríkis.  Það væri verr af stað farið en heima setið að ætla sér að krukka í þessu.

7. "Við ráðum ekki við Icesave." Jú, sérstaklega ef fyrirvarar Alþingis halda.  Ef við berum gæfu til að stjórna efnahagsmálum með skynsamlegum hætti næstu árin, til dæmis með fagmenn eins og Gylfa Magnússon og Má Guðmundsson í brúnni og með aðstoð AGS, þá ráðum við ágætlega við Icesave-greiðslurnar.

8. "Allt er farið í steik og það er eins gott að pakka saman og fara." Vísbendingar í hagtölum eru frekar jákvæðari en svartsýnar spár gerðu ráð fyrir.  Samdráttur landsframleiðslu verður minni en ætlað var á þessu ári, og ekki meiri en víða annars staðar.  Vöruskiptajöfnuður hefur snúist hratt við og er vel jákvæður um þessar mundir. Atvinnuleysi er minna en spáð var.  Búið er að vinna úr Icesave deilunni og verið er að endurreisa bankana.  Umsókn um aðild að ESB er á góðu róli, en stefna á aðild og evru mun veita okkur kærkominn stöðugleika og viðspyrnu.  Og við munum geta lokað stórum hluta fjárlagagatsins með þeirri einföldu aðferð að skattleggja inngreiðslur í lífeyrissjóði í stað útgreiðslna.

Eins og sönnum Íslendingi sæmir, dreg ég rökrétta ályktun: Þetta reddast.


Loksins fagmaður í stóli Seðlabankastjóra

Ég gladdist yfir snöfurmannlegum viðbrögðum Más Guðmundssonar, vors nýja Seðlabankastjóra, þegar blaðamaður Fréttablaðsins hringdi í hann og þýfgaði um svör við spurningum.  Már sagði blaðamanninum að í engu öðru landi myndi blaðamaður hringja óforvarandis beint í Seðlabankastjóra og ætlast til að fá svör.  Þetta er alveg hárrétt hjá Má og ánægjulegt að sjá þessi fagmannlegu viðbrögð.

Alvöru seðlabankar tjá sig ekki með óábyrgu geipi við einstaka fjölmiðlamenn sem dettur í hug að hringja í stjórnendur þeirra eða starfsmenn.  Miðlun upplýsinga frá Seðlabankanum á að vera í föstum og öguðum farvegi.  Annars skapast tvenns konar óreiða.  Í fyrsta lagi væru blaðamenn að túlka orð bankastjóra úr tveggja manna tali með sínum hætti og alls óvíst að rétt væri farið með það sem segja átti.  Í öðru lagi er afstaða Seðlabankans hverju sinni mjög markaðsmótandi og getur til dæmis hreyft verð skuldabréfa, krónunnar og jafnvel hlutabréfa töluvert.  Óvarleg ummæli geta þannig orðið að innherjaupplýsingum, og markaðsaðilar sitja ekki lengur við sama borð hvað varðar aðgang að upplýsingum úr bankanum.

Það að Seðlabankastjórar skuli hafa leyft sér í gegn um tíðina að blaðra við blaðamenn með handahófskenndum hætti, og þá jafnvel tiltekna blaðamenn frekar en aðra, er dæmi um hið ófaglega gamla Ísland sem þarf að skilja við sem fyrst.  Már Guðmundsson er greinilega með þetta á hreinu, og það er vel.


Krónan: Vond, góð og aftur vond

Um daginn skrifaði ég heilmikinn langhund um krónuna þar sem ég minnti m.a. á að á 90 árum, síðan íslenska krónan var skilin frá þeirri dönsku, hefur hún rýrnað svo gagnvart sinni gömlu systur að vera orðin 1/2430-asti partur af henni.  Það eru sem sagt 2430 upphaflegar íslenskar (gamlar) krónur í einni danskri.

Krónan átti verulegan þátt í að valda hruninu. Stóriðjuframkvæmdir á árunum 2002-2006 höfðu í för með sér þenslu sem vitað var að Seðlabankinn yrði að svara með háum vöxtum.  Þetta gaf spákaupmönnum og öðrum færi á hagnaði með lágmarksáhættu í gegn um vaxtamunarviðskipti, þar sem tekin voru ódýr lán í jenum og svissfranka, sem breytt var í krónur á háum vöxtum.  Að sama skapi leituðu innlend heimili og fyrirtæki í erlend lán með lágum vöxtum enda þótti ólíklegt að krónan myndi veikjast í bráð.  Almenningur var sáttur við gríðarlegan (sýndar-)kaupmátt og lágan fjármagnskostnað, og fyrirtæki skuldsettu sig upp í rjáfur, enda nóg til af ódýru fé.  Þeir sem gíruðu sig mest "græddu" líka mest.  Hvatarnir í hagkerfinu skekktust og útkoman varð eftir því.

Auðvitað endaði þetta með skelfingu, enda ekki til innistæða fyrir bólunni, sem þandist út í boði okkar skrýtnu örmyntar (og galinnar peningamálastefnu).

En úr því að kreppan þurfti að verða, vegna ofurútslags krónunnar í styrkingarátt, þá er krónan ágæt til síns brúks akkúrat núna með ofurútslagi sínu í veikingarátt.  Vitaskuld styrkir slíkt útflutning og minnkar innflutning; eflir þar með vöruskiptajöfnuðinn og lækkar laun í samanburði við nágrannaþjóðir.

Krónan má hins vegar ekki veikjast mikið meira en orðið er.  Lán Íslendinga eru að miklu leyti verðtryggð og gengistryggð, og heimili og fyrirtæki þola ekki enn frekari ágjöf.  10% veiking krónu hækkar höfuðstól verð- og gengistryggðra lána um 4-10%, en það er áfall sem hagstæðari vöruskiptajöfnuður er lengi að vinna upp.  Þetta þarf að kynna rækilega fyrir erlendum hagfræðingum sem hingað koma, því þetta er óvenjulegt einkenni á hinu íslenska hagkerfi og fækkar þeim ráðum sem unnt er að grípa til í stöðunni.

Þótt krónan sé góð til síns brúks núna, þá verður ekki búið við hana til frambúðar.  Til þess er hún of smá, sveiflukennd og dýr.  Utanríkisviðskipti Íslendinga eru að nærri 2/3 við evrusvæðið og tengdar myntir.  Það er því borðleggjandi að stefna á evruna, enda leiðir hún til lægri vaxta, minni verðbólgu, meiri stöðugleika og afnáms verðtryggingar.  Aðrir trúverðugir valkostir eru ekki fyrir hendi, að mínu mati.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband