Icesave samninginn þarf að endurskoða

Ég er eindregið þeirrar skoðunar, eftir að hafa skoðað tiltæk gögn og metið afleiðingar mismunandi valkosta, að íslenska ríkinu beri að standa við skuldbindingar skv. Evróputilskipunum og lögum, vegna innistæðutrygginga á Icesave-reikningum.  Lagarök, siðferðisrök, pólitísk rök og hrein nytjarök standa til þess.

En eftir að hafa kynnt mér lánasamningana við Breta og Hollendinga, og málflutning lögmannanna Ragnars H. Hall, Harðar Felix Harðarsonar og Eiríks Tómassonar, er ég orðinn þeirrar skoðunar að samningana verði, því miður, að endurskoða.

Grein 3.1.2.(b) í hollenska samningnum, sem væntanlega á sér samsvörun í þeim hluta breska samningsins sem ekki hefur verið birtur, þýðir að Ísland tekur á sig skuldbindingu umfram það sem okkur ber skv. Evróputilskipuninni um innistæðutryggingar.  Standi hún óbreytt tökum við á okkur hluta af viðbótartryggingu bresku og hollensku tryggingasjóðanna, og meira að segja í einhverjum tilvikum hluta af innlánskröfum umfram tryggingar.  Ragnar og Hörður Felix gera góða grein fyrir þessu í Morgunblaðsgrein í morgun, og ég tek undir rökstuðning þeirra, sem ekki verður betur séð en að leiði af orðanna hljóðan.

Fyrir þessari umframskuldbindingu Íslands eru hvorki lagalegar né siðferðilegar forsendur.  Samninganefndin íslenska virðist, því miður, hafa hlaupið á sig.  Auðvitað er meiriháttar klúður hér á ferð, ef rétt reynist, en það verður einfaldlega að greiða úr því.  Ég trúi því heldur ekki að gagnaðilarnir haldi því til streitu að Íslandi beri að greiða umfram okkar viðurkenndu skuldbindingu.

Góðu fréttirnar eru þær að ef þessu verður kippt í liðinn er Icesave-skuldin mun viðráðanlegri, því þá er á hreinu að allar eignir Landsbankans ganga fyrst til íslenska tryggingasjóðsins, en það getur minnkað skaðann verulega.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Til gamans fyrir lögfróða má geta þess að bresku lögin um innistæðutryggingar lýsa því í smáatriðum hvernig tryggingasjóðurinn fái fyrst útgreitt til sín af hverri kröfu innstæðueigenda í þrotabú banka.  Sjá grein 62, lið 3 í bresku lögunum, þar sem segir m.a.:

if at any time the total amount paid to the Board [of Banking Supervision] [...] equals the amount of the compensation payment made to the depositor, the liquidator shall thereafter pay to the depositor instead of to the Board any amount which, apart from this paragraph, would be payable to the Board in respect of the liability to the Board.

(Þakkir til Sigurgeirs Arnar Jónssonar fyrir þessa ábendingu.)

Vilhjálmur Þorsteinsson, 23.7.2009 kl. 00:29

2 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Þ.e. ljóst, að ef Tryggingasjóðurinn, fengi 1. veðrétt af öllu eignasafninu, í stað eignasafns deilt með 2., þá skánar díllinn mikið.

Ég vil einnig endurskoðunarákvæði með skilgreindum rauðum strikum, sem kveður á um skildu til endur-upptöku samninga.

Síðan, nánari skilgreiningu á, hvaða eignir eru aðgönguhæfar, og hvar.

Að lokum, burt með ákvæðið, sem heimilar gjaldfellingu, vegna vandræða með óskyld lán.

Í  stað þess, kemur víkað og endurbætt, endurskoðunarákvæði, sem geri þetta ákvæði óþarf.

Kv.

Einar Björn Bjarnason, 23.7.2009 kl. 00:38

3 Smámynd: Jón Gunnar Bjarkan

Ég er alveg 100% sammála. Við eigum að fleygja þessum Icesave samningum í frysti og nota hann sem leverage í aðildarviðræðum okkar, en ekki öfugt. Það er búið að snúa þessu algerlega á haus. Að sjálfsögðu eigum við að borga þetta, og allar evrópuþjóðir eru sammála um það, en þessir skilmálar er niðurstaða úr tvíhliða samningum íslands, UK og hollands. Mér þætti það alveg með ólíkindum ef að norðurlandaþjóðir, og aðrar þjóðir eins og til dæmis Pólland og Frakkland tæki ekki upp hanskann fyrir okkur með skilmálana. Þessir vextir eru algjört rugl og ég er ósáttur við að þeir fái síðan helming eignanna líka, þetta er bara algjört rugl.

Við eigum ekki að samþykkja neinn helvítis samning fyrr en við höfum fengið betri skilmála og notfært okkur þetta rugl allt saman til að bæta samningastöðu okkar.

Jón Gunnar Bjarkan, 23.7.2009 kl. 03:12

4 identicon

Gott mál. Loksins fengum við lögfræðinga í lið með okkur sem gátu sýnt fram á að þessi fáránlega hugmynd um hliðstæðar kröfur stæðist ekki. Nú er það þitt verkefni Vilhjálmur að sannfæra þína menn um að þessi samningur stenst ekki !

kveðja

Pétur

Pétur Richter (IP-tala skráð) 23.7.2009 kl. 08:53

5 identicon

Mikið rett.  Með tímanum, og frekari upplysingum, sem voru ótrulega lengi a leiðini, hefur komið í ljós að grátleiki samningsins vegur þyngra en moguleg óvissa sem skapast við endurskoðun.  Væri rosalega flott að sjá ein í fylkinguni skella sér á "nei" takkan -- þu tekur það á þig að samfæra liðið.  Þetta er alt saman efni í alveg rosalegan politiskan thriller... James J. Gandolfini starring as "Össur."

Róbert (IP-tala skráð) 23.7.2009 kl. 09:38

6 Smámynd: Guðmundur Jónsson

Vandinn er sá að ef við skrifum undir ríkisábyrða á innistæðutryggingasjóðnum er öllum gildandi reglum um innistæðutryggingar vikið til hliðar. Það er gert vegna þess að ef svo væri ekki, væri engin greiðsluskilda umfram það sem til var í innistæðutryggingasjóðnum. Samningarnir eru því ekki byggðir á gildandi reglum heldur eru búnar til reglur í samningunum. Það gerir þessar lögtúlkanir meira og minna út í bláinn, Því um leið og einhver ákvað að ríkið bæri ábyrgð var öllum gildandi lögum og reglum hent út um gluggann. Í dag er Icesave í raun bara með póltískum verðmiða, hvað erum við tilbúin að borga mikið fyrir velvild EU.

Guðmundur Jónsson, 23.7.2009 kl. 11:09

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Guðmundur, ég er sammála Davíð Oddssyni eins og hann var í útgáfu 1.0 þann 15. nóvember sl. og undirritaði þá viðurkenningu á því að íslenska ríkinu bæri að standa við skuldbindingar um innistæðutryggingar.  Ég veit að nýjasta útgáfan af Davíð Oddssyni (2.0?) er ekki sama sinnis en gamla útgáfan hafði rétt fyrir sér.

En því miður eru lánasamningarnir gallaðir og þá verður að endurskoða hvað jafnstæði krafna (pari passu) varðar.  Kröfurnar eru ekki jafnstæðar og ef við samþykkjum það erum við jafnframt að samþykkja ábyrgð umfram 20.887 evrur pr. reikning.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 23.7.2009 kl. 11:43

8 Smámynd: Eyþór Laxdal Arnalds

Gott að þú vilt ekki staðfesta þennan gjörning. NB þetta er annað og meira en "lánasamingur" eins og fram hefur komið er þetta afsal kröfuréttinda, almennt klúður og yfirtaka á ótrúlegust skuldbindingum...nú síðast 2000 milljón króna lögfræðireiknings...

Eyþór Laxdal Arnalds, 23.7.2009 kl. 15:09

9 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Eyþór, samningarnir eru einmitt lánasamningar.  Bresku og hollensku tryggingasjóðirnir hafa greitt út til upphaflegu innistæðueigendanna og yfirtekið kröfur þeirra á íslenska tryggingasjóðinn og í þrotabú Landsbankans.  Bretar og Hollendingar eiga því lögvarða kröfu á íslenska sjóðinn og samningurinn snýst um að þeir láni fyrir uppgjöri þeirrar kröfu.  Strangt til tekið þyrftu þeir ekki að lána okkur tíeyring með gati heldur gætu fullnustað kröfuna strax, t.d. með haldlagningu peningasendinga til íslensku ríkisbankanna, og/eða endurnýjaðri frystingu og nauðungarsölu eigna Landsbankans, ef þeir vildu ganga fram með offorsi.  Staða okkar er því, sannast sagna, fremur þröng.  Pólitísk lausn er nauðsynleg - en hún getur ekki falið í sér að við greiðum umfram löglega og rétta skuldbindingu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 23.7.2009 kl. 17:02

10 identicon

Kæri Vilhjálmur,

Ég er ekki sömu skoðunar og þú að ríkinu beri skylda til að ábyrgjast lán sem Tryggingasjóður hefur tekið til að standa skil á þessari upphæð. Mér finnst þetta vera principp atriði þar sem stofnað var til skuldarinnar af sjálfstætt starfandi hlutafélagi. Þessar skuldbindingar voru (og eru) ríkinu öllu óviðkomandi og Alþingi hafði ekkert um að segja þegar gjörningurinn var gerður (hvað þá þjóðin).  Að ætlast til að þjóðin borgi nú þegar í óefni er komið er RANGT og brýtur í bága við allt sem telst réttlát málsmeðferð.

Tryggingasjóður var settur upp sem sjálfstæð stofnun sem naut ekki ríkisábyrgðar enda var það skýrt tekið fram að það mætti alls ekki enda myndi það skekkja samkeppnina á markaðinum ef svo væri því þá nytu bankar frá stærri efnahagssvæðum betri trygginga en bankar frá minni löndum s.s. Íslandi. Að auki var hann aldrei settur upp til að standa straum af öðru eins hruni og varð enda hefði þurft mun meira en 1% af heildarinnistæðum bankanna sem árlegt framlag í sjóðinn (eins og lögin kveða á um nú). Til að standast hrun sem þetta hefði þurft framlag sem jafngilti 100% innlánum og það sér það hver maður að það hefði aldrei getað gengið. Kerfið var ekki sett upp til að takast á við þetta "workst case scenario". Þar sem reglurnar eru komnar frá evrópu (teknar upp við samþykkt EES) þá ber ESB ábyrgð í þessu máli ekki síður. Mér finnst þeir fara illa að ráði sínu þegar þeir beita smáríkið Ísland þvingunum í skjóli stærðar og ætlast til að við tökum þetta allt á okkur. Ekki gott vegarnesti það í ESB umsókn að mínu áliti.

Krafa innistæðueigenda er hins vegar óumdeild. En það verður að gera þá kröfu að málið fari í annan farveg en það er nú í. Gera verður þá kröfu að þrotabúið sé ábyrgt fyrst og til vara Tryggingasjóður. Ef ekki er innistæða fyrir öllum greiðslum þá annað hvort taki ESB, Holland og Bretland, á sig mismuninn eða hann falli niður því innistæðueigendur tóku jú einhverja áhættu í þessu máli þrátt fyrir viðvaranir heima fyrir um áhættu sem þessum reikningum fylgdi. Ef eitthvað er að marka áróðurinn undanfarið um að þrotabúið eigi fyrir skuldunum (sem ég persónulega er ekki sannfærður um því markaðurinn mun ráða því) þá ætti þetta ekki að vera neitt mál. Allir munu fá greitt. Það er hins vegar algjör óhæfa að Ísland leiki einhvern millilið og fari að taka ábyrgð á málinu, máli sem við höfum ekkert um að segja.

Setjum málið í réttan farveg strax!

Magnús B Jóhannesson (IP-tala skráð) 2.8.2009 kl. 16:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband