Framkvæmdavaldið verður að velja faglega

Ein mikilvægasta endurbót á íslensku stjórnkerfi sem gera þarf er sú að velja ráðherra ríkisstjórnarinnar á grundvelli þekkingar, reynslu og hæfileika á hverju stjórnsýslusviði fyrir sig.

Nútíma samfélag er flókið og sérhæft, og þekking skiptir miklu máli þegar stefna er mótuð og ákvarðanir teknar.  Þeir tímar eru liðnir, að þokkalega greindir þúsundþjalasmiðir geti á stuttum tíma sett sig inn í fagsvið með nógu djúpum hætti til að geta tekið góðar ákvarðanir, sérstaklega á álagstímum.  Þetta gildir hvort um er að ræða heilbrigðismál, menntamál, umhverfismál, efnahagsmál eða aðra málaflokka.

Við sáum forsmekkinn af því sem verið gæti, þegar Gylfi Magnússon og Ragna Árnadóttir gegndu störfum ráðherra um hríð, með prýði.  Það voru mistök og afturhvarf til fyrri og verri tíma, að skipta þeim út - með allri virðingu fyrir eftirmönnum þeirra.

Í umræðu dagsins um Landsdóm rifjast upp hvað getur gerst, og gerist, þegar dýralæknar verða fjármálaráðherrar og sagnfræðingar viðskiptaráðherrar (aftur með fullri virðingu fyrir þeim ágætu mönnum sem þau embætti skipuðu).  Vandinn er ekki beinlínis þeirra heldur kerfisins sem ýtti þeim upp í stöður sem þeir réðu ekki við, sbr. Peters-lögmálið.

Sjáum til dæmis þennan útdrátt úr bréfi Björgvins G. Sigurðssonar til þingmannanefndar um ráðherraábyrgð:

Það er engum greiði gerður, hvorki tilvonandi ráðherrum né þjóðinni, með því fyrirkomulagi sem hér hefur viðgengist.  Á því verður að gera róttækar endurbætur og breytingar.

Forsætisráðherra á helst að kjósa beinni kosningu.  Hún eða hann velur ráðuneyti sitt, gjarnan fyrir kosningar.  Þingmenn geta ekki jafnframt verið ráðherrar.  Ráðuneyti eru þá skipuð fólki með fagþekkingu, gott orðspor og dómgreind; reynslumikið fólk af viðkomandi sviðum.  Þetta er svipað því sem tíðkast í Frakklandi og Bandaríkjunum.

Samhliða þarf að breyta störfum þingsins og gera það mun öflugra og sjálfstæðara sem stefnumótandi vettvang pólitískrar rökræðu.  Þingið á, með lagasetningu og ályktunum sínum, að setja ríkisstjórninni ramma og stefnu hverju sinni.  Jafnframt á það að hafa gott eftirlit með framkvæmdavaldinu og stjórnsýslunni.  Það má hugsa sér að til verði sérstakur stjórnsýsludómstóll að franskri fyrirmynd; embætti Umboðsmanns Alþingis er vísir að þessu en þyrfti að efla og gefa aukna vigt.

Í þessa átt eigum við að breyta stjórnarskránni í kjölfar stjórnlagaþingsins næsta vor.  Þessi kerfisbreyting ein og sér myndi gjörbreyta framtíðarhorfum á okkar ágæta landi til hins betra.


Gamlir og nýir bankar - skýringarmynd

Hér að neðan er yfirlit um eignarhald gömlu og nýju bankanna:

Gamlir og nýir bankar

Gömlu bankarnir, Landsbanki, Kaupþing og Glitnir, fóru í greiðslustöðvun í framhaldi af setningu neyðarlaganna í október 2008.  Nú eru þeir í slitameðferð skv. ákvæðum laga nr. 44 frá 2009 (sem breyttu lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki).  Þegar slitameðferð er lokið fara þeir í hefðbundin gjaldþrotaskipti, nema nauðasamningar um umdeildar kröfur náist og lánardrottnar vilji taka aftur við hlutafélögunum, eignalausum.

Við yfirtöku bankanna í október 2008 skipaði FME þeim skilanefndir, sem fengu öll völd stjórnar og hluthafafundar í þeim.  (Skilanefndir heita í núverandi lögum bráðabirgðastjórnir.)  Skilanefndir eiga að fara með rekstur og málefni bankanna í greiðslustöðvun á þann hátt að hagsmunum kröfuhafa sé gætt og að endurheimtur eigna séu hámarkaðar.  Bregðist þær í þessu geta kröfuhafar farið í skaðabótamál á hendur FME og/eða ríkinu til að rétta sinn hlut.

Skilanefndirnar óskuðu haustið 2009 eftir að héraðsdómur skipaði bönkunum slitastjórnir skv. ákvæðum fyrrgreindra laga.  Slitastjórnir sjá um sjálfa slitameðferðina, einkum meðferð krafna, vörslu og úthlutun þeirra fjármuna sem kröfuhafar munu fá út úr búunum.

Til að halda áfram bankastarfsemi í landinu voru í október 2008 stofnaðir þrír nýir bankar sem tóku yfir helstu innlendar skuldbindingar og eignir gömlu bankanna, þar á meðal innistæður í innlendum útibúum.  Kaupþing og Glitnir gátu lagt fram álíka eignir og skuldir til nýju bankanna, Arion og Íslandsbanka.  Ríkið lagði því aðeins fram tiltölulega litla upphæð í þeim tilvikum og á 13% í Arion og 5% í Íslandsbanka, á móti gömlu bönkunum (þ.e. kröfuhöfum þeirra).

Landsbankinn gamli átti hins vegar ekki eignir á móti innlendum skuldbindingum sínum, þegar búið var að draga erlendar forgangskröfur (innistæður) frá*).  Því þurfti ríkið að leggja verulegt eigið fé til nýja Landsbankans við stofnun hans og á þar 81% hlutafjár.  Valkostirnir voru að leggja til þetta fé eða að skilja viðskiptavini Landsbankans, þar á meðal innlenda innistæðueigendur, eftir á flæðiskeri.  Að mínu viti var þarna farin hyggileg leið enda ekki útilokað að ríkið geti síðar selt hlut sinn eða komið honum í verð aftur.

Bankasýsla ríkisins fer með hluti ríkisins í nýju bönkunum og sér um að skipa stjórnarmenn þess í þeim.

*) Þetta er nokkuð einfölduð mynd en rétt sem kjarni máls.


Börnin okkar og Evrópuherinn

Evrópuumræðan er enn í töluverðu skötulíki, sem er miður, því þarna er á ferð eitt stærsta álitamál og úrlausnarefni íslenskra stjórnmála næstu árin.  Þegar að þjóðaratkvæðagreiðslu um aðild kemur, sem gæti orðið eftir 2 ár eða svo, skiptir afar miklu að fólk sé vel heima í kostum og göllum aðildar og taki upplýsta ákvörðun.

Málflutningur (of) margra ESB-andstæðinga hefur einkennst af því að höfða til einfaldra tilfinninga og frumhvata fólks, til dæmis hræðslu við hið ókunna, áhyggja af öryggi barna sinna og að lífsviðurværi þess sé í hættu.  Ekkert af þessu stenst málefnalega skoðun; fólk hefur það ágætt í 27 ríkjum ESB og Ísland er nú þegar aukaaðili að sambandinu að verulegu leyti í gegn um EES samninginn.

Talsverða athygli vakti þegar samtök ungra bænda birtu auglýsingu í fjölmiðlum með fyrirsögninni "Við viljum ekki senda afkomendur okkar í Evrópusambandsherinn".  Með fylgdi mynd af einhvers konar stríðstóli.

Þetta er bábilja og hræðsluáróður.  Íslendingar munu aldrei senda afkomendur sína í "Evrópusambandsher", þ.e. í aðgerðir á vegum Evrópusambandsins (nema þeir vilji það endilega sjálfir).

Þessa staðhæfingu má rökstyðja með margvíslegum hætti en ein leið er eftirfarandi.

Grunnsáttmála Evrópusambandsins má sjá hér.  Hann var síðast uppfærður með Lissabon-sáttmálanum sem tók gildi 1. desember 2009.  Þann sáttmála, og allar aðrar breytingar á grunnlögunum, þurfti og þarf alltaf í framtíðinni að samþykkjast af öllum löndum sambandsins - það liggur í eðli þess sem sjálfviljugs samstarfs fullvalda þjóða.  (Takið eftir að Ísland fær afar mikil völd þarna strax - engar breytingar á grunnlögum ESB munu ná í gegn öðru vísi en við samþykkjum þau, eða ákveðum að öðrum kosti að standa utan þeirra ef eðli þeirra leyfir (opt-out).)

Írland er hlutlaust land í hernaðarátökum.  Varnarmálakafli Lissabon-sáttmálans olli áhyggjum þar í landi vegna hlutleysisstefnunnar, sem nýtur víðtæks stuðnings.  Við staðfestingu sáttmálans á Írlandi voru teknar inn í hann áréttingar sem sérstaklega varða eðli varnarmálastefnu ESB og rétt aðildarþjóða til að ráða sjálfar þátttöku sinni í þeirri stefnu.  Þessar áréttingar breyttu ekki inntaki Lissabon-sáttmálans, en skýrðu hann með ótvíræðum hætti þannig að írskir kjósendur gætu rólegir staðfest hann, sem þeir gerðu með 2/3 atkvæða gegn 1/3 í október 2009.

Þessar áréttingar um varnarmálin vegna Írlands eru eftirfarandi (þýðing mín, frumtextinn er allur hér, sjá Section C, Security and Defence):

  • Aðgerðir sambandsins á alþjóðavísu mótast af grundvallarreglum lýðræðis, réttarríkinu, algildi og ódeilanleika mannréttinda og grundvallarfrelsis, virðingu fyrir mannlegri reisn, jafnrétti og samstöðu, og virðingu fyrir grundvallarreglum stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðaréttar.
  • Sameiginleg öryggis- og varnarmálastefna sambandsins er óaðskiljanlegur hluti sameiginlegu utanríkis- og öryggisstefnunnar og veitir sambandinu möguleika til aðgerða utan sambandsins vegna friðargæslu, afstýringar átaka og eflingar alþjóðlegs öryggis í samræmi við grundvallarreglur stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna.
  • Stefnan hefur ekki forgang gagnvart [e: does not prejudice] öryggis- og varnarmálastefnu hvers aðildarlands, þar með talið Írlands, né skuldbindingum aðildarlands.
  • Lissabon-sáttmálinn hefur ekki áhrif á, né forgang gagnvart [e: does not affect or prejudice], hefðbundinni stefnu Írlands um hlutleysi í hernaði.
  • Það er aðildarríkja - þar á meðal Írlands, í anda samstöðu og án forgangs gagnvart hefðbundinni stefnu þess um hlutleysi í hernaði - að ákveða eðli aðstoðar eða hjálpar sem veitt yrði aðildarríki sem verður fyrir hryðjuverkaárás eða er fórnarlamb vopnaðrar árásar á landsvæði sitt.
  • Sérhver ákvörðun um að færast í átt til sameiginlegra varna krefst samhljóða samþykkis Ráðherraráðsins [þar sem sitja fulltrúar allra aðildarlanda, innskot VÞ].  Það yrði hvers aðildarlands, þ.m.t. Írlands, að ákveða, í samræmi við ákvæði Lissabon-sáttmálans og eigin stjórnlög, hvort sameiginlegar varnir yrðu teknar upp eður ei.
  • Ekkert í þessum viðbótarkafla hefur áhrif á eða forgang gagnvart afstöðu eða stefnu annars aðildarlands á sviði varna og öryggis.
  • Það er einnig hvers aðildarlands að ákveða, í samræmi við ákvæði Lissabon-sáttmálans og innlendar lagakröfur, hvort það taki þátt í varanlegri samvinnu eða Evrópsku varnarmálastofnuninni (European Defence Agency).
  • Lissabon-sáttmálinn kveður ekki á um stofnun Evrópuhers eða um neins konar herskyldu [e: conscription to any military formation].
  • Hann hefur ekki áhrif á rétt Írlands eða annarra aðildarlanda til að ákveða eðli og umfang eigin varnarmála- og öryggisútgjalda, og eðli varnarráðstafana.
  • Það verður ákvörðun Írlands eða hvers einstaks aðildarlands, í samræmi við innlendar lagakröfur eftir atvikum, hvort taka eigi þátt í hernaðaraðgerð eður ei.
Að mínu viti getur þetta ekki verið skýrara: Afkomendur okkar fara ekki í neinn Evrópuher.  Margt má eflaust gagnrýna varðandi ESB, en sú hætta er ekki þess á meðal.

Auðlindir og Evrópusambandið

web DSC2017 530px

Stuðlaberg í Kálfshamarsvík á Skaga, ljósm. VÞ.

Besta leiðin til að fóta sig í Evrópuumræðunni er að byrja á því að kynna sér þá hugsjón og hugmyndafræði sem liggur að baki Evrópusamstarfinu.  Af þeirri hugsjón leiða ákveðnar grunnreglur eða prinsipp, sem eru til grundvallar stefnu sambandsins í hinum ýmsu málaflokkum.

Hugsjón Evrópusambandsins er sú að tryggja velferð, öryggi og frið með því að þróa áfram náið samstarf fullvalda Evrópuríkja, byggt á lýðræðis- og mannréttindahefðum álfunnar.  Þessar hefðir hafa mótast allt frá tímum Forn-Grikkja, og markast af reynslu og lærdómum aldanna, oft afar sársaukafullum - þar á meðal byltingum og stríðum.

Mörg helstu viðfangsefni mannkyns um þessar mundir eru þess eðlis að þau verður að takast á við í sameiningu, þvert á þjóðríki.  Má þar nefna umhverfismál og loftslagsmál, réttindi á vinnumarkaði, mannréttindamál, samgöngumál og margt fleira.  Evrópusambandið er því stofnað bæði í kjölfar lærdóma af fortíðinni, og sem tæki til að takast á við viðfangsefni framtíðar.  Það er vettvangur skynsamlegrar, lýðræðislegrar, öfgalausrar stefnu með blönduðu hagkerfi; sem sagt reist á því besta sem lærst hefur og áunnist í Evrópu í aldanna rás.

Evrópusambandinu er beinlínis stefnt gegn innbyrðis skæklatogi, sérvisku og sérhagsmunapoti.  Í stað þess kemur sameiginlegt, hlutlaust, staðlað regluverk sem gildir jafnt um alla á hinum innri markaði.  Þannig verða allir atvinnurekendur að virða félagsleg réttindi, fyrirtæki verða að keppa á jafnréttisgrundvelli og beygja sig undir sömu grundvallarreglur, til dæmis varðandi umhverfismál og neytendavernd.

Víkur þá sögunni að auðlindum.  Evrópusambandið hefur aðeins sameiginlega stefnu í þeim málaflokkum þar sem slík stefna er nauðsynleg og gagnleg samkvæmt eðli máls.  Sambandið hefur enga stefnu um náttúruauðlindir sem slíkar; til dæmis skiptir það sér ekki af námum í Svíþjóð eða skógarhöggi í Finnlandi, né olíulindum í Norðursjó, né virkjun fallvatna í Ölpunum, né ölkeldum á Ítalíu.  Fiskur í sjónum hefur hins vegar þá sérstöðu að hann getur synt milli lögsaga aðildarríkjanna, og því er óhjákvæmilegt að stjórna nýtingu hans með sjálfbærum hætti í samkomulagi milli þjóða.  Sá er tilgangur sjávarútvegsstefnu ESB, ekki sá að ræna þjóðir auðlindum sínum.  Og svo það sé skýrt: kvótar í staðbundnum fiskistofnum við Ísland verða ákveðnir samkvæmt ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar og úthlutað eftir þeim reglum sem íslenska ríkið setur.

Íslendingar þurfa að móta sér stefnu í auðlindamálum þar sem sanngjarnt auðlindagjald er greitt til þjóðarinnar vegna afnota af sameiginlegum auðlindum, hvort sem er fiski, fallvötnum eða jarðhita.  Þetta getum við gert og eigum að gera alveg óháð hugsanlegri aðild að ESB.  Fyrirkomulag útleigu auðlinda má vera hvernig sem við kjósum sjálf að hafa það.  Við megum nota leigu til skamms eða langs tíma, uppboð, framseljanlegan eignarkvóta eða einhverja blöndu af þessu; um það hefur ESB ekkert að segja og reyndar engan áhuga.  Þjóðin mun þá njóta auðlindarentunnar með beinum hætti, eins og vera ber.  En í þeim mæli sem einkaaðilum verður falið að nýta auðlindina (útgerð, virkjanir) þá má ekki mismuna milli þeirra eftir þjóðerni innan EES-svæðisins.  Og sú regla er að sjálfsögðu gagnkvæm, eins og dæmi er um þar sem Samherji á hlut í þýsku útgerðarfyrirtæki.

Þessar eru staðreyndir málsins, og væri sallafínt ef t.d. Ögmundur Jónasson væri til í umræðu um kosti og galla Evrópusambandsaðildar á grundvelli þeirra.


Auðlindir, eignarhald og afnotaréttur

Undanfarið hefur á ný færst líf í umræðu um eignarhald og afnotagjöld af auðlindum í almannaeigu.  Einkum á það við um virkjanlegt vatnsafl og jarðhita, en einnig um fiskinn í sjónum, fjarskiptatíðnir og önnur takmörkuð gæði.

Varðandi jarðhita og grunnvatn er skýrt í lögum að eignarhald á slíkum auðlindum er óframseljanlegt úr höndum ríkis og sveitarfélaga, sbr. lög nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu:

3. gr. a. Ríki, sveitarfélögum og fyrirtækjum, sem alfarið eru í eigu þeirra, er óheimilt að framselja beint eða óbeint og með varanlegum hætti eignarrétt að jarðhita og grunnvatni umfram heimilis- og búsþarfir, sbr. 1. mgr. 10. gr. og 14. gr.

  Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er heimilt að framselja réttindi til ríkis, sveitarfélags eða félags sem alfarið er í eigu ríkis og/eða sveitarfélaga og sérstaklega er stofnað til að fara með eignarhald þessara réttinda.

  Ríki, sveitarfélögum og félögum í þeirra eigu, sbr. 2. mgr., er heimilt að veita tímabundið afnotarétt að réttindum skv. 1. mgr. til allt að 65 ára í senn. Handhafi tímabundins afnotaréttar skal eiga rétt á viðræðum um framlengingu réttarins þegar helmingur umsamins afnotatíma er liðinn.

  Við ákvörðun um það hverjum skuli veittur afnotaréttur skal gæta jafnræðis. Þá skal gæta þess að ákvörðunin stuðli að hagkvæmri nýtingu auðlinda og fjárfestinga í mannvirkjum.

  Forsætisráðherra skal semja um endurgjald (leigu) fyrir afnotarétt réttinda undir yfirráðum ríkisins skv. 3. mgr. Um ráðstöfun og endurgjald fyrir nýtingu réttinda í þjóðlendum fer samkvæmt ákvæðum laga þar að lútandi.

Eins og sjá má hér að ofan er heimilt að leigja afnotarétt af auðlindum til 65 ára í senn, með möguleika á framlengingu til annarra 65 ára.  Slíkan samning gerði HS Orka við Reykjanesbæ, eins og frægt er orðið.

Í apríl sl. skilaði nefnd á vegum forsætisráðuneytis um fyrirkomulag leigu á vatns- og jarðhitaréttindum í eigu ríkisins, undir forystu Karls Axelssonar, af sér skýrslu og niðurstöðum.  Þar er ítarlega farið yfir kosti og galla ýmis konar fyrirkomulags og tekin saman reynsla annarra þjóða, m.a. Norðmanna, bæði af leigu vatnsréttinda og annarra auðlinda á borð við olíu.

Í stuttu máli leggur nefndin til að réttindum (t.d. virkjanakostum), sem til úthlutunar eru, verði úthlutað með tveggja þrepa útboði, þar sem hæstbjóðandi sem uppfyllir almenn skilyrði fær réttindin til afnota (leigu) í 40-50 ár í senn.  Gjaldtaka ríkisins yrði þá þríþætt.  Í fyrsta lagi fast grunngjald til að mæta kostnaði ríkisins við umsýslu auðlindarinnar, rannsóknir o.þ.h.  Í öðru lagi viðbótarendurgjald í upphafi sem ræðst í samkeppni í útboðinu, ef bjóðendur eru fleiri en einn.  Og í þriðja lagi hlutur af auðlindarentunni sem myndast við nýtingu auðlindarinnar; sá hlutur er greiddur eftir því sem rentan fellur til, yfir allan leigutímann.

Að mínu mati mætti leigutíminn gjarnan vera styttri en nefndin leggur til, eða t.d. 20-25 ár í senn, að því gefnu að leigutakar ættu rétt á framlengingu ef þeir umgangast auðlindina með ábyrgum hætti, standa í skilum með greiðslur og uppfylla önnur skilyrði á leigutímanum.  Slíkur framlengingarmöguleiki er jákvæður vegna þess að hann kemur í veg fyrir að leigjandinn umgangist auðlindina illa síðustu ár leigutímans, en það hefur verið vandamál annars staðar, og gefur kost á hærra upphafsgjaldi en ella.

Ofangreint fyrirkomulag tryggir almenningi sanngjarna hlutdeild í arði af sameiginlegum auðlindum okkar, án þess að draga um of úr hvata til fjárfestingar og framkvæmda.

Ef líkan svipað þessu verður ofan á, sé ég ekki að þjóðerni þeirra sem byggja sjálfar virkjanirnar eða reka þær skipti máli; rentan af auðlindinni rennur alltaf til eiganda hennar - þjóðarinnar - eins og vera ber. 

(Og hliðstætt líkan á að sjálfsögðu við í sjávarútvegi einnig.)


Rétt og rangt um fjárfestingarsamninga

Nokkur umræða hefur sprottið um fjárfestingarsamninga vegna umfjöllunar og afgreiðslu Alþingis á nýjasta samningnum, vegna gagnavers í Reykjanesbæ.  Er sumt af því sem haldið er fram rétt en annað rangt, og því er efni til að fjalla eilítið um fjárfestingarsamninga almennt.

Sérstakir samningar um erlenda fjárfestingu tíðkast í flestum löndum heims, og m.a. bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Í Bandaríkjunum er löng hefð fyrir klæðskerasniðnum samningum um einstök verkefni (ad hoc); svo dæmi sé nefnt fékk BMW margháttaða fyrirgreiðslu þegar þeir reistu bílaverksmiðju í Suður-Karólínu á sínum tíma. Í Evrópu (ESB og EES) gildir samræmdur lagarammi um opinberar ívilnanir vegna fjárfestinga. Slíkar ívilnanir má aðeins veita á sérstökum atvinnuþróunarsvæðum, ívilinun má aðeins nema tilteknu hlutfalli af upphæð fjárfestingar og eftirlitsstofnanir ESB/EES, í okkar tilviki Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), fylgist með ferlinu og verður að staðfesta endanlegan samning.

Fjárfestingarsamningar, með heimildum í sérlögum frá Alþingi, hafa verið gerðir vegna allra helstu stóriðjuframkvæmda á Íslandi, til dæmis nýlega vegna Norðuráls (sjá lög um fjárfestingarsamning Norðuráls hér).

Fjárfestingarsamninga innan ESB/EES ramma má aðeins gera vegna verkefna á atvinnuþróunarsvæðum. Þá má til dæmis ekki gera vegna verkefna á höfuðborgarsvæðinu.

Helsti tilgangur fjárfestingarsamninga er að tryggja viðskiptaumhverfi, einkum hvað varðar skatta og gjöld, til langs tíma. Stóriðjusamningar hafa hingað til verið gerðir til 20 ára en ESA hefur nýlega lagst gegn svo löngum samningum og er almennt verið að stytta þá niður í 10 ár eða svo. Fjárfestar sem koma með stórar upphæðir inn í land, svo nemur tugum milljarða króna, vilja skiljanlega hafa nokkra vissu fyrir því að skattaumhverfi eða öðrum rekstrarforsendum verði ekki gjörbreytt eftir fá ár, þannig að upphafleg viðskiptaáætlun falli um sjálfa sig. Því snúast samningarnir gjarnan um tiltekin þök eða hámörk á skattahlutföll.

Svo dæmi sé tekið af samningi vegna gagnavers í Reykjanesbæ, en frumvarp um heimild til gerðar hans má sjá hér, þá er hámark tekjuskatts 15% fyrstu 5 árin og 18% næstu 5 árin, en 25% eftir það. Þetta þak er hærra en hjá Norðuráli, sem hefur tryggðan 15% tekjuskatt í 20 ár. Taka má fram til skýringar að tekjuskattshlutfall fyrirtækja var 15% þegar samningagerðin hófst en er nú 18%.

Eitt af því sem horft er til þegar ákvörðun er tekin um fjárfestingarsamning, og við staðfestingu hans hjá ESA, er hvort um sé að ræða verulega röskun á samkeppni. Ef til dæmis væri um að ræða ívilnun til fyrirtækis sem ætlaði sér að keppa með öflugum hætti á innanlandsmarkaði við fyrirtæki sem þar væru fyrir, og njóta ekki ívilnunar, yrði slíkt varla samþykkt. Og auðvitað gilda samkeppnislög um viðkomandi fyrirtæki, hvort sem þau hafa gert fjárfestingarsamning eður ei.

Að sama skapi gildir að öll fyrirtæki sem uppfylla málefnaleg skilyrði um nýja fjárfestingu á atvinnuþróunarsvæðum, eiga tilkall til þess að fá sambærilegar ívilnanir; það liggur í hlutarins eðli og í jafnræðisreglu stjórnsýslulaga og stjórnarskrár.

Nú hefur iðnaðarráðherra lagt fram frumvarp á Alþingi um almennan ramma um nýfjárfestingar og ívilnanir vegna þeirra. Ef það verður samþykkt má gera ráð fyrir að sértæk lög um einstök verkefni leggist af, heldur verði þau afgreidd af ráðuneytinu með almennum hætti innan rammans. Er full ástæða til að fagna þessu enda er slík löggjöf í gildi í velflestum nágrannalöndum.


Hvernig þarf að svara úrslitum sveitarstjórnarkosninganna?

Undanfarin ár og áratugi hefur þjóðfélagið flækst verulega. Hagstjórn, stjórnkerfi og stjórnsýsla, fjármálakerfið, framboð vöru og þjónustu, samskipti - á öllum þessum sviðum, og fleirum, hefur flækjustigið verið í veldisvexti. Meiri kröfur eru gerðar til sérfræðiþekkingar, sem aftur leiðir til aðgreiningar milli þekkingarsviða.

Almenningur hefur í auknum mæli þurft að treysta því, án þess að vita fyrir víst, að öryggi hans og velferð væru í góðum höndum sérfræðinga - "elítu" á hverju sviði fyrir sig.  Meðan allt gekk vel var traustið fyrir hendi.  En eftir hrunið hvarf það eins og dögg fyrir sólu.  Elíturnar brugðust, flestar hverjar, og hinir meintu sérfræðingar voru ekki allir þar sem þeir eru séðir.

Í því andrúmslofti kemur ekki á óvart að framboð á borð við Besta flokkinn í Reykjavík hitti í mark.  Ímynd Besta flokksins er sú að þar fari "venjulegt" fólk; fólk sem er ekki sérfræðingar, og stendur utan stjórnmálaelítunnar.  (Reyndar er margt Bestaflokksfólk innan annarrar elítu, þ.e. menningarelítunnar, en það er önnur saga.)  Skilaboðin eru þau að sérfræðingum og gömlu elítunni sé ekki treystandi.  Þeir og hún tali ekki tungumál venjulegs fólks, hlusti ekki á það og nái ekki til þess.

Nú kann að vera úr vöndu að ráða, því þjóðfélagið verður áfram flókið.  Ég held að það sé ekki raunhæfur kostur að snúa til baka, t.d. í flækjustig 8. áratugar síðustu aldar.  Þá gat gengið upp að setja velþokkaða bændur í ráðherra- og bankastjóraembætti, enda var þá e.t.v. gerlegt fyrir sæmilega greinda þúsundþjalasmiði að setja sig inn í slík störf án viðeigandi menntunar eða reynslu sem heitið gat.  En sá tími er liðinn og kemur ekki aftur.

Leiðin fram á við hlýtur fremur að vera sú að fara í róttækar stjórnkerfisumbætur, þannig að kerfið sé betur í stakk búið til að eiga við flókið nútímaþjóðfélag, og því sé treystandi fyrir öryggi og velferð almennings.  Það gæti til dæmis verið samkvæmt eftirfarandi prógrammi:

  • Kosið verði til stjórnlagaþings í haust í almennum kosningum.  Þar verði um persónukjör að ræða án formlegra afskipta flokka, sbr. stjórnarfrumvarp sem liggur fyrir Alþingi.
  • Stjórnlagaþing starfi með opnum hætti.  Lykilatriði sem ná þarf fram í nýrri stjórnarskrá eru m.a. aðskilnaður löggjafar- og framkvæmdavalds, þar sem forsætisráðherra er kosinn beinni kosningu og tilnefnir ráðuneyti sitt á faglegum grundvelli; auknir möguleikar til persónuvals í þingkosningum; og að landið verði eitt kjördæmi.  (Minni í þessu sambandi enn á hugmyndir Vilmundar Gylfasonar.)
  • Að loknu stjórnlagaþingi kemur uppkast að nýrri stjórnarskrá til Alþingis, sem vonandi samþykkir hana, en við það verður þingrof og nýjar kosningar (skv. gamla kerfinu).  Hið nýja þing staðfestir síðan (vonandi) aftur hina nýju stjórnarskrá, sem verður þá grunnur enn nýrra kosninga samkvæmt nýju fyrirkomulagi - bæði til þings (í einu kjördæmi, með persónukjöri) og til að kjósa forsætisráðherra.

Þá er loks komið á framtíðar stjórnkerfi sem að mínu mati mætir kröfum nútímans, dregur úr óæskilegum eiginleikum núverandi flokkakerfis, og getur endurheimt traust almennings.

Þessa leið þarf að ákveða og varða sem fyrst þannig að fólk geti haldið í trúna á samfélagssáttmálann og lýðræðisskipulagið í landinu.  Að öðrum kosti myndast tómarúm sem eitthvað mun verra en Besti flokkurinn gæti orðið til að fylla í.


Tveir mikilvægir áfangar á langri leið

Sem betur fer koma inn á milli fréttir sem hægt er að gleðjast yfir.

fyrri sem mig langar að nefna er önnur endurskoðun samstarfsáætlunar Íslands og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (AGS) og skýrslan sem henni fylgir. Með þessari endurskoðun fékk Ísland aðgang að næstu útborgunum lána og lánalínum frá AGS og samstarfsþjóðum. Þetta er afar þýðingarmikið til að afstýra líkum á greiðslufalli okkar þegar kemur til stórra afborgana af erlendum lánum í lok næsta árs, og til að styðja við gjaldeyrisforðann og þar með krónuna.

Það er nánast kraftaverk að hafa náð fram þessari endurskoðun án þess að gengið hafi verið frá samningum um Icesave, en reyndar eru gefin fyrirheit um fullan vilja til slíkra samninga í minnisblaði stjórnvalda til sjóðsins.  Efnahags- og viðskiptaráðherra Gylfi Magnússon, seðlabankastjóri Már Guðmundsson og fjármálaráðherra Steingrímur J. Sigfússon eiga hrós skilið fyrir frammistöðuna og árangurinn.

Seinni fréttin er frá því í morgun og varðar kaup Seðlabanka Íslands á skuldabréfapakka sem var í eigu Seðlabanka Lúxemborgar.  Pakkinn hafði verið lagður fram sem veð þegar Landsbankinn í Lúx tók evrur að láni hjá Seðlabanka Lúxemborgar (nóta bene öllu haldbærari veð en Seðlabanki Íslands krafðist gagnvart sínum lausafjárlánum, sem voru "ástarbréfin" margfrægu).

Seðlabankinn í Lúx átti sem sagt um 120 milljarða íslenskra króna í bankainnistæðum, ríkisbréfum og íbúðabréfum, sem hann hefði leitað fyrsta tækifæris til að selja um leið og gjaldeyrishöftum væri aflétt.  Slík sala hefði sett verulegan veikingarþrýsting á krónuna og í reynd leitt til þess að Seðlabankinn hefði þurft að selja samsvarandi upphæð evra úr forða sínum á móti.

Í stað þessa, leitaði Seðlabanki Íslands samninga um kaup á þessum bréfum á hagstæðum kjörum, bæði hvað varðar gengi krónunnar og hvað varðar greiðslufrest á evrunum.  Það gekk loks eftir.  Seðlabankinn fær um 260 krónur fyrir hverja evru í þessum viðskiptum (í stað 160 sem er innanlandsgengið í dag) og greiðir evrurnar á 15 árum með tiltölulega lágum vöxtum (2,75% álagi á fljótandi EURIBOR vexti).

Niðurstaðan er nálægt 55 milljarða nettólækkun á erlendri skuldastöðu þjóðarbúsins, sem kemur til af því að 120 milljarða krónuskuldir breytast í evruskuldir að andvirði 65 milljarðar á núverandi gengi evru.  (Og ef við göngum í ESB og tökum upp evru verða þeir 65 milljarðar ekki lengur í "erlendri mynt".)

Þessi lausn er fjöður í hatt Seðlabankans og góður áfangi á leið okkar út úr áfallinu.  Nú vantar okkur fleiri slíka, en við erum sem betur fer í faglegum höndum hjá Gylfa og Má.


Ein af mörgum athyglisverðum síðum í Rannsóknarskýrslunni

Þessa dagana er ég að böðlast í gegn um Rannsóknarskýrsluna, en ætlunin er að lesa hana alla (sem er vitaskuld lágmark til að vera umræðuhæfur Cool).  Skýrslan kemur að mörgu leyti á óvart.  Hún er efnismeiri, þéttari og afdráttarlausari en ég bjóst við fyrirfram, og subbuskapurinn í bönkunum jafnvel meiri en ég óttaðist.  En hugmyndafræðin, stjórnmálamennirnir og stjórnsýslan brugðust vitaskuld einnig, eins og lýst er í sársaukafullum smáatriðum.

Ég datt m.a. um þennan texta á síðu 192 í 1. bindi.  Athyglisvert hvað menn voru að ráðleggja árið 2007, þvert ofan í mjög réttmætar áhyggjur hagfræðings ASÍ.

Gjaldeyrislán örugg?

Meira síðar!


Hvenær var ljóst að stefndi í óefni?

Í skýrslu rannsóknarnefndar er fjallað um fundi bankastjórnar Seðlabankans með ráðherrum vorið og sumarið 2008, og jafnframt fundi samráðsnefndar ráðuneyta um viðbrögð við fjármálaáföllum á sama tíma. Þrátt fyrir augljósan og aðkallandi vanda gerðist lítið sem ekkert fram eftir sumri.

Til gamans rifja ég hér upp bloggfærslu mína frá 21. janúar 2008, sem því miður reyndist hárrétt og sannspá.

--------

Krísa í vændum; Seðlabankinn í vanda

Nú hrannast upp óveðursský á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.  Á eftir undirmálslánunum kemur skuldatryggingakrísa þar sem í ljós mun koma að ýmsir sem selt hafa slíkar tryggingar geta ekki staðið við þær þegar á reynir (sbr. AMBAC, MBIA o.fl. í Bandaríkjunum).  Fleiri dómínókubbar munu falla, og valda bönkum búsifjum.  Þeir hamstra lausafé á viðsjárverðum tímum og hætta að lána peninga, sem aftur kemur illa við fjölmörg fyrirtæki sem eru veðsett upp í rjáfur eftir skuldsettar yfirtökur.  Bandarískir neytendur eru að vakna með timburmenn eftir eyðslugleði undanfarinna ára sem hefur verið fjármögnuð með ódýrum húsnæðislánum og glórulausum fjárlagahalla.  Kreppa þar í landi smitar út frá sér og hefur áhrif á hagkerfi heimsins.

Á Íslandi þýðir þetta að aðgangur bankanna okkar að lánsfé erlendis verður erfiðari og lánin verða dýrari.  Bankarnir draga þar með úr lánveitingum og vaxtamunur þeirra hverfur, verður reyndar neikvæður.

Krónunni hefur verið haldið uppi með hávöxtum en jafnvel það mun ekki duga þegar alþjóðlegir fjárfestar flýja yfir í öruggari hafnir.

Seðlabankinn er milli steins og sleggju; hann á erfitt með að lækka vexti án þess að styggja jöklabréfaeigendur og spákaupmenn enn frekar, sem veldur krónufalli og verðbólgu.  Hins vegar er orðið verulega nauðsynlegt að huga að öðru markmiði bankans, sem er stöðugleiki fjármálakerfisins.  Bankakerfið vantar aðgang að lausafé og það gerist ekki nema krónum verði dælt inn í kerfið og vextir verði lækkaðir.

Við endum í krísu og ég sé enga leið út úr henni nema að taka upp evruna eins og hratt og hægt er, enda var aðeins tímaspursmál hversu lengi krónan - þessi örmynt - gæti átt sjálfstætt líf á samtengdum fjármálamörkuðum heimsins.

Á meðan þetta gengur yfir ráðlegg ég engum að kaupa hlutabréf og allra síst í bönkum og fjármálafyrirtækjum, en bendi enn og aftur á ríkistryggð og verðtryggð skuldabréf (HFF).  Þau eru langskynsamlegasti innlendi fjárfestingarkosturinn í þessari stöðu, og reyndar öfundsverður valkostur fyrir fjárfesta í alþjóðlegu samhengi.  Vona að sjóðsstjórar lífeyrissjóða átti sig á þessu en er ekki bjartsýnn á það.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband