Skipulagi hefur farið aftur

Ég ólst upp á Melunum, í afar fallegu hverfi sem skipulagt var um og fyrir 1940.  Það var í þá gömlu góðu daga þegar fólk kunni að skipuleggja borgarumhverfi.  Manneskjulegar stærðir, vinalegir húsagarðar, rólegar götur sem gaman er að ganga um.  Byggðin hæfilega þétt.

Því miður er eins og þessi þekking hafi týnst í kring um 7. og 8. áratuginn.  Síðan þá hefur borgarskipulagið meira og minna verið fast í ógöngum, þó með stöku undantekningum í Fossvogi, Breiðholtshverfi og kannski í Grafarvogi.  Einhver verstu dæmin eru í nýjustu hverfunum, t.d. í Hafnarfirði, þar sem verktakar virðast ráða skipulagi með hörmulegum afleiðingum.

Dæmi um nútíma skipulagsmistök má sjá í Borgartúninu, þar sem ekkert hefur verið hugsað um mannlegt og vinalegt umhverfi.  Gangandi fólk kemst varla milli húsa þar, hvað þá að nokkrum manni detti í hug að labba um götuna sér til ánægju.  Mikil steypugljúfur munu sjá þar fyrir vindstrengjum sem valda því að fólk flýtir sér beint úr bílnum inn í næstu hús og svo sem hraðast í burtu eftir að nauðsynlegum erindum er lokið.

Í framtíðinni verða perlurnar innan borgarinnar enn mikilvægari en áður; þangað mun fólk leita í var frá háhýsum og steypulandslagi til að finna afslappað og mannvænt umhverfi.

Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ skilja þetta greinilega ekki.  Þau kunna ekki að meta þá perlu sem Álafosskvosin er, og sjá ekki möguleikana sem þar eru á að gera einhvern besta hluta Mosfellsbæjar - og þótt víða væri leitað - enn betri.  Þarna er komið upp samfélag listamanna og skapandi fólks í mjög fallegu umhverfi, sem gæti orðið vin í umhverfislegri eyðimörk sem hefur Kentucky Fried Chicken sem merkisbera.  En bæjaryfirvöld, þ.m.t. Vinstri grænir, virðast álíta KFC-skipulag vera framtíðina og Álafosskvosina eiga að tilheyra fortíð.  Því er einmitt öfugt farið.


mbl.is Háhýsastefna í mótun í Reykjavík
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þeir sem hafa sett sig inní veðurfarsaðstæður á Íslandi vita að háhýsi fara afar illa við íslenskt veðurfar.  Vindi slær niður í námunda þau og hinn hraðari "vindbelti" sem liggja hærra slengjast niður.  Svo ekki sé talað um skuggavarp sem er ólíkt meira en sunnar á hnettinum.  Engihjallinn í Kópavogi er dæmi um háhýsaskipulag og ekki hefur það þótt heppnast vel.  Ekki er iðandi mannlífi fyrir að fara á milli blokkanna heldur eru þetta einungis bílastæði, skuggi og vindstrengir.  Maður skildi ætla að fólk hefði lært eitthvað síðan þá en því fer fjarri.  Ný háhýsi eru, með örfáum undantekningum, lítið skárri en þau voru fyrir þrjátíu árum.  Hávaxin eylönd sem baða bílastæðin allt í kring í skugga og garra.

 Til glöggvunar bendi ég á að háhýsabyggð er ekki afsprengi íslenskra arkitekta, heldur hagsmuna verktaka...- sem einhverra hluta vegna virðast yfirleitt fá sínu framgengt, þó það sé gegn almannaheill.

 Arkitekt

johann@skapa.is (IP-tala skráð) 19.5.2007 kl. 19:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband