Á að handvelja hverja eigi að skera úr snörunni?

Forsætisráðherra mun hafa sagt á aðalfundi LÍÚ að tap útgerða vegna framvirkra samninga um sölu á gjaldeyri standi nú í 25-30 milljörðum króna og að það sé "mál sem þurfi að leysa".

Þrennt er við þetta að athuga.

  • Í fyrsta lagi er ekki um eiginlegt tap að ræða, heldur hafa útgerðirnar að eigin frumkvæði selt gjaldeyristekjur sínar fram í tímann á tilteknu (föstu) gengi krónu.  Nú hefur krónan veikst en vegna samninganna fá útgerðirnar ekki þann ávinning í vasann.  Ef krónan hefði styrkst hefðu útgerðirnar að sama skapi ekki tapað á styrkingunni.  Svona framvirkir samningar eru dæmigerðir fyrir þær æfingar sem íslensk fyrirtæki þurfa að leggja á sig vegna krónunnar.
  • Í öðru lagi sitja þessir framvirku samningar eftir í gömlu bönkunum samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, sem féll frá því að flytja afleiðusamninga yfir í nýju bankana.  Það er ekki hægt að taka þessar eignir (kröfur) af þrotabúum gömlu bankanna án þess að ganga með því á rétt kröfuhafa, nema ríkið ætli sér að bæta þrotabúunum upp tapið.
  • Í þriðja lagi er fullkomlega óeðlilegt að ríkisvaldið hugsi sér að handvelja tiltekna atvinnugrein og jafnvel tiltekin fyrirtæki, og bæta þeim upp tap sem önnur fyrirtæki og aðrir sem gert hafa afleiðusamninga þurfa að sitja uppi með.  Það stenst ekki jafnræðisreglur og sendir mjög vond skilaboð um ábyrgð stjórnenda á gerðum sínum.

Það væri ekki verra ef fjölmiðlar og aðrir fylgdu því betur eftir hvað nákvæmlega liggur að baki þessum orðum forsætisráðherra. Að mínu mati væri 25-30 milljörðum mun betur og skynsamlegar varið til hjálpar skuldsettum heimilum og fyrirtækjum, en ekki til að færa útgerðarfyrirtækjum ábata af veikingu krónunnar, sem þau sömdu sjálf af sér.


mbl.is Útgerðir töpuðu á gengisvörnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Merkilegt að tala um tap þegar varnir eru að virka. Mikil tilhneiging einmitt til að horfa aðeins á aðra hliðina af svona snúningum hjá fólki, og þá helst aðeins hagn/tap af vörnunum og gleyma eigna/skulda eða tekjuhliðinni.

Sveinn (IP-tala skráð) 2.11.2008 kl. 22:16

2 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Útgerðirnar hefðu getað varið sig með söluréttum á gjaldeyri í stað framvirkra samninga, ef þær hefðu viljað geta hagnast á veikingu krónu.  En söluréttir kosta peninga og þess vegna völdu þær framvirka samninga, sem kosta sáralítið en hafa vissulega þann ókost að fórna ávinningi.  Með því vali var tekin meðvituð áhætta.

En stóri punkturinn er að í evruumhverfi hefði ekkert af þessu þurft.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 2.11.2008 kl. 23:16

3 Smámynd: haraldurhar

   Viljálmur athyglisver samantek hjá þér.  Athyglisverðast í þessu máli er hveru Geir virðist vera út á túni, er hann fjallar um þessi mál á þingi LIU:  Eitt vandamálið í þessum samningum er það að ekki er hægt að loka þeim eins og er, og ef Ríkið ætlar sér að handvelja líflömb, þá held ég sé nú fokið í flest skjól hjá Geir.  Þetta mál er kannski hluti af skýringunni hversvegna þeir eru sífellt að rembast við að halda gengi ísl. kr. uppi.  Eg hélt í fávisku minni að best væri fyrir okkur að kr. félli mikið núna, og nýta þá lága gengið til að greiða upp nokkur hundruð milljarða af Jöklabréfum.   Ef ég hefði ráðið þá hefði ég fært stýrivexti niður í 5% tekið lánskjaravísitöluna úr sambandi, og fryst greiðslur af gjaldeyrislánum fyrirtækja og einstaklinga í hálft ár.  Taka svo sólarhæðina að hálfu ári liðnu.

haraldurhar, 2.11.2008 kl. 23:44

4 Smámynd: Bjarni Kjartansson

Alveg hárrétt hjá þér Vilhjálmur, þá væru nefnilega ekki neinar afurðir út að selja og þvi ekki neinn gjaldeyrir inn að koma.

Evrulöndin væru löngu löngu búið að hesthúsa okkar veiðileyfum.

UNILEVER ætti allt he´r sem hétu veiðileyfi.

QED

Bjarni Kjartansson, 3.11.2008 kl. 00:45

5 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Það er eins og við skiljum alls ekki enn hvað liggur að baki jafnræðishugsun og góðum stjórnsýsluháttum.

Það verður að setja almennar reglur en ekki sértækar. Sama á við skulda-uppgjöf til bankamanna vegna lána fyrir hlutafjárkaupum þeirra með þeim rökum að ef þeir væru rukkaðir lentu flestir eða allir yfirmenn í bönkunum á vanskilaskrá og mögulega í gjaldþroti sem hefði gert þá ótæka til bankastarfa.

- Hér á að fara allt aðra leið, það á að breyta reglunum um gjaldþrot og reglum um ráðningar þannig t.d. að allir sem hefðu lent í sínum fjárhagserfiðleikum hvort sem þeir störfuðu í bönkum eða ekki, án þess að brjóta refsilög, geti starfað við banka sem og annarstaðar.

Ég skil ekki afhverju ætti að láta innheimtu, vanskil og gjaldþrot ganga yfir flesta aðra og gera þeim ófræt að sækjast eftir margskonar störfum og þar á meðal bankastörfum, en sérstaklega að bjarga bankamönnum undan þeim vegna hlutafjárkaupa þeirra. - Miklu nær er að breyta ráðningareglum sem þá tæki jafnt til allra skuldara hvar sem þeir hefðu áður starfað, og að breyta gjaldþrotalaögum sem einnig tæki þá til allra skuldara. - Við það mætti bæta refsirannsókn þannig að gerður væri greinamunur á þeim sem yrðu gjaldþrotameð svikum og þeim sem yrðu gjaldþrota heiðarlega með „eðlilegum“ viðskiptum og vonum og væntingum sem brugðist hefðu með ófyriséðum ástæðum eins og oftast er.

Helgi Jóhann Hauksson, 3.11.2008 kl. 04:13

6 Smámynd: Hagbarður

Helgi ég er sammála þér að auðvitað á að hafa reglur almennar en ekki sértækar. Við höfum ágætis reglur í dag hvernig fólk verður gjaldþrota og ég sé ekki að það eigi að vera að breyta þeim. Hvernig eigum við að fullnusta kröfur á annan hátt? Á ríkið að borga fyrir alla? Til að þessi kreppa gangi einhverntíma yfir þarf að afskrifa kröfur en ekki að halda fólki til margra ára við að reyna að borga vonlausar skuldir. Það er líka líf eftir gjaldþrot. Til að uppfylla jafnræðisregluna á þá ekki að gera eitthvað fyrir þá sem urðu gjaldþrota áður en kreppan skall á?

Hagbarður, 3.11.2008 kl. 08:24

7 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Jú það er einmitt málið að áður en kreppan skall á varð fólk líka gjaldþrota „heiðarlega“ en bara miklu færri. Fólk varð fyrir óvæntum langvinnum veikindum, önnur fyrirvinna datt útaf vinnumarkaði vegna veikinda, nú eða viðskipti brugðust ekki var tilefni til annars en að treysta og svo framvegis. Vegna þess að þetta fólk var svo eitt í sínum vanda þá nýtur það einskis skilnings. En það er rétt ef við gerum þær breytingar að slíkt uppgjör eigi ekki að útiloka menn frá t.d. störfum við banka þá á engu máli að skipta hvenær fjárhagserfiðleikar mætti fólki eða hvort það var vegna ævintýralegra hlutafjárkaupa í bankanum eða vegna veikinda eða annarra viðskipta hvort sem er fyrir eða eftir 4. október 2008. - Aðeins almenn regla á að gilda.

Helgi Jóhann Hauksson, 3.11.2008 kl. 11:54

8 identicon

ups ... er þetta Ísland í dag eða eldgamla Ísland (?) ... nú þurfa menn að útvega sér flokkskírteini og þá helst allra flokka ... nema til verði nýtt Ísland.

Jón Helgi Egilsson (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 21:34

9 identicon

Mjög þörf ábending, Vilhjálmur (enda oft erfitt að stóla á að fjölmiðlamenni átti sig á svona málum). Það er eitthvað mjög skrítið ef útflutningsgreinarnar eru farnar að tapa á gengisfalli. Þær útgerðir sem hafa staðið í svona "gjaldeyrisvörnum" hafa bara viljað græða smá vaxtamun. Það er ekkert annað en spákaupmennska ef þær eru með mikinn erlendan kostnað, sem þær eru, þ.e. í þeirra erlendu lánum, olíu og launum sjómanna (sem byggjast á afurðaverði sem ákveðst mest erlendis). Útgerðarfyrirtæki á Íslandi hljóta að hafa áttað sig á því fyrir löngu að þau eiga að vera hlutlaus gagnvart gengi krónu, kannski fyrir utan það litla brot af kostnaðinum sem er raunverulega byggður á ISK. Þau sem hafa kosið að reyna að græða á því að spá fyrir um gengið (sem sumir myndu líkja við fjárhættuspili), verða að taka afleiðingunum.

bor (IP-tala skráð) 3.11.2008 kl. 21:45

10 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Já, þetta er stórundarlegt í ljósi þess að útgerðin hefur viljað halda í krónu, en greinilega er ekki meiri alvara að baki en svo að menn tryggja sig gegn henni í bak og fyrir.  Þá gætu menn auðvitað alveg eins notað evru, enda stór hluti útflutnings í henni hvort eð er, og sloppið við núningskostnað og áhættu.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 4.11.2008 kl. 13:52

11 Smámynd: Anna Benkovic Mikaelsdóttir

Ég tek undir þetta Vilhjálmur.  Sjálf var ég "hrædd" við evruna fyrir 1994.  Svo flutti ég til DK (6(ár) og sv Hollands (2 ár) og það var indælt að hafa gengi sem var stöðugt!!! Hræðsluáróður íslenskra útgerðarmanna er því hættur að virka á mig.  Hef barist fyrir sterkum og öruggum gjaldeyri síðan!

Takk

Anna Benkovic Mikaelsdóttir, 4.11.2008 kl. 15:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband