Færsluflokkur: Menning og listir

Nýtt portrett

Hér er nýjasta portrettið mitt.  Það er 60x40 cm, olía á léreft.  Að mínu mati er svolítið eftirkreppuleg úð í þessu, allavega er það hugmyndin...

Portrett

Ef þú ert ein(n) af þeim fjölmörgu sem finnst full ástæða til að fá portrett-amatör á stjórnlagaþing, þá er þér velkomið að kíkja á Framboð Vilhjálms Þorsteinssonar til stjórnlagaþings.


Hlín

Hlín

Nýjasta portrettið, ekki endanlegt, smá snurfus eftir.  Olía á striga, 60 x 40 cm.

Getraun fyrir listhneigða lesendur: til hvaða fyrirmynda(r) er hér verið að vísa?


Katla - endanlegt portrett

Fyrir tæpu ári síðan bloggaði ég um tilurð portrettmálverks af Kötlu fyrrum bekkjarsystur minni í Myndlistaskólanum í Reykjavík.

Ég átti alltaf eftir að klára myndina endanlega, en hafði m.a. kreppuna sem (lélega) afsökun.

Um daginn dreif ég mig í að ljúka henni enda ekki seinna vænna, viðfangsefnið átti afmæli 20. janúar sl. og það voru síðustu forvöð.  Það átti eftir að vinna í ýmsum smáatriðum, m.a. munni, augum og kjálka.

Hér er svo myndin:

Endanleg endanleg mynd

(Olía á striga, 55 x 50 cm.  Sumir vefráparar sýna litina of sterka, þeir eru tiltölulega dempaðir.)

Fleiri portrett má sjá hér.


Portrett verður til

Í nokkur ár hef ég haft portrettmálun sem áhugamál, og finnst hún mjög skemmtilegt og krefjandi viðfangsefni.  Lengi hefur staðið til að setja inn á bloggið dæmi um það hvernig portrettmálverk verður til, og nú er komið að því.

Nýlega var ég svo heppinn að fyrrum bekkjarsystir mín í Myndlistaskólanum í Reykjavík, Katla, bauð sig fram í að sitja fyrir portretti.  Ég tók af henni ljósmynd og hún hefur komið nokkrum sinnum í heimsókn þannig að ég geti unnið að nokkru leyti frá lifandi fyrirsætu.  En þar sem svona portrett tekur marga tugi klukkustunda að mála þá er ekki annað hægt en að styðjast að miklu leyti við ljósmynd.  Myndin af Kötlu er núna nánast tilbúin eftir tæplega þriggja mánaða meðgöngu, og hér er ferlið rakið.  Þetta er olía á léreft, 55 x 50 cm.

Fyrst er andlitið teiknað upp gróflega með blýanti á léreftið, og svo úðað með festilakki (fixatífi).

Teikning

Þá kemur fyrsta umferð af málningu.  Í þetta skiptið gerði ég fjólublátt/hvítt undirlag, sem mér fannst henta sem grunnur undir húðlitinn.  Undirlagið má vera frekar gróft þar sem málað verður yfir það mörgum sinnum.

Undirlag

Þá er það fyrsta litalagið, þar sem húðliturinn byrjar að koma fram.  Má gjarnan vera ýkt, því litirnir munu dempast á seinni stigum en samt skína í gegn um yfirlögin.

Fyrsta litalag

Eins og sjá má er munnurinn alltaf vandamál í portretti!  Nú var kominn tími á að setja inn bakgrunnslit, þykkja húðlitinn og vinna í smáatriðum.  Myndirnar lifna alltaf verulega við þegar glampinn er settur í augun, eins og sjá má.

Bakgrunnur og annað litalag

Mér fannst þessi bakgrunnur of yfirþyrmandi og Katla var sammála mér.  Hérna má sjá að ég reyni að halda jöðrum andlitsins ekki alveg hnífskörpum, það á ekki að vera eins og það sé klippt út úr pappír.

Endanleg mynd

Nýr, miklu kaldari bakgrunnur kemur mun betur út.  Mikið þurfti að fikta við munninn uns hann gekk upp.  Að öðru leyti er búið að setja fleiri gegnsæ litalög á húðina til að gefa henni annars vegar hlýrri (appelsínugulari) og hins vegar kaldari (blárri) tóna eftir því hvernig ljós og skuggi falla á hana.

Nú er aðeins ein seta eftir með módelinu þar sem smáatriði verða löguð frekar til. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband