Fannie og Freddie: krosstrén að bregðast?

Bandaríkjastjórn tilkynnir í kvöld um aðgerðir til bjargar Fannie Mae og Freddie Mac, helstu íbúðalánasjóða Bandaríkjanna.  Ætlunin er að styrkja fyrirtækin með því að ríkið kaupi hlutabréf í þeim, og með því að heimila seðlabankanum að lána þeim lausafé.

Þetta er risastór og söguleg aðgerð á fjármálamarkaði.   Fyrirtækin skulda 5.300 milljarða Bandaríkjadala, en til samanburðar skuldar ríkissjóður álíka upphæð, og þykir ærið.  Ef ríkissjóður axlar í reynd ábyrgð á lánum Fannie og Freddie, er hann kominn með 10-11.000 milljarða á bakið.  Leita þarf sérstakrar heimildar Bandaríkjaþings fyrir hækkun hámarksskuldabyrðar ríkissjóðs svo þetta sé mögulegt.  Lánshæfiseinkunnir Bandaríkjanna gætu lækkað í kjölfarið.

Það er kaldhæðnislegt að Kína er stór eigandi skuldabréfa Fannie & Freddie, á 3-400 milljarða dollara í þessum bréfum a.m.k.

Hér er um að ræða eina stærstu pilsfaldakapítalisma-aðgerð sögunnar.  Mér segir svo hugur að hrein frjálshyggja muni eiga erfitt uppdráttar næstu árin.  Augljóst er að fjármálamarkaðir heimsins sykkju á sextugt dýpi ef skattgreiðendur hentu ekki til þeirra björgunarhringjum; gjaldþrot Bear Stearns hefði til dæmis haft ófyrirséðar og keðjuverkandi afleiðingar.

Næsta fýlubomban í bandarísku hagkerfi gætu verið eftirlaunaskuldbindingar fyrirtækja á borð við General Motors, Ford og Chrysler.  Fátt virðist geta forðað GM frá greiðslustöðvun og hinir bílaframleiðendurnir standa ekki mikið betur.  Þá er spurningin hversu margir tugir eða hundruð þúsunda fyrrum starfsmanna missa eftirlaunin sín að hluta eða öllu leyti.  Mun ekki ríkissjóður þurfa að axla þær skuldbindingar einnig?

Það er sárgrætilegt að horfa upp á hversu illa hefur verið haldið á spilunum í bandarísku hagkerfi undanfarin ár og áratugi, og því miður sýpur heimurinn allur seyðið af því.  Þá er nú hið blandaða sósíaldemókratíska kerfi betri kostur - það er þó í takt við raunveruleikann.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband