Hvað eru jöklabréf?

Síðunni hefur borist ábending um að hugtakið "jöklabréf" hafi verið notað í fyrri færslu án útskýringar.  Hér er hún:

Jöklabréf = glacier bond = skuldabréf gefin út af alþjóðlegum bönkum og sjóðum en í íslenskum krónum og með íslenskum ofurvöxtum.  Seld ítölskum tannlæknum og austurrískum ekkjum, sem finnst vextirnir spennandi.  Einnig seld spekúlöntum sem taka lán í jenum og svissneskum frönkum á 1-3% vöxtum og kaupa jöklabréf á 11-13% vöxtum fyrir peningana, og vona að krónan falli ekki (a.m.k. ekki meira en 10% á ári).

Alþjóðlegu bankarnir taka íslensku krónurnar sem þeir fá fyrir jöklabréfin og skipta þeim aftur í íslenskum bönkum fyrir evrur, eða kaupa íslensk ríkisskuldabréf á hærri vöxtum en jöklabréfin eru, eða setja krónurnar á íslenskan peningamarkað (en þar er vöxtum haldið uppi af Seðlabankanum).  Meðan þetta gengur svona áfram, styrkist krónan, það er fullt af peningum í umferð og allir eru glaðir - uns tjaldið fellur.

Um þessar mundir eru yfir 700 milljarðar af jöklabréfum útistandandi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðrún Magnea Helgadóttir

Sæll Vilhjálmur Þorsteinsson. Spáðu í hvað kemur til með að verða ef íslenska krónan verðfellur?

Guðrún Magnea Helgadóttir, 17.5.2007 kl. 15:20

2 Smámynd: haraldurhar

Sæll Vilhjálmur.   Þetta er hin ísl. svikamilla, og óskyljanlegt að þessir okurvextir sé látnir viðgangast.  Getur þú sagt í nokkrum orðum hver atburðarásin verður þegar erl fjárfestar hefja sölu á Jöklabréfunum?  Mitt álit er að það verði æði þröngt í dyrunum.  Er hugsanleg að verði gjaldeyrisskortur á Íslandi?

    Það er að mínu áliti ekki öfundsverðir tímar í hönd fyrir nýja ríkistjórn að ná tökum á efnahagsmálum þjoðarinnar eftir góðærisbólu síðustu stjórnar.

   Möguleiki er á að í eins og í flestum löndum að verði bara einn Seðlabankastjóri, og hann kannski ráðinn á faglegum sjónamiðum, en ekki notaður eins og elliheimili fyrir úrelta stjórnmálamenn, svo maður tali nú ekki um núverandi formann stjórnar Seðabankans, sem á erindi þar og hefur aldrei átt.

   Það er von á breittum og betri tímum á Íslandi með  nýja menn og nýjar áherzlur

haraldurhar, 17.5.2007 kl. 17:54

3 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Þakka athugasemdirnar.  Þetta ástand veldur því að krónan verður mjög viðkvæm.  Það er að segja, ef hún byrjar að veikjast, þá er hætta á að allir ætli út um dyrnar á sama tíma og veikingin tví- og þríeflist.  Þá mun koma afar erfitt tímabil þar sem fáir kaupendur verða að krónunni, gengið veikist mjög hratt, seljanleiki hverfur jafnvel í einhvern tíma, og Seðlabankinn mun þurfa að grípa inn í með því að hækka vexti tímabundið í gríðarlegar tölur, eins og fordæmi eru um í svipuðum krísum.  Sem betur fer held ég að bankarnir séu flestir með jákvæðan gjaldeyrisjöfnuð, þ.e. eigið fé þeirra myndi ekki rýrna við þetta, en allmörg íslensk fyrirtæki eru verulega skuldsett í erlendri mynt og eiginfjárhlutföll þeirra myndu rýrna í þessari atburðarás.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 17.5.2007 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband