Framsókn til fyrirmyndar!

Á dauða mínum átti ég von, fremur en því að sjá ástæðu til að hrósa Framsóknarflokknum.  En nú hefur sem sagt flokkurinn gefið út alveg ágætlega skýrar og mjög málefnalegar tillögur um aðgerðir og úrræði í efnahagsmálum.  Ég er ekki sammála öllu sem þar stendur (reyndar flestu), en framtakið er mjög virðingarvert og til fyrirmyndar fyrir aðra flokka og góða stjórnmálaumræðu yfirleitt.

Umræðan er þessa dagana að sökkva ofan í kunnugleg, leiðinleg og ómálefnaleg hjólför, þar sem menn kýta án innihalds um liðin sem þeir halda með, Val eða KR, Liverpool eða United, VG eða Sjálfstæðisflokk.  Má ég þá heldur biðja um alvöru rökræðu um hugmyndir og lausnir, eins og Framsóknarflokkurinn býður nú upp á.  Það má hann alveg eiga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hinrik Már Ásgeirsson

Tek heilshugar undir þetta með þér

Vek athygli á því sem Höskuldur þingmaður Framsóknar gerði í viðskiptanefnd

http://hinrik.blog.is/blog/hinrik/

Það virðist ýmislegt jákvætt vera að koma úr þeirra ranni þessa dagana. 

Hinrik Már Ásgeirsson, 23.2.2009 kl. 23:46

2 identicon

Það vildi ég, að ég gæti tekið undir með ykkur um hugmyndir Framsóknarflokksins. Sjaldan hefur hugmyndafræði skipt jafn miklu í stjórnmálum. Það þarf að fara í sársaukafullar aðgerðir. Ekki bara dæla út niðurfellingum á lánum.

Andrés (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 00:18

3 Smámynd: Hörður Þórðarson

Já Vilhjálmur vitglóran leynist á ótrúlegustu stöðum. Það er leitt til þess að hugsa að marga stjörnmálamenn skortir þroska til að taka málefnalega á þeim vanda sem við er að etja, setja bara slefandi og segja; "áfram rauðir" eða "áfram bláir" eða "út af með Davíð" eða eitthvað álíka uppyggilegt meðan venjulegt fólk missir vinnu og eignir.

Hörður Þórðarson, 24.2.2009 kl. 06:50

4 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Lárus, mér finnst einmitt athyglisvert að ræða þessa 20% niðurfellingartillögu málefnalega og velta fyrir sér hvort hún gengi upp eður ei.  Ef ég skil framsóknarmenn rétt þá er það fyrsta skrefið að Íbúðalánasjóður taki yfir íbúðalán, frá nýju bönkunum, en á því verði sem þau höfðu þegar verið skrifuð niður í við yfirtökuna frá gömlu bönkunum.  Það er því í raun verið að senda 20% niðurskrift frá kröfuhöfum gömlu bankanna alla leið til skuldaranna.  En ef niðurskrift kröfuhafa dugir ekki þá á að færa niðurskrift yfir á fyrirtækin með smá fiffi.

Hvað varðar lífeyrissjóðslán þá skilst mér á textanum að ríkið (ÍLS) kaupi þau af lífeyrissjóðum á fullu verði, þetta er þó ekki alveg 100% skýrt.

Það er vissulega athugunarefni að ef niðurskrift skulda fer fram milli gömlu bankanna og nýju, sem tilefni er til en kröfuhafar munu standa gegn, þá sé hún að einhverju eða öllu leyti færð beint til skuldaranna án viðkomu í bönkunum.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 24.2.2009 kl. 10:24

5 Smámynd: Bergljót Aðalsteinsdóttir

Mig langar að minna á að það var framsókn sem kom á 90% lánum í húsnæðiskerfinu Drengurinn sem barðist fyrir því er reyndar löngu horfinn af þingi! Það sjá allir í dag hvert þessi gjörningur hefur leitt marga íbúðareigendur í dag. Það er auðvelt að vekja vonir hjá fólki sem sér ekki neina framtíð vegna skulda en framsókn er ekki treystandi það er alveg ljóst Ég er hrædd um að nú sé í gangi plott bak við tjöldin á milli íhalds og framsóknar kannske ekki ósvipað og gerðist í Reykjavík í jan 2008.

Bergljót Aðalsteinsdóttir, 24.2.2009 kl. 12:23

6 Smámynd: Helga Sigrún Harðardóttir

Kæra Bergljót.

Það vita allir sem vilja að það voru ekki 90% húsnæðislánin sem hæst gátu orðið 9,7 milljónir (þegar bankarnir hófu sitt ævintýri), bundin við brunabótamat og raunverulegan kaupsamning sem hrundu af stað ævintýrinu um íbúðalánin, heldur voru það bankarnir sem lánuðu meira en 100% af markaðsvirði án þess að lán væru bundið við kaupsamninga. Gjörningurinn sem þú nefnir á því ekkert skylt við það að framsóknarmenn vildu auðvelda ungu fólki að eignast íbúð.

En ef menn vilja ekki vita það, þá er alltaf hægt að láta eins og maður viti ekki??

Helga Sigrún Harðardóttir, 24.2.2009 kl. 15:40

7 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Stóru spurningarnar í þessu 20% niðurfærsludæmi eru (1) hver niðurskrift lánasafnanna verður milli gömlu og nýju bankanna, sem er óútkljáð; og (2) hvort ÍLS þolir 20% niðurskrift upphaflegs höfuðstóls, því væntanlega eru lánasöfnin þannig að gert er ráð fyrir að einhver lán innheimtist 100% en önnur mun verr, allt niður í 0%.

Svo er ein hugmynd sem ég heyrði um daginn, sem sé sú að íbúðalánasöfn gömlu bankanna verði seld úr þrotabúunum á uppboði.  Því eiga kröfuhafar erfitt með að mótmæla, enda um markaðsverð að ræða og þeir gætu boðið sjálfir það sem þeir telja lágmarksverð.  Þar kæmi í ljós með opnum og augljósum hætti hver heildarafskriftin er.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 24.2.2009 kl. 16:59

8 identicon

Nú segir Henny Hinz hagfræðingur ASÍ að þetta 20% niðurfærsludæmi muni kosta 280 til 300 milljarða króna. Hver á að borga þessa upphæð? Er þetta á bætandi við skuldastöðu ríkisins ef þessi upphæð lendir á því? Eru plússarnir við þessa aðgerð stærri en mínusarnir?

Ég veit því miður ekki nógu mikið um þessi mál til að geta svarað þessum spurningum. Veit ekki einu sinni hvar maður ætti að byrja að leita sér upplýsinga til að svara svona spurningum, en þar sem þú, Vilhjálmur góður, virðist vera talglöggur maður og vita svoldið um þessi mál þá fylgist ég með bloggi þínu með mikilli athygli með von um svör við spurningum um efnahagsmál :-)

Ólafur Jens Sigurðsson (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 22:20

9 identicon

Ég held að uppboð á lánasöfnunum sé snjallræði. Þar færi það saman að hámarka það sem fyrir þau fæst, ásamt því að öllum væri ljóst hversu mikið væri afskrifað.

Reyndar er áhugavert að skoða hvar þeir standa sem hafa tekið lán hjá Sparisjóðunum, ef litið er til þessara hugmynda varðandi afskriftir. Þar er töluverður hópur, enda var SPRON til dæmis í sérstöku samstarfi við ÍBS.

Þá hefur eitthvað borið á tali um það hvort það væri almennt sanngjarnt að afskrifa hluta skulda, með þessum hætti. Þá má bæði benda á að fjármagnseigendum var komið til bjargar varðandi peningamarkaðssjóði og að það er öllum til bóta ef hægt er að lámarka fjölda gjaldþrota einstaklinga og fyrirtækja. Það eru þarna ákveðin gáruáhrif og því er það hagur allra að gárurnar verði sem allra minnstar.

Þess utan er ljóst að það verður aldrei hægt að mæla fyrir leið sem er, með beinum hætti, sanngjörn fyrir alla aðila. Að reyna það er ákskrift á aðgerðarleysi. Það þarf hins vegar að skoða aðgerðir sem koma sem allra flestum til góða og hafa sem mest ruðningsáhrif. Þannig jafnast afleiðingarnar út og kröfunni um sanngirni er sem best mætt.

Jónas Antonsson (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 23:52

10 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Jónas, Sigmundur Davíð framsóknarformaður sagði í útvarpinu áðan, og hafði eftir hagfræðiráðunaut sínum, að óvenjuleg vandamál krefðust óvenjulegra lausna, og það er nokkuð til í því.  Það er alveg hugsanlegt að skuldaniðurskrift sé vinnandi vegur.  Hún hefur ýmsa galla en það er engin gallalaus leið í stöðunni.  Og ekki má gleyma því að það er líka hagur þeirra skuldlausu að skuldararnir hafi það ekki of skítt, bæði með ýmsum áþreifanlegum hætti (t.d. fasteignaverð, atvinnustig, skatttekjur) og óáþreifanlegum (órói, reiði, upplausn í samfélaginu).

En lykillinn að þessu er að "materíalísera" afskriftina með einhverjum hætti sem gengur þokkalega upp stærðfræðilega.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 25.2.2009 kl. 00:09

11 identicon

Sammála. Óvenjuleg vandamál krefjast svo sannarlega óvenjulegra lausna og það má ekki þrengja sjónsviðið og slá umræðu út af borðinu með þeim "rökum" einum að eitthvað sé bara ekki hægt eða hafi aldrei verið gert (eða örðum fullyrðingum).

Þess vegna tek ég undir það, að það á að ræða niðurskrift skulda af fullri alvöru og þá sérstaklega í ljósi þess hve mikil gáran verður ef og stór hópur skuldara fer að hafa það of skítt, eins og þú orðar það.

Það eru tvö lykilatriði og þú nefnir þau bæði. Annars vegar verður að gæta að því að engin leið í stöðunni er án einhverra ágalla og við því verður ekkert gert. En hér gildir þetta gamla, að aðgerðir eru þó betri en aðgerðaleysi - enda höfum við undanfarið séð nóg af afleiðingum þess að gera ekkert.

Hitt lykilatriðið er einmitt að fá hlutina til þess að ganga upp þegar kemur að tölunum. Þá hygg ég að það þurfi að horfa á alla þætti jöfnunnar - líka afleiðingar þess ef ákveðið verður að fara sömu leið og gert var í kreppunni miklu þegar afskrift skulda var mest megnis knúin fram með gjaldþrotum og eignaupptöku. Það er ekki ódýr leið.

Jónas Antonsson (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 00:22

12 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Á grundvelli þessara pælinga er komin ný bloggfærsla með uppstilltu dæmi um hvernig þetta gæti litið út.  Vona að það hjálpi til að greina, skilja og gagnrýna þessar niðurfærsluhugmyndir.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 25.2.2009 kl. 00:52

13 identicon

Þessi patentlausn framsóknarmanna er stórhættuleg, rétt einsog flest annað sem kemur frá þeim gerspillta flokki. Helga Sigrún reynir að afneita 90% kosningatékka flokksins, sem hleypti húsnæðisbólunni af stað með skelfilegum afleiðingum. Það vita allir. Ríkisstjórn framsóknar og íhaldsins var búin að ákveða að taka upp 90% lán þegar bankarnir ákváðu að vera á undan og bjóða uppá það sama. Það breytir því ekki að það voru framsóknarmenn sem hófu þennan málflutning í loforðaflaumi sínum fyrir kosningarnar 2003. Líklega dýrasta kosningaloforð Íslandssögunnar.

 Varðandi "niðurfellingu" 20% skulda, þá er hún náttúrlega alveg galin. Hljómar auðvitað vel fyrir velflesta landsmenn, því flestir skulda jú eitthvað og eru auðvitað tilbúnir að fá afslátt. En þeir hafa ekki sagt með neinum sannfærandi hætti hver á að borga, ekki frekar en þeir reiknuðu dæmið til enda með 90% lánin á sínum tíma. Nú hefur hver hagfræðingurinn komið fram á eftir öðrum og sagt að þetta gangi ekki upp, kosti 300-400 milljarða, einsog það sé á bætandi í núverandi skuldastöðu...! 

Semsagt, enn einn kosningatékki framsóknarmanna, en vonandi sjá landsmenn í gegnum þetta núna og kaupa ekki köttinn í sekknum. Reynslan kennir okkur reyndar að líklega munu nógu margir láta blekkjast og framsóknarmenn komast í ríkisstjórn einu sinni enn, óverðskuldað og með óhemjukostnað fyrir okkur öll...

Evreka (IP-tala skráð) 26.2.2009 kl. 01:13

14 Smámynd: Vilhjálmur Þorsteinsson

Evreka, þú ert að gefa þér hluti umfram tilefni.  Mæli með því að þú lesir tillögur framsóknarmanna og bloggfærslurnar mínar til að skilja betur um hvað þessar hugmyndir snúast þannig að þú getir gagnrýnt þær á réttum forsendum.  Lánin sem um ræðir verða (flest hver) niðurskrifuð í þrotabúum gömlu bankanna, á kostnað lánardrottna, áður en þau verða flutt í nýju bankana.  Tillögur Framsóknar snúa að því hvernig farið verður með þessa afskrift í innheimtu gagnvart skuldurunum.  Þar kann að vera tækifæri til að hámarka heimtur með því að rukka minna en 100% vegna þess að afleiddur skaði á hagkerfinu verði minni með því móti.  Þetta er vel umræðanlegt og umdeilanlegt mál á eigin forsendum.

Vilhjálmur Þorsteinsson, 26.2.2009 kl. 22:04

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband