1.10.2008 | 00:28
Enn um verðmæti Glitnisbréfa
Á föstudaginn var lokagengi hlutabréfa Glitnis 15,7 og útgefnir hlutir 14,9 milljarðar talsins, sem þýðir að markaðsverðmæti bankans var 234 milljarðar. Eigið fé hans var sléttir 200 milljarðar um mitt ár, þannig að fjárfestar voru tilbúnir að greiða 1,17 krónur fyrir hverja krónu eigin fjár á föstudaginn.
Í dag (þriðjudag 30. september) var lokagengi GLB 4,55 og útgefnir hlutir verða væntanlega 59,6 milljarðar ef díllinn hans Davíðs gengur í gegn. Markaðsverðmæti bankans er þá 271 milljarður, og eigið fé bankans væntanlega 286 milljarðar (200 plús nýja hlutaféð frá ríkinu). Nú eru fjárfestar þannig tilbúnir að greiða 0,95 krónur fyrir hverja krónu eigin fjár.
Þessa lækkun má skýra með því að fjárfestar telji að eitthvað hafi gengið á eigið fé bankans frá lokum 2. ársfjórðungs eða a.m.k. að líkur á afskriftum lána hafi aukist. Jafnframt hefur komið í ljós, með dramatískum hætti, að fyrri yfirlýsingar bankans um lausafjárstöðu og fjármögnun á þessu ári og næsta mörkuðust af óskhyggju, svo ekki sé fastar að orði kveðið.
Verðmatið hefur í þessum þrengingum færst nær því sem gengur og gerist um norræna og norður-evrópska banka um þessar mundir. Þannig er verð hverrar krónu eiginfjár 0,73 hjá Svenska Handelsbanken, 0,86 hjá DnB NOR og 0,85 hjá Danske Bank (skv Thomson Financial).
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
29.9.2008 | 15:33
Verðmæti Glitnisbréfa
Ríkið fær 75% hlut í Glitni fyrir 600 milljónir evra sem eru á dagslokagengi um 86,5 milljarðar króna.
"Á sléttu" þýðir það að 25% hlutur núverandi hluthafa er virði þriðjungs af þeirri upphæð eða 28,8 milljarðar. Útistandandi hlutir í Glitni eru 14,8 milljarðar að nafnverði (skv. Markaðsvakt Mentis) og því ætti gengi bréfa í bankanum að vera 1,94 þegar viðskipti hefjast. Gengið var 15,7 við lok viðskipta á föstudaginn.
Eignir Glitnis voru í lok 2. ársfjórðungs 3.863 milljarðar króna. Nýtt hlutafé ríkisins er 2,24% af þeirri upphæð. Með öðrum orðum dugir það til að verja bankann viðbótartapi upp á 2,24% af efnahagsreikningi.
Með þessari ráðstöfun um það bil tvöfaldast tapþol bankans, fer úr 87 milljörðum í 174 milljarða, miðað við hálfs árs reikninginn. Forsenda í þessum útreikninum er að CAD hlutfall fari ekki lægra en 8% sem er lágmark skv. reglum FME.
Málið er í reynd vitaskuld ekki svona einfalt. Forsendur og horfur hafa breyst frá lokum 2. ársfjórðungs, bæði til jákvæðrar og neikvæðrar áttar. Það verður því spennandi að sjá hvernig markaðurinn verðmetur Glitni þegar viðskipti hefjast á ný.
20.9.2008 | 23:39
Skortsala stuðlar að réttari verðmyndun á markaði
Yfirvöld í Bandaríkjunum og Bretlandi eru tilbúin að ganga furðu langt í því að fikta við gangverk markaðarins. Þau brúka fé skattborgara til að kaupa hlutafé og lánasöfn, og hjálpa þannig fyrirtækjum sem hafa komið sér í klemmu með óabyrgri og skammsýnni stjórnun. Nýjasta vendingin er að banna skortsölu (short selling) hlutabréfa í fjármálafyrirtækjum. Örlað hefur á slíkum hugmyndum í innlendri umræðu, m.a. í Fréttablaðinu í dag (laugardag).
Á markaði mætast mismunandi skoðanir og mat manna á verðmætum. Sumir kaupa meðan aðrir selja, á verði sem báðir telja viðsættanlegt. Um leið og krukkað er í þetta gangverk, verður verðmyndun óeðlileg, og það er engum til góðs til lengri tíma litið.
Á Íslandi hefði gjarnan mátt vera virkari skortsölumarkaður þegar mesta ruglið gekk yfir á hlutabréfamarkaði, þegar FL Group nálgaðist gengið 30 svo dæmi sé tekið. Skortsalar hefðu þá skipst á skoðunum við bolana með öflugri hætti og verð hefði náð jafnvægi á eðlilegri og skynsamlegri slóðum.
Skortsalar vigta sífellt vænta ávöxtun hlutabréfa á móti öðrum vöxtum sem bjóðast, t.d. á innlánum eða ríkisskuldabréfum. Með virkari skortsölumarkaði bíta vaxtahækkanir Seðlabanka mun betur á hlutabréfamarkaðinn en ella, og kæla hann niður, eins og til er ætlast.
Skortsölumarkaður á Íslandi hefur verið lítill, einkum vegna þess að lífeyrissjóðum er ekki heimilt að lána bréf úr söfnum sínum. Ég tel að það yrði til bóta, og vísa til reynslunnar af ítrekaðri ofhitnun markaðarins hér, að rýmka reglur um skortsölu frekar en að herða þær.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 21.9.2008 kl. 01:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
18.9.2008 | 17:59
Tapþol íslenskra banka
Forstöðumaður greiningardeildar Glitnis lét hafa eftir sér í gær að hann teldi að íslenskir bankar þyrftu samtals að afskrifa rúma 100 milljarða á þessu ári og því næsta.
M.a. í tilefni þessara orða gluggaði ég í árshlutareikninga bankanna og tók saman tapþol þeirra þriggja sem virkastir eru á innanlandsmarkaði og gera upp í krónum. Lágmarks eiginfjárhlutfall fjármálastofnana (CAD) eftir FME/Basel reglum er 8%. Á miðju ári var CAD hlutfall Kaupþings 11,2%, Glitnis 11,2% og Landsbankans 10,3%.
Tapþol Kaupþings var, skv. mínum útreikningum, á miðju ári 180 milljarðar króna, Glitnis 87 milljarðar og Landsbankans 78 milljarðar. Það eru sem sagt upphæðirnar sem eignir þeirra í útlánum, og eigið fé, má lækka um, án þess að CAD hlutfall fari niður fyrir 8% lágmarkið.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig þróunin verður í uppgjörum eftir þriðja ársfjórðung. Einhver töp hafa fallið á bankana í millitíðinni, en að sama skapi hefur eiginfjárstaða þeirra styrkst í krónum vegna veikingar krónunnar (bankarnir eru sem kunnugt er "langir" í gjaldeyri á móti krónu). Svo geta menn velt fyrir sér hversu mikil töpin eru líkleg til að vera á þessu og næsta ári.
14.9.2008 | 22:33
Stórfréttir í fjármálaheiminum - Lehman gjaldþrota?
Hver stórfréttin rekur nú aðra í fjármálaheiminum. Lehman Brothers virðist ekki ætla að takast að finna kaupanda og Paulson fjármálaráðherra segir ríkið ekki muni ábyrgjast skuldbindingar bankans. Ef að líkum lætur verður Lehman lýst gjaldþrota. Á sama tíma er Bank of America í viðræðum um að kaupa Merrill Lynch, annan stóran fjárfestingarbanka. Talið er að Merrill hefði getað orðið næsta fórnarlamb lánakrísunnar, en aðrir kandídatar í þá snöru eru tryggingafélagið American International Group og sparisjóðurinn Washington Mutual.
Gjaldþrot Lehman mun valda dómínóáhrifum meðal viðskiptavina bankans, sem ekki munu fá allar kröfur sínar og samninga greidda eða gerða upp. Þá munu skuldatryggingar (CDS) á bankann koma til greiðslu hjá þeim sem þær hafa selt. Hvort tveggja þurrkar upp lausafé og veldur frekari óvissu á mörkuðum.
Áhrif á Íslandi verða m.a. þau að enn frestast að skuldatryggingarálög íslenskra banka geti lækkað. Það veldur áframhaldandi erfiðleikum í fjármögnun banka og möguleikum þeirra á að lána til fyrirtækja og heimila, eða endurnýja eldri lán. Þá mun áhættufælni aukast og krónan gæti veikst.
Aðalvandi íslenska hagkerfisins um þessar mundir er ekki verðbólga, eins og forsætisráðherra heldur fram, heldur þverrandi fjármálastöðugleiki. Íslensk fyrirtæki eru allt of skuldsett (gíruð). Á komandi vetri verður gjaldþrotahrina sem mun reyna á eiginfjárhlutföll bankanna og valda atvinnuleysi. Á sama tíma verður erfitt að sækja nýtt lánsfé eða hlutafé á markaði. Seðlabankinn er allt of vanmáttugur til að bakka bankana upp svo nokkru nemi. Reyndar er vandséð að hann eigi að reyna það yfirleitt, enda mikilvægt að halda lánshæfi ríkisins eins ólöskuðu og kostur er.
Sem sagt, og því miður, þá er erfiður vetur framundan.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.9.2008 | 16:12
Morten Lund stofnaði ekki Skype
Smá leiðrétting við tuggu sem fjölmiðlar éta upp hver eftir öðrum: Morten Lund stofnaði ekki Skype og kom aðeins á takmarkaðan hátt að því félagi. Stofnendur Skype voru Niklas Zennström og Janus Friis, sem nú reka fjárfestingarfélagið Atomico ásamt fleirum. Hr. Lund kom að félaginu á seinni stigum og þá einkum sem ráðgjafi í markaðsmálum og þáði fyrir það þóknun, sem kann að hafa verið að hluta í hlutabréfum.
Morten Lund hefur sérhæft sig í því sem hann kallar "Venture Capital without the Capital", þ.e. hann kemur að sprotafyrirtækjum með ráðgjöf í markaðs- og ímyndarmálum og þiggur þóknun fyrir.
Aðaleigandi Nyhedsavisen segist blankur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
6.9.2008 | 00:42
Of mikið af föðurlandsást
Ég er nýkominn frá Washington DC. Þar var flokksþing Repúblikana á flestum sjónvarpsskjám eins og gefur að skilja. Meðal annars sá ég Fred Thompson fv. öldungadeildarþingmann flytja stuðningsræðu við McCain. Þar minntist hann á atburð úr Vietnam-stríðinu er fjöldi manns fórst á skipinu USS Forrestal, og lýsti því hvernig McCain var síðar handtekinn og vistaður við illan leik sem stríðsfangi ásamt félögum sínum. Allt átti þetta að vera vitnisburður um göfugar fórnir McCains og annarra fyrir land sitt. Gerður var góður rómur að þessum málflutningi og tár sáust á hvörmum viðstaddra í sjónvarpsútsendingunni.
Ekki datt hr. Thompson eða öðrum í hug að setja umfjöllunarefnið í víðara samhengi, og spyrja í kjölfarið hvers vegna verið var að etja ungu fólki út í slíkar hörmungar og dauða, og hverjir báru ábyrgð á því, og hvaða ávinningur sat eftir.
Víetnamstríðið var vitaskuld ein allsherjar endaleysa, þjónaði engum tilgangi, náði engum "árangri", gerði ekkert nema skaða. Hverjum er ekki sama í dag þótt Norður-Víetnamar hafi "unnið"?
Væri ekki nær fyrir Repúblikana að velta fyrir sér hvað fór úrskeiðis í Víetnam og reyna að læra af mistökunum, en að telja McCain það sérstaklega til tekna að hafa þolað fangavist í því vindmyllustríði? Það má þó vissulega hrósa þeim fyrir hugrekkið, eða fífldirfskuna, að taka stríðið upp sem umræðuefni. Það er eflaust gert í trausti þess að enginn fitji upp á samhenginu.
4.8.2008 | 21:52
Tekjublöð Frjálsrar verslunar og Mannlífs
Ósköp er það skrýtið fyrirbæri í íslensku þjóðlífi að hafa skattskrár opinberar, og enn skrýtnara að út komi "tekjublöð" sem selja má í 12 daga samkvæmt leyfi Tölvunefndar, með listum yfir nöfn og tekjutölur. Ég skammast mín það mikið fyrir þennan furðulega sið að ég hef ekki mannað mig upp í að segja erlendum samstarfsmönnum mínum frá honum, enda væri það til að styrkja þá trú þeirra að landið sé bananalýðveldi.
Ég er enda allnokkuð argur út í sjálfan mig fyrir að hafa asnast til að kaupa tekjublað Frjálsrar verslunar um helgina, en mig vantaði lesefni í sumarbústaðnum og lét freistast til að punga út heilum 949 krónum fyrir herlegheitin.
Nú er ekki nóg með að hugmyndafræðin í þessu sé óviðkunnanleg og vafasöm, heldur er útfærslan líka með eindæmum hroðvirknisleg.
Í fyrsta lagi getur í mörgum tilvikum verið um áætlanir skattstjóra að ræða og enginn greinarmunur gerður á þeim tölum og eiginlegum framtölum.
Í öðru lagi eru bara gefnar upp launatekjur (væntanlega byggðar á útsvari) en fjármagnstekjur vantar. Ef einhverjir telja svona útgáfu hafa "eftirlitshlutverk" þá fellur það um sjálft sig með þeim ágalla, því launin segja aðeins hálfa söguna.
Í þriðja lagi er listinn vaðandi í villum, þ.m.t. innsláttar- og stafsetningarvillum og því lítt traustvekjandi sem heimild. Nefna má að í upphafi er áréttað að um sé að ræða skattskyldar tekjur á árinu 2006, en á væntanlega að vera 2007. Augljóst er að yfirlestur er allur í skötulíki.
Í fjórða lagi er val nafna á listann í meira lagi sérkennilegt í mörgum tilvikum. Til dæmis birtir Frjáls verslun fjölda nafna erlendra starfsmanna Alcoa og Bechtel (sem reyndar er stafsett Bectel í blaðinu) ásamt tekjum þeirra, án þess að þessir starfsmenn hafi nokkuð til frægðar unnið eða útskýrt sé af hverju þeir verðskulda pláss á listanum - starfsheiti þeirra er ekki einu sinni birt, aðeins nafn. Hvurn fjárann varðar mig um tekjur einhvers "Clyde Hammud Craig, Alcoa"? Er FV að leggja lykkju á leið sína til að bjóða þessa ágætu starfsmenn velkomna til bananalýðveldisins Íslands?
Að sama skapi vantar ýmis nöfn, til dæmis forstjóra nýjasta fjárfestingarbankans, meðan nokkrir ágætir bændur ná inn á lista yfir "ýmsa menn úr atvinnulífinu" með sínar 300 þúsund krónur á mánuði, og verður að teljast ófréttnæmt með öllu. Þá veit ég ekki hvort Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson er með réttu með 758 eða 1.748 þúsund á mánuði, því hann er tvisvar á lista með sitt hvora töluna. Svona gæti ég haldið áfram og þreytt lesendur með fleiri dæmum, en læt staðar numið.
Sem sagt: er ekki í fyrsta lagi tóm vitleysa að halda áfram að birta skattskrár, og í öðru lagi fyrir neðan virðingu tímarita á borð við FV og Mannlíf að vera að eltast við að birta hroðvirknislega lista yfir persónulega hagi fólks sem valið er með höppum og glöppum? Og erum við svo sem mikið skárri, sem kaupum þennan fjára fyrir 949 krónur? Aldrei aftur!
Væri ekki fínt nýársheit fyrir fjármálaráðherra að binda enda á þessa leiðindahefð, og að öðrum kosti fyrir okkur hin að hætta að kaupa svona blöð?
15.7.2008 | 01:26
Verkefni næstu kynslóðar: að vinda ofan af olíuhagkerfinu
Ég á tvítugan son og átján ára gamla dóttur. Þeirra bíður það tröllaukna verkefni á starfsævinni að takast á við umbreytingu hagkerfisins frá olíu til annarra orkugjafa.
Margt mun breytast og sumt af því verður dýrt og sársaukafullt. Til dæmis er næsta víst að lífsgæði munu minnka á ýmsum sviðum áður en þau geta batnað aftur. Borgir sem eru hannaðar fyrir bíla munu eiga í erfiðleikum, því akstur einkabíla verður svo dýr að þeir verða aðeins notaðir "spari". Staðsetning verslunar og þjónustu mun breytast, og verðmunur á vel og illa staðsettum lóðum mun aukast. Ferðalög verða dýrari og meiri lúxus. Bandaríkjamenn munu þurfa að skipta út bílaflota sínum, sem er of eyðslufrekur, á allra næstu árum. Nýtt dreifikerfi fyrir orku þarf að koma í stað bensínstöðva og olíudreifingar. Til lengri tíma litið (en þó aðeins 20-30 ára) þarf að endurnýja alla bíla, flugvélar og skip og finna nýjar aðferðir til að beisla, geyma og flytja orku.
Allt útheimtir þetta miklar fjárfestingar og athygli mannkyns á næstu áratugum. Synir okkar og dætur munu því þurfa að bretta upp ermar og sætta sig við erfiðari kjör en foreldrar þeirra, nokkuð sem við erum óvön í ljósi nýlegrar sögu og almennrar trúar á framfarir.
Á Íslandi eigum við afar mikilvæga auðlind í hreinni og grænni orku, sem við þurfum að fara vel með og nýta á skynsamlegan hátt fyrir þessa sömu kynslóð. Ekki mun af veita.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.7.2008 | 23:54
Fannie og Freddie: krosstrén að bregðast?
Bandaríkjastjórn tilkynnir í kvöld um aðgerðir til bjargar Fannie Mae og Freddie Mac, helstu íbúðalánasjóða Bandaríkjanna. Ætlunin er að styrkja fyrirtækin með því að ríkið kaupi hlutabréf í þeim, og með því að heimila seðlabankanum að lána þeim lausafé.
Þetta er risastór og söguleg aðgerð á fjármálamarkaði. Fyrirtækin skulda 5.300 milljarða Bandaríkjadala, en til samanburðar skuldar ríkissjóður álíka upphæð, og þykir ærið. Ef ríkissjóður axlar í reynd ábyrgð á lánum Fannie og Freddie, er hann kominn með 10-11.000 milljarða á bakið. Leita þarf sérstakrar heimildar Bandaríkjaþings fyrir hækkun hámarksskuldabyrðar ríkissjóðs svo þetta sé mögulegt. Lánshæfiseinkunnir Bandaríkjanna gætu lækkað í kjölfarið.
Það er kaldhæðnislegt að Kína er stór eigandi skuldabréfa Fannie & Freddie, á 3-400 milljarða dollara í þessum bréfum a.m.k.
Hér er um að ræða eina stærstu pilsfaldakapítalisma-aðgerð sögunnar. Mér segir svo hugur að hrein frjálshyggja muni eiga erfitt uppdráttar næstu árin. Augljóst er að fjármálamarkaðir heimsins sykkju á sextugt dýpi ef skattgreiðendur hentu ekki til þeirra björgunarhringjum; gjaldþrot Bear Stearns hefði til dæmis haft ófyrirséðar og keðjuverkandi afleiðingar.
Næsta fýlubomban í bandarísku hagkerfi gætu verið eftirlaunaskuldbindingar fyrirtækja á borð við General Motors, Ford og Chrysler. Fátt virðist geta forðað GM frá greiðslustöðvun og hinir bílaframleiðendurnir standa ekki mikið betur. Þá er spurningin hversu margir tugir eða hundruð þúsunda fyrrum starfsmanna missa eftirlaunin sín að hluta eða öllu leyti. Mun ekki ríkissjóður þurfa að axla þær skuldbindingar einnig?
Það er sárgrætilegt að horfa upp á hversu illa hefur verið haldið á spilunum í bandarísku hagkerfi undanfarin ár og áratugi, og því miður sýpur heimurinn allur seyðið af því. Þá er nú hið blandaða sósíaldemókratíska kerfi betri kostur - það er þó í takt við raunveruleikann.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 14.7.2008 kl. 00:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)