Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
7.1.2009 | 21:45
Einhliða upptaka annars gjaldmiðils er óraunhæf
Ég er sammála 32 hagfræðingum sem áttu grein í Morgunblaðinu í dag um einhliða upptöku annars gjaldmiðils (þá einkum evru). Þegar málið er skoðað ofan í kjölinn, er sú leið klárlega óraunhæf.
5.1.2009 | 15:10
Siðfræði mótmæla
Ég var einu sinni sem oftar á Austurvelli á laugardaginn og tók þátt í mótmælafundi. Þar kristallaðist umræða sem einnig hefur geisað í bloggheimum, um siðfræði og áherslur í mótmælum og aðgerðum. Má segja að fulltrúar pólanna þar hafi verið Hörður Torfason, Einar Már Guðmundsson og anarkistar með dulin andlit.
Hörður hefur staðið í mannréttindabaráttu í 40 ár og þekkir af reynslu hvað skilar árangri og hvað ekki. Hann telur það fari best á því að fólk komi fram af djörfung og notfæri sér lýðræðislegan rétt til friðsamlegra mótmæla. Sigur muni vinnast með því að höfða til fjöldans, hamra á málefnalegum lykilkröfum og ná fram hugarfarsbreytingu. Má segja að þetta sé í anda betri leiðtoga mannsandans á borð við Mahatma Gandhi, Martin Luther King og Nelson Mandela.
Einar Már Guðmundsson er að mínu mati fulltrúi þeirra sem stjórnast fyrst og fremst af blindri reiði og vaða fram í þokukenndum blammeringum (reyndar vel orðuðum eins og atvinnuskáldi er lagið). Allir - stjórnmálamenn, embættismenn, fólk í atvinnulífi - eru meira og minna glæpamenn og pakk. Fullyrðingum á borð við að hver Íslendingur skuldi 20 milljónir er slengt fram (hvaðan kemur sú tala? Icesave er talið vera 500 þúsund á kjaft). Óhikað er gripið til málfunda-mælskuvopna á borð við ad hominem - ef þú getur ekki svarað rökum beinirðu spjótum að málflytjandanum. Engin tilraun er gerð til að greina ábyrgð - pólitíska, embættislega, refsiréttarlega - heldur eitt látið yfir alla ganga með aðferðum múgæsingamannsins (demagógsins). Að höfða til lægri kennda: reiði, hefnigirni, svart/hvítra einfaldana - kann að vera ódýrt og freistandi fyrir þann sem langar að slá í gegn á fjöldafundum, en er ekki það sem okkur vantar í dag.
Um hina andlitslausu "róttæku mótmælendur"/anarkista þarf ekki að hafa mörg orð, þeir fyrirlíta lýðræði og stofnanir samfélagsins sem slíkar, og sjá það sem "nauðsyn" að skemma eignir, meiða saklausa eða hindra lýðræðislega umræðu. Rökstuðningur þeirra, ef rök skyldi kalla, eru rök ofbeldissinna og skemmdarvarga hvarvetna: tilgangurinn helgar meðalið, og "hinir" eru svo ljótir og vondir, að "okkur" leyfist hvað sem er. Það er verulegur ábyrgðarhluti að gefa þessum sjónarmiðum undir fótinn í andrúmslofti dagsins í dag, og ég leyfi mér að vona að hugsandi fólk, rithöfundar, ofurbloggarar og aðrir, geri það ekki að óathuguðu máli.
Verkefnið liggur nokkuð ljóst fyrir. Embættismenn í Seðlabanka, Fjármálaeftirliti og annars staðar verður að skipta um, enda eru þeir búnir að sanna eins rækilega og sannað verður að þeir eru óhæfir. Pólitískt uppgjör þarf að fara fram í kosningum jafnskjótt og ráðrúm hefur gefist til að undirbúa ný framboð og til endurnýjunar innan flokkanna. Óháðar og ítarlegar rannsóknir þurfa að fara fram á hugsanlegum lögbrotum í aðdraganda hrunsins. Síðan þarf að byggja upp aftur öflugt og sjálfbært atvinnulíf á nýjum forsendum. En æsingamenn, og tala nú ekki um ofbeldismenn, eru fremur hluti af vandamálinu en lausninni.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 6.1.2009 kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (44)
1.1.2009 | 22:23
Gleðilegt bloggár 2009; 2008 rifjað upp
Óska lesendum gleðilegs nýs árs, og þakka góð og jákvæð viðbrögð á liðnu ári.
Hér að neðan fer samantekt á bloggárinu 2008, með lykilsetningum úr ýmsum færslum ársins á þessu bloggi.
- 7. janúar: Þá er ekki nema von að spurt sé: af hverju fóru [lífeyrissjóðirnir] ekki af krafti yfir í verðtryggð skuldabréf t.d. á síðasta ársfjórðungi 2007?
- 21. janúar: Hins vegar er orðið verulega nauðsynlegt að huga að öðru markmiði [Seðlabankans], sem er stöðugleiki fjármálakerfisins.
- 4. febrúar: Lengi hefur staðið til að setja inn á bloggið dæmi um það hvernig portrettmálverk verður til, og nú er komið að því.
- 10. febrúar: Þegar horft er fram á fjármálakreppu, lokaða fjármögnunarmarkaði, frystingu útlána frá bönkum, og líkur á harðri lendingu krónunnar, myndi ég draga úr áherslu á hlutabréf hjá lífeyrissjóði, ef ég væri þar sjóðsstjóri.
- 20. febrúar: Þetta blogg getur ekki verið eftirbátur stórblaðsins [The New York Times] og lýsir hér með yfir stuðningi við Barack Obama í [embætti forseta BNA].
- 15. mars: Ég spái því að í stað krónu verði fiskibolludósir orðnar gjaldmiðill Íslendinga áður en árið er liðið.
- 31. mars: Fjárfestar myndu [við tilkynningu um ESB-þjóðaratkvæði] telja verulegar líkur á að krónum yrði í fyrirsjáanlegri framtíð skipt út fyrir evrur og að evrópski seðlabankinn tæki við sem lánveitandi til þrautavara fyrir íslenska banka.
- 15. apríl: Peningamarkaðssjóðir sem eiga fyrirtækjapappíra eru að mínu mati, og því miður, varhugaverðir.
- 12. maí: Hvernig gat nokkrum manni dottið í hug að láta Guðmund [í Byrginu] hafa peninga skattgreiðenda til að sinna viðkvæmu og brothættu fólki sem þurfti alvöru aðhlynningu og stuðning?
- 16. maí: Stærð bankakerfisins miðað við veikan Seðlabanka og smáan gjaldmiðil leiðir óhjákvæmilega til þess að "Íslandsálagið" er komið til að vera.
- 14. júlí: Fátt virðist geta forðað [General Motors] frá greiðslustöðvun og hinir bílaframleiðendurnir standa ekki mikið betur.
- 14. september: Aðalvandi íslenska hagkerfisins um þessar mundir er ekki verðbólga, eins og forsætisráðherra heldur fram, heldur þverrandi fjármálastöðugleiki.
- 20. september: Á Íslandi hefði gjarnan mátt vera virkari skortsölumarkaður þegar mesta ruglið gekk yfir á hlutabréfamarkaði, þegar FL Group nálgaðist gengið 30 svo dæmi sé tekið.
- 1. október: Sú fixídea íslenskra stjórnmálamanna sumra, að halda í krónuna af forpokuðum smákóngaástæðum, veldur okkur núna verulegum búsifjum, umfram þær sem annars hefðu orðið.
- 3. október: Í fyrradag tók ég í hönd sonar míns, sem verður 21 árs í nóvember, og bað hann afsökunar fyrir hönd minnar kynslóðar á því að við skilum af okkur gjaldþrota þjóðarbúi.
- 4. október: Tryggingarsjóður innlána virðist samt tæplega duga upp í nös á ketti ef einhver bankanna lendir í þroti.
- 6. október: Það sem vantar [í neyðaraðgerðir ríkisstjórnarinnar] er aðallega tvennt: að skýrt verði hvernig eigi að styðja við krónuna, og til lengri tíma, að undirbúa umsókn að ESB.
- 7. október: Ég spyr aftur: hversu lengi á [klúðurlisti Seðlabankans] að halda áfram að lengjast?
- 10. október: Núna verður [Davíð Oddsson] að sýna að unnt sé að endurræsa krónumarkaðinn, svo við getum þrjóskast áfram í þeirri samfélagstilraun að halda úti minnstu fljótandi mynt í heimi, af því að það er svo mikið sjálfstæði í því, eða eitthvað.
- 12. október: Krónunni var haldið of sterkri með hávaxtastefnunni, meðan gjaldeyrissjóði var ekki safnað til mótvægis.
- 14. október: Um þessar mundir gefst sjaldgæft tækifæri til að skipta út krónunni fyrir annan gjaldmiðil, vegna þess að óvenjulega fáar krónur eru í umferð.
- 17. október: Ef einhver (fjármálaráðherra?) hefði aulað [ákvörðunum varðandi innistæðutryggingar] rétt út úr sér við Darling og/eða Brown hefði mátt komast hjá vægast sagt afdrifaríkum misskilningi.
- 21. október: [Í] stað þess að skerða innistæður, sem væri svo óvinsæl aðgerð að hún er í reynd ófær, myndi Seðlabankanum vera skipað að "prenta peninga" og leggja inn í bankana til að unnt sé að láta fólk eiga jafnmargar krónur og það lagði inn.
- 28. október: Áfram mun þurfa að viðhalda hærri vöxtum í krónu en í nágrannalöndum til að halda krónum í landinu, enda mun taka mjög langan tíma að byggja aftur upp trúverðugleika krónunnar, ef það er þá yfirleitt mögulegt (sem ég held ekki).
- 30. október: Það verður að segjast, að íslensku bankastjórarnir og bankaeigendurnir voru rosalega vondir í að reka banka.
- 5. nóvember: Sundrungar- og mannfyrirlitningarstefnu George W. Bush hefur verið kastað á öskuhauga sögunnar.
- 6. nóvember: "Réttlæti heykvíslanna" er ekki gott réttlæti, og gerir aðeins illt verra.
- 11. nóvember: Segja má að bankarnir hafi mátt hafa sig alla við að koma hinu sívaxandi peningamagni í vinnu, sem hefur beinlínis kallað á aukna áhættusækni (gírun).
- 12. nóvember: Varðandi [hugsanlegt tap vegna innistæðutrygginga] þá kemur til greina að íslenska ríkið deili tapinu í einhverjum hlutföllum með öðrum ríkjum, og/eða endurgjaldi með hlutabréfum í nýju bönkunum.
- 15. nóvember: Batnandi mönnum er best að lifa, og vonandi kemst Sjálfstæðisflokkurinn að skynsamlegri niðurstöðu í Evrópumálum, þó verulega miklu fyrr hefði verið.
- 18. nóvember: Vilmundur [Gylfason] sá glögglega brestina í flokkakerfinu og í því hvernig fólk er valið til ábyrgðar.
- 30. nóvember: Flokkarnir hafa of mikil völd til að velja fólk inn á Alþingi, og margt af besta fólkinu nennir ekki að vinna sig í gegn um flokksapparötin.
- 1. desember: Loks hefur setning gjaldeyrislaganna og -reglnanna þau óhjákvæmilegu áhrif að hræða erlenda fjárfesta frá Íslandi til skamms og langs tíma.
- 7. desember: Verðbólgan er krónunni að kenna (og misheppnaðri peningamálastjórn Seðlabankans).
- 21. desember: Það er ekki endilega fólgið vald eða sjálfsvirðing í því að sitja einangraður úti í horni þegar fjölþjóðlegir og hnattrænir hagsmunir almennings eru í veði.
21.12.2008 | 13:57
Um fullveldishugtakið
Í Fréttablaðinu í gær, laugardag, var ágætis ritgerð um fullveldishugtakið eftir Eirík Bergmann Einarsson. "Fullveldi" er eitt af þeim orðum sem slengt er fram í umræðu án þess að djúp hugsun liggi endilega að baki, og er alveg tímabært að rýna nánar í.
Hugtakið á uppruna í orðræðu frá þeim tíma þegar sjálfstæð þjóðríki urðu til, og þegar lýðræði færði þjóðum vald til að stjórna eigin málum. Hjá Íslendingum tengist orðið að sjálfsögðu 1. desember 1918 þegar þjóðin fékk forræði yfir landstjórninni þótt undir Danakonung heyrði. Þaðan bergmála enn jákvæð hugrenningatengsl.
Á 90 árum hefur hins vegar afar margt breyst í heiminum. Fyrirtæki, viðskipti og staðlar teygja sig yfir landamæri, umhverfismál eru hnattræn, fólk flytur óhikað milli landa til starfs og náms, verkalýðs- og kjarabarátta er alþjóðlegri en nokkru sinni, hugverk streyma heimshorna á milli yfir netið, og svo mætti áfram telja. Segja má að æ fleiri viðfangsefni séu þess eðlis að einstök lönd fái litlu um þau ráðið í sínu horni. Jafnframt eru það öllum til hagsbóta að þeim sé stjórnað með samræmdum hætti, annars verður hætta á siðbresti (moral hazard) þar sem sá sem skorast undan getur haft af því verulegan hag.
Í þessu ljósi verður að skoða merkingu fullveldis í nútímanum. Það er ekki endilega fólgið vald eða sjálfsvirðing í því að sitja einangraður úti í horni þegar fjölþjóðlegir og hnattrænir hagsmunir almennings eru í veði. Fullveldi getur alveg eins falist í því að eiga rödd og taka þátt í þróun stjórnmála frá áherslu á þjóðríki til áherslu á samþjóðleg viðfangsefni.
Sjálfur er ég svo mikill alþjóðasinni, og svo tortrygginn á þjóðríkis/þjóðernisáherslur (sbr. ógeðfelldar upphrópanir um "landráð"), að mér finnst þetta augljóst, en greinilega er ekki öllum þannig farið. Umræðan hefur verið of slagorðakennd, en ein leið út úr því er að skoða betur þýðingu orða á borð við "fullveldi".
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.12.2008 kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
10.12.2008 | 01:35
Komma skiptir máli
Úr 1. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál:
Nú mega löglærðir lesendur spreyta sig á að skýra fyrir mér hvort þetta þýðir:
eða á hinn bóginn:
Eins og menn sjá, skiptir kommusetningin öllu máli um merkinguna.
Ef komman er rétt á fyrri staðnum, geta fyrirtæki á borð við CCP fengið inn erlenda fjárfestingu með alþjóðlegu hlutafjárútboði, þrátt fyrir gjaldeyrishömlurnar. Ef hún er rétt á þeim seinni, er ekki um það að ræða. (Erlend fjárfesting önnur en "bein fjárfesting" er nefnilega, merkilegt nokk, óheimil.)
Hver segir að lögfræði þurfi að vera leiðinleg?
7.12.2008 | 14:24
Verðtryggingin er blóraböggull
Um þessar mundir fer mikil umræðuorka í að deila á verðtrygginguna. Að mínu mati eru menn þar á villigötum.
Hið raunverulega vandamál er krónan; verðtryggingin er sjúkdómseinkenni en ekki sjúkdómurinn sjálfur.
Það er einföld Hagfræði 101 að enginn lánar peninga, ótilneyddur, nema sjá fram á að fá þá til baka. Með það í huga má líta á valkostina í stöðunni.
- Lán geta verið óverðtryggð með breytilegum vöxtum. Þá fylgja vextir stýrivöxtum Seðlabankans hverju sinni, með álagi. Á slíkum lánum væru vextir í dag á bilinu 22-24%. Mánaðarleg vaxtabyrði af 15 mkr húsnæðisláni væri sirka 300 þúsund, plús afborgun af höfuðstól, þannig að greiðslubyrði væri vel á fjórða hundrað þúsunda. Ég held að fáir myndu vilja þá stöðu í stað þeirrar sem nú er uppi.
- Lán geta verið óverðtryggð með föstum vöxtum, en þeir vextir yrðu mjög háir vegna verðbólguáhættu. Fastir vextir af 10 ára ríkisbréfum hafa lengst af verið í kring um 11% og því má ætla að fastir vextir af húsnæðislánum væru a.m.k. 15-17%, í gegn um þykkt og þunnt, og enn hærri af lengri lánum, enda áhættan meiri. Markaðsvirði (mark-to-market) þessara lána yrði mjög sveiflukennt og því erfitt að lána hátt hlutfall af matsverði fasteignar.
- Og loks geta lán verið verðtryggð með jafngreiðslufyrirkomulagi (annuitet) eins og íslensk húsnæðislán eru yfirleitt. Raunvextir eru fastir til langs tíma og eins lágir og þeir geta orðið, þar sem áhætta lánveitandans er minnst og áhættuálag því lægst. Greiðslubyrði er jöfn, miklu jafnari en af lánum með breytilegum vöxtum. Verðtryggingin innifelur vörn gegn gengisáhættu og því eru erlendir fjárfestar tilbúnari að leggja fé í þessi bréf, enda eiga þeir vænan hluta af þeim 625 milljörðum sem Íbúðalánasjóður skuldar í verðtryggðum bréfum. Ég fullyrði að þetta fyrirkomulag er það langbesta sem í boði er, ef haldið er í krónuna á annað borð.
Að þessu sögðu, blasir við að verðbólgan er mörgum mjög erfið um þessar mundir. En verðbólgan er krónunni að kenna (og misheppnaðri peningamálastjórn Seðlabankans). Krónan er örmynt sem hoppar og skoppar eftir straumum hins alþjóðlega fjármálamarkaðar. Því mun alltaf fylgja aukaáhætta að eiga eða skulda krónur og þar af leiðandi hærri vextir en í öðrum myntum. Verðtrygging verður áfram nauðsynleg til þess að nokkur fáist til að lána krónur til langs tíma. Þetta er (því miður) óumflýjanleg staðreynd.
Lausnin er ekki að afnema verðtrygginguna, heldur krónuna.
4.12.2008 | 12:31
Nýjustu vendingar í gjaldeyrismálum
Ég fór og hitti aðstoðarmann viðskiptaráðherra, tvo lögfræðinga úr ráðuneytinu og fulltrúa Seðlabankans á fundi síðdegis sl. þriðjudag (2. des.). Þar voru gjaldeyrislögin og -reglurnar til umræðu og sérstaklega hvernig þær snerti sprotafyrirtæki með erlenda fjárfesta og fyrirtæki með alþjóðlega starfsemi.
Í stuttu máli er það lögskýring ráðuneytisins að svokölluð "bein fjárfesting" útlendinga á Íslandi sé leyfð í upphaflegu gjaldeyrislögunum frá 1992 og sé ekki bönnuð aftur í nýju lögunum, þannig að reglurnar taki ekki til hennar. Hins vegar er eftir sem áður ljóst skv. 5. mgr. 1. gr. Seðlabankareglnanna, að útlendingar geta ekki skipt krónum sem þeir fá fyrir sölu beinnar fjárfestingar hér, aftur yfir í erlendan gjaldeyri. "Bein fjárfesting" telur ráðuneytið merkja kaup á eignarhlut þannig að kaupandinn eigi a.m.k. 10% hlut eftir þau.
Lögmaður Verne Holdings mun senda ráðuneytinu og Seðlabankanum bréf með spurningum og óskum um skýringar, sem ég hef góð orð um að verði svarað fljótt og vel.
Nýjar og ítarlegri spurningar og svör en hin fyrri varðandi þessi mál er að finna á vef Seðlabankans.
Enn er mikil óvissa um lagatúlkun, merkingu og framkvæmd reglnanna, og um áhrif þeirra á erlenda fjárfesta, sem eru vitaskuld ekki spenntir fyrir að koma inn með peninga nema ljóst sé að þeir komist út með þá aftur. Að mínu mati þarf viðskiptaráðherra að vinna áfram í málinu til að lágmarka óæskileg hliðaráhrif hinna nýju reglna; þar er enginn "misskilningur" á ferð.
1.12.2008 | 23:19
Gjaldeyrisreglurnar: Lækningin verri en sjúkdómurinn?
Markmið nýrra gjaldeyrishafta er að halda uppi gengi krónunnar, og leiðin er sú að taka krónur erlendra fjárfesta í gíslingu. En eins og með flest höft, þá fylgja þeim verulegar ófyrirséðar afleiðingar, og það er engan veginn ljóst að lækningin sé skárri en sjúkdómurinn þegar upp er staðið.
Lítum á nokkur atriði.
- Reglur Seðlabankans banna erlenda fjárfestingu í hlutabréfum og öðrum verðbréfum hérlendis. Þetta kyrkir ýmis nýsköpunar- og uppbyggingarverkefni sem voru þó á dagskrá (t.d. Verne Holdings) og torveldar okkar alþjóðlegu fyrirtækjum (t.d. Marel, CCP, Actavis, Össuri) að sækja sér fé til nýrrar útflutningssóknar.
- Reglur Seðlabankans banna fyrirtækjum að taka lán erlendis umfram 10 m.kr., nema vegna beinna vöru- og þjónustukaupa. Þetta kemur í veg fyrir endurfjármögnun skulda og einnig að fyrirtæki geti sótt erlent lánsfé til að greiða upp innlendar skuldir, sem myndi styrkja gengi krónunnar. Ef erlendir lánardrottnar vilja þrátt fyrir allt ennþá lána íslenskum fyrirtækjum gjaldeyri, hví þá að banna slíkt?
- Forsætisráðherra og formaður bankastjórnar Seðlabankans lýstu því yfir í upphafi kreppunnar að bankarnir væru að fara í þrot en ekki ríkissjóður; ríkið myndi standa við sínar skuldbindingar. Nú er verið að ganga á bak þessara orða með því að erlendir fjárfestar í ríkisbréfum, innistæðubréfum og skuldabréfum Íbúðalánasjóðs eru festir inni og ná ekki peningum sínum út. Frá þeirra sjónarhóli er ríkið að bregðast sem skuldari. Það hefur ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir lánstraust Íslands og lánshæfismat þess um langa framtíð.
- Loks hefur setning gjaldeyrislaganna og -reglnanna þau óhjákvæmilegu áhrif að hræða erlenda fjárfesta frá Íslandi til skamms og langs tíma. Landið getur ekki lengur gumað af stöðugu, opnu stjórnarfari og traustu fjármálaregluverki.
Í ljósi alls þessa sem hér er rakið, tel ég fulla ástæðu til að spyrja, hvort ekki hefði verið betra að (a) stefna strax inn í annan gjaldmiðil, og/eða (b) fleyta krónunni án hafta og láta markaðinn leysa vandann, en þó með hliðarráðstöfunum á borð við greiðsluaðlögunarvísitölu sem myndi jafna út verðbólgukúf á húsnæðislánum yfir 12-24 mánaða tímabil. Þrátt fyrir allt er ekki líklegt að evran haldist til lengdar í 250-300 krónum, því flæði vöruskipta og spákaupmennsku kæmu krónunni til hjálpar á slíkum slóðum.
Með þessu móti hefði orðið meiri skammtímasársauki, en til lengri tíma hefði orðspor okkar beðið minni hnekki, og möguleikar til nýrrar uppbyggingar orðið þeim mun meiri.
Það getur verið betra að rífa plásturinn af í einum rykk en að taka hann hægt.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 23:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.11.2008 | 02:04
Svona á kjörseðillinn að vera
Vilmundur Gylfason lagði til á sínum tíma að kjósendur fengju að velja flokkalista og/eða einstaka frambjóðendur í alþingiskosningum. Slíkt kosningafyrirkomulag hefur m.a. verið notað í breska samveldinu allt frá lokum 19. aldar. Hér er dæmi um kjörseðil úr kosningum til öldungadeildar ástralska þingsins. Kjósa má annað hvort lista í heild sinni, eða einstaka frambjóðendur með því að númera þá í töluröð, eins marga og kjósandinn vill - og þvert á flokka ef óskað er.
Nánar má lesa um kosningakerfið, "færanleg atkvæði", á Wikipediu. Takið eftir dálkinum lengst til hægri, "Ungrouped" - óflokksbundnir frambjóðendur sem treysta á einstaklingsatkvæði en ekki flokka.
Er þetta ekki akkúrat það sem við þurfum núna á Íslandi? Flokkarnir hafa of mikil völd til að velja fólk inn á Alþingi, og margt af besta fólkinu nennir ekki að vinna sig í gegn um flokksapparötin.
Þetta er alveg málið.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 02:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (26)
28.11.2008 | 17:06
Bann á erlenda fjárfestingu?
Fyrsta grein nýrrar reglugerðar Seðlabankans um gjaldeyrisviðskipti hefst svona:
Fjárfesting í verðbréfum, hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og fjárfestingarsjóða, peninga-markaðsskjölum eða öðrum framseljanlegum fjármálagerningum með erlendum gjaldeyri er óheimil.
Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að erlend fjárfesting sé þar með bönnuð í landinu.
Nú vill svo til að ég er stjórnarformaður í félaginu Verne Holdings hf. sem hyggst reisa gagnaver í Keflavík og hefur keypt tvö stór vöruhús í þeim tilgangi af Þróunarfélagi Keflavíkurflugvallar, fyrir miklar fjárhæðir. Í félaginu eru erlendir fjárfestar sem ætluðu að koma með verulegt magn dollara inn í landið sem hlutafé í Verne Holdings. Ef Seðlabankanum er alvara sé ég ekki betur en að menn geti pakkað saman og gleymt því verkefni, og nýja sæstrengnum Danice í leiðinni.
Er þetta það sem íslenskt efnahagslíf þarf á að halda um þessar mundir? Eða er þetta enn eitt dæmið um mistök Seðlabanka? Hvernig útskýrir maður svona rugl fyrir útlendingum?