Til hvers þarf gjaldeyrisforða?

Ýmsir virðast álíta að það sé úrelt bábilja að gjaldeyrisforði styrki gjaldmiðla og komi í veg fyrir sveiflur.  Þeir hinir sömu ættu að mínu mati endilega að skrifa um þetta greinar og birta í ritrýndum hagfræðitímaritum, því  þeir gætu átt möguleika á Nóbel fyrir stórmerkar nýjungar í peningahagfræði.

Eins og ég hef útskýrt í fyrri bloggfærslum, þá snýst tilvist gjaldeyrisforða ekki síst um sálfræði og leikjafræði.  Ef markaðurinn veit að forðinn er enginn, eða að það er prinsipp að beita honum ekki, þá hafa spákaupmenn frítt spil að veðja á móti gjaldmiðlinum og vita að það verður engin mótstaða í því veðmáli.  Það verður nánast áhættulaus högnun (arbitrage) að skortselja gjaldmiðilinn og því fleiri sem taka veðmálið, því "betra" verður það.

Ef forðinn er á hinn bóginn nógu stór og trúverðugur, og menn hafa talað nægilega digurbarkalega um að beita honum ef þurfa þykir, þá sjá spákaupmenn að þeir muni - jafnvel með hópefli - ekki ná að brjóta niður mótstöðuna, og reyna það því ekki.  Svo það sé sagt aftur og skýrt: Ef forðinn er nógu trúverðugur, þarf aldrei að beita honum.  Það er staðan sem menn vilja vera í, þegar krónunni er fleytt.

Ég er hálfgáttaður á því hvað fólk, sem jafnvel gefur sig út fyrir að hafa reynslu úr viðskiptalífi, á erfitt með að skilja þennan einfalda sannleik - sem er viðtekinn á mörkuðum hvarvetna.

Síðan er það þannig i framhaldinu, að það mun ávallt þurfa stóran og dýran forða til að verja krónuna.  Það er einn liður í margvíslegum kostnaði sem við berum af þessum örsmáa gjaldmiðli, en aðrir liðir eru hærri vextir (hærra áhættuálag), verðtrygging, og aukinn kostnaður við sveifluvarnir hjá fyrirtækjum.

Það er ein af fjölmörgum ástæðum þess að við eigum tvímælalaust að stefna á upptöku evru, eins fljótt og auðið er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Fannar frá Rifi

hvernig fór fyrir gjaldeyrisvaraforða Rússa í byrjun síðasta áratugar? hvernig fór fyrir pundinu sem var beintengt markinu eftir að einn maður ákvað að fella það? gjaldeyrisvaraforði í okkar tilfelli sem er tekinn að láni og myndi gera okkar gjaldþrota ef hann tæmdist er ótrúverðugur og gagnslaus.

Fannar frá Rifi, 10.10.2009 kl. 14:02

2 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Vilhjálmur 

Gjaldreyrisforði landa með frjálst fljótandi gengi þarf ekki að vera eins stór og hjá löndum sem eru með höft eða beina eða óbeina tengingu við eitthvað annað. Það er nóg að aðilar markaðarins skilji það mikilvæga signal að þeir munu verða teknir með í fallinu ef árás er gerð - og að engin trygging sé  fyrir því að gengið rétti sig við aftur til að þeir svo geti velt áhættunni áfram og komið henni í verð. Þetta er besta vopnið. 

En besta vopnið er góð hagstjórn og þá með fljótandi gengi. 

Þetta með forðann og FX-swap línur er mál sem er ávallt í hlutfalli við stærð myntarinar. Þegar evran féll um 30% gagnvart dollar árið 2000 þá reyndu bæði ESB og FED í sameiningu að koma henni til bjargar, en það var eins og að pissa í sjóinn. Ekkert hjalpaði það. Upphæðirnar sem þurfti til voru svo stjarfræðilegar. Þær voru ekki til. 

Gjaldeyrisforði Ísland er mjög stór nú þegar á alþjólegan mælikvarða, miðað við stærð hagkerfisins. Nú eru bankanir dauðir. Það voru yfirfærslur ofvaxins bankakerfis Ísland sem ollu vandræðunum. Þær voru spákaupmennskuknúnar í of miklum mæli. Nú þarf að helypa krónunni frjálsri aftur. Gleymið þessu með risavaxinn forða. Það þarf ekki. Enginn mun nenna að spá gegn krónunni eftir að bankarnir drápu sig á því.

Kveðjur 

Gunnar Rögnvaldsson, 10.10.2009 kl. 14:06

3 identicon

Er gjaldeyrisvaraforði sem gjaldþrota þjóð tekur að láni "traustur forði" ?

Því hefur mar verið lýst yfir að það eigi ekki að nota forðann, hann sé bara til að sýnast.

 Það er líka algerlega á hreinu, að það má ekki nota hann, við höfum bara alls ekki efni á því.

 Ég er ekki hagfræðingur, en ég tel það þó blasa við að gjaldeyrisvaraforði hjá gjaldþtora þjóð sem ALLUR er tekinn að láni, og ríkisstjórn hefur líst yfir að megi ekki nota sé ekki "traustur gjaldeyrisvaraforði".

Þú villt kannski útskýra hvaða gagn er af forða sem allir vita að hvorki má, né er hægt að nota í nokkurn skapaðann hlut því það myndi endanlega gera út um gjaldþrot landsins?

Sigurður #1 (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 14:12

4 identicon

"...ættu að mínu mati endilega að skrifa um þetta greinar og birta í ritrýndum hagfræðitímaritum, því  þeir gætu átt möguleika á Nóbel fyrir stórmerkar nýjungar í peningahagfræði."

Í Cambridge Journal of Economics 2008 32(5):665-681 er grein sem heitir "Is the accumulation of international reserves good for development?". Þar er því haldið fram að nauðsyn stórra gjaldeyrisvaraforða sé ofmetin í þróunarlöndum. Ein ástæðan sé möguleiki á stjórnun fjármagnsflæðis og önnur kostnaður þess að viðhalda forðanum (venjulega um 1% af VLF, líklega hærri fyrir Ísland). Þrátt fyrir að Ísland teljist varla til þróunarlanda er hægt að finna nokkra góða punkta sem eiga við á Íslandi í dag.

Ég tek það fram að ég er ekki endilega á þeirri skoðun að Ísland þurfi ekki lánið. Hins vegar tel ég mikilvægt að skoða allar hliðar málsins, trúa ekki í blindni.

Páll Kvaran (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 14:31

5 identicon

Það er alveg ljóst að stærsti hlutinn af gjaldeyrislánunum sem við ætlum að taka eiga eftir að notast til þess að greiða út krónubréfin sem eru milli 6 og sjö hundruð milljarðar.

Ef við ætlum að styrkja gjaldeyrisforðan sem þessu nemur og taka síðan gjaldeyrishöfin af þá flæðir gjaldeyririnn út. Þá skuldum við gjaldeyrislán fyrir um sjö hundruð milljarða og engin gjaldeyrir til. Það er ekki skynsamlegt.

Það er ekki stærð gjaldeyrisforðans sem setur rétt gengi á krónuna. Krónan er rétt skráð þegar viðskiptajöfnuðurinn er í kringum núllið. Ég  sé ekki að við getum aflétt gjaldeyrishöftunum í nánustu framtíð.

Það þarf alltaf að regla ríkisfjármálin þannig að viðskiptajöfnuðurinn sé engin. Þannig verður krónan alltaf rétt skráð. Ef ekki er hægt að gera það með fljótandi gengi þá einfaldlega er ekki hægt að láta gengið fljóta.

Ríkisstjórn undandarinna ára skildi þetta ekki og þessvegna fór sem fór. Það gengur ekki að vera með viðskiptahalla uppá tugi eða hundruð milljarða ár eftir ár

Það er ekki skynsamlegt að taka lán sem eru rúmlega sú upphæð sem krónubréfin eru til þess að styrkja gengið og aflétta síðan gjaldeyrishöftunum.

Lang stærsta vandamálið okkar er vegna gömlu krónubréfanna. Ég tel betra að skoða hugmyndir Lilju Mósesdóttur um að skattleggja útflæði á gjaldeyri.

Þórhallur Kristjánsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 14:46

6 identicon

þetta er smjörklípa.

Á meðan við horfum á þetta mál og ósköpumst yfir því að ekkert gangi, þá líður tíminn, atvinnulífið tikkar (allavega þeir sem hafa tekjur í erlendri mynt) og peningurinn rúllar inn.

Svo eftir nokkra mánuði af pattstöðu, allir orðnir andstuttir af bræði, þá bara gufar þetta upp og gleymist og þá verður engin þörf á AGS, IceSave, stækkun á gjaldeyrisvarasjóði eða öðrum þeim hlutum sem við einblínum á núna.

lausnin er bara að gera ekki neitt, þumbast áfram, halda öllu niðri og taka svo stöðuna eftir hálft ár

Einar Einarsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 14:55

7 identicon

"hvernig fór fyrir gjaldeyrisvaraforða Rússa í byrjun síðasta áratugar? hvernig fór fyrir pundinu sem var beintengt markinu eftir að einn maður ákvað að fella það? gjaldeyrisvaraforði í okkar tilfelli sem er tekinn að láni og myndi gera okkar gjaldþrota ef hann tæmdist er ótrúverðugur og gagnslaus. "

Þessi dæmi er tekin þegar peningastjórnunin fólst í fastgengisstefnu og opnu hagkerfi. Það er fyrir löngu búið að sannreyna að í frjálsu fjármagnsflæði er marklaust að halda uppi fastgengi.

"Þetta með forðann og FX-swap línur er mál sem er ávallt í hlutfalli við stærð myntarinar. Þegar evran féll um 30% gagnvart dollar árið 2000 þá reyndu bæði ESB og FED í sameiningu að koma henni til bjargar, en það var eins og að pissa í sjóinn. Ekkert hjalpaði það. Upphæðirnar sem þurfti til voru svo stjarfræðilegar. Þær voru ekki til. "

Aftur dæmi um þegar verið að reyna að halda uppi ákveðnu föstu krossgengi innan tiltekinna vikmarka.

"Gjaldeyrisforði Ísland er mjög stór nú þegar á alþjólegan mælikvarða, miðað við stærð hagkerfisins."

Innistæður í íslenskum bönkum er mjög stórar í alþjóðlegan mælikvarða.

"Því hefur marg verið lýst yfir að það eigi ekki að nota forðann, hann sé bara til að sýnast."

Þetta er einmitt rökin fyrir því að nauðsynlegt er að hafa stóran sjóð til að brenna þá sem ætli sér að leika sér í stöðutökum. Hver segir að það séu aðeins útlendingar sem muni leika sér. Af hverju ekki íslenskir spákaupmenn. Þarf ekki einnig að ná að brenna þá !!

Því stærri sem gjaldeyrissjóðurinn er því öflugri verður staða Seðlabankans og því minni líkur eru á því að spákaupmenn geti lesið út strategíska stöðutöku. Segjum svo að búnar séu til gríðarlegar skortstöður á IKR í EUR 210 sem eiga að losna á tilteknum tíma. Hver ætli tapi meira ef gengi IKR verði réttu megin við skortstöðuna t.d. 180-200; svari hver fyrir sig !

Það þarf nefnilega ekki að brenna marga spákaupmenn til að þeir láti IKR í friði.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 15:01

8 identicon

"Það er alveg ljóst að stærsti hlutinn af gjaldeyrislánunum sem við ætlum að taka eiga eftir að notast til þess að greiða út krónubréfin sem eru milli 6 og sjö hundruð milljarðar. "

Hver segir það ? Segjum svo að einhverjar hræddar krónur vilji fara frá landinu þá viljum við ekki að þær fari á góðu gengi er það. Til þess þurfum við góðan sjóð til að tryggja að eðlileg sveiflujöfnun verði að fjárflæði á gjaldeyrismarkaði. Í þessu felst ekki að við ætlum að halda uppi óraunhæfu gengi. Algjör miskilningur.

Sterkur sjóður gefur Seðlabankanum öflugt vopn til að brenna þessar hræddu krónur nánast í orðsins fyllstu merkingu.

"þetta er smjörklípa. "

Í grundvallar atriðum rangt hjá þér:

1) Gjaldeyrishöftin grafa okkur dýpra niður í kreppuna. Þau eru aðeins tímabundin aðlögun max 2 ár til að komast yfir versta hjallann.

2) Gjaldeyristekjur okkar í dag duga ekki til að byggja upp og laga það sem þarf að laga.

3) Fjármagn leitar þar sem fyrirstaðan er minnst. Gjaldeyrishöft eru mikil fyrirstaða !

4) Höfnun á samstarfi við AGS er einnig höfnun á þeirri aðstoð sem aðrar þjóðir hafa heitið okkur. Við getum eflaust komist í gegnum þennan skafl án AGS en það tekur miklu miklu lengri tíma og verður mun erfiðara.

5) "...þumbast áfram" í sömu fótsporum leiðir til að EES samningurinn verður rifinn af okkur.

Ég hvet fólk að lokum að hugsa aðeins hlutina í stærra samhengi.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 15:15

9 identicon

Þökk fyrir þennan pistil og þá sem á undan komu, ekki síst peningamarkaðsbréfauppgjörið. Ég hef lengi svipast um eftir þeim upplýsingum, en sé þær fyrst á heimasíðu listmálara í Skerjafirði. Það er umhugsunarvert. Eru ekki aðrir menn í fullri vinnu við að matreiða þetta fyrir fólkið í landinu?

Ljóst er að stórfelld ríkisafskipti þarf til að viðhalda stöðugleika gjaldmiðilsins. Er þá ekki alveg eins gott og miklu ódýrara að gera það með sköttum eða höftum á gjaldmiðilsbrask (háar upphæðir sem ekki tengjast öðrum atvinnurekstri)?

Í annan stað segir þú að "við" þurfum að greiða hærri vexti. Nú er staðan sú núna að fólk fær mínus 5% raunvexti á sparifé, miðað við um 11% verðbólgu sem hefur verið nokkuð stöðug um hríð (þvert á spár). Útlánavextir eru í sama stíl, þó vaxtamunur sé reyndar grunsamlega hár. Hvar á byggðu bóli njóta lántakendur hagstæðari vaxta en á Íslandi um þessar mundir?

Nú vísar þú hugsanlega í vexti við aðrar aðstæður til lengri tíma, og það er vissulega rétt að raunvextir hafa verið ívið hærri á Íslandi en víðast annars staðar. Munurinn er þó ekki nema 1-2% þegar til lengri tíma er litið. Hverjir græða á því? Er það ekki unga fólkið sem leggur fyrir til að kaupa sér húsnæði? Lífeyrissjóðir sem eru traustari en víðast annars staðar í heiminum? Fólk sem kaupir húsnæði sem er því dýrara sem vextir eru lægri!

Haraldur Ólafsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 15:16

10 identicon

"Hver segir það ? Segjum svo að einhverjar hræddar krónur vilji fara frá landinu þá viljum við ekki að þær fari á góðu gengi er það. Til þess þurfum við góðan sjóð til að tryggja að eðlileg sveiflujöfnun verði að fjárflæði á gjaldeyrismarkaði. Í þessu felst ekki að við ætlum að halda uppi óraunhæfu gengi. Algjör miskilningur."

Gjaldeyrishöftin voru sett hér á vegna þess að ekki var til gjaldeyrir til þess að greiða jöklabréfin út.

Það er vegna jöklabréfanna sem við erum í mestum vandræðum. 

Ef  við aukum gjaldeyrissjóðin um sömu upphæð og jöklabréfainnistæðan er  og síðan afletta höftunum þá eru allar líkur á því að lítið yrði eftir af gjaldeyrissjóðnum.

Skynsamlegra er að skattleggja útflæði gjaldeyris. Einnig er skynsamlegt að hafa krónuna sem veikasta þegar höftin verða tekin af.

Ég hef ekki áttað mig á því afhverju jöklabréfin fóru ekki með þrotabúi gömlu bankanna. Hvernig stendur á því að milli sex og sjö hundruð milljarðar læstust hér inni við hrunið.  Ef einhver getur upplýst mig um hvernig þetta gerðist þá væri það vel þegið

Þórhallur Kristjánsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 16:06

11 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Sæll Vilhjálmur. Það mun vera viðurkennt að hverri þjóð sé nauðsynlegt að eiga sér gjaldeyrisforða og ég efast um að íslendingar hugsi öðruvísi en aðrir hvað það varðar.

Við vitum að gjaldeyrisforði íslendinga var geymdur í London áður en breskir skelltu á hryðjuverkalögunum, en því hefur aldrei verið svarað HVAÐ VARÐ UM ÞANN GJALDEYRISFORÐA?

Kolbrún Hilmars, 10.10.2009 kl. 17:13

12 identicon

Það hefur engin lagt til að gjaldeyrisvaraforðinn verði lagður niður. Menn hafa hinsvegar efast um gagnsemi þess að bæta 6-700 milljörðum af lánsfé ofan á það sem fyrir er þar sem skuldastaða ríkisins leyfir ekki að tekin sé nein áhætta með það fé.

Af þeim sökum eiga leikjafræðirökin ekki við.

Það eina sem risaforðinn gerir er að bjóða heim hættunni á því að seðlabankinn reyni - þvert á alla skynsemi-  að spyrna við gengisfalli sem hlytist af flótta jöklabréfafjár í miklum mæli og myndi þá hæglega geta sett ríkið endanlega á hausinn.

Svo er vaxtakostnaðurinn litlir 20 milljarðar á ári. 

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 17:22

13 Smámynd: Finnur Bárðarson

Það þarf ekki fleiri færslur en Vilhjálms til að sannfæra mig.

Finnur Bárðarson, 10.10.2009 kl. 17:34

14 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Það er smá ruglingur í gangi hér um hugtök, þ.e. hvað menn kalla jöklabréf og hvað ekki.  Jöklabréf (glacier bonds) eru gefin út af erlendum útgefendum, t.d. Toyota í Japan og Kreditanstalt für Wirtschaft í Þýskalandi, en í íslenskum krónum.  Það er ekki íslenska ríkið eða Seðlabankinn sem skuldar eigendum bréfanna krónur, heldur Toyota eða KfW.  Þegar að gjalddaga jöklabréfa kemur, þurfa útgefendur þeirra strangt til tekið að útvega krónur til að greiða eigendunum, en reyndar hafa fæstir eigendanna áhuga á að eiga krónur til lengdar og vilja helst skipta þeim í evrur.  Það fer því alveg eftir aðstæðum og forsögu hvort jöklabréfagjalddagar veiki krónuna nettó eða ekki - þeir geta líka skapað eftirspurn eftir krónum.

Það sem skiptir á hinn bóginn meira máli eru eignir útlendinga í íslenskum innistæðum og íslenskum ríkisskuldabréfum.  Þeir peningar eru eftir atvikum óþolinmóðir að komast út, og því óþolinmóðari sem vextir eru lægri, lánshæfismat ríkisins verra o.s.frv.

Það sem ég segi í pistlinum um gjaldeyrisforða, sálfræði og leikjafræði á fyrst og fremst við þegar krónunni er fleytt - til að koma í veg fyrir högnun á spákaupmennsku, aðallega þá skortsölu.  Það á hins vegar ekki að nota gjaldeyrisforða til lengdar til að viðhalda fölsku gengi, það er alveg laukrétt.  Gengið verður að finna sitt jafnvægi, sem ræðst af viðskiptajöfnuði og væntingum markaðarins um framtíðina (til dæmis myndu væntingar um skipti yfir í evru í boði ECB hjálpa krónunni mikið).  En það náttúrulega jafnvægi finnst, án öfgasveiflna, ef trúverðugur gjaldeyrisforði er til staðar og krónan studd með vöxtum og gætilegri peningastefnu í gegn um viðkvæmasta tímabilið, fyrst eftir fleytingu.  Þegar jafnvægi er náð má slaka á klónni smám saman og þá verður jafnframt ekki þörf fyrir jafn stóran forða og í upphafi.

Kolbrún: gjaldeyrisforði Seðlabankans er fyrir hendi og er ekki týndur.  Það hefur hins vegar nokkuð gengið á hann og hann þarf að vera stærri áður en krónunni er fleytt á ný.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.10.2009 kl. 17:40

15 identicon

Sæll Vilhjálmur,

eitt þarf samt að hafa í huga, þ.e. að við "eigum" ekki núverandi gjaldeyrisvaraforða, við erum með hann að láni og þurfum að greiða hann til baka.

Pétur Blöndal þingmaður hefur oft talað fyrir því að almenningur eigi að eiga "varaforða"/sparnað upp á ca. þriggja mánaða laun til að geta tekist á við áföll.

Það að fá gjaldeyrisvaraforðann að láni er svipað eins og ég færi í Íslandsbanka og tæki yfirdrátt til að leggja inn á sparireikning í Nýja Kaupþingi til að "eiga" þriggja mánaða varaforða !

Það getur verið skynsamlegt að  vera með hann að láni meðan við söfnum okkar eigin, en þá er erfitt að nota hann og það vita þeir sem hann á að hræða og þá er leikjafræðin farinn út um gluggan 

Pétur

Pétur Richter (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 17:44

16 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Hans: Bara kjánar myndu einblína á skuldastöðuna en taka ekki með í reikninginn eign á móti, sem er í reiðufé á reikningi hjá Federal Reserve Bank of New York.  Þú ert í hópi þeirra sem vilja halda í krónuna, en virðist ekki tilbúinn til að greiða þann kostnað sem af því hlýst, það "iðgjald" sem greiða þarf til að tryggja hana í ólgusjó.  Þú vilt sem sagt bæði eiga kökuna og borða hana.  Það væri fínt ef það gengi upp.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.10.2009 kl. 17:45

17 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Pétur: við höfum forðann að láni hjá AGS til a.m.k. þriggja ára, það er nægur tími til að komast í gegn um fleytinguna og rastirnar þar á eftir.  Og AGS bakkar okkur upp til viðbótar, það er í "Staff Report" minnst á að við fáum aðgang að viðbótar neyðarlínum ef á þarf að halda - þetta er aftur fyrst og fremst leikjafræðilegt atriði.

Ég vona reyndar að við verðum komin langleiðina í ERM II eftir þrjú ár, þá þarf ekki að hafa jafn miklar áhyggjur af því hvaðan eigi að fá gjaldeyri - krónan verður þá varin innan vikmarka af ECB.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.10.2009 kl. 17:49

18 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Vilhjálmur,

Hvað með alla þá íslensku innistæðieigendur sem munu standa í röðum til að koma í ISK yfir í alvörugjaldeyri og alvöru fjárfestingarmöguleika erlendis?

Andri Geir Arinbjarnarson, 10.10.2009 kl. 17:56

19 identicon

Þú segir sjálfur:

"Það sem ég segi í pistlinum um gjaldeyrisforða, sálfræði og leikjafræði á fyrst og fremst við þegar krónunni er fleytt - til að koma í veg fyrir högnun á spákaupmennsku, aðallega þá skortsölu.  Það á hins vegar ekki að nota gjaldeyrisforða til lengdar til að viðhalda fölsku gengi..."

Til hvers þarf þá að fara með gjaldeyrisvaraforðann upp í þessar risafjárhæðir?

------------

Fyrir mitt leiti efast ég ekki um nauðsyn þess að eiga varaforða en mér þykir það ekki hafa verið útskýrt að neinu viti hvernig það á að vera gagnlegt að hafa forða sem er stærri en svo að það megi nota hann.

20 milljarða iðngjald af tryggingu sem ekki veitir neina vernd þykir mér full mikið.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 17:57

20 identicon

Það var hávaxtastefna Seðlabankans sem lokkaði hingað erlenda fjárfesta sem lokuðust inni þegar bankakerfið hrundi. 

Í raun var seðlabankinn að greiða niður viðskiptahallann með gjaldeyrinum sem kom svona inn í landið. þegar gjaldeyrir flæddi hingað inn vegna hávaxtanna þá styrktist krónan og þegar bankarnir hrundu var Seðlabankinn búin að eyða gjaldeyrinum.

Brandarinn er sá að í dag erum við að keyra ríkisfjármálin eftir sömu aðferð það er að segja með verðbólgumarkmiði og hávöxtum.

Núna erum við einfaldlega að greiða útlendingum sem eiga hér 6-7 hundruð milljarða mjög háa vexti. Af því leiðir að þótt vöruskipti séu jákvæð mánuð eftir mánuð þá er viðskiptajöfnuðurinn neikvæður vegna hárra vaxtagreiðslna.

Það þarf að skipta um stefnu í peningamálum. Það þarf að lækka vexti mjög mikið. Þannig mundi vöruskiptajöfnuðurinn smá saman byggja upp gjaldeyrisforða.

Einnig á að einblina á viðskiptajöfnuðinn og passa að hann verði ekki neikvæður. Hann þarf að haldast jákvæður þar til búið er að losa allar erlendu krónurnar út úr kerfinu. Eftir það á að stjórna ríkisfjármálunum þannig að viðskiptajöfnuðurinn sé nálægt núlli. Það ætti að vera helsta markmið seðlabankans.

Ef það væri gert væri allt í lagi að hafa krónuna. Þannig væri krónan rétt skráð.

Þórhallur Kristjánsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 18:26

21 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Andri Geir: Einmitt, það má alls ekki gleyma Íslendingum, sem þurfa vitaskuld sjálfir að trúa á það sem hér er framundan.  Þar er ég stórhræddur við þá skattastefnu sem kenna má við Indriða H. Þorláksson, og felst í að hóta eða ýja að óskilgreindum en gríðarháum sköttum sem kunni að verða lagðir á í framtíðinni.  Slík stefna gerir ekkert nema að minnka skattstofna, með því fæla fjármagn úr landi og koma í veg fyrir að menn þori að koma með peninga til landsins.  Betra væri að tala skýrt og ákveðið um hvernig skattarnir verði í framtíðinni, þannig að menn viti að hverju þeir ganga hér.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.10.2009 kl. 18:48

22 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þórhallur: Það er margt rétt í þessu hjá þér, en það stendur eftir sem áður að til að verjast spákaupmennsku, einkum við fleytinguna, þá þarftu öflugan forða.

Hans: Mér sýnist þú eiga það sameiginlegt með Ögmundi Jónassyni að hafa ekki lesið áætlun AGS eða "Staff Report" sem henni fylgdi.  Þar er þessi upphæð, $5.1 milljarður, reiknuð út og rökstudd.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 10.10.2009 kl. 18:50

23 identicon

Það er brjálæði að ætla að fleyta krónunni og afnema gjaldeyrishöftin þegar svona  háar upphæðir bíða eftir þvi að komast út.

Við verðum að hafa gjaldeyrishöftin á áfram. Það verður síðan að semja við erlenda eigendur innistæða meðan höftin eru á og hleypa þeim rólega út framhjá höftunum. Þetta gæti tekið langan tíma. En það er algerlega nauðsynlegt að lækka vexti strax til þess ð byrja að byggja upp gjaldeyrisforða.

 Það hefur í raun aldrei komið fram hverjir eiga þessar innistæður sem skráðar eru á erlenda aðila.  Ætli gömlu útrásarvíkingarnir eigi ekki einhvern hluta af þessu í gegnum leynifélög.

Einnig held ég að skynsamlegt væri að skattleggja útflæði gjaldeyris. 

Þórhallur Kristjánsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 19:00

24 identicon

Sæll Vilhjálmur

Þetta eru áhugaverðar pælingar hjá þér.  Það sem ég er dauðhræddur við að það sama gerist hér á Íslandi og í Argentínu.  Fjármagnseigendur sem eiga hér fé hlaupa allir til og skipta krónunum sínum í dollar/evru sem verður til þess að gjaldeyrissjóðurinn klárast. 

Eftir stendur Ísland í sama skítnum, með lítinn gjaldeyrisvarasjóð og núna með viðbótar 6,5 milljarða dollara skuld á bakinu frá AGS og Norðurlöndunum.    Ofan á þetta bætist svo IceSave (1-2 millj. dollara ef uppgjör Landsbanka fer að óskum), skuldir Landsvirkjunar (2,7 millj. dollara 31/12/2008), eldri skuldir ríkisins (eins og t.d. "barnalánið" u.þ.b 1 millj. dollara) og skuldir sjávarútvegsins beint við banka erlendis.  Heildar skuldbinding ríkis og ríkisstofnana m.v. að IceSave verði samþykkt og gangi að óskum og að gjaldeyrisforðinn einfaldlega klárist = 12,2 millj. dollara.

Það er mjög erfitt að greiða upp fyrir land sem er með heildar útflutning upp á sirka 3,6 milljarða dollara  að greiða slíka upphæð til baka m.v. að árið 2009 stefni í að heildarafgangur af vöruskiptum við útlönd verði um 0,5 milljarð dollara sem rétt dugi til að greiða vexti af pakkanum (0,49 millj. dollara mv 4% vexti) þrátt fyrir að árið 2009 verði metár í afgangi af vöruskiptum við útlönd.

 Þetta dæmi gengur einfaldlega ekki upp ef svo mikið sem smá af gjaldeyrissjóðinum verður notaður til að vernda gengið því það mun ekki koma inn á móti því sem streymir út, peningarnir fara en koma ekki aftur.  Þetta vita spákaupmennirnir sem hendir leikjafræðirökunum út um gluggann.  Þú gleymir einnig að það verða að vera einhverjir mótaðillar í öllum stöðutökum.  Hver yrði svo vitlaus að taka langa stöðu í IKR á þessum umbrótartímum á móti spákaupmanninum?

Að öðru að þetta sé einfaldlega einhver redding þangað til við tökum upp evru því það er ljóst að Ísland uppfyllir ekki skilyrði um lága skuldsetningu til að fá að taka upp evru.  Ef þessi leið um aukinna skuldsetningu til að blása aftur upp lánablöðru hér á Íslandi í óarðbærar fjárfestingar eins og tónlistarhús og nýjan Landspítala mun landið endanlega fara á hliðina.

Þú leysir ekki lánakreppu með meiri lánum, nú þarf einfaldlega að herða beltið og sýna alla þá hörku sem hægt er til að tryggja það að sem minnst af erlendum lánum leggist á þjóðarbúið.  Ef það verður gert verður sársaukinn verri árin 2010 - 2013 en með möguleika að við komumst út úr þessu og rísum sterkari en fyrr, með viðráðanlegar skuldir með allar okkar auðlindir.  Klárlega þarf að lyfta gjaldeyrishöftunum og krónan að finna botninn sem mun verða mjög sársaukafult en ekki viðvarandi ástand. 

 Hin leiðin er að pissa í skóinn (auknar lántökur) og fórna útlimum (landinu) fyrir skammtíma varma (sterkara gengi, framkvæmdir árin 2010-2013).

Sigurður Hermannsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 19:21

25 identicon

Smá leiðrétting

Þetta átti að vera "barnalánið" og fleiri lán - alls 1 millj. dollara.

Sigurðru Hermannsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 19:22

26 identicon

Eins og staðan er í dag er Ísland stútfullt af krónum, hefur víst aldrei verið jafnmikið af krónum í umferð.

Þessar krónur eru bæði í eigu erlendra og íslenskra fjárfesta.

Það er ljóst að mikið af þessum krónum langar að gerast evrur enda litlir vaxtamöguleikar fyrir krónur á Íslandi í dag.

Þegar gjaldeyrishöftum verður aflétt þá munu þessar krónur leita út algerlega burt frá allri leikjafræði eða gjaldeyrisvarasjóði.

Það eina sem við þurfum að gera upp við okkur hversu mikið ætlum við að niðurgreiða evrurnar með gjaldeyrisvarasjóðnum okkar.

Mér finnst að það sé búið að leggja nóg á herðar skattgreiðenda þótt þeir fari nú ekki líka að niðurgreiða þennan krónuflótta.

Í viljayfirlýsingu milli okkar og AGS segir

"17. Brýnasta verkefni Seðlabanka Íslands er að tryggja stöðugleika krónunnar og búa í haginn fyrir styrkingu engisins."

Ef seðlabankinn fylgir viljayfirlýsingunni sem hamrar líklega 10 sinnum á mikilvægi þess að halda stöðugu gengi, mun hann niðurgreiða evrurnar með þessum 5 milljörða dollara varasjóði.

Þannig að það er enginn óvissubreyta í þessu dæmi eftir því sem ég fæ best séð. Krónurnar fara út, seðlabankastjóri fylgir viljayfirlýsingunni (heldur á móti veikingu krónunnar) og skattgreiðendur borga brúsan.

Af hverju AGS?

Jú því það er reynt að sannfæra okkur um að við fáum greiðari aðgang að lánsfé.

Það bera að þakka okkar góðu nágrannaríkjum sem hafa hafnað að lána okkur fé á meðan útrásardólgar réðu hér ríkjum, enda hefðu þeir peningar horfið á einn eða annan hátt.

Ef við sýnum aðhald í ríkisfjármálum og skilum þokkalegum vöruskiptajöfnuði þá munum við fá lán fyrr en síðar.

Við eigum jú þessar blessuðu auðlindir. Einnig eigum við farsæla sögu sem ríki sem stendur við sýnar skuldbindingar. Þannig að kveðjum AGS og þökkum þeim fyrir að hafa aðstoðað okkur fyrsta árið, alveg óþarfi að skella hurðum.

Í framhaldi getum við lækkað vext og skattlagt flóttakrónur líkt og Malasía gerði með góðum árangri.

Ég er vissum að þessi kreppa verði gufuð upp á einu ári með þessum aðgerðum.

Hjalti Atlason (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 21:14

27 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Vilhjálmur.

Alltaf jafn skemmtilegar umræður sem fróðlegir pistlar þínir skapa.

Gætir þú svarað nokkrum spurningum frá mér til fróðleiks (aldrei þessu vant þá er ég ekki að rífast).

1.  Veistu um eitthvað annað alvöruland annað en Hong Kong, þar sem þessi leikjafræði þín hefur gengið eftir???

2. Þú segir að við verðum komin í gegnum rastirnar innan 3 ára.  Gott og vel, en hvernig ætlar þú að endurgreiða IFM sín lán????  Ég vona að í svari þínu íhugir þekkta sögu IFM gagnvart þeim þjóðum sem þurfa endurfjármögnun og komir því með einhvern raunhæfan valkost gegn spurningunni, "já, en hvað ef ?????".

3. Þú vísar í röksemdafærslu IFM fyrir þessum háa gjaldeyrisvarasjóði.  Gott og vel en er þá Már Seðlabankastjóri ólæs á þau rök?

Ástæða þess að ég spyr þig Vilhjálmur er sú að síðast þegar við ræddum þessi mál, þá gekkst þú út frá þeim yfirlýsingum stjórnvalda að þau ætluðu ekki að nota þessi lán, en núna færir þú sterk rök fyrir því hvernig þau verði notuð. 

Og það vekur upp nýjar spurningar.

Kveðja að austan

Ómar Geirsson, 10.10.2009 kl. 23:22

28 Smámynd: Benedikt Gunnar Ófeigsson

Úr viljayfirlýsingu stjórnvalda og AGS, 19. grein,

 Við erum reiðubúin til að nota gjaldeyrisforðann til að koma í veg fyrir of miklar sveiflur í gengi krónunnar.

úr grein Jóhönnu Sigurðardóttir í fréttablaðinu í gær

Áður en gjaldeyrishöftin verða afnumin þarf að sýna fram á að ríkið hafi tiltækan gjaldeyri til að standast mögulegt útstreymi fjáreigna íslenskra og erlendra aðila, og að sá gjaldeyrir sé vel fjármagnaður.

Í ljósi sögunar eru engar líkur á því að einhver leikjafræði hafi minstu áhrif við þessar aðstæður. Fullt af krónum vilja verða evrur alveg óháð því hversu óskynsamlegt það er og þegar höftunum verður aflétt, hverfur gjaldeyrisforðinn .

Hvað þá? Meiri lán frá AGS?

Benedikt Gunnar Ófeigsson, 11.10.2009 kl. 00:44

29 identicon

Af því ég sé að ofan að fólk er að minnast á Argentínu þá varð vandi þeirra til vegna þess að þeir héldu upp fastgengisstefnu á opið fjárflæði. Það gengur aldrei upp vegna þess að í löskuðu hagkerfi með slíka peningastjórnun myndast kjörin staða fyrir skortstöður og fjármagnsflótta.

Hér eru um 10 ár síðan fastgengið var tekið af. Þegar höftin verða afnumin verður krónan á floti en hver strategía Seðlabankans verður varðandi vikmörk, inngrip og kaup á gjaldeyri er væntanlega varðveitt.

Í annan stað hefur einnig verið spurt um hvað gerist þegar Seðlabankinn hefur gengið eitthvað á gjaldeyrisforðann og hann situr uppi með IKR. Hvernig fær hann aftur þá gjaldeyrinn til að borga AGS lánin ? Auðvelt, hann kaupir gjaldeyrinn þegar hann kemur til landsins vegna útflutnings og fær hann þá á spottprís ef hræddu krónurnar fóru á brunaútsölu - útflutningsverðmæti Íslands eru um 500 milljarðar á ári (vöru og þjónustusala).

Lykilatriði sem sagt að hafa ekki fastgengi við opnun markaðar.

Björn Kristinsson (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 00:50

30 identicon

ERT ÞÚ ÞESSI VILHJÁLMUR ÞORSTEINSSON,SEM ER Í SLAGTOGI VIÐ GUNNLAUG SIGMUNDSSON,ÞANN SAMA OG FÉKK KÖGUN GEFINS FRÁ RÍKINU.ERUÐ ÞIÐ MEÐ SAMEIGINLEGA SKRIFSTOFUR AÐ HELLUSUNDI 6,,EF SATT ER AÐ ÞÁ ERTU ÓMARKVERÐUR PENNI VILHJÁLMUR,ÞVÍ SÁ SEM ER BENDLAÐUR VIÐ GUNNLAUG ÞENNAN,ER EINNIG ÞÁ SJÁLFKRAFA BENDLAÐUR VIР FINN INGÓLFSSON  ÞAÐ ER EKKI VÆNLEGT Í DAG,OG VEIT EI Á GOTT. ER EITTHVAÐ TIL Í ÞESSU VILLI.????

Númi (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 09:45

31 identicon

Takk fyrir gott blogg Vilhjálmur,

Þú virðist treysta því að seðlabankinn fari vel með þennan gjaldeyrisvaraforða. Á sama tíma viltu að við förum í evruna.

Þeir sem vilja fara í evruna eru flestir þreyttir á lélegri peningastjórn á Íslensku krónunni eiginlega frá upphafi vega.

Þarna finnst mér rökleysan, að hafa allt í einu trú á því að seðlabankinn fari að haga sér skynsamlega við hið vandasama verk sem flotsetning krónunnar er. Þetta er sami seðlabanki með sömu aðalleikendum og sköpuðu þær aðstæður að við sitjum uppi með allar þessar flóttakrónur, með vonlausri peningastefnu á árunum 2004-2008.

Ef maður gæti treyst seðlabankanum fyrir því að eyða ekki gjaldeyrisforðanum þá er hann góðra gjalda verður enda virðast alþjóðlegu matsstofurnar mjög heitar fyrir varasjóðum.

Björn,

Samsvörunin við fastgengisstefnu Argentínu er gríðaleg áhersla í viljayfirlýsingunni á að gengið megi ekki lækka. Það eru ekki miklar líkur á að gengið hækki til að byrja með og þar með erum við í raun með fastgengisstefnu eða í besta falli flot með miklu aðhaldi.

Þess vegna eru nú áhyggjurnar að því að það verði ekki farið vel með þennan varasjóð.

Hjalti Atlason (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 09:49

32 Smámynd: d

Sæll Vilhjálmur.

Ber okkur skylda til að selja vogunarsjóðum krónur ef þeir vilja kaupa ?

Getum við sem sjálfstæð þjóð ekki komið í veg fyrir stórbrask glæpasamtaka með krónur ?

 Kv. Ármann Sigurðsson

d, 11.10.2009 kl. 10:34

33 Smámynd: Ómar Geirsson

Blessaður Björn.

Þar sem þú í innslagi þínu hér að ofan komst með visst svar við spurningu sem ég beindi til Vilhjálms, þá langar mig til að biðja þig að útskýra betur einfaldleika þess að Seðlabanki borgi lánin til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með því að kaupa krónur á markaði, þú bendir réttilega á að innflutningur er brúttó um það bil 500 milljarðar.

1. Skekkir sú staðreynd, að á móti tekjum útflutningsgreinanna  kemur gífurlegur innflutningur á aðföngum, ekki jöfnu þína.  Við flytjum til dæmis ekki ál út (sem skýrir þessar miklu útflutningstekjur) ef við flytjum ekki inn súrál.  Og útflutningsfyrirtækin eru gífurlega skuldsett, sem og orkufyrirtækin.

2. Ef málið er svona einfalt, af hverju var Seðlabankinn að taka dýr erlend lán á árunum 2006-2008 til að styrkja gjaldeyrisforðann, gat hann ekki keypt gjaldeyrinn á markaði hér.

3. Ef það er svona auðvelt að borga upp lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins með því að kaupa gjaldeyrinn  þegar hann kemur til landsins, af hverju er það ekki bara gert á morgunn, af hverju þarf fyrst að fá lán hjá IFM, og borga af þeim vexti í erlendri mynt.  Dæmið hlýtur að vera jafnauðvelt núna eins og eftir 3 ár.

Vona að þú íhugir þetta svo umræðan geti flotið, alveg eins og gengið, sem þú hefur fært mjög góð rök fyrir.

Kveðja að austan.

Ómar Geirsson, 11.10.2009 kl. 10:44

34 identicon

Ef við erum með "ónýta" krónu - af hverju á þá að fleyta henni?  Hefur það gefist vel að láta gengið ráðast af markaði?   Í hverra þágu er verið að fleyta krónunni og er það örugglega hagkvæmt, ef það kostar gríðarlega fjármuni i vaxtagreiðslur.   Má ekki bara halda gjaldeyrishöftum og handstýra gengi hennar þar til eitthvað annað býðst? 

Gísli Gunnlaugsson (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 10:45

35 Smámynd: Andri Geir Arinbjarnarson

Við munum aldrei geta lyft gjaldeyrishöftunum ein og óstudd því okkur skortir traust og trúverðugleika.  Eina leiðin er að fá Evrópska Seðlabankann í lið með okkur til að auka trúverðugleikann og hjálpa okkur við að styðja við gengið innan ákveðinna marka.

Andri Geir Arinbjarnarson, 11.10.2009 kl. 14:28

36 identicon

Ágæt færsla. Hugmyndin um gjaldeyrisforða umfram það sem þarf beinlínis til að greiða fyrir viðskiptum byggir að sjálfsögðu á leikjafræði.

Lykillinn liggur hins vegar í því sem Vilhjálmur segir í færslunni "Ef forðinn er nógu trúverðugur..." Ég er fremur svartsýnn á að á að gjaldeyrisforðinn íslenski verði nokkru sinni nógu trúverðugur. Til þess er hagkerfið of lítið, og peningastjórnin um of drifin áfram af pólitískum amatörum. Ísland vantar sárlega bakhjarl á borð við Evrópska Seðlabankann til að ná trúverðugleika, eins og Andri Geir bendir á hér að ofan. Hvort sem trúðverðugleika er náð með þeim hætti eða með lántökum, þá er hann forsenda fyrir því að krónunni verði aftur ýtt á flot.

Ef hins vegar ekki þarf að auka gjaldeyrisforðann til að ná trúverðugleikamarki skv. leikjafræðum heldur aðeins til að tryggja nauðsynleg viðskipti, þá sparast mikið fé í vaxtakostnað. Mér kæmi ekki á óvart að það sé þetta sem Seðlabankinn er að athuga þessa dagana.

Það er hins vegar dagljóst að aðstoð AGS er líka þörf til að tryggja aðgang að gjaldeyri til greiðslu tiltekinna stórra afborgana á næstu árum, enda engir aðrir tilbúnir að lána Íslendingum eða opna lánalínur án aðkomu sjóðsins.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 20:29

37 Smámynd: Sigurgeir Orri Sigurgeirsson

Til að losna við byrðina sem krónan leggur á þjóðina ættum við að gjaldeyrismál frjáls og leggja niður sérstakan lögeyri á Íslandi. Hver og einn getur þá höndlað með þann gjaldmiðil sem hann kýs. Fyrirtæki sem selur vöru í dölum getur greitt laun í dölum, fyrirtæki sem selur vöru í evrum getur greitt laun í evrum, og svo framv. Í stað fyrirfram ákveðinna launa sem taka ekkert tillit til gengi vöru eða þjónustu á markaði er rettast að taka upp skiptahlutskerfi (eins og tíðkast hefur í sjávarútvegi um aldir), þannig að ef verð á vöru eða þjónustu hækkar, hækka laun til samræmis við það. Varðandi laun opinberra starfsmanna væri eðlilegast að miða við myntkörfu þeirra gjaldmiðla sem mynda tekjur ríkisins.

Sigurgeir Orri Sigurgeirsson, 11.10.2009 kl. 21:25

38 Smámynd: Héðinn Björnsson

En það er einmitt í þessu með að nota gjaldeyrisforðan sem hnífurinn stendur í kúnni því meðan forðinn er tekinn að láni og við höfum ekki færi á að greiða höfuðstólinn til baka er enginn séns að við getum notað hann í að styrkja krónuna. Þar með verður gjaldeyrisforðinn getulaus og því aðeins til trafala við að byggja upp raunverulegan gjaldeyrisforða af jákvæðum viðskiptajöfnuði.

Þar sem ekki er hægt að stytta sér leið gegnum lán munum við hinsvegar sitja uppi með gjaldeyrisstjórnun næstu árin og verðum við að venja okkur við þá tilhugsun.

Héðinn Björnsson, 13.10.2009 kl. 14:11

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband