Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
8.7.2007 | 00:36
Hvað erum við aftur að gera í Afganistan?
Fregnir berast af því að Atlantshafsbandalagið hafi, það sem af er ári, drepið fleiri óbreytta borgara í Afganistan en talíbanar. Hefur Hamid Karzai, forseti landsins og fyrrverandi starfsmaður bandaríska olíufélagsins Unocal, gengið svo langt að átelja aðferðir NATO og óska eftir að bandalagið meti afgönsk mannslíf með ábyrgari hætti en hingað til.
Nú spyr ég lesendur þessa bloggs: geta þeir hjálpað mér að muna hvað við Íslendingar (sem þátttakendur í þessu í gegn um Atlantshafsbandalagið) erum eiginlega að gera þarna?
Hin opinbera skýring er væntanlega sú að það verði að koma í veg fyrir að talibanar nái aftur völdum í landinu. En kommon, getum við verið árum saman með hernaðarrekstur í fjarlægum löndum, sem kostar fjölda óbreyttra borgara lífið, til þess að koma í veg fyrir að tiltekin stjórn nái völdum? Talibanar eru ekki geðfelldir en þeir eru ekkert að ráði verri en t.d. stjórnvöld í Sádí-Arabíu, og aðhyllast reyndar mikið til sömu hugmyndafræði. Ekki erum við í Sádí-Arabíu með herlið, heldur þvert á móti - stjórnvöldum þar eru seldar F-16 þotur og Patriot flugskeyti og þau mærð sem bandamenn.
Ef talibanar ná völdum, verður bara að spila úr þeirri stöðu af skynsemi. Fyrir rest falla stjórnvöld sem ekki njóta stuðnings fólksins. Málstaður lýðræðis og mannréttinda er nógu sterkur til að sigra að lokum, sér í lagi ef hann er ekki eyðilagður með hræsni og tvískinnungi.4.7.2007 | 00:17
Refsigleði er röng
Ég er á móti refsigleði. Í gær virtist mér bætast stuðningur í því efni úr óvæntri átt, sem sé frá engum öðrum en George W. Bush. Hann lýsti því yfir að 30 mánaða fangelsi væri of ströng refsing fyrir Lewis ("Scooter") Libby, fyrrum aðstoðarmann Dick Cheney, en hann hafði verið fundinn sekur um meinsæri. Bush náðaði því Libby hvað fangelsisvistina varðar. Virðist eins og við Georg séum orðnir sammála um að refsigleði bandaríska dómskerfisins sé komin út í algjörar öfgar.
Refsigleði er múgsefjunarfyrirbæri og kemur upp á bestu bæjum, til dæmis hér á Íslandi í kring um kynferðisafbrot ýmis konar, og meira að segja er til fólk hér á landi sem segist hlynnt dauðarefsingum við verstu ofbeldisglæpum.
Ég hef mjög takmarkaða trú á ofurströngum refsingum. Flestir þeir glæpir sem fólk vill refsa harðlega fyrir eru einhvers konar stundarbrjálæðisglæpir, þar sem gerandinn er ekkert að leiða hugann að því hvort hann fái 2ja, 5 eða 16 ára fangelsi fyrir verknaðinn. Hinn dæmigerði ofbeldisglæpamaður er ekki mikill homo economicus, sleipur í líkindareikningi og væntigildum.
Við verðum að hafa hugrekki til að velta fyrir okkur jarðvegi og orsökum glæpa, ekki bara að bregðast við afleiðingunum með frumstæðari hlutum heilans. Nú nýlega kom upp úr kafinu að talsverður hluti glæpa- og ólánsmanna ákveðinnar kynslóðar á Íslandi hafði verið á upptökuheimilinu að Breiðuvík í æsku, og verið misnotaður þar á ýmsan hátt. Er endilega sanngjarnt að refsa þessum mönnum harkalega fyrir misgjörðir sínar, ef orsakanna er að leita í því hvernig hið opinbera kerfi brást þeim gjörsamlega í æsku? Væri þá ekki nær að vinna í að komast fyrir orsakirnar?
Ég er ekki trúaður maður. En ég held að Kristur hafi hitt naglann á höfuðið þegar hann hvatti til fyrirgefningar. Mér finnst reyndar kristin trú og refsigleði alls ekki fara saman, en um það erum við George W. Bush örugglega ósammála.
1.7.2007 | 21:14
Hlutlaus fræðsla er mannréttindi barna
Í Bandaríkjunum og víðar hefur heimakennsla barna (home schooling) færst í aukana hin síðari ár. Foreldrar taka með öðrum orðum að sér að kenna börnum sínum, og velja sjálfir námsefnið að verulegu leyti, en í flestum tilvikum verða börnin engu að síður að standast samræmd próf á vegum yfirvalda.
Foreldrar sem velja heimakennslu eru gjarnan óánægðir með hið almenna skólakerfi af einhverjum ástæðum, og algengt er að þeir hafi svo sérstakar trúarskoðanir að þeir vilji ekki að börnum sínum séu kennd fræði sem stangast á við þessar skoðanir, svo sem þróunarkenningin, jarðsagan o.fl.
(Sjálfur vann ég einu sinni í hollensku fyrirtæki sem stofnað var af strangtrúuðum Kalvínistum, og var þar margur kynlegur kvisturinn. Til dæmis voru þeir þeirrar bjargföstu trúar að menn hefðu áður og fyrr orðið mjög gamlir, því jörðin er skv. útreikningum þeirra um 6000 ára gömul en í biblíunni má sjá af ættartölum að í mesta lagi 40-50 kynslóðir hafi lifað á jörðinni frá upphafi. Einföld deiling sýnir fram á að fyrri kynslóðir hafi orðið vel aldraðar - og eignast börn seint! - ef þetta á allt að ganga upp. Fleira var þarna stórundarlegt en það er efni í síðari bloggfærslu.)
Ég er á móti heimakennslu af því að ég tel hana andstæða mannréttindum barna og hættulega samfélagi framtíðar. Börn eiga rétt á því að fá hlutlausa fræðslu, ómengaða af bábiljum, fordómum og kreddum sem foreldrarnir kunna að vera haldnir. Á grundvelli þeirrar fræðslu eiga þau sjálf að velja sína trú þegar þau hafa vit og aldur til. Ef bandarískir kreddukjánar komast upp með að fóðra börn sín á sömu vitleysunni, þá er ekki von á góðu þegar ný kynslóð erfir landið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
13.6.2007 | 16:47
Átti flugvallarumsjón í Kosovo ekki að vera góðgerðarmál?
Ég var nú svo einfaldur að fyllast stolti yfir því að Íslendingar væru svona næs að taka að sér flugvallarumsjón í Kosovo í góðgerðarskyni við hina hrjáðu þjóð. En það er öðru nær, þetta er einfaldlega verktakasamningur sem fulllgreitt er fyrir, með hagnaði.
Hér skrifar Dagens Nyheter um málið, í ítarlegri grein sem fjallar um spillingu í endurreisnarstarfi í Kosovo, fyrir þá sem eru sleipir í sænsku:
Inte heller, tänker jag, kommer Islands regering någonsin ställas till svars. "Islänningarna plundrar flygplatsen", larmar en FN-ekonom i ett brev till OLAF (Europeiska byrån för bedrägeribekämpning). Ja, det gör de, men med FN-chefernas goda minne.
Det har hetat att det var av ren välgörenhet som Islands luftfartsverk (ICAA) åtog sig att hantera flygplatsen i Pristina.
Någon måste nämligen göra det. Kosovo är ingen stat, får inte driva internationell flygplats. Alltså lånar ICAA ut sin licens och skall även finslipa arbetsrutiner, övervaka verksamheten och uppgradera flygfältet, så det blir godkänt. Så vänligt, så solidariskt... Men efter en tid börjar kosovarer undra varför välgörarna aldrig blir klara. Hur lång tid kan det ta att resa ett staket runt flygplatsen? Sex månader? Efter tre år har man inte lyckats.
Vad kosovarer inte vet är att islänningarna saknar skäl till brådska. De har redan lyft nära 150 miljoner i traktamenten och konsultarvoden. Och mer lär det bli. (Beloppet motsvarar en fjärdedel av landets vårdutgifter.) I det hemliga kontraktet som FN slutit med Island framgick inte när ICAA skall fullfölja uppdraget. Det bara förlängdes ett år i taget. Därtill brandskattar Island alla upphandlingar. Varje gång flygplatsen beställer ett datasystem eller en konsult rasslar det in 15 procent i Reykjavik.
En gång i tiden var världen mer välordnad. Italienare ansågs korrupta, skandinaver stod för ärlighet. Men i Kosovo är "the Viking maffia" numera ett begrepp för danska, norska och isländska profitörer. Som man ber till Allah att de omutliga italienarna skall sätta dit.
Fyrir þá sem ekki eru vel inni í sænskunni: Menn héldu að hér væru góðverk á ferðinni en annað hefur komið í ljós. "Velgjörðarmennirnir" eru ekkert á leiðinni að klára og skila verkinu til heimamanna, en á þremur árum hefur það kostað 1500 milljónir íslenskra króna. Áður höfðu Ítalir það orð á sér að vera spilltir, en núna tala Kosovo-menn um Víkinga-mafíuna, sem er samheiti um danska, norska og íslenska gróðapunga. Svo mörg voru þau orð!
11.6.2007 | 09:08
Það sem þeim dettur í hug!
Nú segir New York Times frá því að Bandaríkjamenn séu byrjaðir að afhenda völdum hópum Sunni-múslíma í Írak vopn, eldsneyti, birgðir og reiðufé gegn því að viðkomandi segist veita Bandaríkjamönnum liðsinni og berjast gegn "Al Qaeda". Svona svipað og þegar þeir gáfu Talibönum og stríðsherrum í Afganistan vopn og vistir á sínum tíma til að berjast við Sovétríkin og þeirra leppi. Ekki endaði það nú vel, eins og menn þekkja.
Í stríðsorðræðu Bush og félaga er nauðsynlegt að til sé óvinur í "stríðinu gegn hryðjuverkum". Þess vegna verður mönnum tíðrætt um Al Qaeda og yfirleitt talað eins og þarna séu á ferð einhver vel skipulögð samtök, sem hægt sé að sigra sem slík. Þetta er fjarri raunveruleikanum. Al Qaeda er óljóst regnhlífarhugtak yfir ýmsa þá sem hafa ímugust á Bandaríkjunum og ýmsum vestrænum gildum, með vísan í Kóraninn varðandi það hvernig heimurinn ætti að vera í staðinn. Þetta er með öðrum orðum frekar hugmyndafræði eða afstaða, skoðanamengi fremur en skipulögð samtök. Hliðstæða gæti t.d. verið andspyrnuhreyfingar hvers konar, þar sem óvinurinn sameinar fólk án þess að endilega sé skipulega að andspyrnunni staðið.
Eina leiðin til að berjast "gegn Al Qaeda", og ná árangri, er að ganga fram með öðrum hætti á alþjóðavettvangi, hætta skilyrðislausum stuðningi við yfirgang Ísraels, vera raunverulegur málsvari lýðræðis og mannréttinda, og hætta að láta eigin olíuhagsmuni ráða för. Þá fyrst yrði skrúfað fyrir hitann undir hinni kraumandi óánægju, og kominn tími til, áður en oftar sýður upp úr.
P.S. Grein Jóns Baldvins í Sunnudagsmogganum (10. júní) um Tony Blair er alveg brilljant, eins og búast mátti við af þeim eiturskarpa penna og stjórnmálarýnanda. Mæli sterklega með þeirri lesningu.
9.6.2007 | 14:40
Friðrik V lifi!
Um daginn varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að snæða kvöldverð á veitingahúsinu Friðriki V á Akureyri. Ég ferðast nokkuð víða og borða oft á góðum veitingastöðum, en það er ánægjulegt að geta sagt frá því að máltíðin á Friðrik V var sú besta sem ég hef fengið lengi, innanlands og erlendis. Ef Michelin gæfi stjörnur á Íslandi væri þessi staður alls ekki ólíklegur til að fá tvær. (Hjá Michelin þýðir ein stjarna að maður eigi að heimsækja staðinn ef maður á leið framhjá; tvær að maður eigi að leggja lykkju á leið sína til að snæða þar, en þrjár að maður eigi að gera sér sérstaka ferð. Aðeins albestu veitingastaðir fá eina stjörnu, hvað þá fleiri.)
Ekki spillir fyrir að kokkurinn Friðrik Valur ber sjálfur réttina á borðið ásamt konu sinni Arnrúnu, og gestir eru leiddir í allan sannleika um uppruna hráefnisins, sem í nær öllum tilvikum er úr Eyjafirði og nærsveitum. Koma þar fram nöfn bænda og búaliðs og margt er þar athyglisvert um einstaklingsframtak og metnað til að framleiða gæðavöru sem skeri sig úr, hvort sem um var að ræða kjöt, grænmeti, bjór eða ísinn í eftirréttinum.
Mér varð hugsað til Draumalandsins hans Andra Snæs og umræðu hans um landbúnaðinn og hversu erfiðlega hefur gengið að breyta honum úr sovétkommúnískri meðalmennskudýrkandi fátæktargildru, í opið markaðskerfi framtaks, nýsköpunar, markaðssóknar og fjölflóru. Ef marka má máltíðina á Friðriki V, er alls engu að kvíða fyrir íslenska bændur, þótt þeim verði hleypt út á frjálsan markað eins og beljum að vori.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.6.2007 | 22:16
"Tifandi tímasprengjan" lifir
Ég hélt að ég yrði ekki eldri þegar ég sá þessa upptöku frá kappræðum forsendaframbjóðenda Repúblikanaflokksins:
Þarna setur þáttastjórnandinn fram með miklum alvöruþunga hina svokölluðu "tifandi tímasprengju" sem er tilbúið dæmi - þekkt úr siðfræði og heimspeki - sem á að sýna fram á að pyntingar séu nauðsynlegt tæki gegn vondum hryðjuverkamönnum. Og frambjóðendurnir gleypa þetta hver af öðrum og vilja leyfa pyntingar eða a.m.k. veigrunina "enhanced interrogation techniques". Einn bætir við að hann vilji tvöfalda stærð Guantanamo búðanna. Hvað er eiginlega að verða um Bandaríkin? Er fasisminn að verða svona rosalega sterkur?
Fyrir þá sem vilja lesa sér til um tifandi tímasprengjuna má benda á eftirfarandi greinar:
Bruce Schneier, minn uppáhaldsskríbent um öryggismál: http://www.schneier.com/blog/archives/2006/10/torture_and_the.html
Hér er greinin sem Schneier vísar til: http://balkin.blogspot.com/2006/10/torture-and-ticking-time-bomb.html
Önnur góð: http://progressive.org/node/3940
Ítarleg: http://www.blackwell-synergy.com/doi/pdf/10.1111/j.1468-5930.2006.00355.x?cookieSet=1
Mjög ítarleg og fræðileg: http://www.virginialawreview.org/content/pdfs/91/1425.pdf
Pyntingar eiga aldrei rétt á sér. Þeir sem halda öðru fram eru að hafna öllu siðgæði.
Ef við segjum að leyfilegt sé að beita pyntingum ef líklegt er að þær laði fram upplýsingar sem þyrmi lífi margra (t.d. þúsunda), hvar á þá að draga mörkin? Væri t.d. leyfilegt að pynta barn hryðjuverkamanns fyrir framan hann, ef það gæti þyrmt lífi tugþúsunda? Eða nauðga konu hans fyrir framan hann, ef það gæti þyrmt lífi hundraða þúsunda? Nákvæmlega hversu miklar þurfa líkurnar að vera - 100%, 99,9%, 99%, 90%? Og hvernig á að vera hægt að treysta því sem menn segja eftir pyntingar?
Að forsetaframbjóðendur í valdamesta ríki veraldar séu að svara svona bulli vekur mér verulegan ugg. Og svo segjast þeir vera kristnir í þokkabót.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
3.6.2007 | 22:56
Jæja, þá er Kúrdistan næst á dagskrá...
... í áframhaldandi hörmungasögu Íraksstríðsins. Eitt af því sem allir vissu, sem eitthvað kynntu sér sögu Íraks og nágrennis í aðdraganda stríðsins, er að Kúrdar í norðurhéruðum Íraks hafa fullan hug á að sameinast suðurhluta Tyrklands og stofna Kúrdistan, þeirra fyrirheitna land. En víst má telja að Bandaríkjamenn hafa ekki hugsað sér að það yrði að veruleika, þótt þeir reiddu sig á stuðning Kúrda gegn Saddam.
Ég spái því að þarna verði næsta stórvandamálið sem hlýst af hinu vanhugsaða (óhugsaða?) Íraksstríði.
Tyrkir varaðir við að senda herlið yfir landamæri Íraks | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.5.2007 | 23:06
Til hamingju, Ingibjörg Sólrún...
... með utanríkisráðuneytið, og nýju ríkisstjórnina almennt.
Nú væri gaman að sjá Ísland móta sjálfstæðari og ferskari utanríkisstefnu en verið hefur um árabil. Við eigum að leyfa okkur að vera vörður friðar, lýðræðis og mannréttinda í heiminum, og nýta okkur smæð okkar og sérstöðu í því skyni. Þarna eru mikil tækifæri til að láta gott af sér leiða ef vel er á haldið.
Mér er minnisstætt fréttaviðtal sem ég sá í sænsku sjónvarpi við Önnu Lindh, heitna, þáverandi utanríkisráðherra Svíþjóðar. Þar talaði kona sem leyfði sér að túlka afdráttarlausa og sjálfstæða utanríkisstefnu þjóðar sinnar og ríkisstjórnar, í þessu tilviki í málefnum Palestínu. Ég varð samstundis einlægur aðdáandi Önnu Lindh og harmaði fráfall hennar eins og margir. En þegar ég horfði á viðtalið saknaði ég svona skeleggs utanríkisráðherra minnar eigin þjóðar; við höfðum reyndar einn slíkan þar sem Jón Baldvin var, en ósköp tilþrifalitla síðan. Nú bíð ég spenntur eftir að sjá hvað ISG gerir, og bind við það miklar vonir.
Og - Ingibjörg Sólrún - mikið svakalega væri það fínt ef fyrsta verk ráðherrans yrði að aflétta stuðningi Íslands við stríðið í Írak.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
20.5.2007 | 17:43
Eddu Rós sem fjármálaráðherra
Sú venja að skipa ráðherra úr röðum alþingismanna er barn síns tíma. Áður fyrr voru alþingismenn hvort eð er í hópi best menntuðu og reyndustu dætra og sona landsins. Nú er þjóðfélagið mikið breytt, sérhæfing allt önnur og meiri, og hæfileikar sem nýtast fólki til metorða innan stjórnmálaflokka og síðan í þingkosningum eru ekki endilega þeir sömu og gagnast stjórnendum framkvæmdavaldsins til góðra verka fyrir land og lýð.
Ég tel til dæmis að fjarskiptamálum hefði getað verið betur sinnt í tíð undanfarinna ríkisstjórna ef ráðherrar samgöngumála, Halldór Blöndal og Sturla Böðvarsson, hefðu haft meiri faglega nasasjón af því út á hvað Internetið og fjarskiptabyltingin ganga.
Nú legg ég til í anda þess sem á undan er sagt, og í hæfilegum hálfkæringi, að Samfylkingin tilnefni Eddu Rós Karlsdóttur yfirmann greiningardeildar Landsbankans í starf fjármálaráðherra. Þar er afar frambærilegur kandídat í starfið, sem skilur gangverk íslenska hagkerfisins, hefur góð tengsl við verkalýðshreyfinguna og nýtur trausts á fjármálamörkuðum. Þar væri flott byrjun á nýrri ríkisstjórn fyrir Samfylkinguna!