Of mikið af föðurlandsást

Ég er nýkominn frá Washington DC.  Þar var flokksþing Repúblikana á flestum sjónvarpsskjám eins og gefur að skilja.  Meðal annars sá ég Fred Thompson fv. öldungadeildarþingmann flytja stuðningsræðu við McCain.  Þar minntist hann á atburð úr Vietnam-stríðinu er fjöldi manns fórst á skipinu USS Forrestal, og lýsti því hvernig McCain var síðar handtekinn og vistaður við illan leik sem stríðsfangi ásamt félögum sínum.  Allt átti þetta að vera vitnisburður um göfugar fórnir McCains og annarra fyrir land sitt.  Gerður var góður rómur að þessum málflutningi og tár sáust á hvörmum viðstaddra í sjónvarpsútsendingunni.

Ekki datt hr. Thompson eða öðrum í hug að setja umfjöllunarefnið í víðara samhengi, og spyrja í kjölfarið hvers vegna verið var að etja ungu fólki út í slíkar hörmungar og dauða, og hverjir báru ábyrgð á því, og hvaða ávinningur sat eftir.

Víetnamstríðið var vitaskuld ein allsherjar endaleysa, þjónaði engum tilgangi, náði engum "árangri", gerði ekkert nema skaða.  Hverjum er ekki sama í dag þótt Norður-Víetnamar hafi "unnið"?

Væri ekki nær fyrir Repúblikana að velta fyrir sér hvað fór úrskeiðis í Víetnam og reyna að læra af mistökunum, en að telja McCain það sérstaklega til tekna að hafa þolað fangavist í því vindmyllustríði? Það má þó vissulega hrósa þeim fyrir hugrekkið, eða fífldirfskuna, að taka stríðið upp sem umræðuefni. Það er eflaust gert í trausti þess að enginn fitji upp á samhenginu.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef "nam" er sett í samhengi við kalda stríðið þá held ég að margir telji að USA hafi verið að gera rétt.

Ég mundi kjósa McCain ef ég hefði kosningarétt í USA. Maður verður ekki góður forseti við það að vera stungið í POW camp  og lifað það en maður sýnir að maður getur sigrast á erfiðleikum og náð á toppinn þá er sérstakt.

 Þú mátt ekki gleyma því að McCain for til víetnam til að hjálpa til við að sætta löndin tvö.

 Ég trúði honum þegar hann sagði að hann þekkti stríð og hann ætlaði að gera allt í hans valdi til að tryggja friðinn. Hann nefndi, hernaðarlega, efnahagslega, stjórnmálalega, hann ætlaði sem sagt að gera allt sem í valdi USA stæði til að tryggja friðinn.

 Bæði hann og Palin hafa átt börn í hernum. Ég hef enga ástæðu að þau færu að senda börnin sín í stríð nema í algerri neyð. Ég trúi því að Usa og heimurinn verði öruggari sem McCain við stjórnvölin.

Maður (IP-tala skráð) 6.9.2008 kl. 06:27

2 Smámynd: Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir

Ég er sammála þér í langflestum atriðum.  Mér líst ekkert á McCain og tel reyndar að hið blandaða sósíaldemókratíska hagkerfi Norðurlanda hafi verið ein besta uppfinning síðustu aldar.  Frjálshyggjan er ömurleg.

Ingibjörg Álfrós Björnsdóttir, 6.9.2008 kl. 08:33

3 Smámynd: Hjörtur J. Guðmundsson

Ef Bandaríkjamenn hefðu tapað síðari heimsstyrjöldinni væri Vilhjálmur sennilega að skrifa eins um þátttöku þeirra í henni, "tilgangslausar mannfórnir sem engu skiluðu." Hvað ef Bandaríkjamenn hefðu unnið Víetnam-stríðið?

Hjörtur J. Guðmundsson, 6.9.2008 kl. 17:37

4 identicon

Mér finnst sjálfsagt að hampa McCain fyrir sína framistöðu og það sem hann hefur lagt af mörkum til lands síns á langri ævi. Ég myndi kjósa McCain hiklaust, eini gallinn á honum er hve gamall hann er orðinn, vona bara að hann hafi heilsu í meira ein eitt kjörtímabil.

Guðjón Atlason (IP-tala skráð) 6.9.2008 kl. 20:35

5 Smámynd: Auðun Gíslason

"Ef Bandaríkjamenn hefðu tapað síðari heimstyrjöldinni...."  Sérkennileg hugmynd og byggir á enn sérkennilegri heimsmynd.  Menn ættu að skoða aðdragandann að afskiptum USA af innanlandsmálum Víetnam.  Samningur um kosningar, sem gerður var í kjölfar hernaðarósigurs Frakka, var svikinn.  Af hverjum og hversvegna?  Hvað voru Kanar að skipta sér af innanlandsmálum þessarar fyrrum nýlenduþjóðar Frakka.  Þegar átökin í Víetnam eru skoðuð ættu menn að reyna að líta aðeins á málið frá sjónarhóli Víetnama.  Hvað kostaði þetta stríð þá þjóð miklar þjáningar og miklar mannfórnir.  Sama með Írak.  Ég verð að segja að mér er slétt sama þó Kanar drepist í þessum innrásum sínum!

Auðun Gíslason, 6.9.2008 kl. 21:04

6 Smámynd: Vilhjálmur Eyþórsson

Ég þekki þig ekki nafni, en það er alveg ljóst að þú veist ekki hvað þú talar um þegar talið berst að Víetnamstríðinu. Ég vil því benda þér á grein sem ég skrifaði í síðasta hefti Þjóðmála um þetta stríð, en greinina má finna á vefsíðu minni undir fyrirsögninni "Víetnam, vendipunktur kalda stríðsins". Mér leiðist að sjá, þegar menn sem ekki muna þessa atburði eru að belgja sig út í heilagri vandlætingu út af þessu misskildasta, mistúlkaðasta stríði allra tíma.

Vilhjálmur Eyþórsson, 6.9.2008 kl. 22:52

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Ég skil ekki röksemd Hjartar J. Guðmundssonar.  Er hann að segja að öll stríð sem Bandaríkjamenn leggja í séu jafngild og jafnréttmæt?

Hef í tilefni ofangreindrar athugasemdar skoðað bloggsíðu nafna míns Eyþórssonar.  Mér er sérstakur heiður af því að málflutningur minn er honum ekki að skapi.  Þá fyrst væri fokið í flest skjól ef skoðanabræður hans væru mér sammála.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.9.2008 kl. 01:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband