10.9.2009 | 22:23
Loksins fagmaður í stóli Seðlabankastjóra
Ég gladdist yfir snöfurmannlegum viðbrögðum Más Guðmundssonar, vors nýja Seðlabankastjóra, þegar blaðamaður Fréttablaðsins hringdi í hann og þýfgaði um svör við spurningum. Már sagði blaðamanninum að í engu öðru landi myndi blaðamaður hringja óforvarandis beint í Seðlabankastjóra og ætlast til að fá svör. Þetta er alveg hárrétt hjá Má og ánægjulegt að sjá þessi fagmannlegu viðbrögð.
Alvöru seðlabankar tjá sig ekki með óábyrgu geipi við einstaka fjölmiðlamenn sem dettur í hug að hringja í stjórnendur þeirra eða starfsmenn. Miðlun upplýsinga frá Seðlabankanum á að vera í föstum og öguðum farvegi. Annars skapast tvenns konar óreiða. Í fyrsta lagi væru blaðamenn að túlka orð bankastjóra úr tveggja manna tali með sínum hætti og alls óvíst að rétt væri farið með það sem segja átti. Í öðru lagi er afstaða Seðlabankans hverju sinni mjög markaðsmótandi og getur til dæmis hreyft verð skuldabréfa, krónunnar og jafnvel hlutabréfa töluvert. Óvarleg ummæli geta þannig orðið að innherjaupplýsingum, og markaðsaðilar sitja ekki lengur við sama borð hvað varðar aðgang að upplýsingum úr bankanum.
Það að Seðlabankastjórar skuli hafa leyft sér í gegn um tíðina að blaðra við blaðamenn með handahófskenndum hætti, og þá jafnvel tiltekna blaðamenn frekar en aðra, er dæmi um hið ófaglega gamla Ísland sem þarf að skilja við sem fyrst. Már Guðmundsson er greinilega með þetta á hreinu, og það er vel.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 11.9.2009 kl. 17:41 | Facebook
Athugasemdir
Þetta er örugglega grín-færsla hjá þér er það ekki? Hæðni og öfugmæli?
Soffía (IP-tala skráð) 10.9.2009 kl. 23:22
Neibb, meina hvert orð.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.9.2009 kl. 23:24
Ég er afar ánægð með valið á Má í stöðu Seðlabankastjóra og tek undir með þér Vilhjálmur. Það er mikið gleðiefni að við skulum loks hafa fengið fagmann með mikla reynslu í þetta starf.
Hólmfríður Bjarnadóttir, 11.9.2009 kl. 01:30
Sammála því að Seðlabankastjóri á að gefa yfirlýsingar sínar á blaðamannafundum ... en erlendir blaðamenn (t.d. frá Reuters) eiga þá að sitja við sama borð og blaðamaður Fréttablaðsins.
Valdi (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 10:06
Ég er nú ekki viss um hversu mikill fagmaður Már er.
Er hann ekki höfundur hávaxtastefnunnar sem sett allt á hausinn hér?
Sigurjón Jónsson, 11.9.2009 kl. 10:20
Ég er sammála því að gott er að ljúki geðþóttafleipri seðlabankastjóra út og suður. Um fagmennsku nýs seðlabankastjóra finnst mér erfitt að ræða.
Er hann eitthvað annað og meira en kerfiskall á góðum aldri ? Það á eftir að koma í ljós, en ekki leiftrar frumleikinn af byrjun hans í bankanum. Í kastljósi nýlega var Már þessi spurður um peningamálstefnuna sem hann er sagður aðalhöfundur að og hefur virkað svona eins og þjóðin þekkir. Ekki var annað að heyra en hann teldi þetta góða stefnu. Þegar verðtrygging var afnumin af launum en viðhaldi á fjárskuldbindingum, varaði sá merki hagfræðingur,Gunnar Tómasson, við og taldi um stórkostleg hagstjórnarmistök að ræða - sem rækilega hefur sannast. Er nýr seðlabankastjóri að leita leiða út úr því kerfi? Hef ekki heyrt þess getið.
Staða okkar nú leiðir til þeirrar niðurstöðu að fjármálum okkar hafi löngum verið ráðið af vitleysingum - það er ekkert nýtilkomið, en maður gat nú leyft sér að vonaHaukur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 11:55
Það verður að mínu mati að halda tvennu til haga: Már er höfundur þeirrar peningastefnu sem hér hefur verið við lýði og skósveinar hans Þórarinn G og Arnór hafa framfylgt eftir að hann fór til BIS. Einnig þá finnst manni skjóta skökku við að velja enn einn seðlabankastjórann sem er með pólitíska fortíð, hljóta að vera hæfir hagfræðingar þarna úti sem eru a) ekki höfundar ónýtrar peningastefnu og b) ekki gamlir fylkingarmenn (eða með fortíð í pólitík yfir höfuð)
Gísli (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 12:07
Upp með alpahúfuna!
Auðun Gíslason, 11.9.2009 kl. 13:16
Er ekki nær að spyrja hversvegna einhverjir blaðmenn hafi yfirleitt aðgang að Má í gegnum beinan síma ef hann vill hafa fulla stjórn á við hverja og þá hvenær hann vill ræða við þá?
Guðmundur 2. Gunnarsson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 15:14
Sammála hverju orði hjá Vilhjálmi. Seðlabankastjórar verða að gæta sín sérstaklega á hvað út úr þeim kemur og við hvaða tækifæri.
Í framhjáhaldi er kannski ástæða til að minnast á að eins og svo oft i íslenskri umræðu er athyglisvert hversu margir hér að ofan reyna að byrja tala um allt annað en málshefjandi, svo sem peningastefnuna eða pólitíska fortíð Más. Erlendis kalla menn þá sem reyna að stela umræðuþráðum tröll og þykir ekki fínt. Á Íslandi er slík hins vegar alsiða, enda velkjast menn sem önnur tröll helst um í tittlingaskít og orðhengilshætti.
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 15:38
Ummælin hér að ofan um tröll og tittlingaskít er ekki hugsuð til að stela þræðinum (það sem helst hann varast vann...), svo vinsamlegast lítið á þau sem stunu fremur en framlag til umræðu. (og auðvitað voru þau í framhjáhlaupi en ekki upp í rúmi hjá viðhaldinu :-) )
Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 15:52
Það væri lang-sniðugast að árangurstengja þessa karla;
Láta þá fá 0,0....1% eitthvað af þjóðarhag alveg eins og um skipstjóra á skipi væri um að ræða
Seðlabanka-stjóri færi þá væntanlega hægar í veð & útlán til einkabanka og ríkis.
Mr. Jón Scout Commander (IP-tala skráð) 11.9.2009 kl. 16:10
Réttmæt ábending hjá Ómari. Það er of snemmt að dæma um hvernig Má tekst upp við viðfangsefnið, sem er mikil áskorun. En ég fagna því sem sagt að fyrstu skrefin hjá honum eru traustvekjandi. Og þau viðtöl sem hann hefur veitt Bloomberg og Reuters (væntanlega eftir sérstöku samkomulagi þar um) hafa verið gáfuleg, mun gáfulegri en við höfum átt að venjast af okkar fínu Seðlabankastjórum til þessa.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 11.9.2009 kl. 17:39
Góður!
kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 11.9.2009 kl. 21:04
Sæll Vilhjálmur. Ég ætla ekki að tjá mig að sinni um Má seðlabankastjóra sem í dag reynir í Mogganum að draga fram að hann sé í reynd mikill hægri maður. Sýnir að Már er farmsýnn og veit að Sjálfstæðisflokkurinn kemur til baka og því rétt að byrja strax að koma sér í mjúkinn þar á bæ þeir gleyma ekki að Davíð var rekinn. Látum kyrrt liggja. það sem mig langar að nefna við þig er hvort þú vildir ekki segja okkur með blogg-grein sýn þína á þróun bankakerfisins á næsta áratug ? Til að koma þér af stað ætla ég að setja fram sýn mína á nokkur atriði sem gaman væri að fá sýn þína á.
1. Í dag er engin arðsemiskrafa á hendur ríkisbönkunum sem gerir það að verkum að starfsfólk hefur engann hvata til að "skapa" tekjur og á meðan hrakar bönkunum hvern einasta dag. 2. Án arðsemiskröfu verður vinna í bönkunum mjög ómarkviss, þjónustulund hverfur og enginn hefur áhuga á að kynna nýjar "vörur" / produkt til sögunnar. 3. Fyrrum yfirmenn í bönkunum voru í flestum tilvikum kraftmesta fólkið í bönkunum, þetta fólk er nú farið og með því bæði drifkraftur og hugmyndaauðgi ( Vilhjálmur Bjarnason mundi segja að farið hafi fé betra en Vilhjálmur Bjarna segir nú svo margt sem ekki má taka alvarlega ) 4. Kraftmikla fólkið mun og er þegar byrjað að stofna litlar "fjármála-boutique" til að sinna sínum gömlu kúnnum, hvort heldur er fjárvarsla eða ráðgjöf og kaup og sala fyrirtækja. Bankarnir sem sitja eftir með starfsmenn á þessum sviðum sem áður voru óneitanlega ekki í "fyrsta flokki" munu því ekki geta boðið eða keppt um tekjuskapandi þjónustu á þessum sviðum. 5. Ergo, það sem bíður bankanna er að verða gamaldags retail-bankar í átt við það sem hér var fyrir 1990. 6. Hefðbundnir retailbankar þurfa ekki þann aragrúa af fólki sem nú er í bönkunum þannig að fækka þarf um allt að 500 manns í ríkisbönkunum þremur. Þín sýn Vilhjálmur ? Með kveðju HH
Heiða (IP-tala skráð) 14.9.2009 kl. 20:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.