Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Gæti 20% skuldaniðurfærsla gengið upp?

Í síðustu færslu fjallaði ég um tillögur Framsóknar í efnahagsmálum.  Ein af þeim er um 20% niðurskrift húsnæðisskulda almennings, og verðskuldar málefnalega umræðu.  Sú leið er engan veginn gallalaus, en það sama má sennilega segja um alla aðra mögulega leiki í stöðunni.

Til að skýra betur hvað Framsókn er að meina, eins og ég skil það, þá er dæmið einhvern veginn svona:

  1. Jón og Gunna skulduðu Gamlabanka 100 kr.
  2. Gamlibanki afskrifar allar húsnæðisskuldir um t.d. 40% (mat á lánasöfnum er í gangi þessa dagana á vegum skilanefnda og FME, og á að ljúka fyrir 15. apríl).  Skuld Jóns og Gunnu er því metin á 60 kr. og hún er færð yfir í Nýjabanka á því mati.  Athugið að það eru kröfuhafar bankanna sem tapa 40 kr. í þessu dæmi, en þeir hafa þegar afskrifað lungann af sínum kröfum.
  3. Nýibanki selur Íbúðalánasjóði (ÍLS) skuldina á 60 kr. og losnar við hana úr sínum bókum.
  4. Í stað þess að rukka Jón og Gunnu um 100 kr. - og hér kemur framsóknartrixið - færir ÍLS höfuðstólinn niður í 80 kr. og rukkar Jón og Gunnu um þá upphæð (og vexti af henni).  ÍLS tapar aðeins peningum á þessu ef, og að því marki sem, allir Jónar og Gunnur eru að meðaltali borgunarfólk fyrir minna en 60 kr. af þessum 80 krónum.

Framsóknartrixið veldur ÍLS (=skattborgurum) aðeins búsifjum ef meðaltalsinnheimtan verður innan við 60 kr. af þeirri ástæðu að Jón og Gunna eru rukkuð um 80 kr. en ekki 100 kr.  Þau tilvik sem skipta máli í því sambandi eru þau þar sem Jón og Gunna hefðu getað borgað 100 kall en sleppa við það af því þau eru aðeins rukkuð um 80 kall.  En á það ber að líta á móti að hagkerfið hressist við niðurskriftina og fleiri færast upp fyrir 60 krónu greiðslugetumarkið.

Ergó, nokkuð flókið líkan þarna á ferð, en ekki útilokað að það geti gengið upp. Stærsta spurningin er hvaða afskrift kröfuhafar gömlu bankanna sætta sig við.  Ein leið til að ákveða hana er einfaldlega að bjóða upp húsnæðislánasöfn gömlu bankanna og selja þau hæstbjóðanda.  Kröfuhafarnir gætu þá sjálfir boðið það sem þeir teldu lágmarksverð fyrir söfnin, en ÍLS væri falið að bjóða verð sem gæfi færi á raunhæfri afskrift eins og þeirri sem hér er lýst.

Óvenjuleg vandamál kalla á óvenjulegar lausnir.  Er þetta ein af þeim?


Framsókn til fyrirmyndar!

Á dauða mínum átti ég von, fremur en því að sjá ástæðu til að hrósa Framsóknarflokknum.  En nú hefur sem sagt flokkurinn gefið út alveg ágætlega skýrar og mjög málefnalegar tillögur um aðgerðir og úrræði í efnahagsmálum.  Ég er ekki sammála öllu sem þar stendur (reyndar flestu), en framtakið er mjög virðingarvert og til fyrirmyndar fyrir aðra flokka og góða stjórnmálaumræðu yfirleitt.

Umræðan er þessa dagana að sökkva ofan í kunnugleg, leiðinleg og ómálefnaleg hjólför, þar sem menn kýta án innihalds um liðin sem þeir halda með, Val eða KR, Liverpool eða United, VG eða Sjálfstæðisflokk.  Má ég þá heldur biðja um alvöru rökræðu um hugmyndir og lausnir, eins og Framsóknarflokkurinn býður nú upp á.  Það má hann alveg eiga.


Hrunið í máli og myndum

Á morgun, laugardag 21. febrúar, verður Hjálmar Gíslason hjá DataMarket með afar áhugaverða kynningu á fundi Hugmyndaráðuneytisins.  Uppleggið er svohljóðandi:

Gegnsæi, óhindrað aðgengi að upplýsingum og nýting gagna við upplýsta ákvarðanatöku eru allt lykilatriði fyrir Næsta Ísland og raunar heiminn allan við að vinda ofan af vantrausti í stjórnmálum, fjármálum og fyrirtækjarekstri.

Farið verður í gegnum hvernig hægt er að breyta þurrum gögnum í gagnlegar upplýsingar og jafnvel hreina afþreyingu með myndrænni framsetningu og bættu aðgengi.

Hugmyndaráðuneytið sjálft verður krufið til mergjar og skoðað hvernig sprotafyrirtæki og frumkvöðlar geta nýtt og miðlað upplýsingum sér til framdráttar.

Fjallað verður um nýstárlegar aðferðir við “algert gegnsæi” í fyrirtækjarekstri og að lokum kafað ofan í gögn sem varpa ljósi á ris og fall íslenska hagkerfisins - gögn sem hefðu getað varað við þróuninni miklu fyrr ef einhver hefði verið að horfa á mælana.

Fundurinn verður haldinn á veitingastaðnum Balthazar við Ingólfstorg (áður Victor, sjá kort). Fundurinn hefst kl 16:30 og er öllum opinn, en gott ef þeir sem ætla að mæta skrá sig á Facebook síðu samkomunnar.

Ég  veit að þetta verður mjög myndrænt og sláandi.  Hjálmar hefur gert upplýsandi líkön af fjárlögum 2009 og af staðgreiðslukerfi tekjuskatta, og ég veit að hann er með margt fleira í farteskinu sem við fáum að kíkja á á morgun.  Mæli með þessu.

P.S. Til hamingju Ísland með það mat skilanefndar Landsbankans að reikningur skattborgara vegna Icesave verði "aðeins" 72 milljarðar króna!


Staðreyndir um skuldir ríkisins

Mikill ruglingur hefur verið í umræðunni um skuldir ríkisins í kjölfar hrunsins.  Í gærkvöldi komu til dæmis fram tveir nokkuð ólíkir pólar, annars vegar frá Haraldi L. Haraldssyni á opnum borgarafundi í Háskólabíói og hins vegar frá Tryggva Þór Herbertssyni í Kastljósi í sjónvarpinu.

Ég hef áður bloggað um þetta mál og vísa til þeirrar færslu og líflegrar umræðu í athugasemdum við hana.

Í þessari umræðu eru örfá lykilatriði sem þarf að hafa á hreinu til að draga réttar ályktanir og byggja á réttar ákvarðanir.

  • Skattborgarar bera ekki ábyrgð á skuldum gömlu bankanna.  Bankarnir eru hlutafélög og bera aðeins ábyrgð á skuldum sínum með eigin eignum, ekki eignum hluthafa (umfram hlutaféð) eða ríkisins. Gríðarlegar upphæðir tapast í hruni bankanna, en það eru lánardrottnar þeirra og hluthafar sem tapa, ekki skattborgarar.
  • Eina undantekningin frá þessu er trygging innlána upp á 20.887 evrur á hvern reikning í gegn um Tryggingasjóð innstæðueigenda, sem ríkið telst bera ábyrgð á (þótt það sé ekki óumdeilt).  Á þessa tryggingu mun aðeins reyna í tilviki Icesave Landsbankans, en hvorki hjá Glitni né Kaupþingi.
  • Hin svokölluðu jöklabréf (glacier bonds) voru gefin út af erlendum útgefendum (Toyota, Evrópska þróunarbankanum o.s.frv.).  Þau eru ekki á ábyrgð ríkisins né skuld þess.  Hins vegar getur það veikt krónuna þegar eigendur jöklabréfanna selja sig út úr henni.
  • Nýju bankarnir yfirtaka tilteknar eignir og skuldir frá gömlu bönkunum, nánar til tekið lánasöfn til innlendra fyrirtækja og almennings eignamegin, og innlend innlán skuldamegin.  Þeir yfirtaka heldur meiri eignir en skuldir, og þurfa að gefa út skuldabréf til gömlu bankanna fyrir mismuninum, enda má ekki skerða hag kröfuhafa þeirra með þessum gjörningi.  Lánin sem færast í nýju bankana eru afskrifuð fyrirfram samkvæmt sérstöku mati (sem stendur yfir) áður en þau eru flutt.
  • Ríkið þarf að leggja nýju bönkunum til eigið fé, um 10% af eignum þeirra.  Það fé er lagt fram í formi nýs ríkisskuldabréfs, sem bankarnir telja til eigin fjár og geta lagt sem veð inn í Seðlabanka fyrir lausum krónum.  Nettóskuldir ríkisins aukast ekki við þetta þar sem það á bankana sjálft; segja má að peningar séu fluttir úr vinstri vasa yfir í þann hægri, en buxnaeigandinn er jafnsettur eftir sem áður.
  • Lánið frá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum er geymt á reikningi í Federal Reserve Bank of New York á innlánsvöxtum.  Það verður aðeins notað til að styðja við krónuna, sálfræðilega/leikjafræðilega, og raunverulega ef brýn þörf krefur.  Þá yrðu keyptar krónur sem vonandi yrði síðar hægt að breyta aftur í gjaldeyri, eða sem yrðu að evrum eftir inngöngu í Evrópusambandið. Á móti láninu stendur þannig peningaleg eign og það telst ekki til nettóskulda ríkisins, enda væri fræðilega hægt að endurgreiða það hvenær sem ríkisstjórnin svo kysi.  En vitaskuld þarf að greiða vaxtamun útláns- og innlánsvaxta af upphæðinni meðan hún stendur okkur til reiðu.

Ágætis umfjöllun Greiningardeildar Glitnis um samantekt Tryggva Þórs Herbertssonar á nettóskuldum ríkisins er að finna hér.  Að mínu mati er Tryggvi í bjartsýnni kantinum, en aðferðafræðin er rétt, og á tölunum er bitamunur en ekki fjár, sbr. fyrri bloggfærslu mína.

Með málflutningi mínum er ég ekki að reyna að fegra ástandið umfram tilefni.  Morgunljóst er að við stöndum frammi fyrir hrundu hagkerfi og lémagna bankakerfi, og gjaldmiðilskreppu að auki; verulegri skuldabyrði, samdrætti í þjóðarframleiðslu og atvinnuleysi.  Allt mjög alvarlegt og á þessu bera bæði pólitíkusar, embættismenn og einkaaðilar ábyrgð.

En fyrsta stig í að vinna á vandanum er að greina hann rétt.  Menn hafa lagst í mikla reiði og jafnvel örvinglan yfir upplýsingum um skuldir ríkisins sem eru ýktar og/eða rangar.  Ég tel mikilvægt að leiðrétta þann misskilning eftir föngum og auka fólki bjartsýni hvað akkúrat þann lið varðar, en ég er ekki að slá striki yfir allan vandann með því.

P.S.: Nú hefur viðskiptaráðherra tjáð sig og segir að ætla megi að vaxtaberandi skuldir ríkissjóðs verði 700 milljarðar á árinu eða um 50% af VLF.  Það er minna en hjá Japan, Ítalíu, Belgíu og Bandaríkjunum, svo nokkur lönd séu nefnd.


mbl.is Erlendar skuldir þjóðinni ofviða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjármál ríkisins: Orðaleppar eða upplýst umræða?

Í komandi kosningabaráttu á eftir verða mikið þvargað um fjármál ríkisins.  Þar mun verða farið einu sinni enn með innihaldslitla orðaleppa varðandi tekjuöflun ("hátekjuskatt") og sparnað ("niðurskurð í utanríkisþjónustu").  Orðaleppa, vegna þess að enginn virðist vera með réttar og raunverulegar tölur á hreinu, eða nógu hreinskilinn til að bera þær á borð fyrir kjósendur.

Fjárlagahalli 2009 verður 153 milljarðar skv. fjárlögum.  Hallinn 2010 og 2011 er samanlagt áætlaður 160 milljarðar, en 2012 er vonast til að náð verði jafnvægi í ríkisrekstrinum.  Það þarf því að spara og/eða auka tekjur um 153 milljarða frá árinu í ár til 2012.

Svo það sé afgreitt strax, þá eru heildarútgjöld utanríkisráðuneytis 12 milljarðar á þessu ári, þar af  3 til sendiráða.  Ef þarna er skorið niður um helming eru 147 milljarðar eftir.

Ef lagður er á 5% hátekjuskattur til viðbótar á allar tekjur yfir 500.000 krónur á mánuði, yrði tekjuauki af því í mesta lagi 4,3 milljarðar (m.v. 2007).  Segjum 4 og þá eru 143 milljarðar eftir.

Það er ljóst að orðalepparnir duga skammt.  Það mun, því miður, þurfa alvöru niðurskurð, sem hlýtur að byggjast á vel grunduðum prinsippum og grundvallarafstöðu til hlutverks ríkisins, en ekki á handahófi eða loðmullu eða "þetta reddast".

Í ljósi þessa: er til of mikils mælst að frambjóðendur og flokkar útskýri hugmyndir sínar og tillögur um fjármál ríkisins með skýrum og greinargóðum hætti í komandi kosningabaráttu?

P.S. Gögn eru frá DataMarket, sem er ótrúlega sniðugt fyrirbæri.  Sjá Fjárlög 2009 og Tekjuskattslíkan.


Úbbs! Meira að segja forsetinn skilur þetta ekki...

Fyrri ríkisstjórn náði ekki að útskýra hugsunina að baki nýju og gömlu bönkunum fyrir þjóðinni.  Ég hef orðið var við að varla nokkur maður skilur þetta dæmi.  Nú er greinilegt að það hefur líka farist fyrir að útskýra þetta fyrir forseta lýðveldisins.  Það ætlar ekki af okkur að ganga í kjánalegri stjórnsýslu þessa dagana.

Nú ítreka ég í a.m.k. fjórða eða fimmta skiptið á þessu bloggi:

Gömlu bankarnir koma ríkinu og almenningi ekki við.  Þeir eru í greiðslustöðvun og verða ósköp hefðbundin þrotabú, eins og hjá hverju öðru gjaldþrota hlutafélagi.  Eignir þeirra eru í reynd eignir kröfuhafa.  Því sem vantar upp á að bankarnir geti greitt kröfuhöfum, tapa þeir.  Ríkissjóður bætir þeim ekki upp tapið.

Undantekningin frá þessu eru innlán sem tryggð eru í gegn um Tryggingasjóð innstæðueigenda.  Ef eignir banka duga ekki fyrir lágmarkstryggingu innlána, sem er 20.887 evrur á hvern reikning, þarf Tryggingasjóðurinn að bæta það sem á vantar.  Á þetta mun reyna í Icesave Landsbankans, en hvorki hjá Kaupþingi né Glitni.

Kaupþing, og þýskt útibú þess, á nægar eignir fyrir innlánum og því mun ekki reyna á innistæðutrygginguna í því tilviki.  Kröfuhafarnir, þar með innistæðueigendur, fá sitt borgað úr þrotabúinu.  Það er ekki íslenska þjóðin sem borgar.  Þetta þurfa menn að skilja og gæta sín að ergja ekki Þjóðverja eða aðra umfram brýna nauðsyn.  Við höfum ekki efni á því í stöðunni.


mbl.is Þjóðverjar fái engar bætur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Brilljant bloggfærsla um krísu peningakerfisins

Mæli eindregið með frábærri greiningu, eins og vænta mátti úr þeim ranni, frá Hjálmari Gíslasyni um peningakerfið og endimörk vaxtarins.

Braut Seðlabanki bankaleynd með minnisblaðinu?

Hér birtir Morgunblaðið óundirritað minnisblað frá Seðlabanka Íslands sem hlýtur að vekja verulega athygli.  Bankinn, þessi opinbera lykilstofnun, tekur sér fyrir hendur að senda fjölmiðlum tiltekin bréfaskipti milli hans og Fjármálaeftirlitsins varðandi gjaldeyrisviðskipti.  FME "hefur haft efasemdir um að rétt sé að birta þess bréfaskipti vegna upplýsinga um nafngreinda aðila og fjárhæðir".  Með öðrum orðum, þá er Seðlabankinn hér að brjóta bankaleynd með því að birta að geðþótta sínum upplýsingar og dylgjur um tiltekin viðskipti aðila úti í bæ, í þessu tilviki Exista hf. og Kaupþings banka hf.  Og reyndar er niðurstaða FME sú að ekkert sé athugavert við viðskiptin.

Nú má spyrja: er þessi birting bréfaskiptanna eðlileg stjórnsýsla af hálfu Seðlabanka?  Eða enn ein birtingarmynd þess vanda sem við er að etja í bankanum?

Svo má líka spyrja í framhaldi: hvaðan komu þeir lekar sem undanfarið hafa borist í fjölmiðla og beinast einkum að Kaupþingi?  Og hvaðan hafa Egill Helgason og ýmsir blaðamenn þá sannfæringu sína að Kaupþing hafi verið í samsæri um að "fella krónuna"?  (Sem nóta bene féll af fullkomlega augljósum makróekónómískum ástæðum, sem m.a. voru á valdi Seðlabankans, og þurfti ekkert samsæri til.)

Það er ekki seinna vænna að þessi þjóð fái Seðlabankastjórn sem stendur undir nafni.


mbl.is FME fann ekki markaðsmisnotkun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skuldir ríkissjóðs

Eitt af því sem fyrri ríkisstjórn tókst ekki að gera var að útskýra stöðu mála fyrir almenningi.  Þess vegna hafa komist á flot alls kyns tölur um skuldir og skuldbindingar, byggðar á alls kyns forsendum og getgátum.  Hæsta talan sem ég hef heyrt var hjá Einari Má Guðmundssyni sem hélt því fram í ræðu á Austurvelli að þjóðin skuldaði 20 milljónir króna á mann, eða 6.000 milljarða samtals.  Morgunblaðið setti fram tölu sem var í kring um 2.225 milljarða og lagði þar saman tölur úr ýmsum áttum.

Nú gerðist það í síðustu viku að fjármálaráðuneytið gaf út fréttatilkynningu um áætlaða skuldastöðu ríkisins í lok þessa árs.  Sú tilkynning hefur litla athygli vakið, þótt maður skyldi ætla að þarna væri algjört grundvallaratriði á ferðinni.

Samkvæmt mati ráðuneytisins verður nettó skuldastaða ríkissjóðs 563 milljarðar í lok þessa árs.  Þá er innifalinn fjárlagahalli ársins 2009 að upphæð 150 milljarðar.

Í tölunni er gert ráð fyrir að nettóskuldbinding vegna Icesave verði 150 milljarðar sem er áætlun skilanefndar Landsbankans.  Brúttóskuldbindingin er í kring um 600 milljarða þannig að ef ekkert fæst fyrir eignir bankans og allt tapið lendir á Íslendingum þá myndi ríkið skulda rétt rúma 1000 milljarða.  Hins vegar eru eignir gamla bankans klárlega ekki núll, hann mun t.d. eiga skuldabréf sem verður gefið út af nýja bankanum vegna þess að sá nýi yfirtekur meiri eignir en skuldir frá þeim gamla.

Skuldir ríkisins í lok 2009 verða samkvæmt þessu á bilinu sirka 50-90% af landsframleiðslu.  Vissulega háar tölur en samt ekki alveg út úr korti innan OECD, sbr. t.d. Greiningar Glitnis.

Annars legg ég til varðandi Icesave, að samið verði við Breta og Hollendinga um að 20.887 evra innistæðutryggingin verði greidd út og að þeir láni tryggingasjóði innstæðueigenda fyrir því (sem hefur eftir því mér skilst þegar verið gert og samþykkt).  Reikna má einhverja vexti á það lán, sem endurgreitt verður þegar þrotabú Landsbankans verður gert upp.  Hins vegar er eðlileg krafa af hálfu Íslands að við berum aðeins hluta af því tapi sem standa kann eftir við uppgjör.  Rök okkar eru fyrst og fremst að ábyrgð ríkisins á tryggingasjóði sé ekki ótvíræð skv. EES samningnum og að Bretar hafi skaðað hagsmuni Landsbankans með beitingu frystingarlaganna. En stærstu mistökin í Icesave málinu kunna að hafa verið þau að hafa ekki fært ábyrgðina til Breta gegn 40 milljarða eiginfjárframlagi til Landsbankans í Bretlandi, en það tilboð virðist hafa lent milli stafs og hurðar.  Vonandi skoðar nýskipuð rannsóknanefnd þennan vinkil málsins gaumgæfilega.

P.S. Fréttablaðið var með fyrirmyndar umfjöllun um þetta málefni nú um helgina.  Blaðið þjónar lesendum sínum með því að kanna og setja fram staðreyndir á auðskiljanlegan máta.  Kærkomin tilbreyting við þann hálfsannleik, getgátur og upphrópanir sem tröllriðið hafa sumum fjölmiðlum undanfarið.  Koma svo, Moggi!


Gedankenexperiment

Hér er smá þankatilraun.

Ímyndum okkur að á Mars sitji forvitnir Marsbúar með mjög öfluga sjónauka.  Þeir fylgjast grannt með mannfólkinu á Íslandi, á bláu plánetunni Jörð.  Þeir sjá að undanfarin ár hefur fólkið lifað lífinu eftir vel skipulögðu mynstri: bændur ala rollur til slátrunar og mjólka kýr, sjómenn sigla á bátum og veiða, skip sigla í ýmsar áttir með ál og fisk og koma til baka með bíla, bensín og búsáhöld.  Fólk heldur til vinnu á morgnana, fær sér skyndibita í hádeginu, lætur klippa sig í lok dags, sækir matvörur í verslanir og heldur heim til sín til kvöldmáltíðar.  Plastkort eru stundum á lofti og jafnvel pappírsseðlar, en tilgangur þeirra er ráðgáta fyrir Marsbúana.  En þeir taka reyndar eftir því að sumir búa í stærri húsum og borða oftar gæsalifrarkæfu en aðrir.

Í október 2008 verður snögglega, og eins og hendi væri veifað, breyting á mynstrinu.  Færri skip sigla á milli, færri fara í vinnuna á hverjum degi, og gæsalifrarkæfa sést sjaldnar.  Það er eins og hægi á öllu.

Nú spyr ég: hvernig myndi maður útskýra þessa breytingu fyrir Marsbúunum?  Þeir sjá ekki neitt í sínum sjónaukum sem skýrt gæti þessa uppákomu.  Öll áþreifanleg gæði sem voru til áður, eru ennþá til.  Fólkið er jafn margt og hefur sömu þekkingu og hæfileika og fyrr.  Allar forsendur virðast til staðar til að halda áfram eins og fyrr, en samt gerist það ekki.

Kannski ættum við að horfa á hagkerfið okkar utan frá - með augum Marsbúanna - og velta því fyrir okkur af hvort öll þau ósýnilegu mynstur sem undir liggja séu skynsamleg, nauðsynleg eða gagnleg; eða bara til trafala.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband