Stórfréttir í fjármálaheiminum - Lehman gjaldþrota?

Hver stórfréttin rekur nú aðra í fjármálaheiminum.  Lehman Brothers virðist ekki ætla að takast að finna kaupanda og Paulson fjármálaráðherra segir ríkið ekki muni ábyrgjast skuldbindingar bankans.  Ef að líkum lætur verður Lehman lýst gjaldþrota.  Á sama tíma er Bank of America í viðræðum um að kaupa Merrill Lynch, annan stóran fjárfestingarbanka.  Talið er að Merrill hefði getað orðið næsta fórnarlamb lánakrísunnar, en aðrir kandídatar í þá snöru eru tryggingafélagið American International Group og sparisjóðurinn Washington Mutual.

Gjaldþrot Lehman mun valda dómínóáhrifum meðal viðskiptavina bankans, sem ekki munu fá allar kröfur sínar og samninga greidda eða gerða upp.  Þá munu skuldatryggingar (CDS) á bankann koma til greiðslu hjá þeim sem þær hafa selt.  Hvort tveggja þurrkar upp lausafé og veldur frekari óvissu á mörkuðum.

Áhrif á Íslandi verða m.a. þau að enn frestast að skuldatryggingarálög íslenskra banka geti lækkað.  Það veldur áframhaldandi erfiðleikum í fjármögnun banka og möguleikum þeirra á að lána til fyrirtækja og heimila, eða endurnýja eldri lán.  Þá mun áhættufælni aukast og krónan gæti veikst.

Aðalvandi íslenska hagkerfisins um þessar mundir er ekki verðbólga, eins og forsætisráðherra heldur fram, heldur þverrandi fjármálastöðugleiki.  Íslensk fyrirtæki eru allt of skuldsett (gíruð).  Á komandi vetri verður gjaldþrotahrina sem mun reyna á eiginfjárhlutföll bankanna og valda atvinnuleysi.  Á sama tíma verður erfitt að sækja nýtt lánsfé eða hlutafé á markaði.  Seðlabankinn er allt of vanmáttugur til að bakka bankana upp svo nokkru nemi.  Reyndar er vandséð að hann eigi að reyna það yfirleitt, enda mikilvægt að halda lánshæfi ríkisins eins ólöskuðu og kostur er.

Sem sagt, og því miður, þá er erfiður vetur framundan.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll.

Þá er að fá sér skóflu og moka,moka meiri aur í hítina!

Þórarinn Þ Gíslason (IP-tala skráð) 15.9.2008 kl. 01:03

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Góð samantekt, Vilhjálmur.  Spurningin er hvor Egill þurfi ekki að endurtaka drottningarsviðtalið við Geir í framhaldið af þessum fréttum.  Þær ættu að minnsta kosti að kippa honum inn í veruleikann, auk frétta um versnandi stöðu ríkisins.

Marinó G. Njálsson, 15.9.2008 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband