Icesave hefði getað bjargast fyrir horn ef...

Smá pæling um uppáhaldsumræðuefni allra um þessar mundir.

Icesave hefði hugsanlega getað bjargast fyrir horn ef Neyðarlögin hefðu verið örlítið öðruvísi.  Ef krafa Tryggingasjóðs innstæðueigenda í þrotabú fjármálafyrirtækis hefði fengið forgang umfram "venjulegar" innistæðukröfur, en ekki hliðstæðan þeim eins og gert var, þá hefðu 20.887 evrur pr. reikning verið greiddar fyrst úr búi Landsbankans (á eftir skiptakostnaði og veðkröfum) og fyrir því eru til peningar.  Þá hefði ekkert lent á ríkinu vegna trygginganna, en reyndar hefði þurft að leggja til meiri peninga til að tryggja allar innistæður í útibúum bankans hérlendis.  Og innistæðueigendur erlendis hefðu verið steiktari með það sem þeir áttu umfram 20.887 evrur, en það er verið að steikja flesta kröfuhafa, meira og minna, hvort eð er.

Svona breytingu er væntanlega ekki hægt að gera afturvirka (eða hvað, lögfræðingar?), en ef svo væri, þá liti hún til dæmis svona út (breytingin feitletruð):

 

Breyting á lögum um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta,
nr. 98/1999, með síðari breytingum.


1. gr.

    3. mgr. 10. gr. laganna orðist svo: Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann kröfu kröfuhafa á hendur hlutaðeigandi aðildarfyrirtæki eða þrotabúi. Krafa sjóðsins gengur að rétti framar kröfum skv 1. mgr. 112. gr. en á eftir kröfum skv. 111. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við gjaldþrotaskipti, en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.

 

Og punkturinn er: orð eru dýr!  Í þessu tilviki er hvert orð upp á milljarðatugi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er góður punktur og sá punktur sem ég átti fyrst erfitt með að skilja. Bara þetta atriði að B/H hafi jafnan rétt í eigur Landsbankans vegna umframtrygginga þeirra, setur öll önnur vondu atriðin í samningnum í skrítið ljós.

Hvað fengum við eiginlega út úr þessum samningi ?

Jú, samkvæmt samninganefndinni, grið í sjö ár (reyndar á fullum vöxtum), öll ábyrgð er á okkur ef illa fer (neyðarlög falla) og samning sem við getum líklega ekki staðið við.

Eg held að við ættum að vona að við komumst að samningaborðinu aftur og þá væri ráð að senda nýja samninganefnd.....

Pétur Richter (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 23:28

2 identicon

Þarf að gera þetta afturvirkt? Er ekki nóg að breyta þessu frá og með núna?

Doddi D (IP-tala skráð) 27.6.2009 kl. 23:49

3 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ekki ertu fyrst núna að kveikja á því hvers konar rugl neyðarlögin voru?

Haukur Nikulásson, 28.6.2009 kl. 00:13

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Neyðarlögin voru nauðsynleg, eins og ég hef áður útskýrt í bloggfærslu, en þetta atriði hefði gjarnan mátt vera inni.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.6.2009 kl. 00:26

5 Smámynd: Ár & síð

Neyðarlögin voru að mestu tilbúin í mars 2008 skv. grein í Mbl. í vor, það útskýrir líklega þessi ótrúlegu mistök. Menn héldu sig geta reddað þessu fyrir horn svona.
Matthías

Ár & síð, 28.6.2009 kl. 00:34

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Neyðarlögin voru og eru rugl. Þú mátt útskýra það eins lengi og þú vilt Vilhjálmur, en þversögnin þín dæmir sig sjálf þegar þú segir mistök í þeim kosta milljarðatugi. Restin af þeim var meira og minna sama vitlausa og vanhugsaða inngripið í það sem stundum er kallað "due process" eða eðlilegur gangur mála í samræmi við gildandi lög en ekki þjófnaðaraðgerð og kenntöluflakk eins og neyðarlögin eru.

Haukur Nikulásson, 28.6.2009 kl. 01:01

7 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Eftir á að hyggja hefði verið hægt að afstýra þessu innistæðutryggingamáli mjög auðveldlega. Til dæmis. Hefðu þessar evrópuþjóðir sem bankarnir störfuðu í gert gjaldeyrisskiptamninga á móti innistæðunum. Þá hefði íslenski seðlabankinn getað gefið út krónur og fengið þeim skipt í viðeigandi gjaldmiðil þegar við átti, Seðlabankar EU og Bretlands hefðu verið með auka krónur undir koddanum sínum á haustmánuðum 2008 og eingin banki hefði fallið vegna áhlaups. Það skaut því vægast sagt skökku við um áramótin 2007-08 Þegar Íslenski seðlabankinn fór að leitaði eftir gjaldeyrisskiptasamningum við BNA. Það voru engir íslenskir bankar í BNA. Íslenska seðlabankanum vantaði fyrst og fremst skiptasammiga við seðlabanka Bretlands og Evruseðlabankann. í BNA sögðu menn auðvitað nei vegna þess að þeim kom málið ekki við, þar voru nefnilega engir íslenskir bankar. En af hverju neituð evrópuþjóðirnar ísendingum um gjaldeyrisskiptasamninga. Það voru þeirra hagsmunir ekki síður en íslands að þessir bankar gætu í það minnsta greitt út innistæðurnar ef gert yrði áhlaup á þær.

Það var vegna þess að Björgvin G Sigurðsson og Alistair Darling skildu ekki um hvað þeir voru að semja. Björgvin hélt að bankaáhlaup væru ekki vandamál 21. aldar og Darling virtist halda að ef íslendingar fengju gjaldeyrisskiptasamning fyrir innistæðum í pundum þá væri hann að gefa peninga. Tveir vitleysingar með völd eru orsök vandans. Neyðarlögin eru síðan Neyðaraðgerð sem bjargaði því sem bjargað varað eftir að óvitarnir voru búnir að brenna allra brýr að baki sér. Að gagnrýna Neyðarlögin er svipað og að kenna hönnuðum Titanic um að það sökk við að sigla á ísjaka.

Guðmundur Jónsson, 28.6.2009 kl. 12:45

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Ég held að Íslendingar líti framhjá þeirri staðreynd að "kostnaðurinn" við Icesave er umtalsvert minni en "kostnaðurinn" en féll á bankanna vegna innlendra innistæðureikninga.  Síðan má heldur ekki gleyma því að innistæður voru settar fram fyrir í kröfuröðinni sem leggur Bretum og Hollendingum til vopn í Icesave samningaviðræðunum.

Ég er ekki sáttur við Icesave samninginn, en á erfitt með að sjá hvernig við getum komist hjá því að greiða okkar hlut af samningnum, þ.e. höfuðstólinn.  Ég vildi gjarnan fá betri samning um vextina og helst fá þetta vaxtalaust.  T.d. væri betra fyrir Tryggingasjóðinn að fá 15 ára lán í jenum fyrir allri upphæðinni (ef slíkt lán fæst) og borga Icesave skuldbindingarnar upp í topp, en að skuldbinda sig til að greiða 5,5% vexti.

Marinó G. Njálsson, 28.6.2009 kl. 13:07

9 Smámynd: Haukur Nikulásson

Guðmundur, samanburður þinn á neyðarlögunum við hönnun Titanic þætti ekki einu sinni góður í menntaskólarökræðu og það með fullri virðingu fyrir skólafólkinu.

Það gleymist í umræðunni að þeir sem voru ábyrgir fyrir vandræðaganginum voru þeir sömu og stóðu síðan að neyðarlögunum. Það voru þess vegna óvitarnir sjálfir sem sáu um "björgunaraðgerðirnar".

Neyðarlögin verða okkur fjötur um fót um langa framtíð vegna þess að þau stríða á móti almennu viðteknu viðskiptasiðferði. Þess vegna er hætta á því að ríkið verði fyrir enn meiri skaða þegar fram í sækir vegna ágalla þeirra. Það er hræðilegt að hugsa til þess hversu vondan gjörning þarf að vinda upp.

Ég skil sjónarmið þeirra sem vilja standa skil á skuldbindingum okkar en það er verið að ganga miklu lengra en okkur ber og einnig í ljósi þeirra efnahagshamfara sem á okkur hafa dunið. Það ná engin lög yfir svona hrun og þess vegna þarf að huga að öðrum lausnum.

Margir þeirra sem leggja orð í belg í þessu sambandi þekkja ekki það á eigin skinni sem hefur dunið á stórum hluta þessarar þjóðar. Það er nóg með að skuldarar hafa verið sviknir í lánveitingum og teknir þurrt í görnina án þess að þurfa ekki líka að borga IceSave sem fólk tók bara ekkert að láni. Ætlið þið sumir ekki að skilja réttlætishluta þess máls?

Hvað svo sem lögum og reglum háttar þá er þeim bara breytt ef það þjónar ekki þeim sem hafa valdið. Neyðarlögin eru besta dæmið um það þegar er löggjöf er notuð af stjórnvöldum beinlínis til þess að stela. Hvernig á að ætlast til heiðarleika af almenningi í framhaldinu þegar fyrirmyndin í stjórnkerfinu hagar sér verst allra?

Flokksdindlarnir sem hér tala geta ekki gagnrýnt neyðarlögin heiðarlega vegna þess að það voru allir flokkar á þingi plataðir til að taka þátt í samþykkt þeirra og margir þingmenn viðurkenndu að hafa ekki lesið þau áður en þau voru keyrð í gegn.

Haukur Nikulásson, 28.6.2009 kl. 14:49

10 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Neyðarlögin voru sett til þess að þú gætir haldið áfarm að kaupa í matinn eftir hrun bankanna Haukur.

Guðmundur Jónsson, 28.6.2009 kl. 16:01

11 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Rétt hjá Guðmundi.  Án neyðarlaganna hefði ekki verið unnt að taka innistæður fólks og fyrirtækja út fyrir sviga og flytja þær í nýju bankanna.  Menn (t.d. Lárus) þurfa að átta sig á að hér er ekki bara um að ræða sparifé "elítunnar" heldur handbært fé fyrirtækja og stofnana á hlaupareikningum líka.  Það hefðu ekki verið greidd út laun í lok október og greiðslur fyrir innflutning nauðsynjavara hefðu stöðvast.

Samkvæmt gildandi lögum hefði ekki verið unnt að taka krónu út úr gömlu bönkunum uns skiptum á búi þeirra lyki, eftir einhver ár.  En reyndar hefði verið hægt að láta Tryggingasjóðinn greiða (með ríkisframlagi!) lágmarkstryggingu inn á nýjan reikning hvers reikningshafa í einhverjum eftirlifandi banka eða sparisjóði.  Svo dæmi sé tekið hefði Borgarsjóður setið uppi með einhverjar 2 milljónir króna á reikningi, til að greiða allan rekstur borgarinar - allt annað lausafé væri frosið í bönkunum til margra ára.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 28.6.2009 kl. 18:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband