Um Írak, að gefnu tilefni

Hér er bloggfærsla sem ég skrifaði 29. apríl 2007, fyrir nærri þremur árum:

---

Svona var listi hinna staðföstu þjóða kynntur á blaðamannafundi utanríkisráðuneytis Bandaríkjanna í Washington þann 18. mars 2003:

MR. BOUCHER:  There are 30 countries who have agreed to be part of the coalition for the immediate disarmament of Iraq.  I'd have to say these are countries that we have gone to and said, "Do you want to be listed?" and they have said, "Yes."

 

I'll read them to you alphabetically, so that we get the definitive list out on the record.

 

They are:  Afghanistan, Albania, Australia, Azerbaijan, Colombia, the Czech Republic, Denmark, El Salvador, Eritrea, Estonia, Ethiopia, Georgia, Hungary, Iceland, Italy, Japan, Korea, Latvia, Lithuania, Macedonia, the Netherlands, Nicaragua, the Philippines, Poland, Romania, Slovakia, Spain, Turkey, the United Kingdom, and Uzbekistan.

 

Takið eftir að þarna vantar t.d. Noreg, Svíþjóð, Finnland, Frakkland og Þýskaland.  En litla Ísland er með, "we wanted to be listed".  Svei sé því alla daga.


Íslandi allt

Þróunin í Grikklandi og á Írlandi síðustu vikur og daga hefur valdið heilabrotum.  Evran kom ekki í veg fyrir að ríkisstjórnir þessara landa gerðu alvarlegar bommertur.  Þetta eru mikil vonbrigði.  Þrátt fyrir evru eru Grikkir með mikinn fjárlagahalla, og það sem verra er, evran kom ekki í veg fyrir að fasteignabóla blési út á Írlandi.  Almenningur í þessum löndum hefur tapað stórfé vegna hárra vaxta, verðtryggingar og mikilla lána í öðrum gjaldmiðlum (held ég).  Ég er því kominn af þeirri skoðun að evran henti Íslandi vel.  Við ættum að halda okkur við okkar gömlu góðu krónu, sem hefur dugað okkur svo vel í gegn um áratugina, og jafnan reynst hinum almenna launamanni haukur í horni.

Veik króna hjálpar okkur mikið þessa dagana.  Hún minnkar innflutning og eykur útflutning, t.d. lækna og hámenntaðs fólks sem við getum vel komist af án enda liggur framtíðin í frumframleiðslugreinum.  Nú er rétti tíminn að tvíefla sjávarútveg og landbúnað, og framleiðslu áþreifanlegra iðnaðarvara, t.d. raftækja (sbr. Rafha) og smjörlíkis.  Per Olaf Lundteigen er fyrirmyndar stjórnmálamaður (þótt útlenskur sé) í Noregi sem hefur verið með athyglisverðar hugmyndir í átt til sjálfsþurftarbúskapar þar í landi.  Þetta er alveg málið fyrir unga fólkið í dag, "gegt kúl" eins og það sjálft myndi kannski orða það, í geðshræringu.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn hefur ekkert hér að gera, enda báðum við ekki um hann.  Davíð Oddsson, sá mikli foringi (blessað sé nafn hans), og Árni Mathiesen voru fullkomlega umboðslausir þegar þeir undirrituðu minnisblaðið um samstarf við sjóðinn.  Við Íslendingar höfum alltaf getað bjargað okkur sjálfir og eigum ekki að reiða okkur á aðrar þjóðir.  Áður en við vitum af missum við fullveldi okkar og sjálfstæði í hendur nýlenduþjóðanna í kring um okkur, til dæmis Breta og Hollendinga og fylgifiska þeirra í fjötrum Evrópusambandsins.  Þeir eru að kúga okkur til að borga sér 700 milljarða króna (ef ekki miklu meira) fullkomlega að ástæðulausu, vegna skulda einkabanka sem Davíð bar enga ábyrgð á.  Og ætla að stórgræða á öllu saman.  Látum þá fara í mál fyrir Héraðsdómi!  Við borgum ekki krónu, sama hvað hver segir; það væri fullkomlega andstætt eðli okkar sem stoltra víkinga.  Enda eru traust, orðheldni og orðstír stórlega ofmetin og úrelt fyrirbæri í flóknum og hröðum heimi viðskiptalífsins í dag.  Þá lexíu höfum við lært á undanförnum árum.

Að leysa vanda Íslands er sáraeinfalt.  Það eina sem vantar er smá götugreind.  (Stjórnvöld eiga að hlusta miklu meira á fólkið, t.d. á þá sem setja inn athugasemdir á Eyjunni.is, þar er stórgott dæmi um svokallað wisdom of crowds sem er mjög heitt trend.)  Afnemum verðtryggingu (bótalaust, var ég búinn að nefna að stjórnarskráin er ofmetin og úrelt?), og eflum að sjálfsögðu lífeyrissjóði og Íbúðalánasjóð að sama skapi.  Borgum ekki krónu af Icesave. Hendum kapítalísku fasistunum og niðurskurðarböðlunum í AGS úr landi.  Hagfræðiteóríur gilda hvort sem er ekki hér, eins og góður fyrrum forsætisráðherra benti réttilega á.  Segjum ESB að éta það sem úti frýs og göngum úr EES, fjórfrelsið er hvort sem er ofmetið og lífið var fínt fyrir 1993.  Það var reyndar fínt fyrir 1883 ef út í það er farið.

Niðurskurður er óþarfur.  Við prentum bara peninga og skattleggjum tap, og það er heldur ekkert mál að ríkissjóður fari í greiðsluþrot. Það hefur gerst oft í Argentínu og þar eru menn bara í fínum málum (held ég).  Stærðfræði er stórlega ofmetin og úrelt fyrirbæri, og hver segir að náttúrulögmál séu einhver "lögmál"?  Ég hvet menn til að kynna sér málflutning Hreyfingarinnar.  Hún er með marga nýstárlega vinkla á aldagamlar stærðfræðikenningar, og ég tek undir með þeim að "tvöfalt bókhald" er eitthvað gruggugt; bara nafnið kveikir grunsemdir.  Svo má líka leita til erlendra sérfræðinga, t.d. í Vísindakirkjunni (er ekki löngu kominn tími til að Egill Helga tali við þá?).

Greiðum ekki krónu til erlendra blóðsugulánardrottna á gjalddögum 2011 og 2012.  Það tekur hvort sem er enginn mark á lánshæfismatsfyrirtækjum, þar eru tómir asnar eins og dæmin sanna.  Útlendingar eru vitaskuld upp til hópa asnar og þurfa endurmenntun eins og Þorgerður Katrín sagði.  Að þessu loknu verður auðvelt að aflétta gjaldeyrishöftum, krónan mun að bragði styrkjast, vextir lækka, verðbólgan hverfa (sérstaklega ef við berum gæfu til að fá aftur einhvern reyndan fyrrum Sjálfstæðisráðherra - eða borgarstjóra - í stól Seðlabankastjóra) og ný fjárfesting mun streyma inn í landið.  Bretar og Hollendingar munu liggja kylliflatir fyrir snilli Íslendinga (og forsetans okkar!) sem verður rómuð hvarvetna enda erum við mest og best í öllu.

Það er jafn örugglega satt eins og að það er 1. apríl í dag.


Allt sem þú vildir vita um hrunið og stöðu Íslands - en þorðir ekki að spyrja um

Fimmtudaginn 25. mars sl. hélt Gylfi Magnússon efnahags- og viðskiptaráðherra fyrirlestur í Háskóla Íslands þar sem hann fór skipulega yfir hrunið og stöðu Íslands í efnahagslegu samhengi.

Þessi fyrirlestur var afar greinargóður og upplýsandi.  Mér finnst eiginlega að hann sé skyldulesning fyrir alla þá sem hyggjast tjá sig um stöðu mála og vilja vera sæmilega málefnalegir.  Nenni menn ekki að kynna sér þetta efni er hætta á að framlag þeirra til umræðunnar sé marklaust geip, en af því er offramboð.

Hér er dæmi um athyglisverða glæru:

Ástæður skuldsetningar

Glærurnar má finna hér, og fá mín bestu meðmæli.


Hvað tefur næsta áfanga AGS-áætlunarinnar?

Hagkerfið bíður nú, að miklu leyti í frosti, eftir afgreiðslu næsta áfanga AGS-áætlunarinnar.  Sú afgreiðsla hangir hins vegar á fjármögnun áætlunarinnar, þ.e. lánum/lánalínum frá Norðurlöndum.  Og eftir hverju bíða lánin frá Norðurlöndum?  Eftir Icesave, vegna þess að án lausnar á Icesave er fjárþörf Íslands óljós.  Hvorki er vitað hversu mikið við þurfum að borga né hvenær.  Meðan það er staðan, er ekki hægt að halda áfram - því annað hvort verður að leysa vanda okkar alveg, eða ekki.  Það þýðir ekki að hjálpa okkur yfir helminginn af ánni, við verðum að komast alla leið að bakkanum hinum megin.

Hvað sögðu fjármálaráðherrar Norðurlanda um þetta þegar þeir hittust í Kaupmannahöfn 22. mars sl.?

De nordiske nabolande og de selvstyrende områder bakker op om Islands regering i sin stræben efter økonomisk genopretning bl.a. igennem implementering af IMF programmet og honorering af sine internationale forpligtelser. Det siger Danmarks finansminister Claus Hjort Frederiksen i forbindelse med det nordiske finansministermøde i København. (Feitletrun mín.)

Þetta er orðað með diplómatísku bómullarorðalagi, en þýðir á mannamáli að Norðurlöndin lána okkur aðeins í gegn um AGS áætlunina - og að því gefnu að við "stöndum við okkar alþjóðlegu skuldbindingar".  Það þýðir í þessu samhengi að við göngum frá samkomulagi um greiðslu innistæðutrygginga vegna Icesave.

Málið er ekkert flókið, þótt Mogginn skilji það ekki, sbr. hvernig hann túlkaði nýlega samþykkt norska Stórþingsins, þrátt fyrir hún væri alveg skýr:

Fulltrúar allra flokka í [fjárlaga]nefndinni nema Kristilega þjóðarflokksins, setja það skilyrði fyrir lánveitingunni, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn samþykki endurskoðun efnahagsáætlunar fyrir Ísland og að landið standi við skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum.

Sigbjörn Johnsen fjármálaráðherra Noregs sagði m.a. í umræðum í Stórþinginu í gær (23. mars):

Jeg registrerer at det etter presidentens nei har oppstått en ny usikkerhet i andre europeiske land om Islands vilje til å oppfylle sine forpliktelser når det gjelder innskuddsgarantier i henhold til EØS-avtalen [EES-samningurinn]. Island trenger å dempe den usikkerheten for å sikre seg tilstrekkelig internasjonal støtte.  

Meðan það er ekki klárt að við ætlum að standa við skuldbindingar vegna innistæðutrygginga, þá fáum við engin lán frá Norðurlöndum og AGS-áætlunin bíður.  Og hagkerfið frýs á meðan.  Svo einfalt er það.


Hvað þurfum við mikla peninga að láni?

Mikið er rætt um hvað Ísland þurfi mikla peninga að láni frá AGS og nágrannaþjóðum.  Sumir telja að við eigum ekki að taka nein ný lán; aðrir að við þurfum lán fyrir gjalddögum stórra lána ríkissjóðs 2011 og 2012 en ekki meir; og enn aðrir að við þurfum allan pakkann frá AGS eins og hann stendur.

Fyrst er gott að hafa á hreinu, að ekki stendur til að Ísland taki meiri peninga að láni en þörf krefur.  Allir verða fegnir, bæði við sjálf og lánveitendur, ef við þurfum ekki eins mikla peninga og AGS reiknar út.  En það er mjög gott að hafa aðgang að lánum og lánalínum til þrautavara ef á þarf að halda; sú staðreynd ein og sér minnkar óvissu, lækkar skuldatryggingarálög, bætir vaxtakjör og styrkir krónuna.

En hvernig er þessi fjárþörf reiknuð?  Það er e.t.v. dæmigert fyrir umræðuna að sjaldnast er vísað til forsendna AGS og þær gagnrýndar eða rökstuddar eins og þær eru.  En þessar forsendur má sjá samandregnar í töflu á síðu 52 í nýjustu skýrslu AGS (Staff Report October 2009):

Fjárþörf Íslands skv. AGS

Hér er gjaldeyrisþörf landsins árin 2009-2014 sýnd í milljörðum bandaríkjadala.  Fyrst er áætlað heildarútstreymi gjaldeyris (A, Gross Requirements), síðan innstreymi (B, Sources of Financing), og loks reiknuð gjaldeyrisvöntun (C, Financing Gap, A mínus B).

Útstreymið (A) samanstendur af vöru-, þjónustu- og þáttatekjujöfnuði (þ.m.t. vöxtum), sem er lítillega neikvæður, og niðurgreiðslu höfuðstóls langtímaskulda (Amortization), sem er sundurgreind í hið opinbera, einkageirann, og útflæði vegna innistæðutryggingar/Icesave.  Þá er bætt við uppgreiðslu skammtímaskulda (Short-term debt).

Innstreymið (B) er nettó erlend fjárfesting inn í landið (að meðtalinni eignasölu Íslendinga erlendis), endurheimt erlendra eigna úr þrotabúi Landsbankans upp í innistæðutryggingar/Icesave, tekin langtímalán (Disbursements Medium-to-long-term, MLT) og tekin skammtímalán (Disbursements short-term, ST).

Gjaldeyrisvöntun (C) er útstreymi mínus innstreymi.  Þar kemur fram Icesave-skuldbinding (Accumulation of arrears) og jafnframt lán Breta og Hollendinga á móti (Bilateral, earmarked).  Lán AGS sjálfs eru merkt Fund og lán nágrannalanda eru Other identified new financing.

Útkoman úr heildardæminu er full fjármögnun gjaldeyrisstreymis 2009-2014, en eftir það verður ekki frekar gjaldeyrisvöntun samkvæmt líkaninu sem undir liggur.  Ég bendi sérstaklega á að planið verður að fullfjármagna, þ.e. það þjónar litlum tilgangi að fjármagna aðeins hluta gjaldeyrisþarfarinnar.  Þess vegna leggja Norðurlönd og aðrir áherslu á að pakkinn er ein heild, "take it or leave it" - Noregur mun t.d. ekki lána okkur nema allir hinir geri það líka.

Allt er þetta háð tilteknum forsendum og umdeilanlegt, en mikið væri það gott fyrir umræðuna ef gagnrýnendur segðu skýrt hvað þeir telja rangt og hvernig þeir myndu stilla dæminu upp öðru vísi.  Þá fyrst væri hægt að ræða framtíðina málefnalega - nokkuð sem ekki veitir af.


Sjálfbærnina vantaði í viðskiptalífið

Hugtakið sjálfbærni (á ensku: sustainability) tengja sennilega flestir við umhverfismál.  En það getur haft, og á að hafa, miklu víðari skírskotun.  Sjálfbærni má líta á í samhengi við hvers kyns ferla sem nýta forða og eiga sér stað til lengri tíma, þar á meðal fyrirtækjarekstur – og rekstur hagkerfa.

Sjálfbæra þróun má í hnotskurn skilgreina þannig að með henni sé leitast við að mæta þörfum samtímans án þess að draga úr möguleikum komandi kynslóða til þess að mæta sínum þörfum.  Sjálfbær ferli eru rekin með þeim hætti að þau geti gengið til lengdar í jafnvægi við umhverfi sitt, þau gangi sem sagt ekki á umhverfið eða forða með óafturkræfum hætti.

Af sjálfu leiðir að stórir hlutar íslensks efnahags- og fjármálalífs voru ekki reknir með sjálfbærum hætti um all-langt skeið fyrir hrun.  Þessi ósjálfbærni kom meðal annars fram í gríðarlegum viðskiptahalla, sem sagt mikilli nettó skuldsetningu í erlendri mynt; útþenslu bankakerfisins langt umfram getu Seðlabanka og ríkissjóðs til að standa á bak við það; gírun efnahagsreikninga sem uxu mun hraðar en eiginfjárgrunnur hagkerfisins; og svo framvegis.

Ekkert af þessu gat gengið til lengdar og ósjálfbærnin var eftir á að hyggja augljós.  Viðskiptahallinn var til dæmis svo mikill – 727 milljarðar, hálf landsframleiðsla á þremur árum 2005 til 2007 – að það var morgunljóst að skuldadagar væru í nánd; teygjan hlaut að skreppa til baka með smelli og lenda í andlitinu á okkur.

Hagnaður og ábyrg langtímahugsun geta farið saman

Í umhverfismálum hafa menn áttað sig á því fyrir allnokkru að það þarf að hugsa og framkvæma með sjálfbærni í huga.  Hrunið sýnir okkur að það er ekki síður ástæða til að huga að sjálfbærni fyrirtækjarekstrar og fjármálakerfisins almennt.  Skammsýn hámörkun eigin hagnaðar leiðir greinilega ekki sjálfkrafa til besta heildarhagsins; eitthvað flóknari hugsunarháttur þarf að koma til.

Í því sambandi er ástæða til að minna á að Adam Smith skrifaði fleiri bækur en Auðlegð þjóðanna, hann skrifaði líka bókina Kenningu um siðlegar hugðir (Theory of Moral Sentiments) sem fjallar ítarlega um samúð og meðlíðan manna hvers með öðrum.  Enda er ekkert sem segir að hagnaður og ábyrg langtímahugsun geti ekki farið saman, og eigi ekki að fara saman.  Eitt af grunngildum Google er You can make money without doing evil – það er hægt að hagnast án þess að gera eitthvað illt af sér – og þeim virðist takast ágætlega upp; hagnaður þeirra árið 2009 var 6,5 milljarðar dala af veltu upp á 26,5 milljarða.

Fyrirtæki – og hagkerfi – á að byggja upp með því hugarfari að þau geti enst til langs tíma, í stað þess að hola þau að innan svo þau hrynji í næstu niðursveiflu.  Allt annað er óábyrgt og ósiðlegt gagnvart almenningi, starfsfólki, viðskiptavinum og birgjum, að ógleymdum kröfuhöfum og hluthöfum.

Huga þarf að fyrirtækjamenningu og gildum

Við Íslendingar getum margt lært af íhaldssömum bönkum og öðrum fyrirtækjum í Evrópu og víðar, sem sum hver hafa lifað af endurteknar styrjaldir, kreppur og samdráttarskeið og hafa komið sér upp stofnanaminni gagnvart slíku.  Hluti af því stofnanaminni eru gömul og góð gildi á borð við fyrirhyggju, varkárni og gagnrýna hugsun.

Ný öld í íslensku atvinnulífi hlýtur að byggja á sjálfbærni, heilbrigðri fyrirtækjamenningu og sterkum gildum.  Fjárfestar og sjóðir gerðu vel í því að rýna fjárfestingartækifæri með þetta í huga, og verðmeta fyrirtæki meðal annars á slíkum grundvelli; hugsa um hið tilfinningalega eigið fé – emotional capital.

Framtíðin tilheyrir fyrirtækjum sem vinna sér inn og verðskulda traust viðskiptavina, starfsfólks, hluthafa og samfélags.  Það gera þau með því að vera siðleg, ábyrg, gegnsæ, og tileinka sér hugsunarhátt sjálfbærni; lifa í sátt við umhverfi sitt; skila ekki minna til baka en þau taka til sín.  Slík fyrirtæki verða bestu vinnustaðirnir, bestu samstarfsaðilarnir, og bestu fjárfestingarkostirnir.

(Þessi pistill birtist í Viðskiptablaðinu fimmtudaginn 18. febrúar sl.
og er byggður á erindi sem ég flutti við afhendingu íslensku þekkingarverðlaunanna 2010.)


Greiðslubyrði af erlendum lánum - sjónvarpsútgáfa

Stöð 2 gerði í kvöld sjónvarpsfrétt úr bloggfærslu minni um erlendar skuldir opinberra aðila og greiðslubyrði næstu ára.  Fréttin er skýr og greinargóð og hjálpar vonandi einhverjum að átta sig á stóru myndinni.

Fréttina má sjá hér.


Um útreikninga Jóns Daníelssonar á Icesave

Lesandi þessa bloggs benti mér í athugasemd á grein og útreikninga Jóns Daníelssonar hagfræðings á Icesave-skuldbindingunni, sem birtist í Morgunblaðinu 15. janúar sl., en ég sé ekki lengur það fornfræga blað og vissi því ekki af þessu fyrr en núna.

Jón kemst að þeirri niðurstöðu að heildarkostnaðurinn vegna Icesave nemi 507 milljörðum króna, miðað við gengi krónunnar 14. janúar sl.

Ég hef margvíslegar athugasemdir við útreikninga Jóns, sem ég hef sett inn í Excel skjal hans (sem "comment", merkt með rauðum þríhyrningi í norðausturhorni viðkomandi reita).  Uppfært Excel-skjal með athugasemdum fylgir þessari bloggfærslu.

Helstu athugasemdirnar eru þessar:

  • Í útreikningum af þessu tagi verða forsendur að vera skýrar og reikningarnir byggðir á þeim með samræmdum hætti.
  • Þegar um er að ræða skuldir og eignir (að mestu leyti) í erlendri mynt þarf að nota sama gengi fyrir hvort tveggja, ef framsetning er í íslenskum krónum.
  • Ef komast á að niðurstöðu sem er ein krónutala, er skýrast og réttast að byggja á föstu verðlagi.  Þá þarf jafnframt að reikna út frá raunvöxtum miðað við fasta verðlagið, en ekki nafnvöxtum.  Að öðrum kosti er verið að leggja saman upphæðir úr framtíð sem eru í veikari gjaldmiðli (epli), við upphæðir í nútíð (appelsínur).  Niðurstöðutala Jóns er hvorki núvirt né tekur tillit til verðbólgu í erlendri mynt til 2023.
  • Skuldabréf Nýja Landsbankans (NBI) til þess gamla er til 10 ára, en á fyrstu 5 árum greiðast aðeins vextir; síðari 5 árin (2014-2018) greiðist höfuðstóllinn niður ásamt vöxtum.  Bréfið ber LIBOR/EURIBOR+175 punkta vexti fyrstu 5 árin, en LIBOR/EURIBOR+290 punkta seinni 5 árin.  Jón er með ranga tímasetningu á endurgreiðslum þessa bréfs og reiknar að auki enga vexti á það, þótt skýrt komi fram í forsendum skilanefndar Landsbankans, sem Jón vísar til, að áfallnir vextir séu ekki innifaldir í tölum nefndarinnar. Ef reikna á fulla vexti á Icesave-skuldina verður að sama skapi að reikna fulla vexti á eignasafnið sem á móti kemur.
  • Endurgreiðsluáætlun Landsbankans er reiknuð inn í líkan Jóns með árs seinkun, sem rök skortir fyrir.
  • Þá reiknar Jón ekki með því að endurheimtur úr búi bankans, sem berast eftir að Icesave-afborganir hefjast, lækki höfuðstólinn jafnóðum, eins og þó er skýrt í samningnum.

Jón og fleiri gera mikið með þá staðreynd að kröfum er lýst í bú Landsbankans í krónum, skv. ákvæðum gjaldþrotalaga.  Flestir virðast gefa sér að þetta þýði að Tryggingasjóður innistæðueigenda fái aldrei nema tiltekna krónutölu út úr búinu, þótt skuld hans við Breta og Hollendinga sé í pundum og evrum.  Ég er ósammála þessu.

TIF lýsir engri kröfu í bú Landsbankans.  Það eru aðeins FSCS (breski sjóðurinn) og hollenski seðlabankinn sem lýsa kröfum, auk innistæðueigenda sem ekki fá bætur úr sjóðunum.  Krónuupphæðirnar ráða hlutfallslegri skiptingu eigna Landsbankans milli þessara forgangskröfuhafa, en TIF á þar ekki hlut að máli fyrr en með baksamningi sínum við bresku og hollensku sjóðina, um það hvernig endurheimtur ganga upp í lán TIF.  Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að slitastjórn úthluti eignum búsins eins og þær eru, í upprunalegum gjaldmiðlum, hlutfallslega milli forgangskröfuhafa.  Það er engin lagagrein sem segir að slitastjórn sé skylt að selja gjaldeyri í eigu búsins og kaupa krónur fyrir hann áður en kröfuhöfum er greitt.  Og þó svo væri, væri alltaf hægt að semja um framvirk gjaldeyriskaup sem gerðu slíkt ferli hlutlaust gagnvart gengi krónunnar.

Kröfulýsing í krónum gæti aðeins orðið vandamál ef krónan veikist svo mikið að eignir bankans dugi 100% fyrir forgangskröfum í krónum talið og að það komi þá til úthlutunar upp í almennar kröfur.  Þetta væri þá að því gefnu að slitastjórn teldi sér skylt að uppreikna eignir búsins á dagsgengi uppgjörs en ekki á genginu sem gilti þegar kröfum var lýst.  Aftur sé ég ekki klárlega á gjaldþrotalögum að slíkt sé skylt, en lögfróðum er velkomið að gera athugasemd og leiðrétta ef rangt er.

En sem sagt: Ég geri athugasemdir við forsendur og útreikninga Jóns Daníelssonar og tel tölu hans um "heildarkostnað vegna Icesave" upp á 507 milljarða vera fjarri lagi.  Rétt tala er miklu nær því sem Seðlabanki og AGS gera ráð fyrir, og Icesave-reiknir mbl.is sýnir, þ.e. vel undir 300 milljörðum og jafnvel nær 200 (á föstu verðlagi, ónúvirt).  Sú upphæð verður greidd á 8 árum frá 2016-2023 og er ekki stærsta vandamál sem íslenska hagkerfið stendur frammi fyrir um þessar mundir.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Erlendar skuldir - stóra myndin

Með hjálp góðra manna hef ég stillt upp væntanlegum afborgunum af höfuðstól og vaxtagreiðslum af erlendum lánum þjóðarbúsins næstu árin.  Hér er um að ræða grófa samantekt sem byggð er á fyrirliggjandi gögnum frá Lánasýslu ríkisins, ársreikningum orkufyrirtækja og sveitarfélaga, og upplýsingum um fjármögnun nýju bankanna.

Tölurnar eru í milljörðum króna, á föstu verðlagi og gengi.  Vextir af erlendum lánum eru reiknaðir sem áætlaðir raunvextir í viðkomandi gjaldmiðli.  Reiknað er með 88% endurheimtum af Icesave og að raunvextir af Icesave-lánum verði 4% (þ.e. 1,55% erlend verðbólga að meðaltali í GBP og EUR).  Endurheimtur úr búi Landsbankans byrja fyrst að berast 2011 eins og Seðlabanki gerir nú ráð fyrir.

Hæst ber toppinn á næsta ári, 2011 - um 350 milljarðar - sem helgast af stórum afborgunum af núverandi lánum ríkisins og að hluta orkufyrirtækja.  Þennan topp þarf að greiða með aðstoð AGS og nágrannaþjóða, eða fara í greiðsluþrot ella.

Fjólubláu reitirnir sýna Icesave-afborganir, en þær hefjast 2016 og standa í 8 ár.  Eins og sjá má eru þær ekki stóri vandinn í heildarmyndinni.  Mikilvægast er að tryggja gott samstarf við og fá hjálp frá AGS og nágrannalöndum til að komast í gegn um skaflana sem framundan eru.

Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að líkanið, sem að baki þessum tölum stendur, sýnir að við eigum að komast í gegn um brimgarðinn, og vinna niður erlendar skuldir, fáum við til þess ráðrúm.  Meira um það í næstu bloggfærslum.

Afborganir og vextir af erlendum lánum


Skuldir og viðskiptajöfnuður: krónan er vandinn

Myndin af skuldum íslenska þjóðarbúsins er óðum að skýrast.  Í desember sendi Seðlabankinn frá sér minnisblað þar sem gerð er grein fyrir nýjasta mati bankans á skuldum og hreinni stöðu þjóðarbúsins.  Niðurstaðan er í stuttu máli sú að hrein erlend staða (International Investment Position) þjóðarbúsins verði neikvæð um 91% af vergri landsframleiðslu (VLF) í lok þessa árs. Þetta er heldur hærri tala en bankinn hefur áður gefið út, og háð töluverðri óvissu, en munurinn skýrist m.a. af því að bætt hefur verið við töluna skuld nýja Landsbankans við þann gamla upp á 314 milljarða, og áætluðum kröfum gömlu bankanna á innlenda aðila upp á 400 milljarða. Gömlu bankarnir eru sem sé núna taldir vera erlendir aðilar, þar sem megnið af eignum þeirra muni fyrir rest ganga til erlendra kröfuhafa.

Hrein erlend skuldastaða upp á 91% af VLF - 1450 milljarða - kann að hljóma sem stór tala, en er það ekki þegar grannt er skoðað. Skuldastaðan hefur verið á svipuðu róli og jafnvel meiri allt frá árinu 2000 og var orðin mun neikvæðari fyrir hrun (yfir 120% árin 2006-7); hún hefur sem sagt batnað talsvert við hrunið - sem kemur sennilega mörgum á óvart.  Þetta hlutfall er ekki óvenjulegt meðal Evrópulanda og alls ekki hjá ungri þjóð í hraðri uppbyggingu.

Í erlendu skuldastöðunni eru innifaldir allir íslenskir lögaðilar, ríkissjóður, Seðlabanki, Tryggingarsjóður innstæðueigenda, sveitarfélög, bankar, álfyrirtæki og öll önnur fyrirtæki sem skulda beint erlendis.  Einhver fyrirtækjanna (sem sum hver skulda risaupphæðir) munu e.t.v. ekki geta staðið í skilum með erlendar skuldir sínar.  Það verður þá tjón viðkomandi (erlendra) kröfuhafa; ekki skattborgara eða almennings.

Vandinn er hins vegar sá, að erlendar skuldir ríkisins, veitufyrirtækja og sveitarfélaga eru með stórum afborgunum á næstu árum.  Þessar afborganir verða aðeins greiddar með (1) gjaldeyrisforða; (2) nettó innstreymi gjaldeyris vegna jákvæðs vöruskipta- og þjónustujafnaðar; og/eða (3) nýrri lántöku erlendis frá (endurfjármögnun og lengingu).  Núverandi gjaldeyrisforði Seðlabankans dugir rétt svo fyrir afborgunum 2010 og 2011, en á næsta ári nema erlendar afborganir og vextir hjá ríki og veitufyrirtækjum yfir 300 milljörðum.

Það eru að mínu mati tvær leiðir í stöðunni.  Önnur er sú að grafa höfuðið í sandinn, hafna samkomulagi um Icesave, segja skilið við AGS, fara í greiðsluþrot ríkissjóðs eigi síðar en 2012, og leita á náðir Parísarklúbbsins.  (Þá er jafnframt upplagt að rifja upp handverk, hannyrðir, sláturgerð og forna búskaparhætti.)  Lánshæfi ríkissjóðs og almennt traust á landinu væri þá skaddað til talsverðar framtíðar, komandi kynslóðum til mikils tjóns.

Hin leiðin er sú að ganga frá samningum um Icesave og halda áfram samstarfi við AGS með tryggðri fjármögnun í gegn um næstu gjalddaga.  Þá helst ríkissjóður ofan við ruslflokk og kemst í gegn um hrikalegt hrun og kreppu án þess að vanefna skuldbindingar sínar.  Það er góð saga til að segja í framtíðinni, og mikill greiði við komandi kynslóðir.  Til lengdar mun ríkissjóður geta staðið við skuldbindingar sínar og unnið niður erlend lán; til þess þarf aðeins ráðrými, sem fæst með stuðningi AGS og nágrannalanda.

Þá þarf að leggja alla áherslu á að ná hraðinngöngu í ESB og hraðupptöku evru.  Með því gufar vandamálið "erlendar skuldir þjóðarbúsins" hreinlega upp sem slíkt; allar skuldir verða í evrum, eins og tekjur fyrirtækja og skatttekjur ríkisins, og gjaldeyrisforði verður óþarfur.  Þá fyrst losnar almenningur undan þeim sökudólgi sem annars ylli honum mestum búsifjum á næstu árum: krónunni.  Því aðeins með krónunni verður vandamál viðskiptajafnaðarins vandamál almennings, með háu verði innfluttra vara og hækkandi gengis- og vísitölutryggðum lánum.

Um þetta ætti stjórnmálaumræðan á Íslandi að snúast; þarna er stóra myndin og stóru hagsmunirnir varðandi framtíð (og raunverulegt sjálfstæði) íslenskrar þjóðar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband