Hvað kemur í stað krónunnar?

Öllu raunsæju fólki er orðið ljóst að íslenska krónan er búin að vera, nema í mesta lagi að nafninu til.

Nú er áríðandi að ákveða hvað á að koma í staðinn, og drífa viðeigandi aðgerðir í gang sem allra fyrst.  Enginn vill sjá vöruskort og hamstur, hvað þá afleiðingar sem slíku getur fylgt.  (Bandaríski fjárfestirinn Jim Rogers hefur minnt á að jafnvel stöðugustu þjóðfélög eru aðeins fjórar máltíðir frá óeirðum og gripdeildum.)

Um þessar mundir gefst sjaldgæft tækifæri til að skipta út krónunni fyrir annan gjaldmiðil, vegna þess að óvenjulega fáar krónur eru í umferð.  Bankakerfið er nýhrunið, gírun í sögulegu lágmarki, fullt af lánum verða afskrifuð og hlutabréf lítils virði.

Slík skipti geta gerst annað hvort í einni atrennu, með samkomulagi við ESB, Norðmenn eða aðra aðila, eða í áföngum með því að fyrst sé tekin upp tenging krónu við annan gjaldmiðil, sem bökkuð yrði upp af ECB, norska seðlabankanum, þeim íslenska, IMF og/eða öðrum aðilum.  Danska krónan er sem kunnugt er innan ákveðins ramma ("currency board") í samvinnu við ECB.  Slíkt fyrirkomulag mætti hugsanlega taka upp samhliða aðildarviðræðum við ESB.

Hvað sem öðru líður, verður að taka ákvörðun mjög skjótt, kynna hana og keyra á framkvæmdina.  Annars er verið að leika sér að eldinum, og nóg eru áföllin samt.


Hvað misfórst? - Vandinn í hnotskurn

Egill Helgason og fleiri eru að reyna að finna sökudólga og nornir til að brenna, en umræðan er ennþá fálmkennd og óljós.  Hér er mín greining á því sem misfórst, í hnotskurn og aðalatriðum:

  • Bankar fóru offari í að lána til eignarhaldspýramída þar sem rekstrarfélög voru skuldsett upp í topp, síðan eignarhaldsfélög sem áttu rekstrarfélögin, og svo hluthafar eignarhaldsfélaganna einnig.  Með þrefaldri gírun á hverju þrepi var heildargírun undirliggjandi rekstrar orðin sirka 27-föld og eigið fé innan við 4%, þannig að ekkert mátti út af bera áður en pýramídinn hrundi.  Þarna vantaði bæði varkárni af hálfu bankanna og eftirlit/reglur.
  • Bankar fóru fram hjá reglum um lánveitingar til hluthafa í gegn um peningamarkaðssjóði og aðra sjóði á vegum rekstrarfélaga sinna.  Peningamarkaðssjóðir, sem áttu að vera öruggir og auðseljanlegir (liquid) keyptu jafnvel tregseljanleg fyrirtækjabréf á borð við bréf Stoða og Baugs.  Þetta voru forkastanleg vinnubrögð.  Þarna brugðust sjóðsstjórar, stjórnendur bankanna og Fjármálaeftirlitið, og hlýtur að koma til álita hvort farið hafi verið út fyrir ramma laga og reglna.
  • Bankar byggðu á frelsi EES til að sækja innlán til Evrópulanda af miklu kappi.  Að hluta var þetta gert í gegn um útibú en ekki dótturfélög, og þar af leiðandi á ábyrgð íslenskrar innistæðutryggingar.  Tryggingasjóður innlána var aðeins 1% af upphæð innlána og allt of lítill til að anna þessu verkefni.  Hér brugðust Fjármálaeftirlit og Seðlabanki, sem hefðu átt að tempra magn innlána sem tryggð voru á Íslandi, eða láta bankana leggja miklu stærri upphæðir í tryggingasjóðinn.
  • Bakland bankanna var of veikt til að styðja þá í hröðum vexti og síauknum skuldbindingum í erlendri mynt.  Seðlabankinn hefði annað hvort þurft að slá á vöxtinn með sínum verkfærum (m.a. bindiskyldu) eða - það sem best hefði verið - að við hefðum átt að færa okkur yfir í ESB og evru fyrir löngu.  Þá væri ekki sá stóri gjaldeyrisvandi sem nú blasir við.

Á meðan allt ofangreint var í gangi, var peningamálastefna Seðlabankans aðeins til þess að hella olíu á eld.  Krónunni var haldið of sterkri með hávaxtastefnunni, meðan gjaldeyrissjóði var ekki safnað til mótvægis.

Þetta er í hnotskurn það sem misfórst - og hin alþjóðlega fjármálakreppa var svo skjálftinn sem felldi spilaborgina.

P.S. Hér er fín greining úr Financial Times, eftir Richard Portes.


Endurræsing krónunnar

Krónumarkaðurinn er um þessar mundir eins og bílvél sem hefur drepið á sér og þarf að ræsa á ný í frosti.  Seðlabankinn er búinn að reyna að snúa svisslyklinum en gleymdi bensíngjöfinni og innsoginu.

Ræsingin er verulega vandasöm.  Til hennar þarf mikinn gjaldeyrisforða.  Hversu mikinn?  Jú, svo mikinn að menn sjái engan tilgang í því að hamstra gjaldeyri.  Forðinn verður að vera svo mikill og trúverðugur að markaðurinn sannfærist um að til frambúðar verði hægt að skipta á krónum og gjaldeyri á sanngjörnu verði; ekki bara einhverja daga, vikur eða mánuði, heldur næstu árin.   Þá hverfur tilhneiging til hamsturs og smám saman færist jafnvægi yfir á ný.

Þarna er heilmikil leikjafræði, stærðfræði og sálfræði að baki.  Ef forðinn er nógu stór, mun bankinn ekki þurfa að nota nema lítinn hluta hans.  Ef forðinn er ekki nógu stór, mun hann klárast og við  verðum verr sett en áður - púðrið búið í byssunni.

Tilraun Seðlabankans til að hefja gjaldeyrisviðskipti á föstu gengi í vikunni með því að selja 6 milljónir evra á dag var því miður hlægileg og grátleg í senn.  Maður verður að vona að þeir sem stýra málum í bankanum séu ekki að vanmeta og misskilja verkefnið gjörsamlega.

Aðalbankastjórinn er manna hrifnastur af krónunni.  Núna verður hann að sýna að unnt sé að endurræsa krónumarkaðinn, svo við getum þrjóskast áfram í þeirri samfélagstilraun að halda úti minnstu fljótandi mynt í heimi, af því að það er svo mikið sjálfstæði í því, eða eitthvað.  Til þess þarf gjaldeyrisforða talinn í mörg hundruð eða sennilega á annað þúsund milljarða.

Hinn möguleikinn er að opna lúgu í Seðlabankanum þar sem Marteinn Mosdal tekur við gjaldeyrisumsóknum í þríriti.

Ef við værum með evru, væri þetta vandamál ekki til staðar, og ýmis önnur ekki heldur.


Klúðurlisti Seðlabankans

Listinn yfir risamistök Seðlabankans lengist stöðugt.  Hversu langur þarf hann að verða áður en stjórnendur þar verða látnir sæta ábyrgð?

Hér eru nokkur atriði sem ég man eftir í svipinn, en áskil mér rétt til að bæta við listann:

  • Að láta hjá líða að byggja upp gjaldeyrisforða meðan jöklabréfin hrönnuðust upp og fyrirsjáanlegt var að mikið magn gjaldeyris myndi hverfa aftur frá landinu
  • Að skirrast við að nýta heimildir laga nr. 60/2008 sem Alþingi afgreiddi á leifturhraða í lok maí sl. til að taka allt að 500 milljarða lán til styrkingar gjaldeyrisforðanum
  • Tímasetning og form Glitnisyfirtökunnar sem eyðilagði lánshæfismat ríkisins og varð til þess að erlendir bankar drógu til baka fyrri loforð um gjaldeyrislínu, á ögurstundu
  • Ekkert samband við norræna seðlabanka varðandi það að draga á lánalínur
  • Síendurtekin mistök í samskiptum við markaði og fjölmiðla, m.a. að vera með vefsíðu sem klikkar þegar mest liggur við
  • Að gefa út fast gengi krónu með óljósum hætti svo enginn vissi hvort átt væri við evru eða gengisvísitölu
  • Að gefa út fast gengi krónu án þess að geta staðið við það með nægilegu gjaldeyrismagni, og draga það svo til baka eftir að hafa valdið óþarfa ruglingi og óvissu
  • Verulegar stíflur og markaðsbrestir á skuldabréfamarkaði vegna ófullnægjandi framboðs á innistæðubréfum eða öðrum ríkistryggðum aðferðum til að binda fé
  • Ófullnægjandi rökstuðningur í beiðni til Seðlabanka Bandaríkjanna um skiptasamning
  • Tilkynning um lánssamning við Rússa sem reyndist röng og þurfti að afturkalla, einmitt þegar trúverðugleiki skiptir öllu máli
  • Að sjá ekki til þess að Tryggingasjóður innstæðueigenda yrði efldur í samræmi við gríðarlegan innlánavöxt
  • Að herða ekki bindiskyldu eða grípa til annarra tiltækra ráða, ef áhyggjur voru af hröðum vexti viðskiptabankanna
  • Að einblína allt of lengi á öfgakennda hreintrúarstefnu um hávexti í stað þess að hugsa um fjármálastöðugleika, annað aðalmarkmið Seðlabanka
  • Að láta hjá líða að gera viðbragðsáætlun um hvað gera skyldi ef banki lenti í lausafjárkreppu, þannig að allir vinklar hefðu verið metnir fyrirfram og bestu leiðir lægju fyrir
  • Að slá umræðu um ESB aðild og evruupptöku út af borðinu

Ég spyr aftur: hversu lengi á þessi listi að halda áfram að lengjast?  Er hægt að bjóða þjóðinni, og umheiminum, upp á þessa hörmung öllu lengur?  Halda þessir menn að þeir séu að reka sjoppu?


Illskásti kosturinn

Aðgerðir ríkisstjórnarinnar sýnast mér talsvert skárri en þær hefðu getað orðið.

  • Ríkið leggur bönkunum ekki til aukið hlutafé eða lánsfé með beinum hætti.  Það er gott að stjórnmálamenn setji hag komandi kynslóða ofar hag hluthafa og lánveitenda bankanna, sem þrátt fyrir allt tóku meðvitaða áhættu.
  • Áhersla er lögð á að vernda almenna sparifjáreigendur og eigendur innistæðna.
  • Framkvæmdin hvílir á Fjármálaeftirlitinu og þar er stjórnarformaður Jón Sigurðsson fyrrverandi viðskipta- og iðnaðarráðherra og bankastjóri Norræna fjárfestingarbankans (NIB).  Jóni treysti ég manna best til að fara með hið nýfengna vald FME af ábyrgð og gætni.

Það sem vantar er aðallega tvennt: að skýrt verði hvernig eigi að styðja við krónuna, og til lengri tíma, að undirbúa umsókn að ESB.  Umsókn myndi draga fjárfesta að íslenskum skuldabréfum og inn í krónuna, vegna þess að þeir sæju fram á skipti yfir í evru, og agaðri hagstjórn í framtíðinni.

Svo þarf að finna leið til að vinda ofan af hlutafjárframlaginu í Glitni, sem var vanhugsuð aðgerð.

En þetta er illskásta byrjunin sem völ var á, á flóknu og erfiðu ferli.


Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta

Til er fyrirbæri sem heitir Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, sem er stofnaður skv. lögum nr. 98/1999 í samræmi við EES reglur.

Í innistæðudeild sjóðsins voru um síðustu áramót 8,3 milljarðar króna.

Til samanburðar þá voru innlán í íslensku viðskiptabönkunum á miðju ári sem hér segir:

Kauping 1848 milljarðar

Glitnir 710 milljarðar

Landsbanki 1617 milljarðar

Samtals 4175 milljarðar, meðan tryggingarsjóðurinn er rúmir 8 milljarðar.   (P.S. 6. okt.  Ég sé á vef talsmanns neytenda að tryggingasjóðurinn er sagður vera 13 milljarðar og hafa aðgang að 6 milljarða ábyrgðum til viðbótar.)

Tryggingasjóðurinn á að vera a.m.k. 1% af tryggðum innistæðum.  Munurinn liggur sennilega í því að hluti innistæða i íslensku bönkunum er frá EES löndum þar sem þær eru væntanlega (vonandi) tryggðar í þarlendum tryggingarsjóðum.

Tryggingarsjóður innlána virðist samt tæplega duga upp í nös á ketti ef einhver bankanna lendir í þroti.  Það hlýtur því að koma til viðbótarframlags úr ríkissjóði til að standa við orð forsætis- og viðskiptaráðherra um að allar innistæður séu tryggðar.

Ég tek fram að ég mæli ekki með því að taka innistæður út úr bönkum.  En svör stjórnvalda í þessu efni mættu vel vera greinarbetri og skýrari, það er lágmarkskurteisi við almenning.


Æ tóld jú só

Beturvitrungurinn í mér krefst þess að fá útrás, með því að endurbirta færslu af þessu bloggi sem upphaflega birtist 21. janúar síðastliðinn (fyrir rúmlega 8 mánuðum).  Feitletranir eru nýjar:

Krísa í vændum; Seðlabankinn í vanda

Nú hrannast upp óveðursský á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.  Á eftir undirmálslánunum kemur skuldatryggingakrísa þar sem í ljós mun koma að ýmsir sem selt hafa slíkar tryggingar geta ekki staðið við þær þegar á reynir (sbr. AMBAC, MBIA o.fl. í Bandaríkjunum).  Fleiri dómínókubbar munu falla, og valda bönkum búsifjum.  Þeir hamstra lausafé á viðsjárverðum tímum og hætta að lána peninga, sem aftur kemur illa við fjölmörg fyrirtæki sem eru veðsett upp í rjáfur eftir skuldsettar yfirtökur.  Bandarískir neytendur eru að vakna með timburmenn eftir eyðslugleði undanfarinna ára sem hefur verið fjármögnuð með ódýrum húsnæðislánum og glórulausum fjárlagahalla.  Kreppa þar í landi smitar út frá sér og hefur áhrif á hagkerfi heimsins.

Á Íslandi þýðir þetta að aðgangur bankanna okkar að lánsfé erlendis verður erfiðari og lánin verða dýrari.  Bankarnir draga þar með úr lánveitingum og vaxtamunur þeirra hverfur, verður reyndar neikvæður.

Krónunni hefur verið haldið uppi með hávöxtum en jafnvel það mun ekki duga þegar alþjóðlegir fjárfestar flýja yfir í öruggari hafnir.

Seðlabankinn er milli steins og sleggju; hann á erfitt með að lækka vexti án þess að styggja jöklabréfaeigendur og spákaupmenn enn frekar, sem veldur krónufalli og verðbólgu.  Hins vegar er orðið verulega nauðsynlegt að huga að öðru markmiði bankans, sem er stöðugleiki fjármálakerfisins.  Bankakerfið vantar aðgang að lausafé og það gerist ekki nema krónum verði dælt inn í kerfið og vextir verði lækkaðir.

Við endum í krísu og ég sé enga leið út úr henni nema að taka upp evruna eins og hratt og hægt er, enda var aðeins tímaspursmál hversu lengi krónan - þessi örmynt - gæti átt sjálfstætt líf á samtengdum fjármálamörkuðum heimsins.

Á meðan þetta gengur yfir ráðlegg ég engum að kaupa hlutabréf og allra síst í bönkum og fjármálafyrirtækjum, en bendi enn og aftur á ríkistryggð og verðtryggð skuldabréf (HFF).  Þau eru langskynsamlegasti innlendi fjárfestingarkosturinn í þessari stöðu, og reyndar öfundsverður valkostur fyrir fjárfesta í alþjóðlegu samhengi.  Vona að sjóðsstjórar lífeyrissjóða átti sig á þessu en er ekki bjartsýnn á það.

 


Næsta kynslóð beðin afsökunar

Í fyrradag tók ég í hönd sonar míns, sem verður 21 árs í nóvember, og bað hann afsökunar fyrir hönd minnar kynslóðar á því að við skilum af okkur gjaldþrota þjóðarbúi.

Hann hefur góða dómgreind og er því að læra klassísk fræði, þ.m.t. grísku og latínu, í Háskóla Íslands.  Það er menntun sem mölur og ryð fá ekki grandað.

Í sígildum bókmenntum er margur vísdómurinn um mannlegt oflæti og fall þeirra sem fara með himinskautum.  Vængir úr vaxi bráðna jú þegar flogið er of nærri sólinni, eins og Íkarus fékk að reyna.


Hefur Glitnir tapað 90 milljörðum á Stoðum?

Ég heyri ekki betur en að Sigurður G. Guðjónsson, stjórnarmaður í Glitni, segi í þessu viðtali á Stöð 2 að Glitnir tapi 90 milljörðum á greiðslustöðvun (og hugsanlegu gjaldþroti) Stoða?

Ef rétt er, þá er það grafalvarlegt mál.


Evruskortur veldur búsifjum

Í umræðu um vandræði Glitnis kom fram lykilstaðreynd sem vakti samt ekki mikla athygli.  Bankinn hefði hugsanlega getað skrapað saman krónum fyrir dollaraafborguninni sinni - en við það að kaupa dollarana hefði krónan látið undan.  Krónumarkaðurinn hefði m.ö.o. ekki þolað þessa færslu.

Krónan er orðin svo veik að það er enginn reiðubúinn að taka hana í skiptum fyrir dollara eða evrur.  Bankar hvarvetna liggja á reiðufé sínu eins og ormar á gulli, og lána það ekki einu sinni til annarra banka, hvað þá að láta það í skiptum fyrir örgjaldmiðil eins og íslenska krónu.

Íslenskir bankar, fyrirtæki og einstaklingar eru skuldsett í erlendum gjaldmiðli.  Það á eftir að verða verulega vandasamt að finna einhvern til að selja okkur gjaldeyri fyrir krónur til að endurgreiða lánardrottnum erlendis.  Þetta er ástæðan fyrir því að krónan hrapar ört þessa dagana.  Það treystir henni enginn sem geymslumáta fyrir verðmæti (store of value), sem er eitt aðahlutverk gjaldmiðils.

Sú fixídea íslenskra stjórnmálamanna sumra, að halda í krónuna af forpokuðum smákóngaástæðum, veldur okkur núna verulegum búsifjum, umfram þær sem annars hefðu orðið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband