Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Skipulagi hefur farið aftur

Ég ólst upp á Melunum, í afar fallegu hverfi sem skipulagt var um og fyrir 1940.  Það var í þá gömlu góðu daga þegar fólk kunni að skipuleggja borgarumhverfi.  Manneskjulegar stærðir, vinalegir húsagarðar, rólegar götur sem gaman er að ganga um.  Byggðin hæfilega þétt.

Því miður er eins og þessi þekking hafi týnst í kring um 7. og 8. áratuginn.  Síðan þá hefur borgarskipulagið meira og minna verið fast í ógöngum, þó með stöku undantekningum í Fossvogi, Breiðholtshverfi og kannski í Grafarvogi.  Einhver verstu dæmin eru í nýjustu hverfunum, t.d. í Hafnarfirði, þar sem verktakar virðast ráða skipulagi með hörmulegum afleiðingum.

Dæmi um nútíma skipulagsmistök má sjá í Borgartúninu, þar sem ekkert hefur verið hugsað um mannlegt og vinalegt umhverfi.  Gangandi fólk kemst varla milli húsa þar, hvað þá að nokkrum manni detti í hug að labba um götuna sér til ánægju.  Mikil steypugljúfur munu sjá þar fyrir vindstrengjum sem valda því að fólk flýtir sér beint úr bílnum inn í næstu hús og svo sem hraðast í burtu eftir að nauðsynlegum erindum er lokið.

Í framtíðinni verða perlurnar innan borgarinnar enn mikilvægari en áður; þangað mun fólk leita í var frá háhýsum og steypulandslagi til að finna afslappað og mannvænt umhverfi.

Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ skilja þetta greinilega ekki.  Þau kunna ekki að meta þá perlu sem Álafosskvosin er, og sjá ekki möguleikana sem þar eru á að gera einhvern besta hluta Mosfellsbæjar - og þótt víða væri leitað - enn betri.  Þarna er komið upp samfélag listamanna og skapandi fólks í mjög fallegu umhverfi, sem gæti orðið vin í umhverfislegri eyðimörk sem hefur Kentucky Fried Chicken sem merkisbera.  En bæjaryfirvöld, þ.m.t. Vinstri grænir, virðast álíta KFC-skipulag vera framtíðina og Álafosskvosina eiga að tilheyra fortíð.  Því er einmitt öfugt farið.


mbl.is Háhýsastefna í mótun í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tímalaus snilld!

Þetta var nú spilað mikið í mínu ungdæmi, og er ennþá fjári gott!

(Örstutt intro fyrst, svo byrjar ballið.)

Já, það verður ekki af þeim skafið...


Hvað eru jöklabréf?

Síðunni hefur borist ábending um að hugtakið "jöklabréf" hafi verið notað í fyrri færslu án útskýringar.  Hér er hún:

Jöklabréf = glacier bond = skuldabréf gefin út af alþjóðlegum bönkum og sjóðum en í íslenskum krónum og með íslenskum ofurvöxtum.  Seld ítölskum tannlæknum og austurrískum ekkjum, sem finnst vextirnir spennandi.  Einnig seld spekúlöntum sem taka lán í jenum og svissneskum frönkum á 1-3% vöxtum og kaupa jöklabréf á 11-13% vöxtum fyrir peningana, og vona að krónan falli ekki (a.m.k. ekki meira en 10% á ári).

Alþjóðlegu bankarnir taka íslensku krónurnar sem þeir fá fyrir jöklabréfin og skipta þeim aftur í íslenskum bönkum fyrir evrur, eða kaupa íslensk ríkisskuldabréf á hærri vöxtum en jöklabréfin eru, eða setja krónurnar á íslenskan peningamarkað (en þar er vöxtum haldið uppi af Seðlabankanum).  Meðan þetta gengur svona áfram, styrkist krónan, það er fullt af peningum í umferð og allir eru glaðir - uns tjaldið fellur.

Um þessar mundir eru yfir 700 milljarðar af jöklabréfum útistandandi.


Maður líttu þér nær

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra kveinkar sér í dag í yfirlýsingu í framhaldi af umræðu um útstrikanir af lista Sjálfstæðismanna í Reykjavík Suður, og auglýsingu Jóhannesar í Bónus.   Svo virðist sem 18% kjósenda D-listans í kjördæminu hafi strikað yfir nafn Björns.

Þessar yfirstrikanir eru ekki Jóhannesi í Bónus að kenna.  Þær lýsa raunverulegri afstöðu kjósenda í leynilegri kosningu.  Auglýsing Jóhannesar er ekki annars eðlis en almennar auglýsingar í kosningabaráttu, þar sem fólk er hvatt til að kjósa tiltekna lista eða menn, eða til að kjósa ekki tiltekna lista og jafnvel menn, eftir atvikum.  En kjósendur taka afstöðu og lýsa henni með atkvæði sínu.

Ég get ímyndað mér margt við skoðanir Björns og framgöngu sem kjósendur D-listans gætu verið að lýsa óánægju sinni með.  Björn hefur löngum komið fyrir sem einlægur stuðningsmaður Bandaríkjanna en svipleg brottför hersins og Íraksmálið hafa grafið undan trúverðugleika hans á því sviði.  Hann hefur flækst öfugu megin inn í umræðu um hlerunarmál, og virðist almennt áhugasamur um eflingu lögregluríkis og hervæðingu, hverju nafni sem nefnist.  Þetta eru skoðanir sem ekki allir Sjálfstæðismenn taka undir, sérstaklega ekki þeir sem leggja áherslu á frelsi einstaklingsins og lágmörkun ríkisafskipta.  Þá gekk Björn fram fyrir skjöldu í fjölmiðlamálinu svokallaða og gaf undir fótinn hugmyndum um kröfur um lágmarksþátttöku og jafnvel aukinn meirihluta í þjóðaratkvæðagreiðslu, án þess að séð verði að stjórnarskráin heimili slíkt. Svona hluti muna margir, og þarf ekki Baugsmálið til að menn séu ósáttir við Björn.

Ég held að hollast væri Sjálfstæðisflokknum og Birni að taka mark á kjósendum og líta í eigin barm; kannski eru hér á ferðinni skilaboð sem vert er að taka mark á.

 


mbl.is Björn lýsir áhyggjum af þróun stjórnmálastarfs og réttarríkisins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað gerir Seðlabankinn?

Á miðvikudagsmorgunn kynnir Seðlabankinn næstu vaxtaákvörðun sína.  Það verður athyglisvert að sjá hvernig tónninn verður í þetta skiptið.  Ef ég mætti hvísla í eyru Seðlabankastjóra, ráðlegði ég þeim að byrja að gefa tóninn - blíðlega - um lækkun vaxta.  Af hverju?  Jú, það er ljóst að vaxtahækkanirnar eru ekki að skila tilætluðum árangri, heldur fremur í öfuga átt.

Fjárfestar og almenningur líta svo á að Seðlabankinn sé að lofa þeim sterkri krónu til alllangs tíma.  Það þýðir að jöklabréfaútgáfan heldur áfram og að almenningur einhendir sér í ódýr erlend lán, fyrir húsnæði, bílum og jafnvel neyslu.  Vextirnir eru sem sagt neysluhvetjandi en ekki letjandi eins og hefðbundin hagfræði segir.

Jöklabréfastabbinn er kominn í 700 milljarða og fer stækkandi.  Þarna eru peningar sem munu flæða út úr krónunni aftur þegar vaxtamunarviðskipti (carry trade) dragast saman á heimsvísu.  Að óbreyttu mun þetta ójafnvægi fara í 1000 milljarða og enn hærra.  Það verður ekki gaman þegar allir fílarnir ætla að troða sér út um litlar útgöngudyr, daginn sem krónan byrjar að falla.  Þá mun markaður fyrir krónur einfaldlega hverfa (sbr. 19. febrúar 2006), seljanleiki verður enginn, skrúfa þarf vexti upp í hundruðir prósenta tímabundið o.s.frv.  Seðlabankanum er vandi á höndum að reyna að komast hjá þessari stöðu með því að veikja krónuna afar mjúklega.  Á því verður að byrja sem allra fyrst, ef við eigum að komast hjá krísu sem kallar ekki allt ömmu sína.


Íslendingar flýja krónuna

Ástand efnahagsmála er afskaplega einkennilegt um þessar mundir.  Fyrirtæki á borð við Actavis, Straum, Marel og CCP færa bókhald sitt yfir í evrur og dollara.  Almenningur fjármagnar kaup á bílum og íbúðarhúsnæði í erlendri mynt.  Á meðan kaupa erlendir fjárfestar jöklabréf fyrir milljarðatugi og eru komnir samtals með mörg hundruð milljarða stöðu í hávaxtakrónu.

Ég spái því að íslensk fyrirtæki byrji fljótlega að bjóða starfsfólki að taka laun í evrum eða dollurum í stað krónu.  Þá getur fólk verið rólegt yfir því að hafa lánin sín í evrum.  Af kynnum mínum af upplýsingakerfum verslana veit ég að það er lítið mál fyrir búðir almennt að verðleggja vörur í evrum og krónum samhliða, og þá er stutt að bíða eftir debet- og kreditkortum á evrureikningum hjá bönkunum.

Sem sagt, almenningur er á leiðinni út úr krónunni og það verða smám saman aðallega erlendir spekúlantar og ríkissjóður sem halda í krónuna, svo ekki sé nú minnst á Seðlabankann, sem missir alla stjórn á hagkerfinu sem fólkið kýs með veskinu.

Þá vaknar góð spurning: er nokkuð slæmt við það? 


Óborganlegur aðstoðarmaður

Þetta er alveg óborganlegt... Jón Kristinn Snæhólm aðstoðarmaður borgarstjóra að þvælast milli brennandi húsa í miðbænum, Vínbarsins (hálfur bjór) og Ráðhússins á slökkviliðsbúningi  Grin

http://gislifreyr.blog.is/blog/gislifreyr/entry/195416/#comments 

Hafði maðurinn ekkert betra að gera?


Aðför að lýðræðinu og stjórnarskránni haldið til haga

Rétt fyrir kosningar er vert að halda til haga einu af stærstu deilumálum kjörtímabilsins sem nú er senn á enda, sem sagt fjölmiðlamálinu og umræðunni um stjórnarskrána og lýðræðið sem fylgdi í kjölfarið.

Eins og menn muna sjálfsagt fór allt í bál og brand í júní og júlí 2004 eftir að forseti Íslands synjaði fjölmiðlafrumvarpi ríkisstjórnarinnar staðfestingar.  Með því vísaði hann í raun frumvarpinu til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá bar svo við að fylgismenn ríkisstjórnarinnar, einkum Sjálfstæðismenn, fundu þessu allt til foráttu; töldu forsetann í raun ekki hafa það vald sem í stjórnarskránni stendur.  Ef til atkvæðagreiðslu kæmi, vildu þeir setja um hana sérstök lög með þrengri skilmálum en fyrirfinnast í stjórnarskránni, einkum um lágmarksþátttöku til að atkvæðagreiðslan teldist "gild" og jafnvel aukinn meirihluta.

Mér fannst þá og finnst enn að þessir menn væru að leika sér að eldinum og sýna verulegan valdhroka, jafnvel tilhneigingu í átt að fasisma.  Þarna var í fúlustu alvöru talað um að ganga gegn skýrum fyrirmælum stjórnarskrár Lýðveldisins Íslands.  Þessi umræða öll var viðkomandi til skammar og ég ætla rétt að vona að þetta mál gleymist ekki í kosningunum núna.  Það er rétti tíminn 12. maí að senda þau skilaboð - einkum til Sjálfstæðisflokksins - að svona gera menn ekki.


Unga fólkið og framtíðin

Um daginn kynntu Samtök atvinnulífsins nýja könnun sem Námsmatsstofnun vann fyrir samtökin, um það hvað ungu kynslóðina langar til að starfa við í framtíðinni.  Umfjöllun um könnunina í þjóðfélaginu var í frekar neikvæðum stíl, fólk hneykslaðist á því að fáir ætluðu að verða bændur og sjómenn, en unglingarnir sjá fyrir sér að verða háskólamenntaðir sérfræðingar af ýmsu tagi, t.d. læknar og arkitektar.

Mér fannst þetta afskaplega fín könnun og markverð, og líka jákvæð.  Ég er bjartsýnn fyrir hönd nýrrar kynslóðar sem áttar sig á mikilvægi menntunar og hugvits, og sér að bestu lífskjörin fást í störfum sem byggja á þessum þáttum.

En það sem hryggir mig er að í aðdraganda kosninga talar enginn flokkur um þessa könnun, óskir unga fólksins og hvernig flokkurinn ætli að vinna að því að skapa þjóðfélagið og atvinnulífið sem unga fólkið vill starfa í.

Eini maðurinn sem hefur tjáð sig ítarlega um þetta mikilvæga mál er Andri Snær Magnason, í bók sinni Draumalandið, og því miður hefur enginn flokkur tekið almennilega upp þann þráð.  Kannski helst Samfylkingin, en ekki nógu afgerandi að mínu mati. 


Fleipur Frjálslyndra um öryggisákvæði EES samningsins

Frjálslyndi flokkurinn sérhæfir sig í upphrópunum og popúlisma sem stenst enga málefnalega skoðun.  Eitt af því sem hann vill gera er að beita svokölluðum öryggisákvæðum EES samningsins til að takmarka fjórfrelsið hvað varðar frjálst flæði vinnuafls til Íslands.  Ekki virðist þeim detta í hug að velta fyrir sér hvaða afleiðingar þetta hefði fyrir Íslendinga sem starfa erlendis.  En gefum Ragnari Árnasyni, forstöðumanni vinnumarkaðssviðs Samtaka atvinnulífsins, orðið: 

Frá 1. maí [núna, innskot VÞ] er Íslandi óheimilt að grípa til sérstakra aðgerða gegn nýju ríkjunum einum og sér. Öryggisráðstöfunum verður einungis beitt gegn öllum aðildarríkum EES samtímis, þ.m.t. Norðurlöndunum. Ef Ísland vill stöðva eða takmarka með lögmætum hætti frjálsa för launafólks frá aðildarríkjum EES þá er einungis ein leið fær: Uppsögn EES samningsins.

Nánar hér

Þótt Frjálslyndir hafi ýmisleg furðuleg stefnumál þá get ég ekki ímyndað mér að þeir vilji segja upp EES samningnum, einu helsta framfaraskrefi í atvinnu- og réttindamálum Íslendinga frá lýðveldisstofnun.  Eða hvað?


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband