Umfjöllun þarf ekki að brjóta bankaleynd

Lögbann sem Nýja og gamla Kaupþing hefur fengið fram gagnvart RÚV vegna birtingar lánayfirlits frá 25. september 2008 hefur kallað fram sterk viðbrögð, m.a. frá formanni Blaðamannafélags Íslands, Birni Bjarnasyni og ýmsum bloggurum.  Talað er um ritskoðun, almannahagsmuni, "allt upp á borðið" o.s.frv.

Þetta mál er eðlislíkt því þegar Agnes Bragadóttir skrifaði greinar í Mogga í vor og vitnaði í lánabækur Glitnis, en Agnes lenti af því tilefni í útistöðum við Fjármálaeftirlitið.

Ég held að það sé millivegur í þessum málum báðum.  Hlutverk rannsóknarblaðamanna er að afla sér víðtækra og haldgóðra grunnupplýsinga um mikilvæg mál, skilja kjarnann frá hisminu og miðla honum með skýrum og skiljanlegum hætti til almennings.  Slík miðlun þarf ekki nauðsynlega að innifela smáatriði um fjárhag einstaklinga eða lögaðila, sem vernduð eru af bankaleynd.

Það er til dæmis alveg fullnægjandi blaðamennska að segja að í gögnum sem RÚV hafi undir höndum komi fram að helstu eigendur Kaupþings hafi fengið lán frá bankanum upp á tilteknar upphæðir samtals; eða að tiltekið hlutfall lána bankans hafi verið vegna hlutabréfa í honum sjálfum.  Með öðrum orðum, hinar fréttnæmu staðreyndir má eima upp úr frumgögnunum án þess að birta þau öll í smáatriðum.  Þar er nefnilega að finna fjárhagsupplýsingar óviðkomandi fólks, til dæmis útlendinga sem hvergi komu nálægt hinu íslenska hruni en voru svo óheppnir að eiga viðskipti við íslenskan banka.  Er ekki einmitt hlutverk blaðamanna að vinna fréttir og upplýsingar upp úr gögnum?  Er birting frumgagnanna endilega prinsippmál fyrir blaðamenn, ef hún skaðar hagsmuni saklausra?

Hvort sem mönnum líkar betur eða verr, þá er bankaleynd í lögum á Íslandi (58. gr. laga um fjármálafyrirtæki) og brot á henni varða sektum eða fangelsi (112. gr. (b) sömu laga).  Enda þarf að hugsa þá hugsun til enda hvað verið væri að bjóða upp á ef henni væri aflétt; þá gætu bankastarfsmenn dreift upplýsingum um þá sem þeim væri í nöp við og reikningsyfirlit frægs fólks yrðu vinsælt lesefni á bloggum.  Hins vegar var það tiltekið í lögum um sérstakan saksóknara og rannsóknarnefnd Alþingis að þessar stofnanir hafa aðgang að gögnum óháð bankaleynd, eins og vera ber, og það sama gildir að sjálfsögðu um FME. 

Sem sagt: eins í mörgu öðru, er millivegurinn bestur í þessu máli.


mbl.is Kaupþing fékk lögbann á RÚV
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nei, millivegurinn er ekki bestur í þessu máli.

Toni (IP-tala skráð) 1.8.2009 kl. 23:56

2 identicon

Vegurinn að Litla-Hrauni er bestur í þessu máli.

Theódór Norðkvist (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 01:01

3 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Segið mér: hvað er eiginlega nýtt í þessum glærum, sem ekki hefur margoft komið fram áður?  Er það frétt fyrir einhvern, að bankarnir hafi lánað eigendum sínum og tengdum aðilum stórar summur?  Er það frétt fyrir einhvern, að bankarnir hafi lánað gegn veðum í eigin hlutabréfum?  Ekki mig, þetta hefur legið fyrir alveg frá október/nóvember.

En svo má ekki gleyma að spyrja: hvar í ósköpunum var Fjármálaeftirlitið, sem átti að hafa eftirlit með einmitt þessum þáttum og annarri áhættu í rekstrinum?

Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.8.2009 kl. 01:10

4 identicon

Alveg sammála þér Vilhjálmur. Það er eins og fólk sé alveg að tapa sér í hysteríu yfir þessu öllu (ekki kannski erfitt að skilja það, svo sem) og fleygi þar með almennri skynsemi fyrir borð. Ég er alveg sammála þér, ábyrgð fjölmiðla er sú að vinna úr frumgögnunum og birta þá úrvinnslu sem fréttir, ekki bara að birta frumgögnin. Hins vegar er það svo, að álit fólks á fjölmiðlum hefur líka beðið hnekki. Kannski sjá þeir  sér ekki annað fært en að birta frumgögnin með fréttunum til þess að ekki sé hægt að efast um innihald þeirra?

Ágústa (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 01:58

5 identicon

Mjög umhugsunarverð færsla.

Sammála um nauðsyn þess að lögum sé fylgt og að fjölmiðlar bæti sín vinnubrögð svo um muni.

agla (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 08:03

6 identicon

En voru það fjölmiðlar sem láku þessum upplýsingum?  Þetta lögbann er máttlaust því það stoppar ekki dreifingu upplýsinganna, þær eru sloppnar út.  Lögbannið í besta falli gerir ekkert, í versta falli bara olía á eldinn.

Mér finnst Rúv hafa verið vel innan skynsemismarka í sinni umfjöllun um þetta og ekki ástæða til lögbanns.

Það að upplýsingarnar láku út getur mögulega valdið okkur Íslendingum stórtjóni því þar eru upplýsingar um lán fyrirtækja til FIH sem eru saklaus í bankahruninu.  Ríkið er með 500 millj.evra. veð í FIH, og ef að þessi fyrirtæki í viðskiptum við FIH fara að fara í viðskipti annað er mögulegur annar skellur af Icesave stærðargráðu.

Agni (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 10:46

7 identicon

Það var wikileaks.org sem birti lánayfirlitið.

Lögbannið er gegn því að RÚV birti fréttir sem unnar eru upp úr yfirlitinu sem er aðgengilegt öllum.

Það er vitaskuld út í hött.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 11:31

8 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hans: Skv. lögunum er refsivert að miðla þessum upplýsingum áfram.  Mér finnst að Ríkisútvarpið, af öllum fjölmiðlum, hafi sérstakar og sjálfsagðar skyldur við lögin í landinu og eigi að ganga á undan með góðu fordæmi.  Það er beinlínis ámælisvert ef ríkisfjölmiðillinn tekur af eigin frumkvæði upp niðrandi tal um lögin eða löglegar athafnir til þess bærra yfirvalda, til dæmis dómskerfisins.  Sérstaklega í ástandi dagsins, þar sem virðing fyrir lögum og rétti þarf stuðning fremur en hitt.

Eins og ég sagði, þá tel ég að unnt sé að fjalla á gagnrýninn og upplýsandi hátt um lánveitingar Kaupþings án þess að birta eða vísa í sérgreindar tölur um einkahagi einstakra lántakenda, sem njóta verndar bankaleyndar.  Á öld internetsins er það hlutverk blaðamanna að eima markverðar upplýsingar upp úr hafsjó frumgagna.  Ef þeir sinna ekki því hlutverki, eða skilja það ekki, verða þeir fljótt í útrýmingarhættu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.8.2009 kl. 11:50

9 identicon

Jafnvel þótt að við göngum út frá því að leyndin sé lögmæt þá er hæpið að setja bann við umfjöllun eins og málum er háttað.

Við getum ímyndað okkur að forsætisráðherra myndi greinast með einhvern hrörnunarsjúkdóm og að heilbrigðisstarfsmaður myndi setja gögn um ástand hennar á vefsíðu sem vistuð væri erlendis. Þetta myndi fréttast, allir myndu heyra um sjúkdóminn og þúsundir myndu hafa hlaðið þeim niður og lesið þau.

Væri þá eitthvað vit í því að banna umfjöllun fréttamiðla, viðtöl við sérfræðinga og slíkt? Að mínum dómi væru miðlarnir ekki að dreifa upplýsingum heldur að fjalla um upplýsingar sem væru komnar fyrir almenningssjónir, með réttu eða röngu.

Ég tel er reyndar líka þeirrar skoðunar að bankaupplýsingarnar eigi erindi fyrir almenningssjónir en RÚV spurningin snýst ekki um það. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 15:07

10 Smámynd: Soffía Sigurðardóttir

Af hverju er bara sett lögbann á umfjöllun RÚV en ekki annarra fjölmiðla?

Er það af því að RÚV hefur fleiri gögn undir höndum, sem ekki má fjalla um?

Í einu fréttinni sem ennþá hefur birst um þetta mál á RÚV, í fréttatíma Sjónvarpsins í fyrrakvöld, þá er gefið sterklega í skyn að frekari fréttir, sem boðaðar eru í framhaldinu, muni upplýsa um það sem gerðist EFTIR lánafundinn þar sem umrædd skýrsla var lögð fram. Það er athyglisvert!

Svo hefur RÚV hvorki birt skýrsluna né vitnað í það sem þar kemur fram um aðila sem ekki er vitað til að séu í Kaupþingsklíkunni. Þannig hefur RÚV ekki fleiprað um blásaklausa viðskiptavini Kaupþings sem áttu bara í eðlilegum bankaviðskiptum við það sem síðar reyndist óeðlilegur banki.

Soffía Sigurðardóttir, 2.8.2009 kl. 21:22

11 identicon

Eins og alltaf þá ert þú Hugrakkur með stóru H Vilhjálmur í bestu meiningu þess orðs.

Pétur Richter (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 22:24

12 identicon

Hans.. er þetta ekki pinku eins og að ef í dæminu þínu myndi heilbrigðisstarfsmaðurinn leka upplýsingum um alla sem hafa lagst inn á viðkomandi spítala.. bara til að skúbba þessu með forsætisráðherra..  svoldið verið að brjóta á rétti fólks sem tengist málinu ekki neitt

katrín (IP-tala skráð) 4.8.2009 kl. 00:35

13 identicon

Tek undir með orðum Péturs og kalla þig hugrakkann Viljálm að þora fara svona á móti straumnum. 

Mig myndi í framhaldinu langa til að varpa fram neðangreindum sem sækja aðeins á mig  (ekki það að ég eigi von á svörum) -

1) Hvar ætlar Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra að draga mörkin um bankaleynd?

2) Hvað ætlar Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra að segja við allan fjölda þeirra fyrirtækja sem koma bankahruninu ekkert við, en hafa nú verið svipt hinum sjálfsagða rétti sínum til bankaleyndar.....bæði dönskum fyrirtækjum svo og íslenskum sem koma fram á þessari erlendu vefsíðu?

3) Hvernig sér Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra uppbyggingu á trausti við erlenda fjárfesta (og þá um leið tilvonandi viðskiptavini bankanna) ganga fyrir sig svo hægt sé að fá þá til viðskipta við Ísland, ef það er sjálfstætt mat hvers viðskiptaráðherra á hverjum tíma hvort bankaleynd gildi eða ekki?

4) Sér Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra því eitthvað til fyrirstöðu að önnur lög í landinu sér brotin á sömu forsendum og hann gefur sér með þessi lögbrot?

Kolbeinn (IP-tala skráð) 5.8.2009 kl. 16:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband