18.11.2008 | 00:43
Hugmyndir Vilmundar eru ennþá ferskar og róttækar
Laugardaginn 15. nóv. sl. hélt ég fyrirlestur á fundi í Iðnó, um það hvort hugmyndir Vilmundar Gylfasonar heitins ættu erindi í umræðuna í dag.
Vilmundur sá glögglega brestina í flokkakerfinu og í því hvernig fólk er valið til ábyrgðar. Hann setti fram róttækar tillögur til breytinga á grunni stjórnskipunarinnar.
Í fyrsta lagi vildi Vilmundur og flokkur hans, Bandalag jafnaðarmanna, boða til sérstaks stjórnlagaþings sem ætlað var að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins og færa hana til nútímahorfs. Til þessa þings yrði kosið í sérstökum kosningum, enda eru starfandi stjórnmálamenn ekki rétta fólkið til að ákveða sjálfu sér ramma.
Í öðru lagi lagði Vilmundur til að kjördæmaskipting yrði afnumin og að kosið yrði til Alþingis í einu kjördæmi. Með því væri dregið úr gæslu sérhagsmuna á kostnað heildarhagsmuna, og hugsunarhætti um hlutverk alþingismanna breytt, þannig að þeir væru til þess kosnir að setja landinu rammalöggjöf en ekki að ganga erinda sinna kjósenda sérstaklega.
Í þriðja lagi setti Vilmundur fram nýstárlegar hugmyndir um breyttan kjörseðil þar sem kjósendum væri heimilt að deila atkvæði sínu á einstaklinga óháð framboðslistum ef þeir óskuðu. Prófkjör og kosningar færu þá fram samtímis. Þessi hugmynd ein og sér myndi gerbreyta því á hvaða forsendum einstaklingar byðu sig fram til þings, og draga verulega úr valdi flokkanna.
Í fjórða lagi vildi Vilmundur kjósa forsætisráðherra beinni kosningu, samhliða en óháð kjöri til þings. Forsætisráðherra myndi svo velja með sér ráðuneyti, og yrði í því að hafa í huga að stjórn hans nyti nægjanlegs fylgis á Alþingi. Kjósendur væru þannig að velja þann framkvæmdastjóra og ráðuneyti sem þeir treystu best, en létu ekki flokkunum og Alþingi það eftir. Þetta er líkt því sem þekkist frá Bandaríkjunum.
Það er full ástæða til að rifja upp þessar aldarfjórðungs gömlu hugmyndir, því þær taka á ýmsum helstu og dýpstu rótum þess vanda sem við er að etja á Íslandi um þessar mundir.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.11.2010 kl. 11:15 | Facebook
Athugasemdir
Ég sat byrjunina af þessum fundi en gafst upp á að sitja undir hræsninni sem rann þarna af öllu. Þið rædduð í fúlustu alvöru hvernig best væri að ná valdinu aftur til fólksins á þann hátt að fyrir hverjar 20 mínútur sem framsögumenn höfðu til umráða fengu þeir sem mættu 1-2 spurningar af 30-60 sekúndum. Þið ættuð að prófa að fara á alvöru borgarafund og sjá hvernig þaulæfðir pólitíkusar eru afklæddir af venjulegu fólki þegar það fær að tala. Þá myndu þið kannski fara að sjá að umræðustjórnmál er ekki eitthvað sem maður kemst að sé gott form í lokaðri nefnd heldur er það eitthvað sem ber að stunda sérstaklega á krepputímum.
Héðinn Björnsson, 18.11.2008 kl. 02:28
Er annars sammála um að hugmyndirnar Vilmundar væru góðar. Sérstaklega held ég að stjórnlagaþing væri sérlega vel til þess falið að koma í framkvæmd þeim góðu hugmyndum um betra samfélag sem fram koma um þessar mundir.
Héðinn Björnsson, 18.11.2008 kl. 02:31
Héðinn: Þú hefur þá (því miður?!) misst af mínu erindi. Form fundarins (sem ég ber enga ábyrgð á) var ósköp hefðbundið og dæmigert, með stuttum fyrirspurnum eftir hverja framsögu og svo 30-40 mínútna opnum umræðum í lokin.
Vilhjálmur Þorsteinsson, 18.11.2008 kl. 02:49
Þetta tek ég undir - nú er lag að draga okkur inn í nútíðina þó að þeir sem eiga mikið undir núverandi skipulagi séu dregnir argandi og gargandi. Við búum við úrelt skipulag frá þeim tíma sem þjóðin skiptist á milli sveitar og sjávar.
Halldóra Halldórsdóttir, 18.11.2008 kl. 10:22
Vilmundur var framsýnn hvað þetta varðar. Einu verð ég þó að vara við. Við eigum ekki að hafa eitt kjördæmi, þar sem við það munum við missa raddir þeirra sem eru utan SV-hornsins. Atkvæða munur er alls staðar í heiminum, þar sem eru listakosningar.
Ég hef verið talsmaður þess að hægt sé að kjósa einstaklinga þvert á lista. Nokkurs konar prófkjör í kosningunum sjálfum. Þetta er auðvelt í framkvæmd, ef við notuð rafrænar aðferðir við kosningarnar. Nú er í gangi vinna nefndar á vegum samgönguráðuneytisins um þetta mál. Notar hún m.a. greiningu mína á kröfum til kosninga, sem birtar voru í færslu á blogginum mín 1. mars 2007 (sjá hér).
Marinó G. Njálsson, 18.11.2008 kl. 12:40
Maður man mest eftir baráttu Vilmundar gegn spillingu og klíkuskap. Löglegt en siðlaust. Margar hugmyndir hans voru góðar og sú hugmynd að kjósa "fólk frekar en flokka" mun fá vaxandi hljómgrunn í kreppunni. Líka það að nota þjóðaratkvæðagreiðslu í stærstu málum (þó ég muni ekki hvort Vilmundur hafi talað fyrir því).
Marinó: Greining þín var byggð á Eistlandi, er það ekki þar sem allir fá rafræn skilríki gegnum bankana? Eitthvað svipað og hér stendur til á debetkortum. Eru skilríkin ekki frumskilyrði fyrir rafrænum kosningum? (Þá á ég við ef menn geta kosið á netinu, en ekki mætt á kjörstað og ýtt á hnapp í staðinn fyrir að setja X.)
Haraldur Hansson, 18.11.2008 kl. 17:37
Sæll og þakka þér fyrir þetta erindi sem þú fluttir á fundinum. Ég kom sérstaklega á fundin til að hlusta á þetta erindi þitt og var ekki fyrir vonbrigðum. Í þessari mjög svo flóknu kreppu, hefur maður verið að hugsa einmitt til þessara hugmynda Vilmundar. Það er sorglegra en tárum taki að sjá hvernig Alþingi hefur sett niður á þessum dögum, þegar máttleysi þess sem eftirlitsaðila með framkvæmdavaldinu er svo bersýnilega opinberað. Það er mjög líklegt að sterkt og öflugt þing sem tæki eftirlitshlutverk sitt með framkvæmdavaldinu alvarlega hefði komið í veg fyrir þetta skipbrot þjóðarinnar. Í öllu falli væri slíkt þing mjög virkt þessa daganna. Ég fagna því að þú skulir opna málið og vona að það fái umræðu bæði innan Samfylkingarinnar sem og í þjóðfélaginu. Ég hvet þig til að fara með þetta erindi víðar td á mótmælafundin hjá Herði Torfa eða á borgarafundinn hjá Gunnari.
Gunnar Örn Steingrímsson (IP-tala skráð) 18.11.2008 kl. 21:11
Haraldur, tilefni umfjöllunar minnar voru kosningarnar í Eistlandi. Skýrsla mín um rafrænar kosningar var vegna prófkjörs Samfylkingarfélagsins í Reykjavík haustið 2006 og kokm Eistlandi ekkert við. (Tek það fram að ég tengist Samfylkinginni ekkert.) Áhugi minn á rafrænum kosningum nær mun lengra aftur í tímann og ræði ég þetta oftar en einu sinni í pistlum á síðasta áratugi.
Greiningin er unnin upp úr eigin hugleiðingum, þekkingu minni á öryggismálum og fjölmörgum skjölum um rafræn kosningakerfi, sem m.a. eru notuð við kosningar í Bandaríkjunum. Rafrænar kosningar geta farið fram á kjörstað, en þær geta líka farið fram yfir rafræn samskiptakerfi. Fari þær yfir rafrænt samskiptakerfi (þ.e. internetið) er ekki þar með sagt að þær þurfi að byggja á rafrænum skilríkjum. Það sem skiptir máli er eitthvað sannvottunarkerfi, sem tryggir eins og kostur er að viðkomandi sé sá sem hann segist vera, en jafnframt að ekki sé hægt að rekja atkvæðið til þess sem það greiddi. Þetta er fullflókið til að fjalla um hér, en vonandi er ekki langt að bíða, að við notum rafræn kosningakerfi sem bjóða upp á meiri fjölbreytni í kosningareglum en núverandi fyrirkomulag gerir.
Marinó G. Njálsson, 18.11.2008 kl. 22:24
Þetta með að slá saman prófkjörum og (þing)kosningum er akkúrat það sem við gerum hér í Danmörku. Þar eru frambjóðendum raðað á listann eftir stafrófsröð og síðan getur kjósandinn gefið einhverjum einstaklingi atkvæði sitt, sem þá telst persónulegt atkvæði frambjóandans. Ef flokkurinn á að fá 5 þingmenn í kjördæminu, þá fara þeir inn, sem mest persónufylgi hafa. Alveg afbragð. En ekki getur hver sem er boðið sig fram á listanum, það gerir flokksstjórnin.
Varðandi það að gera Landið að einu kjördæmi. Það að einhverjir hreppapólitíkusar verði útundan, gerir ekki svo mikið til. En hugsum okkur, að einhver úr Raufinni bjóði sig fram í einmenningskjördominu Ísland, þá gæti hann átt stuðning vísa frá NþÞingeyingum almennt og þeir hljóta að vera fjölmennir. Við eigum ekki að hika við að fara út í þessar breytingar
Sigurður Oddgeirsson, 18.11.2008 kl. 23:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.