Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Hvað er kristilegt siðferði?

Í kjölfar nýs frumvarps menntamálaráðherra um skólamál, þar sem ekki er lengur minnst á kristilegt siðferði, hefur spunnist umræða um það fyrirbæri, sem sumir telja þjóðfélagsskipan okkar byggja á.  Þá hefur málflutningur Siðmenntar, félags siðrænna húmanista, leitt af sér skoðanaskipti um hlutverk trúar í samfélaginu.  Dæmi um þetta er grein í Morgunblaðinu í dag eftir Hildi Þórðardóttur, "móður tveggja drengja", sem heitir "Burt með Siðmennt".  Þar segir Hildur m.a.:

Kennum þá endilega börnum okkar að enginn guð sé til, þau þurfi ekkert að svara til saka þó þau myrði, nauðgi og ræni.  Samkvæmt Siðmennt er bara eitt líf og það skiptir engu máli hvort við séum morðingjar eða ekki. [...] Guð kennir okkur að við þurfum að svara til saka eftir dauða okkar.  Af hverju þarf endilega að taka það frá börnunum okkar?

Nú veit ég ekki hvort Hildur er mótmælandi eða kaþólikki, eða eitthvað annað.  En okkar ríkiskirkja er hin evangelísk-lúterska mótmælendakirkja.  Samkvæmt kenningu hennar skiptir engu máli hvað við gerum í lífinu, t.d. rænum, myrðum eða nauðgum; það hefur ekki áhrif á það hvort við komumst til himna.  Það eina sem veitir okkur himnaríkisvist er náð Guðs, sem við getum hugsanlega öðlast fyrir trú á Jesú Krist.  Og Kristur segir jú að meiri gleði verði á himnum yfir iðrandi syndara en þeim sem  hefur verið dyggðugur allt sitt líf.  Reyndar eru Kalvínistar (ein tegund mótmælenda) þeirrar skoðunar að við séum forvalin við fæðingu til himnaríkisvistar og þá skiptir engu máli hvað við hugsum eða gerum, þótt góð breytni og dyggðugt líf geti vissulega verið til marks um að við séum útvalin.

Mér tókst að komast í gegn um kristinfræðikennslu og fermingu án þess að mér væri gert ljóst þetta grundvallaratriði í mótmælendatrúnni, og ég hygg að svo sé um fleiri.

Okkar vestræna laga- og siðferðishefð byggir í reynd hvorki á Gamla Testamentinu (auga fyrir auga, tönn fyrir tönn), né boðskap Krists (um að rétta fram hinn vangann og fyrirgefa þeim sem gera á hlut manns).  Við förum nokkurs konar millileið með mishóflegum refsingum fyrir yfirsjónir, allt frá tiltölulega mildum refsiramma Norðurlanda til gríðarlegrar refsigleði t.d. Texasbúa sem víla ekki fyrir sér að refsa börnum og þroskaheftum, jafnvel með dauðarefsingu.  Allt mun þetta af einhverjum teljast byggja á svokölluðu kristnu siðferði og er orðið vandséð að það hugtak sé gagnlegt miðað við hvað túlkun þess er víð.

Sumt af siðferðisboðskap Biblíunnar samræmist nútíma siðagildum og annað ekki; til dæmis er Kristur afdráttarlaust þeirrar skoðunar að fráskilin kona sem giftist á ný drýgi hór, meðan Páll postuli telur samkynhneigð vera viðurstyggð.  Það er augljóslega tíðarandinn hverju sinni sem mótar siðagildin sem samfélagið miðar við.  Að mínu mati er miklu affarasælla að hver einstaklingur hugleiði það fyrir sig hvað sé gott siðferði og af hverju það borgar sig að lifa samkvæmt því, fremur en að góð hegðun spretti aðallega af hræðslu við refsingar í seinna lífi.

Gott siðferði í nútímanum byggir meðal annars á virðingu fyrir mannréttindum og umburðarlyndi gagnvart ólíkri menningu, þó þannig að umburðarlyndið endar þar sem mannréttindin byrja.  Kennum börnum okkar um rætur nútíma siðferðis, sem rekja má langt aftur fyrir Jesú Krist, um helstu heimspekikenningar og um sögu mannréttindabaráttunnar.  Það er þekking sem kemur að gagni í samfélagi nútíðar og framtíðar.


Mogginn úti að aka

Morgunblaðið hefur tvisvar í þessari viku birt "fréttir" þar sem forsvarsmenn fyrirtækja úti í bæ kvarta yfir að hafa ekki fengið tiltekin viðskipti við opinberar stofnanir eða hlutafélög þar sem ríkið er meðal eigenda.  Blaðamaður tekur að sér að rekja í alllöngu máli, í öðru tilvikinu á heilli síðu í blaðinu, einhliða útgáfu viðkomandi forsvarsmanna af upplifun sinni af tilteknum sölumálum og óskiljanlegu áhugaleysi kaupenda þrátt fyrir að verið sé að bjóða frábæra vöru.  Viðskiptavinurinn hefur sem sagt alls ekki rétt fyrir sér og þetta rekur blaðið í löngu máli fyrir lesendum sínum.  Án þess að detta í hug að leita álits gagnaðilans í viðskiptunum eða velta fyrir sér hvort fleiri hliðar kunni að vera á málinu.  (Siðareglur blaðamanna hvað?)

Í báðum tilvikum hafa svo birst í blaðinu daginn eftir athugasemdir og svör hinna meintu rangthugsandi viðskiptavina og hefur þá ekki staðið steinn yfir steini í upphaflegum málflutningi hinna móðguðu forsvarsmanna.

Maður spyr sig: má búast við framhaldi á svona athyglisverðri blaðamennsku, þannig að lesendur Morgunblaðsins geti dundað sér við að lesa langhunda með umkvörtunum sölumanna sem finnst þeir tala út í tómið, og svo andsvör áhugalausra viðskiptavina daginn eftir?  Ég er ennþá áskrifandi að Morgunblaðinu, en ekki finnst mér peningunum vel varið í svona trakteringar.


Gefum friði tækifæri

Í tilefni dagsins - afmælisdags Johns Lennons heitins - velti ég því fyrir mér hvort her og hernaðarbrölt sé ekki orðið löngu úrelt og úr sér gengið fyrirbæri.

Það hefur margsýnt sig að nánast ómögulegt er að ná "árangri" með beitingu hervalds.  Sú aðferð bitnar fyrst og fremst á saklausum borgurum og er í besta falli eins og bitlaus hnífur eða öllu heldur léleg sleggja sem eyðileggur allt sem fyrir verður.  Jafnvel þótt mönnum mislíki einræðisherrar eða óttist útbreiðslu tiltekinnar stjórnmálaskoðunar er beiting hervalds lítt til þess fallin að leysa vandann.  Miklu betri leið er að hafa trú á góðan málstað, vinna hjörtu og hug fólks og hlúa að lýðræði og mannréttindum.  Reynsla Indverja undir forystu Gandhis eða Suður-Afríkubúa undir forystu Mandela sýnir að dropinn holar steininn, og ofbeldi má sín lítils til lengdar.

Misheppnað brölt Bandaríkjamanna í Írak, og reyndar áður í Víetnam, sýnir að meira að segja mesta hernaðarveldi heims, og hátæknivætt vopnabúr þess, dugir ekki til neins þegar á reynir.  Ekki einu sinni þegar andstæðingurinn er fátækir hrísgrjónabændur eða undirokaðir - en stoltir - Írakar.  Það er ekki hægt að beygja fólk til hlýðni með ofbeldi nema til skamms tíma.  Sagan kennir okkur þetta, svart á hvítu.   Enda landvinningar tímaskekkja sem fyrirbæri á tímum Internets og alþjóðavæðingar.

Endurskoðum því hernaðarhyggjuna, hættum að sóa fjármunum í þessa vitleysu sem engu skilar, og trúum í staðinn á hugsjónina um heim án valdbeitingar.  Það er betri heimur, og það vissi John Lennon eins og fleiri góðir friðarsinnar og mannvinir. 


Hvimleitt hjakk ofurfrjálshyggjumanna

Nú er maður þrátt fyrir allt orðinn eldri en tvævetur í pólitík, og hefur fylgst með umræðunni síðan snemma á níunda áratugnum.  Meðal fastra punkta síðustu tveggja áratuga hefur verið hjakk ungra ofurfrjálshyggjumanna í kunnuglegri og einfaldri hugmyndafræði sem þeir þreytast ekki á að tala um en er hvergi praktíseruð.  Ekki dettur þeim þó í hug að staldra við og spyrja sig hvort góðar ástæður séu ef til vill fyrir þeirri staðreynd.

Tvö dæmi:

Nú nýlega var Gísli Freyr Valdórsson að skrifa um leikskóla og taldi að hækka ætti leikskólagjöld svo unnt væri að hækka laun starfsfólksins.  Röksemdafærslan byggði að hluta á því að fólk tæki sjálft ákvarðanir um að eignast börn og væri ekki of gott til að greiða sjálft kostnaðinn sem af því hlytist, sem sagt hin dæmigerða frjálshyggjurökfærsla um að einstaklingurinn beri fyrst og fremst ábyrgð á sjálfum sér en ekki öðrum.

Af þessu tilefni lýsi ég því yfir hér og nú að ég hef ekkert á móti því að greiða skatta til að börnin hans Gísla Freys, vonandi væntanleg, geti sótt vandaðan og góðan leikskóla ef foreldrarnir svo kjósa.  Ég held að ég deili þeirri grundvallarafstöðu með verulegum meirihluta þjóðarinnar.

Af hverju?  Vegna þess að það er mér og þjóðinni allri í hag að við leggjum rækt við næstu kynslóð, stuðlum að því að sem flestir sjái sér fært að eiga börn sem munu standa undir þjóðfélaginu í framtíðinni, og auðveldum aðgang beggja foreldra að vinnumarkaði eftir því sem kostur er.  Allt er þetta hagvaxtaraukandi og gott í krónum og aurum fyrir heildarhaginn.  Þar fyrir utan liggja í þessu fyrirkomulagi annars konar verðmæti varðandi velferð barna og fjölskyldna og almenna lífshamingju landsmanna, sem er líka mitt hagsmunamál sem einstaklings innan þjóðfélagsins.

Er þetta mjög erfitt að skilja?  Nei, ekki finnst mér það.

Hitt dæmið er rekstur Sinfóníuhljómsveitar.  Frjálshyggjumenn segja að áhugamenn um sígilda tónlist eigi einfaldlega að borga 40.000 krónur fyrir miða á Sinfóníutónleika eða hvaða upphæð sem það nú er sem telst raunkostnaður pr. gest.  Kostnaði af áhugamáli fárra eigi ekki að velta yfir á fjöldann í formi skatta.  Ósköp rökrétt á yfirborðinu.

En hverju sætir þá að í bisnesstímaritum á borð við Fortune eða Forbes má oft og tíðum sjá auglýsingar frá ýmsum heimsborgum þar sem gumað er af kostum þeirra fyrir fyrirtæki og fjárfesta, og þar er jafnan talið upp öflugt menningarlíf, sinfóníuhljómsveit og ópera, ef það er á annað borð fyrir hendi?  Tilfellið er nefnilega, að burtséð frá óbeinum ávinningi í almennri lífsfyllingu, þá er fjárfesting lands eða borgar í sinfóníuhljómsveit eða óperu hverfandi miðað við það hversu mikið meira aðlaðandi landið eða borgin verður fyrir fólk, fyrirtæki og fjárfesta.  Ég kem nálægt ýmsum fyrirtækjum sem þurfa á því að halda að vel menntað starfsfólk hvaðanæva að úr heiminum vilji flytja til Íslands og starfa hér.  Ég byði ekki í það verkefni ef hér væri menningarlegt krummaskuð.  Einhver brot úr prómilli af fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar og/eða ríkisins skipta engu máli í skattlagningu en verulegu máli í að skapa hér aðlaðandi samfélag, sem aftur skilar prómillinu margföldu til baka.

Er þetta mjög erfitt að skilja?  Nei, ekki finnst mér það.

En munu ungir frjálshyggjumenn halda áfram að hjakka í sama farinu?  Já, eflaust, því í stað þeirra sem eldast, eignast börn og átta sig á litbrigðum lífsins (verða kannski jafnaðarmenn?), koma nýjar kynslóðir sem byrja á byrjunarreit.  C'est la vie, og kannski ekkert annað en gott um það að segja.


Ayaan Hirsi Ali og algild mannréttindi

Það var mjög fróðlegt að fylgjast með viðtölum Kastljóss og Egils Helgasonar við Ayaan Hirsi Ali, þá hugrökku hugsjónakonu.  Það læðist hins vegar að mér sá grunur að margir misskilji boðskap hennar varðandi fjölmenningarsamfélag, innflytjendur og íslamstrú og haldi að hún sé einfaldlega á móti þessu öllu þrennu.

Ef ég skil Hirsi Ali rétt er hún fyrst og fremst að vara við því að við sýnum undanlátssemi varðandi almenn og algild mannréttindi, í nafni umburðarlyndis og fjölmenningarsamfélags.

Ég aðhyllist ekki siðferðislega afstæðishyggju og tel mannréttindi eiga að vera almenn og algild, t.d. með vísan til Mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna.  Ég er einnig gagnrýninn á trúarbrögð og mannasetningar hvers konar.  Ég vil því engan afslátt frá mannréttindum gefa og tel að allir verði að virða þau, óháð uppruna eða trúarbrögðum; hvorki Kóraninn, Biblían né önnur fornrit eiga að gefa mönnum afsakanir til að brjóta á meðborgurum sínum, kúga þá eða svipta þá rétti sínum.

En að því gefnu tel ég enga hugmyndafræðilega ástæðu til að hefta frelsi fólks til að flytja og búa þar sem það vill og getur.  Ég geri mér grein fyrir að praktísk vandamál geta fylgt fólksflutningum en þau eru þá nákvæmlega það: praktísk vandamál til að leysa.  Við erum öll menn með sömu grundvallarlanganir og þrár í lífnu.  Einbeitum okkur að því sem sameinar frekar en því sem sundrar.  Og í því sambandi væri ógalið að beina umræðunni að hinum eyðileggjandi og sundrandi áhrifum trúarbragða, eins og Ayaan Hirsi Ali hefur sjálf gert, en hún er trúleysingi.


Ekkert samkomulag um olíuauðlindirnar í Írak

Lykilatriði í uppbyggingu Íraks eftir stríðið er að komast að niðurstöðu um hvernig fara eigi með olíuauðlindir landsins og hvernig eigi að skipta arði af þeim.  Íraska þingið hefur rætt þetta mál fram og aftur og ekki komist að niðurstöðu.  Nú síðast skrifar New York Times um málið og rekur hvernig það hefur enn eina ferðina stöðvast án samkomulags í þinginu.

Kúrdar hafa verið Íraka sáttastir við stríðið enda líta þeir á það sem skref í átt til sjálfstæðs Kúrdistans, sem hefur lengi verið draumur þeirra.  Fyrir því hefur m.a. verið barist með hryðjuverkum í Tyrklandi, en á móti hafa tyrknesk stjórnvöld eldað grátt silfur við Kúrdíska Verkamannaflokkinn, sem berst fyrir því að kúrdahéruð í suður-Tyrklandi gangi inn í sjálfstætt Kúrdistan.   Kúrdar hafa því veitt Bandaríkjunum ýmsan stuðning í orði og verki en hafa jafnframt hvergi vikið frá eigin ætlun um að enda með stofnun Kúrdistans.  NATÓ-ríkinu Tyrklandi er þetta mikill þyrnir í augum en Bandaríkjamenn hafa látið draumana óáreitta enda talið mikilvægara að eiga þó einhverja bandamenn í Írak.

Kúrdar hafa þegar stofnað Kúrdistan-svæði og reka þar eigin stjórnarstefnu sem í orði á að vera í samræmi við írösku stjórnarskrána.  Þeir hafa nú gengið svo langt að semja við erlend olíu- og gasfyrirtæki um vinnslu í Kúrdistan, óháð tilraunum íraska þingsins til að setja heildarlög um auðlindirnar.

Það kemur engan veginn á óvart að olíufyrirtækið sem þeir hafa samið við er Hunt Oil frá Dallas í Texasfylki Bandaríkja Norður-Ameríku.

Eins og ég hef áður bent á í bloggi mínu eru engar vísbendingar um að Bandaríkjastjórn hafi minnstu hugmynd um hvað þeir eru að gera í Írak, til hvers eða hvernig. 


Enn um tvöföldu öryggisleitina í Leifsstöð

Björn Bjarnason dómsmálaráðherra skrifar um heimsókn sína til lögreglustjórans á Suðurnesjum:

Þá ræddum við meðal annars kröfur Evópusambandsins og eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) á grundvelli EES-samningsins um, að farþegar sæti öryggisleit við komuna frá Bandaríkjunum. Óánægju gætir hjá farþegum á leið til Íslands yfir því að þurfa að fara í gegnum slíka leit. Hún byggist ekki á ESB/EES kröfum heldur skipulagi í flugstöðinni og munu stjórnendur hennar vera að velta fyrir sér leiðum til úrbóta.

Ég skil ekki textann.  Í fyrstu málsgrein er talað um kröfur Evrópusambandsins og ESA.  Í síðustu málsgrein kemur svo í ljós að tvöfalda öryggisleitin byggir ekki á þessum kröfum heldur skipulagi flugstöðvarinnar.  Hvort er rétt?

Í öllu falli vona ég að hægt verði að leysa úr þessu máli, það sýnist helber kjánaskapur hver sem undirrótin kann að vera. 


Tvöföld öryggisleit í Leifsstöð

Ég var að koma frá Bandaríkjunum í gærkvöldi.  Fór fyrst í gegn um öryggisleit í Atlanta, aftur í Boston og loks við komuna í Leifsstöð.  Í Leifsstöð fer maður sem sagt aftur úr skónum, tekur af sér beltið, tekur tölvuna úr töskunni o.s.frv. þrátt fyrir að það hafi verið gert í Bandaríkjunum áður en lagt var af stað.  Svo er bannað að taka ílát með vökva inn í Leifsstöð þótt vökvinn hljóti að hafa verið keyptur á flugvelli í Bandaríkjunum og hafi augljóslega verið með í flugvélinni til Íslands.

Mér skilst að ástæðan fyrir þessum fáránlegheitum sé deila milli Evrópu (Schengen-svæðisins) og Bandaríkjanna um framkvæmd öryggisleitar.  Það hlýtur þá að þýða að kröfur eða staðlar séu mismunandi að einhverju leyti.

En er þetta ekki ástand sem stjórnmálamennirnir okkar geta gengið í að finna út úr og semja um?  Hvaða vit er í því að geta ekki komið sér saman um öryggisstaðla og þurfa þar af leiðandi að halda úti aukalegum rándýrum græjum og vöktum í öryggisleit og valda farþegum viðbótar angri, sem er ekki á bætandi?

Það er mörg vitleysan í kring um hinar meintu hryðjuverkaógnir, og þetta er ein þeirra. 


Til hamingju með Gay Pride

Ég var í bænum í dag og fylgdist með Gay Pride göngunni.  Það var frábær upplifun.  Þessi atburður er vel skipulagður, hefur djúpt inntak og einkennist af gleði.  Ég gladdist líka yfir fjöldanum sem tók þátt og sýndi stuðning sinn í verki við frjálslyndi og umburðarlyndi.  Sem betur fer er það síminnkandi minnihluti sem lætur forpokun og siðhroka stjórna afstöðu sinni til samkynhneigðar.  Gleðjumst frekar öll yfir litaauðgi og fjölbreytileika mannlífsins, og njótum þess sem það hefur að bjóða, eins og Gay Pride gangan er gott dæmi um. 
mbl.is Mikil þátttaka í Hinsegin dögum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Nýir pólar í stjórnmálum?

Ég var að lesa nýlega bloggfærslu Jóns Vals Jenssonar þar sem hann mærir framgöngu Gísla Freys Valdórssonar á sjónvarpsstöðinni Omega og telur upp þá pólitík sem þeir fóstbræður eru sammála um.  Í stuttu máli er þar um að ræða íhaldssamar hægrisinnaðar skoðanir sem bergmála málflutning kristinna hægri-repúblikana í Bandaríkjunum.  Lögð er áhersla á "kristin gildi", samkynhneigð tortryggð, stutt við Ísrael ("Gyðinga í Landinu helga"), hvatt til mótspyrnu við yfirvofandi heimsvaldastefnu islamista, fagnað uppbyggingu lögreglu og sérsveitar á Íslandi o.s.frv.

Þegar ég hafði melt þennan boðskap rann upp fyrir mér að ég er 100% ósammála þeim félögum Jóni Val og Gísla Frey og þeirra skoðanabræðrum og -systrum.  Það er sjaldgæft nú til dags að finna fólk sem maður er 100% ósammála.  Pólarnir hægri og vinstri duga orðið engan veginn til þess, við erum öll orðin jafnaðarmenn meira og minna og erfitt að búa til mikinn ágreining í þeirri vídd því hörðustu frjálshyggjumenn og sannfærðir sósíalistar eru álíka margir og geirfuglar.

Ég tel rangt að byggja stjórnmál og siðferðisviðmið á trúarskoðunum og að það sé dæmt til að mistakast.  Við erum öll af sama mannkyni og skipting okkar í "við" og "þá" er af hinu illa.  Þá sé ég enga ástæðu til að ríkið sé með nefið ofan í því hvernig fólk höndlar ástina og hvernig það hagar einkalífi sínu.  Loks er ég mjög vantrúaður á að stríð leysi nokkurs manns vanda, og tel það skyldu ábyrgra þegna í lýðræðisþjóðfélagi að berjast gegn tilhneigingu til fasisma.  Mannréttindi eyðast smám saman nema þau séu varin, með öflugri umræðu og gagnrýni.

Ég held að umræður og átök í stjórnmálum næstu ára eigi eftir að snúast í auknum mæli um þessa póla.  Þá sem vilja fylgja kalli Bush og félaga í átt til fasískara þjóðfélags byggðu í auknum mæli á kristnu trúarofstæki, og hins vegar þá sem vilja efla lýðræði, altæk mannréttindi og frjálslyndi sem svar við ofbeldi og öfgum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband