31.10.2010 | 17:14
Framboð til stjórnlagaþings
Eins og lesendur þessa bloggs hafa eflaust áttað sig á, þá er ég í framboði til stjórnlagaþings í kosningunum 27. nóvember nk.
Af því tilefni hef ég útbúið sérstakan vef framboðsins, þar sem nánar er fjallað um stefnumál mín, dregin saman helstu greinar og skrif sem málefninu tengjast, og gefnar almennar upplýsingar um aldur og fyrri störf.
Einnig er framboðið með opna síðu á Fésbók, sem ég hvet alla stuðningsmenn til að skoða og láta sér líka við.
Ég mun áfram skrifa færslur á þetta blogg um hvaðeina, en málefni stjórnskipunar og stjórnarskrár verða mér vitaskuld sérstaklega hugleikin til kosninga.
Frambjóðendatala mín er 2325 og ég bið um stuðning þinn.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Spurning sem vakir fyrir mér hver er stefna þín í ESB málum. draga til baka eða ekki.
Valdimar Samúelsson, 31.10.2010 kl. 21:50
Ég er mjög hlynntur aðild Íslands að ESB, að því gefnu að aðildarsamningur verði ásættanlegur (sem ég hef alla ástæðu til að ætla að hann verði).
En ég held að afstaða til ESB komi nýrri stjórnarskrá ekki beinlínis við. Stjórnarskráin þarf að hafa almennar heimildir til að gangast undir alþjóðlegar skuldbindingar, t.d. hvað varðar Mannréttindadómstól Evrópu, EES-samninginn eða annað slíkt. Slíkar heimildir eru skýrar í flestum stjórnarskrám nágrannalanda en fremur óskýrar í okkar skrá frá 1944. ESB-aðild verður síðan hvort eð er borin undir þjóðaratkvæði þegar þar að kemur, og ef þjóðin vill aðild þá vill hún jafnframt gera viðeigandi ráðstafanir í stjórnarskrá, ef þeirra verður þörf.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 31.10.2010 kl. 22:33
Þú veist samt að aðild er afsal á fullveldi okkar og ekki afturkræf miðað við lög ESB.
Valdimar Samúelsson, 31.10.2010 kl. 23:06
Við erum með líka með skýra stjórnarskrá og ekki ólíka öðrum stjórnarskrám. Hún á vernda okkur fyrir mönnum sem vilja koma okkur undir annan hatt.
Valdimar Samúelsson, 31.10.2010 kl. 23:09
Á þessari síðu á framboðsvef mínum má sjá stjórnarskrár ýmissa landa, þar á meðal Danmerkur, Svíþjóðar, Finnlands og Frakklands. Þessi lönd eru öll í ESB en eru samt vitaskuld fullvalda ríki (og með talsvert ólíkar stjórnarskrár). Þau hafa hins vegar ákveðið að eiga með sér samstarf í tilteknum málaflokkum sem eru þess eðlis að þeir verða best höndlaðir í sameiningu en ekki sitt í hverju lagi. Við Íslendingar erum, með aðild að EES, áskrifendur að sirka 70% af þessum sameiginlegu ákvörðunum ESB-landanna, en eigum ekki hlut að máli þar sem þær eru teknar. Það finnst mér ekki boðlegt fullvalda ríki. Ég held að í heimi þar sem sífellt fleiri viðfangsefni verða fjölþjóðleg - loftslagsmál, réttindi á vinnumarkaði, löggæslumál, umhverfismál, fjármálamarkaðir - þá sé ríki sem ætlar að standa eitt og sér að takmarka áhrif sín og raunverulegt fullveldi verulega.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 31.10.2010 kl. 23:15
Það eru ekki við sem þurfum að breytast til að falla að ESB heldur þarf það að breytast til að falla að okkur. En þakka þér fyrir upplýsingarnar Vilhjálmur, nú vantar mig bara 500 í viðbót.
Hrólfur Þ Hraundal, 1.11.2010 kl. 12:07
Sæll Villi.
Þrátt fyrir að þú lýsir þér sjálfum svo “að upplagi kunnir þú þá list vel að skilgreina nákvæmlega hvað eigi að gerast og hvað ekki” hefur mér ekki tekist að átta mig á hvert þú ert að fara með hugtakinu “keðju réttarheimilda”. Þú segir það reyndar vera lögfræðilegt hugtak.
Réttarheimildir þekki ég vel en “keðju réttarheimilda” þekki ég ekki. Getur þú nefnt einhvern dóm sem byggir á lögfræðihugtakinu “keðja réttarheimilda”? Getur þú vísað mér á frekari upplýsingar um notkun “keðju réttarheimilda” í íslensku eða evrópsku dómskerfi?
Ekki mun ég brygsla þér um að vera einn þeirra sem álitu að lífsnauðsyn fyrir íslendinga að skuldbinda fjölskyldur þessa lands til langrar framtíðar um fleiri hundruð milljarða til handa erlendum kröfuhöfum þó þú hafir lagt þig í líma við að gera:
A) athugasemdir við ágæta útreikninga Jón Daníelssonar kennara við LSE:
“Ég geri athugasemdir við forsendur og útreikninga Jóns Daníelssonar og tel tölu hans um "heildarkostnað vegna Icesave" upp á 507 milljarða vera fjarri lagi. Rétt tala er miklu nær því sem Seðlabanki og AGS gera ráð fyrir, og Icesave-reiknir mbl.is sýnir, þ.e. vel undir 300 milljörðum og jafnvel nær 200 (á föstu verðlagi, ónúvirt). Sú upphæð verður greidd á 8 árum frá 2016-2023 og er ekki stærsta vandamál sem íslenska hagkerfið stendur frammi fyrir um þessar mundir.”
B) verið á móti ákvörðun forseta Íslands:
“Ákvörðun forseta Íslands, Ólafs Ragnars Grímssonar, um að synja ríkisábyrgðarlögunum vegna Icesave staðfestingar er röng af mörgum ástæðum.”
C) sagðir Daniel Gros, vera pínlegan:
“Nú finnst mér að einhver sem vill hr. Gros vel ætti að eiga við hann lágstemmt samtal undir fjögur augu, og útskýra fyrir bankaráðsmanninum muninn á breytilegum skammtímavöxtum (t.d. LIBOR) og föstum vöxtum til 15 ára. Við Íslendingar eigum vissulega ákveðna hefð af bankaráðsmönnum sem eru ekki djúpvitrir um bankamál, en það er ekki til áframhaldandi eftirbreytni.”
En Gros (var m.a. í Delors nefndinni sem kom á fót ECB og Evrunni) benti Íslendingum á að ef farið yrði eftir kostnaði Breta sjálfra í aðgerðum þeirra í útgreiðslu vegna neyðarlána til breska fjármálakerfisins gætu íslenskar fjölskyldur sparað sér fleiri hundruði milljarða.
Hver þín afstaða til hagsmuna Íslands og íslenskra skattgreiðenda í einu stærstu milliríkja átökum frá stofnun lýðveldisins er ekki meginatriði minna athugasemda.
Meginatriði spurninga minna eru tillögur þínar til breytingar á stjórnarskrá Íslands og framboð þitt til stjórnlagaþings. Þitt framboð hlýtur að vera til þess að gæta hagsmuna almennings. En við þeim spurningum sem upp hafa komið finnst mér þú skauta óvenju létt yfir í svörum þínum. Svar þitt við spurningu minni “Hvað í stjórnarskránni er óljóst þegar kom að afgreiðslu Icesave málsins?” horfir þú framhjá því að framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslunnar var því sem næst snuðrulaus! Ennfremur tínir þú til í svari þínu nokkur álitamál um til tæknileg úrlausnarefni á stjórnarskránni en svarar ekki inntaki spurningarinnar um stjórnarskrána sjálfa.
Því vil ég spyrja þig aftur:
1) Hvað er "keðja réttarheimilda"?
2) Hvernig skuldbatt hún íslendinga lagalega til að borga IceSave?
3) Hvað í stjórnarskránni er óljóst þegar kom að afgreiðslu Icesave málsins?
4) Hvert af atriðum þínum í málefnaupptalningu til stjórnlagaþings er til þess að gera hið óljósa atriði í stjórnarskránni varðandi Icesave skýrt?
Í vinsemd.
Ársæll
Ársæll (IP-tala skráð) 5.11.2010 kl. 15:56
Lesendum til upplýsingar skal því haldið til haga að athugasemd Ársæls er framhald af langri umræðu undir næstu bloggfærslu á undan þessari.
Fyrst tek ég fram að ég send við tilvitnaðar bloggfærslur A, B og C og vísa til þeirra og umræðna í athugasemdum varðandi þá rökræðu sem þar fór fram á sínum tíma.
Þá að spurningunum.
1) Keðja réttarheimilda er alþekkt fyrirbæri. Dæmigerð slík keðja er (1) reglugerðarákvæði; (2) lög, þ.m.t. Evróputilskipanir skv. EES; (3) stjórnarskrá og yfirþjóðlegar skuldbindingar, t.d. gagnvart Mannréttindasáttmála Evrópu. Sem sagt, þegar leitað er úrlausnar lögfræðilegs úrlausnarefnis, er fyrst að skoða reglugerðarákvæði sem sett kunna að hafa verið með heimildum í lögum; svo að skoða lögin sjálf (þar á meðal Evrópurétt sem hér var innleiddur með lögum um EES); og svo loks önnur "lex superior", á borð við mannréttindasáttmála, og loks stjórnarskrá. Neðri hlekkir verða jafnan að byggja á eða a.m.k. að vera ekki í andstöðu við efri hlekki.
2) Ég útskýri þá keðju réttarheimilda sem við á í Icesave-úrlausnarefninu í margumræddri bloggfærslu. Þar bendi ég líka á hvar hinn lögfræðilegi ágreiningur raunverulega er, þ.e. um fjármögnun TIF og hvort ríkinu beri að útvega sjóðnum fé eða a.m.k. ábyrgjast lántöku til hans. M.a. kemur þar til álita hvort Evróputilskipunin um innistæðutryggingar kveði á um tiltekna niðurstöðu fyrir innistæðueigandann (obligation of result) eða hvort nægilegt sé að hafa sett upp tryggingasjóðinn sjálfan, án þess að hann hafi í reynd getað greitt tryggingu þegar til kastanna kom.
3) Eins og ég útskýrði áður var óljósi þátturinn í stjórnarskránni helst um málskotsréttinn og hvernig hann væri í framkvæmd. Eins og menn muna reis um þetta heilmikil rekistefna þegar fjölmiðlafrumvarpinu var vísað í þjóðaratkvæði á sínum tíma, sem svo ekki varð. Sem betur fer var ekki ráðist í að setja þátttökuþröskulda eða slíkt þegar greidd voru atkvæði um seinni Icesave-lögin, og það er gott að fordæmið er núna komið um tiltölulega "einfalda" þjóðaratkvæðagreiðslu eftir orðanna hljóðan. Hvað atkvæðagreiðslan þýddi nákvæmlega í þessu tilviki var hins vegar afar óljóst, enda fyrri Icesave-lögin þegar í gildi (samþykkt af Alþingi og staðfest af forseta) þegar seinni lögunum var hafnað.
4) Ég vil setja reglur um þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál þegar ákveðinn hluti kjósenda krefst þess, en tel atbeina forseta óþarfan í því sambandi (enda er forseti sennilega óþarfur í núverandi mynd). Tilteknir málaflokkar eiga þó að vera undanskildir, t.d. fjárlög og fjáraukalög og efndir alþjóðlegra skuldbindinga (eins og er hjá Dönum).
Vona að þetta svari spurningunum, vísa jafnframt til eldri svara.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.11.2010 kl. 18:44
Villi þú segist vera "....fylgjandi því að eignarréttur þjóðarinnar á auðlindum lands og sjávar (sem ekki eru fyrir í einkaeigu) verði staðfestur í stjórnarskrá."
Nú er það svo að í fyrstu grein laga um stjórnun fiskveiða segir, "...Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt" Því hlýtur að vera nærtækt að ætla að tilkoma þessa texta sé vegna þess að fyrri lög hafi einmitt myndað eignarrétt. Ef textanum er ætlað að slá af vafa vegna fyrri laga, hlýtur hann að túlkast kvótaeigendum í vil. Enda liggur það í hlutarins eðli að ef greiðsla er innt af hendi myndast eignarréttur á móti ef um lögleg viðskipti eru að ræða sem ekki er umdeilt í þessu tilfelli.
Nú hefur Samfylkingin haft það nokkurn vegin í hendi sér að hrinda fyrningarleiðinni í framkvæmd sem verið hefur kosningaloforð frá stofnun fylkingarinnar. Niðurstaða allra þeirra nefnda og stjórnsýslunnar í heild hefur hingað til verið sú að fyrningarleiðin er ófær vegna óumdeilds eignarréttar og því spratt upp "samningaleiðin" sem einnig hefur engu skilað. Eftir stendur að eini möguleikinn til að ráðast í eignaupptöku á kvóta er að breyta stjórnarskrá í þá veru að eignarréttur verði afnuminn á fiskveiðiheimildum og hugsanlega öðrum eignum fólks líka.
Þú hefur hingað til ekki viljað rökstyðja eða svara því hverju umrædd eignaupptaka á að skila t.d. umfram bara hefðbundna skattlagningu fyrirtækja í sjávarútvegi?
Á hinn bóginn er ljóst að slík eignaupptaka mun eyða stórum hluta af veðhæfni sjávarútvegsfyrirtækja, setja mörg á hausinn og valda bönkum stórskaða vegna gjaldþrota í greininni.
Eignarréttur hefur hingað til verið hornsteinn vestrænna þjóðfélaga en bölvun í augum þeirra sem kenna sig við kommúnisma en þar eru fáar góðar fyrirmyndir eftir. Er það markmið vinstri manna á Íslandi að búa til eina slíka?
Arnar Sigurðsson, 7.11.2010 kl. 20:23
Arnar: Frá 1990 hefur 1. gr. laga um stjórn fiskveiða hljóðað svo (að frumkvæði Alþýðuflokks sem barðist hart fyrir þessu orðalagi á sínum tíma):
Ef einhver vafi er á lagalegri stöðu varðandi eignarrétt á úthlutuðum veiðiheimildum þá er sá vafi aðeins á slíkum úthlutunum frá því fyrir 1990. Ég tel líka óvarlegt að gagnálykta að úr því þetta er tekið fram sérstaklega í lögunum 1990 þá hljóti eignarréttur að hafa verið fyrir hendi fyrir þann tíma.
Í öllu falli þá er ég á því að inntak þessarar 1. greinar og sömuleiðis 3. gr. (a) laga um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu:
...eigi að fella inn í eina stjórnarskrárgrein um að nýtingar- og ráðstöfunarréttur á sameiginlegum auðlindum sé varanlega hjá þjóðinni (og ríkinu í umboði hennar) og verði ekki framseldur úr hennar höndum.
(Að sjálfsögðu hindrar slík grein ekki ESB-aðild Íslendinga enda ekki um það að ræða að ESB ásælist auðlindir aðildarlanda eins og sífellt er reynt að blekkja fólk til að halda.)
Ég teldi það mikla framför ef tekin yrði upp tilboðsleið sú sem Jón Steinsson og Þorkell Helgason stilltu upp fyrir nefnd um fyrirkomulag fiskveiðistjórnunar. Sú leið, sem ég tel stórsnjalla enda engir aukvisar að baki henni, gerir ráð fyrir að menn haldi t.d. 92% af heimildum milli ára en 8% fari á opinn tilboðsmarkað og verði seldar hæstbjóðanda eftir ákveðnum reglum. Þetta myndi auka nýliðun og sveigjanleika í greininni, en efnahagsleg áhrif á fyrirtækin væru lágmörkuð enda "helmingunartími" aflaheimilda þá sirka 8,5 ár og samsvarar því að fyrirtækin ættu heimildirnar að fullu til 12,5 ára. Það finnst mér ágæt málamiðlun á móti því að fá stöðugt kerfi með vissu um framtíðina, sátt og sjálfbærni. Og hafa ber í huga að verð aflaheimildanna á tilboðsmarkaðnum yrði nákvæmlega það sem fyrirtækin treysta sér til að greiða - ekki króna umfram það. Svona leið er að sjálfsögðu miklu betri hagfræðilega en einhvers konar flatur auðlindaskattur.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 7.11.2010 kl. 21:33
Ársæll Valfells: Til viðbótar af því þú hefur verið heldur tregur að samþykkja "keðju réttarheimilda" (sem ég næ ekki alveg af hverju er svona erfitt að skilja), þá á ég við það sem á ensku heitir "sources of law". Sem sagt, réttarheimildir (i fleirtölu) sem byggja hver á annari í nokkurs konar pýramída eða keðju.
Sjá t.d. þessa grein á Wikipediu um sama fyrirbæri í bandarískum rétti:
Að sjálfsögðu eru Evróputilskipanir og lög byggð á þeim meðal réttarheimilda í íslenskum rétti, en ekki í bandarískum; og bandarískur réttur telur fordæmi (common law/case law) til formlegra réttarheimilda en það er ekki gert með sama hætti í okkar (norræna/franska) rétti. Keðja (pýramídi) réttarheimilda er sem sagt lítillega frábrugðin milli t.d. okkar og Bandaríkjanna en er sem slík fyrir hendi í báðum tilvikum.
Comprende? Eða er nokkuð hætta á að þú eigir eftir að spyrja um þetta sama í þriðja sinn?
Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.11.2010 kl. 01:18
Villi,
Mér sýnist af skilgreiningu þinni á réttarheimildum og útlistun á innbyrðis vægi þeirra, sem er í bland ruglingsleg og vitlaus, að það gæti reynst gagnlegt fyrir þig að kynna þér stuttlega eitthvert yfirlitsrit yfir íslenska lögfræði. Bókaútgáfan Codex gaf t.d. út fyrir nokkrum árum rit sem mig minnir að heiti Lög og réttur eftir nokkra valinkunna lögfræðinga. Þú gætir byrjað þar.
Þótt það blasi reyndar við, er kannski rétt að benda á að það er ekki fullnægjandi að kynna sér verulega grófan útdrátt um fyrirkomulag mála í Bandaríkjunum á Wikipediu til að draga ályktanir um íslenska lögfræði.
Án þess að ég vilji taka afstöðu til laga um stjórn fiskveiða og hvernig þau kunna að hafa myndað eignarrétt vil ég segja eitt. Var ekki búið að úthluta meiri hluta allra veiðiheimilda, a.m.k. í verðmætum talið, fyrir 1990? Þær hafa síðan gengið kaupum og sölum og þau viðskipti byggja á því að réttur fyrsta eigandans sé framseldur. Myndir þú vilja að þau réttindi sem þá teldust hafa verið til staðar, yrðu nú afnumin með stjórnarskrá?
Að lokum: Mér finnst hugarfar þitt, að búa til stjórnarskrá í anda forritunar, vera beinlínis hættulegt. Ég vona að slík sjónarmið komist aldrei að í umræðunni og reyndar má segja að þjóðfundurinn, eins mikil vitleysa og hann er, bendi sem betur fer til að þeir séu fáir sem láti sér detta slíkt í hug. A.m.k. koma slíkar hugmyndir hvergi fram í niðurstöðum fundarins, sem eru þó yfirgripsmiklar. Getur verið, að þú verðir eini fulltrúi þessar skoðunar ef þú kemst á stjórnlagaþingið?
Bkv. Reimar
Reimar (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 10:08
Sæll Villi.
Ég dáist að því hversu kokhraustur þú ert með þínar heimatilbúnu Internet-lagaskýringar. Vil veita þér eitt gullið ráð. Þetta er ráð sem gamall háskólakennari veitti þeim sem ekki náðu að fóta sig í háskólanámi: “Ef þú ætlar að fara með vitleysu, reyndu þá að hafa samhengi í vitleysunni”.
Mér sýnist á öllu að þú munir ekki svara spurningum mínum með vitrænum hætti.
Í fullri vinsemd og einlægni.
Ársæll
Ársæll Valfells (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 10:26
Sælir félagar. Voðalega eru menn súrir í dag. Þið takið upp mikla gagnrýni á mig fyrir að hafa verið með óskiljanlegt hugtak ("keðju réttarheimilda") í bloggfærslunni um Icesave í denn. Ég útskýri hvað ég átti við, sem er vitaskuld sáraeinfalt og nánast augljóst í samhenginu, og uppsker aðallega skæting. Nú langar mig svo sem ekkert að rifja upp Icesave-staglið, sem er búið að margræða alla kanta á og heyrir vonandi bráðum sögunni til, en ef við ættum að taka málefnalega umræðu um þetta þá verðið þið að benda á hvar þið eruð ósammála greiningu minni á réttarheimildakeðjunni í því tilviki og af hverju.
En ég fer ekki ofan af því að reynsla af þarfagreiningu, hönnun, forritun, gangsetningu, villuleitun, leiðréttingu og viðhaldi stórra og flókinna hugbúnaðarkerfa geti nýst mjög vel við samningu nýrrar stjórnarskrár, ekki síst í góðum hópi fólks með aðra hæfileika einnig. Og þá ekki síður en lögfræðin, með allri virðingu fyrir henni blessaðri.
Svo þakka ég athyglina. Það er greinilegt að framboð mitt til stjórnlagaþings fer ekki framhjá ykkur, sem ég held að sé bara góðs viti.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.11.2010 kl. 10:45
Það er kennt á ca. fyrstu 5-10 mínútunum í fyrsta tíma í fyrsta kúrsi í almennri lögfræði, að upphaf skoðunar þess hvað má og hvað má ekki sé í lögunum sjálfum, ekki reglugerðum. Þegar komið er fram á 10 mínútu er gerð grein fyrir því að þegar þessari skoðun er lokið þarf að kanna hvort lögin séu samþýðanleg stjórnarskrá. Svo á ca. 15 mínútu er bent á að ef lög stangast á við alþjóðasattmála, þá ganga lögin framar. Síðan er hugsanlega þegar komið er fram á 20. mínútu fjallað um eðli EES samningsins, en það er aðallega að EES gerðir gilda ekki á Íslandi nema þær hafi verið leiddar í lög með sama hætti og önnur lög. Það er hálf vandræðalegt að þurfa að útskýra þetta, en þá er það komið.
Ég viðurkenni fúslega að ég var hálf súr í morgun, enda er mánudagur til mæðu. Það hjálpaði svo ekki til að skipuleggjendur þjóðfundarins telja sig hafa lesið í áru 1.000 þátttakenda á fundinum að nú ætti að setja hér stjórnarskrá í anda Hálsaskógar: 1. gr. öll dýrin í skóginum skulu vera vinir!
Með bestu kveðju, Reimar
Reimar (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 12:00
Sæll Reimar.
Takk kærlega fyrir hjálpina við að útskýra fyrir Ársæli hvað hér er á ferðinni.
Það að telja reglugerðir með - sem reyndar skiptir engu máli fyrir umræðuefnið, þ.e. Icesave - er ekki mín uppfinning, sjá t.d. málsgrein 2.07 í kynningu Andra Árnasonar um helstu réttarheimildir í íslenskum rétti, vægi þeirra og samspil:
Svo er hægt að benda á ágætan vef stjórnvalda um réttarheimildir, þar á meðal reglugerðir, lög, dóma, alþjóðasamninga og alþjóðalög: www.rettarheimild.is
Varðandi EES samninginn, þá er það vitaskuld rétt að EES gerðir binda ekki íslenska aðila að landsrétti nema þær hafi verið teknar upp í íslensk lög (sem reyndar er svo skylda að gera skv. 7. gr. EES samningsins). Hins vegar bindur EES samningurinn íslenska ríkið að þjóðarrétti, (skv. t.d. 3. gr. og 7. gr. hans) ekki satt? Og þar gæti hnífurinn staðið í kúnni hvað Icesave varðar, a.m.k. finnst mér ESA gefa það í skyn í foráliti sínu.
Þetta er kannski komið út í smáatriði sem skipta ekki máli fyrir umræðuefnið, sem var réttarheimildakeðjan vegna Icesave. Þar væri gott að fá á hreint nákvæmlega hvar ágreiningurinn liggur, ef hann er fyrir hendi.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.11.2010 kl. 12:36
P.S. Og það væri reyndar fínt að fá málefnalega umræðu um þetta því þarna kristallast held ég ágreiningur íslenskra stjórnvalda við ESA. Sú framsetning sem ég var með á keðju réttarheimilda er mjög svipuð þeirri sem ESA lýsir. ESA heldur því síðan fram að 7. gr. tilskipunar um innistæðutryggingar myndi "obligation of result" gagnvart íslenska ríkinu að þjóðarrétti. Mér þætti verulegur fengur að því fyrir umræðuna að fá mótrökin fram, og væri meiriháttar ef lögfræðingur á borð við Reimar Pétursson treysti sér í þá framsetningu.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.11.2010 kl. 12:49
Sæll Villi,
Ég var nú einfaldlega að benda á, að í upptalningunni hjá þér á réttarheimildum var öllu blandað saman með óskipulegum hætti og látið í veðri vaka að upptalningin fæli í sér einhvers konar forgangsröðun, sem hún ljóslega er ekki.
Varðandi Icesave: Það liggur fyrir að hvergi í tilskipuninni er talað um "obligation of result" með skýrum hætti. Það eru orð sem ESA býr til sjálf. Það er áhugavert vegna þess að "guarantee" eða "ábyrgð" er hugtak sem er lögfræðingum hugleikið. Ef lögfræðingur ætlar að fá ábyrgð eða guarantee þá segir hann ábyrgð eða guarantee; ekki eitthvað allt annað eða einhverja froðu. Ef niðurstaðan verður froða í textanum, þá yfirleitt lesa það allir sem svo að engin ábyrgð eða guarantee sé til staðar.
Þarna er ESA þess vegna farið að teygja sig ansi langt í röksemdafærslunni. Þetta er staðan samkvæmt EES samningnum og gerðum sem eru hluti af honum.
Þegar kemur að íslenskum lögum er staðan jafnvel enn skýrari. Um skuldbindingar íslenska ríkisins er fjallað í stjórnarskránni, 40. gr. Þar segir að ríkið geti einungis tekið skuldbindandi lán samkvæmt lagaheimild. Jafnframt eru í gildi almenn lög sem fjalla um allar ríkisábyrgðir, nr. 121/1997. Þar er fjallað um (a) skilyrði þess að ríkið geti tekið á sig ábyrgð (þ.e. lagaheimild) og (b) málsmeðferð, m.a. um mat á áhættu, þegar slík ábyrgð er veitt.
Í lögum um trygginarsjóðinn er ekkert sem bendir til að löggjafinn eða aðrir hafi talið að um veitingu ríkisábyrgðar væri að ræða í þágu fjármálafyrirtækja. Þvert á móti hafði þróun undangenginna ára, m.a. með hlutafélagavæðingu ríkisbankanna, bent til þess að löggjafinn hafi ætlað að losa sig undan ábyrgð á skuldbindingum fyrirtækjanna.
Íslensk lög fela því ljóslega enga ábyrgð í sér. Þá vaknar spurningin hvort tilskipunin geti breytt því eða haft áhrif á þá ályktun. Í þeim efnum þarf fyrst að hafa í huga að tilskipunin er ekki eiginleg réttarheimild. Hún getur haft túlkunargildi fyrir aðrar réttarheimildir en hún hefur ekkert sjálfstætt gildi. Hún er með öðrum orðum væntanlega ekki fullgildur hluti keðjunnar sem þú talar um. Hvernig er það, er til keðja sem er sterkari en veikasti hlekkurinn?
Loks má nefna, að samspil íslenskrar löggjafar og EES réttar er annað en gildir innan ESB. Þannig er regla um forgangsrétt EES reglna við meðferð mála hjá innlendum dómstólum ekki hluti af EES rétti, gagnstætt því sem gildir innan ESB. Einstaklingar eiga því enga leið til að gera kröfu um bætur vegna ófullkominnar innleiðingar EES tilskipana nema á grundvelli íslenskra laga og fyrir íslenskum dómstóli. Þess vegna skiptir ekki endilega úrslitamáli fyrir fjárútlát íslenska ríkisins þótt EFTA dómstóllinn telji að tilskipunin hafi ekki verið réttilega lögleidd á Íslandi. Slíkt gæti t.d. kallað á að menn myndu bregðast við með því að taka tilskipunina upp með áhrifum til framtíðar.
Með kveðju, Reimar
P.s. Þú svaraðir ekki spurningunni minni um kvótann.
Reimar Pétursson (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 14:52
Takk fyrir málefnalegt og gott svar. Andri Árnason hrl. stillir reyndar réttarheimildum líka upp í forgangsröð (t.d. 2.06, 2.13 í kynningunni) en látum það liggja milli hluta.
Keðjan er einmitt ekki sterkari en veikasti hlekkurinn. Það er heila pojntið með því að leggja hana skipulega niður fyrir sér og horfa á hlekkina, sem er það sem ég gerði í bloggfærslunni. (Upphaflega tilefnið var hins vegar að sumir töluðu eins og hlekkina vantaði og heila málið væri tilhæfulaust, sem stenst vitaskuld ekki skoðun.)
Menn geta haft skoðanir á punktum þínum, sem eru eflaust mishaldgóðir eins og gengur, en bestur finnst mér síðasti punkturinn um rétt einstaklinga annars vegar (sem hlýtur að þurfa að sækja að landsrétti?) og um þjóðréttarlega skuldbindingu hins vegar. Ef sýnt er fram á vafa um þjóðréttarlegu skuldbindinguna, þá veikir það helstu stoð málflutnings ESA eins og ég skil hann. En forvitnilegt væri að vita hvar málið er statt, því ESA óskaði svars íslenskra yfirvalda í síðasta lagi í lok júlí, en af því hef ég ekkert heyrt.
Varðandi kvótann, þá er erfitt að svara þér því ég veit ekki hvernig staðreyndirnar í málinu liggja, þ.e. hversu miklum veiðiheimildum var úthlutað fyrir 1990 og hversu mikið af þeim heimildum sem eru í gildi í dag sé hægt að rekja með framsalskeðju til þeirra. Svo hef ég ekki enn sett mig inn í orðalag laganna eins og það var fyrir 1990. Hitt veit ég að mér fróðari menn hafa talið það standast lögfræðilega að gera breytingar á fiskveiðistjórnkerfinu og kvótaúthlutun án þess að við það skapaðist skaðabótaskylda, kannski m.a. með tilliti til þess að í 20 ár hefur legið fyrir að hugmynd löggjafans væri ekki sú að þarna væri um varanlegan eignarrétt að ræða.
Í öllu falli er ég fylgjandi tilboðsleiðinni sem ég nefndi áður, sem er tiltölulega hófleg aðlögun yfir langan tíma og verður trauðla kölluð róttæk eignaupptaka, sérstaklega með vísan í almannaheill og langtímahagsmuni greinarinnar sjálfrar.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.11.2010 kl. 16:46
Villi,
Punkturinn er sá að þú flokkaðir EES gerðir með lögum, sem er rangt, og yfirþjóðlegar skuldbindingar með stjórnarskrá, sem er líka rangt. Andri Árnason gerir engin slík mistök í sinni skilgreiningu. Þú getur því ekki haldið því fram, að þín skilgreining sé byggð á skilgreiningunni hans Andra. Ef þú vilt hins vegar horfa til Andra nú, þá er það hið besta mál. Það er þá heiðarlegra að draga bara fyrri skilgreiningu til baka og tefla fram nýrri.
Það athugist síðan að Bretar og Hollendingar verða samkvæmt því sem ég sagði að höfða mál fyrir íslenskum dómstóli ef þeir vilja fá dóm um bætur, þar sem þeir eru að sækja rétt fyrir hönd einstaklinga sem eru búsettir í viðkomandi löndum. Það liggur fyrir að þeir hafa engan áhuga á að höfða slíkt mál.
Óbætt tjón borgara í málum þar sem teflt hefur verið fram rökum um (og jafnvel fallið dómar um) að brotið hafi verið á þjóðarétti er ómælt. T.d. fengu Íslendingar engar bætur frá Þjóðverjum þrátt fyrir ólöglegar kafbátaárasir á íslensk skip í seinni heimstyrjöldinni eða frá Bretum vegna ólögmætra veiða breskra fiskiskipa í íslenskri lögsögu eða tjóns sem bresk herskip unnu á íslenskum skipum. Fer ekki vel á því að Icesave reikningurinn lendi í þessari hít?
Svo má benda á áhugaverða umfjöllun í fréttum Stöðvar 2 í kvöld um Icesave, en þar er vitnað til norsks prófessors sem sagði ekki "stein standa yfir steini" í áliti ESA. Er sá prófessor með "mishaldgóð" sjónarmið?
Með bestu kveðju, Reimar
Reimar (IP-tala skráð) 8.11.2010 kl. 21:36
Olræt, ég hefði getað verið nákvæmari í upptalningunni í réttarheimildadæminu, en það breytir ekki inntakinu í því sem ég var að segja og Ársæll var að vefengja.
Það sakar ekki að minna á að hluti vandans er e.t.v. í viðbrögðum TIF og ráðuneyta snemma í hruninu, þar sem þeir skrifuðu undir minnisblöð (MoU) við Breta og Hollendinga um að greiða innistæðueigendum fyrir sína hönd. (Undir þetta tiltekna MoU skrifaði einnig Baldur Guðlaugsson þáverandi ráðuneytisstjóri.) Þessar undirskriftir eru ekki til að einfalda málið. Allt er það í línu við annað í þeirri sögu stjórnsýslumistaka sem rakin er í skýrslu RNA.
En ef það er t.d. rétt að Peter Paul dómurinn hafi önnur réttaráhrif í EES en ESB, þá er staða Íslands betri sem því nemur.
Ekki var ég alveg með á nótunum hjá norska prófessornum frá Tromsö - rökin frá þér eru mun betri - en nenni eiginlega ekki að rífast um það. Eigum við ekki bara að sjá hvað setur, við útkljáum þetta ekki hér, þótt glaðir vildum.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 8.11.2010 kl. 23:02
gott innlegg hér að neðan frá Frænda og baráttumanni okkar í Noregi. Kannski Þórólfur Matt, Noregsskrifari ætti að hitta þenna Prófessor í Lögum við Háskólann í Tromsö
http://visir.is/section/MEDIA99&fileid=VTVE98317B0-E03A-4492-80ED-074960554511
ragnar (IP-tala skráð) 9.11.2010 kl. 16:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.